Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 120

Suðureyri: vilja fleiri lóðir við Höfðastíg utan hættumats

Fyrstu drög að hugmynd að breyttu deiliskipulagi.

Félagið Nostalgía á Suðureyri hefur óskað eftir breytingum á deiliskipulagi á Suðureyri þannig að byggingarlóðum við Höfðastíg fjölgi.

Þann 2.9 2022 gerðu Ísafjarðarbær og Nostalgía ehf með sér samning um lóðir við Höfðastíg á Suðureyri og farið var í framkvæmdir. Nú þegar er búið að fara í gatnagerð og tvö fyrstu húsin eru komin í notkun. Þrjú önnur hús voru þegar fyrir byggð við Höfðastíg. Fjórar aðrar lóðir eru á skipulagi og hægt er að byggja á þeim samkvæmt samningi. En aðrar leiðir eru mögulega betri segir í erindi Nostalgíu og er óskað eftir því við Ísafjarðarbæ að fara í breytingar á deiliskipulagi svæðisins á kostnað Nostalgíu.

„Markmið með breytingu á deiliskipulagi er að nýta svæðið betur sem er utan hættumats vegna ofanflóða og færa þær lóðir sem eru teiknaðar innan hættumats út fyrir hættumatið. Lóðum við tilbúna götu myndi þá einng fjölga. Slík breyting myndi þá gera það að verkum að svæði sem er innan hættumats gæti þá verið nýtt til útivistar á sumrin með því að koma þar fyrir ilströnd, tjaldsvæði og almennum aðbúnaði tengt útivist og íþróttaiðkun.“

.

Ísafjörður: eldri borgarar átelja ríkisstjórnina

Sigrún C. Halldórsdóttir, formaður félagsins í ræðustól.

Félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni hélt aðalfund sinn á miðvikudaginn og var fundurinn í aðstöðu félagsins í Nausti.

Í ályktun fundarins segir að aðalfundur Félags eldri borgara á Ísafirði og nágrennis taki undir  eftirfarandi ályktun FEBAK frá þeirra aðalfundi 20.mars s.l. svohljóðandi:

„Fundurinn átelur ríkisstjórn Íslands harðlega fyrir það, að í þeim 80 milljarða króna pakka, sem hún setti fram til að liðka fyrir kjarasamningum næstu fjögur árin, er ekkert sérstaklega minnst á málefni eldri borgara þessa lands. Það er öllum ljóst að stór hópur eldri borgara hefur mjög lágar tekjur og þarf sárlega að fá viðbót til að geta lifað eðlilegra lífi en hann gerir í dag. Fundurinn telur að það ætti að vera forgangsverkefni stjórnvalda að sinna betur þeim þegnum sínum, sem hafa byggt upp það þjóðfélag, sem við búum við í dag. Fundurinn skorar á alla eldri borgara þessa lands að standa þétt við bak Landsambands eldri borgara í þeirri miklu baráttu sem fram undan er í að ná fram réttlæti eldri borgurum til handa. Ennfremur skorar fundurinn á Landsamband eldri borgara að berjast af fullri hörku fyrir því að á okkur verði hlustað og stjórnvöld komi til móts við okkar óskir um að allir geti lifað sómasamlegu lífi af sínum lífeyri.“

Í stjórn félagsin voru kjörin:

Formaður: Sigrún C. Halldórsdóttir

Varaformaður:   Þorbjörn Sveinsson

Ritari:    Hrafnhildur Samúelsdóttir

Gjaldkeri:   Kristjana Sigurðardóttir

 Meðstj. Guðrún Kristjánsdóttir

Varastjórn:

Bergur Torfason

Eggert Stefánsson

Jens Kristmannsson

Aðalfundurinn var vel sóttur. Mynd: Sigrún C. Halldórsdóttir.

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Eitt aðaleinkenni þjóðkirkjunnar, kirkju þjóðarinnar er hún að hún hefur þá grunnskyldu að veita kirkjulega þjónustu um allt land. Henni ber að þjóna fólki í sveit og borg, í þorpum og bæjum, þeim sem búa afskekkt og þeim sem búa þétt. Þetta er ekki einfalt hlutverk því þegar upp er staðið er það fjárhagurinn sem stýrir því hversu breið og öflug sú þjónusta er. Sóknargjöldin sem ríkið innheimtir fyrir þjóðkirkjuna hafa verið skert af hálfu ríkisins frá því í hruninu og jafnvel eitthvað fyrr. Þetta hefur gert það að verkum að erfiðara er að halda úti þjónustu safnaða og halda við kirkjubyggingum sem margar hver eru menningarleg þjóðarverðmæti. Þá hefur vígð þjónusta verið skert þar sem kirkjan hefur þurft að fara í sparnaðaraðgerðir auk þess sem fólksflutningar hafa orðið á ákveðnum svæðum.

Staða safnaðanna í landinu er afar mismunandi og hinir vígðu þjónar, prestar og djáknar búa við ólíkar aðstæður mörgu leyti. Prestar sem þjóna á landssvæðum þar sem þarf að aka um, fjallvegi til þess að annast guðsþjónustu, sálgæslu, safnaðarstarf eða kirkjulega athöfn búa við erfiðari aðstæður en prestar sem vart þurfa að fara úr húsi til þess að annast allt sitt starf. Á nokkrum stöðum eru vegalengdir slíkar innan prestakalls að ein skírn getur tekið allt að fjórar klukkustundir þegar akstur er tekinn með. Kirkja sem býður upp á þjónustu á svo ólíkum stöðum getur ekki boðið upp á samskonar þjónustu alls staðar en hún verður að huga að því að allir þjónar kirkjunnar búi við kjör sem gera það eftirsóknarvert að vilja starfa í Þjóðkirkjunni hvar sem er á landinu.

Vígð þjónusta á landsbyggðinni þarf að vera jafn aðlaðandi og samskonar þjónusta á höfuðborgarsvæðinu sem þýðir að kirkjan þarf að fara að huga að því að skoða kjaramál presta eftir því í hvaða landshlutum þeir þjóna. Á ákveðnum stöðum á landinu hefur þjónustuskerðingin orðið með þeim hætti að prestarnir eru sífellt að troða marvaðann eingöngu til þess að svara lágmarkskalli sóknarbarna. Þessir sömu prestar eiga erfitt með að taka fullt sumarleyfi, hvað þá samfellt. Við þurfum aðeins að líta til landanna í kringum okkur s.s. til Svíþjóðar eða Noregs til þess að skoða hvaða leiðir kirkjurnar þar hafa farið í þessum málum. Í þessum löndum hefur verið komið til móts við vígða þjóna á afskekktari stöðum með ýmsum hætti s.s. með auknum leyfum og afleysingu. Þá verður kirkjan að endurskoða þjónustu sína reglulega um allt land til þess að koma til móts við þjónustuþörf og aðstæður síns starfsfólks. Þetta eru leiðir sem ég tel að við verðum að skoða alvarlega því ég vil leiða kirkju þar sem metur allt sitt starfsfólk að verðleikum og hlúir að því.

Þá þarf kirkjan að sækja það fast að ríkið skili sóknargjöldunum til safnaðanna og festa þau í sessi svo að við getum farið að þjóna Guði og fólki eins og við erum kölluð til á landinu öllu. Þá er hægt að fara fleiri leiðir til þess að hjálpa litlum sóknum sérstaklega og þar má m.a. nefna þann möguleika að skrá söfnuðinn á almannaheilaskrá og gefa þannig fólki kost á að styrkja kirkjuna sína og fá það að hluta til baka sem lækkun á skattstofni. Sjálfsagt er að skoða hvort fólk geti valið að ská sig sérstaklega í allra minnstu sóknirnar og þannig látið sóknargjöldin sín renna þangað. Þá er ekki síður mikilvægt að reyna að fjölga meðlimum í Þjóðkirkjunni og með sérstöku þjóðkirkjuátaki. Einn liður í því er að reyna að koma því um kring að skírnin verði sjálfkrafa skráning í Þjóðkirkjuna. Mikilvægast af öllur er þó að kirkjan haldi áfram að gera sig gildandi sem öflug fjöldahreyfing sem býr yfir ótrúlega miklum mannauði og hæfileikum, en ekki síður erindi sem við hér inni vitum öll að skiptir öllu lífsins máli, það er fagnaðarerindið sjálft.  

Kirkja í sókn tekur hlutverk sitt alvarlega, er fagleg í þjónustu sinni jafnt í söfnuðum sem og í sérþjónustu og hlúir vel að öllum sínum þjónum, starfsfólki og sóknarnefndarfólki. Kirkja í sókn er sýnileg því hún er stolt af erindi sínu, fagnaðarerindinu sjálfu. Þetta er sú kirkja sem ég mun veita forystu verði ég kjörin biskup Íslands.

Guðrún Karls Helgudóttir.

Guðrún hefur verið tilnefnd til biskups og er í kjöri.

Sæbólskirkja á Ingjaldssandi

Guðjón Samúelsson arkitekt teiknaði Sæbólskirkju og er hún ein af hans fyrstu kirkjuteikningum. Kirkjan var vígð í september 1929 og ber höfundi sínum og söfnuði fagurt vitni.

Í aftakaveðri í janúar 1924 fauk timburkirkja sem reist hafði verið á Ingjaldssandi árið 1858. Þá efni 70 manna söfnuður kirkjunnar til fjársöfnunar um Dýrafjörð, Önundarfjörð og meðal brottfluttra í Reykjavík, svo unnt yrði að byggja nýja kirkju.

Það var gert árið 1929 og var kirkjan vígð 29. september sama ár. Smiður kirkjunnar var Torfi Hermannsson, sem ættaður var frá Fremstuhúsum í Dýrafirði. Altaristöfluna málaði Björn Guðmundsson, kennari og síðar skólastjóri á Núpi, eftir forsögn séra Sigtryggs Guðlaugssonar sem var prestur við kirkjuna og hann vígði hana.

Torfi kirkjusmiður smíðaði og gaf skírnarfontinn, en skírnarskálin er eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Guðrún Vigfúsdóttir frá Tungu í Valþjófsdal málaði skírnarfontinn. Útskurður í kirkjunni er eftir Jón Jónsson bónda og kirkjuhaldara á Sæbóli.

Af vefsíðu Minjastofnunar

Karfan : Vestri : KV í kvöld

Í kvöld er fyrsti leikur í úrslitaviðureign Körfuknattleiksdeildar Vestra og KV í meistaraflokki karla.  Leikurinn er kl 20.00 í Jakanum, Íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði.

Í úrslitaviðureigninni er leikið um Íslandsmeistaratitilinn í 2. deild.  Liðið sem fyrr vinnur tvær viðureignir vinnur sér rétt á að fara upp í fyrstu deild.  Næsti leikur er svo útileikur á Meistaravöllum í Reykjavík á mánudaginn.

Vestri hefur mætt KV í tveimur leikjum í vetur og vann þá báða.  Leikirnir voru skemmtilegir og jafnir enda liðin nokkuð jöfn að getu.

Tímabilið hefur verið gott hjá KKD Vestra og enduðu þeir deildakeppnina í efsta sæti  annarrar deildar. 

Ljóst er að það verður spennandi leikur í kvöld og vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta og að styðja við bakið á liðinu.

Þrist­alí­kjör með laktósa­lausri mjólk­ frá Örnu

Á opn­un­ar­hátíð Reykja­vík Cocktails Week­end fór fram kynning á lí­kjör sem kem­ur úr her­búðum Hovd­enak Distillery ehf. og ber heitið Þrist­alí­kjör.

 Það er sælgætisgerðin Sam­bó sem fram­leiðir þjóðþekktu vör­una Þrist­ur og Mjólkurvinnslan Arna í Bol­ung­ar­vík með laktósa­lausu mjólk­ina sína sem leggja til hráefni í þennan nýja  Þrist­alí­kjör sem mun koma á markaðinn síðar á þessu ári.

Það er búið að rigna yfir okk­ur sím­töl, tölvu­póst­ur og skila­boð á Face­book og In­sta­gram miðlun­um eft­ir að við frum­sýnd­um vör­una í Hörp­unni á miðviku­dag­inn síðastliðinn á opn­un­ar­hátíð Reykja­vík Cocktail Week­end segir Há­kon Freyr Hovd­enak hjá fyrirtækinu Hovd­enak Distillery ehf.

Nýr starfsmaður á skrifstofu Strandabyggðar

Heiðrún Harðardóttir hefur verið ráðin á skrifstofu Strandabyggðar og hefur störf núna í byrjun maí.

Á hennar verksviði verður afgreiðsla erinda, innheimta, móttaka innsendra reikninga og bókhald ásamt verkefnastjórn í ýmsum verkefnum sem snúa að opinberri stjórnsýslu og ferðamálum.

Heiðrún er með BA gráðu í ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum og diplómu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. 

Vestri leikur við Breiðablik á Kópavogsvelli

Vestri leikur við Breiðablik á Kópavogsvelli á morgun laugardag kl. 14:00 en liðið tapaði fyrir Fram um síðust helgi í sínum fyrsa leik í Bestu deildinni.

Vestri hefur fengið liðsauka sem er Toby King, sem lék með Vestra sumarið 2022 en hann er mættur aftur til félagsins. Hann fékk staðfest félagaskipti í Vestra í gær.

King er 22 ára enskur miðjumaður sem gæti spilað með Vestra gegn Breiðabliki á morgun.

Ísafjörður: lengja fyrirstöðugarð um 180 m

Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur fyrir sitt leyti samþykkt erindi frá Ísafjarðarhöfnum um lengingu á fyrirstöðugarði við Norðurtangann. Er sótt um að hann lengist um 180 metra en fyrir var leyfi fyrir 80 metra garði. Mun lengingin liggja inn með Fjarðarstrætinu.

Erindið fer til lokaafgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.

Alþingi: spurt um jarðgöng á Vestfjörðum

Frá Súðavíkurhlíð. Ekki ný mynd.

María Rut Kristinsdóttir varaþingmaður Viðreisnar í Reykjavík hefur lagt fram á Alþingi fyrirspurn til innviðaráðherra um uppbyggingu jarðganga á Vestfjörðum.

Spurt er um Súðavíkurgöng og um jarðgöng um Mikladal og Hálfdán.

 Í fyrsta lagi er spurt hvort til greina komi „að mati ráðherra að flýta áætluðum framkvæmdum við Súðavíkurgöng samkvæmt jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar í ljósi þeirra aðstæðna sem íbúar Súðavíkur og nágrennis búa við vegna snjóflóða- og aurskriðuhættu.“
 Í öðru lagi spyr María Rut hvort ráðherra hafi íhugað að flýta jarðgöngum um Mikladal og Hálfdán til að tryggja íbúum svæðisins jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og flugsamgöngum allan ársins hring.

Það kemur í hlut nýs innviðaráðherra Svandísar Svavarsdóttur (V) að svara fyrirspurnunum.

María Rut Kristinsdóttir (C).

Nýjustu fréttir