Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 126

Kaupmaðurinn, tíðarandinn  og frelsið.

Erfiðasti og hverfulasti ferðafélaginn í lífinu er tíðarandinn.

Umhverfið setur honum skráðar og í flestum tilfellum óskráðar reglur eða lög sem fylgja skal.

Nútíminn er að dómi tíðarandans það besta og forðast skal allar breytingar því vafasamt er að nokkur mannlegur máttur geti skapað neitt betra. Allt sé best og fullkomnast í núinu.

Þeim sem undan tíðarandanum víkjast hverju sinni hefur farnast misjafnlega í lífinu. Fæstir komast undan slíku ósárir. Til eru hins vegar fræ sem blómgast best við þessar aðstæður.

Eitt slíkt var Úlfar Ágústsson sem í  dag er jarðsunginn frá Ísafjarðarkirkju.

Hann bjó í nútímanum en hugði ávallt til framtíðarinnar og lét tíðarandann ekki þvælast fyrir sér.  

Allt frá barnæsku gat hann á ekkert annað treyst en sjálfan sig og sína.  Tók slaginn við lífið og tilveruna á Ísafirði.

Fetaði í fyrstu kunnuglega slóð í fiskinum en fann svo fjölina sína.

Hann gerði hana trausta. Að þjóna samborgurum sem kaupmaður. Hvenær sem á þurfti að halda. Alla tíð. Farsæld í kaupmennsku hlýtur að staðfesta ákveðið umburðarlyndi og samkennd kaupmannsins í garð samborgaranna.

Úlfar var um margt öðruvísi og jafnvel skrítinn maður. Að mati tíðarandans.

Það var ekki boðlegt mannlegu eðli i þéttbýli að verslun opnaði fyrr en klukkan níu að morgni.  Á sama hátt var það auðvitað augljóst brot gegn almannaheill að matvöruverslun skyldi opin eftir klukkan sex síðdegis. Það sá hver maður. En ekki Úlfar.

Svo var auðvitað andstætt almennu heilbrigði að seld væri mjólk í steinsteyptu húsi að  sunnanverðu við Hafnarstrætið á Ísafirði því að norðanverðu við götuna var og er steinsteypt Kaupfélagshús. Þar gat heilbrigðið einungis búið. Það var ekki öllum gefið að selja mjólk.

Hér hefur fátt eitt verið nefnt af sakaskrá Úlfars og baráttu hans við tíðarandann.

Ávallt leitandi og um leið ögrandi.

Ferðamennska á Vestfjörðum. Hótelrekstur á Ísafirði. Bátasiglingar á Ísafjarðardjúpi. Samkeppni í flugi. Borað í fjöll. Akfærir vegir. Siglingar um norðurhöf. Kláfar upp um fjöll og firnindi.  Að ekki sé nú minnst á Tónlistarskólann.

Svo var það þetta viðkvæma orð í hugum margra.

Frelsið.

Það var ekki að vefjast fyrir honum. Það skyldi bara standa. Frelsi til orðs og æðis. Að þjóna fólki ávallt þegar á þurfti að halda. Án annarra afskipta.

Frelsi til þess að útvarpa, þegar enginn var til þess, setti hann á sakamannabekk. Það var honum að vísu þungbært um stund en um síðir  fagnaðarefni. Hann vissi innst inni að þá var hann á réttri leið. Hver varð síðan dómur tímans?

Af öllu þessu framtíðarbrölti var hann dæmdur af sumum en umborinn af flestum.

Mitt í sínum eigin önnum lagði hann nánast öllu lið í nálægð. Fátt eða ekkert var honum óviðkomandi. Ávallt gjöfull og traustur. Frá vöggu til grafar.

Vald tíðarandans getur verið skjól fordóma og heft framfarir.  

Nú um stundir fæst tíðarandinn ekki um það  hver, hvar og hvenær afhent skuli vara, líkt og áður, heldur miklu heldur hvað hver og einn hugsar og segir. Það sem verra er að mjög hefur nú þrengt að umburðarlyndinu.

Þar er því mikið verk að vinna í minningu Úlfars Ágústssonar.

Halldór Jónsson fyrrverandi starfsmaður Hamraborgar

Tónlistarhátíðin við Djúpið: Söngvasveigur og strengjakvartett 19. júní

Bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone verður nokkuð áberandi á tónlistarhátíðinni Við Djúpið í sumar. Hæst bera tónleikar miðvikudaginn 19. júní þegar verk hans, False We Hope, verður flutt.

False We Hope er söngvasveigur eftir bandaríska tónskáldið Ellis Ludwig-Leone. Sönglögin, sem eru samin við ljóð eftir Karen Russell og Carey McHugh, urðu til í uppnáminu árið 2020. Í þeim eru trúin, fjölskyldan og leitin að tilgangi brotin til mergjar, til að varpa ljósi á þrá okkar eftir tengslum mitt í óreiðu tilverunnar.

Í fyrra kom út samnefnd hljómplata með sönglögunum þar sem Eliza Bagg syngur og tónskáldið leikur á hljóðgervil og píanó ásamt Attacca-strengjakvartettinum. Á plötunni er strengjakvartetti tónskáldsins Speech after the Removal of the Larynx (Tal eftir að raddböndin hafa verið fjarlægð) ofið saman við söngvasveiginn.

Á tónleikum í Hömrum 19. júní kl 20 verður sami háttur hafður ár. Söngvasveigurinn og strengjakvarettinn hljóma í heild sinni í flutningi tónskáldsins, Eliza Bagg og strengjakvartetts úr þýsku hljómsveitinni Orchester im Treppenhaus.

Tónleikarnir eru styrktir af Goethe Institut.

Tónlistarskóli Ísafjarðar – staða skólastjóra auglýst

Bergþór Pálsson, skólastjóri. Mynd: Albert Eiríksson.

Bergþór Pálsson hefur ákveðið að láta af störfum við Tónlistarskólann á Ísafirði í haust og hefur starfið verið auglýst.

Albert Eiríksson segir í samtali við Bæjarins besta að alltaf hafi staðið til að vera fjögur ár og nú eru þau að verða liðin og liggur þá leiðin suður.

Í auglýsingu segir að leitað sé að öflugum og framsýnum leiðtoga til að leiða þróttmikið starf skólans. „Viðkomandi þarf að hafa skýra framtíðarsýn hvað varðar tónlistarkennslu, vera skapandi og metnaðarfull(ur). Um er að ræða 100% starfshlutfall og er æskilegt að viðkomandi geti hafið störf 1. ágúst 2024.“

 Nemendur eru á þriðja hundrað en, auk þess margir eingöngu í kór eða lúðrasveitum skólans. Kennarar eru 13 talsins af ýmsum þjóðernum. Markmið skólans hefur frá upphafi verið að veita almenna tónlistarfræðslu, einkum í hljóðfæraleik, og vinna að eflingu tónlistarlífs á Ísafirði með ýmsu móti. Frekari upplýsingar um starfsemina má finna á vef skólans: https://tonis.is/

Verðskuldaður heiður

Heiðursborgarinn Jón Páll Halldórsson og Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri. Mynd: Pálmi Kr. Jónsson.

Það var mér sem öðrum vinum Jóns Páls gleðifregn, að hann hefði verið kjörinn heiðursborgari Ísafjarðar.  Hann er svo sannarlega vel að því kominn. 

Tryggð Jóns Páls við átthagana er einstök. Framlag hans til atvinnulífs og atvinnuuppbyggingar Ísafjarðar var til fyrirmyndar. Frumkvæði hans að stofnun Menntaskólans á Ísafirði verður seint metið að verðleikum. Og rannsóknir hans og ritstörf á efri árum, um atvinnu- og byggðarsögu Vestfjarða, mun lengi halda nafni hans á loft. 

Við Bryndís óskum honum og hans nánustu hjartanlega til hamingju með verðskuldaðan heiður.

Jón Baldvin og Bryndís

(Höfundur var fyrsti skólastjóri MÍ 1970-79)

Arctic Fish og Vestri knattspyrna í samstarf

Undirritun styrktarsamnings milli Vestra og Arctic Fish.

Arctic Fish verður einn af aðalstyrktaraðilum Vestra knattspyrnu næstu árin. Skrifað hefur verið undir samning þar sem að merki Arctic Fish verður á keppnistreyjum meistaraflokks karla og kvenna en jafnframt styrkir félagið barnastarf Vestra.

„Nú þegar við höfum blásið í seglinn í kvennaknattspyrnu á Vestfjörðum er ánægjulegt að finna velvilja fyrirtækja á svæðinu sem gerir okkur kleift að halda úti metnaðarfullu starfi“ segir Kristján Þór Kristjánsson, formaður meistaraflokksráðs kvenna.

„Það er frábært að fá Arctic Fish í lið með okkur og stuðningur þeirra er okkur mikils virði“ segir Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs karla.

„Það fyllir okkur stolti að geta tekið þátt í velgengni Vestra í knattspyrnu og vera þáttrakendur í því metnaðarfulla starfi sem þar fer fram. Meistaraflokkur karla í efstu deild, aukinn kraftur í kvennaknattspyrnu og öflugt barna- og unglingastarf Vestra lýsir vel þeim krafti og meðbyr sem er á Vestfjörðum þessi misserin“ segir Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish.

Á meðfylgjandi myndum er Stein Ove Tveiten með forsvarsfólki Vestra og fulltrúum iðkenda. Aðalbúningurinn er með merki Arctic Fish en á varabúninginum verður Mowi Arctic merkið en undir því nafni eru vörur félagsins seldar.

Áfram Vestri

Meistaraflokkur kvenna hjá Vestra fær góðan liðsauka

Knattspyrnudeild Vestra heldur áfram að semja við leikmenn í meistaraflokki kvenna. Nú koma inn í hópinn þrír leikmenn sem án efa munu styrkja liðið verulega en það eru: Elín Sveinsdóttir, Lára Ósk Albertsdóttir og Justine Christensen.

Elín Sveinsdóttir er uppalinn í Vestra (BÍ) og er eini leikmaðurinn í hópnum sem spilaði síðast með Vestra í meistaraflokki sem hét þá BÍ/Bolungarvík. Elín á 66 meistaraflokks leiki í öllum keppnum. Hún er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað flestar stöður á miðju og í vörn.

Lára Ósk Albertsdóttir er uppalinn í fótbolta á Ísafirði en hefur reynt fyrir sér undanfarin ár í Reykjavík með HK, Fjölni og síðast Fram. Lára er kominn aftur heim og tekur baráttuna með Vestra í ár. Lára á 30 meistaraflokks leiki í öllum keppnum. Lára er miðjumaður.

Justine Christensen kemur til liðs við okkur í júní frá Danmörku. Justine hefur tengingu vestur en hún er kærasta Mortens Hansen sem er leikmaður karlaliðs Vestra. Justine er fjölhæfur sóknar og miðjumaður.

Velkomin sértu guðsþjónusta í Ísafjarðarkirkju

Í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 7. apríl kl. 11:00 verður Velkomin sértu guðsþjónusta!

Þetta er guðsþjónusta fyrir forvitna, fyrir þau sem vilja kynnast messunni og skilja, og þetta er guðsþjónusta fyrir þá útlendinga sem vilja læra íslensku og kynnast íslensku þjóðkirkjunni.

Einstakir messuliðir verða útskýrðir og sungið verður á íslensku, ensku, þýsku, spænsku og latínu.

Og rúsínan í pylsuendanum er að boðið verður upp á kaffi og kleinur eftir guðsþjónustuna.

Ísafjörður – Dýpkun við Sundabakka hafin á ný

Hollenska dýpkunarskipið Hein er komið til Ísafjarðar og mun vera við dýpkun við Sundabakka næstu vikur.

Hein mun dæla um 48.000 rúmmetrum af efni upp við Sundabakkann og um 50.000 rúmmetrum úr innsiglingunni. Efnið verður að hluta notað til að hækka land á Suðurtanga.

Í sumar á svo dýpkunarskipið Álfsnes að koma og klára að dæla upp.

Álfsnes mun dæla efninu sem þá verður tekið í fjöruna við Fjarðarstræti, en um sama leyti verður fyrirstöðugarðurinn við Norðurtanga tilbúinn.

Aðgengi að fjörunni verður bætt samhliða vinnu við fyrirstöðugarðinn og lýsing sett á garðinn og göngustíginn meðfram Sundstræti.

Jarðgöng vöktuð allan sólarhringinn

Vegagerðin rekur tvær vaktstöðvar og umferðarþjónustuna 1777.

Eitt af hlutverkum vaktstöðvanna er að fylgjast með jarðgöngum landsins en 1777 veitir upplýsingar til vegfarenda til dæmis þegar eitthvað kemur uppá í jarðgöngum.

Vaktstöðvar Vegagerðarinnar eru á Ísafirði og í Garðabæ.

Á Ísafirði er vakt frá hálf sex á morgnana til klukkan tíu á kvöldin en í Garðabæ er vakt allan sólarhringinn. Vaktstöðin í höfuðborginni fylgist með Hvalfjarðargöngum en á Ísafirði er fylgst með öllum öðrum göngum nema á nóttunni þegar vöktun þeirra færist til Garðabæjar.

Jarðgöngin eru stór hluti af verkefnum vaktstöðva, sérstaklega Hvalfjarðargöngin þar sem reglulega bila bílar.

Þeir sem koma að lokuðum göngum geta fengið upplýsingar hjá 1777 eða skoðað vefsíðuna umferdin.is.

Katrín Jakobsdóttir fer í forsetaframboð

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra heur ákveðið að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands. Þetta tilkynnti hún fyrir skömmu. Hún mun biðjast lausnar sem forsætisráðherra. Í stuttu ávarpi sagði Katrin að reynsla hennar úr stjórnmálunum myndi nýtast vel sem forseti ekki síst sú að leiða fólk saman. Sagðist hún vilja gera gagn fyrir samfélagið og tala fyrir grunngildum þess.

Nýjustu fréttir