Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 135

Jóna Lára ráðin skólastjóri Grunnskóla Önundarfjarðar

Jóna Lára Sveinbjörnsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri við Grunnskóla Önundarfjarðar og tekur við starfinu við upphaf næsta skólaárs þann 1. ágúst næstkomandi.

Jóna lauk stúdentsprófi frá Framhaldsskóla Vestfjarða árið 1998. Tímabilið 1998 til 2002 stundaði hún nám við Söngskóla Íslands og frá 2002 til 2006 við Kennaraháskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist með B.Ed. próf í grunnskólakennarafræðum.

Jóna er ekki alls ókunnug störfum við Grunnskóla Önundarfjarðar, þar sem hún hefur sinnt kennslu frá árinu 2018 sem umsjónarkennari á yngsta stigi og bekkjarkennari á mið- og unglingastigi. Þá hefur hún jafnframt sinnt hlutverki staðgengils skólastjóra við grunnskólann.

Jóna hefur yfirgripsmikla kennslureynslu en tímabilið 2013-2018 starfaði hún einnig við kennslu m.a. hjá Ulkebøl Skola, Ahlmann-skolen og í Dybbøl-skole í Danmörku sem aðstoðar- og umsjónarkennari.

Eiríkur Örn og Dagur evrópskra rithöfunda

Í tilefni af Degi evrópskra rithöfunda, 25. mars, stendur EWC – European Writers’ Council – fyrir upplestrum um álfuna alla.

Á Ísafirði er það Eiríkur Örn Norðdahl sem kemur fram á Bókasafninu í dag kl. 17:00 og les upp valin ljóð úr bókum sínum, lítur undir húddið og segir frá tilurð þeirra, ætlaðri virkni, inntaki og sköpulagi.

Eiríkur Örn Norðdahl hefur fengist við tilraunaljóðlist í ríflega 20 ár og gefið út á bilinu 8-10 ljóðabækur (eftir því hvernig maður telur og hvað). Á þessum tíma hefur hann verið reglulegur gestur á ljóða- og listahátíðum um víða veröld og hafa ljóð hans birst í þýðingu á tugum tungumála.

Auk ljóðabóka hefur Eiríkur gefið út safn ritgerða og fyrirlestra á ensku um tilraunaljóðlist og ljóðagerð – Booby, Be Quiet (Poesia, 2011) – og ýmis ljóðverk á netinu, að ónefndum skáldsögum, sem notið hafa vinsælda bæði hérlendis sem erlendis. Árið 2010 vann ljóðastuttmynd hans Höpöhöpö Böks til sérstakra verðlauna á Zebra Poetry Film Festival í Berlín og fyrir ljóðabókina Óratorrek hlaut hann Menningarverðlaun DV árið 2017.

Þá hefur hann þýtt ljóð af miklum móð í gegnum tíðina – meðal annars safn ljóða Allens Ginsberg, Maíkonungur, og Hvítsvítu eftir sænska skáldið Athenu Farrokhzad – og ritstýrt bókum um ljóðlist, þ.á m. Af ljóðum, Af steypu og norska ljóðasafninu Dikteren roper. Eiríkur Örn var einn af stofnmeðlimum ljóðasamlagsins Nýhil og stofnaði og stýrði Alþjóðlegu ljóðahátíðinni 2005-2006.

Ísafjörður: Halldór Smára og Sæunn Þorsteins með tónleika í Hömrum

Miðvikudaginn 27. mars munu Halldór Smárason og Sæunn Þorsteinsdóttir halda tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, undir yfirskriftinni Hvað nú?

Þau Halldór og Sæunn hafa unnið náið saman undanfarin ár, þar sem Sæunn hefur frumflutt fjölda verka eftir Halldór. Á þessum tónleikum skarast hlutverkin þar sem um er að ræða flæðandi spunatónleika hvar staður og stund hafa áhrif á sköpun og túlkun. Að öllum líkindum munu þó inn á milli heyrast verk og lög sem eru áheyrendum að góðu kunn.

Halldór Smárason píanóleikari og tónskáld er Ísfirðingur og er Vestfirðingum af góðu kunnur. Undanfarin ár hafa verk hans verið flutt af mörgum þekktum listamönnum og hópum og árið 2020 kom út hans fyrsta hljómplata, STARA, undir merkjum Sono Luminus. Halldór hefur í þrígang hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna.

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleikari starfar í Bandaríkjunum og hefur komið fram sem einleikari með mörgum af helstu sinfóníuhljómsveitum heims. Hún er ötull talsmaður nýrrar tónlistar og hefur unnið náið með fjölmörgum tónskáldum. Undanfarin ár hefur Sæunn komið að þátttöku og skipulagningu á tónlistarhátíðinni Við Djúpið á Ísafirði og hefur djúpstæða tengingu við staðinn. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og hlaut nýlega Íslensku tónlistarverðlaunin sem flytjandi ársins.
Ekki missa af einstakri tónlistaróvissuferð.

Tónleikarnir hefjast kl. 20, miðaverð er 3.000 kr. og fer miðasala fram við innganginn.
Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarfélagi Ísafjarðar.

Vestfirðir: fasteignagjöld viðmiðunarhúss hækka um 8,2% milli ára

Tafla úr skýrslu Byggðastofnunar um fasteignagjöld 2024.

Fasteignagjöld viðmiðunarhúss hafa hækkað á Vestfjörðum um 8,2% milli ára frá 2023 og er árshækkunin hvergi minni. Meðatalshækkun á landinu öllu er 12,7%. Mest er hækkunin á Suðurnsjum 21,3%.

Til fasteignagjalda eru talin fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald og vatnsgjald. Sorpgjald er ekki tekið með í útreikninginn að þessu sinni vegna mismunandi aðferða sveitarfélaga við álagninguna.

Það er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) sem reiknaði út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni í þéttbýli um allt land fyrir Byggðastofnun. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2.

Fasteignaskatturinn er veigamestur liðurinn í gjöldunum.

Heildarfasteignagjöld viðmiðunareignar árið 2024 eru hæst á matssvæðunum tveimur á Seltjarnarnesi, 609 þ.kr. á matssvæðinu Seltjarnarnes sem er svæðið vestan við Nesveg14 og 602 þ.kr. á matssvæðinu Brautir sem er nyrðri hluti Seltjarnarness. Á Selfossi eru heildarfasteignagjöld viðmiðunareignar 601 þ.kr. og á Egilsstöðum eru þau 589 þ.kr.

Hæst á Patreksfirði

Á Vestfjörðum eru fasteignagjöldin hæst á Patreksfirði 490-500 þúsund krónur. Næsthæst eru þau í Bolungavík 450-470 þúsund krónur. Ísafjörður, eldri byggð er í þriðja sæti þar sem gjöldin eru einnig 450 – 470 þúsund krónur og eilítið lægri í nýrri byggð 430 – 450 þúsund krónur. Á Tálknafirði og Bíldudal eru gjöldin á bilinu 390 – 410 þúsund krónur. Á Hólmavík eru þau 330 þúsund kr., Súðavík 289 þúsund kr.,Hnifsdalur 278 þú kr., Flateyri 229 þúsund kr., Þingeyri 215 þúsund krónur og lægst eru þau á Suðureyri 189 þúsund krónur.

Gallerí úthverfa: gímaldin -handritin brennd heim

30.3 – 14.4 2024

Laugardaginn 30. mars kl. 16 opnar gímaldin sýningu með blönduðu verki / viðburði  í Úthverfu á Ísafirði. Verkið ber heitið Handritin brennd heim og stendur til sunnudagsins 14. apríl.  

gímaldin hefur starfað sem sólóartisti með útúrdúrum í hljómsveitir og samstarf síðan snemma á 10. áratug síðustu aldar. Fyrsta kasetan (gímaldin) kom út árið 1997 og síðasta kasetan árið 2022. Þar á milli hafa komið út geisladiskar, ein vínylplata og býsnin öll af ýmisskonar netútgáfum. Tónlistin, í nokkurskonar tímaröð, telur, pönk og nýbylgju, trúbadúrisma, alt-tilraunamússikk, gítarrokk, hljómorðaundirspil, folk-rokk, alheimstónlist, blús, metal og neóklassíska píanótónlist.

Samhliða þessu hefur gímaldin látið til sín taka í vídeólist, gerði stuttmyndirnar Velkomin í Beinadal og Blúdní milli 2000 og 2003. Hann hefur gert kynstur af tónlistarvídeóum og heimildamyndina Og þá fór ég að hugsa árið 2023.

Verkið sem gímaldin setur upp í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space er blandað verk sem fjallar um uppgjör við þriðju listgreinina. Bundinn verður táknrænn endir á rithöfundadrauma listamannsins þar sem öllum hans óútgefnu ritverkum verður streymt inná public domain vettvang, og þar með endanlega lokað fyrir alla og hverskonar möguleika á því að búa til fjármuni eða feril úr skáldsögunum.

Inní þetta blandast hugleiðing um samband listarinnar og stafræningu (digitiseringu) hennar – þar sem slíkur gjörningur er nánast óhugsandi án þess að í honum komi gerfigreind einhversstaðar við sögu.

Ísafjarðarbær: semur við ríkið um móttöku flóttamanna

Frá Ísafjarðarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjarðarbær hefur gert samning við ríkið um samræda móttöku á flóttamönnum. Ísafjarðarbær tekur að sér að veita allt að 40 notendum í senn þjónustu og tekur sveitarfélagið við einstaklingum, fjölskyldum og pörum. Vinnumálastofnun vísar flóttamönnum til sveitarfélagsins. Samningurinn gildir frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2024 en fellur úr gildi 30. júní hafi ríkið ekki þá komið á fót starfshópi með það að markmiði að endurskoða samninginn um samræmda móttöku flóttafólks og koma með tillögu að nýjum samningi til framtíðar.

Markmið samningsins er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur.

Greiðslur með notanda til sveitarfélags hefjast frá og með lögheimilisskráningu viðkomandi í sveitarfélagið.

Greiðslur þjónustukaupa til þjónustusala fyrir verkefnið eru vegna stuðnings, aðstoðar og ráðgjafar til notanda af hálfu félagsþjónustu þjónustusala.

Andlát: Úlfar Ágústsson

Úlfar Ágútsson. Mynd: Ágúst Atlason.

Látinn er Úlfar Ágústsson Ísafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri á Ísafirði síðastliðinn föstudag.

Úlfar Snæfjörð Ágústsson fæddist á Hlíðarenda á Ísafirði 3. júlí 1940.

Foreldrar Úlfars voru Guðmundína Bjarnadóttir f. 16. maí 1911, d. 6. desember 1988 og Guðmundur Guðni Guðmundsson f. 22. maí 1912, d. 3. september 2008. Úlfar var ættleiddur af Ágústi Guðmundi Jörundssyni f. 6. nóvember 1906, d. 19. maí 1964. Systur Úlfars voru Sigríður Ágústsdóttir f. 19. desember 1934, d. 26. desember 2016 og Anna Jóna Ágústsdóttir f. 22. apríl 1943, d. 8. júlí 2019. Samfeðra átti Úlfar einn bróður Þórarinn Bjarka Guðmundsson f. 18. ágúst 1942.

Eiginkona Úlfars var Jósefína Guðrún Gísladóttir f. 24. janúar 1940 d. 22. janúar 2018. Þau gengu í hjónaband 13. febrúar 1960.

Foreldrar Jósefínu voru Gísli Elís Einarsson f. 22. júlí 1911, d. 26. september 1967 og Margrét Þórarinsdóttir f. 25. júní 1916, d. 29. apríl 1988. Systkini hennar voru Jóna Gréta Kinsley f 19. maí 1944, d. 2. janúar 2024 og Þórarinn Þorbergur Gíslason f. 9. maí 1947, d. 3. október 2010.

Börn Ínu og Úlfars eru 1) Gautur Ágúst, f. 2. nóvember 1961, d. 10. desember 1978, 2) Gísli Elís f. 4. mars 1969, eiginkona Ingibjörg Sólveig Guðmundsdóttir f. 24. maí 1971, börn þeirra eru Ína Guðrún f. 17. júlí 2000, Jóhanna Ósk f. 17. júlí 2000, Gautur Óli f. 15. janúar 2004 og Anna Margrét f. 13. september 2012, 3) Úlfur Þór f. 3. október 1974, eiginkona Anna Sigríður Ólafsdóttir f. 19. apríl 1975, börn þeirra eru Fróði Örn f. 5. maí 2007 og Hugi Hrafn f. 8. janúar 2014, 4) Axel Guðni f. 16. mars 1978, eiginkona Thelma Hinriksdóttir f. 25. október 1976, börn þeirra eru Ingibjörg f. 23. september 2001, Úlfar Snær f. 14. september 2009 og Agnar Hörður f. 28. júní 2016.

Úlfar Ágústsson var borinn og barnfæddur Ísfirðingur. Eftir að gagnfræðaskólagöngu lauk fór Úlfar til sjós og stundaði hann sjóinn fram til tvítugs en þá hóf hann störf sem verslunarmaður og var það hans aðalstarf ævina á enda. Verslunarstörfin hóf hann í verslun Jóns Bárðarsonar á Ísafirði og fann hann strax að þarna væri komið eitthvað sem ætti vel við hann. Þar starfaði hann í þrjú ár en hélt svo til Englands að læra ensku en eftir heimkomu bauðst honum starf í versluninni Neista þar sem hann gat sér góðan orðstír. Árið 1968 kaupir Úlfar svo í félagi við fleiri menn verslun Jóns Bárðarsonar sem stofnuðu í kjölfarið Hamraborg og þar má segja að framtíðin hafi verið ráðin. Þeir opnuðu þrjár verslanir í framhaldinu og voru fyrirferðarmestir í rekstrinum Úlfar og Heiðar Sigurðsson. Rekstrarskilyrði voru þó erfið á þessum árum og á endanum skiptu þeir upp rekstrinum og kom Hamraborg á Ísafirði í Úlfars hlut. Hann átti og rak verslunina að stóru leyti fram til ársins 2003 er synir hans Gísli og Úlfur keyptu reksturinn. Gísli, Úlfur og Axel byrjuðu allir að vinna í Hamraborg á unga aldri og má segja að þeir hafi verið aldir þar upp. Ína sem lengi vann á talsímanum fór í reksturinn með Úlfari árið 1977 og er óhætt að segja að þau hjónin hafi kennt ófáu ísfirsku ungmenninu að vinna. Þó synirnir hafi keypt meirihluta rekstursins og tekið við keflinu af föður sínum var Úlfar þó áfram meðeigandi og stjórnarformaður og vann hann í versluninni allt undir 2020 er heilsan leyfði ekki meir. Hamraborg stendur enn styrkum fótum í meðförum sonanna og er hún ein langlífasta verslun á Íslandi.

Þó Hamraborgin ein og sér geti talist ágætt ævistarf var hún alls ekki það eina sem Úlfar kom að á starfsævi sinni. Hann átti og rak Hótel Hamrabæ á níunda áratugnum en þar var hann mögulega aðeins á undan framtíðinni því ekki reyndist fótur fyrir rekstrinum. Einnig var hann umboðsmaður bæði Arnarflugs og Íslandsflugs á Ísafirði og setti hann á stofn ferðaskrifstofu sem seldi utanlandsferðir. Þó hann hafi verið orðinn nokkuð stálpaður þegar hann fór í sína fyrstu utanlandsför urðu ferðalög um allan heim engu að síður stór og gefandi hluti af lífi hans alla hans fullorðinstíð.

Úlfar var um 25 ára skeið fréttaritari Morgunblaðsins á Ísafirði auk þess sem hann var líka um tíma umboðsmaður þess á staðnum. Í fréttaritaratíð hans flutti hann ekki einvörðungu fréttir af Vestfjörðum heldur einnig utan úr heimi þar sem hann meðal annars skrifaði um krabbaveiðar við strendur Alaska og útgerð þeim tengda í Seattle. Auk þess að skrifa fyrir Morgunblaðið ritstýrði Úlfar líka og gaf út blaðið Vesturland um hríð. Þótt skólagangan hafi ekki verið löng þá var Úlfar einstaklega vel máli farinn og góður penni. Hann var líka sérlega vel tengdur og lét fátt sér óviðkomandi, því voru blaðamannsstörfin honum sem í blóð borin.

Samfélags- og menningarmál voru Úlfari alla tíð hugleikin og fékk heimabærinn Ísafjörður að njóta krafta hans á mögrum sviðum. Hann var um tíma formaður Tónlistarfélags Ísafjaðar, hann var félagi í Lions svo áratugum skipti og um tíma umdæmisstjóri hreyfingarinnar á Íslandi. Hann var einnig í frímúrarastúkunni Njálu þar sem hann var sæmdur heiðursmerki fyrir framlag sitt, hann var í JC hreyfingunni, lék með Litla leikklúbbnum á yngri árum og svo mætti áfram telja. Hann hélt glæsilegar bæjarhátíðir líkt og Ísafjarðarhátíðina og Siglingadaga og var þar hvergi slegið af í framkvæmd metnaðarfullra hugmynda hans. Stórhugur Úlfars birtist líka í hugmynd hans um kláfferju upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar, hugmynd sem enn lifir og verður vonandi að veruleika einn góðan veðurdag. Úlfar var pólitískur og var lengi virkur meðlimur í Sjálfstæðisflokknum. Hann sagði reyndar sjálfur í viðtali við Hlyn Þór Magnússon sem birtist í Bæjarins Besta árið 2015 um félagsmálabrölt sitt að hann hafi sennilega verið í flestum félögum nema kvenfélögunum – slíkur var áhuginn.

Úlfar og Ína kona hans voru aðsópsmikið tvíeyki sem lét til sín taka á Ísafirði og verður þeirra lengi minnst fyrir framlag sitt á hinum ýmsu sviðum.

Geirþjófsfjörður: heilsusetur skipulagt á Krosseyri

Krisseyri í Geirþjófsfirði. Mynd: Náttúrustofa Vestfjarða.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt deiliskipulag fyrir heilsusetur á eyðijörðinni Krosseyri í Geirþjófsfirði í Arnarfirði og fer það nú í auglýsingu. Jarðareigendur hafa hug á að nýta sér sérstöðu kyrrðar og friðsældar í þessu einangraða og sérstaka umhverfi. og reisa á jörðinni heilsusetur, þar sem fólk getur komist frá því ysi og þysi sem er í nútímasamfélagi. Geirþjófsfjörður er ekki í vegasambandi en hægt er að komast í Trostansfjörð, sem er næsti fjörður við Geirþjófsfjörð. Ofan af veginum á Dynjandisheiði má sjá í Geirþjófsfjörð og ganga þaðan niður.

Krosseyri fór í eyði árið 1945 en var lengi nytjuð frá Bíldudal.

Deiliskipulagssvæðið er um 4.2 ha að stærð og er staðsett á Krosseyri við Geirþjófsfjörð og upp hlíðina frá henni. Á jörðinni er skráð 77,4 fm íbúðarhús byggt 1936.

Innan byggngarreits nr 1 er heimilt að stækka húsið,sem þar er, þannig að það verði allt að 200 fm. Á reitnum er einnig heimilt að reisa allt að 50 fm geymslu.

Á byggingareit nr. 2, sem er um 1000 fm að stærð, er heimilt að reisa allt að 200 fm hús, sem fyrst og fremst er til ferðaþjónustu. Á byggingareit nr. 3, sem er um 20.000 fm að stærð, er heimilt að reisa allt að 4 litla (< 20 fm) gistikofa (einingar) Á byggingareit nr. 4, sem er um 23.500 fm að stærð, er heimilt að reisa tvö frístundahús sem mega vera allt að 120 fermetrar hvort. Byggingareitir nr. 5 og 6, eru um 300 fm hvor að stærð. Á þeim er heimilt að reisa allt að 50 fm bátaskýli.

 Fyrir liggja umsagnir frá Umhverfisstofnun, Minjastofnun, Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og Náttúrfræðistofnun Íslands sem og fornleifaskráning fyrir svæðið.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að deiliskipulagið boði mikla uppbyggingu á Krosseyri sem muni raska gróðri, ásamt því að hafa varanleg áhrif á ásýnd svæðisins og landslag þar sem eyrin er vel sýnileg frá mörgum stöðum við Suðurfirði. Náttúrufræðistofnun gerir ekki frekari athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi fyrir Krosseyri en áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum á síðari stigum málsins gerist þörf á því.

Krosseyri.

Geirþjófsfjörður í Arnarfirði.

Tungusilungur: endurnýjun á 200 tonna leyfi til landeldis

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að endurnýjun á rekstrarleyfi Tungusilungs ehf. vegna fiskeldis á landi við Tálknafjörð. Um er að ræða endurnýjun á rekstrarleyfi án breytinga þar sem hámarkslífmassi miðast við 200 tonn af bleikju og regnbogasilungi. Mun nýja leyfið gilda í 16 ár eða til 2040.

Leyfið gildir um landeldi á þremur stöðum í Tálknafirði, á Þórsberg, Mjóparti og Keldeyri við Tálkafjörð.

Gildistaka rekstrarleyfis er háð úttekt Matvælastofnunar og liggur dagsetning ekki fyrir. Gildistaka rekstrarleyfis fiskeldisstöðva á landi er háð því skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur.

Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 19. apríl 2024.

Tungusilungur er rótgróið fjölskyldufyrirtæki og eitt elsta fiskeldisfyrirtæki landsins. Fyrirtækið framleiðir hágæða sælkeravörur á borð við birkireyktan regnbogasilung, reykta og grafna bleikju, ferska bleikju, ferskan silung og silungapaté.

Galdrafár – Fornnorræn listahátíð á Hólmavík þann 19.-21. apríl

Galdrafár leggur þorpið undir sig með samblöndu af galdra- og víkingahátíð. Að baki hátíðarinnar stendur listamannahópur sem sérhæfir sig í fornnorrænni þekkingu og deilir með okkur skemmtun og fræðslu á því sviði.

Víkingafélagið Rimmugýgur setur upp víkingaþorp á galdratúninu þar sem hægt verður að fylgjast með handverksvinnustofum og húðflúrun, kíkja á sölubása og jafnvel taka þátt í þrautum, bardögum og barnaskemmtun.

Fyrirlestrar verða haldnir um völur og seið, sögu flúra í fornri Evrópu, leðurvinnu á miðöldum, mikilvægi fornra þjóðdansa í nútímamenningu, myndun fóstbræðralaga í Íslendingasögum, íslenska jurtagaldra, huldufólk og margt fleira.

Galdrafárið heldur tónleika og þessi bönd spila:

– Kælan mikla

– Vévaki

– Umbra

– Taranau

– Svartþoka

– NYIÞ

– Wolfenmond

– Mondernte

– Krauka

Að sjálfsögðu verður tendrað í brennu og blótað að fornum sið með tilheyrandi söng og dans.

https://www.sorceryfestival.is/

Nýjustu fréttir