Síða 12

Strandagangan 2025 um næstu helgi

Strandagangan fer fram á skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna í Selárdal í Steingrímsfirði, laugardaginn 8. mars 2025.

Strandagangan er almenningsganga fyrir fólk á öllum aldri, jafnt byrjendur sem lengra komna og er hluti af Íslandsgöngumótaröð SKÍ.
Þetta er 31. árið í röð sem gangan er haldin en fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995.

Að lokinni keppni er hið margrómaða kökuhlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík en þar mun verðlaunaafhendingin einnig fara fram. Áhorfendur og aðrir sem vilja styrkja gönguna geta keypt sig inn á kökuhlaðborðið á staðnum og þegar keppnisgögn eru afhent,

Sunnudaginn 9. mars heldur fjörið áfram með leikjadegi fyrir börn og unglinga og skíðaskotfimimóti.

Skráning og nánari upplýsingar hér.

Hólmavík: hótel fyrir 3 milljarða króna

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í fyrra. Frá vinstri: Friðjón, Matthías og Þorgeir.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar upplýsir á vef sveitarfélagsins í síðustu viku að áform um 60 herbergja hótel á Hólmavík sé framkvæmd sem kosti um 3 milljarða króna.

Þorgeir segir: „Hótel Strandir, er vinnuheiti nýs, 4ra stjörnu hótels sem mun rísa að öllu óbreyttu á Hólmavík á næstu árum.  Gert er ráð fyrir um 60 herbergja hóteli í fyrsta gæðaflokki og er heildarkostnaður áætlaður um þrír milljarðar.  Þau Friðjón Sigurðarson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, frá Fasteignaumsýslunni, kynntu þessi áform og hjá þeim kom fram að gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist síðla þessa árs og að hótelið opni árið 2027.“

Miðvikudaginn 19. febrúar sl. var haldinn íbúafundur í félagsheimilinu og fór þar fram kynning á aðalskipulagi Strandabyggðar og einnig voru áform um byggingu hótels á Hólmavík kynnt almenningi. Þorgeir segir að skiptar skoðanir hafi komið fram á fundinum um málið, einkum um staðsetninguna, en hótelið mun rísa á klettunum fyrir neðan sundlaugina.

En  það sé hins vegar mikilvægt í allri umræðu um hótelið, að huga að þeim miklu hagsmunum og margföldunaráhrifum sem hótelið mun hafa fyrir Strandabyggð og samfélagið á Hólmavík og í raun alla Vestfirði. 

 

Eyrarkláfur á Ísafirði

Fyrir nokkru sendi Efla verkfræðistofa fyrir hönd okkar sem vinnum að Eyrarkláfi inn skipulagslýsingu til bæjarins. Segja má að kominn sé gangur í þetta spennandi verkefni sem lengi hefur verið í deiglunni og markmiðið að kynna það vel og eiga opið og gott samtal á næstu misserum. 

Lyftistöng fyrir samfélagið

Kláfur upp á Eyrarfjall verður fyrsti kláfur sinnar tegundar á landinu. Hann opnar ekki einungis einstakt útsýni yfir firðina og fjöllin heldur gera áætlanir ráð fyrir veitingastað á toppnum. Þá vinnum við í samstarfi við ýmsa aðila að athugunum og þróun á áhugaverðum útvistar- og afþreyingarmöguleikum á fjallinu í tengslum við kláfinn. 

Kláfurinn mun draga að sér ferðafólk, bæði innlent sem erlent, enda einstakur á svæðinu. Sambærileg verkefni á sambærilegum svæðum t.d. í Noregi hafa gefist einstaklega vel og orðið mikil lyftistöng fyrir sín samfélög.

Ljóst er að verkefnið mun skapa mikið af tímabundnum störfum við uppbyggingu, enda mikil fjárfesting, sem og langtímastörf og þörf fyrir þjónustu. Efnahagsævintýrið á Vestfjörðum er í fullum gangi og kláfurinn mun styðja enn frekar við það.

Lengi í deiglunni

Hugmyndir um kláf upp á Eyrarfjall hafa lengi verið í deiglunni. Einhverjar heimildir eru fyrir því að hugmyndina megi rekja til Hannibals Valdimarssonar. Nýlegri útfærslur eiga Úlfar og Úlfur, oft kenndir við Hamraborg, en fyrir um tuttugu árum tóku þeir snúning á verkefninu. Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar, og Eyrarkláfur alltaf verið hugmynd í vinnslu. Hugmyndin hefur alla tíð verið að koma fyrir aðstöðu fyrir ofan Hlíðaveg eins og fram hefur komið bæði í fjölmiðlum undanfarin ár sem og samskiptum við Skipulagsstofnun í tengslum við umhverfismat.

Opið ferli

Skipulags- og undirbúningsferlið fer nú af stað með skipulagslýsingu sem send var inn fyrir nokkru. Ferlið verður faglega unnið í samræmi við lög og reglur og þegar hafa komið þar góðar ábendingar og spurningar sem við munum að sjálfsögðu vinna úr og svara. Í kjölfar skipulagslýsingar, sem er í opnu samráðsferli, munum við vinna með samstarfsaðilum okkar í Eflu að gerð tillagna um breytingar á aðal- og deiliskipulagi, þar sem ítarlegri upplýsingar munu liggja fyrir. 

Á sama tíma er unnið að matsskýrslu um umhverfisáhrif, en í matsáætlun, þar sem fjallað er um hvað muni koma fram í skýrslunni, var send inn til Skipulagsstofnunar til umfjöllunar og opins samráðs fyrr á árinu. Fyrir utan hið lögbundna, opna samráðsferli, þá munum við halda íbúafundi þar sem verkefnið og framgangur þess verður kynntur, sem og spurningum svarað.

Við hlökkum til áframhaldandi samtals og uppbyggingar á Vestfjörðum.

Gissur Skarphéðinsson

Skotís sigursælt um helgina

Verðlaunahafar í þrístöðunni. Frá vinstri: Leifur, Valur og Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir, Grundarfirði sem varð þriðja. Mynd: Skotís.

Um helgina fór fram landsmót Skotíþróttasambands Íslands á Ísafirði í tveimur greinum með riffli , þrístöðu, sem er hnéstöðu, liggjandi og standandi og liggjandi af 50 metra færi.

Félagar í Skotíþróttafélagi Ísafirði gerðu gott mót og unnu báðar greinarnar.

Í liggjandi greininni varð Valur Richter efstur, Leifur Bremnes varð annar og Guðmundur Valdimarsson varð þriðji.

Í þrístöðunni vann Valur Richter gull og Leifur Bremnes fékk silfrið.

Uppfært kl 19:00 og leiðrétt úrslit í þrístöðunni.

Alþingi: samgönguráðherra vinni skýrslu um lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar

Reykjavíkurflugvöllur séð til suðurs, Reykjavík, Kópavogur, Garðabær og Hafnarfjörður í bakgrúnni. Mynd: Mats Wibe Lund.

Níu alþingismenn úr þremur þingflokkum stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram beiðni til samgönguráðherra um skýrslu um lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar. Fyrsti flutningsmaður er Njáll Trausti Friðbertsson (D) og meðal annarra flutningsmanna eru tveir þingmenn Norðvesturkjördæmis, Ólafur Adolfsson (D) og Ingibjörgg Davíðsdóttir (M).

Vilja þingmennirnir skýrslan upplýsi um framkvæmd Samgöngustofu við lokun austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar og viðbrögð Reykjavíkurborgar við erindum stofnunarinnar, m.a. með tilliti til meginreglna stjórnsýsluréttar.

Í skýrslunni verði fjallað um eftirfarandi atriði:
     1.      Samskipti Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu, Isavia og eftir atvikum annarra aðila í aðdraganda lokunar flugbrautarinnar og tímalínu málsins frá undirritun samkomulags ríkisins og Reykjavíkurborgar um endurbætur á aðstöðu fyrir farþega og þjónustuaðila á Reykjavíkurflugvelli frá 19. apríl 2013.
     2.      Verklag og verklagsreglur Samgöngustofu og Isavia við lokun flugbrauta.
     3.      Hvort verklag Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia í aðdraganda lokunarinnar hafi verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
     4.      Hvort Reykjavíkurborg hafi fylgt skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll frá árinu 2009.
     5.      Hvort framkvæmd lokunar flugbrautarinnar og háttsemi Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Isavia hafi verið í samræmi við ákvæði laga um loftferðir, m.a. með tilliti til flugöryggis og almannaöryggis.
     6.      Hvort samningsaðilar hafi uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar um fellingu trjáa í Öskjuhlíð.
     7.      Hvernig staðið var að skipun starfshóps vegna setningar skipulagsreglna fyrir Reykjavíkurflugvöll, sbr. 1. mgr. 147. gr. laga um loftferðir og hvernig vinnu starfshópsins hefur miðað.

Í greinargerð segir að lokun flugbrautarinnar „hefur sett sjúkraflug í landinu í alvarlega stöðu. Lokunin er til komin vegna þess að ekki hefur mátt fella tré í Öskjuhlíð. Borgaryfirvöld hafa vitað af þessu vandamáli í a.m.k. áratug en hafa látið hjá líða að grípa til aðgerða í samræmi við samkomulag við ríkið. Um grundvallarhagsmuni er að ræða sem varða öryggi landsmanna.“

 

Gróandi: líst ekki á áform um Eyrarkláf

Mynd úr Skipulags- og matslýsingu fyrir Eyrarkláf.

Samtökin Gróandi lýsa yfir áhyggjum af áformum um að gera kláf upp á Eyrarfjall og auk þess að lýsa óánægju yfir því að framkvæmdin eyðileggur garð Gróanda, sem fari undir bílastæði. Segir í athugasemd samtakanna að þau hafi unnið að garðinum í níu ár og finna að því að hafa ekki verið beðin um álit sitt á Eyrarkláfi. Erindið er undirritað af Sonia Sobiech og er ritað á ensku.

Framkomnar umsagnir um Eyrarkláf voru lagðar fram og kynntar á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar í síðustu viku. Skipulags- og matslýsing á Eyrarkláfi hefur verið lögð fram og er í kynningu. Í framhaldinu verða unnar breytingar á aðal- og deiliskipulagi Ísafjarðarbæjar.

Skipulagsstofnun bendir á í sinni umsögn að ekki liggi fyrir hættumat fyrir allt svæðið. Telur stofnunin að æskilegt væri að fyrir liggi staðbundið hættumat, vegna ofanflóðs eða aurskriðu áður en leyfi eru gefin út á grundvelli deiliskipulags.

Hvað vilja bændur sjálfir?

Sigurjón Þórðarson, alþm.

Landbúnaður er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og því áríðandi að skapa skilning og víðtæka sátt um greinina.

Í umræðunni fer hátt að reyna eigi til þrautar á lögmæti umdeildra laga sem fólu það í sér að fella úr gildi samkeppnislög um kjötafurðastöðvar.  Lögin voru dæmd ólögleg í héraði enda voru þau ekki sett með réttum stjórnskipulegum hætti. Engu að síður þá eru enn háværar raddir þess efnis að það eigi láta reyna á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu vegna nauðsynjar þess að ná fram verkaskiptingu og hagræðingu við slátrun búfjár.

Málið er að það má ná fram umræddri hagræðingu innan gildandi samkeppnislaga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem felast fyrst og fremst í því að tryggja að bændur og neytendur fari ekki varhluta af ávinningi af hagræðingunni.

Til þess að skapa breiða sátt um greinina þá ætti það að vera forgangi á að tryggja að slík umgjörð verði sett, en það er allra hagur.

Það eru ekki mörg ár síðan að gerð var áhugverð könnun meðal bænda um samkeppni á mörkuðum um búvörur og bar þá ekki á öðru en bændur vildu bæta til muna samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum frekar en hitt en eftirfarandi kom m.a. fram:

„Um og yfir 90% hrossa- og sauðfjárbænda og 75% nautgripabænda telja samningsstöðu bænda almennt vera veika eða enga gagnvart afurðastöðvum“

Það er mikilvægt að vinna hratt og vel að niðurstöðu sem eykur hagræðingu með skilyrðum sem tryggja hag bænda og neytenda.

slóð á könnunina https://www.samkeppni.is/media/skyrslur-2022/Skyrsla-4_2022-Buvorur.pdf

Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins Norðausturkjördæminu

Eiríkur Örn Norðdahl tilnefndur til bókmennatverðlauna Norðurlandaráðs

Verk Ísfirðingsins Eiríks Arnar Norðdahl, Náttúrulögmál, sem út kom 2023 er tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, 2025.

Alls eru 14 verk eftir jafnmarga höfunda frá 9 málsvæðum á Norðurlöndum tilnefnd, þar af tvö frá Íslandi.

Tilkynnt verður um handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025 hinn 21. október. Verðlaunagripurinn verður afhentur á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 28. október. Verðlaunin nema 300 þúsundum danskra króna.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.

Í umsögn dómnefndar um verkið segir :

„Sögusviðið er Ísafjörður árið 1925, persónur eru fjölmargar og í rás sögunnar myndast umtalsverð spenna milli heimamanna og guðsmanna, þjóðtrúar og guðstrúar, trúar almennt og vísinda, siðmenningar og náttúrulögmála. Drykkjuskapur og lauslæti eru frekar regla en undantekning í fari bæði Ísfirðinga og prestastéttarinnar sem mætt er á staðinn.“ 

Núpur: sótt um að gera allt að 30 íbúðir

Landeigendur að Núpi í Dýrafirði hafa óskað eftir heimild til breytingar á skipulagi landeigna við Núp í Dýrafirði fjölga íbúðum á skika ofan vegar í skólabyggingunum. Heimilt verði að skipta núverandi húsnæði upp í fleiri íbúðir og samtals verði heimilt að hafa allt að 30 íbúðir á landskikanum.

Einnig er óskað eftir heimild til þess að skipta landinu upp í fleiri lóðir í deiliskipulagi og skilgreina nokkrar frístundalóðir í samræmi við heimildir núgildandi aðalskipulag, í allt að 15 sumarhúsalóðir neðan vegar.

Ofan vegar standa tvær eldri skólabyggingar en neðan vegar eru engar byggingar á landinu sem um ræðir.

Óskað er eftir heimild til þess að fjölga íbúðum á skika ofan vegar í skólabyggingunum. Heimilt verði
að skipta núverandi húsnæði upp fleiri íbúðir og samtals verði heimilt að hafa allt að 30 íbúðir á
landskikanum. Í erindinu segir að þörf sé á íbúðarhúsnæði á svæðinu í tengslum við atvinnuuppbyggingu í
sveitarfélaginu og falast hefur verið eftir íbúðum hjá lóðarhöfum. Núverandi skólahúsnæði henti vel til búsetu og það samræmist vel sjónarmiðum um hringrásarhagkerfi og endurnýtingu að lengja líftíma eldra húsnæðis og finna því nýtt hlutverk til framtíðar.

Þá kemur fram að landeigendur hafi hvorki hug á að reka ferðaþjónstu né skólaþjónustu, en væri heimilt samkvæmt aðalskipulagi sem senn rennur úr gildi.

Neðan vegar er óskað eftir heimild til þess að skipuleggja frístundabyggð og skipta landinu upp í allt að 15 sumarhúsalóðir í deiliskipulagi.

Í niðurlagi erindisins segir:

„Það er mat landeigenda að auknar heimildir geti styrkt Núpstorfuna og uppbygging beggja vegna
vegarins; íbúðir og sumarhúsabyggð geti notið góðs hvor af annarri. Þau svæði þar sem óskað er eftir
uppbyggingarheimildum eru utan þekktra snjóflóðasvæða, sbr. mynd að neðan.“

Björgunarskip: strandveiðisjómenn hafa safnað 25 m.kr.

Strandveiðisjómenn á Patreksfirði.

Í gær var sagt frá því að 12 strandveiðisjómenn á Patreksfirði hafa safnað styrkjum og framlögum upp á 7,5 m.kr. til kaupa á nýju björgunarskipi Landsbjargar á Patreksfirði, sem áformað er að komi á næsta ári.

Að sögn Smára Gestssonar, eins af forsvarsmönnum björgunarbátasjóðs V-Barðarstrandarsýslu er framlag strandveiðimanna komið upp í 25 m.kr. Um 45 strandveiðimenn standa að framlögunum, en þeir eiga það sammerkt að leggja upp á svæðinu.

Þá hefur bæst við þegar komin vegleg framlög frá fyrirtækjum á svæðinu. Nýjast er 1 m.kr. styrkur frá FF Rafverk ehf á Tálknafirði.

Nýjustu fréttir