Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 133

Vinna við samein­ingu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í fullum gangi

Frá Tálknafirði.

Daglega er unnið að samein­ing­unni bæði hjá starfs­fólki sveit­ar­fé­lag­anna og kjörnum full­trúum og er í mörg horn að líta. Mikið mun vinnast áður en til samein­ing­ar­innar kemur 19. maí nk. en ýmiss vinna mun bíða sameinaðs sveit­ar­fé­lags.

Nýjar samþykktir sameinaðs sveitarfélag voru samþykktar á síðasta fundi undirbúningsstjórnar þann 4. mars sl.  og hafa þær verið sendar til innviðaráðuneytisins til staðfestingar.

Með samþykktunum voru sendar reglur um íbúakosningu í heimastjórnir og samantekt yfir samþykktir, reglur og gjaldskrár sveitarfélaganna. Er nú beðið  eftir afgreiðslu ráðuneytisins en hún er forsenda þess að sveitarfélögin hafi heimild til að sameinast.

Eins og margir vita var óskað eftir tillögum og nafn á sameinað sveitarfélag frá íbúum. Fjölmargar tillögur bárust og var það niðurstaða undirbúningsstjórnar að senda tillögurnar til örnefnanefndar til umsagnar.

Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður kosið í heimastjórnir. Tveir fulltrúar íbúa eru kosnir á hverjum stað en það verða fjórar heimastjórnir. Á Patreksfirði, Arnarfirði, Tálknafirði og Barðaströnd og gamla Rauðasandshreppi.

Allir íbúar hvers svæðis eru í framboði og kýs hver íbúi einn einstakling á því svæði sem hann býr. Þeir tveir sem fá flest atkvæði á hverju svæði munu sitja í heimastjórn fyrir sitt svæði næstu tvö árin eða þar til kosið verður næst til sveitarstjórnar.

Gott ferðaveður á Vestfjörðum

Ferðaveður er fremur gott á Vestfjörðum miðað við vetur, hægviðri og flestir vegir opnir. Þæfingsfærð er þó í Reykhólasveit. Ófært er norður í Árneshrepp. Hálka eða hálkublettir eru víða.  Vestfjarðavegur frá Reykhólasveit og til Patreksfjarðar og þaðan til Bíldudals er auður samkvæmt yfirliti Vegagerðarinnar.

Vegagerðin varar við ástandi á slitlaginu á Vestfjarðavegi frá Bröttubrekku yfir í Gufudalssveit og á Reykhólasveitarvegi og segir það mjög slæmt. Hraði er af þeim sökum takmarkaður á nokkrum stöðum.

Ísafjarðarbær: vilja yfirtaka rekstur íþróttamannvirkja á Torfnesi

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Íþróttahreyfingin á Ísafirði setti fram á samræðsfundi með Ísafjarðarbæ tillögu um breytta rekstrarleið íþróttamannvirkja á Torfnesi. Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs fyrir bæjarráð að íþróttahreyfingin óski eftir því að lagt verði kostnaðarmat á að íþróttahreyfingin taki yfir rekstur íþróttamannvirkja á Torfnesi.

Gert er ráð fyrir að þau íþróttafélög sem eru notendur íþróttasvæðisins stofni rekstrarfélag sem Ísafjarðarbær myndi gera rekstrarsamning við um reksturinn. Forsvarmenn í íþróttahreyfingunni sjá fyrir sér að stofna vinnuhóp sem myndi hanna frekar útfærslu á tillögunni í samstarfi við starfsfólk skóla- og tómstundasviðs.

Í minnisblaðinu segir að til eru sambærilegar útfærslur hjá öðrum sveitarfélögum t.d. á Akureyri þar sem þau greiða rekstrarframlag til íþróttafélaga til þess að tryggja reksturinn.
Útfærslan yrði unnin í samstarfi við forstöðumann íþróttamannvirkja, íþróttahreyfinguna í Ísafjarðarbæ, sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs og íþrótta- og æskulýðsfulltrúa ásamt skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.

Bæjarráð óskaði eftir því að íþróttahreyfingin útfæri hugmyndina betur og leggi hana fram til umsagnar í skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd.

Halla Tómasdóttir með fundi á Vestfjörðum

Halla Tómasdóttir.

Forsetaframbjóðandinn Halla Tómasdóttir verður á Vestfjörðum næstu daga með kynningarfundi. Hún verður með kaffispjall í Félagsheimilinu á Patreksfirði á skírdag, á fimmtudaginn kl 15. Á föstdagin langa verður Halla í Verbúðinni í Bolungavík milli kl 12 og 13 og seinna sama dag í salnum í Hömrum á Ísafirði og hefst fundurinn kl 16:30.

Sigurður Pétursson frá Suðureyri og einn stofnanda Arctic Fish og lengi einn af eigendum fyrirtækisins er stuðningsmaður Höllu Tómasdóttur. Hann segir Höllu leggja áherslu á jafnréttismál og umhverfismál og fjalli um virkjanamál og græna orku. Hann segist sjá hana fyrir sér sem góðan fulltrúa þjóðarinnar á alþjóðlegum vettvangi.

Sigurður og Halla eru systkinabörn og rekja ættir sína til Meiri Bakka í Skálavík.

Á slóðum forfeðranna og formæðranna á Meiri Bakka í Skálavík.

Ofanflóðavarnir á Flateyri: 2,1 milljarður króna

Frá Flateyri.

Tilboð voru opnuð í síðustu viku í ofanflóðavarnir á Flateyri.

Í kjölfar snjóflóða sem urðu árið 2020 var ákveðið að styrkja núverandi varnir. Um er að ræða 27 keilur sem komið er fyrir á úthlaupssvæðum flóðanna úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft, 16 stk Innra-Bæjargilsmegin og 11 stk Skollahvilftarmegin. Þá verður þvergarðurinn endurbyggður og bætt við tveim leiðigörðum, annarsvegar leiðigarði við Sólbakka og hinsvegar leiðigarði á Hafnarsvæði. Jafnframt verður úthlaupssvæðið (flóðrásin) neðan Skollahvilftar dýpkað á kafla neðan til við núverandi garð.

Garðana skal byggja úr jarðefnum sem eru fengin innan framkvæmdasvæðisins og úr námu, sem staðsett er ca. 1,5 km vestan við byggðina á Flateyri. Flóðmegin verða keilurnar og garðarnir byggðir upp þannig að ofan á jöfnunarlag verður byggt upp jarðvegsstyrkingarkerfi, sem samanstendur af bröttum hliðum og styrktri fyllingu. Hliðar keilanna verða einnig byggðar upp með þessum hætti. Hlémegin á görðum verða hefðbundnir jarðvegsfláar.

Tvö tilboð bárust. Borgarverk ehf. bauð í verkið liðlega tvo milljarða króna eða nákvæmlega 2.123.156.196 kr. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á tæpa 2,8 milljarða króna. Suðurverk hf. bauð 2.348.222.243 kr eða liðlega 200 m.kr. meira.

Framkvæmdasýslan – ríkiseignir fer síðan yfir tilboðin.

„Þetta getur enginn gert nema þjóðkirkjan“

Á ferðum mínum um landið í aðdraganda biskupskjörs rifjast svo ótal margt upp fyrir mér, úr sögu landsins okkar og ríkulegri menningararfleifð.

Til dæmis sagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson, um Fjalla Bensa, hrútinn Eitil og hundinn Leó, sem gerist í óbyggðum þegar Benedikt leitar eftirlegukinda í aðdraganda jóla og lendir í margra daga stórhríð.

Að mínu mati gæti Biskup Íslands horft til Fjalla Bensa í mörgu; með að láta sig varða um þær lifandi sálir sem ekki hafa öruggt skjól í erfiðum aðstæðum, sýna þrautseigju og hugrekki við að halda út þótt á móti blási, og tileinka sér umhyggju til alls sem lifir.

Sauðirnir sem biskup Íslands þarf að uppörva og hlúa að tengslum við, eru vígðir og óvígðir þjónar kirkjunnar, fólkið sem hefur tekið að sér trúnaðarstörf í sóknum og söfnuðum landsins og landsmenn allir þegar biskup ávarpar þjóðina, á stundum gleði og þegar áföll ríða yfir. Rétt eins og Fjalla Bensi fór aldrei einn í sínar eftirleitir, hafði alltaf forystusauðinn Eitil og smalahundinn Leó með í för, á biskup Íslands að vera í samvinnu og samstarfi  við aðra í þegar hann gegnir hlutverki sínu.

Þjóðkirkjan er stór og sterk stofnun. Ég fullyrði að engin hreyfing í landinu býr að eins stórum og virkum hópi fólks í sínum röðum  nema ef vera skyldi björgunarsveitirnar, sem við eigum svo margt að þakka. Því þarf að hlúa að söfnuðunum sjálfum, sem eru grunneining þjóðkirkjunnar, í sveit og í borg.  Biskup á að fara fyrir því að efla söfnuðina, styðja þá og styrkja með öllum ráðum.

Þegar Grindvíkingar hittust eftir rýmingu bæjarins í Hallgrímskirkju var haft eftir forsætisráðherra: „Þetta getur enginn gert nema þjóðkirkjan“. Þetta ættum við þjóðkirkjufólk að muna betur og taka til okkar. Byggjum á þeim ríka arfi sem við eigum og leyfum Jesú Kristi að vera það leiðarljós sem aldrei fennir í kaf.

Elínborg Sturludóttir

dómkirkjuprestur

Ísafjarðarbær: gjaldskrárlækkun ekki fyrr en 1. ágúst n.k.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Fyrir liggur eftir umræður á bæjarráðsfundi í Ísafjarðarbæ að lækkun gjaldskrár í leikskólum í kjölfar kjarasamninga verður ekki fyrr en 1. ágúst næstkomandi. Gjaldskráin hækkaði um 6% um áramótin en í kjarasamningnum var samið um að gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga yrðu endurskoðaðar og hækkunin á árinu 2024 yrði ekki meiri en 3,5%.

Í minnisblaði Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra sem hún lagði fyrir bæjarráð leggur hún til að gjaldskráin fyrir leikskóla lækki ekki fyrr en 1. ágúst þannig að hækkun ársins verði einungis 3,5%. Bæjarráðið minnti á að starfshópur um málefni leikskóla sé að störfum og muni skila af sér tillögum um gjaldskrár leikskóla fyrir sumarfrí og telur bæjarráð farsælast að bíða eftir þeim tillögum.

Þá leggur bæjarstjóri til að dægradvöl taki ekki hækkunum eða hámarkshækkunum, þ.e. 3,5% frá 1. ágúst 2024, fyrir veturinn 2024/2025. Taka þurfi afstöðu til gjalds vegna hressingar í dægradvöl, 150 kr. pr. dag.

Bæjarráð ákvað að skólamáltíðir grunnskóla verði fríar frá 1. ágúst 2024, í samræmi við samkomulag ríkis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Gjaldskrá á sundstöðum og skíðasvæði hækkaði almennt um 6% um áramótin og leggur bæjarstjóri til að gjaldskrár skíðasvæða verði breytt á eftirfarandi hátt:
a. endurgjaldslaust verði fyrir börn að 18 ára aldri. (núgildandi gjaldskrá er frítt fyrir börn 5 ára og yngri, og 50% afsláttur fyrir börn 6-18 ára). Ath. frítt er í sund fyrir öll börn 18 ára og yngri.
b. 50% afsláttur er veittur af búnaðarleigu til barna undir 18 ára aldri.

Tillagan var ekki afgreidd og fól bæjarráð bæjarstjóra að vinna áfram að tillögunum.

ADHD fullorðinna

Út er komin bókin ADHD fullorðinna fyrir þá sem vilja skilja og ná betri tökum á ADHD einkennum sínum.
Bókin varpar ljósi á ADHD eins og það kemur fram á fullorðinsárum.
Farið er yfir lykileinkenni og orsakir ADHD, þróun einkenna yfir æviskeiðið, birtingarmyndir og mögulega fylgikvilla, eins og kvíða og þunglyndi.
Fjallað er um greiningarferli, meðhöndlun og helstu styrkleika sem fylgt geta því að vera með ADHD.
Eins er greint frá leiðum til að bæta skipulag, einbeitingu, tímastjórn og minni, sem og aðferðum til að draga úr frestun.

Þótt ADHD verði ekki upprætt með bókalestri má draga úr þeirri hömlun sem einkennin valda.

Höfundar eru sálfræðingar og hafa áralanga reynslu af greiningu og ráðgjöf vegna ADHD.

Bára Sif Ómarsdóttir stýrir ADHD-teymi við Kvíðameðferðarstöðina. Sóley Dröfn Davíðsdóttir er yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.

Milljarður í styrki til lýðheilsuverkefna á Íslandi

Embætti landlæknis leiðir tvö stór lýðheilsuverkefni á sviði heilbrigðismála sem nýlega hafa hlotið nærri 1,0 milljarð kr. í styrk frá Evrópusambandinu.

Um 800 m.kr. renna til verkefnis sem felst í innleiðingu árangursríkra aðgerða til að koma í veg fyrir ósmitbæra sjúkdóma eins og krabbamein, sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma.

Alls taka 22 aðildarríki Evrópusambandsins þátt í verkefninu ásamt Íslandi, Noregi og Úkraínu og nemur heildarfjárhæð Evrópusambandsins til verkefnanna 11 milljörðum króna.

Hitt verkefnið snýr að aðgerðum til að sporna við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Sá styrkur nemur um 113 m.kr. og mun styðja við framkvæmd verkefna í nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda á þessu sviði.

Verkefnastyrkirnir eru fjármagnaðir af Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins sem hefur aldrei veitt jafn háa fjárhæð til lýðheilsuverkefna og nú.

Styrkirnir sem fara til sambærilegra verkefna í öðrum Evrópulöndum nema samtals um 18,5 milljörðum króna. 

Gott að eldast

Í dag lifir fólk almennt lengur en áður. Það er líka virkara og hraustara en nokkru sinni fyrr.

Á tímamótum nýs æviskeiðs er mikilvægt að búa sig vel undir það sem koma skal.
Sum kvíða því að láta af störfum á meðan önnur fagna. Gott er að byrja snemma að sjá þetta tímabil fyrir sér og huga að því hvernig best verður að verja tímanum.

Nú í fyrsta sinn má finna upplýsingar um hvað eina sem tengist þjónustu fyrir eldra fólk, réttindum þess og heilsueflingu á einum stað á vefnum island.is undir heitinu Að eldast.

Upplýsingagáttin er hluti af verkefninu Gott að eldast. Stjórnvöld taka þar utan um þjónustu við eldra fólk með nýjum hætti.

Að eldast | Ísland.is (island.is)

Nýjustu fréttir