Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 130

Vissa útgerð ehf á Hólmavík fær 500 tonna sértækan byggðakvóta

Fjórar umsóknir bárust um 500 tonna sértækan byggðakvóta á Hólmavík sem Byggðastofnun auglýsti. Stofnunin lagði til að Vissa útgerð ehf á Hólmavík og samstarfsaðilar þess fengju kvótann. Sveitarstjórn Strandabyggðar veitti umsögn um tillöguna á fundi fyrir páska og bókað er að hún leggist ekki gegn „niðurstöðu aflamarksnefndar og starfsmanna Byggðastofnunar að veita Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum þennan kvóta.“ Segist sveitarstjórnin horfa „jákvæðum augum til þeirrar uppbyggingar í veiðum og vinnslu sem Vissa útgerð ehf og samstarfsaðilar skuldbinda sig til að standa að og raungera í Strandabyggð.“

Vissa útgerð ehf á bátinn Hlökk ST 66 sem er gerður út á grásleppu og hefur 177 tonna þorskkvóta og 156 tonna kvóta af ýsu.

Strandabandalagið, sem hefur meirihluta í sveitarstjórninni, lagði fram eigin bókun þar lýst er vonbrigðum yfir því að ekki hafi tekist samkomulag milli heimamanna og Stakkavíkur frá Grindavík, „sem frá upphafi þessa ferlis hefur lýst yfir skýrum áhuga á að flyja sína fiskvinnslu til Hólmavíkur, vegna aðstæðna í Grindavík sem þjóðin þekkir vel. Að auki lá fyrir, að Stakkavík myndi leggja til viðbótarframlag með eigin kvóta og stuðla þannig að enn öflugri fiskvinnslu hér á Hólmavík, sem gæti skapað tugi starfa á sjó og í landi. Þarna var að okkar mati mikið og sjaldséð tækifæri til að efla atvinnulífi í Strandabyggð og koma á öflugri fiskvinnslu á Hólmavík, með hagsmuni allra íbúa Strandabyggðar í huga.“ Þá segir ennfremur í bókun Strandabandalagsins að það séu „vonbrigði að áhugi Stakkavíkur hafi ekki ratað inn á borð Byggðastofnunar sem skýrari valkostur og það eru líka vonbrigði að allir hlutaðeigandi hafi ekki kannað þennan kost til hlýtar.“

Strandabandalagið hvetur alla hlutaðeigandi til að hugleiða samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma, þegar það ferli fer í gang af hálfu Byggðastofnunar á næstu vikum.

Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta að Stakkavík hafi ekki sótt um aflamark Byggðastofnunar á Hólmavík en hafi verið nefnt sem hugsanlegur samstarfsaðili í einni þeirra umsókna sem bárust. „Stakkavík dró sig þó út úr því samstarfi í umsóknarferlinu auk þess sem sá umsækjandi fór fram á 5 ára úthlutun, en fyrir lá að umrædd úthlutun var einungis fyrir núverandi fiskveiðiár.“

Gefur þú sérstakan kost á þér í heima­stjórn?

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Samhliða kosn­ingum til sveit­ar­stjórnar í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar þann 4. maí næst­kom­andi verða kosnir full­trúar í heima­stjórnir. Hægt er að kjósa um alla íbúa hvers svæðis, en einstak­lingum sem vilja gefa sérstak­lega kost á sér til heima­stjórnar býðst að kynna sig og sín áherslumál í gegnum heima­síður sveit­ar­fé­lag­anna.

Kosið verður í heimastjórnir sama dag og kosið verður til sveitarstjórnar og eru tveir fulltrúar kosnir á hverjum stað. Heimastjórnirnar verða fjórar:  

  • Heimastjórn Arnarfjarðar
  • Heimastjórn Tálknafjarðar 
  • Heimastjórn Patreksfjarðar 
  • Heimastjórn Rauðasandshrepps og Barðastrandar 

Allir íbúar hvers svæðis eru í framboði og kýs hver íbúi einn einstakling á því svæði sem hann býr. Þeir tveir sem fá flest atkvæði á hverju svæði munu sitja í heimastjórn fyrir sitt svæði næstu tvö árin eða þar til kosið verður næst til sveitarstjórnar.

Heimastjórnir eru fastanefndir innan nýs sameinaðs sveitarfélags sem starfa í umboði sveitarstjórnar. Markmiðið með heimastjórnum er að heimamenn hafi aðkomu að ákvörðunum sem varða nærumhverfi sitt og geta ályktað um málefni sem snýr að viðkomandi byggðarlagi og komið málum á dagskrá bæjarstjórnar.

Í hverri heimastjórn eru þrír fulltrúar, tveir sem kosnir eru sérstaklega samhliða sveitarstjórnarkosningum og einn bæjarfulltrúi.

Öruggari Vestfirðir – svæðisbundið samráð gegn ofbeldi

Öruggari Vestfirðir er svæðisbundið samráð gegn ofbeldi, öðrum afbrotum og til að stuðla að bættri þjónustu fyrir jaðarsetta einstaklinga á Vestfjörðum.

Þann 9. apríl verður haldin vinnustofa á vegum Öruggari Vestfjarða í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði frá kl. 13:00 – 16:00.

Á vinnustofunni verða fjölmörg erindi um forvarnir og fræðslu vegna barna og ungmenna og hvernig megi þróa þverfaglega samvinnu vegna heimilisofbeldis, kynferðisbrota og einstaklinga í viðkvæmri stöðu á Vestfjörðum.

Erindum verður fylgt eftir með hópavinnu á borðum þar sem hver og einn kemur sínum sjónarmiðum á framfæri. Framkvæmdateymi um Öruggari Vestfirði vinnur svo áfram úr þeim tillögum sem fram koma og móta áhersluverkefni til að vinna að áfram.

Vinnustofan er opin öllum og þátttakendum að kostnaðarlausu. Til að áætla fjölda vegna veitinga eru þátttakendur beðnir um að skrá sig. (Sjá facebooksíðu lögreglunnar á Vestfjörðum)

Frestur til að sækja um styrki fyrir Púkann framlengdur

Púkinn, barnamenningarhátíð á Vestfjörðum verður haldinn í annað sinn 15. – 26. apríl.

Einstaklingar, skólar og stofnanir eru hvött til að efna til viðburða á hátíðinni. Þema hátíðarinnar í ár er „Hvers vegna búum við hér?“ 

 Að þessu sinni verður lögð áhersla á heimatilbúin atriði, gjarnan með þátttöku foreldra. Hátíðin verður haldin um allan Vestfjarðakjálkann og er ætluð börnum á grunnskólaaldri.

Umsóknarfrestur til að sækja um styrki til að framkvæma viðburði á Púkanum hefur verið framlengdur til miðnættis þriðjudaginn 2. apríl. Heildarupphæð styrkja verður 800.000 kr

Tveir listar í framboði í nýju sveitarfélagi

Ráðhús Vesturbyggðar.

Yfir­kjör­stjórn Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar hefur úrskurðað neðan­greinda fram­boðs­lista löglega og gilda til fram­boðs í kosn­ingum til sveit­ar­stjórnar í sameig­in­legu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar sem fram fara í sveit­ar­fé­laginu 4. maí 2024. 

Fram­boðs­list­arnir eru birtir með fyrir­vara um endan­lega stað­fest­ingu yfir­kjör­stjörnar á fram­lögðum upplýs­ingum um fram­bjóð­endur.

 

D-listi Sjálfstæðisflokksins og óháðra 

  1. Friðbjörg Matthíasdóttir, kt. 060269-4329, Sæbakka 2, Bíldudal, framkvæmdastjóri 
  2. Maggý Hjördís Keransdóttir, 070492-2889, Brunnum 20, Patreksfirði, leiðbeinandi 
  3. Jóhann Örn Hreiðarsson, kt. 120464-5239, Strandgötu 30, Tálknafirði, verkefnastjóri í eldhúsi 
  4. Freyja Ragnarsdóttir Pedersen, kt. 110798-2619, Dalbraut 15, Bíldudal, náttúru- og umhverfisfræðingur 
  5. Ólafur Byron Kristjánsson, 160984-3339, Hjöllum 21, Patreksfirði, vélfræðingur  
  6. Petrína Sigrún Helgadóttir, 100388-2439, Brunnum 18, Patreksfirði, afgreiðslustjóri  
  7. Valdimar Bernódus Ottósson, 080777-3619, Dalbraut 12, Bíldudal, framleiðslu samhæfingarstjóri  
  8. Matthías Ágústsson, kt. 050567-4279, Aðalstræti 6, Patreksfirði, skipstjóri 
  9. Guðmundur Björn Þórsson, kt. 170485-2389, Móatúni 17, Tálknafirði, verkamaður 
  10. Joanna Kosuch, kt. 110982-2249, Brunnum 13, Patreksfirði, afgreiðslustarfsmaður 
  11. Jónína Helga Sigurðardóttir, kt. 271287-2679, Mýrum 5, Patreksfirði, kennari 
  12. Guðlaug Sigurrós Björnsdóttir, kt. 030960-5999, Móatúni 17, Tálknafirði, bókasafnsvörður 
  13. Nanna Áslaug Jónsdóttir, kt. 270460-3569, Efri-Rauðsdal, Patreksfirði, bóndi.  
  14. Ólafur Steingrímsson, kt. 260250-2489, Urðargötu 22, Patreksfirði, sjómaður 

N-listi Nýrrar sýnar 

  1. Páll Vilhjálmsson, kt. 250684-2319, Brunnum 4, Patreksfirði, hafnarvörður Patrekshöfn 
  2. Jenný Lára Magnadóttir, kt. 091082-5519, Miðtúni 3, Tálknafirði, matráður Tálknafjarðarskóla 
  3. Gunnþórunn Bender, 220580-5479, Aðalstræti 119, Patreksfirði, framkvæmdastjóri 
  4. Tryggvi B. Bjarnason, kt. 010166-3739, Gilsbakka 3, Bíldudal, verksmiðjustjóri 
  5. Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, 101281-5239, Aðalstræti 10, Patreksfirði, verkefnastjóri  
  6. Jón Árnason, 160670-4529, Aðalstræti 83, Patreksfirði, skipstjóri 
  7. Jónas Snæbjörnsson, kt. 030484-2319, Tangagötu 28, Tálknafirði, fóðurstjóri 
  8. Klara Berglind Húnfjörð Hjálmarsdóttir, kt. 040979-5149, Eyri, Bíldudal, grunnskólakennari 
  9. Friðbjörn Steinar Ottósson, 250287-2329, Aðalstræti 129, Patreksfirði, upplýsingateymisstjóri 
  10. Sandra Líf Pálsdóttir, kt. 090497-2279, Brjánslækur 3, Barðaströnd, fæðingarorlof 
  11. Einar Helgason, 141270-5329, Urðargötu 26, Patreksfirði, sjómaður 
  12. Steinunn Sigmundsdóttir, 240185-4239, Hjöllum 7, Patreksfirði, fasteignasali  
  13. Hlynur Freyr Halldórsson, kt. 081194-2549, Brunnar 10, Patreksfirði, skipstjóri 
  14. Kristín Magnúsdóttir, kt. 101152-3249, Túngötu 42 b, Tálknafirði, eldri borgari 

Bolungavík: Kerecis spyrst fyrir um lóð

Kerecis, Ísafirði.

Kerecis á Ísafirði hefur spurst fyrir um lóð í Bolungavík fyrir starfsemi sína. Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri staðfestir það í samtali við Bæjarins besta. Hann segir að Kerecis hafi verið skýrt frá því hvaða lóðir væru til reiðu og var bent á iðnaðarlóðir inn á Sandi sem fyrirtækið gæti sótt um.

Jón Páll sagði að sveitarfélagið væri með mikið framboð af lóðum, bæði til atvinnustarfsemi af ýmsu tagi og íbúðarhús. Hann sagði að margar fyrirspurnir bærust um lóðir og greinilega væri mikill áhugi. Sagðist Jón Páll vera bjartsýnn á áframhaldandi uppbyggingu í sveitarfélaginu.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri.

Dynjandisheiði opin

Á Dynjandisheiði er vegurinn opinn en þæfingsfærð og skafrenningur. Steingrímsfjarðarheiði er fær svo og Klettháls, en Þröskuldar eru ófærir og unnið að mokstri. Vegagerðin segir að töf verði á opnun vegna bíla sem eru fastir á veginum.

Hálka eða hálkublettir eru víða. Þæfingsfærð er á Ennishálsi. Ófært er norður í Árneshrepp.

Dregið hefur úr vindi frá því í gær og er veður skaplegt. Nokkur vindur er á Kletthálsi og Hálfdán.

Vesturbyggð: heimila beina úthlutun lóða án auglýsingar

Patreksfjörður um sjómannadagshelgina síðustu.. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn hefur samþykkt samhljóða að bæta við ákvæði um reglur um úthlutun lóða sem heimila í sérstökum tilvikum að úthluta lóðum til lögaðila án auglýsingar.

Meginreglan er að auglýsa skuli lóðir áður en þeim er úthlutað í fyrsta sinn og komi til endurúthlutunar skuli þær auglýstar að nýju.

Bæjarstjórnin samþykkti að bæta við eftirfarandi ákvæði:

„Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er bæjarstjórn heimilt í sérstökum tilvikum vegna ríkra hagsmuna sveitarfélagsins að úthluta lóðum án auglýsingar til lögaðila vegna stærri uppbyggingarverkefna, enda liggi fyrir samningur milli sveitarfélagsins og viðkomandi aðila, þar sem kveðið er á um nýtingu og afmörkun lóðar, byggingahraða og tryggingu fyrir greiðslu gatnagerðargjalda. Einnig sé heimilt í þeim tilvikum að tryggja þurfi sveitarfélagi eða öðrum opinberum aðilum byggingarrétt að úthluta lóðum án auglýsingar.“

Bæjarstjóra var falið að birta breytinguna á heimasíðu bæjarfélagsins.

Afli í minna lagi í mars

Frá Patrekshöfn í desember sl. Mynd: Patrekshöfn.

Aflabrögð voru með minna móti í nýliðnum mánuði í þremur aflahæstu höfnum á Vestfjörðum. Í Ísafjarðarhöfn var landað 825 tonnum, litlu minna í Bolungavík eða 815 tonnum og 273 tonnum í Patrekshöfn.

Togarinn Páll Pálsson ÍS landaði 485 tonnum af bolfiski eftir 6 veiðiferðir. Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE landaði þrisvar í mars samtals 85 tonnum. Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS landaði einu sinni 197 tonnum af afurðum. Loks landaði Vestri BA 58 tonnum af rækju.

Í Bolungavík var togarinn Sirrý ÍS aflahæst með 337 tonn eftir fjórar veiðiferðir. Dragnótabáturinn Ásdís ÍS var með 26 tonn í tveimur veiðiferðum.

Þrír línubátar lönduðu í Bolungavíkurhöfn í mars. Fríða Dagmar ÍS kom með 214 tonn í 13 veiðiferðum. Jónína Brynja ÍS fór einnig 13 róðra og landaði 203 tonn og loks landaði Indriði Kristins BA tvisvar samtals 36 tonnum.

Á Patreksfirði var það línubáturinn Núpur BA sem varð aflahæstur með 233 tonn eftir fimm róðra. Sindri BA landaði einu sinni 1 tonni og Alli gamli var á handfæraveiðum og landaði 1,6tonnum. Patrekur BA var á dragnót og kom með 36 tonn í tveimur veiðiferðum.

Ekki eru komnar tölur yfir landaðan eldisfisk í mánuðinum.

Sundahöfn: Hollendingarnir komnir

Hein siglir inn Sundin.

Hollenska dýpkunarskipið Hein er komið til Ísafjarðar og mun hefja dýpkun í dag eða á morgun. Vegagerðin og Ísafjarðarhafnir ákváðu í febrúar að semja við hollenska fyrirtækið Van Der Kamp um dýpkun við Sundabakka í vor. Framkvæmdum átti fyrir löngu að vera lokið en vegna þess að dýpkunarskip Björgunar var sífellt kallað úr verkinu til dýpkunar í Landeyjarhöfn drógust framkvæmdir og leiddi það til þess að Ísafjarðarhafnir urðu af um 150 m.kr. tekjum á síðastliðnu sumri.

Hilmar Lyngmó segir að kostnaðurinn við þennan samning fyrir Ísafjarðarhöfn sé um 20 m.kr. meiri en ætla mætti samkvæmt samningi við Björgun ehf en á móti þeim kostnaði komi að ekki verður af fyrirsjáanlegu tekjutapi hafnarinnar um 150 m.kr. eins og á síðasta ári vegna þess að viðlegukanturinn var ekki tilbúinn.

Áætlað er að framkvæmdir taki um 10 daga og hefur hollenska skipið þennan mánuð til þess að vinna verkið. Fjarlægja þarf um 50 þúsund rúmmetra í Sundahöfn og svipað magn úr rennunni í Sundunum. Dæla á efninu inn fyrir fyrirtöðugarðinn við Norðurtangann.

Hein lagst að bryggju í Sundahöfn.

Myndir: Heimir Tryggvason.

Nýjustu fréttir