Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 122

Arnarlax – kaupir hybrid þjónustubát

Arnarlax hefur undirritað samning við norsku skipasmíðastöðina Moen Marin um smíði á þjónustubát sem verður með blendingslausn eða hybrid. Er þá báturinn knúinn áfram með rafmagni en hefur einnig möguleika á að nota venjulegt eldsneyti. Í einum svona bát er jafnmikið af batteríum og í 12 Teslum. Verður það fyrsti þjónustubáturinn hér á landi af þessu tagi, en nokkur reynsla er komin á svona báta í Noregi.

Verð er um 500 milljónir íslenskra króna og afhending er áætluð í mars 2025.

Með þessu leitast Arnarlax við að nota umhverfisvænar lausnir og draga úr kolefnismengun. Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir í fréttatilkynningu að sem stærsta eldisfyrirtæki á landinu vilji það vera leiðandi í grænum orkuskiptum.

Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma segir að þessi samningur marki nýtt skref í áformum um orkuskipti á Íslandi og sýni að Arnarlax er staðráðið í að draga úr kolefnislosun og þróa nýjungar sem stuðla að því.

Styrkir til tónleikahalds í Hömrum veturinn 2024-2025

Tónlistarfélag Ísafjarðar auglýsir styrki til tónleikahalds í Hömrum veturinn 2024-2025. Veittir verða styrkir til tónlistarmanna og/eða tónlistarhópa. Umsóknarfrestur er til 10. maí 2024. Nánari upplýsingar veitir tónlistarfélagið á netfanginu: tonlistarfelag.isafj@gmail.com
Styrkumsóknum ber að skila á netfangið tonlistarfelag.isafj@gmail.com á einu A4 blaði (sem PDF). Umsókn á að innihalda eftirtaldar upplýsingar:
Heiti tónleikanna
Hvaða verk verða flutt?
Æskileg tónleikadagsetning: mánuður eða dagur.
Nöfn og stutt lýsing á flytjendum.
1-2 slóðir á ítarefni.
Má fylgja mynd.
Sendist inn á einu A4 blaði sem PDF.
Styrkupphæð er 150 þúsund krónur.

Jörg Erich Sondermann, organisti

F. 7. febrúar 1957 – D. 27. mars 2024.

Jarðsunginn frá Selfosskirkju 10. apríl 2024.

Okkur hér á fjallinu var brugðið að fregna lát góðs og eftirminnilegs orgelleikara, Jörgs E. Sondermanns.  Hann var dugandi organisti í kirkju, bráðfljótur að lesa hljóð af blaði og þess vegna hinn ákjósanlegasti meðleikari.  Glaður var hann að jafnaði í viðmóti og búinn ríkulegri spauggreind.  Þá hafði hann það og sér til ágætis að vera drumbs um froðuvæðinguna, sem nú ríkir í kirkjusöng landsins, ofar hverri kröfu.

Það er meginhlutverk tónlistarinnar í kirkjunni að leiða sálmasönginn og bera hann uppi.  Margur mun þó segja, að með þessari skilgreiningu sé músíkin sett skör lægra en efni standa til.  Hljómlist hefur, eftir því sem tímar hafa liðið fram, orðið æ fyrirferðarmeiri í guðsþjónustunni.  Þegar hálærður organistinn, sem orðinn er síst þýðingarminni en presturinn, hefur kennt kirkjukórnum hin vandlærðustu söngverk og æft fólkið baki brotnu, þá segir sig sjálft, að brýn nauðsyn er að koma þessari kunnáttu í lóg.  Og auk þess vill organistinn einatt hafa meira rými í athöfninni fyrir list sína.  Það mun því ekki óþekkt, að prestar hafi stytt prédikanir sínar til þess að söngur og hljóðfæraleikur kæmist fyrir í messunni. Kirkjukórar eru raunar mesta þarfaþing; Íslendingar syngja af hjartans lyst í réttunum, en á kirkjubekkjunum bíta þeir úr sér tunguna í þvermóðskufullri þögn.

            Sá siður hefur breiðst nokkuð út að undanföru, að minnsta kosti í sumum kirkjum, að söfnuðurinn situr kyrr og hlýðir með athygli á eftirspilið, sem á árum áður tíðkaðist að hafa á meðan fólkið gekk úr helgidóminum og presturinn þakkaði því fyrir komuna.  Þegar þessi lenska barst í tal, sagði fullorðinn kirkjugestur við sóknarprest sinn:  “Æ, það er svo gott að sitja svona út af fyrir sig, slaka á eftir athöfnina og hreinsa hugann!” Ekki fylgir sögunni hversu prestur brást við þessum tíðindum.

            Á síðustu árum hefur þess orðið vart, að organistar spila ekki sálmalögin eins og þau eru hljómsett í “svörtu bókinni”, þ.e. Sálmasöngsbók til kirkju-og heimasöngs, sem þeir Sigfús Einarsson og Páll Ísólfsson bjuggu til prentunar. Þess í stað eru sumir þeirra farnir að setja sína eigin, sjálfvöldu hljóma við laglínuna.  Að þessu hefur verið heilmikil nýlunda og löngum skemmtileg tilbreyting.  En hitt hefur ekki síður viljað brenna við, að með þessari aðferð verði sálmalögin á stundum ögn ankannaleg, að ekki sé sagt framandi.

            Prestur nokkur átti um þessa tísku tal á förnum vegi við Steindór heitinn Zophoníasson, fyrrum bónda í Ásbrekku í Gnúpverjahreppi og organista í kirkjunni á Stóra-Núpi. Steindór var maður bráðgreindur og þar eftir músíkalskur. Útskýrði klerkur þetta fyrirbrigði í löngu máli eins  nákvæmlega og honum var framast unnt; komu þar við sögu flóknar díatónískar módúlasjónir, gabbendar og gott ef ekki samstígar fimmundir, ásamt með sungnum, útúrdúra-kenndum tóndæmum, allt þarna úti á gangstéttinni. En Steini var sem vænta mátti skotfljótur að átta sig á málavöxtum og hitti naglann á höfuðið: “Nú, spila þeir þetta bara eftir eyranu?”

            Guð blessi minningu drengsins góða, Jörgs E. Sondermanns. Guð huggi og styrki ávallt ástvini hans alla.

            Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

Suðureyri: engin bensínstöð

Frá Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Engin bensínafgreiðsla er á Suðureyri eftir að einu stöðunni var lokað þar sem hún stóðst ekki kröfur.Eftir þá lokun er aðeins afgreidd díselolía á báta og vinnuvélar á höfninni.

Erindi um þetta frá íbúa á Suðureyri var lagt fram á síðasta fundi bæjarráðs til kynningar.

Vakin er athygli á því að ýmis tæki eru í notkun sem nota jarðefnaeldsneyti. Tæki sem verður ekki ekið í gegnum göngin til að sækja eldsneyti á næstu stöð. Þetta eru td sláttuvélar og aðrar smávélar, neyðarafstöðvar björgunarsveitarinnar, vélsleðar og fjórhjól.

Eldsneytið kemur „undantekningalaust í skottinu á bílum í gegnum einbreiðann legg Vestfjarðaganganna og það sem ekki passar á tækið sem á sopann endar inní bílsskúr, geymslu eða iðnaðarhúsnæði. Þessir flutningar passa sennilega illa í áhættugreiningu slökkviliðis og vegagerðarinnar fyrir göngin.“

Þá segir: „Veturinn 2020 var ágætis áminning að hvert þorp þarf að vera sjálfbjarga í nokkar daga og hefur ýmislegt þegar verið gert t.d. með þjálfun fólks í sjúkraflutningum osfrv og er það vel. En það hefði td verið áhugavert að sjá hvernig hefði gengið að tappa af fólksbílum bæjarins yfir á neyðarbúnað ef það hefði þurft að nota hann í einhvern tíma á meðan fjörðurinn var lokaður.“

Hvatt er til þess að fundin verði lausn á þessu máli og að sett verði upp dæla í þorpinu.

Elínborg sem biskup

Elínborg Sturludóttir.

Það varð sóknarbörnum í Grundarfirði fljótt ljóst, þegar þau fóru að kynnast nýja sóknarprestinum sr. Elínborgu Sturludóttur, árið 2003, að þar var á ferðinni afburða manneskja. Nýi presturinn hafði sem vegarnesti djúpt innsæi, góðar gáfur og mannkosti til að takast á hendur fjölbreytt og vandasamt starf sóknarprests í sjávarþorpi. Hún gekk í verk af skörungsskap, en ekki síður af fagmennsku, hlýju og virðingu fyrir fólki og mismunandi aðstæðum þess, bæði í gleði og sorg. Hið sama má segja um störf hennar sem sveitaprests í Borgarfirði og Dómkirkjuprests, samtals í yfir 20 ár.

Þann 11. apríl hefst kosning til embættis biskups Íslands og hafa yfir 2.200 fulltrúar þjóðkirkjunnar þar kosningarétt. Við sem höfum fengið að starfa með eða kynnast störfum sr. Elínborgar Sturludóttur, í þjónustu hennar við sóknarbörn og íbúa, gleðjumst innilega yfir því að hún bjóði sig nú fram til þessa mikilvæga embættis.

Þjóðkirkjan og sóknirnar vítt og breitt um landið eru mikilvægt net, ofið gegnum byggðir landsins, fjölmennar og fámennar. Kjarninn er að sjálfsögðu boðun fagnaðarerindisins en ennfremur hin mikilvæga félagslega og menningarlega þjónusta; hvort sem það er sálgæslan á stöðum þar sem fjölþætt heilbrigðisþjónusta er oft ekki til staðar, barna- og unglingastarf þar sem íbúafjöldinn er takmarkaður eða stuðningur við elstu íbúana, sem í æ ríkari mæli búa einir eða upplifa einsemd. Öll þessi þjónusta er veitt óháð því hvort fólk tilheyri þjóðkirkjunni, staðreynd sem oft gleymist. Þess vegna er sóknarpresturinn svo mikilvægur og allt starf söfnuðanna sem miðar að þessu marki. Þessari samfélagsþjónustu hefur Elínborg sinnt með stakri prýði, í sveit, bæ og borg. Hún þekkir ólíkt og krefjandi starfsumhverfi, áskoranir sóknanna, ekki síst þeirra minni, og starfsfólks þeirra, bæði launaðra og ólaunaðra.

Skyldur biskups við þennan hóp eru fjölmargar, bæði í trúarlegri leiðsögn og á sviði stjórnsýslu. Þegar erfið mál koma upp þarf sterkt og öruggt bakland fyrir sóknarnefndirnar og trúnaðarfólk safnaðanna. Sr. Elínborg er vel heima í málefnum og uppbyggingu þjóðkirkjunnar, eins og framganga hennar á nýafstöðnum kynningarfundum um landið ber vitni. Hún hefur dýrmæta reynslu, innsæi, menntun og mannkosti sem þörf er á við að leiða þjóðkirkjuna og styðja fulltrúa hennar á vegferð breytinga og nauðsynlegrar uppbyggingar, og til að stuðla að friði og samhug, sem svo víða skortir.

Við sem höfum verið svo lánsöm að starfa með eða kynnast störfum sr. Elínborgar Sturludóttur mælum innilega með henni sem verðugu efni í næsta biskup Íslands.

Höfundur er íbúi í Grundarfirði

Björg Ágústsdóttir

Fjórðungsþing að vori var haldið á Ísafirði í gær

Jóhanna Ösp Einarsdóttir. Mynd: F.V.

Fjórðungssamband Vestfirðinga hélt í gær fjórðungsþing að vori. Þingið fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og stóð aðeins dagspart. Þar komu saman kjörnir fulltrúar sveitarstjóra á Vestfjörðum. Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga og þeirra rekstrareininga sem það ber ábyrgð á. Auk þess fór fram afgreiðsla ársreiknings 2023  og samþykkt endurskoðuð fjárhagsáætlun.

Breyting var á skipan stjórnar Fjórðungssambandsins. Jóhann Birkir Helgason var kosinn aðalmaður í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga í stað Aðalsteins Egils Traustasonar sem lét af störfum. Dagný Finnbjörnsdóttir var kosinn varamaður í stjórn og Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir var kosin varamaður í fjárhagsnefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga. Fyrir þinginu lá að kjósa kjörnefnd fyrir Fjórðungsþing að hausti en var því frestað vegna væntanlegra kosninga í nýju sveitarfélagi á suðursvæði Vestfjarða. Kosning verður kláruð á sumarþingi sem fer fram á netinu 19. júní.

Samþykkt var að halda 69. Fjórðungsþing að hausti á Laugarhóli í Bjarnarfirði dagana 18. og 19. október.

Rekstrartekjur Fjórðungssambands Vestfirðinga á síðasta ári voru 233 milljónir króna og rekstrarafgangur varð tæpar 5 m.kr. Eignir sambandsins voru um síðustu ármót 162 m.kr. og þar af eigið fé 37 m.kr.

Frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga fékk Fjórðungssambandið 50 m.kr. auk þess sem Jöfnunarsjóðurinn lagði til 12 m.kr. vegna sóknaráætlunar. Frá ríkissjóði í nafni sóknaráætlunar komu 119 m.kr. Þá komu 47 m.kr. frá ráðuneytum vegna verkefnaframlaga. Útgjaldamegin þá greiddi Fjórðungssambandið 47 m.kr. til aðkeyptra verktaka. Greiddir styrkir í sóknaráætlun voru 55 m.kr.

Formaður Fjórungssambandsins er Jóhanna Ösp Einarsdóttir, sveitarstjórnarmaður í Reykhólahreppi.

Landsmót UMFÍ 50+

Landsmót UMFÍ 50+ er blanda af íþróttakeppni og annarri keppni, hreyfingu og því að fá fólk á besta aldri til að hafa gaman saman.

Mótið verður haldið í Vogum á Vatnsleysuströnd dagana 7. – 9. júní og er það opið öllum sem verða 50 ára á árinu og eldri. Einnig verða í boði greinar fyrir yngri þátttakendur. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt og á sínum forsendum.

Mótið fer fram á tiltölulega litlu svæði sem er í hjarta bæjarins. Íþróttavöllur, golfvöllur, sundlaug og íþróttahús er allt í göngufæri.

Keppt verður í allskonar greinum – en svo eru allir velkomnir að koma og prófa og taka þátt.

Greinar mótsins eru: Biatholon – Boccía – Borðtennis – Bridds – Frisbígolf – Frjálsar íþróttir – Golf – Strandarhlaup – Hjólreiðar – Línudans – Petanque – Pílukast – Pútt – Pönnukökubakstur – Ringó – Skák – Stígvélakast – Sund.

Áhöfn Freyju siglir um miðin á varðskipinu Þór

Hjá Landhelgisgæslunni eru starfandi tvær varðskipsáhafnir sem starfa um borð á varðskipunum Þór og Freyju.

Að undanförnu hefur varðskipið Freyja verið í smávægilegu viðhaldi og því hefur áhöfnin á Freyju verið við störf um borð í varðskipinu Þór.

Síðustu dagar hafa verið annasamir um borð í Þór en áhöfnin var meðal annars til taks á Austfjörðum vegna snjóflóðahættu um liðna helgi.

Eins og gengur hefur töluvert verið um æfingar. Í síðustu viku fóru meðal annars fram æfingar í reykköfun og notkun á línubyssu.

Þá hefur áhöfn varðskipsins farið til eftirlits í þrettán skip og báta að undanförnu. Í flestum tilfellum hefur allt verið eftir bókinni en smávægilegar athugasemdir um lagfæringar þurfti að gera hjá einhverjum.

Fjórðungsþing í dag og Byggðastofnun í næstu viku

69. Fjórðungsþing Vestfirðinga að vori verður haldið í dag á Ísafirði.

Ekki verður streymt frá þinginu að þessu sinni en upptökur munu koma af erindum á heimasíðu Vestfjarðastofu fljótlega eftir þingið.

Þingið verður haldið í Bryggjusal Edinborgarhúsins á Ísafirði.

 Ársfundur Byggðastofnunar 2024 verður svo haldinn miðvikudaginn 17. apríl í félagsheimili Bolungarvíkur.

Bolvíkingar, til hamingju með daginn

Í dag 10. apríl eru 50 ár frá því að bærinn okkar, Bolungarvík, fékk kaupstaðarréttindi. Þar með breyttist heiti sveitarfélagsins úr Hólshreppi yfir í Bolungarvíkurkaupstað. Þetta var þó ekki bara breyting á nafni heldur var bæjarfélagið sjálfstætt lögsagnarumdæmi við það að fá kaupstaðarréttindin og fékk þar með sjálfstætt ákvörðunarvald um flest málefni bæjarfélagsins.  Þvílík tímamót!  

Það er ýmislegt líkt með bæjarfélaginu okkar árið 1974 og nú 50 árum síðar. Árið 1974 bjuggu í Bolungarvík 1027 manns og í dag erum við 1031. Árið 1974 voru uppbyggingartímar í atvinnulífinu í bænum með togaravæðingu fiskiskipaflotans og í dag er uppbygging atvinnulífs á breiðari grunni sem drífur bæjarfélagið áfram og skapar tækifæri til frekari vaxtar og hagsældar.

Bæjarbragurinn okkar, Í Bolungarvíkinni, minnir okkur á tímana tvenna en eitt er víst að í Bolungarvíkinni er björgulegt lífið.

Kaupstaðurinn hefur þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum, gengið í gegnum erfiðleika sem oftar en ekki hafa verið harðir og sárir. Bolvíkingar hafa sniðið sér stakk eftir vexti, barist áfram, snúið vörn í sókn og geta bæjarbúar nú horft stoltir fram á veginn.

Allt frá Þuríði Sundafylli til dagsins í dag stöndum við hér í fallegu Víkinni okkar. Tímarnir hafa breyst og mennirnir með en eitthvað er það sem dregur okkur hér að. Framtíðin er björt, íbúum fjölgar, tækifærin eru ærin, spennandi og þörf. Aukin fjölbreytni er í atvinnulífinu, öflugur mannauður sem vill láta samfélagið njóta krafta sinna, menntunar og reynslu. Atorkusemi, elja og áræði fyrirtækja bæjarins skila sér svo sannarlega í samfélagið og því ber að þakka.

Í ár verða viðburðir og hátíðarhöld í tilefni afmælisins og hvet ég bæjarbúa, búandi og brottflutta, og nærsveitunga að taka þátt í þeim viðburðum sem haldnir verða.

Ég vona að Bolvíkingar flaggi fyrir afmælisbarninu í tilefni dagsins.

Ó, lof sé þér háttvirta Bolungarvík!

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir

Oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í bæjarstjórn Bolungarvíkur

Nýjustu fréttir