Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 121

Alþingi: spurt um jarðgöng á Vestfjörðum

Frá Súðavíkurhlíð. Ekki ný mynd.

María Rut Kristinsdóttir varaþingmaður Viðreisnar í Reykjavík hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til innviðaráðherra um uppbyggingu jarðganga á Vestfjörðum.

Spurt er um Súðavíkurgöng og um jarðgöng um Mikladal og Hálfdán.

 Í fyrsta lagi er spurt hvort til greina komi „að mati ráðherra að flýta áætluðum framkvæmdum við Súðavíkurgöng samkvæmt jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar í ljósi þeirra aðstæðna sem íbúar Súðavíkur og nágrennis búa við vegna snjóflóða- og aurskriðuhættu.“
 Í öðru lagi spyr María Rut hvort ráðherra hafi íhugað að flýta jarðgöngum um Mikladal og Hálfdán til að tryggja íbúum svæðisins jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og flugsamgöngum allan ársins hring.

Það kemur í hlut nýs innviðaráðherra Svandísar Svavarsdóttur (V) að svara fyrirspurnunum.

María Rut Kristinsdóttir (C).

Leiðangursskip leggja sitt af mörkun til að draga úr álagi á heilbrigðiskerfið

Fyrir páskana var haldin í Keflavík árleg ráðstefna Samtaka leiðangursskipa á Norðurslóðum (AECO), Landhelgisgæslu Íslands (ICG) og leitar og björgunarmiðstöðvar í N-Noregi (JRCC NN) um samvinnu í leit og björgun á Norðurslóðum.

Ingvar Örn Ingvarsson sagði ráðstefnuna hafa verið gríðarlega vel heppnaða, þar var fjöldi sendiherra, landhelgisgæslur Íslands og Noregs, Arctic Council og fleiri aðilar. Alls hafi verið hátt í 100 manns.

Síðasta sumar fjölluðu fjölmiðlar um hvort skemmtiferðaskip væru byrði á heilbrigðisþjónustunni. Þetta málefni var sérstaklega til umræðu á þessari ráðstefnu. Ferðaþjónustan fer vaxandi á norðurslóðum og ein af áskorunum hennar er takmörkuð heilbrigðisþjónusta á landi.

Leiðangursskip eru minni en hefðbundin skemmtiferðaskip og kanna gjarnan framandi slóðir og fræða farþega um náttúru og menningu norðurslóða. Þessi skip hafa viðkomu víðar en stærstu skemmtiferðaskipin og geta siglt inn á þrönga firði og hleypt farþegum í land á afskekktum svæðum. 

Á ráðstefnunni kom í ljós að þrátt fyrir að ferðamenn frá hefðbundnum skemmtiferðaskipum séu aðeins um 13-14% ferðamanna á Íslandi og ferðamenn á leiðangursskipun einungis brot af þeirri heild eru ýmsir möguleikar til að yfirstíga áskoranir í heilbrigðisþjónustu á áfangastöðum með frekari aðgerðum af hálfu útgerðanna. Þetta hefur verið gert með nánu samstarfi m.a. í Longyearbyen á Svalbarða þar sem 2.500 íbúar eyjunnar geta fengið yfir háannatímann allt að nokkur þúsund ferðamenn á dag.

Í gegnum slíkt samstarf hafa leiðangursskip unnið að því að minnka álag og efla heilbrigðisþjónustuna í samfélögum á Norðurslóðum. Leiðangursskip og hefðbundin skemmtiferðaskip eru almennt búin háþróaðri og vel mannaðri sjúkraaðstöðu sem getur hjálpar til við heilbrigðisþjónustu á afskekktari stöðum.

Sjúkrahúsið á Svalbarða tókst á við áskoranir í heilbrigðiskerfinu

Á sjúkrahúsinu í Longyearbyen á Svalbarða eru 22 starfsmenn, þar af fjórir læknar og sex hjúkrunarfræðingar, en sjúkrahúsið veitir 2.500 íbúum og ferðafólki sem eru  samanlagt um 135.000 á ársgrundvelli bæði heilsugæslu og sérfræðiþjónustu.

Í fyrra var tekið upp samstarf á milli sjúkrahússins og AECO þar sem upp var komin áskorun í heilbrigðiskerfinu þar sem sinna þurfti bæði heimafólki og ferðafólki. Samstarfið við leiðangursskipin leiddi til minna álags á heilbrigðisþjónustuna í bænum. Vegna takmarkaðra bjargráða í Longyearbyen hefur samstarfið við leiðangursskipin reynst mikilvægt. Alvarlega veikur sjúklingur sem þyrfti mikla aðstoð gæti til að mynda stofnað bjargráðum sjúkrahússins fyrir aðra sjúklinga í hættu. Kristin Furu Grøtting sem stýrir sjúkrahúsinu segir að það hafi verið lykilatriði að miðla til útgerðanna stöðu sjúkrahússins sem hafi leitt til betri undirbúnings hjá skemmtiferðaskipunum, m.a. með auknu samstarfi til að draga úr álagi.

Með réttum búnaði geta leiðangursskip sinnt lang flestum tilfellum farþega og jafnvel létt álagi af afskekktum svæðum. Skip eru að jafnaði með einn lækni og jafnvel hjúkrunarfræðing um borð. Þá er í flestum skipunum töluverður búnaður, eins og tæki til að taka hjartalínurit (e. 12 Lead ECG er í 60% skipa), hægt er að mæla blóðsykur í öllum skipum, hægt er að mæla hvít blóðkorn, öndunarvélar eru í 45% skipanna, lífefnapróf í 40% þeirra, röntgentæki í 40%, ómskoðunartæki í 20% skipanna og einnig eru ráð til læknisfræðilegs inngrips. Þar má nefna segasundrara (e. Thrombolytic agent) við hjartaáfalli eða slagi sem eru í 60% skipanna, gifs til að búa um brot eru í 45% þeirra, sýklalyf eru í öllum skipum bæði til að gefa í æð eða með töflum, ópíóðar eru einnig í öllum skipum til að verkjadeyfa og saman þýðir þetta að sýkingar og sársauka er almennt hægt að meðhöndla um borð.

Tölfræðina vantar

Í leiðangursskipum er miðað við að hægt sé að halda fólki stöðugu eftir alvarleg veikindi eða atvik í 72-96 klukkustundir. Í hefðbundnum skemmtiferðaskipum er oft enn betri búnaður og sjúkrastofur. Samtal heilbrigðisyfirvalda og útgerða skemmtiferðaskipa er því mjög mikilvægt á hverjum stað fyrir sig svo hægt sé að tryggja sem best að álag á heilbrigðisinnviði hvers áfangastaðar sé sem allra minnst, og jafnvel – á afskekttari stöðum – minna en ella fyrir tilstuðlan skipaferða.

Í umræðum á ráðstefnunni kom fram að fæst sjúkrahús haldi formlegar tölur sem aðgreini fjölda sjúklinga frá skemmtiferðaskipum frá öðrum ferðamönnum sem leita á sjúkrahús. Þó sé ljóst að fjöldi ferðamanna á Íslandi hafi áhrif á heilbrigðiskerfið. Sameiginlegt átak heilbrigðisyfirvalda og útgerða þurfi til að hægt sé að safna gögnum um fjölda sjúklinga frá skemmtiferðaskipum, skilja betur þennan vanda og vinna í áttina að lausn. Sjúkrahúsið í Longyearbyen á Svalbarða er dæmi um sjúkrahús þar sem samstarf við skemmtiferðaskip hefur létt undir álag í heilbrigðisþjónustu. Samstarfið sýnir einnig hvernig megi nýta betur sjúkraaðstöðu og starfsfólk um borð í skemmtiferðaskipunum og hvernig skemmtiferðaskip hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr álagi á heilbrigðisinnviði.

Íslenska Baader flökunarvélin stenst miklar væntingar

Óðinn Gestsson (t.v.) og Karl Ásgeirsson við afhendingu Baader 189 Pro.

Um mitt síðasta ár var fyrsta flökunarvélin af gerðinni Baader 189Pro tekin í notkun á Íslandi. Vélin er afrakstur mikillar þróunarvinnu starfsmanna Baader Ísland í nánu samstarfi við helstu viðskiptavini fyrirtækisins auk þess sem vélin var framleidd á Íslandi.

Í fréttatilkynningu frá Baader segir að miklar væntingar hafi verið gerðar til vélarinnar ekki síst vegna þess að henni er ætlað að koma í stað og bæta um betur árangur Baader 189 vélarinnar sem hefur verið burðarás í fiskiðnaði um allan heim um margra áratuga skeið.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem tekið hafa í notkun hina nýju vél er Fiskvinnslan Íslandssaga á Suðureyri þar sem hún hefur nú verið í notkun frá því í byrjun þessa árs.

Að sögn Óðins Gestssonar framkvæmdastjóra Íslandssögu hefur Baader 189Pro vélin reynst afar vel. „Við höfum langa og góða reynslu af Baader 189 vélinni og var okkar starfsfólk því mjög spennt að sjá hvort sú nýja tæki henni fram á jafn mörgum sviðum og stefnt var að. Eftir nokkurra mánaða notkun hinnar nýju vélar eru okkur ljóst að allar helstu væntingar hafa staðist og gott betur“ segir Óðinn.

Með þróun nýju vélarinnar var markmiðið að  tölvustýrðir mótorar hennar tryggðu að hnífar kæmust nær beinum og gæfu því enn betri nýtingu en hjá eldri vélum. Að auki er  öllum breytingum á milli fiskstærða og tegunda nú stýrt á einfaldan hátt frá tölvuskjá vélarinnar. Þá var hönnun alls ytri búnaðar miðuð við hámarksöryggi við notkun vélarinnar og til að auðvelda þrif og viðhald auk þess sem vélin eru öll úr ryðfríu stáli.

„Við verkum fisk fyrir mjög kröfuharða kaupendur og því afar mikilvægt að tryggja jöfn og umfram allt,  góð gæði. Við höfum því í gegnum tíðina veðjað á framleiðslu og þjónustu Baader til þess að standast miklar  og síauknar kröfur okkar kaupenda en tryggja jafnframt að bætt nýting skapi betri afkomu í vinnslunni. Ég er sannfærður um að við séum ekki að tjalda til einnar nætur með kaupum á Baader 189Pro heldur tryggja enn betur stöðugleika í framleiðslunni til lengri tíma“ segir Óðinn að lokum.

Karl Ásgeirsson viðskiptastjóri Baader á Íslandi segir góðan árangur nýju vélarinnar ánægjulega staðfestingu á því mati Baader á sínum tíma að þróun og smíði vinnsluvéla fyrirtækisins fyrir hvítfisk væri best komin í höndum starfsmanna Baader á Íslandi. Þróun vélarinnar hafi því farið fram í nálægð og nánu samstarfi við fiskverkendur og viðskiptavini Baader til áratuga. Það samstarf hafi tekist vonum framar.     

Nýja flökunarvélin verður til sýnis á bás Baader á sjávarútvegssýningunni í Barcelona síðar í þessum mánuði.

Fjármálaráðherra boðar endurskoðun á þjóðlendukröfum

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.

Óbyggðanefnd hefur framlengt kröfulýsingarfrest landeigenda á svæði 12 (eyjar og sker) til 2. september 2024. Framlengingunni er ætlað að gefa fjármála- og efnahagsráðherra færi á að ljúka endurskoðun sem ráðherra hefur boðað á kröfugerð ríkisins, sem og kortagerð vegna hennar, og tryggja að landeigendur hafi síðan nægan tíma að því loknu til að bregðast við endurskoðuðum kröfum ríkisins og eftir atvikum lýsa gagnkröfum. 

Verði endurskoðun á kröfum ríkisins ekki lokið innan hæfilegs tíma fyrir 2. september kemur til greina af hálfu nefndarinnar að framlengja frestinn frekar til að tryggja að landeigendum gefist nægur tími til viðbragða. Nefndin hefur hins vegar lagt ríka áherslu á það við fjármála- og efnahagsráðherra að boðaðri endurskoðun ráðherra á kröfunum verði hraðað eins og kostur er svo að afstaða ríkisins liggi fyrir sem allra fyrst, enda hafa fjölmargir landeigendur þegar hafið vinnu við að bregðast við upphaflegri kröfugerð ríkisins.

Í byrjun febrúar lagði Þórdis K. Gylfadóttir fjármálaráðherra fram kröfur ríkisins í eyjar og sker. Í meginatriðum gerði ríkið þá kröfu að eyjar og sker við landið væru lýstar þjóðlendur að undanskildum fáeinum eyjum. Þá kom í ljós við athugun að ríkið krafðist þess einnig að sums staðar væri landfastir hólmar og tangar einnig þjóðlenda þótt hvorki væru eyjar né sker. Á Vestfjörðum eru aðeins eyjarnar Vigur og Æðey undanskildar þjóðlendukröfum en gerð krafa í aðrar þótt þær hafi um aldur tilheyrt ákveðnum jörðum.

Það mun koma í hlut nýs fjármálaráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar að endurskoða kröfugerðina.

Ístækni selur búnað til Svíþjóðar

Ístækni er til húsa á Sindragötunni á Ísafirði.

Í gær 11. apríl 2024 var undirritaður samningur á kaupum á framleiddum búnaði frá Ístækni ehf til sænska fyrirtæknisins Gårdfisk. Um er að ræða fyrstu erlendu sölu Ístækni ehf sem tók til starfa 1 des sl.

Búnaðurinn sem Svíarnir kaupa eru færibönd, ísskiljur og fl. Gårdfisk er fiskeldisfyrirtæki á Skáni er í eigu sænskra bænda.

Jóhann Bæring Gunnarsson er framkvæmdastjóri Ístækni:

“Við hjá Ístækni ehf erum mjög ánægðir að hafa náð samningi við Gårdfisk og erum spennt fyrir því að hjálpa þeim að þróast og stækka með þeirri þekkingu og reynslu sem við búum yfir” Vonandi mun þetta leiða til frekara samstarfs á komandi árum enda er Gårdfisk að gera áhugaverða hluti í landeldi í Svíþjóð”. Í dag starfa 23 starfsmenn hjá Ístækni við þjónustu og framleiðslu á Ísafirði og er verkefnastaðan nokkuð góð næstu mánuði.

Starfsmenn Ístækni bregða á leik við aldrei fór ég suður merki síðustu hátíðar.

Mynd: Ístækni.

1984 – Eitt af meistaraverkum 20. aldar bókmennta


Í þessari áhrifaríku bók bregður George Orwell upp ógnvænlegri mynd af alræðisríki þar sem Stóri bróðir hefur nær algera stjórn á lífi fólks, hugsunum þess og minni.

Í ömurlegri og þrúgandi tilveru fremur Winston Smith þá dauðasynd að reyna að skapa sér sjálfstæða vitund. Honum tekst um skeið að halda dagbók og njóta forboðinnar ástar.

En Hugsanalögreglan og Stóri bróðir eru alltumlykjandi.

Hrollvekjandi framtíðarsaga sem á ekki síður erindi nú en þegar hún var rituð fyrir nær sjötíu árum.
Þórdís Bachmann íslenskaði og Ugla útgáfa gefur bókina út.

Ólympíuhópur Íslands 

Í upphafi árs var myndaður Ólympíuhópur ÍSÍ sem samanstendur af afreksíþróttafólki sem hefur tryggt sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar eða hefur góða möguleika á að vinna sér þátttökurétt.

Nú þegar rúmlega 100 dagar eru þar til leikarnir hefjast, hafa verið gerðar breytingar á hópnum. Karlalandslið Íslands í handknattleik helltist úr lestinni eftir Evrópumeistaramótið og í febrúar og mars komu inn fjórir nýir keppendur; Baldvin Þór Magnússon, langhlaup, Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo og Svana Bjarnason, klifur.

Í Ólympíuhópi ÍSÍ er afreksíþróttafólk úr átta mismunandi íþróttagreinum, en í hverri íþróttagrein eru ólíkar leiðir til að tryggja sér þátttökurétt á leikunum. 

Anton Sveinn McKee, sund, er sá eini sem hefur nú þegar unnið sér inn þátttökurétt á leikana en miklar vonir eru bundnar við að Ísland muni eiga öflugan hóp íþróttafólks á leikunum.

Hópurinn í dag samanstendur af þrettán keppendum úr einstaklingsgreinum sem allir eiga góða möguleika á því að tryggja sér þátttökurétt. Að auki hefur ÍSÍ möguleika á því að fá úthlutað boðssætum, en slíkt mun koma í ljós í byrjun sumars.  

Í Ólympíuhópnum eru:
• Anton Sveinn McKee, sund 
• Baldvin Þór Magnússon, 5000m hlaup
• Eygló Fanndal Sturludóttir, lyftingar
• Erna Sóley Gunnarsdóttir, kúluvarp
• Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
• Guðni Valur Guðnason, kringlukast
• Hákon Þór Svavarsson, haglabyssuskotfimi
• Hilmar Örn Jónsson, sleggjukast
• Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo
• Snæfríður Sól Jórunnardóttir, sund
• Svana Bjarnason, klifur
• Thelma Aðalsteinsdóttir, áhaldafimleikar 
• Valgarð Reinhardsson, áhaldafimleikar

Fjórðungsþing á Ísafirði í gær

Jóhanna Ösp Einarsdóttir bóndi í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal í Reykhólahreppi er stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga

Fjórðungsþing að vori var haldið í gær í Edinborgarhúsinu á Ísafirði.

Á fundinum var farið yfir skýrslu stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga og þeirra rekstrareininga sem það ber ábyrgð á. Auk þess fór fram afgreiðsla ársreiknings 2023 og samþykkt endurskoðuð fjárhagsáætlun.

Á þinginu voru kynntu drög að Svæðisskipulagi Vestfjarða og markmiðum og áherslum Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029

Jóhann Birkir Helgason var kosinn aðalmaður í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga í stað Aðalsteins Egils Traustasonar sem hefur látið af störfum.

Til stóð að kjósa kjörnefnd fyrir Fjórðungsþing að hausti en því var frestað vegna væntanlegra kosninga í nýju sveitarfélagi á suðursvæði Vestfjarða. Kosning verður kláruð á sumarþingi sem fer fram á netinu 19. júní.

Samþykkt var að halda 69. Fjórðungsþing að hausti á Laugarhóli í Bjarnarfirði dagana 18. og 19. október.

Smávinir fagrir – leiðtogafærni íslenskra kórstjóra í Vísindaporti

Líta íslenskir kórstjórar á sig sem leiðtoga? og hvað felst í því að vera leiðtogi?

Erindið er unnið upp úr lokaverkefni sem Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir gerði í meistaranámi sínu í verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík.

Í því voru gerðar tvær rannsóknir þar sem tekin voru viðtöl við þrjá kórstjóra annarsvegar og svo send út spurningakönnun til kórstjóra hinsvegar. Þar var m.a. spurt hvort íslenskir kórstjórar líti á sig sem leiðtoga og hvort það sé mikilvægt að þeir tileinka sér leiðtogafærni.

Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Hún hóf ung tónlistarnám við Tónlistarskóla Ísafjarðar og er menntaður söngkennari og kórstjóri.

Hún flutti aftur heim á Ísafjörð árið 2006 þar sem hún hefur starfað sem tónlistarkennari, lengst af við Tónlistarskóla Ísafjarðar .

Vorið 2023 útskrifaðist hún frá Háskólanum í Reykjavík með MPM gráðu í verkefnastjórnun og starfar nú hjá Háskólasetri Vestfjarða sem verkefnastjóri. Bjarney Ingibjörg starfar einnig sem kórstjóri við Ísafjarðarkirkju og verkefnastjóri tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Ísfirskur skíðamaður – fimmfaldur Íslandsmeistari – studdur af Seagold Ltd

Dagur Benediktsson. Mynd: Gústaf Baldvinsson.

Í síðasta mánuði varð Dagur Benediktsson frá Ísafirði fimmfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu, sem er einstæður árangur. Á bak við slíkt liggur mikil ástundun en líka skipulag sem hefur verið fylgt eftir. Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri Seagold Ltd., sem er sölufélag Samherja í Bretlandi segir frá því á vefsíðu Samherja að Dagur hafi kom að máli við hann árið 2018 og óskað eftir samtali. „Ég kannaðist lítillega við drenginn þar sem hann er Ísfirðingur en þangað á ég mikil tengsl. Við settumst niður og Dagur falaðist eftir styrk frá fyrirtæki okkar í Englandi Seagold Ltd., til þess að verða frambærilegur keppnismaður á gönguskíðum. Hann kynnti fyrir mér ákveðnar hugmyndir um það hvað hann þyrfti að gera til að ná því markmiði. Í stuttu máli ætlaði hann að helga sig skíðagöngunni næstu árin.“

Gústaf segir að Dagur lagði fyrir hann langtíma áætlun sem honum fannst djörf. „Við hjá Seagold ákváðum að ganga til liðs við Dag með því að styðja hann og óskaði ég eftir því að hann sendi mér reglulega æfingaáætlanir, upplýsingar um gengi í mótum og fl. Síðastliðin 5 ár hefur Dagur gert þetta af mikilli samviskusemi og skýrt okkur hjá Seagold ítarlega frá því hvernig honum hefur gengið að ná settu marki. Það má því segja að við höfum fengið að taka þátt í að sjá skíðagarpinn Dag þroskast og dafna.“

Niðurstaðan liggur fyrir, fimm árum síðar er Dagur fimmfaldur Íslandsmeistari.

Seagold Ltd. er sölufélag Samherja í Bretlandi sem var stofnað 1996 og hefur Gústaf Baldvinsson verið framkvæmdastjóri þess frá upphafi.

Nýjustu fréttir