Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 127

Hagstofan: íbúum í Vesturbyggð fækkar um 7%

Patreksfjörður um sjómannadagshelgina síðustu.. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúum á Vestfjörðum fækkaði um 308 um áramótum samkvæmt nýju tölum Hagstofunnar sem gefnar voru út 21. mars síðastliðinn. Voru íbúarnir 7.168 í stað 7.476, sem áður hafði verið gefið upp sem fjöldinn með lögheimili á Vestfjörðum 1. janúar 2024. Á landsvísu fækkaði íbúum landsins um nærri 17.000 manns og gætir breytinganna í öllum sveitarfélögum á landinu.

Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Hagstofan breytti aðferð sinni við útreikning á mannfjölda. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár. Hagstofan telur meginástæðu misræmisins sem myndast hefur að mikill hvati er til þess að skrá alla útlendinga sem hingað koma með lögheimili en hins vegar sé lítill sem enginn hvati til þess að afskrá þá við flutning frá landinu.

Við þessa breytingu fækkar íbúum á Vestfjörðum um 4% eins og staðan var á nýársdag. Mest verður breytingin í Vesturbyggð, en þar fækkar íbúum um 7,1% eða úr 1.190 manns í 1.106. Næstmest fækkun verður í Tálknafjarðarhreppi en þar fækkaði íbúum um 4,2%. Þriðja mesta fækkunin er svo í Ísafjarðarbæ 3,6%. Í einu sveitarfélagi, Árneshreppi varð engin breyting, íbúarnir voru jafnmargir eftir breytinguna.

Borið er saman við íbúatölur Þjóðskrár Íslands.

Bolungavíkurhöfn: færa karavogina

Teikning af fyrirhuguðum flutningi á karavog.

Meðal verkefna ársins í Bolungavíkurhöfn verður að færa skeifuvog/karavog af núverandi
staðsetningu niður á Brimbrjót. Hvorki Fiskistofa né Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gera athugasemd við breytinguna.

Hafnarstjórn hefur falið hafnarstjóra að fara í umræddar breytingar. Kostnaðaráætlun er 3m.kr.

Með færslunni verður dregið verulega úr akstri með fisk um hafnarsvæðið og einkum á þetta við um línu- og færafisk. Nýja staðsetningin er nær löndunarkantinum og fiskmarkaðnum.

Þá verður tekin upp aðgangsstýring á Brimbrjótinn sem verður til þess að tekið verður fyrir umferð bíla um Brjótinn en gangandi umferð mun áfram eiga greiða leið og hægt verður að veiða með stöng af Brjótnum sem verið hefur afar vinsælt.

Kristján Jón Guðmundsson hafnarstjórnarmaður segir að auk þessa verði hugað að flotbryggjum og skoða þurfi lengingu á þriðju flotbryggjunni þar sem útlit er fyrir aukna umferð sjóstangveiðibáta.

Viðtalið: Samúel Samúelsson

Í viðtalinu að þessu sinni er Súðvíkingurinn Samúel Samúelsson sem hefur m.a. stýrt meistarflokki vestra og komið þeim upp í efstu deildí knattspyrnunni. Framundan um helgina er fyrsti leikur Vestra í Bestu deildinni. En gefum Samúel orðið:

Ég er fæddur 21.9.1982 i Reykjavik,  uppalin í Súðavik. Foreldrar mínir eru þau Samúel Kristjánsson og Rannveig Jón Ragnarsdóttir. Konan mín heitir Svala Sif Sigurgeirsdóttir  og saman eigum við börnin Samúel Mána og Guðrúnu Maney.  Ég hef búið meira og minna á Ísafirði frá því að ég byrjaði i Menntaskóla, hér líður mér vel og ég vill helst hvergi annarstaðar vera. Ég ætla nú samt að flytja þegar að sonur minn kemst á menntaskóla aldur þar sem ég vill að hann fái sömutækifæri og önnur börn og geti stundað fótbolta við alvöru astæður en því miður sé ég það ekki verða hér i framtíðinni.

 Ég hef unnið á Fiskmarkaðnum i nokkuð mörg ár og var framkvæmdarstjóri þar til um mitt síðata sumar en þá sameinaðist Fiskmarkaður Vestfjarða inn i FMS og vinnum við undir merkjum FMS i dag. Það eru 17 manns sem vinna hjá okkur i Bolungarvik og Ísafirði  svo erum við með verktka sem þjónusta á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri. FMS er með starfstöðvar vítt og breitt um landið en aðalskrifstofa þess er i Sandgerði. Fiskmarkaðurinn  er  fyrirtæki sem sérhæfir sig i að selja fisk, við tökum á móti fisknum sem bátarnir bera að landi, löndum fyrir þá sem vilja. Við vigtum, flokkum,slægjum og svo svo seljum fyrir útgerðirnar. Við bæði seljum fisk gegnum uppboð og svo sjáum við einnig um að tengja seljendur og kaupendur og göngum frá sölum og kaupum fyrir þá.  Sumarið er klárlega tíminn hjá okkur, maí – ágúst eru strandveiðar á fullu og svo eru sept – des yfirleitt bara fínir mánuðir. Jan – mars eru klárlega mánuðir sem meira mætti vera um að vera hjá okkur en það er eins og það er.

 Ég verð  að  segja að áhugamálið mitt sé knd Vestra. Og bara fótbolti yfir höfuð. Það hefur kannski ekki farið framhjá mörgum en ég hef sinnt því frá 2006 með Nonna vini minum og mörgu öðru góðu fólki. En við Nonni byrjuðum i þessu saman og hvorugur má hætta nema að við séum báðir sammalá um að það sé komið gott eða hreinlega að fólk kjósi okkur burtu.  Ég hef einnig hrikalega gaman að því að sækja barna mót i fótbolta og reyni að sjá alla leiki hjá syni mínum og svo á ég von á því að dóttir min byrji í fótbolta fljótlega þannig að eigum við ekki bara að seigja að lífið sé fiskur og  fótbolti. Svala konan mín var nú ekkert alltof spennt fyrir þessum lífsstíl til að byrja með en hún missir ekki af leik hjá Vestra i dag. Svo er hún komin á kaf i að sinna flokknum hjá Samúel Mána. Fjölskyldufríin eru plönuð út frá fótboltanum þannig að sumrin henta okkur ekki vel til að fara í frí, bæði fótboltalega og vinnulega þar sem mai – september er tíminn sem við höfum bara tíma i að vinna og horfa á fótbolta.

Björgunarsveitin Tindar Hnífsdal 90 ára

Þann 30 mars sl. voru 90 ár frá stofnun Björgunarsveitarinnar Tinda í Hnífsdal. Af því tilefni er boðið til afmælisveislu sunnudaginn 7. apríl nk. kl. 15:00 í Félagsheimilinu í Hnífsdal.

Byrjað verður á formlegri dagskrá, í framhaldi að því verður boðið upp á kaffi og með því, það verður einnig hægt að spreyta sig á allskonar æfingum, skoða aðstöðuna okkar og fara í kassaklifur. 

Hér fylgir hluti af texta sem er orðrétt upp úr fundargerðabók frá 30. mars 1934:

Árið 1934 föstud. 30.mars var haldinn opinber borgarafundur í ungmennafélagshúsinu í Hnífsdal.

Fundarefni: stofnun slysavarnarsveitar í Hnífsdal.

Fundinn setti Ingimar Finnbjörnsson formaður, en hann tilnefndi sem fundarritara Einar Steindórsson.

Fundarstjóri hóf umræður og benti á þá nauðsyn, að í Hnífsdal yrði stofnuð slysavarnarsveit svo sem í öðrum sjávarplássum á Vestfjörðum. Einar Steindórs mælti ennfremur eindregið með stofnun slysavarnarsveitar fyrir Hnífsdal, og mættu Hnífsdælingar ekki vera eftirbátur annarra útgerðarplássa hér í nágrenninu um liðsinni við björgunarmálin.

Að því loknu var borin upp tillaga um stofnun slysavarnarsveitarinnar og var hún samþykkt í einu hljóði.

50 manns, karlar og konur, gjörðust á fundinum félagar í slysavarnarsveitinni.

Kosin stjórn fyrir sveitina: Ingimar Finnbjörnsson formaður. Einar Steindórsson ritari og frú Margrét Halldórsdóttir féhirðir.

Í varastjórn voru kosnir: Kristján Jónsson skólastjóri, Alfons Gíslason og Hjörtur Guðmundsson.

Rætt um fjársöfnun til ágóða fyrir „Björgunarskútusjóð Vestfjarða“. Samþykkt var tillaga frá Páli Pálssyni um að kjósa 5 manna nefnd til þess að hafa forustu um fjársöfnun í áðurnefndu skini.

Nefndina skipa: Frú Ragnheiður Rögnvaldsdóttir, Páll Pálsson útvegsb. Ingibjörg Guðmundsd. ungfrú, Kristján Jónsson skólast. og Ingólfur Jónsson verkam.

Fundargerðarbókin með stofnfundargerðinni.

Ísafjarðarhöfn: kaupir húsnæði

Ísafjarðarhöfn hefur samþykkt að kaupa húsnæði af olíufélagi útvegsmanna í Hafnarhúsinu á Ísafirði. Kaupverð er 85 m.kr. Höfnin hefur leigt húsnæðið sem er 398 fermetrar að stærð síðustu níu ár og hafnarstjón segir í bókun að full þörf sé á því fyrir starfsemi Ísafjarðarhafna.

Ekki er gert ráð fyrir kaupunum í fjárhagsáætlun 2024 og því leggur hafnarstjórn til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka vegna kaupanna. Bæjarstjórnin tók málið fyrir á fundi sínum í gær og samþykkti þau.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs segir að í raun verði ekki um útgjaldaaukningu að ræða, einkum þar sem breytingar verða á tekjuáætlun hafnarinnar sem vega upp kaupverðið.

Samningur um byggingu nýs verknámshúss við MÍ undirritaður

Frá undirritun samnings um nýtt verkmenntahús við M.Í.

Í dag var undirritaður samningur um byggingu nýs verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði.

Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra, Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og Bragi Þór Thoroddsen sveitastjóri Súðavíkurhrepps undirrituðu samninginn ásamt Heiðrúnu Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði.

Reykhólahreppur og Árneshreppur eru einnig aðilar að samningnum en fulltrúar þeirra gátu ekki verið viðstödd undirritunina í dag. Undirritunin fór fram á bókasafni MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki, skólanefnd, sveitastjórnarfólki og ýmsum aðilum úr atvinnulífinu.

Samningurinn kveður á um skiptingu byggingarkostnaðar milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögin munu lögum samkvæmt greiða samtals 40% af byggingarkostnaði en ríkið 60%.  Vinna við frummatsskýrslu fyrir bygginguna er langt komin og að henni lokinni mun framkvæmdasýsla ríkisins undirbúa hönnunarvinnu og tilheyrandi útboð. 

Með nýju verknámshúsi verður loks komin viðunandi aðstaða fyrir nám í trésmíði, háriðngreinum og rafiðngreinum sem hingað til hafa verið í kjallara heimavistar og á efri hæð núverandi verknámshúss. Nýja byggingin bætir við allt að 1000 fermetrum í aðstöðu til náms í verkgreinum og mun gera skólanum kleift að taka á móti fleiri nemendum í starfs- og verknám. Nú stundar rúmlega helmingur nemenda í dagskóla nám í verkgreinum við MÍ og hefur hlutfall þeirra farið vaxandi.

,,Menntaskólann á Ísafirði er ekki bara mikilvægur fyrir Ísafjörð sem kaupstað heldur fyrir Vestfirði alla. Það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingunni á komandi árum og ég óska Vestfirðingum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga.“  Segir Ásmundur Einar Daðason.

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari sagði það mikið fagnaðarefni fyrir skólann að þessi áfangi væri í höfn og gæfi skólanum aukinn byr í seglin fyrir komandi framþróun í skólastarfinu

Íbúafjöldi í mælaborðum Byggðastofnunar leiðréttur

Hagstofa Íslands gaf nýlega út ný gögn um íbúafjölda á Íslandi.

Þann 1. janúar 2024 voru íbúar landsins 383.726, þar af voru erlendir íbúar 63.528. Búið er að uppfæra mælaborð Byggðastofnunar um með þessum nýju gögnum.

Í mælaborðunum má sjá að 365.256 (95%) búa í byggðakjörnum og 18.470 (5%) í dreifbýli.

Á höfuðborgarsvæðinu eru 244.177 íbúar (64% landsmanna) en 139.549 (36%) utan höfuðborgarsvæðis. 

Hæst hlutfall erlendra íbúa er áfram í Mýrdalshreppi (58%) og þar næst í Skaftárhreppi (37%) og Bláskógabyggð (34%).

Meðalaldur erlendra ríkisborgara er 33,2 ár en íslenskra ríkisborgara 39,3 ár.

Mest hlutfallsleg fjölgun íbúa í einu sveitarfélagi á árinu 2023 var í Árneshreppi (13%), Sveitarfélaginu Vogum (12%) og Fljótsdalshreppi (12%). Í stærri sveitarfélögum var mest fjölgun í Sveitarfélaginu Árborg og Reykjanesbæ eða um 5%. Í Reykjanesbæ fjölgaði um 967 en í Árborg um 513 íbúa.

Hagstofan beitir nú nýrri aðferð við mat á íbúafjölda en hingað til hefur fjöldinn aðeins byggt á lögheimilisskráningum.

Með gömlu aðferðinni voru íbúar landsins rúmlega 400.000 en Hagstofan skoðar líka skattagögn og nemendagögn til að sjá hvort skráðir íbúar séu í raun með búsetu hérlendis. Með þeirri aðferð eru landsmenn um 15 þúsundum færri en lögheimilisskráningar gefa til kynna.

Tillaga að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg í kynningu

Drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg hafa verið lögð fram til kynningar næstu 6 vikurnar. 

Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021. 

Áætlunin er unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, fulltrúum landeigenda og fulltrúa Vesturbyggðar. 
Eins er áætlunin unnin í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára. 

Áætlunin er sett fram í samræmi við 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. 

Óskað er eftir athugasemdum frá almenningi við drög að áætluninni. ( Sjá nánar hér.)

Skilafrestur athugasemda er til og með 7. maí 2024. 

Albert í Vísindaporti Háskólaseturs

Í Vísindaporti 5. apríl mun Albert Eiríksson halda erindi sem hann nefnir „Matur er fyrir öllu“

Það má með sanni segja að að matur sé fyrir öllu. Hins vegar getur verið snúið að finna út hvað fer vel í okkur og hvað fer síður vel í okkur. Gott er að hafa í huga: Að stórum hluta erum við ábyrg fyrir eigin heilsu og muna að það er aldrei of seint að byrja. Hollur kjarngóður alvöru matur gerir okkur gott, hreyfing og nærandi félagsskapur hefur einnig mikil áhrif.

„Þó ég sé frekar upptekinn af hollum mat þá er markmiðið ekki að verða 125 ára heldur að líða vel og lifa sæmilega góðu lífi núna og það sem ég á eftir. Að tengja næringu og líðan ásamt því að skilja af hverju sumt sem var að hrjá mig hefur lagast gerir mig mun meðvitaðri um hvernig ég vil hafa áframhaldið.” segir Albert.

Albert Eiríksson lærður matreiðslumaður og hárgreiðslumaður. Hann stofnaði safnið Fransmenn á Íslandi á Fáskrúðsfirði og rak það í fjölmörg ár. Þá starfaði hann lengi við leiklistar- og tónlistardeildir Listaháskóla Íslands en hefur síðustu ár verið aðstoðarskólastjóri Tónlistarskóla Ísafjarðar. Albert og eiginmaður hans Bergþór Pálsson eru annálaðir gestgjafar og hafa í mörg ár tekið á móti hópum heim og haldið veislur, auk þess að vera með fyrirlestra um borg og bý.

Albert hefur notið handleiðslu Elísabetar Reynisdóttur næringarfræðings og saman voru þau með námskeið um bætta líðan fólks með góðri næringu.

Ein vinsælasta matarbloggsíða landsins, alberteldar.is er hugarfóstur Alberts. Auk fjölbreyttra uppskrifta er þar fróðleikur um áhrif matar og kurteisi svo eitthvað sé nefnt.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða kl 12.10.

Mbl dregur til baka fullyrðingu um Jakob Valgeir

Guðbjörgin ÍS sem seld var Samherja.

Morgunblaðið hefur dregið til baka fullyrðingu sem fram kom í frétt blaðsins í síðustu viku um fyrirtækið Jakob Valgeir í Bolungavík. Sagði blaðið að salan á Guðbjörgu ÍS hefði lagt grunninn að fyrirtækinu Jakob Valgeir og hafði það eftir Þorsteini Má Baldvinsyni. Segir í leiðréttingu Mbl að þetta hafi ranglega verið haft eftir Þorsteini Má.

Áfram stendur sú fullyrðing Þorsteins Más að þeir fjár­mun­ir sem fengust út úr Sam­herja hafi verið nýtt­ir til að kaupa veiðiheim­ild­ir sem voru miklu meiri en á Guðbjörg­inni á sín­um tíma. Lætur hann þar með í veðri vaka að salan hafi verið til góðs fyrir Vestfirðinga.

Með sölunni á Guðbjörgu ÍS til Samherja á sínum tíma fylgdu 3.400 þorskígildistonna kvóti samkvæmt frétt á Bæjarins besta 15. janúar 1997. Ásgeir Guðbjartsson átti 25% í útgerðarfélagi Guðbjargar ÍS. Hann stofnaði síðar útgerðarfélagið Guðbjart ásamt syni sínum, sem gerði út smábát. Það var árið 2005 selt til Jakobs Valgeirs ehf með um 360 tonna kvóta fyrir um 300 m.kr. Forsvarsmenn Jakobs Valgeir segja það hafa verið viðskipti en ekki fjármagnstilfærsla.

Í lok árs 2022 átti Jakob Valgeir ehf 2.821 þorskígildis kvóta í aflamarkskerfinu og 1.337 þorskígildiskvóta í krókaaflamarkskerfinu ssamkvæmt því sem fram kemur í ársreikningi félagsins.

Nýjustu fréttir