Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 119

Mesta umfang brunatjóna frá aldamótum

Heildarupphæð bættra brunatjóna árið 2023 nam 6,4 milljörðum króna og var tæplega þrefalt hærri en árið 2022. Tryggingarfélög hér á landi hafa ekki þurft að greiða jafnháa upphæð vegna brunatjóna á einu ári frá árinu 2000. Þetta kemur fram í upplýsingum frá tryggingafélögum sem HMS hefur tekið saman.

Árlega tekur HMS saman yfirlit yfir eignatjón vegna eldsvoða er byggir á gögnum frá tryggingafélögum. Niðurstöður úr þeirri samantekt má sjá á mynd hér að neðan, sem sýnir heildarumfang bættra brunatjóna frá tryggingafélögunum á hverju ári.

Líkt og myndin sýnir var umfang brunatjóna í fyrra töluvert yfir meðaltal síðustu ára, sem var um helmingi minna. Bætt brunatjón hafa ekki verið yfir 5 milljörðum króna á einu ári í tvo áratugi og leita þarf aftur til ársins 2000 til að finna ár þar sem umfang brunatjóna var meira en í fyrra.

Á síðustu fjórum áratugum má einungis finna eitt annað ár þar sem heildarupphæð bættra brunatjóna nam yfir sex milljörðum króna, en það er árið 1989.

Katrín hefur kosningabaráttuna á Vestfjörðum

Katrín Jakobsdóttir, .

Á facebooksíðu sinni segir Katrín Jakobsdóttir frá því að í dag ætli hún að hefja kosningabaráttuna með ferð um Vestfirði. Fundur verður í kvöld á Kaffi Galdri kl. 20:00.

Daginn eftir verður boðið upp á súpu og fund í Söngsteini við Hveravík, á þriðjudaginn kl. 13:00.

Þaðan liggur leiðin til Patreksfjarðar þar sem fundað verður í félagsheimilinu kl. 20:00 þriðjudagskvöldið 16. apríl.

Á miðvikudag verður farið um á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal og í hádeginu verður fundur á Vegamótum á Bíldudal.

Fundur á Reykhólum klukkan 17:00 á miðvikudag í sal skólahússins.

Klukkan 20:00 á miðvikudagskvöldið verður fundur í Vínlandssetrinu Leifsbúð í Búðardal kl. 20:00.

Hörður: oddaleikur í kvöld á Torfnesi

Hörður Ísafirði og Þór Akureyri leika í kvöld oddaleik í umspili þeirra í Grill66 deildinni í handknattleik. Þetta verður þriðji leikur liðanna og hefur hvort lið unnið sinn leik. Nú verður leikið til þrautar og mun sigurvegarinn halda áfram í keppninni um sæti í Olísdeildinni og leika sams konar einvígi við Fjölni í Grafarvogi.

Leikurinn hefst kl 19:30 í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Ísafjarðardjúp: breyting á leyfi Háafells kærð

Vinnubáturinn Korfri á siglingu í Djúpinu. Mynd: Háafell.

Náttúruverndarsamtökin Laxinn lifi hafa kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að ekki þurfti að framkvæma sérstakt umhverfismat fyrir tímabundna breytingu á kvíaeldi fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi. Ætlunin er að hafa tvo árganga eldislax á sama kvíaeldissvæði á  svæði utan Álftafjarðar og Seyðisfjarðar. Háafell hyggst að setja út í Seyðisfirði í vor seiði en fyrir er í Kofradýpi kvíastæði með seiðum sem sett voru út í fyrra. Ástæðan er að ekki er útlit fyrir að minnsti fiskurinn í Skötufirði verði tilbúinn til slátrunar fyrr en í ágúst og síðan þarf að gera ráð fyrir að hvíla svæðið áður en næstu seiði fara í kvíarnar. Frávik frá matsskýrslu vegna eldis á árgangi 2024 í Seyðisfirði myndi vara frá vori 2024 til vorsins 2026.

Skipulagsstofnun féllst á erindið 22. febrúar 2024.

Kærandinn vill að ákvörðun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og lagt fyrir Skipulagsstofnun að afla frekari upplýsinga um ástand hlutaðeigandi strandsjávarhlots áður en stofnunin tekur afstöðu til þess hvort fyrirhuguð framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Segir kærandi að engar upplýsingar liggi fyrir í málinu um hvort núverandi ástand vatnshlotsins sé í samræmi við umhverfismarkmið þess.

Þá segir í kærunni að ekki hafi verið gert straumlíkan fyrir Ísafjarðardjúp til að áætla rek á laxalúsalirfum milli eldissvæða og því hugsanlegt að rek laxalúsalirfa aukist milli eldissvæða við breytinguna.
Vísað er í umsögn Fiskistofu sem segir að nokkur áhætta kunni að vera á því vegna minni fjarlægðar
milli eldissvæða að laxalús geti magnast upp og að til álita geti komið að fara fram á umhverfismat vegna þessarar auknu áhættu.

Er það sjónarmið kæranda að Skipulagsstofnun hafi ekki haft upplýsingar sem nægi til að slá því föstu að ólíklegt væri að hin tilkynnta breyting hefði umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Úrskurðarnefndin hefur kæruna til meðferðar en ekki liggur fyrir úrskurður verður kveðinn upp.

Suðurtangi: atvinnulóðum fjölgað

Lögð hefur verið fram tillaga og greinargerð vegna nýs deiliskipulags á hafnarsvæði og Suðurtanga á Ísafirði. Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur ákveðið að setja tillöguna í kynningu.

Markmið deiliskipulags breytinganna er að fjölga atvinnulóðum.

Deiliskipulagssvæðið er um 37,8 ha að stærð og fjöldi lóða er 42. Í núverandi deiliskipulagi eru aðeins 10 lóðir. Flatarmál lóðanna er tæplega 50 þúsund fermetrar en það stækkar í 185 þúsund fermetra með breytingunum sem lagðar eru til. Skipulagssvæðið stækkar frá fyrra deiliskipulagi með landfyllingu á syðsta hluta tangans í samræmi við breytingu á aðalskipulagi sem unnin er samhliða deiliskipulaginu. Á skipulagssvæðinu er fyrirhuguð iðnaðar- og athafnastarfsemi, auk safna- og miðbæjarstarfsemi og grænna svæða. Næst Sundabakka er gert ráð fyrir hafnsækinni starfsemi og neðst (syðst) á tanganum er gámasvæði. Við Sundabakka er gert ráð fyrir móttöku skemmtiferðaskipa og öruggum gönguleiðum gesta að safnasvæði og þjónustubátum. Hæð mannvirkja á öllu svæðinu takmarkast af hindranaflötum Ísafjarðarflugvallar. Landhæð og gólfhæð tekur mið af viðmiðum frá Vegagerðinni.

Haftasvæði

Á hafnarkantinum er afmarkað um 15 ha haftasvæði hafnarinnar. Haftasvæðið er vegna móttöku farþega skemmtiferðaskipa og um svæðið gilda reglur Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO. Á haftasvæðinu er gert ráð fyrir móttökuhúsi fyrir farþega þeirra skemmtiferðaskipa sem leggjast að Sundabakka.

Ísafjörður: 2000 ferðamenn með Aidasol

Fyrsta skemmtiferðaskipið kom til Ísafjarðar í gær og stoppaði í nokkra klukkutíma. Þar var Aidasol, en það er 253 metra langt og 38 metra breitt. með því komu 1.997 ferðamenn en auk þeirra eru 646 manns í áhöfn. Skipið væri fullt en það er gefið upp fyrir 2.194 farþega.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri taldi að hafnargjöldin væru 4 – 5 milljónir króna af skipakomunni. Hefði skipið ekki getað lagst upp að bryggju hefðu hafnargjöldin orðið 1,5 – 2 milljónum króna lægri.

Í sumar verður gert bílastæði fyrir rúturnar og er verkið komið í útboð. Þá verður hannað um 300 fermetra móttökuhús og það reist á næsta ári.

Hilmar segir að dýpkunin gangi vel og á hann von á því að hollenska dýpkunarskipið ljúki sínu verki í vikunni sem er að hefjast. Þá þarf Álfsnesið að koma og klára það sem grynnra er.

Næstu tvö skip koma sunnudaginn 21. apríl, eftir tæpa viku. Er annað þeirra 298 metra langt og hitt 217 metra langt.

Aidasol í Sundahöfn.

Myndir: Heimir Tryggvason.

Gallup: afhroð hjá stjórnarflokkunum í Norðvesturkjördæmi

Bergþór Ólason, alþm. Miðflokksins tekur stökk upp á við í skoðanakönnun Gallup.

Miklar breytingar myndu verða í Norðvesturkjördæmi í næstu alþingiskosningum yrðu úrslit í samræmi við nýjustu könnun Gallup sem unnin var í mars.

Á landsvísu er Samfylkingin með langmest fylgi 30,9%. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 18,2%. Miðflokkurinn er með þriðja mesta fylgið 12,9%. Aðrir flokkar næðu ekki 10%. Píratar, Viðreisn og Framsóknarflokkurinn eru á bilinu 7-8%, flokkur fólksins rúmlega 6%, Vinstri grænir tæplega 6% og Sósíalistaflokkurinn rétt undir 4%.

Í Norðvesturkjördæmi er Samfylkingin með 22,1% fylgi og þrefaldar fylgi sitt frá síðustu alþingiskosningum. Miðflokkurinn bætir einnig verulega við sig og mælist með 18,1% fylgi og yrði næststærsti flokkurinn í kjördæminu. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn 7,4% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn fellur í þriðja sæti í kjördæminu og fengi 16,3% fylgi en hafði 22,6% í kosningunum 2021. Næst kæmi Framsóknarflokkurinn með 12,8%, en var stærsti flokkurinn síðast með 25,8%.

Önnur framboð fengju innan við 8% fylgi hvert, Flokkur fólksins 7,9%, Píratar 7,6%, Vinstri grænir 7,1%, Viðreisn 4,9% og Sósíalistaflokkurinn 3,2%. Fylgi Vinstri grænna minnkar verulega en það var 11,5% í kosningunum 2021.

Þingsætum í Norðvesturkjördæmi fækkar um eitt í næstu kosningum og verða sex kjördæmisþingsæti og eitt jöfnunarsæti.

Ef þetta yrðu úrslit kosninganna myndu kjördæmisþingsætin skiptast þannig að Samfylkingin fengu tvö þingsæti og sömuleiðis Miðflokkurinn. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn fengju eitt þingsæti hvor flokkur. Aðrir flokkar fengju ekki kjördæmakjörinn þingmann.

Stjórnarflokkarnir þrír sem hafa sex kjördæmaþingmenn í dag fengju aðeins tvo. Framsóknarflokkurinn myndi missa tvö þingsæti, Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir missa eitt þingsæti hvor flokkur. Hins vegar myndi Samfylkingin vinna tvö þingsæti, en hefur ekkert nú og Miðflokkurinn ynni tvö kjördæmaþingsæti, en hann hefur nú jöfnunarþingsætið. Flokkur fólksins missir kjördæmisþingsæti sitt.

Ekki er lagt mat á það hvaða flokkur myndi hreppa jöfnunarsætið samkvæmt þessari könnun.

Handbolti: Þór jafnaði einvígið við Hörð

Frá sigri Harðar á U liði Vals á Hlíðarenda fyrr í vetur. Mynd: Hörður handknattleiksdeild.

Annar leikurinn í einvígi Harðar Ísafirði og Þórs Akureyri í umspili Grill66 deildarinnar í handknattleik fór fram á Akureyri í gærkvöldi. Hörður vann fyrsta leikinn 28:25 hefði unnið einvígið með sigri í gærkvöldi.

Hörður byrjaði betur og leiddi 15.13 í hálfleik. En í síðari hálfleik sneru Akureyringarnir taflinu við og unnu að lokum fimm marka sigur. Hvort lið hefur því einn vinning í einvíginu og kemur til oddaleiks á mánudaginn á Ísafirði.

Sigurvegarinn í þeim leik mætir Fjölni í úrslitaeinvígi um sæti í Olís-deildinni að ári og því að fylgja ÍR upp í olís deildina.

Suðureyri: vilja fleiri lóðir við Höfðastíg utan hættumats

Fyrstu drög að hugmynd að breyttu deiliskipulagi.

Félagið Nostalgía á Suðureyri hefur óskað eftir breytingum á deiliskipulagi á Suðureyri þannig að byggingarlóðum við Höfðastíg fjölgi.

Þann 2.9 2022 gerðu Ísafjarðarbær og Nostalgía ehf með sér samning um lóðir við Höfðastíg á Suðureyri og farið var í framkvæmdir. Nú þegar er búið að fara í gatnagerð og tvö fyrstu húsin eru komin í notkun. Þrjú önnur hús voru þegar fyrir byggð við Höfðastíg. Fjórar aðrar lóðir eru á skipulagi og hægt er að byggja á þeim samkvæmt samningi. En aðrar leiðir eru mögulega betri segir í erindi Nostalgíu og er óskað eftir því við Ísafjarðarbæ að fara í breytingar á deiliskipulagi svæðisins á kostnað Nostalgíu.

„Markmið með breytingu á deiliskipulagi er að nýta svæðið betur sem er utan hættumats vegna ofanflóða og færa þær lóðir sem eru teiknaðar innan hættumats út fyrir hættumatið. Lóðum við tilbúna götu myndi þá einng fjölga. Slík breyting myndi þá gera það að verkum að svæði sem er innan hættumats gæti þá verið nýtt til útivistar á sumrin með því að koma þar fyrir ilströnd, tjaldsvæði og almennum aðbúnaði tengt útivist og íþróttaiðkun.“

.

Ísafjörður: eldri borgarar átelja ríkisstjórnina

Sigrún C. Halldórsdóttir, formaður félagsins í ræðustól.

Félag eldri borgara á Ísafirði og nágrenni hélt aðalfund sinn á miðvikudaginn og var fundurinn í aðstöðu félagsins í Nausti.

Í ályktun fundarins segir að aðalfundur Félags eldri borgara á Ísafirði og nágrennis taki undir  eftirfarandi ályktun FEBAK frá þeirra aðalfundi 20.mars s.l. svohljóðandi:

„Fundurinn átelur ríkisstjórn Íslands harðlega fyrir það, að í þeim 80 milljarða króna pakka, sem hún setti fram til að liðka fyrir kjarasamningum næstu fjögur árin, er ekkert sérstaklega minnst á málefni eldri borgara þessa lands. Það er öllum ljóst að stór hópur eldri borgara hefur mjög lágar tekjur og þarf sárlega að fá viðbót til að geta lifað eðlilegra lífi en hann gerir í dag. Fundurinn telur að það ætti að vera forgangsverkefni stjórnvalda að sinna betur þeim þegnum sínum, sem hafa byggt upp það þjóðfélag, sem við búum við í dag. Fundurinn skorar á alla eldri borgara þessa lands að standa þétt við bak Landsambands eldri borgara í þeirri miklu baráttu sem fram undan er í að ná fram réttlæti eldri borgurum til handa. Ennfremur skorar fundurinn á Landsamband eldri borgara að berjast af fullri hörku fyrir því að á okkur verði hlustað og stjórnvöld komi til móts við okkar óskir um að allir geti lifað sómasamlegu lífi af sínum lífeyri.“

Í stjórn félagsin voru kjörin:

Formaður: Sigrún C. Halldórsdóttir

Varaformaður:   Þorbjörn Sveinsson

Ritari:    Hrafnhildur Samúelsdóttir

Gjaldkeri:   Kristjana Sigurðardóttir

 Meðstj. Guðrún Kristjánsdóttir

Varastjórn:

Bergur Torfason

Eggert Stefánsson

Jens Kristmannsson

Aðalfundurinn var vel sóttur. Mynd: Sigrún C. Halldórsdóttir.

Nýjustu fréttir