Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 118

Vesturbyggð: engir fundir

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Bæjarstjón Vesturbyggðar kom síðast saman 20. mars sl. eða fyrir nærri fjórum vikum. Síðasti fundur í fastanefnd bæjarins var hjá hafna- og atvinnumálaráði var 14. mars. samkvæmt fundayfrliti á heimasíðu sveitarfélagsins. Frá síðasta fundi bæjarstjórnar hafa engir fundir verið haldnir og fyrirhuguðum fundi bæjarstjórnar sem vera átti á morgun hefur verið frestað um viku enda væntanlega engin mál á dagskrá.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur ekki komið saman síðan 12. mars eða í fimm vikur.

Þórdís Sif Sigurðardottir, bæjarstjóri var innt eftir því á föstudaginn hvers vegna engir fundir hafi verið.

Engin svör hafa borist.

Ísafjarðarbær styrkir tungumálanámskeið

Frá námskeiðinu Tungmálatöfrar í fyrra.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Tungumálatöfra að fjárhæð kr. 288.960, vegna leigu á Félagsheimilinu á Flateyri og Grunnskólanum á Flateyri í sumar.

Óskað var eftir afnotum af félagsheimilinu á Flateyri og Grunnskólanum í Önundarfirði. Tungumálatöfrar þurfa aðgang að 3 kennslustofum, eldhúsi og salernum auk félagsheimilisins. Samkvæmt gjaldskrá Ísafjarðarbæjar er leigan 288.960 kr.

Í erindinu segir að Tungumálatöfrar er námskeið þar sem börn með annað móðurmál en íslensku hafa tækifæri til að efla íslensku kunnáttu sína í gegnum útiveru og listsköpun. Á námskeiðinu fá börnin að
tengjast hvort öðru í öruggu umhverfi sem hvetur þau til að tala íslensku með sínum einstaka hætti. Börn með íslensku að móðurmáli hafa einnig sótt námskeiðið og verið ómissandi leiðbeinendur þeirra sem þurfa aðstoð við íslenskuna. Þá hafa myndast dýrmæt vinatengsl í gegnum árin sem hafa blómstrað.

Námskeiðið hefur undanfarin ár verið haldið á Ísafirði en nú er vilji fyrir því að færa námskeiðið yfir til Flateyrar í ár, þar sem það hentar betur að hafa námskeiðin tvö, Töfraútivist (12-14 ára) og Tungumálatöfra (6-11 ára) á sama stað.

Ársfundur Byggðastofnunar í Bolungavík á morgun

Á morgun verður haldinn ársfundur Byggðastofnunar. Að þessu sinni verður fundurinn í Félagsheimili Bolungavíkur og hefst kl 13 og áætlað að fundinumverði lokið laust fyrir kl 16 síðdegis.

Nýr innviðaráðherra Svandís Svavarsdóttir mun flytja sitt fyrsta ávarp í þessari ráðherrastöðu þar sem byggðamálin eru undir.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri flytur erindi um Bolungavík 1000+ þar sem hann fer yfir áherslur sveitarfélagsins, stefnu og framtíðarsýn.

Andri Már Elíasson, forstjóri og sérfræðingar Byggastofnunar gera grein fyrir starfsemi stofnunarinnar.

Ársreikniingur Byggðastofnunar fyrir 2023 hefur verið staðfestur. Reyndist afkoma ársins vera jákvæð um 703,5 milljónir króna. Hreinar vaxtatekjur voru 1.243 milljónir króna eða 46% af vaxtatekjum, samanborið við 794 milljónir króna hreinar vaxtatekjur árið 2022. Laun og annar rekstrarkostnaður nam 623 milljónum króna samanborið við 558 milljónir árið 2022. Eiginfjárhlutfall skv. lögum um fjármálafyrirtæki var 22,64% en skal að lágmarki vera 8%.

Í fundarboði eru allir boðnir velkomnir.

1500 FRÆ

Meðmæli eru frækorn. Við erum að sá og fjárfesta til framtíðar. Við munum enn fremur uppskera eins og við sáum. Ef við sáum þeirri hegðun að frambjóðendur verði að vera þekkt andlit, með reynslu úr pólitík eða opinberri þjónustu – þá uppskerum við eftir því. Umsóknarkröfum ætti þá að breyta til samræmis hið snarasta sem og heiti starfsins. Embætti fyrir útvalda. Embætti fyrir fræga. Embætti fyrir völd og pólitík.

Sé aftur á móti embætti forseta Íslands eina sameiginlega embætti þjóðarinnar er ráðlegt að koma þannig fram við það. 1500 meðmæli eru fræ til framtíðar. Við erum að kenna okkur og börnunum okkar að við eigum öll jöfn tækifæri á Íslandi. Við eigum að sækja til að skapa nýja siði og venjur, vera óhrædd, áræðin, upplitsdjörf og aldrei gefast upp. Taka glaðlega og vel á móti þeim sem standa upp og sækja, hrósa, hvetja og veita framgöngu þeim sem hafa fyrir því. Fram fram aldrei að víkja, fram fram bæði menn og fljóð.

Frægð og frami telst ekki til hæfniþátta ein og sér og alls ekki það sem þarf til að sinna starfi forseta lýðveldisins. Fyrri störf duga skammt – starfið er ólíkt öllum öðrum og með einstakt starfsumhverfi. Það þarf ofgnótt af mennsku til að sinna starfi forseta Íslands. Það þarf opið hjarta, réttsýni, heiðarleika, glaðlyndi og þolgæði. Mannkosti.

Val er vald. Veljum að iðka lýðræði, tjáningarfrelsi og jafnræði með því að breiða út blævæng tækifæranna og hleypa fjölbreyttum röddum að til meðmæla. Fjárfestum í framtíð Íslands – uppskeran verður gjöful og okkur öllum til gæfu og giftusemi.

Mældu með frambjóðanda sem hefur ekki náð meðmælendafjölda nú þegar og sáðu fræi til framtíðar.

Sigríður Hrund Pétursdóttir

Samkaup tekur þátt í saman gegn sóun á Ísafirði

Meðlimir Akkeris og starfsmenn Saman gegn sóun hjá Umhverfisstofnun. Frá vinstri: Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson (Umhverfisstofnun), Guðmundur Steingrímsson (Háskóli Íslands), Þorbjörg Sandra Bakke (Umhverfisstofnun), Bergrún Ólafsdóttir (Samkaup), Margrét Gísladóttir (Mjólkursamsalan), Sigurjón Svavarsson (Elkem) og Birgitta Steingrímsdóttir (Umhverfisstofnun). Á myndina vantar Svein Margeirsson frá Brim.

Samkaup tekur þátt í opnum fundi á vegum starfshópsins Saman gegn sóun sem haldinn verður á Ísafirði í dag, 16. apríl.

Saman gegn sóun er starfshópur á vegum Umhverfisstofnunar sem hefur það að markmiði að endurskoða stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir. Samkaup er hluti af Akkeri, ráðgefandi hóp á vegum stofnunarinnar sem hefur það hlutverk að styðja við verkefnahópinn með sérþekkingu sinni af dagvörumarkaði.

Samkaup eru sérstaklega stolt af því að vera hluti af ráðgefandi hópnum og við hlökkum til að tala við almenning og vinnustaði á svæðinu um tækifæri í úrgangslosun. 

Saman gegn sóun er verkefni frá árinu 2016 og felast helstu hlutverk Akkeris í því að m.a. að veita innsýn inn í stöðuna í málaflokknum, virkja hagsmunaaðila, tryggja eignarhald og samstöðu í verkefninu, hjálpa til við sýnileika og koma að þróun, framsetningu og mögulega framfylgd aðgerðaráætluninnar.

Fundurinn verður haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði kl 13 – 15:30 og hvetur Samkaup alla til þess að taka þátt.

Sandeyri: fiskur í kvíar fyrir mánaðamót

Arctic Fish hefur fengið byggingarleyfi frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir eldiskvíar við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi. Þetta staðfesti Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar í samtali við Bæjarins besta. Þar með eru öll leyfi komin fyrir útsetningu eldislax í kvíarnar og fyrir uppsetningu kvínna og segir Daníel að fiskur verði kominn í þær fyrir mánaðamót. Hann segir þetta mjög ánægjulegt. Reyndar er ekki nýtt að áformað sé kvíaeldi við Sandeyri , Daníel minnir á að árið 2012 hafi Arctic Fish fengið leyfi fyrir 200 tonna eldi á þessum stað.

Daníel Jakobsson.

Gunnar Hauksson, landeigandi á Sandeyri hefur kært nýútgefið leyfi til Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi til úrskurðarnefndar um umhverfis- og upplýsingamál og krefst hann þess að leyfið verði gert ógilt. Jafnframt krefst hann þess að nefndin stöðvi þegar í stað framkvæmdir við það sem leyfið tekur til. Mun nefndin úrskurða um stöðvunarkröfuna innan skamms en um aðalkröfuna síðar.

Kærandinn segir í rökstuðningi sínum fyrir kröfunni að jörðin Sandeyri muni verða fyrir umtalsverðum og óafturkræfum óhrifum af þeirri starfsemi sem rekstrarleyfið tekur til. Ennfremur segir að nánd landareignar kæranda við eldissvæðin og bein sjónlína þeirra frá eign kæranda og tilheyrandi sjónrænum áhrifum, geri það að verkum að kærandi verði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu á öllum þremur svæðunum umfram aðra, þ.e. ekki bara a Sandeyri heldur líka við Kirkjusund og Arnarnes. Þá segir ennfremur að aðeins sé aðgengt að jörðinni Sandeyri með báti en ljóst verði að ómögulegt verði fyrir kæranda að komast að húsi sínu á
eignajörðinni. Því verði jörð hans eyðilögð ef af leyfinu verður og muni honum ekki vera kleift að sinna viðhaldi húss síns á jörðinni sem er friðað. Þá hefur kærandi stundað veiði innan netlaga jarðar sinnar svo sem honum er heimilt lögum samkvæmt en það verði ekki mögulegt ef starfsemi sem leyfin kveða á um hefst.

Daníel Jakobsson sagði að eigandi Sandeyrar hafi ekki áður gert athugasemd við áform um fiskeldi við Sandeyri og taldist honum til að hann hefði síðan 2015 haft sjö sinnum tækifæri til þess.

Ungmennaþing Vestfjarða

Tveggja daga ungmennaþingi Vestfjarða sem haldið var í Menntaskólanum á Ísafirði í síðustu viku.

Þetta er í annað sinn sem slíkt er haldið og sótti það fimmtíu 13-18 ára ungmenni frá öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum þar sem ungmenni eru búsett.

Vilborg Pétursdóttir verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu hafði með höndum skipulagningu þingsins og Sævar Helgi Bragason var þingstjóri.

Þingkonan Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar veittu ungmennunum innsýn í stjórnmál og stjórnsýslu.

Kosið var í ungmennaráð Vestfjarða. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er kosið og mun það starfa á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga og vera því til ráðgjafar. Ráðið er skipað til eins árs í senn, en þetta fyrsta ungmennaráð mun starfa fram á haust 2025 er næsta ungmennaþing verður haldið.

Salvör Sól Jóhannsdóttir (formaður), Hildur Ása Gísladóttir (varaformaður), Soffía Rún Pálsdóttir (kynningarfulltrúi), Guðbjörg Ósk Halldórsdóttir (ritari), Þórgunnur Ríta Gústafsdóttir, Hávarður Blær Ágústsson, Rafael Filipe da Silva Rosa og Andrés Páll Ásgeirsson.

Varamenn eru: Jón Guðni Guðmundsson, Benedikt Einar Egilsson, Kristjana Kría Lovísa Bjarnadóttir, Ásborg Styrmisdóttir, Ingvar Þór Pétursson, Anastasia Kryzhanovska og Ásgeir Þór Marteinsson.

Landaður afli í mars 60 þúsund tonn

Frá Suðureyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson

Landaður afli í mars var rúmlega 60 þúsund tonn sem er 77% minna en í mars 2023. Samdráttur varð í veiðum á nær öllum fisktegundum. Mest munar þó um að engin loðna veiddist í mars þetta árið en hún var meginuppistaða af heildaraflanum í mars í fyrra.

Heildarafli á tólf mánaða tímabilinu frá apríl 2023 til mars 2024 var tæplega 1,1 milljón tonn sem er 26% minna en aflinn á sama tólf mánaða tímabili ári fyrr. Botnfiskafli var um 9% minni á sama tíma.

Upplýsingar um fiskafla sem birtast í þessari fréttatilkynningu eru bráðabirgðatölur. Þær byggjast á upplýsingum Fiskistofu sem berast frá löndunarhöfnum innanlands (Lóðs), útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis og er safnað af Fiskistofu.

Mesta umfang brunatjóna frá aldamótum

Heildarupphæð bættra brunatjóna árið 2023 nam 6,4 milljörðum króna og var tæplega þrefalt hærri en árið 2022. Tryggingarfélög hér á landi hafa ekki þurft að greiða jafnháa upphæð vegna brunatjóna á einu ári frá árinu 2000. Þetta kemur fram í upplýsingum frá tryggingafélögum sem HMS hefur tekið saman.

Árlega tekur HMS saman yfirlit yfir eignatjón vegna eldsvoða er byggir á gögnum frá tryggingafélögum. Niðurstöður úr þeirri samantekt má sjá á mynd hér að neðan, sem sýnir heildarumfang bættra brunatjóna frá tryggingafélögunum á hverju ári.

Líkt og myndin sýnir var umfang brunatjóna í fyrra töluvert yfir meðaltal síðustu ára, sem var um helmingi minna. Bætt brunatjón hafa ekki verið yfir 5 milljörðum króna á einu ári í tvo áratugi og leita þarf aftur til ársins 2000 til að finna ár þar sem umfang brunatjóna var meira en í fyrra.

Á síðustu fjórum áratugum má einungis finna eitt annað ár þar sem heildarupphæð bættra brunatjóna nam yfir sex milljörðum króna, en það er árið 1989.

Katrín hefur kosningabaráttuna á Vestfjörðum

Katrín Jakobsdóttir, .

Á facebooksíðu sinni segir Katrín Jakobsdóttir frá því að í dag ætli hún að hefja kosningabaráttuna með ferð um Vestfirði. Fundur verður í kvöld á Kaffi Galdri kl. 20:00.

Daginn eftir verður boðið upp á súpu og fund í Söngsteini við Hveravík, á þriðjudaginn kl. 13:00.

Þaðan liggur leiðin til Patreksfjarðar þar sem fundað verður í félagsheimilinu kl. 20:00 þriðjudagskvöldið 16. apríl.

Á miðvikudag verður farið um á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal og í hádeginu verður fundur á Vegamótum á Bíldudal.

Fundur á Reykhólum klukkan 17:00 á miðvikudag í sal skólahússins.

Klukkan 20:00 á miðvikudagskvöldið verður fundur í Vínlandssetrinu Leifsbúð í Búðardal kl. 20:00.

Nýjustu fréttir