Sunnudagur 1. september 2024
Síða 12

Ása Sigur­laug Harð­ar­dóttir er nýr skólastjóri Tálknafjarðarskóla

Ása Sigur­laug Harð­ar­dóttir hefur tekið við starfi skóla­stjóra Tálkna­fjarð­ar­skóla.

Ása Sigurlaug er menntaður landfræðingur frá Frakklandi og kennari frá Háskólanum á Akureyri með víðtæka kennslureynslu úr grunn- og framhaldsskólum. Hún er með góða reynslu af mannauðs- og verkefnastjórnun, nú síðast sem kennsluráðgjafi við Háskólann á Bifröst.

Sauðfjársetur á Ströndum: Íslandsmeistaramót í gær í hrútaþukli

Bjarni á Leiðólfsstöðum kampakátur með titilinn og farandgripinn Horft til himins, sem Búnaðarsamband Strandamanna gaf til minningar um Brynjólf Sæmundsson héraðsráðunaut Strandamanna til áratuga. Til hægri er Jón Þór á Galtarholti og til vinstri Guðni sem tók við vinningnum fyrir Höddu Borg í Þorpum. Mynd: Sauðfjársetrið.

Bjarni Hermannsson á Leiðólfsstöðum í Dölum er nýr Íslandsmeistari í hrútadómum. Hann sigraði eftir harða keppni á Sauðfjársetrinu í Sævangi í gær. Í öðru sæti varð Jón Þór Guðmundsson á Galtarholti í Hvalfjarðarsveit og þriðja varð Hadda Borg Björnsdóttir á Þorpum við Steingrímsfjörð á Ströndum. Bæði Jón Þór og Hadda hafa áður unnið Íslandsmeistaratitil.

Í flokki óvanra sigraði Andri Snær Björnsson á Ytra-Hóli í A-Hún og Kristvin Guðni Unnsteinsson 12 ára á Klúku í Miðdal á Ströndum varð í öðru sæti. Þriðja varð Sara Líf Stefánsdóttir bóndi í Fagranesi í Langadal í A-Hún.

Alls tóku 65 keppendur þátt og milli 4-500 manns mættu á þennan skemmtilega dag og áttu góða stund saman.

Sara Líf, Andri Snær og Kristvin Guðni ánægð með verðlaunasætin og vinningana. Mynd: Sauðfjársetur.

Matthías Lýðsson, bóndi í Húsavík fyrir miðri mynd var kynnir mótsins.

Sumir gestir voru komnir langt að. Hér má sjá Arnar Kristjánsson frá Ísafirði og fjölskyldu.

Hrútarnir sem voru dæmdir virtust vera vera vel ræktaðir.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vinstri grænir: almenningssamgöngur mikilvægar og borgarlína brýn

Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs haldinn í Reykjanesbæ 17. ágúst 2024 ályktaði sérstaklega um samgöngumál. Þar segir að fundurinn áréttar mikilvægi greiðra samgangna og fjölbreyttra valkosta í samgöngumálum í þágu allra landsmanna.

Brýnt er að stefna að hágæða almenningssamgöngum um land allt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og byggja upp greiðar leiðir og fjölbreytt samfélag. Fundurinn hvetur innviðaráðherra til dáða, enda ærið verk að vinna en tækifærin mikil á næstunni í samgöngumálum. Almenningssamgöngur fela í sér mikilvæga kjarabót fyrir vinnandi fólk og fjölbreyttir ferðamátar eru leið til þess að efla lýðheilsu en jafnframt stuðla að vistvænna samfélagi. Fundurinn bendir á að við forgangsröðun framkvæmda þurfi ávallt að hafa grundvallargildi um félagslegt réttlæti og jöfnuð í forgrunni ásamt því að auka umferðaröryggi. Brýnt er að ljúka við uppfærslu Samgöngusáttmálans á höfuðborgarsvæðinu og koma Borgarlínu til framkvæmda. Einnig að tryggja góða og ítarlega vinnu við gerð tillögu um samgönguáætlun fyrir Alþingi í haust.

Kjörbúðin lækkar matarkörfuna

Kristín Gunnarsdóttir.

Í síðustu viku lækkaði verð á 640 vörum í verslunum Kjörbúðanna og nemur lækkunin í mörgum tilfellum tugum prósenta frá fyrra verði segir í frettatilkynningu frá Samkaup. Ákveðið var að fjölga þeim vörum sem merktar eru sérstaklega með grænum punkti, en það eru vörur sem seldar eru á verði sambærilegu við það sem býðst í lágvöruverðsverslunum.

„Markmiðið með rekstri Kjörbúðarinnar er alltaf að bjóða viðskiptavinum okkar upp á vöruúrval, þjónustu og verð sem mætir þeirra þörfum og kröfum. Við reynum því eftir fremsta megni að bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval á breiðu verðbili og vera með samkeppnishæf verð,“ segir Kristín Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri Krambúða og Kjörbúða hjá Samkaupum.

„Kjörbúðir eru staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins og flestar eru í byggðarlögum þar sem fáar aðrar verslanir starfa. Við viljum gera það sem þarf til að halda Kjörbúðunum í þessum byggðarlögum gangandi. Verslun er mikilvægur innviður í hvaða byggðarlagi sem er. Þær skapa atvinnu, en það er líka mikilvægt fyrir lífvænleika samfélaga að þar sé hægt að kaupa nauðsynjavörur án þess að keyra til þess lengri leið í aðra bæi. Þetta þekkir best það fólk sem býr á stöðum þar sem verslun hefur lagst af.“

Kristín bendir á að frá áramótum hafi verið unnið að því að færa verð margra nauðsynjavara í Kjörbúðinni að því verði sem býðst í lágvöruverðsverslunum eins og Nettó. „Þessar vörur eru sérmerktar með grænum punkti í verslunum Kjörbúðarinnar og viðbrögðin hafa verið mjög góð. Að fjölga vörutegundunum í þessum flokki er vissulega kostnaðarsamt fyrir okkur, en er rökrétt næsta skref í þessari vegferð sem við höfum verið á síðustu misseri.“

Kristín segir að Samkaup hafi trú á því að sú ákvörðun að lækka verðið á vörukörfu viðskiptavina muni skila sér í aukinni veltu og meiri sölu. „Þá bindum við sannarlega vonir við að þetta verði birgjunum hvatning til að taka þátt í vegferðinni með okkur og að þannig getum við boðið jafnvel enn betri verð fyrir viðskiptavini.“

Kristín segir starfsfólk Kjörbúðanna spennt fyrir þessum breytingum og hlakki til að sjá viðbrögð viðskiptavina. „Það er alltaf eitthvað að gerast hjá okkur. Næst á dagskránni eru vítamíndagarnir og svo heilsudagar i september og þar eru alltaf góð tilboð til viðbótar við þessar lækkanir sem við kynnum núna.“

Samkaup rekur rúmleg 60 smávöruverslanir víðsvegar um landið. Viðskiptavinir Samkaupa geta valið á milli helstu verslunarkeðja félagsins. Þær eru Nettó, Kjörbúðin, Krambúð og Iceland.

Velheppnað námskeið Tungumálatöfra á Flateyri

Sunnudaginn 11. ágúst síðastliðinn lauk vel heppnuðu námskeiði Tungumálatöfra sem haldið var í Grunnskóla Önundarfjarðar á Flateyri og í náttúrunni þar í kring. Námskeiðið var vel sótt af börnum á aldrinum 5-14 ára sem eiga hin ýmsu tungumál að móðurmáli m.a. kínversku, ensku, taílensku, pólsku, úkraínsku, eistnesku, frönsku og íslensku. Á námskeiðinu fengu börnin tækifæri til þess að kynnast hvert öðru í gegnum skapandi útivist, myndlist og tónlist og þjálfa íslenskuna sína í leiðinni. Í ár var unnið með þema sem tengist hafinu þar sem börnin notuðu hugmyndaflug sitt við listsköpun og leiki.

Margt var brasað og brallað. Farið var í skógarferð og berjatínslu, búið var til salt með þurrkuðum þara og leikið á ströndinni í Holti. Lag var samið um hina ýmsu íbúa hafsins og búin til sjávardýr á priki sem fylgdu börnunum í töfragöngunni á lokadegi námskeiðsins en að venju lauk námskeiðinu með töfragöngu og matarupplifun þar sem foreldrar og börn komu með mat frá ólíkum heimshornum.

Haukadalur: Ariasman fyrir fullu húsi

Elfar Logi á sviðinu í Haukadal.

Á fimmtudagskvöldið lagði Bæjarins besta leið sína vestur í Dýrafjörð og þar alla leið út í Haukadal. Erindið var að sjá sýninguna Ariasman sem er á fjölunum í Samkomuhúsinu í Haukadal. Húsið var reist 1936 og er enn í góðu ástandi að því best verður séð. Félagarnir í ungmennafélaginu Gísli Súrsson voru stórhuga þegar ákveðið var að reisa samkomuhús í dalnum og unnu verk sitt vel.

Að sönnu tekur salurinn ekki marga í sæti en þó eitthvað á fjórða tuginn og hvert sæti var skipað þegar sýningin hófst. Ariasman var enn á ný sýndur fyrir fullu húsi. Næsta sýning verður aukasýning miðvikudaginn 21. ágúst.

Ariasman er líklega basneskt nafn á sýslumanninum Ara Magnússyni í Ögri. Leikverkið er unnið upp úr bók Tapio Koivukari sem heitir einmitt Ariasman.

Tapio er finnskur, talar íslensku, bjó um árabil á Ísafirði og er kvæntur ísfirskri konu Huldu Leifsdóttur. Bókin fjallar um Baskavígin 1615 þar sem um 30 manns af um 80 Böskum voru drepnir á norðanverðum Vestfjörðum að undirlagi Ara í Ögri. Aðalheimildin er rit Jóns lærða Guðmundssonar frá Ófeigsfirði en hann bjó við Steingrímsfjörð þegar atburðirnir urðu, sem eru tilefni verksins. Baskarnir, sem voru hér á hvalveiðum og bræddu lýsi í Steingrímsfirði, misstu skip sín í óveðri að hausti og urðu skipreika hér á landi. Jón hafði kynnst þeim og tók afstöðu með skipbrotsmönnunum og fannst drápin vera níðingsverk. Uppskar hann óvild Ara í Ögri og mátti þola erfiða daga fyrir.

Tapio skrifaði um þessa atburði og lagði sig fram um að leita að heimildum um þá og víst er að í gegnum leikverkið skín afstaða um óhæfuverk gegn Böskunum og ekki eykst hróður Ara í Ögri við frásögnina.

Elfar Logi Hannesson leikur eina hlutverkið og það reynir verulega á hvern leikara að gera því skil en ferst það vel úr hendi og mátti heyra saumnál detta meðan á sýningunni stóð og í lok hennar var Elfari vel fagnað.

Kómedíuleikhúsið var stofnað 1997 og hefur verið starfandi á Vestfjörðum í rúman aldarfjórðung. Þar hafa verið sett um meira en 50 leikverk og enn er þar margt um að vera. Það er mikið þrekvirki að halda þessu gangandi allan þennan tíma og á Elfar Logi Hannesson lof skilið fyrir þrautseigjuna.

Í gær var fjölskyldu- og barnasýning í Haukadal þar sem fjölmiðakonan Sirrý las upp úr barnabókum sínum ,,Tröllastrákur læknar hrekkjusvín” og ,,Saga finnur fjársjóð – og bætir heiminn í leiðinni”.

Uppfært kl 11:09. Borist hefur ábending um að það hafi verið kvenfélagið Hugrún í Haukadal sem stóð fyrir byggingu samkomuhússins.

Samkomuhúsið í Haukadal þar sem Komedíuleikhúsið er til húsa. Fjær er gamla skólahúsið, en það er steinsteypt.

Samkomuhúsið er veglegt og með sviði. Í dalnum bjuggu þá um 100 manns og margar hendur tilbúnar að leggja gjörva hönd á plóg fyrir ungmennafélagið. Og hvað gat það heitið annað en Gísli Súrsson?

Á Haukadalsbótinni fyrir utan dalinn eru laxeldiskvíar og sjá mátti um kvöldið merki um þróttmikið atvinnulíf sem er að snúa Vestfjörðum í sóknarhug.

-k

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Besta deildin: Vestri lagði KR

Leikmenn Vestra þakka áhorfendum í leikslok fyrir stuðninginn . Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Fyrsti sigur karlaliðs Vestra á nýja Kerecisvelinum kom í dag þegar KR var lagt að velli í opnum og fjörugum leik 2:0.

Bæði mörk leiksins komu í fyrri hálfleik. Það fyrra gerði Pétur Bjarnason eftir sendingu frá Elmar Garðarssyni og það síðari gerði Elmar undir lok hálfleiksins eftir góða sendingu frá Benedikt Waren.

Í síðari hálfleik var ekki bætt við mörkum í rigningunni á Ísafirði en fjölmörk færi litu dagsins ljós á báða bóga og hefðu mörkin hæglega getað orðið miklu fleiri. Engu að síður var sigur Vestra verðskuldaður og reyndar líka kærkominn. Þetta er þriðji leikurinn í röð sem Vestri nær góðum úrslitum, tvö jafntefli og sigur.

Vestri er nú í 10. sæti deildarinnar eftir 19 leiki. Tvö neðstu liðin HK og Fylkir leika á morgun. Þá var um daginn frestað leik HK og KR þar sem mark á velli HK var ekki í lagi og hefur nýr leiktími ekki verið ákveðinn.

Staðan í Bestu deildinn eftir leik dagsins. heimild: mbl.is.

Vestri í hættulegri sókn undir lok leiksins.

Gott að eldast: Samningur undirritaður um samþætta heimaþjónustu í Vesturbyggð

Lúðvík Þorgeirsson, forstjóri HVest, og Gunnþórunn Bender, forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, undirrita samninginn.

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Vesturbyggð hafa gert með sér samning um rekstur samþættrar heimaþjónustu í sveitarfélaginu. Samningurinn er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda; Gott að eldast, sem felur í sér heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk með áherslu á að þjónusta sé veitt þegar hennar er þörf, á forsendum fólksins sjálfs og á réttu þjónustustigi. 

Samkvæmt samningnum mun Heilbrigðisstofnun Vestfjarða taka að sér rekstur heimastuðnings í samstarfi við sveitarfélagið. Þjónustugátt verður ein sem þýðir að allar beiðnir um þjónustu fara í gegnum eitt kerfi og mat á þeim verður sameiginlegt verkefni félags- og heilbrigðisstarfsfólks. Lögð verður áhersla á persónumiðaða nálgun þar sem fagfólk vinnur saman í teymisvinnu.

Markmiðið með verkefninu er að auka gæði þjónustu fyrir eldra fólk, minnka líkur á að fólk falli á milli þjónustukerfa og fækka innlögnum á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Með samþættingu félags- og heilbrigðisþjónustu er stefnt að því að þjónustan verði í einu flæði og að brugðist sé fljótt við breyttum þörfum notenda.

Það er mat samningsaðila að með samningnum sé stigið mikilvægt skref í átt að betri og skilvirkari þjónustu við eldra fólk í Vesturbyggð, þar sem hámarks nýting fjármuna sé tryggð án þess að það komi niður á gæðum þjónustunnar. Vonir standi til þess að þær breytingar sem samþætting heimaþjónustunnar felur í sér muni leiða til betri lífsgæða fyrir eldri íbúa sveitarfélagsins.

Unnið að tveimur bókum um Valdimar Björn Valdimarsson frá Hnífsdal

Valdimar Björn Valdimarsson.

Undanfarna tvo mánuði hefur Norma E. Samúelsdóttir dvalið í Bolungavík og unnið að tveimur bókum um móðurafa hennar Valdimar Björn Valdimarsson frá Hnífsdal.

Sú fyrri er um ættfræðinginn Valdimar Björn Valdimarsson og fjölskyldu hans , föður, móður, forfeður og afkomendur en foreldrar hans Valdimar Þorvarðsson útgerðabóndi og Björg Jónsdóttir húsfreyja bjuggu í Heimabæ og eignuðust átta börn. 

Seinni bók er um sagnamanninn Valdimar Björn , en þjóðfræðingurinn Hallfreður Örn Eiríksson tók mörg viðtöl við hann á árunum 1968 til 1970  í Reykjavík þangað sem Valdimar Björn. flutti vegna atvinnuleysis fyrir vestan árið 1942.

Valdimar Björn Valdimarsson var fæddur 1888 og lést 1974. Valdimar er í íslaendingabók skráður sem bókhaldari í Hnífsdal 1930. Hann flutti til Reykjavíkur og starfaði þar sem bílstjóri og ættfræðingur.

Norma segir hún blandi saman eigin minningum frá Hnífsdal og Víðimel þar sem fjölskyldan bjó ásamt minningum ættfræðingisins/vörubílstjórans.

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér þetta betur geta haft samband við Normu E. Samúelsdóttur á netfangið normaelisabet@gmail.com  (ekki í síma).  Hún segirst hvorki vera sagnfræðingur né Vestfirðingur nema genatískt,  þar sem móður fólk hennar í báðar ættir er ættað frá Hnífsdal, Dýrafirði, Arnardal, Eyrardal. Norma ólst upp við að heyra sögur þaðan, og fylgdist með þegar verið var að undirbúa verk útgefanda Vestfirskra ætta, heima í litlu íbúðinni vestur í Reykjavíkurborg.

Orkusjóður: 10 styrkir til verkefna á Vestfjörðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við kynningu á úthlutunum Orkusjóðs.

Tilkynnt var í gær um úthlutun styrkja úr Orkusjóði. Alls voru veittir 53 styrkir til orkuskipta samtals að fjárhæð 1.343 m.kr.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að styrkveitingarnar nú hafi þau áhrif að áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna þeirra verkefna sem styrk hljóta verði sem nemur 11 milljón olíulítrum á ári.

Samtals fengu 53 verkefni styrk úr Orkusjóði að þessu sinni. Verkefnin eru af ýmsum stærðum og koma til framkvæmda víða um land og hafa það að markmiði að draga hratt úr losun. Alls bárust um 154 umsóknir að upphæð rúmlega 6,7 milljarða kr. Verkefnin 53 sem styrkt eru (utan innviðaverkefna) eru metin á 8,4 ma. kr., en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.

Hæsta styrkfjárhæðin til einstaks verkefnis er 75 m.kr. og er til íslenska vetnisfélagsins. Heildarkostnaður við það verkefni er 1,5 milljarður króna.

Tíu verkefni á Vestfjörðum fengu styrk samtals 99 m.kr. og nam styrkfjárhæðin þriðjungi kostnaðar hverju sinni nema í einu þar sem hlutfallið er 20% og öðru þar sem það var100%.

Ísorka ehf fékk 11.454.000 kr. styrk til orkuhleðslustöðvar í Flókalundi.

Strandabyggð fékk 14 m.kr. styrk vegna varmadælu á Hólmavík.

Orkubú Vestfjarða fékk þrjá styrki. Einn heitir upphaf orkuskipta í Flatey og er 19.3 m.kr. Orkuskipti í fjarvarmaveitu á Patreksfirði er styrkt um 11.550.000 kr. og sama upphæð til Bolungavíkur.

Vestfirskar ævintýraferðir ehf fékk 8 m.kr. styrk til rafknúins hópferðabíls á Ísafirði. Þar var styrkhlutfallið 20%.

Arna ehf í Bolungavík fékk 6,1 m.kr. styrk vegna rafmagnsketils.

Galdur Brugghús hlaut 5 m.kr. styrk vegna vistvænnar bjórframleiðslu.

Hvallátur ehf var styrkt um 3,2 m.kr. til orkuskipta í Hvallátrum.

Loks fékk Vesturbyggð 100% styrk 5,8 m.kr. til þess að leggja þriggja fasa rafmagn að Fossi í Arnarfirði.

Nýjustu fréttir