Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 131

Afli í minna lagi í mars

Frá Patrekshöfn í desember sl. Mynd: Patrekshöfn.

Aflabrögð voru með minna móti í nýliðnum mánuði í þremur aflahæstu höfnum á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarhöfn var landað 825 tonnum, litlu minna í Bolungavík eða 815 tonnum og 273 tonnum í Patrekshöfn.

Togarinn Páll Pálsson ÍS landaði 485 tonnum af bolfiski eftir 6 veiðiferðir. Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE landaði þrisvar í mars samtals 85 tonnum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni 197 tonnum af afurðum. Loks landaði Vestri BA 58 tonnum af rækju.

Í Bolungavík var togarinn Sirrý ÍS aflahæst með 337 tonn eftir fjórar veiðiferðir. Dragnótabáturinn Ásdís ÍS var með 26 tonn í tveimur veiðiferðum.

Þrír línubátar lönduðu í Bolungavíkurhöfn í mars. Fríða Dagmar ÍS kom með 214 tonn í 13 veiðiferðum. Jónína Brynja ÍS fór einnig 13 róðra og landaði 203 tonn og loks landaði Indriði Kristins BA tvisvar samtals 36 tonnum.

Á Patreksfirði var það línubáturinn Núpur BA sem varð aflahæstur með 233 tonn eftir fimm róðra. Sindri BA landaði einu sinni 1 tonni og Alli gamli var á handfæraveiðum og landaði 1,6tonnum. Patrekur BA var á dragnót og kom með 36 tonn í tveimur veiðiferðum.

Ekki eru komnar tölur yfir landaðan eldisfisk í mánuðinum.

Sundahöfn: Hollendingarnir komnir

Hein siglir inn Sundin.

Hollenska dýpkunarskipið Hein er komið til Ísafjarðar og mun hefja dýpkun í dag eða á morgun. Vegagerðin og Ísafjarðarhafnir ákváðu í febrúar að semja við hollenska fyrirtækið Van Der Kamp um dýpkun við Sundabakka í vor. Framkvæmdum átti fyrir löngu að vera lokið en vegna þess að dýpkunarskip Björgunar var sífellt kallað úr verkinu til dýpkunar í Landeyjarhöfn drógust framkvæmdir og leiddi það til þess að Ísafjarðarhafnir urðu af um 150 m.kr. tekjum á síðastliðnu sumri.

Hilmar Lyngmó segir að kostnaðurinn við þennan samning fyrir Ísafjarðarhöfn sé um 20 m.kr. meiri en ætla mætti samkvæmt samningi við Björgun ehf en á móti þeim kostnaði komi að ekki verður af fyrirsjáanlegu tekjutapi hafnarinnar um 150 m.kr. eins og á síðasta ári vegna þess að viðlegukanturinn var ekki tilbúinn.

Áætlað er að framkvæmdir taki um 10 daga og hefur hollenska skipið þennan mánuð til þess að vinna verkið. Fjarlægja þarf um 50 þúsund rúmmetra í Sundahöfn og svipað magn úr rennunni í Sundunum. Dæla á efninu inn fyrir fyrirtöðugarðinn við Norðurtangann.

Hein lagst að bryggju í Sundahöfn.

Myndir: Heimir Tryggvason.

Salan á Guðbjörgu ÍS lagði ekki grunninn að Jakob Valgeir ehf

Guðbjörg ÍS 46. Mynd: aflafrettir.

Hvorki Þorsteinn Már Baldvinsson né Ásgeir Guðbjartsson komu að stofnun Jakobs Valgeirs ehf í Bolungavík segir Flosi Valgeir Jakobsson. Flosi og bróðir hans Finnbogi stofnuðu fyrirtækið árið 1985 og hefur það verið rekið í Bolungavík síðan.

Vakið hefur athygli um páskana að Þorsteinn Már sagði í síðasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála að kaup Samherja á Guðbjörginni ÍS á sínum tíma hafi orðið til þess að Ásgeir Guðbjartsson, einn eiganda að útgerðarfélaginu Hrönn sem átti Guðbjörgina ÍS,  hafi „síðar selt hlut sinn í Sam­herja og nýtt fjár­magnið til að hefja aft­ur út­gerð á Vest­fjörðum. Þar varð til fyr­ir­tækið Jakob Val­geir, sem nú er öfl­ugt út­gerðarfé­lag í Bol­ung­ar­vík.“ segir í frétt Morgunblaðsins af málinu.

Þetta segir Flosi Valgeir að sé misskilningur. Ásgeir Guðbjartsson hafi eftir söluna á Guðbjörginni ÍS árið 1997 keypt smábát og hafið útgerð frá Ísafirði að nýju ásamt syni sínum Guðbjarti. Átta árum síðar, árið 2005, keypti Jakob Valgeir ehf þá útgerð. Með í kaupunum fylgdi kvóti 183 tonn af þorski, 150 tonn af ýsu og 26 tonn af steinbít. Kaupverðið var 135 m.kr. auk áhvílandi skulda 165 m.kr. eða samtals um 300 m.kr.

Salan á Guðbjörginni ÍS hafi því ekki lagt grunn að fyrirtækinu Jakob Valgeir ehf, það var þegar til og hafði verið starfandi í 20 ár. Kvótakaup Jakobs Valgeirs ehf af einum af eigendum Guðbjargarinnar ÍS hafi verið aðeins brot af þeim kvóta sem fylgdi togaranum og greitt var markaðsverð fyrir þann kvóta.

„Mér þykir leiðinlegt að svona misskilningur sé í gangi um Jakob Valgeir í ljósi þess að ég hef alltaf stutt Þorstein Má og varið hans gerðir. Hið rétta er að fyrrverandi eigendur að Guðbjörginni ÍS hafa ekki verið eigendur að Jakob Valgeir eða komið að uppbyggingu þess.“

Drangsnes: ungmennafélagið Neisti 100 ára

Á aldarafmælinu voru Friðgeir Höskuldsson, Guðbjörg Hauksdóttir og Óskar Torfason heiðruð fyrir stöf þeirra í þágu félagsins.

Ungmannafélagið Neisti á Drangsnesi hélt upp á aldarafmæli sitt á skírdag með afmælishófi í Samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi þar sem öllum var boðið að koma og taka þátt í hátíðahöldunum.

Félagið var stofnað 8. mars 1924 og hefur um tíina staðið fyrir ýmsum framfaramálum og eins æskulýðsstarfsemi. Mðal fyrstu verka félagsins var bygging sundlaugar í Hveravík um 1940. Síðar hefur félagið komið upp grasknattspyrnuvelli á Drangsnesi, sparkvelli við skólann og ærslabelg fyrir yngstu kynslóðina. Á vegum félagsins hefur verið íþróttastarfsemi, einkum í frjálsum íþróttum og um tíma skíðaiðkun. Rak félagið skíðalyftu í fjallinu fyrir ofan þorpið sem var mikið notuð á snjóaaárunum 1985 – 95.

Formaður ungmennafélagsins Neista er Sigurbjörg Halldórsdóttir.

Í tilefni af afmælinu voru pantaðir nýir búningar.

Myndir: Óskar Torfason.

Vestfjarðarvegur opinn – lokað núna

Enn er veður með verra móti á Vestfjörum, hvasst og skafrenningur á heiðum. Þó er spáð að veðrið gangi niður þegar líður á daginn og verði orðið gott á morgun.

Vegagerðin er að moka vegi og er Vestfjarðavegur opinn að sunnan til Patreksfjarðar og eins er Dynjandisheiði opin. Þar eru tæki að störfum og verða til kl 17 í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er skafrenningur á heiðinni og éljagangur. Mikil umferð bíla er um heiðina. Klettháls er opinn en þar er sömuleiðis skafrenningur en moksturstæki er þar að störfum.

Frá Ísafirði er opið inn Djúp og yfir Steingrímsfjarðarheiði og þaðan um Innstrandarveg og yfir Holtavörðuheiði til Reykjavík. Sú leið er líklega um 100 km lengri en vesturleiðin um Dynjandisheiði. Lokað er yfir Þröskulda og er beðið átekta með mokstur.

uppfært kl 15:00. Vegagerðin hefur hætt mokstri á Dynjandisheiði og er hún nú lokuð  og verður ekki opnuð í dag. Þröskuldar verða ekki opnaðir í dag.

Lokað um Þröskulda og Dynjandisheiði

Færð er víða erfið á Vestfjörðum í dag. Lokað er um Þröskulda og yfir Dynjandisheiði. Steingrímsfjarðarheiði er opin en þar er þæfingsfærð og mjög blint. Vegagerðin gefur upp að mokstri verði hætt kl. 15:00 og heiðin muni fljótlega eftir það verða ófær. Leiðinni verður lokað kl. 18:00.

Þæfingafærð er yfir Ennisháls í Strandasýslu. Mokstri verður hætt á Innstrandarvegi kl 16. Lokað er norðan Hólmavíkur í Árneshrepp.

Vandræði á Norðurlandi

Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að björgunarsveitir í Húnavatnssýslum og Skagafirði hafi staðið í ströngu í dag við að aðstoða ferðalanga yfir og niður af Vatnsskarði og út Langadal. Mikil hálka er efst í Bólstaðahlíðarbrekku og hafa bílar fokið þar til. Í einhverjum tilvika hafa bílstjórar ekki treyst sér til að keyra áfram og hefur björgunarfólk keyrt suma bíla niður. Safnað er saman í hópakstur og bílum fylgt niður beggja vegna Vatnsskarðs.

Björgunarsveitin á Dalvík fór fyrr í dag til aðstoðar fólki sem var á ferð um Árskógsstrandarveg. Talsverður fjöldi ökumanna var í vandræðum þar og eitthvert tjón varð á ökutækjum þegar þau rákust saman. Aðgerðum þar er að mestu lokið en enn er verið að fylgja ferðalöngum niður af Vatnsskarði bæði austan og vestan megin. Eins og stendur er þar ekkert ferðaveður og fólk hvatt til að bíða með ferðalög milli landshluta fyrir norðan.

Frá Vatnsskarði. Myndir: Landsbjörg.

Jón Páll Halldórsson kjörinn heiðursborgari í Ísafjarðarbæ

Heiðursborgarinn Jón Páll Halldórsson og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. Mynd: Pálmi Kr. Jónsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti einróma á fundi sínum 21. mars síðastliðinn að útnefna Jón Pál Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Norðurtangans heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Var honum haldið hóf í Turnhúsinu á Ísafirði í dag og fékk þar afhent skjal því til staðfestingar. Jón Páll er þriðji einstaklingurinn sem hlýtur þessa nafnbót síðan Ísafjarðarbæ varð til 1996 og sá sjötti þegar Ísafjarðarkaupstaður er talinn með.

Í ávarpi Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra koma fram að auk starfa að atvinnumálum hafi hann komið að málefnum skátahreyfingarinnar og að menningar- og menntamálum á Ísafirði. Hann sat í nefnd sem undirbjó stofnun Menntaskólans á Ísafirði og síðan í bygginganefnd skólans. Þá átti hann lengi sæti í húsafriðunarnefnd Ísafjarðar og  var formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða frá 1968 til 1996. Á þeim vettvangi barðist hann ötullega fyrir friðun gömlu húsanna í Neðstakaupstað og að þar yrði aðsetur Byggðasafnsins til framtíðar.

Ávarp bæjarstjóra:

Jón Páll Halldórsson á að baki langan og farsælan starfsferil, lengstum sem framkvæmdastjóri í útgerð og fiskvinnslu á Ísafirði. Fyrir flesta hefði slíkt ábyrgðarstarf verið nægt viðfangsefni en það eru þó störf Jóns Páls í hjáverkum sem ber hæst þegar upp er staðið.

„Jón Páll Halldórsson fæddist á Ísafirði 2. október 1929, elstur fimm systkina. Foreldrar hans voru Kristín Svanhildur Guðfinnsdóttir, húsmóðir, og Halldór Jónsson, sjómaður og verkamaður á Ísafirði. Voru þau bæði af bændafólki komin, móðir hans frá Litlabæ í Skötufirði og faðir hans frá Fossum í Skutulsfirði. Jón Páll fæddist í lítilli kjallaraíbúð í Tangagötu 10 en barnsskónum sleit hann hins vegar í Hrannargötu þar sem foreldar hans keyptu íbúð árið 1934. Varð sú gata og fjörukamburinn fyrir neðan Fjarðarstrætið helsta leiksvæði Jóns Páls og systkina hans. Fyrir tilstuðlan Halldórs Sigurgeirssonar, nágranna þeirra í Sólgötu 7, gengu öll systkinin í Knattspyrnufélagið Hörð þar sem Halldór var þjálfari um árabil. Í ársbyrjun 1942 gekk Jón Páll til liðs við skátana en tvö skátafélög störfuðu þá á Ísafirði, Einherjar og Valkyrjan. Varð það upphaf ævilangs skátastarfs þar sem Jón Páll gegndi ýmsum trúnaðarstörfum og var m.a. félagsforingi Einherja í 18 ár eða frá 1959 til 1976.

Að lokinni skólagöngu á Ísafirði fór Jón Páll í Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi vorið 1948. Sneri hann þá heim aftur og gerðist skrifstofustjóri hjá Togarafélaginu Ísfirðingi. Starfaði hann þar til ársins 1961 og stýrði síðan ýmsum fyrirtækjum á Ísafirði uns hann var ráðinn framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Norðurtanga hf. árið 1969. Gegndi hann því starfi til ársins 1996 eða í rúman aldarfjórðung. Mikil uppbygging var í atvinnulífinu á Ísafirði á þessum tíma og Hraðfrystihúsið Norðurtangi eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins.

Á sumardaginn fyrsta, 23. apríl 1953, gekk Jón Páll að eiga Huldu Pálmadóttur. Foreldrar hennar voru Pálmi Gunnar Gíslason, útvegsbóndi í Ögurnesi og síðar verkamaður á Ísafirði, og kona hans Guðfinna Andrésdóttir, húsmóðir. Voru þau búsett í Ögurnesi við Ísafjarðardjúp til ársins 1945 þegar þau fluttu til Ísafjarðar. Jón Páll og Hulda hófu búskap í Grundargötu 6 þar sem þau leigðu litla íbúð í tæp sex ár. Þar fæddust tvö elstu börnin þeirra, Halldór og Guðfinna. Yngsta barnið, Pálmi Kristinn, fæddist á Engjavegi 14. Höfðu Jón Páll og Hulda fengið þar lóð til húsbyggingar og hafið framkvæmdir vorið 1956. Haustið 1958 fluttu þau í hluta nýbyggingarinnar sem var ekki tilbúin að fullu fyrr en tólf árum eftir að framkvæmdir hófust.

Jón Páll sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir samtök og fyrirtæki sjávarútvegsmanna og hraðfrystihúsaiðnaðarins. Átti hann m.a. sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, var stjórnarformaður Icelandic Freezing Plants Ltd. í Grimsby, varafiskimálastjóri, í stjórn Sambands almennra lífeyrissjóða, formaður Verslunarmannafélags Ísafjarðar og formaður Vinnuveitendafélags Vestfjarða. Jón Páll var vararæðismaður Svíþjóðar á Ísafirði og hlaut á sínum tíma riddarakross sænsku Norðurstjörnunnar. Hann hefur verið sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu og heiðursmerkjum skátahreyfingarinnar.

Jón Páll tók þátt í bæjarmálum á Ísafirði og sinnti þar öðru fremur menningar- og menntamálum. Hann sat í nefnd sem undirbjó stofnun Menntaskólans á Ísafirði og síðan í bygginganefnd skólans. Þá átti hann lengi sæti í húsafriðunarnefnd Ísafjarðar og  var formaður stjórnar Byggðasafns Vestfjarða frá 1968 til 1996. Á þeim vettvangi barðist hann ötullega fyrir friðun gömlu húsanna í Neðstakaupstað og að þar yrði aðsetur Byggðasafnsins til framtíðar. Jón Páll er heiðursfélagi Sögufélags Ísfirðinga þar sem hann hefur verið félagsmaður frá því að félagið var stofnað árið 1953. Hann var kosinn í stjórn árið 1960 og sat sem formaður frá 1979 til 2006 þegar hann ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Jón Páll hefur alla tíð borið hag Sögufélagsins fyrir brjósti og starfsemi þess verið honum hugleikin, ekki síst útgáfa ársritsins sem hefur komið út reglulega frá árinu 1956. Jón Páll átti sæti í Hrafnseyrarnefnd í rúman aldafjórðung.

Eftir að Jón Páll lét af starfi framkvæmdastjóra Norðurtangans hf. árið 1996 settist hann að fræðagrúski og ritstörfum sem hann stundaði af miklu kappi og hafði fyrr en varði skilað af sér fimm bókum sem Sögufélag Ísfirðinga gaf út. Fjalla þær mest um ísfirska atvinnusögu og leynist engum yfirgripsmikil þekking höfundar á viðfangsefninu. Vart þarf að geta þess að fjöldinn allur af greinum og ritgerðum liggur eftir Jón Pál um ýmis mál, allt eftir því hvað verið var að fást við hverju sinni.

Það er með virðingu og þakklæti sem bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar útnefnir Jón Pál Halldórsson heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Mikið og óeigingjarnt starf Jóns Páls í þágu menningarmála, ekki síst framlag hans til varðveislu héraðssögu og menningarsögulegra verðmæta, er ómetanlegt. Jón Páll er einnig verðugur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem vann hörðum höndum að uppbyggingu bæjarfélagsins á 20. öld og mótaði það samfélag sem við byggjum í dag.“

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri ávarpar heiðursborgarann Jón Pál Halldórsson.

Bæjarfulltrúarnir Kristján þ. Kristjánsson og Nanný Arna Guðmundsdóttir og Magni Guðmundsson.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Verbúðin pub – árs afmæli í gær

Aðsóknin var með mesta móti.

Í gærkvöldi, skírdag, var haldið ársafmæli verbúðarinnar pub í Bolungavík. Boðið var upp á veglega afmælisbrauðtertu og Traustasynir spiluðu og sungu af mikilli innlifun.

Veitingastaðurinn var meira en þétt setinn þegar Bæjarins besta leit inn og tók púlsinn á staðnum og mikil stemming. Rétt eins og á Dokkunni á Ísafirði, sama kvöld, mátti sjá marga brottflutta heimamenn sem voru komnir á heimaslóðir um páskana.

Hljómsveitin Óðríki sá um tónlistina. Hana skipa bræðurnir Hjörtur og Magnús Traustasynir, Valþór Atli og Bjarki Einarsson.

Afmælistertan var vegleg.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Leikfélag Hólmavíkur: frumsýning á morgun

Leikfélag Hólmavíkur heldur uppteknum hætti að setja árlega upp leiksýningu og þetta árið er það farsinn Öfugu megin uppí eftir Derek Benfield sem varð fyrir valinu. Skúli Gautason er leikstjóri, fimm leikarar taka þátt í verkefninu og fjöldi fólks leggur sitt af mörkum. Miðaverð er kr. 4.000.-

Sýningar eru í Sævangi og eru sem hér segir:

Frumsýning, laugardaginn 30. mars, kl. 20:00
2. sýning, fimmtudaginn 4. apríl, kl. 20:00
3. sýning, laugardaginn 6. apríl, kl. 20:00
4. sýning, fimmtudaginn 11. apríl kl. 20
Lokasýning, fimmtudaginn 18. apríl kl. 20

Í leikritið segir frá Fríðu sem tekur að sér að gæta sveitahótels systur sinnar eina helgi á meðan hún bregður sér í frí. Það á ekki fyrir henni að liggja að eiga náðuga daga, því gestirnir eru af ýmsu tagi. Þeir eiga þó sameiginlegt að vera í ævintýraleit og ætla aldeilis að gera sér glaðan dag og eiga góðar stundir.

Mögulegt er að fá leikhússúpu í Sævangi á undan sýningunni, ef fólk hefur áhuga á. Miðasala og pantanir í sýningar og súpu í síma 693-3474 (Ester Sigfúsdóttir).

Troðfullt á Dokkunni

Hljómsveitin Jónfrí og félagar.

Það var hvert sæti skipað og staðið við veggi á Dokkunni í gærkvöldi á tónleikum með Gosa, Kela og Jónfrí. Tónleikagestir skemmtu sér vel og nutu kvöldsins. Hákon Hermannsson framkvæmdastjóri Dokkunnar, múrari og bruggari var á þönum við afgreiðsluna ásamt fleira starfsfólki.

Fjölmargir hafa lagt leið sína vestur á firði um páskana og veitingastaðir á Ísafirði voru þéttsetnir í gærkvöldi.

Hákon Hermannsson.

Þéttsetinn salurinn á Dokkunni.

og staðið við veggi.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Nýjustu fréttir