Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 117

Vegagerðin: þungatakmörkun á Vestfjörðum við 10 tonn

Af Dynjandisheiði í febrúar sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að vegna hættu á slitlagsskemmdum verði viðauki 1 felldur úr gildi og ásþungi takmarkaður við 10 tonn frá og með kl. 08:00 Fimmtudaginn 18. apríl 2024.

Gildir takmörkunin á eftirtöldum vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum.

54 Snæfellsnesvegi frá Borgarnesi vestur yfir Fróðárheiði og að norðanverðu að 58 Stykkishólmsvegi

574 Útnesvegi

58 Stykkishólmsvegi

56 Vatnaleið

60 Vestfjarðavegi frá Dalsmynni til Ísafjarðar

62 Barðastrandarvegi

63 Bíldudalsvegi

622 Þingeyrarvegi

64 Flateyrarvegi

65 Súgandafjarðarvegi

61 Djúpvegi frá Vestfjarðavegi 60 í Króksfirði til Skutulsfjarðar, að Flugvallarvegi 631.

68 Innstrandavegi

59 Laxárdalsheiði

643 Strandavegi

645 Drangsnesvegi

Alþingi: nám við lýðskóla verði lánshæft

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Alþingismennirnir Teitur Björn Einarsson (D) og Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D) hafa lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um menntasjóð námsmanna þar sem lagt er til að námslán verði veitt vegna náms við lýðskóla hafi skólinn hlotið viðurkenningu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu samkvæmt lögum um lýðskóla.

Fullt nám við lýðskóla eru tvær annir. Nám við lýðskóla veitir ekki einingar en fullt nám telst samsvara 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum hvað vinnuframlag varðar. Til að ná lágmarksframvindu skv. 13. gr. þurfi nemandi að skila 80% mætingu og þátttöku samkvæmt reglum viðkomandi skóla.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segja flutningsmenn að lagt sé til að auðvelda ungu fólki aðgengi að lýðskólum hérlendis með því að nám við þá verði lánshæft með sama hætti og annað starfsnám. „Nám við lýðskóla í dag er dýrt og í flestum tilfellum kostað af fjölskyldum nemenda. Markmið frumvarpsins er að auka jafnrétti til náms og styðja við þennan kost sem þegar hefur sýnt fram á gildi sitt, bæði samfélagslega og hvað þá einstaklinga varðar sem átt hafa kost á að stunda nám við lýðskóla hérlendis.“

Lýðskóli hefur verið rekinn á Flateyri síðustu ár og segir í kynningu á skólanum að ungt fólk sem hefur nýlokið framhaldsskólaprófi velji gjarnan að fara í lýðskóla og fá þannig næði og tíma til að átta sig á styrkleikum sínum, veikleikum og vilja til frekara náms. Einnig sé algengt að fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi sæki í lýðskóla og nýti þannig tækifæri sem þetta til að hefja nám á ný.

Vesturbyggð: ekki fundir ef ekki eru mál á dagskrá

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að aðeins séu haldnir fundir þegar mál eru á dagskrá sem þarf að funda um, enda sé hver fundur dýr.

Hún segir að allar nefndir fundi að jafnaði einu sinni í mánuði, en fundir falli niður ef ekki eru mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða. Fundir nokkurra nefnda eru oft haldnir í tengslum við bæjarstjórnarfund, þannig að hægt sé að taka sem flest mál inn á dagskrá nefndarinnar sem má þá vísa til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi. Þórdís segir að hafnar- og atvinnumálaráð og skipulags- og umhverfisráð muni funda t.a.m. í þessari viku.

Bæjarráð fundar að jafnaði 2 sinnum í mánuði að sögn Þórdísar, en fundir falla niður ef ekki eru mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða. Hún segir að reyndar eigi eftir að birta fundargerð frá 26. mars sl., einnig var bæjarráðsfundur í dag.

Í gær voru svo birtar á vef sveitarfélagsins fundargerðir bæjarráðs frá 26. mars og 16. apríl svo og fundargerð undirbúningsnefndar um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps frá 8. apríl.

200 ný störf hafa skapast á síðustu þremur árum fyrir tilstuðlan lánveitinga Byggðastofnunar

75 ný störf sköpuðust á landsbyggðinni á árinu 2023 með lánveitingum Byggðastofnunar samanborið við 65 störf sem lánveitingarnar sköpuðu árið 2022 og 60 árið 2021.

Lán Byggðastofnunar til atvinnuskapandi verkefna hafa þar með skapað 200 ný störf um land allt síðast liðin þrjú ár. Þetta segir Hrund Pétursdóttir forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar en hún mun fjalla nánar um málið á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn verður í Bolungavík í dag 17. apríl. Fundurinn verður einnig í streymi.

Kynslóðaskipti á 30 búum með tilkomu samkomulags við Evrópska fjárfestingasjóðinn

Árið 2020 fór Byggðastofnun í samstarf við Evrópska fjárfestingasjóðinn (EIF) með aðild að svokölluðu COSME ábyrgðasamkomulagi. Markmið samkomulagsins var að auðvelda aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni, skapa umhverfi sem er hagstætt fyrir sköpun þeirra og hvetja til frumkvöðlamenningar og sjálfbærrar samkeppnishæfni. 

Samkomulaginu lauk í árslok 2023 en heildar lánveitingar sem fóru í gegnum það voru um 4,3 ma.kr. til 70 aðila víðsvegar um landið. Kynslóðaskipti hafa orðið á um 30 búum á Íslandi á þessum rúmu þremur árum sem samkomulagið var í gildi.

Stjórn Byggðastofnunar hefur nú samþykkt aðild að nýju ábyrgðakerfi sem er í umsjón EIF sem ber nafnið InvestEU og er von á því að nýir lánaflokkar líti dagsins ljós í maí. 

Saxhamar SH 50

Saxhamar SH 50. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson.

Saxhamar SH 50 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Stálvík fyrir Útnes hf. á Rifi og afhentur árið 1969.

Báturinn var 110 brl að stærð en eftir lengingu um 2,5 metra árið 1972 mældist hann 128 brl. að stærð.

Saxhamar var yfirbyggður um 1980 og ný brú sett á hann árið 1987. Þá var skipt um aðalvél árið 1981.

Árið 2006 varð báturinn Saxhamar II SH 500 en útgerðin hafði þá keypt stærra skip sem fékk nafnið Saxhamar SH 50. 

Árið 2007 var báturinn seldur til Vestmannaeyja þar sem hann fékk nafnið Valberg VE 10 og gerður út sem þjónustubátur.

Frá árinu 2013 hefur báturinn verið þjónustubátur við fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum og borið nöfnin Arnarfell HF, Arnarfell BA og frá 2017 Steinbjörg.

Af skipamyndir.com

Á Ljúflingshól

Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hrönn Þráinsdóttir píanó verða með tónleikar í Hömrum næsta sunnudagi.

Stöllurnar Hallveig Rúnarsdóttir og Hrönn Þráinsdóttir dýfa sér í laug íslenskrar leikhústónlistar í tónleikaröðinni Á Ljúflingshól á ferðum sínum um landið í ár.


Fyrstu tónleikarnir verða haldnir í Hömrum, sal Tónlistarskólans á Ísafirði þann 21. apríl næstkomandi kl 17.

Kosið í nýja stjórn Nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði

Menntaskólinn á Ísafirði.

Fimmtudaginn 11. apríl var haldinn aðalfundur Nemendafélags MÍ.

Að loknum aðalfundi fluttu frambjóðendur til nýrrar stjórnar framboðsræður og í kjölfarið hófust kosningar í embætti.

Kosningunum lauk kl. 11 daginn eftir og í hádeginu voru niðurstöður þeirra kynntar með viðhöfn í gryfjunni.

Nýja stjórn NMÍ skipa:

Unnur Guðfinna Daníelsdóttir – Formaður
Jón Gunnar Shiransson – Gjaldkeri 
Laufey Dís Þórarinsdóttir – Ritari
Sæunn Lív Christophsdóttir – Menningarviti
Guðríður Vala Atladóttir – Málfinnur
Agnes Eva Hjartardóttir – Formaður leikfélags
Frosti Gunnarsson – Formaður vídeóráðs
Sverri Bjarki Svavarsson – Fulltrúi verknámsnema

Ísafjörður – Fyrsta skemmtiferðaskipið kom á laugardag

Fyrsta skemmtiferðaskipið á árinu 2024 lagði að bryggju á Ísafirði á laugardaginn og næstu tvö skip eru væntanleg 21. apríl en síðan er hlé fram yfir miðjan maí þegar segja má að tímabilið hefjist af alvöru.

Tæplega 200 skipakomur eru bókaðar nú í sumar og ætla má að farþegar þeirra verði um 200 þúsund.

Stefna um móttöku skemmtiferðaskipa við hafnir Ísafjarðarbæjar 2024–27 tók nýlega gildi og er vinna við aðgerðaáætlun stefnunnar þegar hafin.

Hægt er að glöggva sig betur á bókuðum skipakomur til hafna Ísafjarðarbæjar á síðunni Skemmtiferðaskip 2024.

Vesturbyggð: engir fundir

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Bæjarstjón Vesturbyggðar kom síðast saman 20. mars sl. eða fyrir nærri fjórum vikum. Síðasti fundur í fastanefnd bæjarins var hjá hafna- og atvinnumálaráði var 14. mars. samkvæmt fundayfrliti á heimasíðu sveitarfélagsins. Frá síðasta fundi bæjarstjórnar hafa engir fundir verið haldnir og fyrirhuguðum fundi bæjarstjórnar sem vera átti á morgun hefur verið frestað um viku enda væntanlega engin mál á dagskrá.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur ekki komið saman síðan 12. mars eða í fimm vikur.

Þórdís Sif Sigurðardottir, bæjarstjóri var innt eftir því á föstudaginn hvers vegna engir fundir hafi verið.

Engin svör hafa borist.

Ísafjarðarbær styrkir tungumálanámskeið

Frá námskeiðinu Tungmálatöfrar í fyrra.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að styrkja Tungumálatöfra að fjárhæð kr. 288.960, vegna leigu á Félagsheimilinu á Flateyri og Grunnskólanum á Flateyri í sumar.

Óskað var eftir afnotum af félagsheimilinu á Flateyri og Grunnskólanum í Önundarfirði. Tungumálatöfrar þurfa aðgang að 3 kennslustofum, eldhúsi og salernum auk félagsheimilisins. Samkvæmt gjaldskrá Ísafjarðarbæjar er leigan 288.960 kr.

Í erindinu segir að Tungumálatöfrar er námskeið þar sem börn með annað móðurmál en íslensku hafa tækifæri til að efla íslensku kunnáttu sína í gegnum útiveru og listsköpun. Á námskeiðinu fá börnin að
tengjast hvort öðru í öruggu umhverfi sem hvetur þau til að tala íslensku með sínum einstaka hætti. Börn með íslensku að móðurmáli hafa einnig sótt námskeiðið og verið ómissandi leiðbeinendur þeirra sem þurfa aðstoð við íslenskuna. Þá hafa myndast dýrmæt vinatengsl í gegnum árin sem hafa blómstrað.

Námskeiðið hefur undanfarin ár verið haldið á Ísafirði en nú er vilji fyrir því að færa námskeiðið yfir til Flateyrar í ár, þar sem það hentar betur að hafa námskeiðin tvö, Töfraútivist (12-14 ára) og Tungumálatöfra (6-11 ára) á sama stað.

Nýjustu fréttir