Síða 12

Hvað vilja bændur sjálfir?

Sigurjón Þórðarson, alþm.

Landbúnaður er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og því áríðandi að skapa skilning og víðtæka sátt um greinina.

Í umræðunni fer hátt að reyna eigi til þrautar á lögmæti umdeildra laga sem fólu það í sér að fella úr gildi samkeppnislög um kjötafurðastöðvar.  Lögin voru dæmd ólögleg í héraði enda voru þau ekki sett með réttum stjórnskipulegum hætti. Engu að síður þá eru enn háværar raddir þess efnis að það eigi láta reyna á niðurstöðu Hæstaréttar í málinu vegna nauðsynjar þess að ná fram verkaskiptingu og hagræðingu við slátrun búfjár.

Málið er að það má ná fram umræddri hagræðingu innan gildandi samkeppnislaga að ákveðnum skilyrðum uppfylltum sem felast fyrst og fremst í því að tryggja að bændur og neytendur fari ekki varhluta af ávinningi af hagræðingunni.

Til þess að skapa breiða sátt um greinina þá ætti það að vera forgangi á að tryggja að slík umgjörð verði sett, en það er allra hagur.

Það eru ekki mörg ár síðan að gerð var áhugverð könnun meðal bænda um samkeppni á mörkuðum um búvörur og bar þá ekki á öðru en bændur vildu bæta til muna samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum frekar en hitt en eftirfarandi kom m.a. fram:

„Um og yfir 90% hrossa- og sauðfjárbænda og 75% nautgripabænda telja samningsstöðu bænda almennt vera veika eða enga gagnvart afurðastöðvum“

Það er mikilvægt að vinna hratt og vel að niðurstöðu sem eykur hagræðingu með skilyrðum sem tryggja hag bænda og neytenda.

slóð á könnunina https://www.samkeppni.is/media/skyrslur-2022/Skyrsla-4_2022-Buvorur.pdf

Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins Norðausturkjördæminu

Eiríkur Örn Norðdahl tilnefndur til bókmennatverðlauna Norðurlandaráðs

Verk Ísfirðingsins Eiríks Arnar Norðdahl, Náttúrulögmál, sem út kom 2023 er tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, 2025.

Alls eru 14 verk eftir jafnmarga höfunda frá 9 málsvæðum á Norðurlöndum tilnefnd, þar af tvö frá Íslandi.

Tilkynnt verður um handhafa bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2025 hinn 21. október. Verðlaunagripurinn verður afhentur á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 28. október. Verðlaunin nema 300 þúsundum danskra króna.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1962 fyrir fagurbókmenntaverk sem samið er á einu af norrænu tungumálunum. Það getur verið skáldsaga, leikverk, ljóðabók, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi.

Í umsögn dómnefndar um verkið segir :

„Sögusviðið er Ísafjörður árið 1925, persónur eru fjölmargar og í rás sögunnar myndast umtalsverð spenna milli heimamanna og guðsmanna, þjóðtrúar og guðstrúar, trúar almennt og vísinda, siðmenningar og náttúrulögmála. Drykkjuskapur og lauslæti eru frekar regla en undantekning í fari bæði Ísfirðinga og prestastéttarinnar sem mætt er á staðinn.“ 

Núpur: sótt um að gera allt að 30 íbúðir

Landeigendur að Núpi í Dýrafirði hafa óskað eftir heimild til breytingar á skipulagi landeigna við Núp í Dýrafirði fjölga íbúðum á skika ofan vegar í skólabyggingunum. Heimilt verði að skipta núverandi húsnæði upp í fleiri íbúðir og samtals verði heimilt að hafa allt að 30 íbúðir á landskikanum.

Einnig er óskað eftir heimild til þess að skipta landinu upp í fleiri lóðir í deiliskipulagi og skilgreina nokkrar frístundalóðir í samræmi við heimildir núgildandi aðalskipulag, í allt að 15 sumarhúsalóðir neðan vegar.

Ofan vegar standa tvær eldri skólabyggingar en neðan vegar eru engar byggingar á landinu sem um ræðir.

Óskað er eftir heimild til þess að fjölga íbúðum á skika ofan vegar í skólabyggingunum. Heimilt verði
að skipta núverandi húsnæði upp fleiri íbúðir og samtals verði heimilt að hafa allt að 30 íbúðir á
landskikanum. Í erindinu segir að þörf sé á íbúðarhúsnæði á svæðinu í tengslum við atvinnuuppbyggingu í
sveitarfélaginu og falast hefur verið eftir íbúðum hjá lóðarhöfum. Núverandi skólahúsnæði henti vel til búsetu og það samræmist vel sjónarmiðum um hringrásarhagkerfi og endurnýtingu að lengja líftíma eldra húsnæðis og finna því nýtt hlutverk til framtíðar.

Þá kemur fram að landeigendur hafi hvorki hug á að reka ferðaþjónstu né skólaþjónustu, en væri heimilt samkvæmt aðalskipulagi sem senn rennur úr gildi.

Neðan vegar er óskað eftir heimild til þess að skipuleggja frístundabyggð og skipta landinu upp í allt að 15 sumarhúsalóðir í deiliskipulagi.

Í niðurlagi erindisins segir:

„Það er mat landeigenda að auknar heimildir geti styrkt Núpstorfuna og uppbygging beggja vegna
vegarins; íbúðir og sumarhúsabyggð geti notið góðs hvor af annarri. Þau svæði þar sem óskað er eftir
uppbyggingarheimildum eru utan þekktra snjóflóðasvæða, sbr. mynd að neðan.“

Björgunarskip: strandveiðisjómenn hafa safnað 25 m.kr.

Strandveiðisjómenn á Patreksfirði.

Í gær var sagt frá því að 12 strandveiðisjómenn á Patreksfirði hafa safnað styrkjum og framlögum upp á 7,5 m.kr. til kaupa á nýju björgunarskipi Landsbjargar á Patreksfirði, sem áformað er að komi á næsta ári.

Að sögn Smára Gestssonar, eins af forsvarsmönnum björgunarbátasjóðs V-Barðarstrandarsýslu er framlag strandveiðimanna komið upp í 25 m.kr. Um 45 strandveiðimenn standa að framlögunum, en þeir eiga það sammerkt að leggja upp á svæðinu.

Þá hefur bæst við þegar komin vegleg framlög frá fyrirtækjum á svæðinu. Nýjast er 1 m.kr. styrkur frá FF Rafverk ehf á Tálknafirði.

Vestfirskir listamenn – Guðmunda Jóna Jónsdóttir

Listahjónin á Hofi.

F. 19. október 1905 Kirkjubóli Valþjófsdal Önundarfirði. D. 21. október 1991.

Öndvegisverk: Skjaldamerkið, Mona Lisa, Bátur í vör verbúðar.

Hin íslenska listasaga er svo fjölbreytt og viðamikil að sumt kemst því miður ekki í söguna sem er mjög miður því þar er einmitt sagan hve einstökust. List hinna sjálflærðu vill oft verða utan listasögunnar þó einn og einn listamaður af náttúrunnar hendi rati í hina innlendu listasögu. Einn þessara utannefndu listamanna er án efa Guðmunda Jóna Jónsdóttir frá Valþjófsdal í Önundarfirði sem var sannlega náttúrunnar listakona því efniviðinn sótti hún einmitt í náttúruna sjálfa.

Náttúrunnar list

Fædd og uppalin á Kirkjubóli í Valþjófsdal en gekk ung að eiga Gunnar Guðmundsson og síðar reistu þau sitt Hof í Dýrafirði hvar þau hófu búskap. Síðar fluttu þau í þorpið við þann fjörð hvar þau byggðu eining sitt Hof og þar vaknaði einmitt listamaður í þeim báðum. Guðmunda, eða Munda einsog hún var jafnan kölluð fór á undan í listina þá 59 ára en Gunnar byrjaði ekki að mála fyrr en 74 ára. Gunnar rifjaði upp þeirra listupphaf í viðtali í blaðnu Heima er bezt árið 1984: Munda byrjaði um 1964 að fást við myndgerð sína. Sveinn Númi Vilhjálmsson, dóttursonur okkar, gaf henni grip frá Mývatnsöræfum, sem kveikti löngunina til að setja saman eitthvað úr steini, skeljum og öðru úr ríki náttúrunnar. Þegar við fórum á bíl okkar umhverfis landið safnaði hún ýmsum sérkennilega lituðum og löguðum steinum, skeljum og fleiru. Bjó hún til litla gripi sem hún gaf kunningjum fyrst í stað. Síðan fór eftirspurnin vaxandi og nú hefur hún haldið 15 sýningar á verkum sínum, aðallega úr steinmulningi, auk þess sem mikill fjöldi fólks sækir okkur heim til að skoða og kaupa það sem við höfum á boðstólum hér heima. Guðmunda hefur 4 sinnum sýnt í Mokkakaffi í Reykjavík, einnig á Hallveigarstöðum og á flestum Vestfjarðanna.

Munda var sannlega náttúrulistamaður í öllum merkingum þess orðs. Hún vann með efni náttúrunnar í verkum sínum sem og túlkaði hana í list sinni. Í fjöruna sótti hún jafnan sinn efnivið í formi skelja, sands, kalkþörunga og margs konar gersama er fjaran sífellt veitir og um leið endurnýjar. Á vinnustofunni á Hofi var svo tekið til við að listast með efniviðinn. Ferlið fólst oft í því að vinna efni fjörunnar og náttúrunnar til. Þá var gott að hafa mortel til að mylja skeljar sem önnur fjörugersemi. Barnabörn hennar muna mörg eftir því að hafa hjálpað ömmu sinni við þessa iðju. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft því mörg þeirra hafa einmitt fetað listaveginn. Nægir það að nefna Vilborgu Davíðsdóttur, skáldkonu, og Marsibil G. Kristjánsdóttur, fjöllistakonu.

Þegar búið var að mylja efnið og flokka var það sett í ítlát og þá var gjarnan notast við mjólkurfernur er höfðu verið styttar að ofan um góðann helming. Næst var fundinn til einhver hlutur einsog bara næsta krossviðsplata, ekkert nauðsynlegt að hún væri í eðlilegri lögun og svo var henni breytt í náttúrulistaverk. Stundum var skrautað á pappadiska og jafnvel glerflöskur. Á myndflötinn var svo settur vænn skammtur af trélími og svo var mulda efniviðnum stráð yfir svo úr urðu alls konar listaverk. Stundum bóndabær, bátur í verstöð, tilbúið landslag, dýr, skjaldamerkið var einnig vinsælt myndefni að ógleymdu fólkinu og sögupersónunum. Þar var gallerýið fjölbreytt allt frá Jesúm Kristus til Edith Piaff, Vigdísar Finnbogadóttur, Pavarotti og ekki má gleyma Gylfa Ægissyni.

Listin til fólksins

Listahjónin Munda og Gunnar áttu sannlega sinn þátt í því að koma listinni til fólksins og það í bókstaflegri merkingu. Þau voru líkt og helsingjarnir, um leið og sumraði fylltu þau bifreið sína af listaverkum og brunuðu í næsta þorp. Svo var bara bankað á dyrina og listaverk boðin heimilisfólki oftar en ekki á svokölluðu tómbóluverði jafnvel kaupfélagsverði. Margir fengu ekki einu sinni að borga, nema þá í kaffi og með því. Svo var áfram skundað í næsta þorp og alþýðulist þar boðin blessuðu fólkinu. Enda er það svo að verk listahjónanna á Hofi er að finna á mörgu heimilinu fyrir vestan og reyndar einnig víðar. Oft vilja listaverkin einmitt fara líkt og farfuglarnir á annað heimili er listkaupandinn hefur haldið á önnur svið. Þá fær verkið oftast nýtt heimili þó stundum hverfi þau í hvergiheima á einhverja öskuhauga. Því miður hafa einmitt listaverk þeirra sjálfmenntuðu, náttúrulistafólksins, hlotið þau aumu örlög. En þó er oft ein von. Að sá er eigi vill taka verkið til sín ákveði að fara með það frekar á einhvern góðan markað. Þangað rata margir  smekkvísir listunnendur í leit að einstakri list. Eitthvað til að skrauta sitt heimili. Allra heilla hafa markaðir þessir sprottið upp víða um land og átt þátt í að veita mörgu listaverkinu framhaldslíf.

Svo skemmtilega vill til að ritari hefur fundið ófá listaverk eftir Mundu og Gunnar, Listahjónin á Hofi, á ofannefndum mörkuðum og það er sko miklu gjöfulla en að vinna í monninga lottóti.

Elfar Logi Hannesson

Heimildir: Gunnar Guðmundsson frá Hofi Endurminningar, Vilborg Davíðsdóttir. Heima er Bezt, sept. – okt. 1984. Leiklist og list á Þingeyri, 2020, Elfar Logi Hannesson.

Bátur við verbúð.

Aukning í bílasölu

Mikil auking hefur orðið í nýskráningu bifreiða það sem af er árinu

Nýskráningar voru alls 1.047 bifreiðar á fyrstu sjö vikum ársins en voru 674 á sama tíma á síðasta ári. Aukningin nemur 55,3% en bílasala í febrúar hefur verið sérlega góð. Nýskráningar til almennra notkunar er um 65,8% og til ökutækjaleiga rúmlega 33%. Þetta kemur fram í tölum frá Bílgreinasambandinu.

Það sem af er árinu eru flestar nýskráningar í hreinum rafbílum, alls 390. Tengiltvinnbílar koma í öðru sæti með 267 bíla og hybrid kemur í þriðja sætinu með alls 187 bíla. Dísil-bílar koma þar á eftir með 114 bíla.

Kia er söluhæsta bílamerkið á fyrstu sjö vikum ársins með 173 bíla sem gerir um 16,5% hlutdeild. Toyota er með 146 bíla og Hyundai 80 bíla. Tesla kemur í fjórða sætinu með 70 bíla.

Arnarlax fagnar niðurstöðu Landsréttar

Björn Hembre forstjóri Arnarlax.

„Arnarlax fagnar niðurstöðu Landsréttar en nú hafa bæði Héraðsdómur Vestfjarða og Landsréttur staðfest að innheimta Vesturbyggðar á aflagjöldum var ólögmæt.“ segir í svari Björns Hembre, forstjóra Arnarlax við fyrirspurn Bæjarins besta. 

Vilja greiða fyrir þjónustu

„Arnarlax tekur fram að félagið vill að sjálfsögðu greiða fyrir þá þjónustu sem félagið þiggur og hefur ítrekað á undanförnum árum óskað eftir samningi við sveitarfélagið um eðlilegt endurgjald. Þrátt fyrir viðleitni Arnarlax til að semja hefur sveitarfélagið ekki fallist á sanngjarnar tillögur Arnarlax í þeim efnum.

Við munum nú skoða þá stöðu sem upp er komin og meta næstu skref.“

Stórstreymt og slæmt veður yfir helgina

Landhelgisgæslan vekur athygli á að stórstreymt er næstkomandi laugardag því há sjávarstaða yfir helgina.

Samhliða spáir Veðurstofan hvössum vindi af suðlægum áttum næstu daga og gera ölduspár jafnframt ráð fyrir mikilli ölduhæð suður og vestur af landinu yfir helgina og fram á mánudag. 

Því má gera ráð fyrir talsverðum áhlaðanda við sunnan- og vestanvert landið og að sjávarhæð geti orðið hærri en sjávarfallaútreikningar gefa til kynna.

Landhelgisgæslan hvetur því til aðgæslu við sjávarsíðuna og á hafinu og að hugað verði að skipum og bátum í höfnum.

Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – Ráðning forstöðumanns og starfsemin fyrstu árin

Grein 2 af 3.

Það eru komin 20 ár frá stofnun Háskólasetursins og boðað hefur verið til ársfundar 14. mars nk. þar sem minnast á þessara tímamóta.

Eitt af fyrstu verkum stjórnar nýstofnaðs Háskólaseturs var að auglýsa eftir forstöðumanni Háskólasetursins.

Þetta kom m.a. fram í auglýsingunni:

,,Forstöðumaður stýrir uppbyggingu og rekstri Háskólasetursins í umboði stjórnar og annast daglegan rekstur þess.  Hann fer með fjármál og reikningshald setursins og ræður fólk til starfa. Hann ber ábyrgð gagnvart stjórn og vinnur samkvæmt ráðningasamningi og sérstakri starfslýsingu. Stjórn Háskólaseturs ræður forstöðumann.

Umsækjandi skal vera með meistara- eða doktorsgráðu á sínu sviði eða sambærilega menntun . Hann skal hafa reynslu af rekstri og stjórnunarstörfum og hafa þekkingu á akademísku umhverfi. Hann þarf að geta starfað sjálfstætt, haft frumkvæði í krefjandi uppbyggingastarfi, deilt verkefnum til annarra og skapað sterka liðsheild. 

Umsókn skal fylgja greinargóð skýrsla   um störf umsækjanda, stjórnunarreynslu, rannsóknir og ritsmíðar, og hver þau önnur verkefni sem hann hefur unnið við og varpa ljósi á færni hans til að sinna starfinu. Ennfremur yfirlit um námsferil og afrit af prófskírteinum. Umsókninni skal fylgja greinargerð um hugmyndir umsækjanda um starfið og hvernig hann sér fyrir sér uppbyggingu þekkingastarfs til lengri framtíðar.”

Úr hópi sex umsækjenda varð Dr. Peter Weiss forstöðumaður Goethe Zentrum í Reykjavík fyrir valinu. Eftir viðtöl við umsækjendur var það einróma niðurstaða stjórnar að ráða Peter sem heillaði stjórnina upp úr skónum í viðtalinu með einlægni sinni, ást á Bestfjörðum eins og hann orðaði það og skýrri framtíðarsýn fyrir Háskólasetrið. Hann var líka meðvitaður um að það væri snúið að feta rétta braut í upphafi því væntingarnar í samfélaginu væru svo miklar. ,,Væntingarnar eru hærri en fjöllin í kringum okkur“ sagði Peter.

Peter benti stjórn á það í viðtalinu að það gæti verið áhætta, jafnvel brjálæði að ráða útlending til að stýra svona stofnun. Það má segja að það sé eina heilræðið frá Peter sem stjórn hlustaði ekki á enda er ljóst 20 árum síðar að þarna var tekin hárrétt ákvörðun því Peter hefur byggt upp eftirtektarverða starfsemi með sínu starfsfólki og stjórn.

Þá tókst einnig vel til varðandi húsnæðismálin því fyrir valinu varð Vestrahúsið sem á þessum tíma hýsti Þróunarsetur og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. Þarna voru því fjölmörg fyrirtæki og stofnanir í 1.500 fermetra húsnæði og þar af fékk Háskólasetrið 650 fermetra. Margt hefur breyst síðan þá en þetta var upphafið. Samstarfið við eigendur Vestrahússins var og hefur verið alla tíð til mikillar fyrirmyndar enda mikil og einlæg samfélagsvitund sem fylgir þeim. Þarna hefur orðið til suðupottur menntunar, rannsókna og nýrra hugmynda til heilla fyrir Vestfirði.

Fljótlega eftir stofnun var auglýsingu birt og dreift með upplýsingum um námsframboð sem til að byrja með var mest fjarnám en um leið góð aðstaða til að geta stundað það í Háskólasetrinu. Síðan var farið að vinna að staðnámshlutanum sem mikil áhersla hafði verið lögð á. Niðurstaðan var sú að koma á mastersnámi í Haf- og strandsvæðastjórnun sem kennt yrði á ensku í lotum og gera nemendum kleift að klára það á einu ári. Vestfirðir eru einstakt svæði fyrir kennslu á þessu sviði. Ástæðan fyrir kennslu á ensku var og er sú að staðnám á Vestfjörðum þarf að fá nemendur utan frá til þess að það sé mögulegt í framkvæmd. Þetta hefur gefist vel og hefur Háskólasetrið útskrifað marga hæfa einstaklinga sem bera hróður þess og Vestfjarða um allan heim. Þá setjast sumir útskrifaðir mastersnemar að á Íslandi, stunda rannsóknir í náminu, eru í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu og efla það og lífga upp á bæjarbraginn. Það er líka ljóst að með öflugum fyrirtækjum á borð við Kerecics, fiskeldisfyrirtækin og fleiri styður Háskólasetrið við slíka starfsemi. Fullyrðingar um þetta eru ekki bara greinarhöfundar heldur hafa forsvarsmenn fyrirtækjanna haft orð á þessu.

Með öflugum forstöðumanni og starfsfólki hefur tekist að uppfylla það sem var bara draumur fyrir 20 árum um háskólanám á Vestfjörðum og að góður hluti þess yrði staðnám.

Halldór Halldórsson

formaður Háskólaseturs fyrstu 10 árin.

Þriðja og síðasta greinin er um stöðu Háskólasetursins á 20 ára afmælinu.

Nýtt skip Hafrannsóknastofnunar á heimleið

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, Þórunn Þórðardóttir HF 300 er nú á heimleið. Skipið var afhent í Vigo á Spáni sl. föstudag 21. febrúar, tæpum þremur árum eftir að samningur milli íslenska ríkisins og spænsku skipasmíðastöðvarinnar Astilleros Armon um smíði skipsins var undirritaður

Áhöfn skipsins hefur unnið að því að gera skipið klárt fyrir heimför en lagt var úr höfn frá Vigo þriðjudaginn, 25. febrúar.

Gert er ráð fyrir að heimsiglingin taki um það bil fimm daga en hún gæti þó dregist á langinn þar sem veðurspá er ekki hagstæð síðari hluta þessarar viku. Því er ekki ljóst nákvæmlega hvenær Þórunn leggur að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn.

Eins og kunnugt er mun Þórunn taka við af rannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni sem hefur sinnt hafrannsóknum allt frá árinu 1970. Búið er að ganga frá sölunni á honum og verður hann afhentur nýjum eigendum á laugardag.

Eins og kunnugt er, er nýja skipið nefnt í höfuðið á frumkvöðli rannsókna á frumframleiðni í hafinu og einum helsta svifþörungafræðingi landsins, Þórunni Þórðardóttur (1925 – 2007) en hún hóf störf hjá Hafrannsóknastofnun, sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild. Þórunn vann mest allan sinn starfsaldur sem deildarstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, þar sem hún bæði hóf og stýrði íslenskum svifþörungarannsóknum um 40 ára skeið.

Nýjustu fréttir