Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 134

Nemendur Háskólaseturs Vestfjarða heimsóttu Bolungarvík

Nemendur Háskólaseturs Vestfjarða heimsóttu nýlega Jón Pál bæjarstjóra í Bolungarvík og var sú heimsókn hluti af námskeiðinu “Búferlaflutningar og íbúaþróun”.

Nemendurnir fengu að skoða sig um á bæjarskrifstofunni og kíktu yfir á Náttúrustofu Vestfjarða, Bláma og Rannsóknarsetur Háskóla Íslands í sömu byggingu.

Jón Páll kynnti átak sem kallast “Bolungarvík 1000+” sem snýr að því að fjölga íbúum Bolungarvíkur úr 950 í 1000. Átakið varð til vegna áforma um að sameina bæjarfélög sem væru með færri íbúa en 1000.

Fyrsti liðurinn í átakinu var að auka framboð á húsnæði. Það var gert með því að gera ráð fyrir nýjum byggingarreitum í aðalskipulagi. “Það er ekki hægt að auka íbúafjölda nema fjölga húsnæði, þó það hafi verið viss áhætta á sínum tíma þar sem það voru beinlínis ekki margir að óska eftir nýjum byggingalóðum” – segir Jón Páll.

Önnur megin stoð er að fjárfesta í innviðum og tók Jón dæmi um viðbyggingu við leikskóla og stækkun á vatnsbóli. Hann talaði einnig um stuðning við nýsköpun og stofnun nýrra fyrirtækja.

Þriðja stoðin er hins vegar einkageirinn. Efnahagur Bolungarvíkur byggðist upp á nálægðinni við fiskimiðin. Bærinn hefur reitt sig á útgerð og fiskvinnslu og fjárfestingar og skipulag bæjarins taka mið af því.

Jón fjallar um það hvernig íbúafjöldi bæjarins hafi farið lækkandi í mörg ár, en fyrir um 10 árum hafi eitthvað breyst og hann fór að hækka. Hann telur það vera vegna laxeldis, mjólkurframleiðslu og ferðaþjónustu. Hann telur þó laxeldið vera stærstu breytuna og segir að þessi geiri skapi um 30-35 störf.

Vesturbyggð: kosið til heimastjórna og 16 ára aldur

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar hefur samþykkt reglur um kosningar til heimastjóra í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar. Kosið verður á sama tíma og almennar sveitarstjórnarkosningar fara fram í maí. Kosningaaldur verður miðaður við þá sem orðnir eru 16 ára á kjördegi.

Heimastjórnir verða fjórar.
a) Heimastjórn Arnarfjarðar
b) Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasandshrepps
c) Heimastjórn Patreksfjarðar
d) Heimastjórn Tálknafjarðar

Gerð verður sérstök kjörskrá fyrir hverja heimastjórn. Hægt verður að kjósa utan kjörfundar allt að 20 áður dögum fyrir kjörfund.

Heimastjórnir skulu skipaðar þremur (3) fulltrúum. Tveir (2) fulltrúar og tveir (2) til vara skulu kosnir beinni
kosningu. Kjörgengir eru þeir í heimastjórn sem hafa kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. mgr. 133. gr.
sveitarstjórnarlaga. Einn fulltrúi og annar til vara eru kjörnir af sveitarstjórn og skulu þeir vera aðalfulltrúar í sveitarstjórn.

Framkvæmd heimastjórnarkosninga skal vera þannig að hver kjósandi kýs einn (1) aðalmann í
heimastjórn í beinni kosningu. Kjósandi skrifar á kjörseðil fullt nafn og heimilisfang þess sem hann kýs.
Þeir tveir (2) einstaklingar sem fá flest atkvæði eru kjörnir aðalmenn. Næstu tveir (2) þar á eftir eru kjörnir
varamenn í samræmi við fjölda atkvæða.

Eyri hjúkrunarheimili: sótt um 10 íbúða viðbyggingu

Heilbrigðisráðuneytið hefur sótt um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við hjúkrunarheimilið Eyri. Viðbyggingin er íbúða/meðferðarkjarni á einni hæð með 10 íbúðum. Byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingaráformin m með fyrirvara um lagfæringar hönnuðar á aðaluppdráttum. 

Núverandi hjúkrunarheimili var byggt 2014 og í því eru 30 íbúðaeiningar.

Flatarmál nýrrar íbúðaeiningar með tengigangi er 655,4 m², og hjóla-og rafskutlurými er 33,9 fermetrar og er viðbót við byggingu sem fyrir er.Heildarflatarmál nýbygginga er 689,3 m2 , og samtals gólfflötur bygginga á lóðinni 3007,8 m2 .

Í almennri lýsingu segir að rekstur nýs íbúðakjarna verður innifalinn í rekstri núverandi hjúkrunarheimilis.
Áætlaður fjöldi staðbundinna starfsmanna alls hjúkrunarheimilis er um 5-6, en aðrir starfsmenn eru samnýttir með aðliggjandi Fjórðungssjúkrahúsi Vestfjarða. Í íbúðakjarna er sameiginleg setustofa, borðstofa og eldhús. Í eldhúsi er gert ráð fyrir undirbúningi máltíða sem foreldaðar eru annars staðar. Einnig til notkunar af íbúum til einfaldrar matargerðar og baksturs, mögulega með aðstoð starfsmanna.

Karfan: Vestri efstur í 2. deild mfl. karla

Sigurður Þorsteinsson, Vestra.

Um síðustu helgi lauk keppni í 2. deild karla. Þá var mikilvægur leikur fyrir körfuknattleiksdeild Vestra sem gat með sigri endaði tímabilið í efsta sæti í 2. deild karla.

Leikurinn var á Sunnudegi á móti KV, í vesturbænum.  KV var í 3. sæti í deildinni og skipað ungum fyrrverandi leikmönnum KR. 

Leikmenn Vestra lögðu af stað snemma að  morgni, ekki ákjósanlegt ferðafyrirkomulag enda hætt við ferðastirðleika og þreytu.  Það sást í byrjun enda KV menn sprækari í upphafi og komast í 13-3 stöðu og vörn Vestra  hriplek. Vörnin fór þó að smella og þá fylgdu í kjölfarið góðar körfur.  Liðsmenn Vestra héldu áfram að spila stífa vörn og náðu þannig tökum á leiknum. Skyttur Vestra hrukku svo í gang í seinni hálfleik, og settu nokkra fallega þriggja stiga körfur sem gáfu Vestra gott forskot. 

Pétur, þjálfari skipti sem fyrr ört inn á. Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig.  Mikilvægt í leik sem þessum að allir leikmenn fái tækifæri til að sanna sig og fá auk þess dýrmæta leikreynslu.  Það  komust allir á blað og voru Jonathan  og Sigurður Þorsteinsson stigahæstir með 32 stig og 20 stig.  Sigurður tók einnig haug af fráköstum og Jonathan var drjúgur að finna opna menn.  Yngri leikmenn okkar voru allir nokkuð jafnir í framlagi og ákveðnin í vörninni skapaði grunnin að þessum sigri.

Vestri vann að lokum öruggan sigur 100:78 og varð í efsta sæti deildarinnar með 16 sigra í 18 leikjum.

Næst á dagskrá er svo úrslitakeppni sem hefst strax eftir páska.  Lið Vestra mætir lið Leiknis/Aþenu og leikdagur er ekki enn staðfestur.  Vinni Vestri þann undanúrslitaleik þá öðlast liðið rétt til að færast upp um deild.  Í hinni undanúrslita viðureigninni eigast við KV og KFG. 

Geirþjófsfjörð á að friða gagnvart jarðraski

Úr grein BB 25. mars: 

Geirþjófsfjörður: heilsusetur skipulagt á Krosseyri

„Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands segir að deiliskipulagið boði mikla uppbyggingu á Krosseyri sem muni raska gróðri, ásamt því að hafa varanleg áhrif á ásýnd svæðisins og landslag þar sem eyrin er vel sýnileg frá mörgum stöðum við Suðurfirði. Náttúrufræðistofnun gerir ekki frekari athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi fyrir Krosseyri en áskilur sér rétt til að koma að frekari athugasemdum á síðari stigum málsins gerist þörf á því.”

Ritari þesarar greinar á ekki orð yfir tvískinnungi bæjarstjórnar Vesturbyggðar í umhverfis- og landverndarmálum. Það virðist alls ekki vera sama hvar standa skal upp til varnar lítt eða ósnortnu landi, einkahagsmunir studdir en almannahagsmunir hunsaðir. Geirþjófsfjörð á að friða gagnvart jarðraski. Það mætti heimila þar aðeins minni háttar mannvirki sem falla smekklega að umhverfinu en ekki í því umfangi sem virðist eiga stefna að á Krosseyri og stefnir í að bera svæðið ofurliði samanber framangreinda umsögn. Það blasir við að varla nokkur í viðkomandi nefndum, ráðum og bæjarstjórn hafi komið á Krosseyri, aðeins litið á landið tilfinningalaust af kortum. Vatnsfjörður telst að mati bæjarstjórnar heilagur gagnvart virkjunaráformum í almanna þágu en heimilað er án nokkurrar hugsunar umrót og umbylting á örlitlum grónum bletti á Krosseyri í Geirþjófsfirði í þágu einkahagsmuna. Hví geyja ekki varðhundar ósnortinnar náttúru að þessu sinni og láta skína í vígtennurnar, landvörður svæðisins og aðrir umhverfisvænir? Og þá aðrir þeir sem mæla fyrir þjóðgarði frá Borgarfirði suður í Hörgsnes á Barðaströnd? Það eru engir fossar eða frískir bunulækir í landi Krosseyrar, aðeins vel gróin brekka upp frá eyrinni. Það virðist vera lítilræði sem ekki þarf að vernda í hugum stjórnenda Vesurbyggðar.

Vonandi verður viðtakandi bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar næmari  og skilningsríkari á alla fleti samfélags og umhverfis en sú sem er að kveðja. Hún hefur því miður fallið á náttúruverndarprófinu.

Úlfar B Thoroddsen íbúi í Vesturbyggð sem er bæði annt um Geirþjófsfjörð og Vatnsdal á Barðaströnd.

Rorum: opna vefsíðu sem sýnir umhverfisvöktun eldissvæða

Fyrirtækið Rorum sem vinnur að rannsóknum og ráðgjöf í umhverfismálum opnar á morgun, miðvikudaginn 27. mars kl 11, vefsíðu þar sem unnt verður að skoða niðurstöðu umhverfisvöktunar á fiskeldissvæðum í sjó. Lífrænt álag frá fiskeldi er vaktað með athugun á fjölbreytni botndýrasamfélaga og breytingum á styrk lífrænna efna í sjó. Fylgst er sérstaklega með því hver uppsöfnun lífræns efnis undir sjókvíum er og áhrif þess á botndýrasamfélögin. Birt verða raungögn um styrk lífrænna efna og áhrif þeirra á botndýrasamfélög.

Í tilkynningu frá Rorum segir að þessar upplýsingar séu forsenda þess að starfrækja fiskeldi í sátt við umhverfið. „Vöktun á umhverfisþáttum fer fram á þremur mismunandi tímum í eldisferlinu: Áður en eldi hefst á eldissvæði til að meta hvert grunn ástandið er á eldissvæði (grunn sýnatökur). Þegar eldi hefur náð 75% af leyfilegum lífmassa eldissvæðis (hámarkssýnatökur). Þegar hvíldartíma eldissvæði líkur, venjulega 3 mánuðum eftir að slátrun líkur (hvíldarsýnatökur).“

Þátttakendur í þessu verkefni eru eldisfyrirtækin Ice Fish Farm á Austfjörðum Arnarlax, ÍS 47, Hábrún og Háafell á Vestfjörðum.

Torfnes: kostnaður orðinn 143 m.kr.

Gervigrasvöllurinn á Torfnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar, sem lagt var fyrir bæjarráð í gær er kostnaður við gervigrasvellina á Torfnesi orðinn 143 m.kr. Heildarkostnaður samkvæmt tilboði er 256 m.kr. Fenginn styrkur frá KSÍ er 24 m.kr svo nettókostnaður Ísafjarðarbæjar verður 232 m.kr.

Mestur er kostnaðurinn orðinn við æfingavöllinn en samkvæmt minnisblaðinu er hann orðinn 67,7 m.kr. Í jarðvinnu við aðalvöllinn er komið 46,2 m.kr. og er verkstaðan 67% við þann þátt. Í jarðvinnu við æfingavöllinn hefur verið varið 10,7 m.kr. sem er 77% af því verki. Er það til viðbótar við 67,7 m.kr sem áður voru nefndar.

Tilboð vegna beggja vallanna hljóðar upp á 256 m.kr. Þar er gervigrasið langstærsti liðurinn 158,9 m.kr. auk 14,0 m.kr. við að fjarlægja eldra gervigras. Jarðvinna og lagnir á aðalvelli eru 68,5 m.kr.

Af kostnaði féllu til 128 m.kr. á síðasta ári og á þessu ári eru áætlaðar 104 m.kr. að frádregnum fengnum styrkjum KSÍ.

Sögufélag Ísfirðinga: forseti Íslands með erindi á aðalfundi félagsins

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson mætir á aðalfund Sögufélags Ísfirðinga, sem haldinn verður á skírdag, fimmtudaginn 28. mars í Safnahúsinu á Ísafirði og hefst kl 17.

Guðni mun flytja erindi sem nefnist Vestfirðingar og útfærsla fiskveiðilögsögunnar á síðustu öld.

Er ekki að efa að um áhugavert erindi verður að ræða og gott framtak hjá Sögufélaginu að fá sagnfræðinginn Guðna Th Jóhannesson til þess að fjalla um þetta efni.

Húsnæðisbætur námu 8,5 milljörðum króna í fyrra

Húsnæðis og mannvirkjastofnun greiddi út 8,464 milljarða króna í húsnæðisbætur til 21.833 heimila vegna réttinda sem áunnust á síðasta ári.

Heildarfjöldi íbúa í heimilum sem þáðu húsnæðisbætur var 38.247. 

Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem eru ætlaðar til að aðstoða tekju- og eignaminni einstaklinga og fjölskyldur sem leigja íbúðarhúsnæði, hvort sem er í félagslega kerfinu, námsgörðum eða á hinum almenna leigumarkaði.

HMS fer með framkvæmd húsnæðisbóta skv. lögum og teymi húsnæðisbóta á Sauðárkróki sér um afgreiðslu, útreikning og greiðslur húsnæðisbóta, ásamt annarri umsýslu sem verkefninu fylgir. 

Árið 2023 fór fram lokauppgjör ársins 2022 á greiðslu húsnæðisbóta. Inneignir voru 141 milljónir króna, en skuldir 319 milljónir króna.  

Alls var heildarupphæð réttinda húsnæðisbóta árið 2023 8,464 milljarðar króna vegna réttinda á árinu. HMS greiddi hins vegar út 8,541 milljarða króna á árinu, þar sem stofnunin hafði til hliðsjónar lokauppgjör húsnæðisbóta fyrir árið á undan og skuldajöfnun bóta. 

Látra­bjarg – tillaga að stjórn­unar- og verndaráætlun

Umhverf­is­stofnun hefur lagt fram til kynn­inga drög að stjórn­unar- og verndaráætlun fyrir Látra­bjarg.Landið var frið­lýst í mars árið 2021. 

Áætlunin er unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, fulltrúum landeigenda og fulltrúa Vesturbyggðar. Eins er hún unnin í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára.

Áætlunin er sett fram í samræmi við lög um náttúruvernd.

Óskað er eftir athugasemdum frá almenningi við drög að áætluninni, skilafrestur athugasemda er til og með 7. maí 2024.

Nýjustu fréttir