Síða 12

Stjórnlaus bátur út af Horni

Rétt upp úr eitt í nótt barst Landsbjörgu aðstoðarbeiðni frá fiskibát sem var þá staddur rétt norður af Hornbjargi. Það óhapp hafði orðið að olía fór af stýriskerfi og báturinn því stjórnlaus. Fjórir menn eru um borð, veður ágætt og ekki mikil hætta á ferðinni.

Varðskipið Þór, sem var statt í Grundarfirði, var sent af stað vestur ásamt því að áhöfnin á björgunarskipinu Gísla Jóns á Ísafirði var boðuð út. Bæði skip lögðu úr höfn rétt um hálf tvö í nótt.

Klukkan fimm í morgun kom svo Gísli Jóns að bátnum og rétt um 10 mínútum síðar var búið að koma taug á milli skipanna og skipstjóri Gísla Jóns setti stefnuna inn á Ísafjörð. Drátturinn hefur ekki gengið alveg áfallalaust fyrir sig, en eftir um klukkustundar drátt hafði einn þáttur dráttartaugar um borð í fiskibátnum slitnað og þurfti að stöðva ferð meðan áhöfn bátsins lagaði það. Því verki var lokið snöfurmannlega og nú rétt um hálf átta í morgunsárið var hægt að halda ferð áfram. Skipin voru um kl 8 í morgun á um 6 sjómílna hraða eða 11 km á klukkustund, í vesturátt fyrir norður af Hornvík.

Varðskipið Þór heldur áfram för norður fyrir Vestfjörðum áleiðis í átt að Gísla Jóns og fiskibátnum.

Ísafjörður: ný forysta Sjálfstæðisflokksins með opinn fund í Edinborgarhúsinu

Nýkjörin forysta Sjálfstæðisflokksins er á fundaferð um landið með opna fundi. Fyrsti fundurinn var í Garðabæ á laugardaginn. Í hádeginu í dag kl 12 hefst fundur í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Fundaherferðin heitir Til fundar við fólkið og segir í tikynningu að forystan sé á ferð til fundar við landsmenn.

Á fundinn mæta Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins, Jens Garða Helgason, varaformaður og Vilhjálmur Árnason, ritari.

Vestfirskir listamenn: Guðmundur Jónssson frá Mosdal

Brjóstmynd af Guðmundi frá Mosdal eftir Ríkharð Jónsson.

F. 24. september 1886 í Villingadal Ingjaldssandi. D. 3. júlí 1956 á Ísafirði.

Öndvegisverk: Göngustafur með handfangi úr fílabeini, Trésvipa með slöngumynstri, Kýrhorn með drekamynstri.

Það má alveg segja að Guðmundur Jónsson er kenndi sig við æskustað sinn, Mosdal, hafi verið allur í verkinu. Allt er hug hans snerti vann hann að svo mikilli ástríðu og áhuga að til eftirbreytni er. Í því samhengi má nefna að sagt var að strax í æsku hafi hann gjarnan verið með bók í annarri hendi en hrífu í hinni, gaf þó ekkert eftir við búverkið. Sköpunina hafði hann vissulega í höndunum og varð einn besti myndskeri síns landsfjórðungs. Sportið átti líka hug hans allan og þar var ástríðan alla leið hvar hann bæði stofnaði og stýrði ungmennafélögum á sínu æviskeiði. Þá er ótalið áhugi hans á varðveislu sögu sem muna enda var hann bæði ötull liðsmaður Sögufélags Ísfirðinga og Byggðasafnsins vestra.

Sólarlistamaður og bæjarins þjónn í Sóltúni

Hin fyrstu jól snáðans Gvendar voru eigi góð því faðir hans fórst í snjóflóði skömmu fyrir ljóssins hátíð. Þá var sá stutti sendur í fóstur til frændfólks í Mosdal sem var ysti bærinn í Mosvallahreppi. Allra heilla líkaði honum þar vel enda kenndi hann sig við æskustaðinn. Þar nam hann líka það sem átti eftir að móta og fylgja honum alla tíð. Áhuga á bókmenntum og þjóðlegum fróðleik. Einsog títt var í þá tíð var pilturinn Gvendur snemma byrjaður að hjálpa til við lífsbrauðið í Mosdal bæði á landi sem á sjó. Puðið var samt þó eigi það mikið að hann gat einnig gefið sér tíma til lesturs og ekki síður við að tálga undursins hluti. Í hans höndum varð saklaus trékstubbur að listaverki í formi hins fyrsta landnema lágfótunnar eða melrakkans einsog sá fótafimi er nefndur stundum. Enda stefndi hugurinn snemma í átt þeirra miklu myndskurðalistar því strax árið 1911 er hann kominn til Reykjavíkur til að nema tréskurðarlistina hjá einum færasta listamanni þeirra listar á þeim tíma Stefáni Eiríkssyni. Þar var hann við nám næstu fimm árin og gaf seinna sínum lærimeistara hagalega gjörðan reykjarpípuhaus með dreka- og ormamyndum. Líkt og fyrir vestan þá var Gvendur liðtækur í félagsmálunum á sínum Reykjavíkurárum þá einkum fyrir ungmennafélagið og svo til góðverka bindindisfélaga sem höfðu þá hið fagra heiti templarar.

Sóltún hús listamannsins á Ísafirði.

Einsog margur Vestfirðingurinn togar fjórðungurinn ávallt í mann svo hann fór fljótlega aftur vestur og nú á Ísafjörð hvar hann miðlaði sinni skurð- og teiknilist. Eitthvað fannst honum þó sig eiga vanlært í listinni því árið 1919 siglir hann í norður og dvelur næstu tvö árin ýmist í Noregi, Svíþjóð eða Danmörku. Hvar hann bætti við þekkingu sína í myndskurðinum með áherslu á fornnorrænan tréskurð. Einnig stúderaði hann bókband. Mætir svo aftur á Ísafjörð hvar hann starfar allt til enda. Æviverk hans var fjölbreytt og vilja margir meina um of. Einkum hafi það kannski verið félagsstörfin sem trufluðu hann fullmikið við listastarfið. Alla tíð var hann iðinn við að kenna æskunni vestra tréskurð, teikningu og bókband. Þá má leikandi segja að hann hafi verið mikill vormaður enda stofnaði hann eigi færri en 3 ungmennafélög í Önundarfirði og síðar einnig á Ísafirði. Starfaði hann mikið í þágu ungmennasportsins og var meira að segja ritstjóri þeirra rits, Skinnfaxa. Svo var það áhuginn er kviknaði á æskuheimilinu í Mosdal hinn þjóðlegi arfur. Var hann velvirkur í Sögufélagi Ísfirðinga og í framvarðasveit Byggðasafns Vestfjarða enda fór það svo að hann arfleiddi safnið af sínu merka húsi Sóltúni sem og hins stóra bókasafns síns. Talandi um húsið er hann reisti og nefndi Sóltún. Er það mikið listaverk og sannlega eitt af þeim húsum sem gestir Ísafjarðar láta eigi óséð enda er það mjög vel séð. Guðmundur var trúmaður var í sóknarnefnd og gengdi meðhjálparastarfi.  

Samferðamenn Guðmundar kváðust ávallt koma fróðari af hans fundi. Hann var enda sífellt að bæta þekkingu sína sem hann sótti ekki síst í bækur. Segja má að Gvendur hafi verið einsog Google þess tíma á Ísafirði.

Listsins hlutir

Fjölbreytileiki listaverka Guðmundar frá Mosdal er mikill allt frá smíði á langspili til göngustafs. Marga hlutina smíðaði hann eftir pöntun. Má þar nefna staf er hann smíðaði að beiðni Guðrúnar í Æðey er hún sína gaf doktórnum og tónskáldinu Sigvalda Kaldalóns. Er hinn þarfi stafur mikil listasmíð með handfangi er gjört var úr fílabeini og í það rist hin fegursta harpa sem var sannarlega viðeigandi. Þar fyrir neðan er svo gullhólkur með þakkarkveðju gefandans til þyggjarans. Systkini nokkur fengu Gvend til að gjöra sérstakt skrivstatív í tilefni af silfurbrúðkaupi foreldra þeirra. Á heimili Járngerðar Eyjólfsdóttur á Kirkjubóli í Valþjófsdal var svo að finna haganlega gjörða trésvipu með slöngumynstri er einn kunnasti listamaður Önundarfjarðar gjörði. Marga listmuna Guðmundar Jónssonar frá Mosdal er nú að finna í safninu sem hann átti stóran þátt í að koma á fætur Byggðasafni Vestfjarða. Má þar nefna listilega útskorið kýrhorn með drekamunstri.

Elfar Logi Hannesson

Heimildir:

Alþýðublaðið 26. september 1946.

Eiríkur J. Eiríksson. Guðmundur Jónsson frá Miðdal. Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 1956.

Morgunblaðið 17. júlí 1956.

Bessastaðir: ráðherraskipti í dag

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er barna- og menntamálaráðherra.

Ríkisráðsfundir verða haldnir í dag þar sem verða ráðherraskipti. Kl. 15 hefst fundur forseta Íslands með ríkisstjórninni og annar fundur verður 15 mínútum síðar.

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, barna- og menntamálaráðherra hefur ákveðið að láta af störfum og vænta má þess að henni verði á fyrri fundinum veitt lausn frá störfum og á þeim síðari verði annar skipaður í hennar stað.

Ekkert hefur verið gefið upp um það hver tekur við ráðherraembættinu.

Framsókn: Sigurður Ingi vill leiða flokkinn áfram

Fram kom í ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, fomanns Framsóknarflokksins á miðstjórnafundi flokksins,sem nú stendur yfir á Akureyri, að hann vildi halda áfram að leiða flokkinn.

Í framhaldi af slæmri útkomu flokksins í Alþingiskosningunum í lok nóvember sl. sagðist Sigurður Inga hafa ferðast um landið og haldið um 40 fundi og niðurstaðan væri að hefja uppbyggingarstarf með stefnumótunarvinnu og málefnastarfi.

„Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi.“

Um stefnuna sagði Sigurður Ingi:

„Framsókn er flokkur framkvæmda og atvinnu og þeirrar velferðar sem verðmætasköpunin býr til. Við lítum ekki á stjórnmál sem keppni í því hver getur talað hæst, heldur sem vettvang til að skapa raunverulegar breytingar til batnaðar.“

530 þús kr. í styrki til félagasamtaka vegna fasteignaskatts

Kiwanisklúbburinn Básar.

Ísafjarðarbær hefur samþykkt að veita alls 530 þúsund króna styrk til greiðslu á fasteignaskatti til félagasamtaka.

Fimm félagasamtök sóttu um styrk að undangenginni auglýsingu.

Styrkur til Oddfellowhússins á Ísafirði er 130 þúsund krónur. Átthagafélag Snæfjallahrepps fékk 104 þús. króna styrk vegna Dalbæjar. Kiwanisklúbburinn Básar fékk 130 þúsund króna styrk og Grunnvíkingafélagið á Ísafirði 36 þúsund króna styrk.

Styrkurinn rennur til greiðslu fasteignaskatts, en ekki lóðarleigu, fráveitu, vatnsveitu eða sorpgjalda.

Thai Tawee Ísafirði: fimm ára

Bjarki og Pannipha. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Um mánaðamótin voru rétt fimm ár síðan Sigurður Bjarki Sigurvinsson og eiginkona hans Pannipha tóku við rekstri Thai Tawee, tælenskum veitingastað í Neistahúsinu. Þau keyptu staðinn af Grétari Helgasyni sem hafði rekið hann þrjú ár. Bjarki sagði í samtali við Bæjarins besta að innan tveggja vikna hafi covid19 verið komið til sögunnar og loka þurfti staðnum skömmu síðar í mánaðartíma. Á þeim tíma ríkti alger óvissa um hvað verða mundi og láta þurfti hvern dag nægja sína þjáningu.

Úr faraldrinum rættist um sumarið og var mikið að gera þar sem ferðamannastraumur Íslendinga var fyrst og fremst innanlands. Bjarki segir að fljótlega hafi verið ráðið að beina viðskiptunum sem mest í sölu yfir borðið til viðskiptavina sem tóku matinn heim. Það hafi gert gæfumuninn.

Nú eru þessir erfiðleikar að baki og reksturinn gengur vel að sögn Bjarka. Alls eru fimm heilsárstörf sem byggjast á þessa vinsæla veitingastað. Sumarmánuðina er opið alla daga vikunnar en annars er opið alla daga nema sunnudaga.

Sparisjóður Strandamanna í formlegar sameiningarviðræður

Stjórnir Sparisjóðs Höfðhverfinga hf. og Sparisjóðs Strandamanna hf. hafa samþykkt að hefja formlegar viðræður um mögulega sameiningu sjóðanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send hefur verið út. Þar segir að leiði viðræðurnar til sameiningar sjóðanna verði til öflugur sparisjóður sem muni styðja vel við einstaklinga og fyrirtæki á sínum starfssvæðum sem eru aðallega í Eyjafirði og á Ströndum, jafnframt því að sækja á nýja markaði.  Fjárhagsstaða hvors sjóðs um sig er sögð sterk, báðir sjóðirnir hafi góð eiginfjárhlutföll sem og góða lausafjárstöðu.  Sameiningu sjóðanna er fyrst og fremst ætlað að hefja markaðssókn með stækkun efnahagsreikningsins.

Stærstu eigendur Sparisjóðs Höfðhverfinga eru KEA og Sænes (Grýtubakkahreppur) en eignarhald Sparisjóðs Strandamanna er dreift á fjölda einstaklinga.  Hvor sjóður um sig er með yfir 130 ára samfellda rekstrarsögu, auk þess sem báðir sjóðirnir breyttu félagsformi sínu í hlutafélag á liðnu ári.  

Gangi sameiningin eftir mun KEA strax í kjölfar sameiningarinnar leggja sjóðnum til aukið hlutafé til fyrsta áfanga í vexti sameinaðs sjóðs sem og að leggja til enn meira hlutafé síðar til frekari vaxtar skapist þær aðstæður.  Þannig verður til strax í kjölfar sameiningar mjög öflugur og vel fjármagnaður sparisjóður.  

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga fagnar þessu skrefi sjóðanna sem eru minnstu sparisjóðirnir í dag en saman gætu þeir myndað sterkan grunn til vaxtar.  Mikilvægt sé að stækka og efla sparisjóðina til þess að mæta sterkar inn á bankamarkaðinn og viðhalda eðlilegri flóru fyrirtækja á þessum markaði.  „Við teljum góðan hljómgrunn í samfélaginu fyrir vexti sparisjóðanna, það sýna viðhorfskannanir sem við höfum látið gera.  Vonandi verði þetta upphafið að frekari sameiningum eða stækkunum sparisjóðanna í heild sinni því þeir munu verða til framtíðar áhugaverður og öðruvísi valkostur fyrir fólk og fyrirtæki á bankamarkaði.“

Víðir Álfgeir Sigurðarson formaður stjórnar Sparisjóðs Strandamanna segir að tækifæri séu í sameiningu sjóðanna, nauðsynlegt er að þróa áfram og auka samstarfs sparisjóðanna með hagsmuni eigenda og samfélagsins sem þeir vaxa uppúr að leiðarljósi.  Stórauknar kröfur um regluverk og eftirlitsumhverfi, þrátt fyrir smæð og einfaldan rekstur sjóðanna, er að gera rekstrarumhverfi þeirra flóknara.  Áfram verði unnið að auknu samstarfi sparisjóða í gegnum Samband Íslenskra Sparisjóða.  Vonir standa til að með sameiningu verði til öflugur sparisjóður með dreifðu eignarhaldi, sem styðji vel við nærsamfélagið og byggir áfram á þeirri hugmyndafræði sem sparisjóðirnar hafa alltaf staðið fyrir frá því þeir voru stofnaðir fyrir rúmlega 130 árum.

Ferðamálastofa semur við Maskínu um landamærarannsókn og brottfarartalningar

Brottfarir í janúar 2025

Ferðamálastofa bauð í byrjun febrúar út rekstur á landamærarannsókn og brottfarartalningum í Keflavík. Niðurstaða útboðsins er að Maskína tekur við rekstri rannsóknanna frá og með 1. apríl næstkomandi.

Landamærarannsóknin er ein af lykilstoðum í ferðamálatölfræði á Íslandi. Hún veitir meðal annars upplýsingar um ákvörðunarferli ferðamanna þegar kemur að Íslandsferð og ferðavenjur þeirra hér á landi, ásamt viðhorfi til þátta sem snerta ferðaþjónustuna. 

Brottfarartalningar notaðar til að varpa ljósi á þjóðernaskiptingu þeirra sem yfirgefa landið frá Keflavíkurflugvelli. Um er að ræða könnun þar sem farþegar eru spurðir um þjóðerni áður en þeir ganga inn í öryggisleit. Hlutfallsleg skipting brottfararfarþega er svo umreiknuð í farþegafjölda á þjóðerni út frá tölum Isavia um heildarfjölda brottfara.

Vorjafndægur

Jafndægur eru tvisvar á ári, um 20.-21. mars og 22.-23. september. Tímasetningin hnikast örlítið milli ára, eftir því hvernig stendur á hlaupári. Jafndægur miðast við að þá er sólin beint yfir miðbaug jarðar, og þá er stefna frá miðju jarðar í sólmiðju hornrétt á snúningsás jarðar. Þessi atburður er því á tilteknu augnabliki innan dagsins. Um vorjafndægur eru dagur og nótt álíka löng og lengist dagurinn um 6-7 mínútur á hverjum degi.

Stundum er sagt að á jafndægrum séu dagur og nótt jafnlöng, sem er nærri lagi, en þetta er ekki alveg svo einfalt. Í fyrsta lagi er bjart nokkru fyrir sólarupprás og eftir sólarlag, en jafnvel tíminn milli sólarupprásar og sólarlags er ekki nákvæmlega 12 klst. á jafndægrum.

Ástæða þessa fráviks er af tvennum toga. Í fyrsta lagi miðast sólarupprás og sólarlag ekki við augnablikið þegar sólmiðjan fer niður fyrir sjónbaug (láréttan sjóndeildarhring), heldur er miðað við fyrstu og síðustu geisla sólar, þ.e. efri rönd sólkringlunnar. Í öðru lagi veldur ljósbrot í lofthjúpi jarðar því að við getum séð í sólina þar til sólmiðjan er komin um 1,1° niður fyrir sjónbaug.

Í Almanaki Háskólans má t.d. sjá að tíminn milli sólarupprásar og sólarlags á vorjafndægrum er um 12 klst. og 14 mínútur, en tveimur dögum fyrir jafndægur er dagurinn nær 12 klst.

Nýjustu fréttir