Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 128

Albert í Vísindaporti Háskólaseturs

Í Vísindaporti 5. apríl mun Albert Eiríksson halda erindi sem hann nefnir „Matur er fyrir öllu“

Það má með sanni segja að að matur sé fyrir öllu. Hins vegar getur verið snúið að finna út hvað fer vel í okkur og hvað fer síður vel í okkur. Gott er að hafa í huga: Að stórum hluta erum við ábyrg fyrir eigin heilsu og muna að það er aldrei of seint að byrja. Hollur kjarngóður alvöru matur gerir okkur gott, hreyfing og nærandi félagsskapur hefur einnig mikil áhrif.

„Þó ég sé frekar upptekinn af hollum mat þá er markmiðið ekki að verða 125 ára heldur að líða vel og lifa sæmilega góðu lífi núna og það sem ég á eftir. Að tengja næringu og líðan ásamt því að skilja af hverju sumt sem var að hrjá mig hefur lagast gerir mig mun meðvitaðri um hvernig ég vil hafa áframhaldið.” segir Albert.

Albert Eiríksson lærður matreiðslumaður og hárgreiðslumaður. Hann stofnaði safnið Fransmenn á Íslandi á Fáskrúðsfirði og rak það í fjölmörg ár. Þá starfaði hann lengi við leiklistar- og tónlistardeildir Listaháskóla Íslands en hefur síðustu ár verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar. Albert og eiginmaður hans Bergþór Pálsson eru annálaðir gestgjafar og hafa í mörg ár tekið á móti hópum heim og haldið veislur, auk þess að vera með fyrirlestra um borg og bý.

Albert hefur notið handleiðslu Elísabetar Reynisdóttur næringarfræðings og saman voru þau með námskeið um bætta líðan fólks með góðri næringu.

Ein vinsælasta matarbloggsíða landsins, alberteldar.is er hugarfóstur Alberts. Auk fjölbreyttra uppskrifta er þar fróðleikur um áhrif matar og kurteisi svo eitthvað sé nefnt.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða kl 12.10.

Mbl dregur til baka fullyrðingu um Jakob Valgeir

Guðbjörgin ÍS sem seld var Samherja.

Morgunblaðið hefur dregið til baka fullyrðingu sem fram kom í frétt blaðsins í síðustu viku um fyrirtækið Jakob Valgeir í Bolungavík. Sagði blaðið að salan á Guðbjörgu ÍS hefði lagt grunninn að fyrirtækinu Jakob Valgeir og hafði það eftir Þorsteini Má Baldvinsyni. Segir í leiðréttingu Mbl að þetta hafi ranglega verið haft eftir Þorsteini Má.

Áfram stendur sú fullyrðing Þorsteins Más að þeir fjár­mun­ir sem fengust út úr Sam­herja hafi verið nýtt­ir til að kaupa veiðiheim­ild­ir sem voru miklu meiri en á Guðbjörg­inni á sín­um tíma. Lætur hann þar með í veðri vaka að salan hafi verið til góðs fyrir Vestfirðinga.

Með sölunni á Guðbjörgu ÍS til Samherja á sínum tíma fylgdu 3.400 þorskígildistonna kvóti samkvæmt frétt á Bæjarins besta 15. janúar 1997. Ásgeir Guðbjartsson átti 25% í útgerðarfélagi Guðbjargar ÍS. Hann stofnaði síðar útgerðarfélagið Guðbjart ásamt syni sínum, sem gerði út smábát. Það var árið 2005 selt til Jakobs Valgeirs ehf með um 360 tonna kvóta fyrir um 300 m.kr. Forsvarsmenn Jakobs Valgeir segja það hafa verið viðskipti en ekki fjármagnstilfærsla.

Í lok árs 2022 átti Jakob Valgeir ehf 2.821 þorskígildis kvóta í aflamarkskerfinu og 1.337 þorskígildiskvóta í krókaaflamarkskerfinu ssamkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi félagsins.

Landeldi eiganda Patagoníu í greiðslustöðvun

Forstjóri Sustainable Blue Kirk Havercroft lengst til hægri ásamt samstarfsfólki.

Fyrirtækið Sustainable Blue í Nova Scotia í Kanada, sem eldur Atlantshafslax á landi hefur fengi greiðslustöðvun vegna fjárhagserfiðleika. Meðal eigenda fyrirtækisins er Yvon Chouinard, stofnandi Patagoniu sem mjög hefur beitt sér gegn sjókvíaeldi, meðal annars á Íslandi. Nýlega var frumsýnd í Reykjavík heimildarmynd um sjókvíaeldi sem Patagonia framleiðir. Þar er varað við sjókvíaeldi og fyrirtækið bendir á landeldi í staðinn.

Fram kemur í frétt SalmonBuisness um málið í gær að landeldisfyrirtækið hafi í nóvember síðastliðnum orðið fyrir bilun í búnaði stöðvarinnar sem leiddi til þess 100.000 laxar í eldinu drápust. Varð það til þess að fyrirtækið gat ekki staðið skil á greiðslum af lánum.

Fyrirtækið var stofnað 1995 á Englandi en var flutt til Nova Scotia árið 2007 og hafa andstæðingar laxeldis í sjó lofað landeldi þess sem framtíð fiskeldis, samkvæmt því sem fram kemur í fréttinni. Meðal þeirra er Hilary Franz, sem titluð er umhverfisráðherra Washingtonríkis í Bandaríkjunum og kom hingað til lands til þess að vera viðstödd frumsýningu myndar Patagoniu.

Framtíð stöðvarinnar og 32 starfsmanna þess ræðst nú af hvernig gengur að semja um skuldir fyrirtækisins.

Hafró: leggur til 9% minnkun á grásleppuveiðum

Hrognkelsi. Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Hafrannsóknastofnun ráðleggur að veiðar á grásleppu fiskveiðiárið 2023/2024 verði ekki meiri en 4030 tonn. Er það um 9% lækkun milli ára. Ráðgjöfin byggir að mestu á stofnvísitölu úr stofnmælingu botnfiska í mars 2024 en einnig frá árinu á undan. Vísitölur þessara tveggja ára voru svipaðar og vel undir langtíma meðaltali og því lægri en mörg ár þar á undan.

Í tilkynningu Hafrannsóknarstofnunar segir að stofnvísitölur hrognkelsa sveiflist milli ára, sem endurspegla að hluta til óvissu í mælingunum. Vegna þessa vegur stofnvísitala sama árs 70% á móti 30% vægi vísitölu fyrra árs við útreikning ráðlagðs hámarksafla. Að teknu tilliti til þess leggur Hafrannsóknastofnun jafnframt til að upphafsaflamark fiskveiðiárið 2024/2025 verði 1216 tonn.

Á Alþingi er til umræðu og afgreiðslu frumvarp um kvótasetningu grásleppuveiða.

Bolungavíkurhöfn: 1.687 tonn í mars

Brunnbáturinn Novatrans í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 1.687 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn í marsmánuði. Eins og áður hefur komið fram voru 815 tonn af veiddum bolfiski landað í mánuðinum en nú liggja fyrir tölur um eldisfisk. Í marsmánuði komu 872 tonn af eldisfiski til vinnslu í Drimlu, sláturhúsi Arctic Fish í Bolungavík. Var eldisfiskurinn því 52% af lönduðum fiski í höfninni.

Fyrstu þrjá mánuði ársins hefur 6.101 tonni af bolfiski verið landað í Bolungavíkurhöfn. Þar af eru 3.385 tonn eldisfiskur eða 55% og 2.716 tonn veiddur villtur fiskur.

Hólmavík: byggðakvóti verður auglýstur til sex ára

Frá Hólmavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar segir að áætlað sé að 500 tonn fari í gegnum fiskvinnslu á Hólmavík það sem eftir lifir þessa fiskveiðiárs.  Úthlutunin á 500 tonna sértækum byggðakvóta nú til Vissa útgerð ehf á Hólmavík nær bara til þessa fiskveiðiárs.  Hann segir að í framhaldinu verði auglýst eftir samstarfsaðilum í þeim byggðalögum sem stjórn Byggðastofnunar ákveður til allt að sex ára.

Samstarfsaðilar Vissa útgerðar ehf eru eftirtaldir 12 aðilar:

  1. Von harðfiskverkun ehf
  2. Fiskmarkaður Hólmavíkur ehf
  3. Vissa útgerð ehf
  4. Æður ehf
  5. Gráðuvík sf
  6. Sævík ehf
  7. Gíslabali ehf
  8. Gámaþjónusta Hólmavíkur ehf
  9. Hafvík ehf
  10. Steinunn frá Naustvík ehf
  11. Dráttur ehf
  12. Hafþór Torfason

Ísafjörður: kennarar vilja bæta loftgæði í grunnskólanum

Grunnskólinn á Ísafirði.

Á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar í síðustu viku var lagður fram  undirskriftarlisti kennara við Grunnskóla Ísafjarðar þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að bæta loftgæði í skólanum.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs um viðhald í skólanum kemur fram að skólastjóri Grunnskólans á Ísafirði upplýsti í janúar síðastliðnum um veikindi starfsfólks í stofum 102 og 103, sem eru stofurnar næst Grundargötublokkinni.
Þrjú sýni voru tekin í stofu 102 sem er stofa á jarðhæð og snýr út að Grundargötu, niðurstöður úr þeim sýnum voru neikvæðar, þ.e. að ekki greindist mygla í rými 102. Samhliða þessum sýnatökum var farið í rakaskimun á mannvirkinu, í heild sinni. Niðurstaða rakaskimunar benti til raka í stofu 108 og hefur stofan verið lagfærð og tekin í gagnið að nýju.

Í gömlu panelstofunni nr. 216 var tekið sýni úr byggingarhluta og greindust ummerki um myglu í dúk en ekki ummerki um myglu í kjarnanum. Nú standa yfir aðgerðir í panelstofunni, þ.e. stofa 216, panellinn hefur verið fjarlægður og verið er að fjarlægja einangrunarplast í lofti.

Næstu verkþættir sem tengjast Grunnskólanum á Ísafirði, eru eftirfarandi:
Uppbygging á Panelstofu, gólfefni, kerfisloft, lýsing og endurnýjun á loftaeinangrun.
Endurnýjun allra glugga sem snúa að Austurvegi (langhlið meðfram Sundhöll)
innkaupum á gluggum var lokið á haustmánuðum 2023
Endurnýjun á Þakdúk ofan til við glugga sem verður skipt út á sumarmánuðum
Anddyri við Austurveg lagfæra bólgur í gólfi.

Bæjarráðið fól sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að funda með starfsfólki Grunnskólans á Ísafirði og kynna framkvæmdir og viðhald sem fyrirhugað er í skólanum. Vinna við könnun á loftgæðum í skólanum er þegar hafin.

Úthlutað úr Ferðasjóði íþróttafélaga

ÍSÍ hefur úthlutað styrkjum úr Ferðasjóði íþróttafélaga vegna ferðakostnaðar íþrótta- og ungmennafélaga vegna þátttöku í fyrirfram skilgreindum styrkhæfum mótum ársins 2023.

Til úthlutunar að þessu sinni voru 123,9 milljónir króna. Til sjóðsins bárust 243 umsóknir frá 118 íþrótta- og ungmennafélögum úr 24 íþróttahéruðum vegna 2.949 ferða í 25 íþróttagreinum.

Heildarupphæð umsókna var 653.006.285,- krónur en umsækjendur skrá einungis beinan ferðakostnað í umsóknir, ekki gistingu eða uppihald. Þess má geta að skráður gistikostnaður, sem er valkvæð skráning í umsóknir til sjóðsins, var ríflega 97 milljónir króna.

Styrkirnir eru greiddir út beint til viðkomandi íþrótta- og ungmennafélags, skv. umsóknum.

Náttúrustofa auglýsir eftir fuglafræðingi – Helst til starfa á Hólmavík

Náttúrustofa Vestfjarða auglýsir eftir metnaðarfullum og hæfum fuglafræðingi. Viðkomandi mun taka þátt í verkefnum á borð við umhverfismat, hefðbundnar vaktanir og sérhæfðar rannsóknir.

Til að byrja með mun viðkomandi takast á við verkefni sem notast við „Vantage Point Survey“ og ratsjá til að meta flugáhættu tengt fyrirhuguðu vindmyllugarði á Vestfjörðum.

Þetta er spennandi tækifæri til að hafa áhrif á þróun reglugerðar sem tengist umhverfisáhrifum notkunar vindmylla til raforku framleiðslu á Íslandi.

Umsækjandi þarf að hafa sérstakan áhuga á fuglalíffræði og vistfræði. Viðkomandi ætti einnig að vera vel fær í útivinnu, hafa mikinn áhuga á náttúru, vera lausnamiðaður, sjálfstæður, þolinmóður, vinna vel með öðrum og vera mjög skipulagður.

Einnig þarf umsækjandi að hafa reynslu eða áhuga á, að vinna með vindorku fyrirtækjum að vistvænum lausnum.

Náttúrustofa Vestfjarða er með aðsetur í Bolungarvík, Hólmavík og á Patreksfirði. Æskilegt væri að viðkomandi myndi búa á Hólmavík en hefur samt sem áður val um þessar þrjár staðsetningar.

Mikið um él og snjókomu í Árneshreppi í mars

Mikið var um snjókomu eða él í mánuðinum

Yfirlit yfir veðrið frá veðurstöðinni í Litlu-Ávík er tekið saman af Jóni G Guðjónssyni veðurathugunarmanni og birtist á vefsíðunni litlihjalli.it.is.

Mæligögn:

Úrkoman mældist 80,5 mm. (í mars 2023: 25,8 mm.)

Úrkomu sem varð vart en mældist ekki var í 1 dag.

Þurrir dagar voru 8.

Mestur hiti mældist þann 8: +9,5 stig.

Mest frost mældist þann 2: -7,5 stig.

Meðalhiti mánaðarins var -0,2 stig. (í mars 2023: -2,5 stig.)

Meðalhiti við jörð var -2,97 stig.  (í mars 2023. -5,7 stig.)

Alhvít jörð var í 25 daga.

Flekkótt jörð var í 6 daga.

Auð jörð var því í 0 dag.

Mesta snjódýpt mældist þann 23: 46.CM.

Yfirlit dagar eða vikur:

Úrkomusamt var frá miðjum mánuði.

Það snjóaði talsvert þann 15 í hægviðri og fram á 16.

Þann 17 og 18 var allhvasst, hvassviðri eða stormur með talsverðri snjókomu, fram á morgun þann 19.

Þann 20 um kvöldið gekk í allhvassa NA eða ANA átt með snjókomu. Þann 21 var slydda og síðan snjókoma og hvassviðri og síðan stormur um tíma. Þann 22 var allhvöss norðanátt með snjókomu. Veðrið gekk síðan niður þann 23. Síðan voru él og skafrenningur út mánuðinn.

Nýjustu fréttir