Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 132

Leikfélag Hólmavíkur: frumsýning á morgun

Leikfélag Hólmavíkur heldur uppteknum hætti að setja árlega upp leiksýningu og þetta árið er það farsinn Öfugu megin uppí eftir Derek Benfield sem varð fyrir valinu. Skúli Gautason er leikstjóri, fimm leikarar taka þátt í verkefninu og fjöldi fólks leggur sitt af mörkum. Miðaverð er kr. 4.000.-

Sýningar eru í Sævangi og eru sem hér segir:

Frumsýning, laugardaginn 30. mars, kl. 20:00
2. sýning, fimmtudaginn 4. apríl, kl. 20:00
3. sýning, laugardaginn 6. apríl, kl. 20:00
4. sýning, fimmtudaginn 11. apríl kl. 20
Lokasýning, fimmtudaginn 18. apríl kl. 20

Í leikritið segir frá Fríðu sem tekur að sér að gæta sveitahótels systur sinnar eina helgi á meðan hún bregður sér í frí. Það á ekki fyrir henni að liggja að eiga náðuga daga, því gestirnir eru af ýmsu tagi. Þeir eiga þó sameiginlegt að vera í ævintýraleit og ætla aldeilis að gera sér glaðan dag og eiga góðar stundir.

Mögulegt er að fá leikhússúpu í Sævangi á undan sýningunni, ef fólk hefur áhuga á. Miðasala og pantanir í sýningar og súpu í síma 693-3474 (Ester Sigfúsdóttir).

Troðfullt á Dokkunni

Hljómsveitin Jónfrí og félagar.

Það var hvert sæti skipað og staðið við veggi á Dokkunni í gærkvöldi á tónleikum með Gosa, Kela og Jónfrí. Tónleikagestir skemmtu sér vel og nutu kvöldsins. Hákon Hermannsson framkvæmdastjóri Dokkunnar, múrari og bruggari var á þönum við afgreiðsluna ásamt fleira starfsfólki.

Fjölmargir hafa lagt leið sína vestur á firði um páskana og veitingastaðir á Ísafirði voru þéttsetnir í gærkvöldi.

Hákon Hermannsson.

Þéttsetinn salurinn á Dokkunni.

og staðið við veggi.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Helgiganga í Önundarfirði

Holtskirkja í Önundarfirði.

Helgiganga verður í Önundarfirði í dag, föstudaginn langa. Langt verður af stað kl 10 frá Flateyrarkirkju og gengið að Holtskirkju. Þátttakendur fá aðstoð eftir göngu við að komast í bíla sína. Séra Fjölnir Ásbjörnsson leiðir gönguna.

Forseti Íslands á aðalfundi Sögufélags Ísfirðinga

Guðni Th. Jóhannesson flytur erindi sitt.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands var heiðursgestur á aðalfundi Sögufélags Ísfirðinga sem haldinn var í dag í Safnahúsinu á Ísafirði. Fundurinn var vel sóttur og að loknum aðalfundarstörfum flutti Guðni Th. erindi um útfærslu landhelginnar á síðustu öld. Hann vinnur að framhaldi að sögu útfærslunnar en áður hefur komið út bók eftir hann um tímabilinið 1961-1971. Guðni Th. sagði að áformað væri að bókin kæmi út á næsta ári og fjallað væri um árin eftir 1971, sem voru viðburðarrík með 50 mílna landhelginni 1972 og síðan 200 mílna landhelginni 1975.

Stjórn Sögufélagsins var endurkjörin og er Björgvin Bjarnason formaður.

Björgvin Bjarnason formaður Sögufélagsins, Einars K. Guðfinnsson fundarstjóri og fyrrv. forseti Alþingis og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.

Hvert sæti var skipað á fundinum. Frá vinstri: Gylfi Þ. Gíslason, Þorsteinn Jóhannesson, Smári Haraldsson og Gunnar Tryggvason.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Skíðavikan og Sögufélag Ísfirðinga

Það verður mikið um að vera á Ísafirði í dag. Á skíðavikunni eru einir 14 viðburðir á skrá. Skíðasvæðið í Tungudal opnaði kl 10 og verður opið til kl 21 í kvöld. Þar verður m.a. boðið upp á skíðaskotfimi frá kl 12 til kl 14 og fjallaskíðaferð í Botnsdal. Síðdegis verður Kómedíuleikhúsið í Haukadal Dýrafirði með sýninguna lífið er lotterí sem er söngdagskrá tileinkuð textasmiðnum og leikskáldinu Jónasi Árnasyni.

Þá verður Myndlistarsýning leikskólabarna í gluggum verslana í miðbænum. Sýningin opnar á skírdag, 28. mars, kl. 16:30. Boðið verður upp á útikakó á Silfurtorgi.

Í kvöld verða GDRN & Magnús Jóhann í Ísafjarðarkirkju og Jónfrí í Dokkunni svo fátt eitt sé nefnt.

Loks má minna á aðalfund Sögufélags Ísfirðinga í Safnahúsinu Ísafirði og hefst fundurinn kl 17. Þar mun forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson flytja erindi sem nefnist Vestfirðingar og útfærsla fiskveiðilögsögunnar á síðustu öld.

Ísafjarðarbær: slökkviliðið fær nýjan vaktbíl

Bílafloti slökkviliðsins fyrir nokkrum árum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt heimild til handa slökkviliði Ísafjarðarbæjar að nýta 9 m.kr. af 12 m.kr. framkvæmdafé ársins 2024 eyrnamerkt tækjakaupum eignasjóðs til kaupa nýjan vaktbíl, sem verður rafbifreið Tesla Model Y að verðmæti 9 m.kr.

Söluandvirði núverandi bifreiðar sem er Toyota Hilux double cab árgerð 2007, , er um 1.8 m.kr. til 2.5 m.kr. eftir akstri og ástandi samkvæmt því sem fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs.

OV : Hleðslugeta á Hólmavík þrefaldast

Vinnuflokkur Orkubúsins að setja upp stöðina. Mynd: Orkubú Vestfjarða.

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð á Hólmavík sem annar fjórum bílum til viðbótar við þær stöðvar sem fyrir eru.  Hvert tengi getur annað mest 240 kW.

Nýja stöðin, sem var opnuð í gær, verður í byrjun staðsett við Galdrasafnið þar til henni verður fundinn varanlegur staður á Hólmavík.

Til að mæta aukinni eftirspurn yfir páskana hafa jafnframt tímabundið verið settar upp tvær 180 kW hraðhleðslustöðvar á Ísafirði.

Rafbílaeigendur eru hvattir til að ná sér í e1 appið áður en lagt er upp í ferðina vestur, en e1 er samstarfsaðili Orkubúsins.

Síðustu ár hafa margir lagt leið sína vestur yfir páskana þar sem – Aldrei fór ég suður hátíðin – fer fram, nú í 20. sinn.  Þá má ekki gleyma hinni margrómuðu Skíðaviku sem nú fer fram við bestu aðstæður á 90 ára afmælisári Skíðafélags Ísafjarðar.  

Nýja hleðslustöðin er við Galdrasafnið. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Umferðin.is hlaut 1. verðlaun

Umferðin.is sem er upplýsingavefur Vegagerðarinnar, hlaut 1. verðlaun sem samfélagsvefur ársins 2023 þegar Íslensku vefverðlaunin 2024 voru veitt á dögunum. 

Hönnunarstofan Kolofon og Greipur Gíslason unnu að vefnum nánu samstarfi við Vegagerðina. 

Samtök vefiðnaðarins  standa að Íslensku vefverðlaununum.  Þetta er í annað sinn sem umferðin.is hlýtur þessi verðlaun.  

 Í umsögn dómnefndar um umferðin.is segir: „Vefurinn sinnir gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki og gerir það sérlega vel. Hann er í stöðugri þróun og eru flóknar upplýsingar settar fram á skýran og kjarngóðan hátt. Það skín í gegn að hér hefur verið vandað til verks.“ 

Upplýsingavefurinn umferðin.is var settur í loftið í október 2022 og hefur verið í stöðugri þróun síðan þá. Markmiðið er að auðvelda vegfarendum að finna upplýsingar um ástand og færð á vegum og helstu upplýsingum um umferð.

Á umferðin.is eru upplýsingar um færð, veður, vetrarþjónustu, vegaframkvæmdir, umferðartölur, þungatakmarkanir og fleira gagnlegt. Vefurinn er sérstaklega hugsaður fyrir snjalltæki og er mjög þægilegur í notkun.

Stofna á vottaðrar viðbragðssveitar (EMT)

Heilbrigðisráðherra hefur stofnað undirbúningshóp til að koma á fót EMT (Emergency Medical Team) viðbragðssveit á Íslandi.

Ákvörðun um stofnun hópsins er tekin að undangengnu samráði í ríkisstjórn.

EMT viðbragðssveitir eru virkjaðar ef válegir atburðir eiga sér stað sem valda almannavarnaástandi, s.s. vegna stórra hópslysa, farsótta, hópsýkinga eða náttúruhamfara. Þær eru mannaðar læknum, hjúkrunarfræðingum og stuðningsfólki sem starfa víðsvegar um landið.

Willum Þór heilbrigðisráðherra segir jarðhræringar síðustu mánuði á Reykjanesskaga og nýlegt strand skemmtiferðaskips við Grænland undirstrika þörf fyrir EMT viðbragðssveit á Íslandi: „Verði sveitin stofnuð hér á landi getur hún sinnt verkefnum um allt land með sérþekkingu á verkefnum almannavarna og orðið leiðandi á sviði heilbrigðisþjónustu á vettvangi á neyðartímum.

Sveitin gæti til að mynda aðstoðað við að koma sjúklingum í viðeigandi úrræði, eða til að sinna heilbrigðisþjónustu á vettvangi meðan beðið er eftir liðsinni frá öðrum þjóðum. EMT sveitin gæti þá einnig sinnt aðstoð vegna válegra atburða erlendis.“ 

Samdráttur í bílasölu rúmlega 50%

Þegar rétt þrír mánuðir er liðnir af þessu ári heldur samdrátturinn áfram í nýskráningum fólksbifreiða. Bílasalan er nú 53,8% minni en hún var á sama tíma á síðasta ári.

Nýskráningar eru nú alls 1.270 bifreiðar á móti 2.750 í fyrra.

Fram kemur í tölum frá Bílgreinasambandinu að bifreiðar til almennra notkunar eru 68,6% en til ökutækjaleiga 29,6%. Flestar nýskráningar eru í rafmagnsbílum, alls 368, sem gerir um 29% hlutfall á markaðnum. Næst flestar eru þær í tengiltvinnbílum, 286, og dísilbílar koma í þriðja sætinu með 274 bifreiðar. Nýskráningar í hybrid-bílum er 223 og 118 í bensín-bílum.

Sem fyrr eru flestar nýskráningar í Toyota, alls 212 bifreiðar, sem er um 16,9% hlutdeild á markaðnum. Dacia er komið í annað sætið með 128 bifreiðar og Kia í þriðja sætinu með 107. Í næstu sætum sætum þar á eftir koma Hyundai með 95 bíla og Land Rover með 89.

Nýjustu fréttir