Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 125

Deildarmyrkvi á sólu í kvöld

Mánudaginn 8. apríl sést deildarmyrkvi á sólu frá Íslandi öllu, ef veður leyfir. Frá Reykjavík sést allur myrkvinn en frá Austurlandi sest sólin á meðan hann stendur yfir.

Tunglið hylur um og yfir 40% af sólinni frá Íslandi séð en í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada verður almyrkvi. Til að sjá deildarmyrkvann þarf að nota hlífðarbúnað, til dæmis sólmyrkvagleraugu.

Í Reykjavík hefst sólmyrkvinn kl. 18:49:25 þegar sól er lágt á lofti í vestri.

Myrkvinn er í hámarki kl. 19:39:59 en sólin er þá aðeins tæplega 6 gráður yfir sjóndeildarhring, svo lágt á lofti að gæta þarf þess að háar byggingar eða tré skyggi á. Deildarmyrkvanum lýkur rétt fyrir sólsetur kl. 20:28:35. Við hámark hylur tunglið á tæplega 47% sólar. 

Frá Egilsstöðum hefst deildarmyrkinn k. 18:50:16. Við hámark kl. 19:38:14 hylur tunglið tæp 42% sólar. Þá er sólin aðeins tæplega 3 gráður yfir sjóndeildarhring. Sólin sest svo kl. 20:12 áður en deildarmyrkvanum lýkur. Frá Austurlandi sést því deildarmyrkvað sólsetur en til að sjá það þarf að koma sér fyrir þar sem fjöll skyggja ekki á.

Í Mexíkó, Bandaríkjunum og Kanada sést almyrkvi sem hefst við sólarupprás í suðurhluta Kyrrahafsins kl. 16:40 að íslenskum tíma. 

Fyrstu 85 mínúturnar liggur almyrkvaslóðin aðeins yfir hafi, fjarri öllu byggðu bóli. Almyrkvinn nemur fyrst land í Mexíkó klukkan 18:05 en myrkvinn er mestur og lengstur þaðan kl. 18:17:20 og stendur yfir í 4m og 28s.

Næsti almyrkvinn eftir sólmyrkvann 8. apríl 2024 verður 12. ágúst 2026. Sá almyrkvi verður sjáanlegur frá vestasta hluta Íslands. Er það janframt fyrsti almyrkvinn sem sést frá Reykjavík síðan 17. júní árið 1433. 

Frá þessu er sagt á vefnum stjornufraedi.is

Breytingar á skipulagi Suðurtangans á Ísafirði

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur birt til kynningar, vinnslutillögu á deiliskipulagi Suðurtanga sem unnin er af Verkís ehf.

Markmiðið með endurskoðun deiliskipulaganna er að fjölga atvinnulóðum, meðal annars í sjávartengdri starfsemi, og samþætta fjölbreytta nýtingu á skipulagssvæðinu.

Við útfærslu skipulagsins hefur verið lögð áhersla á öryggi vegfarenda, gæði byggðar, ásýnd svæðisins, varðveislu menningarminja og viðbrögð og varnir við sjávarflóðum.

Séstaklega er hugað að gönguleiðum farþega skemmtiferðaskipa og samspili þeirra við starfsemi á Suðurtanga og Eyrinni. Sjálfbær þróun var höfð að leiðarljósi við ákvarðanatöku og útfærslu í skipulaginu. Samráð var haft við hagsmunaaðila á svæðinu við skipulagsgerðina.

Opið hús verður haldið á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar, 4. hæð Stjórnsýsluhússins að Hafnarstræti 1 á Ísafirði, föstudaginn 12. apríl 2024 kl. 10:00 til 12:00 til kynningar á tillögunum.

Afmörkun deiliskipulagssvæðis (Mynd frá Loftmyndum ehf., tekin
2023

Grásleppuveiðar – 40 veiðidagar

Frá löndun grásleppu í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Sigurgeir S. Þórarinsson.

Veiðidög­um á grálseppu hef­ur verið fjölgað úr 25 í 40 sam­kvæmt reglu­gerð sem gef­in var út síðastliðinn föstu­dag.

Fiski­stofa mun því fjölga veiðidög­um um 15 hjá öll­um þeim veiðileyf­is­höf­um sem nú eru á veiðum og hjá þeim sem eiga eft­ir að hefja veiðar, að því er fram kem­ur í til­kynnignu á heimasíðu stofnunarinnar.

Heim­ilt er að landa 4.030 tonn­um á yf­ir­stand­andi vertíð en síðustu ár hef­ur ekki tek­ist að veiða all­an þann afala sem heim­ild er fyr­ir.

Á síðasta ári var veiðidög­um fjölgað í tvígang.

Ísafjarðarbær samþykkir stefnu um móttöku skemmtiferðaskipa 

Bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku stefnu um mótttöku skemmtiferðaskipa og aðgerðaáætlun til ársins 2027. Hafnarstjórn hafði undirbúið málið og lagt fyrir bæjarstjórnina.

Í inngangi stefnunnar segir að móttöku skemmtiferðaskipanna hafi fylgt miklar tekjur fyrir hafnarsjóð, ferðaþjóna, verslanir og þjónustu. Mörg fyrirtæki sem starfa á ársgrundvelli og þjóna heimamönnum hefðu ekki rekstrargrundvöll án skemmtiferðaskipanna. Þá segir að Ísafjarðarhöfn sé stærsti ferðaþjónninn á Vestfjörðum. Því fylgi tækifæri og ábyrgð, og einn liður í því er að sveitarfélagið og höfnin setji sér skýra stefnu.

Í stefnuorðum segir að Ísafjarðarbær sé aðlaðandi áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip. Móttaka þeirra skapi samfélaginu öllu tekjur og uppfyllir öll þrjú skilyrði sjálfbærrar þróunar; hagrænnar, umhverfislegrar
og félagslegrar.

Í aðgerðaráætlun segir að áfram verði allar hafnir í Ísafjarðarbæ markaðssettar sem áfangastaðir fyrir skemmtiferðaskip. Mest áhersla er á Ísafjarðarhöfn og þar verði stærstur hluti fjárfestingar tengd móttöku skipanna. Við framkvæmdir á öllum höfnunum verði litið til þess að þær nýtist öllum notendum, þ.m.t. skemmtiferðaskipum.

Teknir verða upp fjárhagslegir umhverfishvatar, t.d. EPI, þegar Alþingi heimilar slíka gjaldtöku.

Höfnin setji á stofn sérstakan sjóð sem hafi tvíþætt hlutverk;
að styrkja sjálfstæð verkefni sem efla höfnina sem áfangastað, svo sem með uppbyggingu innviða, uppsetningu skilta, eða bætt aðgengi, og
styrkja menningu- og félagslíf í bænum á svipaðan hátt og samfélagssjóður Orkubúsins.

Klárað verði deiliskipulag fyrir Suðurtanga árið 2024 og uppbygging samkvæmt því hefjist strax í kjölfarið.

Ráðist verður í hönnun á húsi fyrir farþegamóttöku árið 2024 svo framkvæmdir geti hafist 2025.

Almennt skulu skemmtiferðaskip ekki taka land utan hafna. Þar sem Ísafjarðarbær er landeigandi er það því bannað nema í undantekningartilvikum og þá með leyfi bæjarstjóra eða hafnarstjóra. Skemmtiferðaskip skulu hafa skýrt leyfi landeigenda til landtöku utan hafna. Um landtöku í Hornstrandafriðlandinu gildir verndaráætlun sem meðal annars banna landtöku hópa sem eru fjölmennari en 51.

Settur verður tveggja skrefa hámarksfjöldi farþega sem tekur breytingum á tímabilinu. Lægri hámarksfjöldinn segir til um hvenær skipafélög eru hvött til að leita annað, en við efri mörkin sé lokað fyrir bókanir. Hámark gildir ekki árið 2024 þar sem bókanir hafa fyrir löngu verið staðfestar.

Helga Þórisdóttir býðir sig fram til forseta

Helga Þórisdóttir.

Helga Þórisdóttir, sem hefur gegnt starfi forstjóra Persónuverndar undanfarin rúm átta ár hefur tilkynnt að hún ætlar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Blaðamannafundur var haldinn á heimili Helgu í Reykjavík, en hún sagðist vilja bjóða heim til að þjóðin gæti kynnst sér betur.

„Mín áhersluatriði sem forseti eru fyrst og fremst að vera þjónn fólksins í landinu – og vera fremst í flokki við að styðja við alla landsmenn. Jafnframt að vera málsvari þess íslenska drifkrafts, sem gerir okkur að þeirri sterku þjóð sem við erum, á eldfjallaeyjunni okkar nyrst í Atlantshafi,“ sagði Helga.

Helga leggur áherslu á að styðja við fræðasamfélagið, menninguna og atvinnulífið, sem og hina gróskumiklu nýsköpun og sköpunarkraft íslenskrar þjóðar. Hún vill jafnframt vera rödd þjóðarinnar á heimsvísu, á tímum breyttrar heimsmyndar, og umfram allt, sýna þekkingu, yfirvegun og áreiðanleika, fyrir íslenska þjóð.

„Sem forstjóri Persónuverndar í rúm átta ár, þá hef ég stýrt mikilvægri ríkisstofnun, stundum í ólgusjó, en alltaf af þeirri fagmennsku, festu og heiðarleika, sem verkefnið hefur kallað á. Á þeirri vegferð hef ég sýnt fram á að ég er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir. Ég er alin upp með virðingu fyrir grunngildum íslenskrar þjóðar. Ég þekki menningu okkar, tungu og sögu – auk þess að hafa sérþekkingu á mikilvægi þess að standa vörð um réttindi einstaklinga á tækniöld,“ sagði Helga einnig.

Helga segir að reynsla hennar og þekking geti svo sannarlega nýst íslensku þjóðinni. Hún hafi unnið að almannahagsmunum alla sína starfsævi. Í þeim störfum hefur það reynst henni vel að þykja vænt um annað fólk og styðja það, og búa þannig til betra samfélag. 

Hún brennur fyrir hagsmunum íslenskrar þjóðar og býður nú fram reynslu sína, þekkingu og einlægni til að gegna hinu mikilvæga embætti forseta Íslands.

Framboðsræða Helgu

Kæru landsmenn, kæru vinir!

Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á heimili mitt, og fjölskyldu minnar.

Ég var alin upp með þeim orðum að ég gæti gert allt sem ég vildi gera í lífinu.

Uppeldi mitt einkenndist af hlýju, aga og stuðningi  – og foreldrar mínir, Þórir Helgason lyflæknir á Landspítalanum, og Auður Jónsdóttir, læknaritari, höfðu bæði mjög sterk og mótandi áhrif á mig.

Þau lögðu líka mikla áherslu á að kynna mér heiminn og ung var ég send í tvígang í sveit, í Hörgárdal í Eyjafjarðarsýslu og einnig til útlanda til að læra erlend tungumál.

Betra veganesti hefði ég ekki getað fengið.

 Í ár fagna ég 29 ára starfsafmæli sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands.

Starfsferill minn hefur einkennst af þjónustu við almannahagsmuni – hann einkennist af því að hlúa að hagsmunum Íslendinga.

Og núna í starfi mínu sem forstjóri Persónuverndar hef ég sett á oddinn réttindi einstaklinga á tímum tæknibyltingar.

Ég hef starfað hjá embætti ríkissaksóknara, á nefndasviði Alþingis, hjá EFTA í Brussel, hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Lyfjastofnun og nú síðast hef ég sinnt því vandasama hlutverki að starfa sem forstjóri Persónuverndar á mjög krefjandi tímum. Síðastliðið vor var ég einnig beðin um að taka að mér formennsku í stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Til þess að vinna að almannahagsmunum, þá hefur það reynst mér vel að þykja vænt um annað fólk, vilja styðja það – og búa til betra samfélag. Þar er ég.

Á starfsferli mínum hef ég aflað mér umfangsmikillar reynslu og þekkingar, m.a. af íslenskri stjórnsýslu og alþjóðasamskiptum.

Ég hef haldið alþjóðlegar ráðstefnur á Íslandi og hef flutt tugi erinda, heima og að heiman. Ég á sæti í hinu Evrópska persónuverndarráði og hef dagsdaglega þurft að sinna margvíslegum erlendum samskiptum. Ég hef í gegnum árin dvalið í Belgíu og Frakklandi og sumarlangt í Danmörku og Skotlandi, sem unglingur.

Sem forstjóri Persónuverndar í rúm átta ár, þá hef ég stýrt mikilvægri ríkisstofnun, stundum í ólgusjó, en alltaf af þeirri fagmennsku, festu og heiðarleika, sem verkefnið hefur kallað á. Á þeirri vegferð hef ég sýnt fram á að ég er óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir.

Ég er alin upp með virðingu fyrir grunngildum íslenskrar þjóðar. Ég þekki menningu okkar, tungu og sögu – auk þess að hafa sérþekkingu á mikilvægi þess að standa vörð um réttindi einstaklinga á tækniöld.

Með alla mína dýrmætu reynslu og þekkingu, þá býð ég mig því fram – hér og nú – til embættis forseta Íslands

Embætti forseta Íslands er að mínu mati eitt virðingarmesta embætti landsins.

Í embættinu þarf að vera einstaklingur sem ber virðingu fyrir lýðræðinu og fyrir grunngildum íslenskrar þjóðar, eins og þau eru lögfest í okkar stjórnarskrá.

Þar þarf að vera einstaklingur sem tryggir að virðing sé borin fyrir öllum í lýðræðissamfélagi einstaklingur sem tryggir að ríkið, á hverjum tíma, grafi ekki undan okkar helstu gildum.

Einstaklingur sem hefur dug og þor til að standa í fæturna, fyrir íslenska þjóð, ef á þarf að halda.

Einstaklingur sem þekkir nauðsyn þess að tæknibreytingar vinni með okkur.

Einstaklingur sem hlúir að börnum og eldri borgurum – og öllum þeim hagsmunum öðrum sem embættið getur komið að, til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Einstaklingur sem Íslendingar geta verið stoltir af – heima og heiman.

Einstaklingur sem yrði ávallt kjölfestan í íslensku samfélagi – öryggisventill íslenskrar þjóðar!

Þessum hagsmunum öllum brenn ég fyrir – og finn sterkt í mínu hjarta að ég get sinnt, svo sómi sé að fyrir íslenska þjóð.

Mín áhersluatriði sem forseti eru fyrst og fremst að vera þjónn fólksins í landinu – og vera fremst í flokki við að styðja við alla landsmenn.

Jafnframt að vera málsvari þess íslenska drifkrafts, sem gerir okkur að þeirri sterku þjóð sem við erum, á eldfjallaeyjunni okkar nyrst í Atlantshafi.

Ég vil styðja við fræðasamfélagið, menninguna og atvinnulífið.

Ég vil styðja við okkar gróskumiklu nýsköpun og sköpunarkraft íslenskrar þjóðar.

Ég vil jafnframt vera rödd þjóðarinnar á heimsvísu, á tímum breyttrar heimsmyndar – og umfram allt sýna þekkingu, yfirvegun og áreiðanleika, fyrir íslenska þjóð.

Ég brenn fyrir hagsmunum íslenskrar þjóðar.

Þess vegna býð ég fram reynslu mína, þekkingu og einlægni til að gegna þessu mikilvæga embætti!

Áfram Ísland!

Knattspyrna: Vestri hefur leik í bestu deildinni

Vestfirðingar á leiknum í gær. Hér má greina Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra Kerecis.

Í gær lék Vestri sinn fyrsta leik í Bestu deild karla í knattspyrnu. Eru liðin rúm 40 ár síðan ÍBÍ var í fyrstu deildinni so það voru sannarlega tímamót í knattspyrnusögu Vestfirðinga.

Leikið var í Úlfarsárdal gegn liði Fram, sem nýlega hefur komið sér fyrir þar eftir áratugi í Safamýrinni í Reykjavík.

Leikar fóru svo að Fram sigraði 2:0 með tveimur mörkum gerðum í fyrri hálfleik. Eins og oft áður undanfarin ár er Vestraliðið fyrri hluta keppnistímabilsins á eftir öðrum liðum og það leyndi sér ekki nú. Aðstaðan á Ísafirði er lakari en víðast hvar annars staðar og það hefur sitt að segja. Þjálfari Vestri Davíð Smári Lamunde sagði eftir leikinn í viðtali við fotbolti.net að liðið væri ekki með aðstöðu til að vera í efstu deild, og jafnvel í raun og veru ekki með aðstöðu til þess að vera í neinni deild á Íslandi en vildi samt ekki kenna því um. Það hefði verið vitað fyrir leikinn og liðið gæti bara kennt sjálfu sér um að hafa ekki leikið betur, sérstaklega í fyrri hálfleik.

Vestfirðingar hins vegar gleðjast yfir því að eiga lið í efstu deildinni og eru minnugir þess að liðið byrjaði í fyrra rólega og steig svo hægt og rólega upp töfluna eftir því sem leið á sumarið og endaði á því að vinna sig upp um deild. Svo það getur orðið gott fótboltasumar.

Frá leiknum í gær. Vestri lék í hvítum búningum. Myndir:aðsendar.

Viðbrögð við framandi lífverum á Íslandi krefjast samþættingar líf- og hegðunarvísinda

Höfundur, Theresa Henke flundrusérfræðingur og Kolbeinn Hrólfsson líffræðingur á flundruveiðum.

Ágengar framandi lífverur eru eitt af stóru umhverfisvandamálum heimsins og ein helsta ástæða taps á líffræðilegri fjölbreytni. Ágengar framandi lífverur valda þó ekki eingöngu vistfræðilegum skaða heldur hafa líka umtalsverð samfélagsleg og efnahagsleg áhrif1, og jafnvel áhrif á heilsu manna. Það er nú almennt viðurkennt að viðfangsefnið er þverfaglegt og að þverfagleg viðfangsefni kalla á samþættingu aðferðafræði ólíkra fræðigreina.

Fólk og framandi ágengar lífverur eru raunar órjúfanlega tengd, þar sem þáttur fólks er hluti af skilgreiningunni. Lífvera telst því ekki ágeng nema fólk hafi átt þátt í því að hún dreifist út fyrir náttúruleg heimkynni sín eða fjölgi óhóflega í náttúrulegum heimkynnum.  Áhugi og viðbrögð manna hafa líka mest um það að segja hvort tekst að hægja á frekari dreifingu eða stýra þeim framandi ágengu lífverum sem þegar hafa dreift sér um heiminn.

Ýmislegt hefur verið reynt til að sporna við dreifingu framandi ágengra lífvera en vísindafólk, stjórnvöld og stefnumótendur, hagaðilar og almenningur eru ekki alltaf sammála um hvernig best er að bregðast við. Vandinn magnast þegar kemur að lífverum í sjó, en þar er oft erfitt að meta uppruna lífveranna og þeirra verður seinna vart. Þegar lífvera hefur numið nýtt hafsvæði er nær ómögulegt að uppræta hana og einungis örfá dæmi á heimsvísu um að slíkt hafi verið reynt2.

Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til viðbragða við framandi ágengum lífverum, bæði með þátttöku í alþjóðasamningum og með eigin lagasetningu, t.d. náttúruverndarlögum. Stefna stjórnvalda og viðbrögð hafa þó að mestu einskorðast við að reyna að koma í veg fyrir dreifingu lífveranna til landsins. Þetta hefur t.d. verið gert með því að banna innflutning á áhættu tegundum og með lögum um kjölfestuvatn. Alþjóðlega er talið að slíkar reglur geti hægt á dreifingu framandi lífvera en þær ná þó ekki að vega upp í móti aukningu í skipaferðum.

Þannig þurfum við að sætta okkur við að líklega verður ekki hægt að koma alveg í veg fyrir að framandi lífverur berist til landsins. Sem aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD) hefur Ísland líka skuldbundið sig til að vakta og stjórna framandi lífverum þar sem þær hasla sér völl. Stjórn lífvera  krefst upplýsinga um dreifingu þeirra og fjölda og þar er víða pottur brotinn á Íslandi. Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun og Náttúrustofur hafa lögbundið hlutverk til vöktunar á lífríki Íslands en þar þarf að forgangsraða takmörkuðu fjármagni. Í dag er einungis rekið eitt verkefni á landinu gagngert til að vakta framandi lífverur í sjó þó auðvitað komi upplýsingar um nýjar tegundir líka úr öðrum reglubundnum leiðöngrum.

Flestir rannsóknaleiðangrar í sjó voru hannaðir á öðrum forsendum og það eru fáir sýnatökustöðvar í strandsjó. Þar sem leiðöngrum sleppir geta aðrar og ódýrari aðferðir tekið við. Strandsjór er sóttur af fjölbreyttum nýtingaraðilum, strandveiðibátum, sjóstangaveiðibátum, stangveiðimönnum, ferðaþjónustuaðilum og tómstundabátum. Með því að virkja þessa aðila er hægt að ná meiri árangri með minna fjármagni.

Það er vel þekkt erlendis að hagaðilar og almenningur taki þátt í gagnasöfnun um framandi lífverur. Við höfum raunar líka ágætt dæmi um slíkt hér á Íslandi þar sem samstarf við stangveiðimenn bætti mikið við gagnagrunn um dreifingu flundru, sem er framandi fiskur á Íslandi og finnst helst í strandsjó og í árósum3. Slík verkefni eru oftast tímabundin. Til að hanna ótímabundin vöktunarverkefni er mikilvægt að einblína á þá þætti sem geta stuðlað að langtíma þátttöku almennings og jafnframt að stilla kostnaði við umsýslu og aðra vinnu í hóf. Hegðunarvísindi kynna okkur fyrir einföldum leiðum til að hvetja til æskilegrar hegðunar. Þannig er vísvitandi liðkað fyrir hegðun,  t.d. með sjálfkrafa skráningu, áberandi merkingum og jákvæðri römmun viðfangsefnisins. Andstætt liðkun er hugtakið „leðja“. Leðja eykur flækjustigið, t.d. þegar það er erfitt að finna réttan vettvang eða það þarf að hringja til að nálgast upplýsingar4.

Til að virkja almenning við að tilkynna framandi lífverur þarf vettvangur til tilkynninga að vera augljós, aðgengilegur og jafnvel skemmtilegur. Reynslan sýnir að áhugasamir eru tilbúnir til að krafsa sig í gegnum töluverða „leðju“ til að koma upplýsingum áleiðis til viðeigandi stofnana, þrátt fyrir að enginn augljós vettvangur sé til staðar. Með því að liðka fyrir tilkynningum mætti strax bæta skráningu framandi lífvera á Íslandi.

Sem dæmi má aftur taka flundru en dreifing hennar er ekki vöktuð í dag og hún kemur nær aldrei fram í reglubundnum leiðöngrum. Með hvetjandi auglýsingum á þeim stöðum þar sem líklegt er að flundru verði vart, með skýrri ástæðu vöktunar, og augljósum og auðsóttum vettvangi til tilkynninga, mætti kortleggja dreifingu og fjölda flundru á Íslandi með nær engum tilkostnaði. Slíkur gagnagrunnur yrði forsenda þess að meta breytingar á stofninum og áhrif á annað lífríki.

Flundra er vel rannsakað dæmi en auðvitað mætti sníða vöktunarverkefni byggð á hegðunarvísindum að fleiri framandi lífverum.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

Höfundur er nemandi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ í Bolungarvík

1. Kourantidou, M., ofl. (2022). The economic costs, management and regulation of biological invasions in the Nordic countries. Journal of Environmental Management, 324, 116374.

2. Simberloff, D. (2021). Maintenance management and eradication of established aquatic invaders. Hydrobiologia, 848, 2399-2420.

4. Henke, T., ofl. (2024) Familiarity doesn’t breed contempt; Stakeholder perceptions of an alien differ in time and space. NeoBiota. In press.

5. Thaler, R. H., & Sunstein, C. R. (2009). Nudge: Improving decisions about health, wealth, and happiness. Penguin.

Arnarfjörður: ævintýraleg rækjuveiði

Egill ÍS 77 hefur lokið rækjuveiðum í Arnarfirði að sinni. Báturinn hefur landað 125 tonnum af rækjum eftir 12 veiðiferðir. Alls er heildarkvótinn í Arnarfirði 166 tonn og auk Egils ÍS 77 er það Jón Hákon BA frá Bíldudal sem hefur rækjukvóta, en hann hefur ekki hafið veiðar enn.

Stefán Egilsson eigandi Egils ÍS 77 sagði í samtali við Bæjarins besta að útgerðin hefði verið á rækjuveiðum í Arnarfirði síðan 2012 og þær hefðu aldrei verið eins góðar og nú, „veiðarnar hafa verið ævintýralegar góðar“ sagði Stefán. Veiðar hófust 2. mars og veitt var til 15. mars. Síðan hófust veiðar aftur í síðustu viku, 2. apríl og lauk á föstudaginn 5. apríl.

Stefán Egilsson sagði að hann og Gunnar Torfason, útgerðarmaður á Ísafirði myndu hitta sérfræðinga Hafrannsóknarstofnunar á morgun og fara yfir veiðarnar í Arnarfirði.

Egill ÍS 77 kemur í Þingeyrarhöfn 15. mars sl.

Myndir: Halldór J. Egilsson.

Fjarskiptaáætlun Vestfjarða: 100% dekkning á stofnvegum fyrir árslok 2026

Út er komin skýrsla um stöðu fjarskiptamála 2023-2024 á Vestfjörðum. Fyrirtækið Gagna ehf. vann hana fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga og er skýrslan samantekt upplýsinga um núverandi stöðu og væntanlegar breytingar fjarskiptamála á Vestfjörðum.

Skýrslan tekur til stöðu farneta (farsímadreifikerfa) og fastaneta (ljósleiðara og koparheimtauga) ásamt upplýsingum um öryggissamskiptakerfi Tetra og dreifingu útvarps. Upplýsingar í þessari skýrslu eru fengnar með viðtölum og gögnum frá Fjarskiptastofu, Neyðarlínunni, Ríkisútvarpinu, Vegagerðinni
og fjarskiptafélögunum Símanum, Sýn, Nova, Mílu og Snerpu auk nokkurra heimaaðila á Vestfjörðum.

Farnet

Í skýrslunni er notast við heitið „Farnet” yfir dreifikerfi í lofti (e. mobile network) sem farsímar og ýmis önnur nettengd tæki nýta til net og talþjónustu. Í dag bera þessi dreifikerfi hvort sem tæknin heitir 2G (GSM), 3G, 4G eða 5G, netumferð fyrir mismunandi tæki, tölvur sem síma, en ekki bara símtöl.

Helstu niðurstöður skýrslunnar fyrir farnet eru:

Fjarskiptafélögin skulu klára 100% dekkningu á stofnvegum fyrir árslok 2026 samkvæmt skilyrðum í tíðniheimildum útgefnum í mars 2023.

Í þéttbýli er lögð mun meiri krafa á fjarskiptafélögin um að bjóða meiri háhraðatengingar um farnet. Fyrir árslok 2027 skal 99% heimila og fyrirtækja í þéttbýlum ná amk 250Mb/s tengihraða um farnet. Það verður að mestu eða öllu leyti leyst með 5G farnetum.

Fjarskiptafélögum er ekki skylt samkvæmt sömu tíðniheimildum að auka útbreiðslu sína á vegköflum sem ekki teljast til stofnvega. Fjarskiptafélögum er nú heimilt að eiga samstarf og samnýta sendibúnað til að ná útbreiðslukröfum þar sem markaðsbrestur telst vera til staðar.

Á Vestfjörðum erum ýmis svæði utan þéttustu byggða og svæði sem nýtt eru til útivistar af ýmsu tagi og vegir sem ekki teljast til stofnvega sem lenda utan dekkningakvaða frá Fjarskiptastofu.
Mikilvægt er að heimaaðilar eigi frumkvæði að því að fá þar fram úrbætur með samtali við bæði opinbera aðila svo sem Öryggisfjarskipti og Fjarskiptastofu og eins fjarskiptafélögin sjálf. Sveitarfélög eða einkaaðilar sem geta liðkað fyrir slíkum framkvæmdum, til dæmis er varðar aðstöðuöflun eru líklegri til
að ná úrbótum fyrr fram.

Margar ábendingar bárust um svæði þar sem Tetra samband var ekki til staðar eða slitrótt og hefur haft mikil áhrif á viðbrögð og störf björgunaraðila.
Svæðin þar sem Tetra samband er ekki til staðar eða lélegt eru oftast þau sömu og þar sem ekki er símasamband um farnet enda Tetrasendar og farnetssendar oft í sömu fjarskiptaaðstöðum. Ekki hefur enn fengist fjármagn til frekari uppbyggingu Tetra kerfisins. Bent er á að fyrirliggjandi uppbygging nýrra sendistaða í tengslum við Stofnvegadekkun farneta getur nýst Tetra á ýmsum stöðum ef fjármagn fengist til uppbyggingar Tetra kerfisins.

24 nýir sendistaðir

Til þess að ná markmiðinu um 100% dekkningu á stofnvegum er talið að þurfi 24 nýja sendistaði á Vestfjörðum. Í skýrslunni segir að ríkið muni í gegnum félag sitt Öryggisfjarskipti ehf taka þátt í kostnaði við uppbyggingu þessara nýju sendistaða sem að mestu leyti eru á fjallvegum.

Sendistaðirnir 24 sem áætlað er að þurfi að bæta við á Vestfjörðum til að ná markmiðum um slitlausa þjónustu á stofnvegum samkvæmt verkáætlun Fjarskiptastofu má sjá á korti hér fyrir neðan.
Rétt er að geta þess að vinna að nánari útfærslu við val sendistaða stendur enn yfir með fjarskiptafélögunum (janúar 2024).

Fjórðungssamband Vestfirðinga stendur fyrir fundi um fjarskiptamál á Vestfjörðum sem haldinn verður á Teams í dag, mánudaginn 8. apríl, kl. 12:30. Á fundinum mun Þorsteinn Gunnlaugsson ráðgjafi hjá Gagna kynna Fjarskiptaáætlun Vestfjarða.

Hér er hægt að tengjast inn á fundinn

Skipulagsstofnun : ásætuvarnir í Arnarfirði skulu í umhverfismat – aðeins Vesturbyggð vildi þá leið

Skipulagsstofnun ákvað 3. apríl að fyrirhuguð framkvæmd Arctic Fish um að taka upp ásætuvarnir á kvíum í Arnarfirði sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Fyrirtækið áformar að taka upp ásætuvarnir sem innihalda Tralopyril og Zinc Pyrithione á nætur eldiskvía innan þriggja eldissvæða fyrirtækisins í Arnarfirði í stað þess að bregðast við ásætum með reglulegum háþrýstiþvotti á nótum. Um er að ræða eldissvæðin Lækjarbót og Hvestudal auk eldissvæðisins í Trostansfirði.

Í greinargerð Skipulagsstofnunar segir að nótaþvottur með háþrýstingi hafi áhrif á velferð fiska, auk þess að valda sliti á eldisbúnaði, en háþrýstiþvottur ásæta skapar slæmar aðstæður fyrir eldisfisk og því mikilvægt að lágmarka þvott eins og hægt er eða útiloka þvottinn alfarið.

Eldisnætur verða húðaðar með ásætuvörn og verður magn ásætuvarna fyrir þau þrjú eldissvæði sem hér eru til umfjöllunar tæplega 52.000 lítrar af málningu ár hvert, þar af verður útskolun í heildina um 90 gr. á dag að jafnaði, en margfalt meiri fyrstu 14 daga útsetningar. Af þeim þremur eldissvæðum sem hér eru til umfjöllunar, starfrækir ASF eitt eldissvæði í einu og því verður notkunin um 17.000 lítrar af málningu fyrir hvert 8-12 mánaða tímabil. Rannsóknir á útskolun Zinc Pyrithione liggja ekki fyrir að svo stöddu.

Komi í ljós að zink sem safnast upp í botnseti fari yfir viðmiðunarmörk mun ASF grípa til mótvægisaðgerða. Þá verður ýmist hvíldartími lengdur, kvíastæði færð innan eldissvæðis, útsettum seiðum fækkað á eldissvæði með færri kvíum og dregið þannig úr fjölda kvía með ásætuvörn eða hætt að nota vörnina.

Einn af átta umsagnaraðilum vildi umhverfismat

Skipulagsstofnun er upp á lagt að lögum að leggja mat á umsókn af þessu tagi og taka ákvörðun um það hvort gera þurfi sérstakt umhverfismat, en það þýðir að málið tefst verulega ef á annað borð leyf fæst fyrir breytingunni. Sumarið 2022 hugðist Arctic Fish taka upp koparásætuvarnir en hætti við eftir að Skipulagsstofnun ákvað að þau áform þyrftu að fara í umhverfismat. Nú var sótt um að nýju en með öðrum efnum.

Skipulagsstofnun sendi umsóknina til átta aðila til umsagnar. Af þeim var aðeins einn sem vildi að framkvæmdin færi í sérstakt umhverfismat. Það var sveitarfélagið Vesturbyggð.

Að mati skipulags- og umhverfisráðs Vesturbyggðar liggur ekki fyrir í fyrirliggjandi gögnum hvort notkun ásætuvarnanna, geti haft í för með sér óafturkræf áhrif á náttúru í Arnarfirði og telur ráðið „því eðlilegt að framkvæmdin fari í umhverfismat vegna þeirrar óvissu sem er um langtíma áhrif þeirra efna sem nota á sem ásætuvarnir á lífríki fjarðarins sem og mögulegra sammögnunaráhrifa vegna fjölda eldissvæða í Arnarfirði.“ Framkvæmdin er ekki leyfisskyld af hálfu Vesturbyggðar.

Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða telur ekki þörf á sérstöku mati á umhverfisáhrifum. Sama segir Matvælastofnun í sinni umsögn. Jafnframt telur Mast að „notkun ásætuvarna skili bættum og öruggari umhverfisaðstæðum til eldis þegar kemur að dýraheilbrigði og velferð. Jafnframt telur stofnunin að þegar notast er við ásætuvarnir verði álag á nótina minna sem dregur úr líkum á mögulegu stroki.“

Umhverfisstofnun telur áhrif ofangreindrar framkvæmdar liggja ljós fyrir og að ferli umhverfismats muni í þessu tilfelli ekki varpa skýrari mynd á áhrif notkunar ásætuvarna á umhverfið.

Fiskistofa tekur ekki afstöðu til þess hvort rétt sé að fram fari umhverfismat.

Hvort fullt umhverfismat sé nauðsynlegt hefur Náttúrufræðistofnun ekki forsendur til að meta en segir sannarlega vera þörf á frekari rannsóknum. Hafrannsóknarstofnun segir að umhverfismat hafi þegar farið fram vegna sjókvíaeldisins og óljóst hverju umhverfismat á umræddum breytingum myndu skila í heildarmyndina ef það væri þá mögulegt. Ómögulegt sé að segja til um hvort að þessi breyting feli í sér minnkuð eða aukin áhrif á umhverfið.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar, telur að nægjanlega sé gert grein fyrir framkvæmdinni í framlögðum gögnum framkvæmdaaðila og telur að framkvæmdin kalli ekki á umhverfismat.

Að fengnum þessum umsögnum var það niðurstaða Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd væri líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því framkvæmdin háð mati á
umhverfisáhrifum.

Nýjustu fréttir