Sunnudagur 1. september 2024
Síða 13

Orkusjóður: 10 styrkir til verkefna á Vestfjörðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við kynningu á úthlutunum Orkusjóðs.

Tilkynnt var í gær um úthlutun styrkja úr Orkusjóði. Alls voru veittir 53 styrkir til orkuskipta samtals að fjárhæð 1.343 m.kr.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að styrkveitingarnar nú hafi þau áhrif að áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra verkefna sem styrk hljóta verði sem nemur 11 milljón olíulítrum á ári.

Samtals fengu 53 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin eru af ýmsum stærðum og koma til framkvæmda víða um land og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Alls bárust um 154 umsóknir að upphæð rúmlega 6,7 milljarða kr. Verkefnin 53 sem styrkt eru (utan innviðaverkefna) eru metin á 8,4 ma. kr., en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.

Hæsta styrkfjárhæðin til einstaks verkefnis er 75 m.kr. og er til íslenska vetnisfélagsins. Heildarkostnaður við það verkefni er 1,5 milljarður króna.

Tíu verkefni á Vestfjörðum fengu styrk samtals 99 m.kr. og nam styrkfjárhæðin þriðjungi kostnaðar hverju sinni nema í einu þar sem hlutfallið er 20% og öðru þar sem það var100%.

Ísorka ehf fékk 11.454.000 kr. styrk til orkuhleðslustöðvar í Flókalundi.

Strandabyggð fékk 14 m.kr. styrk vegna varmadælu á Hólmavík.

Orkubú Vestfjarða fékk þrjá styrki. Einn heitir upphaf orkuskipta í Flatey og er 19.3 m.kr. Orkuskipti í fjarvarmaveitu á Patreksfirði er styrkt um 11.550.000 kr. og sama upphæð til Bolungavíkur.

Vestfirskar ævintýraferðir ehf fékk 8 m.kr. styrk til rafknúins hópferðabíls á Ísafirði. Þar var styrkhlutfallið 20%.

Arna ehf í Bolungavík fékk 6,1 m.kr. styrk vegna rafmagnsketils.

Galdur Brugghús hlaut 5 m.kr. styrk vegna vistvænnar bjórframleiðslu.

Hvallátur ehf var styrkt um 3,2 m.kr. til orkuskipta í Hvallátrum.

Loks fékk Vesturbyggð 100% styrk 5,8 m.kr. til þess að leggja þriggja fasa rafmagn að Fossi í Arnarfirði.

Ný bók – Sjávarútvegur og eldi

Út er komin bókin Sjávarútvegur og eldi eftir Ástu Ólafsdóttur og Ágúst Einarsson

Í bókinni er gerð grein fyrir tveimur atvinnugreinum, sjávarútvegi og eldi, þar sem framleidd eru matvæli sem seld eru um allan heim, en nú á tímum verða matvæli að vera í boði sem víðast, allan ársins hring og á samkeppnishæfu verði.

Í bókinni er lögð áhersla á hve mikilvægt er að Íslendingar beri gæfu til þess að tryggja gæði og afhendingaröryggi afurða sinna úr sjávarútvegi og eldi á erlenda markaði alla daga ársins.

Gerð er grein fyrir sögulegri þróun sjávarútvegs og eldis og stöðu þeirra í nútímanum. Fjallað er um alla þætti sjávarútvegs, allt frá veiðum til sölu auk grunnþátta fiskeldis og áhrifum þessara atvinnugreina á samfélag og landsframleiðslu. Umhverfis- og þróunarmálum eru gerð skil auk þess sem stjórnun fiskveiða hérlendis og erlendis er lýst. Auk þess er fjallað um alþjóðavæðingu, nýsköpun og tækifæri, samfélagslega þætti, stöðu kvenna og fæðuöryggi.

Úthafsrækjuveiði dregst saman

Úthafsrækja. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir

Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við varúðarsjónarmið, að afli úthafsrækju hvors fiskveiðiárs 2024/2025 og 2025/2026 verði ekki meiri en 4537 tonn.

Ráðgjöf yfirstandandi fiskveiðiárs (2023/2024) var 5022 tonn.

Stofnvísitala úthafsrækju hefur lækkað frá árinu 2018 en er yfir varúðarmörkum.

Veiðar á úthafsrækju hófust upp úr 1970 en þær fara fram fyrir norðan land. Afli var lítill fyrsta áratuginn en jókst jafnt og þétt frá árinu 1982 þar til hámarki var náð árið 1997 en þá var landaður úthafsrækjuafli 62 þús. tonn.

Aflinn minnkaði hratt eftir árið 1997 og náði sögulegu lámarki árið 2006 þegar 600 tonnum var landað. Árlegur afli 2014-2020 var að meðaltali 3300 tonn og hefur farið minnkandi frá árinu 2012 þegar 7350 tonnum var landað.

Árið 2020 var landaður afli 1960 tonn, sem er minnsti afli síðan á árunum 2006-2008.

HEIMILDARMYNDIN VÉLSMIÐJA 1913 SÝND Á ÞINGEYRI

Vélsmiðja 1913 er stutt heimildarmynd um vélsmiðjuna á Þingeyri sögð frá sjónarhorni Kristjáns Gunnarssonar vélsmiðs.

Myndin var tekin upp vorið 2023 og var frumsýnd á Skjaldborgarhátíðinni í ár.

Mánudagskvöldið 19. ágúst kl. 20:00 verður Dýrfirðingum og öðrum gestum boðið upp á ókeypis sýningu á myndinni í félagsheimilinu á Þingeyri.

Myndin er 20 mínútur að lengd, og boðið verður upp á spurningar og spjall á eftir.

Myndin er á íslensku, og er textuð á ensku.

Myndin er framleidd af: Austan mána ehf, Kómedíuleikhúsinu og Yellow leg

Íbúafundur um Hvalárvirkjun

VesturVerk hefur boðað til fundar með íbúum Árneshrepps í Félagsheimilinu í Árnesi í Trékyllisvík mánudaginn 26. ágúst næstkomandi. Fundurinn hefst kl. 16.

Á fundinum mun Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður VesturVerks, reifa stöðuna í undirbúningi Hvalárvirkjunar og ræða við heimamenn um næstu skref.

VesturVerk hefur boðið fulltrúum Landnets á fundinn og munu þeir segja stuttlega frá verkefnum sem snúa að tengingu virkjunarinnar við flutningskerfið ásamt því að svara fyrirspurnum.

Hvalárvirkjun er virkjun sem fyrirhuguð er í Ófeigsfirði á Ströndum. Með Hvalárvirkjun á að virkja árnar Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará á Ófeigsfjarðarheiði til raforkuframleiðslu og er gert ráð fyrir að afl virkjunarinnar verði 55 MW.

Fyrirhuguð eru þrjú miðlunarlón Vatnalautalón, Hvalárlón og Eyvindarfjarðarlón.

Landshlutasamtök sveitarfélaga vinna að nýjum sóknaráætlunum

Formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtakanna funduðu í húsakynnum Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær til að undirbúa fund með innviðaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, seinna um daginn.

Á fundinum með ráðherra, þar sem einnig voru skrifstofustjórar ráðuneytisins og ráðuneytisstjóri, kynntu fulltrúar landshlutasamtakanna meðal annars starfsemi sína og mikilvægi Sóknaráætlana landshlutanna fyrir byggðaþróun í landinu og hvöttu til eflingu þeirra, en um þessar mundir eru í vinnslu nýjar sóknaráætlanir fyrir 2025-2029 í öllum landshlutum.

Knattspyrna: Vestri mætir KR á morgun

Karlalið Vestra fær KR í heimsókn á Kerecis völlinn á Torfnesi á Ísafirði á morgun. Leikurinn hefst kl 14.

Þetta er næstsíðasti heimaleikur Vestra áður en deildinni verður skipt í tvennt og spilaðar 5 viðbótarumferðir. Síðasti heimaleikurinn er gegn Fylki. Báðir þessir leikir eru mikilvægir í botnbaráttunni.

KR er í 9. sæti og Vestri í 10. sæti og í fallsætunum eru HK og Fylkir. KR er með 18 stig, Vestri og HK með 14 stig hvort og Fylkir er með 13 stig.

Í síðasta leik átti Vestri góðan leik á útivelli gegn Íslandsmeisturum Víkings og náði jafntefli. Þar áður gerði Vestri jafntefli við Skagamenn, sem eru í 4. sæti deildarinnar. Þessi úrslit sýna að liðið getur staðist bestu liðum deildarinnar snúning.

Þegar umferðunum 22 verður lokið hefst seinni hluti Íslandsmótsins. Sex efstu liðin skipa um Íslandsmeistaratitilinn og spila öll innbyrðis og áunnin stig í þeim leikjum bætast við stigin sem fengust í leikjunum 22.

Neðri sex liðin spila svo einnig innbyrðis fimm leiki hvert um það hvaða lið falla í Lengjudeildina. Í þeim leikjum er líklegt að Vestri fái tvo heimaleiki og spili þrjá útileiki. Það verður svo heildarstigatalan sem ræður úrslitum.

Það er engum blöðum um það að fletta að næstu heimaleikir eru lykilleikir fyrir Vestra, sem ætlar sér að halda sæti sínu í Bestu deildinni.

Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra sagði í samtali við Bæjarins besta að enn væri þrír leikmenn á meiðslalista og óvíst hvort þeir gætu verið með á morgun, en það styttist í þá. Það eru þeir Pétur Bjarnason, Andri Rúnar Bjarnason og Jeppe Gjerdsen.

Muggi byggir: Húsið rís

Muggi stendur við húsið og horfir yfir Hnífsdalsveginn.

Strax á öðrum degi eru Lettnesku smiðirnir komnir vel áleiðis að reisa einbýlishús Guðmundar M. Kristjánssonar á Hlíðarvegi 50 Ísafirði. Er mikill gangur í verkinu. Muggi ráðgerir að það taki aðeins þrjá daga að reisa húsið og ganga frá því að utan.

Öflugur krani er á staðnum og hífir einingarnar.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vikuviðtalið: Peter Weiss

Peter Weiss og kona hans Angela í matjurtargarði.

Ég virðist vera fastvaxinn við heimsins rass, en hef þó ávallt unað mér vel þar.

Ólst upp við landamæri Bæjaralands og Bæheims/Tékklands, í uppsveitum svo að segja. Þar sem vatnaskilin eru milli Norðursjávar og Svartahafs og hægt að hoppa yfir fjögur stórfljót á einum degi.

Svæðið gékk þá undir nafni bayrisch Sibirien. Á þeim tíma var járntjald bæði norður og austur fyrir. Og stærsti heræfingarstöð Bandaríkjamanna í Vestur-Evrópu í tíu kílómetra fjarlægð. Þar æfa nú Úkraínumenn að stýra nýju skriðdrekunum. Með falli járntjaldsins er það allt í einu orðið miðsvæðis, næstum í alfaraleið, ekki þekkjanleg frá því sem var, samt vissulega þar mesti fjöldi úlfa í öllu ríkinu. Skógurinn fer hvergi þó járntjöld falla.

Það er sagt að þurfi heilt þorp til að ala upp barn og ég átti heilt þorp og er þakklátur fyrir því.

Samt fór ég í nám jafn langt að heiman og ég komst á sambands-LÍN, í Kíl við Eystrasaltið – og ég var þakklátur fyrir því. Mér var sagt að það væri við heimsins rass og ég svaraði fullum hálsi að ég þekki þar til enda alinn upp hinum megin á rassinum.

Á námsárum kom ég í eitt ár, í raun eitt og hálft ár, til Íslands, 1987-1989. Mér var það dýrmætur tími, ekki síðst með það í huga að meta allt það sem hefur breytst síðan þá. Maður skilur ekki hve mikið landið hefur blómstrað nema að hafa upplifað það á árum áður.

Eftir námslok, í upphaf tíunda áratugarins, vann ég í litlu forlagi í Kíl, þegar ég fékk símhringingu og mér bauðst staða við Háskólann í Greifswald. Lukkupotturinn? Nú, það var hálf staða á austantjaldslaunum, enga íbúð að fá, búandi til skiptis í niðurrifshúsum, í barnaherbergjum hjá kollegum, og í óupphituðu sumarhúsi, enginn sími í fimm ár og sem verr var, ekki þvottavél heldur. Staðurinn í heild í niðurníðslu. Mest þekktur fyrir kjarnorkuverið, og jafnvel það lokað. En hvaða forréttindi að vera á þessum stað við þessi tímamót. Það býðst ekki öllum að mega fylgjast með sögulegum stórviðburðum í rauntíma á raunstað. Hvaða kjarkur, hvaða bjartsýni í fólki. Þó, jú, það var búið að segja upp öllum akademískum starfsmönnum í öllu fv. Alþýðulýðveldinu mánuði áður en ég hóf störfum þar. Fátt um leiðbeinendur til að ræða doktorsritgerð til að byrja með. Miklar rannsóknir vegna njósna, allir virtust hafa njósnað um alla, tortryggni á alla boga, jarðsprengjusvæði. Erfitt að feta sig sem útlendingur, aðkomumaður. Nú er staðurinn í blóma og varla þekkjanlegur aftur. Fimm ár sem mótuðu mig og kenndu mér að stíga varlega til jarðar enda ekki alltaf allt sem sýnist.

1997 kom ég til baka til Háskóla Íslands, fyrst sem sendikennari, svo var ég á tímabili forstöðumaður tungumálamiðstöðvar HÍ og svo stundakennari meðan ég var forstöðumaður Goethe Zentrums Reykjavík. 2005 bauðst mér á sama dag fastráðning við Hí og stöðu forstöðumanns Háskólaseturs Vestfjarða, sem þá var formlega skilgreint sem tilraunaverkefni. Ég valdi áhættu fyrir öryggi, við heimsins rass. Ég hef aldrei séð eftir því, hef unað mér hér vel síðan, hvern einasta dag.

Það býðst ekki öllum að mega vera með í að byggja upp stofnun á háskólastigi. Það eru forréttindi að kynnast öllu fólkinu sem streymir hér í gegn, nemendum, rannsóknarmönnum, kennurum, kollegum úr öllum áttum. Það eru forréttindi að vera daglega í endurmenntun við að hlusta á allt þetta fólk, setja það í samhengi innbyrðis og við heimamenn, læra daglega eitthvað nýtt og mega gefa af sér. Það eru forréttindi að mega búa í fallegu umhverfi, á fallegum stað í Önundarfirði. Og það eru forréttindi að fylgjast með hvernig einn staður af öðrum breytist úr heimsins rass í blómlega byggð. Vestfirðir eru í blóma og varla þekkjanleg frá því sem var á tímum verbúða.

Hér þarf ég varla að fara í sumarfrí, enda bý ég á stað þar sem aðrir eru í sumarfríinu. Ég er ekki sérlega ferðaglaður, fer stundum með google earth um heiminnn og með flakk.is um Ísland. Vildi alltaf ferðast til Búkóvínu, en hún er í Úkraínu og erfitt að ferðast þangað þessa daga. Ég er kominn með gróðurhús og hef gaman af, ég er af bændum kominn. Blómleg byggð byrjar með að sá fræjum. Nei, ég er ekki neitt í íþróttum, hef aldrei verið. Við eigum að keppa við okkur sjálf og frekar spila með öðrum og ekki á móti þeim. Ég er ekki einu sinni í súdóku eða þess háttar, mundi frekar taka mig til og þýða ljóð, það er flóknara. Að ferðast í heimi ljóða eru forréttindi, ekki að gleyma.

Og svo uni ég vel hag mínum þar sem ég horfi út yfir fjörðinn, þar sem vatnið og sandurinn keppast, vindur leikur sér við skýin, straumar og steinar nuddast. Ólympiuleikar náttúru. Ég á ekki sjónvarp og hef áldrei átt. Nú í dag eru til fancy heiti eins og núvitund, sem ég hef aldrei skilið hvað merkir nákvæmlega. Ég kalla það bara að gera ekki neitt. Það er stundum alveg nóg.

Ávallt að víkja, aldrei að hemla. Stundum þarf vissulega að sofa – og gera ekki neitt.

Arnarlax: 327 m.kr. í auðlindagjald í fyrra

Kvíar í Arnarfirði. Fiskeldið greiðir hærra gjald í ríkissjóð en greitt er af þorski.

Á síðasta ári greiddi Arnarlax 327 m.kr. til ríkisins í auðlindagjald af laxeldi í sjó. Var það 68% hærri fjárhæð en árið áður þegar auðlindagjaldið var 194 m.kr. Fyrsta árið sem gjaldið var innheimt var 2020 og þá nam fjárhæðin 29 m.kr.

Gjald pr. kíló hefur aukist verulega síðustu ár, sem dæmi var verið 4 krónur pr. kg. á árinu 2021 en árið 2023 var gjaldið komið í 18,30 krónur pr. kg. þetta jafngildir 459% hækkun milli tímabila.

Á þessu ári, 2024 er auðlindagjaldið, sem nefnist fiskeldisgjald í lögunum, 30,44 kr./kg og hefur hækkað um 66% milli ára.

Þriðjungur gjaldsins rennur í Fiskeldissjóð og er því ráðstafað til þeirra sveitarfélaga þar sem fiskeldið er stundað. Tveir þriðju hlutar gjaldsins rennur beint í ríkissjóð.

Á árinu 2023 veitti sjóðurinn styrki til 12 verkefna fyrir alls 248 millj. króna. Fjögur verkefni runnu til Vesturbyggðar, eitt til Tálknafjarðarhrepps og eitt til Bolungarvíkur eða samtals 127 milljónir króna á starfssvæði Arnarlax segir í kynningu Arnarlax á samfélagsspori laxeldis þess.

Nýjustu fréttir