Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 123

Reykjanes: viðgerð á dælum að hefjast

Frá Reykjanesi.

Í síðasta mánuði varð það óhapp í Reykjanesi í Ísafjarðardjúpi að bifreið skemmdi bensíndælur og hafa þær verið ónothæfar síðan.

Fyrir vikið er langt í næstu bensíndælu og hefur þetta valdið vandræðum bæði fyrir umferð og nágrenni.

Í svörum frá N1 við fyrirspurn Bæjarins besta segir að viðgerðir séu að fara að hefjast, þar sem varahlutirnir voru að koma til landsins. Vonast er til þess að viðgerðirnar gangi hratt fyrir sig.

 

Bolungarvíkurkaupstaður 50 ára

Til hamingju Bolvíkingar, kaupstaðurinn okkar er 50 ára í dag og því ber að fagna!

Á 94. Löggjafarþingi 5. apríl árið 1974, var lagt fyrir frumvarp að Bolungarvík fengi kaupstaðarréttindi. Í framsögu málsins var það rökstutt með þeim orðum að Bolungarvík væri merkilegur staður fyrir margar sakir og bar það hæst að í Bolungvarvík væri elsta verstöð landsins og að í Landnámu væri rakin saga formmóður Bolungarvíkur, Þuríðar sundafyllis sem fyllt hafði Djúpið fiski og Völusteini bróður hennar. Með þeim hafi hin merka saga Bolungarvíkur hafist, þróttmikil útgerð og krafturinn sem einkennt hafi Völustein og erfst hefur kynslóð fram að kynslóð.

Saga Bolungarvíkur síðustu 50 ár er bæði björt en líka á köflum grá, það er eins og allt í lífinu. En með gráa tímanum lærum við að meta það góða sem er svo gríðalega margt; náttúran, tignaleg fjöll, mild vor og haust og sólrík sumur. Fyrst og fremst væri Bolungarvík ekkert án íbúana og kraftsins sem fylgt hefur síða á landnámi, sem sýnir sig meðal annars í því að bæjarbúar er jafnmargir og voru fyrir 50 árum. Sagan lengist og stækkar eins og fallega bæjarstæðið okkar. Okkur fjölgar ört og við setjum okkur ný markmið og mætum áskorunum með samtölum og lausnum sem fela oft í sér breytingar. Breytingar er hluti af framtíðinni því við breytumst og þróumst í gegnum söguna. Með breytingum felast tækifærin til framþróunar og eflingar það sjáum við ef við lítum í kringum okkur og lesum söguna okkar. Framtíð Bolungarvíkurkaupstaðar er björt og tækifærin óteljandi.

Í tilefni dagsins, hvet ég íbúa til að flagga fyrir afmæli kaupstaðarins.

Til hamingju með daginn Bolvíkingar.

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, formaður bæjarráðs í Bolungarvíkurkaupstað

Strandanefndin skoðar sameiningu sveitarfélaga

Þorgeir Pálsson er oddviti og sveitarstjóri í Strandabyggð.

Katrín Jakobsdóttir, fyrrevrandi forsætisráðherra skipaði fyrr á árinu svonefnda Strandanefnd um byggðaþróun í Strandasýslu. Í nefndinni eru fulltrúar frá sveitarfélögunum í Strandasýslu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Byggðastofnun ásamt sérfræðingum frá forsætisráðuneyti og innviðaráðuneyti. Verkefni nefndarinnar felist í tillögugerð um hvernig megi efla byggðaþróun, m.a. með tilliti til fjárfestinga, atvinnuframboðs og -tækifæra á svæðinu. Nefndin hóf störf í febrúar sl. og stefnt er að því að hún ljúki störfum sínum í júlí.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri greinar frá því á vefsíðu Strandabyggðar að  nefndin hittist vikulega ef hægt er, og hafi hitt alþingismenn, fulltrúa fyrirtækja og stofnana. Byrjað sé er að stilla upp sviðsmyndum sem byggi m.a. á hugsanlegum sameiningum sveitarfélaga.  Þorgeir segir að lögð sé áhersla á að koma fram með skýrar tillögur og óskir til stjórnvalda, og auka þannig líkurnar á aðgerðum og fjárhagslegum stuðningi. 

Þrjú sveitarfélög eru í Strandasýslu, Strandabyggð, Kaldrananeshreppur og Árneshreppur.

Hallveig og Hrönn – tónleikar í Hömrum

Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hrönn Þráinsdóttir píanó – verða með tónleikar í Hömrum sunnudaginn 21. apríl kl. 17.

Á efnisskránni verður íslensk leikhústónlist eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Atla Heimi Sveinsson og Jón Múla og Jónas Árnasyni.

Tónleikarnir eru þeir fyrstu í  í tónleikaröðinni Á Ljúflingshól sem þær verða með á þessu ári.

Á tónleikunum verður farið vítt og breitt um íslenska leikhústónlistarsögu og flutt lög eftir mörg af ástælustu leikhústónlistarhöfundum landsins , svo sem Hjálmar H. Ragnarsson, Jón Ásgeirsson, Atla Heimi Sveinsson og bræðurna Jón Múla og Jónas Árnasyni.

Aðgangseyrir kr. 3000.-

Miðasala á Tix og við innganginn.

Viðburður á FB.

Handboltinn: Hörður vann fyrsta leikinn

Hörður Ísafirði vann fyrsta leikinn í einvígi liðanna í Grill66 deildinni í handknattleik. Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í umspilinu um sæti í olísdeildinni og mun mæta liði Fjölnis í Grafarvogi um sætið.

Úrslit leiksins urðu 28:25 eftir að Hörður hafði leitt í hálfleik 14:10. Framan af fyrri hálfleiknum náði Hörður góðri forystu. Um miðjan seinni hálfleikinn hafði Þór tekist að minnka muninn í eitt mark, en Hörður jók muninn á nýjan leik og vann með fjögurra marka mun. Miklu munaði um góða markvörslu Jonas Meier í marki Harðar en hann varði alls 22 skot.

Vel var mætt á leikinn og voru liðlega 500 manns samkvæmt upplýsingum HSÍ.

Liðin mætast að nýju á Akureyri á föstudaginn.

Ísafjörður: Rotarý setur upp upplýsingaskilti

Bótin, Skutulsfirði.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að heimila Rotarýklúbb Ísafjarðar að setja upp upplýsingaskilti í Bótinni á Ísafirði.

Rótarýklúbbur Ísafjarðar hefur um langt árabil sett upp og viðhaldið örnefnaskífu á Arnarnesi,
örnefnaskiltum við þjóðveginn í og við Skutulsfjörð og merkingu friðlýstra húsa á Ísafirði og nágrenni. Nú hyggst klúbburirnn koma upp panorama myndarskilti af innfirði Skutulsfjarðar u.þ.b. frá Naustahvilft að Grænagarði, með öllum helstu örnefnum af fjallgarðinum, firðinum og byggðinni.

Staðsetning skiltisins er best í Bótinni, segir í erindi Rótarý, þar sem Pollgatan mætir Skutulsfjarðarbrautinni við hringtorgið. „Ef vel tækist til, stendur hugur klúbbfélaga til að bæta við svona
skiltum víðar í framtíðinni, t.d. með útsýni til norðurs við göngustíginn fyrir ofan Ölduna, gegnt Sólgötunni og hugmynd er um örnefnaskilti með panoramamynd í norður frá Vébjarnareyri.“

Dæmi um örnefnaskilti Rótarý.

Bolungavíkurkaupstaður 50 ára í dag

Jóhanna Gísla GK í Bolungavíkurhöfn í október 2023. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í dag eru rétt 50 ár síðan Hólshreppur fékk kaupstaðarréttindi og fékk nafnið Bolungavíkurkaupstaður. Í tilefni dagsins verður frítt í sundlaugina.

Á fundi bæjarstjórnar Bolungavíkur í gær var tímamótanna minnst með eftirfarandi samþykkt:

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur fagnar þeim tímamótun þann 10.apríl nk. að 50 ár eru liðin frá því að sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindi. Á þessum 50 árum hefur Bolungarvík og íbúar þess gengið í gegnum margvíslegar breytingar og hefur samfélagið ávallt staðið sterkt og horft óhikað fram á veginn. Bæjarstjórn Bolungarvíkur horfir bjartsýnum augum til næstu 50 ára, óskar bæjarbúum til hamingju með daginn og hvetur alla þá sem tækifæri hafa til að draga íslenska fánann að húni í tilefni dagsins.“

Á þeim tíma voru kaupstaðarréttindi miðuð við 1.000 íbúa fjölda og veitt með lögum frá Alþingi hverju sinni. Þann 6. desember 1973 fluttu allir alþingismenn Vestfjarðakjördæmis frumvarp til laga um kaupastaðarréttindi til Hólshrepps og mælti Matthías Bjarnason, fyrsti þingmaður kjördæmisins fyrir málinu í neðri deild þingsins.

Samgöngu við Bolungavík hafa löngum, fram að jarðgöngunum sem tekin voru í notkun 2010, verið farartálmi og kom Matthías inn á það í ræðu sinni:

„Það er staðreynd, eins og hreppsnefndin í Hólshreppi segir, að landfræðilega séð eru lítil eða engin samskipti, sem eiga sér stað við önnur sveitarfélög í N.-Ísafjarðarsýslu eða í Inndjúpinu, og þess vegna hefur það oft áður komið til umr. að óska kaupstaðarréttinda fyrir Bolungarvík. Fyrsta fundarsamþykkt þar um var gerð 4. mars 1915, svo að það má því segja, að þetta mál hafi verið lengi á döfinni.“

Fyrsti bæjarstjóri í Bolungavík var Guðmundur Kristjánsson, faðir Kristjáns Jóns Guðmundssonar, núverandi bæjarfulltrúa. Ólafur Kristjánsson varð fyrsti forseti bæjarstjórnar og síðar lengi bæjarstjóri.

Núverandi forseti bæjarstjórnar er Magnús Ingi Jónsson og bæjarstjóri er Jón Páll Hreinsson.

Íbúafjöldinn var vaxandi þegar sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindin og fór mest upp í 1.282 laust fyrir 1990. Síðan tók að fækka fólki og fæstir voru íbúarnir árið 2012 en þá voru þeir aðeins 874. Nemur fækkunin 32% á um aldarfjórðungi. Nú eru íbúarnir um síðustu mánaðamót 1.031 samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands. Hagstofan birti nýlega aðrar tölur byggðar á leiðréttingum á lögheimilisskrá og telur íbúana hafa um síðustu áramót hafa verið ívíð færri eða 989.

Fjölgar um 31 íbúa á Vestfjörðum

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár fjölgaði íbúum Reykjavíkurborgar um 1.040 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2023 til 1. apríl 2024 og íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði um 22 íbúa.

Á Ísafirði fjölgaði um 21 og eru íbúar þar nú 3956 og í Bolungarvík fjölgaði um 13 og þar eru íbúar nú 1031.

Íbúum á Reykhólum, Súðavík og Tálknafirði fjölgaði en á öðrum stöðum fækkaði íbúum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Skorradalshrepps fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2023 um 10,2% en íbúum þar fjölgaði um 6 íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Kjósarhreppi eða 5,1% en þar fjölgaði íbúum um 14 einstaklinga frá 1. desember 2023.  Af 64 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 19 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 45 sveitarfélögum.

Handbolti: Hörður mætir Þór í undanúrslitum Grill 66 deildarinnar í kvöld

Í kvöld mætir Hörður Ísafirði Þór frá Akureyri í undanúrslitum í Grill 66 deildinni. Leikurinn fer fram á Torfnesi kl 19.30 og opnar húsið kl 18. Boðið er uppá andlitsmálningu, pizzur seldar og á Dokkunni kl 17-19 er upphitun fyrir leikinn. Verður að þeirri upphitun lokinni boðið uppá far uppá Torfnes fyrir þá sem vilja.

Hörður endaði í 3. sæti af þeim liðum sem gátu farið upp um deild. Hörður spilar því við Þór um sæti í efstu deild. Fyrst spila liðin í kvöld kl 19.30. Því næst á Akureyri föstudaginn 12. apríl á sama tíma. Spilað er þar til annað liðið hefur unnið tvær viðureignir. Verði hvorugt liðanna búið að vinna báða leikina er lokaleikurinn í þessari rimmu mánudaginn 15. apríl, enn og aftur kl 19.30.

Sigurvegarinn úr þessari rimmu mætir svo Fjölni Grafarvogi og verður spilað um sæti í efstu deildinni.

Harðverðjar vonast eftir að sjá sem flesta í íþróttahúsinu á Torfnesi og hvetja heimamenn til dáða.

Ný verðsjá verðlagseftirlits ASÍ

Verðlagseftirlit ASÍ hefur gefið út mælaborð þar sem skoða má verðsamanburð milli verslana bæði í heild, eftir vöruflokkum og niður í stakar vörur.

Gögnin uppfærast daglega með nýjustu verðum sem verðlagseftirlitið hefur aflað.  Með mælaborðinu hafa neytendur nú greiðan aðgang að vöruverði í ólíkum verslunum. Eru þetta sömu gögn og áður hafa aðeins verið aðgengileg í gegnum smáforrit verðlagseftirlitsins, Prís. 

Þegar mælaborðið er skoðað er í fyrsta lagi greinilegt að breitt verðbil er á verslunum, eins og fyrri kannanir verðlagseftirlitsins hafa leitt í ljós.

Á heildina litið er meðalfjarlægð verða frá lægsta verði minnst í Bónus, undir 1%, en mest í 10-11, um 80%. 

Sé smellt á undirflokka kemur í ljós nokkur munur eftir því hvaða undirflokkur er skoðaður. Til dæmis er pasta að meðaltali rúmum 60% dýrara í 10-11 en þar sem það er ódýrast, en gosdrykkir meira en tvöfalt dýrari. Vatnsdrykkir eru 150% dýrari að meðaltali. 

Þegar flett er á aðra síðu mælaborðsins er hægt að skoða flokkana vöru fyrir vöru og sjá vörum raðað eftir verðbili. Til dæmis er Thule pilsner í dós sú vara sem er með eitt mesta verðbilið; kostar 119kr í Bónus en 449kr í 10-11. 

Séu undirflokkar valdir sjást verðbilin á hverri vöru fyrir sig í undirflokkunum. Þegar smellt er á Kaffi, te og kakó sést að mesta verðbilið er á Te&Kaffi French Roast hylkjum, sem eru meira en tvöfalt dýrari í 10-11 en í Bónus. 

Nánar má lesa um þetta á heimasíðu ASÍ

Nýjustu fréttir