Síða 13

Nýtt skip Hafrannsóknastofnunar á heimleið

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF 300 er nú á heimleið. Skipið var afhent í Vigo á Spáni sl. föstudag 21. febrúar, tæpum þremur árum eftir að samningur milli íslenska ríkisins og spænsku skipasmíðastöðvarinnar Astilleros Armon um smíði skipsins var undirritaður

Áhöfn skipsins hefur unnið að því að gera skipið klárt fyrir heimför en lagt var úr höfn frá Vigo þriðjudaginn, 25. febrúar.

Gert er ráð fyrir að heimsiglingin taki um það bil fimm daga en hún gæti þó dregist á langinn þar sem veðurspá er ekki hagstæð síðari hluta þessarar viku. Því er ekki ljóst nákvæmlega hvenær Þórunn leggur að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.

Eins og kunnugt er mun Þórunn taka við af rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni sem hefur sinnt hafrannsóknum allt frá árinu 1970. Búið er að ganga frá sölunni á honum og verður hann afhentur nýjum eigendum á laugardag.

Eins og kunnugt er, er nýja skipið nefnt í höfuðið á frumkvöðli rannsókna á frumframleiðni í hafinu og einum helsta svifþörungafræðingi landsins, Þórunni Þórðardóttur (1925 – 2007) en hún hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun, sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild. Þórunn vann mest allan sinn starfsaldur sem deildarstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, þar sem hún bæði hóf og stýrði íslenskum svifþörungarannsóknum um 40 ára skeið.

Patreksfjörður: strandveiðisjómenn styrkja björgunarbátasjóð um 7,5 m.kr.

Strandveiðisjómenn á Patreksfirði.

12 strandveiðisjómenn úr Krók komu saman og afhentu Smára Gestssyni styrk uppá 6,0 milljónir til Björgunarbátasjóðs Vestur Barðastrandarsýslu. Hver þeirra leggur fram 100 þúsund króna styrk á ári í 5 ár. Þá styrkir Strandveiðifélagið Krókur kaupin um 300 þúsund krónur á ári næstu fimm ár eða um 1,5 m.kr.

Gert er ráð fyrir að á vegum Landsbjargar og ríkisins komi nýtt björgunarskip til Patreksfjarðar á næsta ári. Kostnaður við skipið eru tæpar 400 m.kr. og þar af þarf um fjórðungur að koma úr heimabyggð skipsins.

Franska kvikmyndahátíðin á Ísafirði 2025 í dag og á morgun

Franska kvikmyndahátíðin verður haldin á Ísafirði dagana 28. febrúar – 1. mars. Sýndar verða þrjár myndir að þessu sinni. Seldir verða hátíðarpassar með góðum afslætti sem gilda á allar myndirnar á hátíðinni. Einnig verður hægt að kaupa miða á stakar sýningar.
Franska kvikmyndahátíðin er haldin í samstarfi við Ísafjarðarbíó, Franska sendiráðið, Alliance Francaise og Bíó Paradís.
Menningarfulltrúa franska sendiráðsins á Íslandi Renaud Durville opnar hátíðina kl. 19 föstudaginn 28. febrúar og býður gestum upp á léttar veitingar.
Snævar Sölvi Sölvason kvikmyndagerðarmaður á Ísafirði heldur stutt erindi um franska kvikmyndagerð við opnunina.

Aflagjald Vesturbyggðar : Arnarlax vann í Landsrétti

Höfuðstöðvar Arnarlax eru á Bíldudal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landsréttur staðfesti í gær dóm Héraðsdóms Vestfjarða frá 9. nóvember 2023 þar sem Arnarlax var sýknað af kröfu Vesturbyggðar um ógreidd aflagjöld vegna landaðs eldislax á árinu 2020. Vesturbyggð var auk þess dæmt til þess að greiða Arnarlaxi 1 m.kr. í málskostnað fyrir Landsrétti. Héraðsdómur dæmdi Vesturbyggð til þess að greiða 4 m.kr. í málskostnað.

Munurinn á greiddum reikningum fyrir 2020 og útgefnum reikningum Vesturbyggðar er 23,5 m.kr. Málarekstur fyrir héraðsdómi tók langan tíma þar sem málsaðilar freistuðu þess að ná sátt í deilunni. Vildi Arnarlax gera þjónustusamningur á grundvelli 5. mgr. 17. gr. hafnalaga, en Vesturbyggð hefur ekki talið forsendur til gerðar slíks samnings.

Vesturbyggð setti gjaldskrá um gjöldin 2015. Lækkaði aflagjöldin 2017 úr 0,7% í 0,6% og hækkaði aftur frá ársbyrjun 2020 aflagjöldin í 0,7% auk þess að miða aflaverðmæti á hverjum tíma við vísitölu Nasdaq. Arnarlax mótmælti breytingunum og hélt áfram að greiða miðað við eldri gjaldskrá. Mismuninn vildi Vesturbyggð innheimta og stefndi Arnarlax fyrir dómstóla til greiðslu.

Niðurstaða Landsréttar er sú sama og Héraðsdóms Vestfjarða að aflagjald í hafnalögum, sem er meginþungi innheimtunnar, eigi einungis við um afla á villtum fiski og að eldisfyrirtæki geti ekki talist sjávarútvegsfyrirtæki. Því hafi engin lagastoð verið fyrir innheimtu á aflagjaldi af eldisfiski.

Hafnalögum var breytt á Alþingi í fyrra og bætt við ákvæði um eldisgjald. Vesturbyggð hefur síðan bætt við gjaldskrá sína eldisgjaldi og er það 0,7%.

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir dóminn vera gríðarleg vonbrigði og honum fylgi mikil óvissa um gjaldtökuna á aflagjaldi af eldisfiski og Arnarlax gæti krafist þess að fá það endurgreitt.

Hún segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun á þessu stigi máls um að sækja um áfrýjunarleyfi til hæstaréttar.

Vikuviðtalið: Sólrún Ólafsdóttir

Ég er fædd í Reykjavík og ólst þar upp með þremur systkynum mínum. Ég skrapp með vinkonu minni í heimsókn til Patreksfjarðar þegar ég var unglingsstúlka og kynntist ég þá manninum mínum og Patreksfirði. Eftir 51 ár er ég hérna ennþá og kann afskaplega vel við mig og vil hvergi annarstaðar búa en í faðmi fjallanna og með útsýn yfir sjóinn.

Textinn í laginu “ er það hafið eða fjöllin sem laða mig hér að eða er það fólkið á þessum stað“ eftir hann Óla popp á svo sannarelga vel við í mínu tilfelli. Mér finnst ég vera meiri Patreksfirðingur en sumir sem hafa alist hér upp. Ég á 3 börn og ólust þau upp hérna og eftir langskólanám fluttu þau öll aftur heim til Patreksfjarðar. Þau stofnuðu fjölskyldur og á ég 10 barnabörn sem hefur verið mér ómetanlegt að hafa allt í kring um mig. Reglulega erum við öll með gæða samverustundir og höfum farið saman í ómetanlegar skemmtiferðir  vítt og breytt um landið eða jafnvel erlendis. Ég elska að brasa ýmislegt með barnabörnunum mínum og þau koma reglulega að baka hveitikökur,kanelsnúða eða pitsur með mér.

Ég er hárgreiðslumeistari og vann við það í 40 ár en hætti að starfa fyrir 2 árum á sama tíma og eiginmaðurinn minn hann Kristján Karlsson hætti vélstjórastörfum á Júlíusi Geirmundssyni eftir 33 ára starf þar. Nú njótum við lífsins í faðmi fjölskyldunnar og höfum nóg fyrir stafni. Við stundum bæði sjósund okkur til heilsubóta og það heldur okkur gangandi. Fyrir utan það er ég í saumaklúbb sem gerir „handavinnu“ og einnig í bókaklúbb sem hittist reglulega yfir vetrartímann.

Eitt af aðal áhugamálum mínum er að starfa í slysavarnadeildinni Unni en ég hef verið í henni í 36 ár og setið í stjórn í 18 ár með hléum á milli. Í dag eru 102 konur í deildinni og er hún fjölmennasta deildin á landinu. Það hefur verið gefandi að vinna að forvörnum, slysavörnum og að safna peningum fyrir öryggis og björgunarbúnaði. Verið er að smíða nýtt björgunarskip sem er áætlað að komi til Patreksfjarðar 2026 og gaf svd Unnur á síðasta aðalfundi 19.febrúar s.l 10 miljónir í sjóð til styrktar á þeim smíðum. Einnig var deildin með 13 slysavarnaverkefni / forvarnir í nærumhverfi sínu á síðasta ári. Það er ómetanlegt og óeigingjarnt starf sem konurnar í slysavarnadeildinni Unni vinna fyrir samfélagið. Ég er stolt af því að starfa og tilheyra slysavarnadeildinni Unni á Patreksfirði. Nú bíð ég spennt eftir þeim verkefnum sem framtíðin býður uppá.

Bestu sólarkveðjur frá Tenerife þar sem ég nýt lífsins í sól og blíðu með eiginmanni mínum.

Hjónin Sólrún og Kristján með börnum, tengdabörnum og barnabörnum.

Gunnlaugur Jónasson 95 ára

Gunnlaugur Jónasson í viðtalinu í Bæjarins besta 2009.

Í dag er Gunnlaugur Jónasson, fyrrverandi bóksali 95 ára. Er hann næstelstur karlmanna á Ísafirði, aðeins Jón Páll Halldórsson er eldri.

Faðir hans Jónas Tómasson tónskáld og bóksali hóf rekstur Bókhlöðunnar 20. ágúst 1920 og Gunnlaugur tók við rekstrinum í janúar 1953 og starfaði sleitulaust við hann í 40 ár, þegar sonur hans tók við rekstrinum. Í viðtali við Bæjarins besta í september 2009 fór Gunnlaugur yfir lífshlaup sitt.

Í apríl 2020 birtist á bb.is skemmtileg afmælisgrein eftir Halldór Jónsson um Gunnlaug Jónasson og Vilberg V. Vilbergsson níræða.

Þar segir Halldór um Gunnlaug:

„En bóksalinn var ekki bara bóksali. Þau eru óteljandi félögin sem hann hefur lagt lið. Hann var formaður undirbúningsnefndar að stofnun menntaskóla á Ísafirði. Hann var lengi í stjórn Tónlistarfélagsins. Hann var í undirbúningsnefnd að uppsetningu fyrstu skíðalyftunnar á Ísafirði. Gott ef hann var ekki slökkviliðsmaður líka. Svona væri hægt að telja upp lengi lengi. Svo var hann líka söngvari. Söng með kórum um áratuga skeið. Ekki síst í Kirkjukór Ísafjarðarkirkju. Umfram allt var hann ávallt tvennt. Skáti og Harðverji.“

Villi Valli og Gunnlaugur. Myndin tekin í fyrra.

Mynd: Bjarndís Friðriksdóttir.

Björgunarbátafélag V-Barðastrandarsýslu fær 2 m.kr. í gjöf

Gunnar Sean og Páll Heiðar færa Björgunarbátasjóðnum gjafirnar. Mynd: Smári Gestsson.

Þrjú fyrirtæki á Patreksfirði,Vélaverkstæði Patreksfjarðar annars vegar og Smur og dekk ásamt strandveiðiútgerð Páls Heiðars hins vegar , hafa fært Björgunarbátasjóði V-Barðastrandasýslu sitthvora miljónina til kaupa á nýju björgunarskipi.

Áður hefur sjóðurinn fengið veglegar gjafir frá Odda hf, 30. m.kr. og frá slysavarnardeildinni Unni, 10 m.kr.

Gert er ráð fyrir að á vegum Landsbjargar og ríkisins komi nýtt björgunarskip til Patreksfjarðar á næsta ári. Kostnaður við skipið eru tæpar 400 m.kr. og þar af þarf um fjórðungur að koma úr heimabyggð skipsins.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson á leið til Noregs

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson HF 30 Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson hefur verið selt til Holberg Shipping í Noregi og kveður því Hafrannsóknastofnun og heimahöfn í Hafnarfirði eftir ríflega 54 ára dygga þjónustu.

Smíðasamningur var undirritaður 11. mars 1969, skipinu hleypt af stokkunum 27. apríl 1970 en það kom til Reykjavíkur þann 17. desember 1970.

Vel var vandað til smíði Bjarna Sæmundssonar og í skipinu var ýmis nýr búnaður sem ekki hafði áður verið settur í íslensk skip. Í því eru dísel rafstöðvar sem knúa rafmótor sem knýr skipið áfram. Vélarrúm skipsins er sérstaklega einangrað og vélar og rafalar á sérstöku gúmmíundirlagi til þess að minnka hávaða og titring. Þessi búnaður var á sínum tíma alger nýlunda í íslensku skipi og síðan hefur hann aðeins verið settur í eitt annað íslenskt skip, þ.e. hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson sem kom nýtt til landsins árið 2000. Innleiðing þessarar tækni á sínum tíma leiddi til töluverðs sparnaðar á olíunotkun.


Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknaleiðangur þann 6. janúar 1971. Skipið hefur gengt fjölþættum verkefnum í sambandi við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum.

Mottumars er hafinn og sokkar í sölu

Í Mottumars, árlegu átaki Krabbameinsfélagsins, fer fram vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og aflar félagið um leið fjár fyrir mikilvæga starfsemi Krabbameinsfélagsins.

Í ár er áhersla Mottumars á tenginguna á milli lífsstíls og krabbameina. Krabbameinsfélagið vill í Mottumars vekja athygli á að bæði óheilbrigðar og heilbrigðar lífsvenjur verða til á löngum tíma. Skilaboðin eru einföld.  Lífsstíll er ekkert til að grínast með, hann er þvert á móti dauðans alvara.

Að minnsta kosti þriðja hvert krabbameinstilvik tengist lífsstíl. Þó að enginn sé öruggur er hægt að draga úr líkum á krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Þar getum við svo sannarlega gert betur og tilfinningin er að of margir karlmenn taki lífsstíl sinn ekki nógu alvarlega. Því viljum við breyta. 

Óheilsusamlegur lífsstíll er summan af mörgum litlum, slæmum ákvörðunum sem teknar eru hversdagslega yfir langan tíma. Hver og ein ákvörðun vegur ekki þungt en samanlagt geta þær skaðað heilsuna og meðal annars aukið líkurnar á krabbameinum. 

 

Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló.

Hönnunin byggir á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn. 

Allur ágóði af sölu Mottumarssokkunum rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum.

172.700.000 kr til úthlutunar úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis 

Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna og verkefna sem styðja við markmið sjóðsins um lágmörkun umhverfisáhrifa af völdum sjókvíaeldis.

 Til úthlutunar á árinu 2025 eru kr. 172.700.000,-.

Stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar geta sótt um styrki til sjóðsins. 

Hlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats og vöktunar. Sjóðurinn getur jafnframt greitt kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður eftir því sem fjármagn leyfir. Verkefnum er forgangsraðað í samræmi við framangreint hlutverk og áherslur stjórnar hverju sinni.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á allar umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkfjárhæð. Við úthlutun ársins 2025 mun stjórn hafa lögbundið hlutverk sjóðsins til grundvallar úthlutunar, en auk þess líta sérstaklega til verkefna sem stuðla að aukinni þekkingu á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á vistkerfi fjarða og verkefna sem ganga út á eflingu mótvægisaðgerða vegna umhverfisáhrifa sjókvíaeldis.

Stjórn sjóðsins skipa: Kolbeinn Óttarsson Proppé, án tilnefningar, formaður stjórnar sjóðsins, Hildur Hauksdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Þorgils Torfi Jónsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga og Valgerður Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.

Vakin er athygli á því að loka- og framvinduskýrslur verkefna sem sjóðurinn styrkir skulu almennt vera aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins, sbr. starfsreglur stjórnar. Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhag eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra einstaklinga og lögaðila er tengjast verkefnum á vegum sjóðsins skulu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál að því marki sem lög takmarka ekki.

Nýjustu fréttir