Miðvikudagur 11. september 2024
Síða 124

Glóbrystingur í Bolungarvík og snæugla í Súðavík

Húsráðendur þau Arngrímur Kristinsson og Margrét Sæunn Hannesdóttir hafa gert sitt besta til að dekra við fuglinn og tók Arngrímur þessar mynd

Á vefsíðu Náttúrufræðistofnunar Vestfjarða er sagt frá því að glóbrystingur (Erithacus rubecula) hafi gert sig heimakominn í garði í Bolungarvík frá byrjun árs.

Eins og sést á mynd er glóbrystingur auðþekkjanlegur. Bringan og andlitið eru rauðgul ásamt því að hann er smár, um 14 cm að lengd og vænghafið um 20-22 cm.

Glóbrystingur er algengur haustflækingur á landinu þótt við fáum ekki oft fregnir af komu hans á okkar slóðir. Hann lifir oft af veturinn og hefur verpt á landinu. Þótt megin fæða hans séu ýmis smádýr étur hann einnig ber og fræ frá hausti fram á vor. Þegar hann flækist til landsins sækir hann því í garða þar sem fuglum er gefið.

Snæugla á Vestfjörðum 2023. Mynd Kristjana Einarsdóttir

Hinn gesturinn er snæugla sem Þórður Sigurðsson og fjölskylda sáu í Súðavík í byrjun febrúar.

Lengd snæugla er 53-66 cm og vænghafið 140-170 cm og er kvenfuglinn jafnan stærri.

Tegundin verpti af og til í Ódáðahrauni á árunum 1932-1974 og segir Sigurður Ægisson eitt til tvö hreiður hennar hafa fundist nær árlega á Vestfjörðum síðan árið 2008.

Snæuglan er hánorrænn fugl sem hér á landi hefur haldið sig mest á hálendi og heiðum þótt af og til sjáist hún í byggð.

Salmonella í kjúklingi

Matvælastofnun varar við neyslu á tveimur framleiðslulotum af ferskum kjúklingi frá Matfugli ehf. vegna gruns um salmonellusmit.

Fram kem­ur í til­kynn­ingu að frek­ari rann­sókna sé þörf til þess að staðfesta grun­inn en þangað til þykir fyr­ir­tæk­inu rétt að innkalla vör­una.

Um er að ræða kjúk­ling með rekj­an­leika­núm­er­inu 011-24-09-3-66 og 011-24-09-2-07.

  • Vöru­heiti: Ali, Bón­us
  • Fram­leiðandi: Mat­fugl ehf, Völu­teigi 2, 270 Mos­fells­bæ
  • Lot­u­núm­er: 011-24-09-3-66 og 011-24-09-2-07 (heill kjúk­ling­ur, bring­ur, lund­ir, læra­kjöt, bit­ar, kryddlegn­ar bring­ur), pökk­un­ar­dag­ur 02.04.2024 – 05.04.2024
  • Dreif­ing: Bónusversl­an­ir, Krónu­versl­an­ir, Fjarðar­kaup, Hag­kaup, Hlíðar­kaup, Kaup­tún, Kass­inn, Nettó.

Neyt­end­ur sem keypt hafa kjúk­ling með þessu rekj­an­leika­núm­eri eru beðnir um að skila hon­um í viðkom­andi versl­un eða beint til Mat­fugls ehf., Völu­teigi 2, Mos­fells­bæ.

Vestri: semur við fjóra leikmenn í kvennaliði meistaraflokks

Frá undirrituninni. Mynd: Vestri.

Um páskana samdi knattspyrnudeild Vestra við leikmenn í meistaraflokki kvenna. Voru þetta fyrstu leikmenn sem samið er við í nýstofnuðu liði Vestra í meistaraflokki kvenna.

Stelpurnar sem samið var við eru allar úr 2005 árgangnum og hafa þær æft saman fótbolta frá því í 6.flokki Vestra og gengið í gegnum súrt og sætt saman. Stelpurnar verða burðarásar í liðinu í sumar ásamt fleiri leikmönnum og var því vel við hæfi að byrja á að semja við þessar stelpur.

Leikmennirnir eru Solveig Amalía Atladóttir, Agnes Þóra Snorradóttir, Katrín Bára Albertsdóttir og Sigrún Betanía Kristjánsdóttir.

Meistaraflokkur kvenna leikur í sumar í fyrsta skiptið síðan 2013 og hefur liðið æft af krafti í vetur og er komin mikil spenna í hópinn að taka þátt í Íslandsmóti í sumar.

Brunavarnir Suðurnesja taka að sér eldvarnareftirlit á sunnanverðum Vestfjörðum

Ráðhús Vesturbyggðar.

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa samið við Brunavarnir Suðurnesja um að það taki að sér eldvarnareftirlit á þjónustusvæði sveitarfélaganna.

Tilgangur samningsins er að halda uppi reglubundnu eftirliti á grundvelli og í samræmi við lög um brunavarnir. Samningurinn gildir frá 1. ágúst 2023 til 31. desember 2024.

Slökkviliðsstjóri BS tekur að sér ábyrgð á eldvarnareftirliti í sveitarfélögunum eftir þeim lögum og reglum sem gilda um eldvarnareftirlit á þeim tíma sem samningurinn er í gildi. Tekur hann stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum um slökkvilið varðandi eldvarnareftirlit og getur beitt réttar- og þvingunarúrræðum í sveitarfélögunum.

Við framkvæmd eftirlits skal stuðst við brunavarnaráætlun Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Vísað er í brunavarnaráætlunina og meðfylgjandi forgangslist á skoðunarskyldu húsnæði í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhrepp.

Eftirlitsmenn mæta til úttektar í sveitarfélögum tvisvar sinnum yfir veturinn og verða í eina viku í senn, eða skemur útfrá verkefnastöðu, og taka til eftirlits fasteignir í samræmi við forgangslista.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður við skoðun fasteigna á gildistíma samningsins sé kr. 3.750.000.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti á fundi sínum fyrir páska viðauka við fjárhagsáætlun ársins til þess að mæta kostnaði við samninginn.

Alþingi: ekki stendur til að banna loðdýrarækt

Loðdýr í búri. Mynd: visir.is

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra segir í svari við fyrirspurn frá Valgerði Árnadóttur, varaþingmanni að á landinu séu sex loðdýrabú með um það bil 7.600 dýrum í lok síðasta árs.

Spurt var hvort ráðherra muni „beita sér fyrir því að banna loðdýrarækt á Íslandi vegna dýravelferðarsjónarmiða og í ljósi þess að 25 ríki í Evrópu hafa bannað loðdýrarækt af þeim sökum og sífellt fleiri bætast við.“

Því svarar ráðherrann þannig að samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar sé öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. „Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Því er ljóst að ef banna skal ákveðna tegund búfjárhalds þarf Alþingi að setja lög þess efnis. Ekki stendur til að svo stöddu að leggja fram frumvarp á Alþingi um bann við loðdýrarækt. „

Ennfremur segir í svarinu að mikilvægt sé að gæta að velferð dýra í hvívetna, þar á meðal loðdýra. „Markmið laga um velferð dýra er að stuðla að því að dýr séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

Halla Hrund býður sig fram til forseta Íslands

Halla Hrund Logadóttir, Orkumálastjóri.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri og aðjúnkt við Harvard háskóla gefur kost á sér til embættis forseta Íslands í forsetakosningunum sem fram fara þann 1. júní nk. 

Halla Hrund er fædd í Reykjavík 12. mars 1981. Eiginmaður hennar er Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri og meðstofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins 50skills. Þau eiga tvær dætur, Hildi Kristínu, 11 ára, og Sögu Friðgerði, 4 ára. 

Halla Hrund er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í alþjóðasamvinnu með áherslu á hagfræði og orkumál frá The Fletcher School við Tufts háskóla, og meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Harvard háskóla með áherslu á umhverfis- og orkumál.

Halla Hrund var skipuð orkumálastjóri árið 2021, fyrst kvenna. Hún starfar jafnframt sem aðjúnkt við Harvard þar sem hún kennir á meistarastigi. Frá árinu 2017 hafði hún starfað sem meðstofnandi og framkvæmdastjóri við miðstöð Norðurslóða, Arctic Initiative, við Harvard. Árið 2019 var Halla Hrund valin Young Global Leader og kom Halla Hrund að kortlagningu breytingaþátta Norðurslóða á vettvangi World Economic Forum. Frá árinu 2015-2021 vann  Halla Hrund að nýsköpunarverkefninu Arctic Innovation Lab í samvinnu við fjölda háskóla og var leiðbeinandi í ýmsum orkutengdum nýsköpunarhröðlum. 

Halla Hrund hefur setið í stjórn Orkusjóðs frá árinu 2015. Sama ár hóf hún störf sem stundakennari við Háskólann í Reykjavík (HR), þar sem hún kennir námskeið um stefnumótun á sviði orkumála með áherslu á loftslagsmál. Halla Hrund var framkvæmdastjóri Iceland School of Energy við HR frá árinu 2013 fram til ársins 2016. Árin 2011 til 2013 var Halla Hrund forstöðumaður alþjóðaþróunar við HR. 

Fyrst eftir útskrift úr stjórnmálafræði árið 2005 lá leið Höllu Hrundar til Brussel í Belgíu þar sem hún starfaði á vegum utanríkisráðuneytisins að menningarmálum. Þar hélt hún meðal annars eina stærstu menningarhátíð sem Ísland hefur haldið erlendis með þátttöku Þjóðleikhússins, Íslenska dansflokksins, Iceland Airwaves, Listasafns Reykjavíkur og fleiri aðila. 

Frá Brussel fór Halla Hrund til Tógó í Vestur-Afríku þar sem hún tók þátt í nýsköpunar- og kennsluverkefni í höfuðborg landsins, Lomé. Halla Hrund fór síðan til Parísar og vann í nokkra mánuði hjá OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, áður en hún hélt áfram í námi. 

Á sama báti

Elínborg Sturludóttir.

Andspænis ógnum náttúrunnar erum við mannfólkið afskaplega smá. Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum og áföllum reynir á þrautseigju okkur og styrk. Þá getur trúin verið það haldreipi sem við þörfnumst til að komast í gegnum það sem að höndum ber. Í gegnum tíðina hafa Vestfirðingar þurft að takast á við margvísleg samfélagsleg áföll; sjóskaða, ofanflóð og óblíð veður.

Þjóðkirkjan er stór og sterk stofnun með tækifæri til að taka höndum saman við aðra aðila í samfélaginu til að vinna að góðum málum. Ég fullyrði að engin hreyfing í landinu býr að eins stórum og virkum hópi fólks í sínum röðum  nema ef vera skyldi björgunarsveitirnar, sem við eigum svo margt að þakka. Þegar prestar á Reykjanesi kölluðu saman Grindvíkinga í Hallgrímskirkju eftir rýmingu bæjarins í nóvember lét forsætisráðherra þessa skoðun í ljósi og sagði: „Þetta getur enginn gert nema Þjóðkirkjan.“ Þetta ættum við kirkjunnar fólk að muna betur og taka til okkar og vera stolt af.

Nú stendur biskupskjör fyrir dyrum og því vil ég nota þetta tækifæri að segja þér sem þetta les, í örstuttu máli frá þeirri sýn sem ég hef á hlutverk biskups Íslands.

Verði ég kjörin biskup Íslands, mun ég:

  • Hlúa að einingu og friði í lífi þjóðkirkjunnar, milli leikra og lærðra, höfuðborgar og dreifbýlis.
  • Styrkja stöðu safnaðanna með því að ganga eftir því að sóknargjaldalögin verði fest í sessi og fjárhagur safnaðanna verði þar með treystur.
  • Efla og standa vörð um vandaða stjórnsýslu og faglega leiðsögn með sanngjarnri og ábyrgri stjórnun.
  • Auka hlut fræðslu, kennslu og boðun á vegum kirkjunnar fyrir fólk á öllum aldri.
  • Móta frekar samskiptastefnu þjóðkirkjunnar og ydda áherslur og nálgun sem kemur boðskap kristinnar trúar á framfæri í fjölmenningarsamfélagi dagsins.
  • Standa vörð um og efla kærleiksþjónustu kirkjunnar í söfnuðum og Hjálparstarfi kirkjunnar.
  • Styðja við nýjungar, fjölbreytni og endurnýjun í helgihaldi kirkjunnar.
  • Ganga til góðs með prestum, próföstum, djáknum og öðru trúnaðarfólki þjóðkirkjunnar um allt land.
  • Tala til samfélagsins á stórum stundum og vera talsmaður kristinna lífsgilda í samfélagsumræðunni.

Biskup Íslands er fyrst og fremst trúarlegur leiðtogi, sem prédikar og leiðir bænalíf og kærleiksþjónustu þess samfélags sem þjóðkirkjan er. Biskup á að uppörva vígða þjóna vítt og breitt um landið svo þeir geti boðað fagnaðarerindið og miðlað trúnni á þann hátt að samtíminn skilji.

Biskup þarf að bera gæfu til að eiga gott og uppbyggilegt samstarf við aðra leiðtoga þjóðkirkjunnar. Örugg boðun í trú og gleði, sátt og samlyndi, með vandaðri stjórnun, verður mín nálgun.

Elínborg Sturludóttir er frá Snæfellsnesi og hefur þjónað sem prestur í Grundarfirði, Borgarfirði og nú við Dómkirkjuna í Reykjavík. Hún er í framboði til biskups Íslands, kjör fer fram 11. – 16. apríl nk. Sjá https://kirkjan.is

Noregur: lítil merki um smit frá eldisfiski í villtan lax

Frá Harðangursfirði. Mynd: iLaks.no.

Hafrannsóknarstofnunin norska hefur birt niðurstöður rannsóknar sem gerð var í fyrra á mögulegum smiti frá eldisfiski í villtan lax. Veiddir voru laxar sem gengu um hafsvæði þar sem mikið er um sjókvíaeldi, svo sem Harðangursfjörð. Athugað var hvort finna mætti í villta laxinum einhverja af fjórum tegundum vírusa, PD, ILA, PRV-1 og PMCV. Alls voru 22 fiskar af 138 með einhvern vírusinn. Þrír fiskar voru með PD, þrír með ILA, sex með PRV-1 og 10 fiskar með þann síðastnefnda. Í skýrslunni segir að tilvikin séu fá og staðfesti fyrri rannsóknir á þessu sviði. Haft er eftir talsmanni rannsóknarinnar að niðurstaðan sé að tíðni smita frá eldislaxi í villtan lax og sjóbirting sé mjög lág og að ekki sé að sjá að eldið auki smittíðnina.

Slökkvilið landsins sinntu 683 útköllum á fyrsta ársfjórðungi 2024 – Íkveikja hugs­an­leg í 31 út­kalli 

Á fyrsta ársfjórðungi 2024 hafa slökkvilið landsins farið í 683 útköll.

Af þeim eru 278 útköll vegna elds og þar af er 31 tilfelli þar sem orsök er talin vera íkveikja.

Á meðal verkefna slökkviliða voru 92 útköll vegna vatnstjóns og 25 útköll vegna viðvörunarkerfa þar sem ekki var eldur.

Slökkviliðin hafa sinnt 13 útköllum á fyrsta ársfjórðungi 2024 þar sem manneskja hefur verið í neyð. 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram útkallsskýrslugrunni slökkviliða, sem HMS hefur unnið tölfræðiupplýsingar úr, fyrir fyrsta ársfjórðung 2024. 

Handbolti: Hörður mætir Þór í undanúrslitum Grill 66 deildarinnar annaðkvöld

Annaðkvöld, þriðjudaginn 9. apríl, mætir Hörður Ísafirði Þór frá Akureyri í undanúrslitum í Grill 66 deildinni. Leikurinn fer fram á Torfnesi kl 19.30 og opnar húsið kl 18. Boðið er uppá andlitsmálningu, pizzur seldar og á Dokkunni kl 17-19 er upphitun fyrir leikinn. Verður að þeirri upphitun lokinni boðið uppá far uppá Torfnes fyrir þá sem vilja.

Hörður endaði í 3. sæti af þeim liðum sem gátu farið upp um deild. Hörður spilar því við Þór um sæti í efstu deild. Fyrst spila liðin í kvöld kl 19.30. Því næst á Akureyri föstudaginn 12. apríl á sama tíma. Spilað er þar til annað liðið hefur unnið tvær viðureignir. Verði hvorugt liðanna búið að vinna báða leikina er lokaleikurinn í þessari rimmu mánudaginn 15. apríl, enn og aftur kl 19.30.

Sigurvegarinn úr þessari rimmu mætir svo Fjölni Grafarvogi og verður spilað um sæti í efstu deildinni.

Harðverðjar vonast eftir að sjá sem flesta í íþróttahúsinu á Torfnesi og hvetja heimamenn til dáða.

Nýjustu fréttir