Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 129

Náttúrustofa auglýsir eftir fuglafræðingi – Helst til starfa á Hólmavík

Náttúrustofa Vestfjarða auglýsir eftir metnaðarfullum og hæfum fuglafræðingi. Viðkomandi mun taka þátt í verkefnum á borð við umhverfismat, hefðbundnar vaktanir og sérhæfðar rannsóknir.

Til að byrja með mun viðkomandi takast á við verkefni sem notast við „Vantage Point Survey“ og ratsjá til að meta flugáhættu tengt fyrirhuguðu vindmyllugarði á Vestfjörðum.

Þetta er spennandi tækifæri til að hafa áhrif á þróun reglugerðar sem tengist umhverfisáhrifum notkunar vindmylla til raforku framleiðslu á Íslandi.

Umsækjandi þarf að hafa sérstakan áhuga á fuglalíffræði og vistfræði. Viðkomandi ætti einnig að vera vel fær í útivinnu, hafa mikinn áhuga á náttúru, vera lausnamiðaður, sjálfstæður, þolinmóður, vinna vel með öðrum og vera mjög skipulagður.

Einnig þarf umsækjandi að hafa reynslu eða áhuga á, að vinna með vindorku fyrirtækjum að vistvænum lausnum.

Náttúrustofa Vestfjarða er með aðsetur í Bolungarvík, Hólmavík og á Patreksfirði. Æskilegt væri að viðkomandi myndi búa á Hólmavík en hefur samt sem áður val um þessar þrjár staðsetningar.

Mikið um él og snjókomu í Árneshreppi í mars

Mikið var um snjókomu eða él í mánuðinum

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík er tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni og birtist á vefsíðunni litlihjalli.it.is.

Mæligögn:

Úrkoman mældist 80,5 mm. (í mars 2023: 25,8 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.

Þurrir dagar voru 8.

Mestur hiti mældist þann 8: +9,5 stig.

Mest frost mældist þann 2: -7,5 stig.

Meðalhiti mánaðarins var -0,2 stig. (í mars 2023: -2,5 stig.)

Meðalhiti við jörð var -2,97 stig.  (í mars 2023. -5,7 stig.)

Alhvít jörð var í 25 daga.

Flekkótt jörð var í 6 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 23: 46.CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Úrkomusamt var frá miðjum mánuði.

Það snjóaði talsvert þann 15 í hægviðri og fram á 16.

Þann 17 og 18 var allhvasst, hvassviðri eða stormur með talsverðri snjókomu, fram á morgun þann 19.

Þann 20 um kvöldið gekk í allhvassa NA eða ANA átt með snjókomu. Þann 21 var slydda og síðan snjókoma og hvassviðri og síðan stormur um tíma. Þann 22 var allhvöss norðanátt með snjókomu. Veðrið gekk síðan niður þann 23. Síðan voru él og skafrenningur út mánuðinn.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu tekur til starfa

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áform um nýja þjónustustofnun og viðamiklar breytingar á menntakerfinu í upphafi kjörtímabils

Þann 1. apríl sl. tóku gildi ný lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Um er að ræða nýja þjónustu- og þekkingarstofnun sem starfar í þágu barna og ungmenna á sviði menntamála.

Stofnunin þjónustar leik-, grunn- og framhaldsskóla um land allt með áherslu á gæði menntunar og skólaþjónustu.

Með gildistöku laganna var Menntamálastofnun lögð niður og færðust ýmis verkefni yfir til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Meðal þeirra verkefna eru:

  • Afgreiðsla og útgáfa leyfisbréfa kennara, náms- og starfsráðgjafa og bókasafns- og upplýsingafræðinga.
  • Veiting undanþága til lausráðninga í kennslustörf.
  • Móttaka tilkynninga um ráðningar kennsluréttindanema.
  • Veiting viðurkenninga til einkaskóla á framhaldsskólastigi.
  • Staðfesting þjónustusamninga sjálfstætt rekinna skóla.
  • Eftirlit með skólastarfi og ytra mat.
  • Ábyrgð á alþjóðlegum verkefnum, t.d. PISA, EURYDICE og TALIS.

Ítarlegri upplýsingar um verkefnin og fyrirkomulag þeirra verða birtar á vef Stjórnarráðsins á næstunni.

Þá verður dreifibréf sent til allra grunn- og framhaldsskóla landsins, skólaskrifstofa og sveitarfélaga þar sem kynntar verða breytingar á afgreiðslu undanþága til kennslustarfa.

Hólmavík: Óánægja með ráðstöfun sértæka byggðakvótans

Café Riis á Hólmavík.

Greinilegrar óánægju gætir hjá meirihluta sveitarstjórnar í Strandabyggð með ákvörðun Byggðastofnunar um ráðstöfun 500 tonna sértæka byggðakvótans sem ætlað er að að bæta atvinnuástand á staðnum vegna lokunar á rækjuverksmiðju Samherja síðastliðið sumar.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri vísar spurningum Bæjarins besta um áformin á nýtingu kvótans til Vissu útgerðar ehf og til Byggðastofnunar og segir að Byggðastofnun verði að svara því beint hver áhrifin af kvótanum verði.

Aðspurður um hvað hafi orðið til þess að ekki var úthlutað til Stakkavíkur segir Þorgeir að Byggðastofnun vildi „meina að fyrirtækið væri ekki aðili að neinni formlegri umsókn, þó svo hafi verið í upphafi og þó svo áhugi Stakkavíkur hafi alltaf legið fyrir.  Ég vísa að öðru leyti á Byggðastofnun.“

Byggðastofnun hefur ekki enn svarað fyrirspurn um það hvaða umsóknir bárust um byggðakvótann og hvað áætlað er að mikið magn fari í gegnum fiskvinnslu á staðnum vegna sértæka byggðakvótans.

Í bókun meirihluta sveitarstjórnar, Strandabandalagsins, um málið í síðustu viku segir að Stakkavík frá Grindavík hafi lýst yfir skýrum áhuga á að flyja sína fiskvinnslu til Hólmavíkur, vegna aðstæðna í Grindavík og myndi leggja til viðbótarframlag með eigin kvóta og „stuðla þannig að enn öflugri fiskvinnslu hér á Hólmavík, sem gæti skapað tugi starfa á sjó og í landi.“ Segir í bókuninni að um 1.500 – 2.000 tonna fiskvinnslu gæti verið að ræða og hugsanlega enn umfangsmeiri á næstu árum.

Strandabandalagið hvetur alla hlutaðeigandi til að hugleiða samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma.

Strandabandalagið hefur boðað til opins fundar um atvinnumál í Riis húsinu a morgun kl 20.

Sundahöfn: dýpkun skotgengur

Hein við dýpkun í Sundahöfn í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hollenska dýpkunarskipið Hein hóf dýpkun í Sundahöfn í gær. Ekki tókst að losa sandinn við Norðurtangann eins og til stóð þar sem of grunnt er þar og skipið hafði ekki nógu langt rör til að blása sandinum innfyrir fyrirstöðugarðinn. Var því farið með sandinn úr í Djúpálinn og honum losað þar. Samkvæmt upplýsingum á Marine traffic fór skipið 5 ferðir í gær. Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að um 2.000 tonn af sandi séu í hverri ferð. Nú hefur fengist heimild til þess að losa sandinn í Suðurtanga við geymsluhúsnæði og geyma hann þar. Átti Hilmar von á því að fyrsta losunin yrði nú á eftir.

Alls er áætlað að að ná um 50 þúsund rúmmetrum af sandi upp úr Sundahöfn og svipuðu magni úr Sundunum.

Lögreglan á Vestfjörðum: bílvelta á Steingrímsfjarðarheiði og slagsmál á Ísafirði

Í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum segir að páskarnir hafi að mestu farið vel fram á Vestfjörðum samkvæmt þeim upplýsingum sem lögregla hefur í sínum fórum:

Aðfaranótt skírdags var einstaklingur handtekinn en við leit á honum fundust fíkniefni og áhöld þeim tengd.

Þá var einstaklingur undir lögaldri inni á vínveitingastað á Ísafirði sömu nótt en honum var ekið heim enda er dvöl einstaklinga yngri en 18 ára óheimil á vínveitingastöðum eftir kl. 22 nema með forráðamönnum eða öðrum nánum aðstandendum 18 ára eða eldri.

Á föstudaginn langa barst tilkynning um bílveltu á Steingrímsfjarðarheið og kom fram að þrír væru í bifreiðinni. Sem betur fer urðu ekki teljandi slys á fólki.

Aðfaranótt laugardags var tilkynnt um slagsmál í miðbæ Ísafjarðar en þau enduðu án vandræða og eftirmála.

Aðfaranótt páskadags átti sér stað líkamsárás í miðbæ Ísafjarðar. Meintur gerandi var handtekinn og vistaður í fangageymslum en hann hafði auk þess verið til vandræða á skemmtistað í bænum skömmu áður.

Sá handtekni var sá eini sem vistaður var um páskana í fangageymslum og er það fremur jákvætt ef miðað er við síðustu ár.

Þá voru einungis þrír ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur frá miðvikudegi til 2. dags páska sem er einnig margfalt minna en verið hefur síðustu ár. Lögregla lítur það mjög jákvæðum augum sér í lagi þar sem mest allt eftirlit með ökuhraða fór fram meðan veður og færð voru góð.

Skemmtanahald á Vestfjörðum fór almennt vel fram þrátt fyrir fjölda fólks á svæðinu og viðburði af ýmsum stærðum og gerðum.

Þá fór tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fram á Ísafirði í tuttugasta sinn. Hátíðin gekk mjög vel fyrir sig en mikill fjöldi fólks sótti hátíðina.

Saman gegn sóun á Ísafirði -opinn fundur á Ísafirði 16. apríl

Umhverfisstofnun hefur verið falið að endurskoða stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir – Saman gegn sóun. Mikilvægur liður í þeirri vinnu er að fá innsýn í sjónarmið fólks, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana um land allt.

Þann 16. apríl frá kl. 13:00-15:30 verður Umhverfisstofnun með opinn fund í Edinborgarhúsinu þar þátttakendur fá fræðslu um þau tækifæri sem liggja í bættri nýtingu og minni sóun og færi á að koma með tillögur að aðgerðum.

Frítt inn og léttar veitingar – öllum fundum verður einnig streymt.

Hér er viðburðurinn á Facebook
Skráning er nauðsynleg – sjá hér

HVAÐ ERU ÚRGANGSFORVARNIR?

• Hvernig komum við í veg fyrir að verðmæti verði að rusli?
• Hvernig nýtum við hluti, efni og auðlindir betur og lengur?
• Hvernig getur fjármagn og regluverk hjálpað fyrirtækjum í átt að minni sóun?
• Hvaða ávinning hefur þetta allt saman í för með sér fyrir fyrirtæki og fólk?

Þetta er kjarninn í stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir – Saman gegn sóun.

FYRIR HVER?

• Öll!
• Starfsfólk fyrirtækja
• Starfsfólk sveitarfélaga og stofnana
• Nemendur
• Almenning

AF HVERJU ÆTTI ÉG AÐ MÆTA?

• Tækifæri til að hafa bein áhrif á stefnu stjórnvalda og koma sjónarmiðum þínum eða þíns vinnustaðar á framfæri
• Fræðsla um hringrásarhagkerfið
• Innblástur frá fyrirtækjum á svæðinu
• Tækifæri til að spyrja sérfræðinga spurninga
• Tækifæri til að ræða við fólk og fyrirtæki af svæðinu um þessi mál

DAGSKRÁ

• Starfsfólk Saman gegn sóun hjá Umhverfisstofnun segir frá verkefninu: Hver er staðan á Íslandi? Hvaða tækifæri eru til að gera enn betur?
• Erindi frá aðilum á svæðinu
• Samtal um aðgerðir

Nánari dagskrá auglýst á næstu dögum!

Nei var ekki svar

Kristján K. Jónasson. Myndir: Bæjarins besta/Ljósmyndasafnið Ísafirði.

-nokkrir punktar af hjónunum Hansínu Einarsdóttur og Kristjáni Jónassyni

Formáli:

Fátt flýgur hraðar í lífi síðmiðaldra manns en tíminn. Þrátt fyrir að eins og gerst hafi í gær eru þessa dagana þrjátíu ár frá því að snjóflóð féll af Seljalandsdal niður í Tunguskóg. Hrifsaði með sér nánast öll mannvirki Paradísar skíðamanna á Seljalandsdal ásamt flestum sumarhúsum í Tunguskógi. Hjóm eitt var það tjón er það fréttist að Kristján Knútur Jónasson hefði látist af völdum meiðsla er hann hlaut þegar snjóflóðið hrifsaði með sér sumarbústað þeirra hjóna, hans og Hansínu Einarsdóttur.

Mörgum árum síðar, þegar eldri knattspyrnuhetjur komu saman á Ísafirði voru tekin saman, með margra manna hjálp,  nokkur orð um Kristján og að sjálfsögðu Hansínu líka.

Þá er þrjátíu ár eru liðin frá þessum hörmulega atburði í Skutulsfirði voru þessi orð yfirfarin að beiðni ritstjóra bb.is, skorin niður og endurbætt til minningar um þau heiðurshjón Hansínu og Kristjáns.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að stærstur hluti félagsstarfs á Íslandi er borið uppi af sjálfboðaliðum. Gildir þá einu hvort félögin eiga rætur í menningu, listum, stjórnmálum, björgunarmálum að ekki sé talað um rekstur íþróttafélaga. Það að auki starfa fjölmörg mannúðar- og líknarfélög sem eingöngu afla fjár til þess að styðja við bakið á ýmsum þjóðþrifaverkefnum. Eins og gengur er fólk misjafnlega virkt í félagsstarfi. Þeir eru án efa ekki margir sem sigla í gegnum lífið án þess að ganga í neitt félag. Fleiri taka um tíma þátt í slíku starfi og oft er það tengt áhuga afkomendanna á því starfi. Sumir eru miklar félagsverur og geta ekki hugsað sér annað en mikil afskipti af félagsmálum. Svo eru það örfáir í hverju samfélagi sem eru bókstaflega potturinn og pannan á mörgum sviðum félagslífs, oft nefndir félagsmálatröll. Einn og einn verða með störfum sínum eins konar andlit eða samnefnari tiltekins félagsstarfs.

Félagsmálatröllin

Saga Ísafjarðar hefur að geyma mörg félagsmálatröll sem voru svo afkastamikil að félagsskapurinn og maðurinn urðu eitt í hugum fólks.

Þegar nafn Kristjáns Jónassonar var nefnt kom fótbolti þar oftast einnig við sögu. Og þá var óhugsandi annað en nafn eiginkonu hans  Hansínu Einarsdóttur væri langt undan. Um áratuga skeið var þeirra líf mjög bundið þessari skemmtilegu íþrótt. Ekki sem aðalstarf heldur sem hugsjónastarf meðfram annasömu brauðstriti sem skilaði fimm börnum til manns.

Uppruni þeirra hjóna

Kristján Knútur Jónasson  fæddist á Ísafirði 19.nóvember 1934 og bjó þar alla tíð og var neðribæjarpúki að upplagi.  Hann var sonur Jónu Petólínu Sigurðardóttur og Jónasar Guðjónssonar. Á sumrum og að loknu gagnfræðaprófi stundaði Kristján almenn störf til sjós og lands uns hann hóf nám í húsasmíði. Hann lauk sveinsprófi og síðar meistaraprófi í þeirri iðn. Árið 1976 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Djúpbátsins hf. og gengdi því starfi til dauðadags.

Hansína Einarsdóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 13.nóvember 1940. Foreldrar hennar voru Jósíana Magnúsdóttir og Hjörtur Jónsson. Hún var kjördóttir Ólafar Magnúsdóttur og Einars Steindórssonar í Hnífsdal,  þar sem hún ólst upp. Hún stundaði nám bæði í Hnífsdal og á Ísafirði. Um árabil starfaði hún með föður sínum Einari hjá Hraðfrystihúsinu hf. í Hnífsdal.

Hansína og Kristján gengu í hjónaband  þann 6.júní 1959. Þau eignuðust, eins og áður sagði,  fimm börn, Einar Val, Kristin Þóri, Steinar Örn, Ólöfu Jónu og Guðmund Annas. Þau hjón reistu sér hús að Engjavegi 29 sem þau fluttu í um miðjan sjöunda áratuginn og bjuggu þar síðan.

Keppnisferillinn

Kristján fékk snemma mikinn áhuga á íþróttum og æfði og keppti í öllum aldursflokkum í knattspyrnu undir merkjum Vestra og um tíma lék hann einnig með meistaraflokksliði ÍBÍ. Kristján spilaði oftast á vinstri vængnum og var fljótur og lunkinn leikmaður. Fylginn sér og náði að skora mörk með ýtni sinni og poti. Hann var mjög kappsamur og gaf allt sitt í leikinn. Stundum var kappið um of og það lýsti sér best í tæklingum hans. Hann fórnaði sér án margra undantekninga. Því fylgdi að stundum varð hann of seinn og það kostaði meiðsli. Stundum eru meiðslagjarnir menn kallaðir seinheppnir en skýringuna hvað Kristján varðar var að leita í kappseminni. Hann glímdi því oft við erfið meiðsl og vera kann að þau hafi stytt nokkuð feril hans sem knattspyrnumanns. Einnig var sjómennskan auðvitað ekki óskastarf hvað árangur í íþróttum varðar.

Kristján var frá upphafi afar félagslyndur maður og fór fljótt að starfa að félagsmálum. Hann varð félagshyggjumaður og mátti ekkert aumt sjá. Eflaust hefur bakgrunnur Kristjáns mótað þessar lífsskoðanir hans. Á bernskuheimili hans voru ekki mikil efni frekar en á fjölmörgum öðrum alþýðuheimilum á þeim tíma auk þess sem móðir hans, Jóna Petólína, var fötluð á fæti sem ekki hefur auðveldað lífsbaráttuna þó hún væri annálaður dugnaðarforkur.

Félagmálamaðurinn

Fljótlega eftir að knattspyrnuferlinum lauk hóf Kristján afskipti af félagsmálum knattspyrnuíþróttarinnar. Fyrst sat hann í stjórn Knattspyrnuráðs Ísafjarðar í formennskutíð Friðriks Bjarnasonar (Didda málara) og undir lok sjöunda áratugs síðustu aldar var Kristján formaður ráðsins um tíma. Það var fleira sem stjórn Knattspyrnuráðs hafði um að hugsa en að halda umfangsmiklum rekstri gangandi. Á sjöunda áratugnum hafði svæði knattspyrnuvallarins við Grund verið tekið undir húsbyggingar. Í staðinn hófst uppbygging íþróttasvæðisins á Torfnesi og var malarvöllurinn þar tekinn í notkun árið 1962. Í raun má segja að þegar sá völlur var tekinn í notkun hafi aðstaðan á Torfnesi verið verri en hún var við Grund því ekkert var vallarhúsið á Torfnesi. Þurftu keppendur að klæðast í búningsklefum í Sundhöllinni og aka þaðan eða hlaupa á Torfnes.

Kristján skipaði sér því snemma í hóp þeirra sem börðust fyrir frekari framkvæmdum á Torfnesi og var þá sérstaklega nefndur grasvöllur. Eftir mikla baráttu tókst að hefja framkvæmdir við nýjan grasvöll sumarið 1979. Kristján og félagar hans skipulögðu mikla sjálfboðaliðsvinnu, meðal annars við tyrfingu vallarins og skipti það sköpum við framkvæmdina. Kristján var formaður knattspyrnuráðs þegar völlurinn var tekinn formlega í notkun með leik ÍBÍ og Þróttar frá Neskaupstað þann 19.júlí 1980. Leiknum lauk að sjálfsögðu með sigri heimamanna sem skoruðu þrjú mörk en aðkomumenn ekkert. Dýrfirðingurinn Andrés Kristjánsson varð fyrstur liðsmanna ÍBÍ til þess að skora á vellinum eftir stoðsendingu frá Vestramanninum Haraldi Leifssyni. Þá hófst á svipuðum tíma bygging vallarhúss á Torfnesi en sú bygging var tekin í notkun að hluta sumarið 1982.

Þegar Kristján lét af formennsku í stjórn KRÍ síðla árs 1980 hafði hann safnað saman í stjórnina samstæðum hópi manna sem fengu það verkefni að freista þess að koma liði ÍBÍ í efstu deild. Löngum  hafði lið ÍBÍ spilað í næst efstu deild frá því að Kristján og félagar hans spiluðu í efstu deild árið 1962. Aðeins einskær óheppni varð til þess að liðið komst ekki upp haustið 1978 en haustið 1981 tókst liðinu að komast í hóp þeirra bestu og þar lék liðið í tvö ár. 

Árið 1980 var Kristján kosinn til setu í stjórn KSÍ fyrir hönd síns landshluta þar sem hann sat til æviloka.

Þrátt fyrir að Kristján sæti ekki í stjórn KRÍ eftir 1980 var hann þó virkur þáttakandi í knattspyrnustarfinu með einum eða öðrum hætti.

Stjórnmálamaðurinn

Það er oft svo að þeir sem af alvöru gefa sig að félagsmálum verða eftirsóttir til annarra félagsstarfa. Svo var einnig um Kristján. Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1978 gaf hann kost á sér til setu á framboðslista Alþýðuflokksins.. Hann náði sæti í bæjarstjórn þar sem hann sat í tólf ár eða þar til hann ákvað að draga sig í hlé fyrir kosningarnar 1990. Hann var kjörinn forseti bæjarstjórnar að loknum kosningum árið 1982 og gegndi því embætti samfellt í tvö kjörtímabil eða til ársins 1990.

Sem stjórnmálamanni var Kristjáni ekkert óviðkomandi. Hann beitti sér ötullega í flestum málaflokkum þó atvinnumálin og íþróttamálin hefðu ávallt verið ofarlega í hans huga. Í bæjarstjórn barðist hann ötullega fyrir byggingu nýs íþróttahúss á Torfnesi. Það varð mikill slagur við ríkisvaldið sem greiða skyldi hluta byggingarkostnaðar. Í upphafi stóð slagurinn um stærð hússins en ríkið vildi einungis byggja hús sem nægði til kennslu. Bæjarstjórn Ísafjarðar vildi hins vegar að byggingin yrði af „ólympískri stærð“ eins og Kristján nefndi oft. Að lokum, ekki síst fyrir þrautseigju Kristjáns, tókust samningar við fjármálaráðherra sem þá var Jón Baldvin Hannibalsson. Jón Baldvin lýsti glímu þeirra Kristjáns svo að hann hafi smitast af þrautseigju Kristjáns og ýtni. Hann hafi ekki tekið nei fyrir svar. Þegar að lokum byggingarframkvæmda var komið þurfti að velja gólfefni á húsið. Um nokkurra ára skeið höfðu gólf íþróttahúsa hérlendis verið lögð gólfdúk en ekki parketi. Gólfdúkurinn þótti hagkvæmari í innkaupum og auk þess ódýrari í viðhaldi. Sem betur fer varð sjónarmið Kristjáns og félaga ofaná.

Á gólfið var lagt parket af bestu gerð öllum notendum hússins til mikillar ánægju. Það gólfefni hefur meðal annars tryggt að húsið hefur komið að notum í margt fleira við íþróttaæfingar og keppni. Einnig var húsinu breytt á byggingarstigi og tryggt að fólksbílar og vörulyftarar gætu keyrt inní húsið og þannig auðveldað að setja upp stórar sýningar og aðra viðburði. Þá var einn hluti hússins sérstaklega hljóðeinangraður til tónleikahalds. Sömuleiðis var í fyrsta skipti í íþróttahúsi hérlendis merktur sérstaklega völlur til keppni í boccia þannig að hugsað var fyrir þörfum sem flestra íþróttamanna. Ekki þarf hér að rekja þá byltingu sem húsið olli í iðkun íþrótta og árangur í keppnisíþróttum lét ekki á sér standa. Nægir þar að nefna góðan árangur körfuknattleiksmanna og síðar handknattleiks- og blakmanna.  Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í mars 1987 og það var formlega tekið í notkun 19.september 1994.

Umferðarmiðstöðin Engjavegur 29

Þó knattspyrnan væri uppáhaldsíþrótt Kristjáns hafði hann brennandi áhuga á framgangi annarra íþróttagreina. Ísfirðingar hafa löngum verið fremstir í flokki skíðamanna á Íslandi og því mikil vinna að halda utan um starfsemi þeirrar íþróttagreinar í bænum auk þess sem skíðasvæðið góða á Seljalandsdal var að stærstum hluta byggt upp með sjálfboðavinnu. Kristján tók þátt í þeirri vinnu eins og margir aðrir íþróttaáhugamenn. Um tíma sat hann svo í stjórn Skíðaráðs Ísafjarðar. Þó ekki væri mikill tími aflögu í önnur áhugamál tók Kristján þátt í starfi Lionsklúbbs Ísafjarðar og veiðiskapur var honum einnig að skapi og fór um árabil í veiðiferðir með félögum sínum.

Maður sem sinnir jafn tímafrekum aukastörfum og Kristján gerði hefur jafnan ekki tök á slíku nema með góðu samkomulagi við maka sinn og fjölskyldu. Þar kom Hansína til skjalanna. Svo samstíga voru þau hjónin í störfum hans að um áratuga skeið var talað um þau sem eitt þegar að þeim störfum kom. Börn þeirra þekktu ekki annað en mikinn eril á heimilinu hvort heldur var vegna aðalstarfa þeirra hjóna eða aukastarfa. Þau vissu því ekki í raun „venjulegt“ heimilislíf fyrr en þau sjálf stofnuðu heimili. Það sem má flokkast undir það „óvenjulegt“ í þessu sambandi var að smám saman varð heimilið að nokkurs konar umferðamiðstöð íþróttafólks. Ekki var óalgengt að íþróttafólk sem kom til keppni á Ísafirði gisti á heimilinu að ekki sé talað um allt það fólk sem kíkti við í mat eða kaffi eða bara til þess að spjalla fyrir eða eftir leik eða mót. Allir voru velkomnir á Engjaveginn.

Stundum gat nú börnunum þótt nóg um. Sérstaklega ef í gangi voru söluherferðir. Þá endaði stundum óseld vara á Engjaveginum og kom það þá oft í hlut heimilisfólks að selja afganginn. Ekki var óalgengt að húsið hálffylltist af afskornum blómum þegar árlega blómasala knattspyrnumanna um Hvítasunnu stóð yfir. Stundum vissu börnin varla hvort verið var að selja fyrir skíðamenn, knattspyrnumenn, Lionsmenn eða kvenfélagið Hvöt í Hnífsdal, þar sem Hansína var einn af burðarásum lengi.

Foreldrar og íþróttir

Að sjálfsögðu smituðust börnin af íþróttaáhuga foreldranna því þótt ekki margir muni það í dag þá stundaði Hansína handknattleik á yngri árum og keppti í þeirri íþróttagrein. Ekki var þó beinn þrýstingur á börnin að stunda íþróttir en þau hrifust með.

Þegar komið var í keppni studdu foreldrarnir þétt við bakið á börnum sínum. Kristján sýndi oftast talsverða stillingu þegar hann fylgdist með knattspyrnuleikjum. Hansína lét oftast meira í sér heyra og var því fyrirferðarmeiri við völlinn þó aldrei yrði það til vansa.

Hansína með Einari Val og Kristni.

Kristinn sonur þeirra var um tíma keppnismaður bæði í knattspyrnu og á skíðum. Hann sagði föður sinn hafa sýnt mikla útsjónarsemi í hvatningu sinni þegar hann keppti í skíðagöngu. Hans helsti keppinautur á þeim árum var nágranni þeirra af Seljalandsveginum Haukur Oddsson. Kristinn segir föður sinn hafa haft þann háttinn á að stilla sér þannig upp við brautina að hann gæti hlaupið spöl á eftir sér tvisvar í hverjum hring. Þar sem göngumenn eru ræstir í brautina á misjöfnum tíma skipti miklu máli að fá nákvæmar upplýsingar um millitíma keppinautanna. Kristinn segir það aldrei hafa brugðist að faðir sinn hefði kallað á eftir sér „samkvæmt mínum tíma er hann alveg að ná þér“. Oft var þetta hvít lygi. Aðalmálið var að með þessu veitti kall drengnum hæfilega hvatningu.

Formlegheitin

Það verður seint sagt um Kristján að hann hafi verið maður formlegheitanna, þrátt fyrir að hafa gegnt starfi forseta bæjarstjórnar um átta ára skeið. Það starf varð þó, í það minnsta í þá daga,  að teljast starf sem krefst nokkurra formlegheita. Sérstaklega á það við um fundarstjórn. Kristján hefur án efa talið of mikil formlegheit seinka framgangi góðra mála. Betra væri að ganga hratt til verks þó það væri á kostnað nákvæmninnar. Fræg er sagan af viðskiptum hans og Einars Garðars Hjaltasonar á fundi bæjarstjórnar. Umræðan hafði lengst meira vegna ágreinings en Kristjáni líkaði. Hóf hann þá að kynna Einar Garðar sem Einar Hjaltason. Því framferði forseta mótmælti Einar Garðar og taldi styttingu nafns síns vera óvirðingu við sig. Kristján afgreiddi málið á þann veg að þar sem umræðan hefði dregist á langinn hefði hann ákveðið að nota aðeins annað eiginnafnið til þess að stytta fundinn. Lauk þar deilum þeirra í það skiptið.

Einar Garðar sagði síðar að sem bæjarfulltrúi hefði Kristján verið mikill hugsjónamaður. Oft á tíðum fljóthuga og framkvæmdasamur. Hann hafi ekki hikað við að nýta sér náðargáfu sína, hinn einlæga húmor við nánast öll tækifæri. Hugsjónir hans hafi oft á tíðum náð út fyrir skilning þeirra sem störfuðu með honum í bæjarstjórn. Það sé þannig með framkvæmdamenn að þeir eigi oft erfitt með að ná eyrum fólks. Baráttuhugur Kristjáns og eldmóður hafi hins vegar verið bráðsmitandi og það hafi oft fleytt mönnum yfir erfiðustu hjallana.

Þeir er þekktu þau hjón vita þó að einn var Kristján ekki neitt svo vel studdi Hansína við bakið á honum í því sem hann tók fyrir hendur.

Hjálpfýsi og einlægni

Einlægni Kristjáns og hjálpfýsi komu sér vel í öllum störfum hans. Hann átti afar erfitt með að segja nei. Á hann hlóðust því oft verkefni sem leystust kannski ekki öll fljótt en flest komust þau á leiðarenda og það var fyrir öllu.

Jón Baldvin Hannibalsson gaf góðri sögu vængi af einum fundi þeirra þá er hann var utanríkisráðherra. Kristján kom í ráðuneytið til þess að ræða hagsmunamál síns bæjarfélags. Ráðherrann var seinn í hús og því beið Kristján á skrifstofu ráðherra. Fékk hann að nýta tímann til þess að sinna ýmsum öðrum málum í einkasíma ráðherra.

Um síðir mætti ráðherra til fundarins. Að loknum viðræðum þeirra Kristjáns kvöddust þeir. Á leiðinni út snéri Kristján sér við í gættinni og sagðist hafa gleymt að segja ráðherra að hann hefði í hans fjarveru svarað tveimur áríðandi símtölum til ráðherra og afgreitt málin. Annað var útflutningsleyfi sem ekki þoldi bið fyrir saltfisk af Suðurnesjum og hitt hafi verið meðmælabréf fyrir dreng vestan af fjörðum sem var á leiðinni í nám vestur um haf. Þetta gerði Kristján í einlægni sinni og vissi sem var að Jón Baldvin hefði væntanlega gert það sama. Engar málalengingar.

Neftóbakið

Jafnt og störf Kristjáns og líf var samofið fjölskyldu, Ísafirði og öllu er samborgarar hans þurftu á að halda var eitt sem lengstum var þar einnig fremst í flokki. Neftóbakið. Þar var hann sem í öðru ákafamaður. Hann fór hvergi nema dósin eða hornið væru með í för. Lengi tók nefið við. Aldrei var tilefnið svo mikilvægt eða áríðandi að ekki væri hægt að bjóða í nefið og oft ýtti neftóbaksstundin undir betri kynni og gat skapað lausnir á erfiðum verkefnum.

Nei komst aldrei til skila

Sumir málafylgjumenn geta með einlægni sinni verið afar sannfærandi. Þannig voru þau hjón Hansína og Kristján. Þau gátu betur en margir aðrir fengið menn til fylgis við skoðanir sínar eða ráðagerðir. Sumir kalla það ýtni, aðrir ákveðni og einhverjir kannski frekju. Trúlega var þetta sambland af einhverju öllu þessu í þeirra tilfelli. Blandan kannski misjöfn eftir aðstæðum. Þau einfaldlega hrifu fólk með sér í leik og starfi.

Kristján Knútur Jónasson lést þann 5.apríl 1994 af völdum meiðsla er hann hlaut þegar snjóflóð féll úr Seljalandsdal  niður í Tungudal þar sem sumarbústaður þeirra hjóna stóð. Hansína lést þann 11.ágúst 2007 eftir erfið veikindi.

Eftirmáli:

Með ógnarhraða tímans fennir í spor sögunnar. Samt sem áður stendur allt sem hér var sagt að ofan.

Jafn óleysanlegt sem það verkefni þótti að endurreisa bæði skíðasvæði og sumarbústaðabyggð á skömmum tíma tókst að leggja línur um endurreisn, meðal annars með aðkomu og samkomulagi við stjórnvöld,  strax sumarið 1994 og því tókst síðla vetrar að skíða í dölunum tveim. Sumarbústaðirnir í Tunguskógi risu síðan hver af öðrum. Þær hömlur sem lagðar voru á dvöl og búsetu í Tunguskógi og voru forsenda endurreisnarinnar voru ekki öllum að skapi en því miður kenndi sagan okkur að þar var vel ráðið.

Nú vorar vestra. Páskahretið lét ekki á sér standa. Dalirnir tveir skarta sínu fegursta, snævi fylltir. Eftirlit með snjóalögum tryggir að allir sem þar skemmta sér í lífsins leik eru öruggir.

Mitt í snjóþyngslum hefst innan nokkurra daga,  réttum þrjátíu árum eftir fráfall Kristjáns, keppni bestu liða í knattspyrnu á Íslandi. Þar eru í fremstu röð Vestramenn. Þeirri keppni lýkur í haust skömmu áður en 90 ár verða liðin frá fæðingu hans. Í þeirri keppni mun án efa andi þeirra hjóna Kitta og Hansínu svífa yfir vötnum.

Margir samferðarmenn Hansínu og Kristjáns svo og afkomendur þeirra lögðu til efni í þessa samantekt. Þeim skal þakkað um leið og beðist er afsökunar ef einhverjar staðreyndir hafa skolast til.

-Halldór Jónsson

Vissa útgerð ehf á Hólmavík fær 500 tonna sértækan byggðakvóta

Fjórar umsóknir bárust um 500 tonna sértækan byggðakvóta á Hólmavík sem Byggðastofnun auglýsti. Stofnunin lagði til að Vissa útgerð ehf á Hólmavík og samstarfsaðilar þess fengju kvótann. Sveitarstjórn Strandabyggðar veitti umsögn um tillöguna á fundi fyrir páska og bókað er að hún leggist ekki gegn „niðurstöðu aflamarksnefndar og starfsmanna Byggðastofnunar að veita Vissu útgerð ehf og samstarfsaðilum þennan kvóta.“ Segist sveitarstjórnin horfa „jákvæðum augum til þeirrar uppbyggingar í veiðum og vinnslu sem Vissa útgerð ehf og samstarfsaðilar skuldbinda sig til að standa að og raungera í Strandabyggð.“

Vissa útgerð ehf á bátinn Hlökk ST 66 sem er gerður út á grásleppu og hefur 177 tonna þorskkvóta og 156 tonna kvóta af ýsu.

Strandabandalagið, sem hefur meirihluta í sveitarstjórninni, lagði fram eigin bókun þar lýst er vonbrigðum yfir því að ekki hafi tekist samkomulag milli heimamanna og Stakkavíkur frá Grindavík, „sem frá upphafi þessa ferlis hefur lýst yfir skýrum áhuga á að flyja sína fiskvinnslu til Hólmavíkur, vegna aðstæðna í Grindavík sem þjóðin þekkir vel. Að auki lá fyrir, að Stakkavík myndi leggja til viðbótarframlag með eigin kvóta og stuðla þannig að enn öflugri fiskvinnslu hér á Hólmavík, sem gæti skapað tugi starfa á sjó og í landi. Þarna var að okkar mati mikið og sjaldséð tækifæri til að efla atvinnulífi í Strandabyggð og koma á öflugri fiskvinnslu á Hólmavík, með hagsmuni allra íbúa Strandabyggðar í huga.“ Þá segir ennfremur í bókun Strandabandalagsins að það séu „vonbrigði að áhugi Stakkavíkur hafi ekki ratað inn á borð Byggðastofnunar sem skýrari valkostur og það eru líka vonbrigði að allir hlutaðeigandi hafi ekki kannað þennan kost til hlýtar.“

Strandabandalagið hvetur alla hlutaðeigandi til að hugleiða samstarf sem gæti leitt af sér sameiginlega umsókn um sértækan byggðakvóta til lengri tíma, þegar það ferli fer í gang af hálfu Byggðastofnunar á næstu vikum.

Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar segir í skriflegu svari við fyrirspurn Bæjarins besta að Stakkavík hafi ekki sótt um aflamark Byggðastofnunar á Hólmavík en hafi verið nefnt sem hugsanlegur samstarfsaðili í einni þeirra umsókna sem bárust. „Stakkavík dró sig þó út úr því samstarfi í umsóknarferlinu auk þess sem sá umsækjandi fór fram á 5 ára úthlutun, en fyrir lá að umrædd úthlutun var einungis fyrir núverandi fiskveiðiár.“

Gefur þú sérstakan kost á þér í heima­stjórn?

Tálknafjörður. Mynd: Mats Wibe Lund.

Samhliða kosn­ingum til sveit­ar­stjórnar í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar þann 4. maí næst­kom­andi verða kosnir full­trúar í heima­stjórnir. Hægt er að kjósa um alla íbúa hvers svæðis, en einstak­lingum sem vilja gefa sérstak­lega kost á sér til heima­stjórnar býðst að kynna sig og sín áherslumál í gegnum heima­síður sveit­ar­fé­lag­anna.

Kosið verður í heimastjórnir sama dag og kosið verður til sveitarstjórnar og eru tveir fulltrúar kosnir á hverjum stað. Heimastjórnirnar verða fjórar:  

  • Heimastjórn Arnarfjarðar
  • Heimastjórn Tálknafjarðar 
  • Heimastjórn Patreksfjarðar 
  • Heimastjórn Rauðasandshrepps og Barðastrandar 

Allir íbúar hvers svæðis eru í framboði og kýs hver íbúi einn einstakling á því svæði sem hann býr. Þeir tveir sem fá flest atkvæði á hverju svæði munu sitja í heimastjórn fyrir sitt svæði næstu tvö árin eða þar til kosið verður næst til sveitarstjórnar.

Heimastjórnir eru fastanefndir innan nýs sameinaðs sveitarfélags sem starfa í umboði sveitarstjórnar. Markmiðið með heimastjórnum er að heimamenn hafi aðkomu að ákvörðunum sem varða nærumhverfi sitt og geta ályktað um málefni sem snýr að viðkomandi byggðarlagi og komið málum á dagskrá bæjarstjórnar.

Í hverri heimastjórn eru þrír fulltrúar, tveir sem kosnir eru sérstaklega samhliða sveitarstjórnarkosningum og einn bæjarfulltrúi.

Nýjustu fréttir