Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 116

Öfugu megin uppí

Leikfélag Hólmavíkur heldur uppteknum hætti að setja árlega upp eina sýningu og þetta árið var það verkið Öfugu megin uppí eftir Derek Benfield sem varð fyrir valinu.


Leikritið segir frá Fríðu sem tekur að sér að gæta sveitahótels systur sinnar á meðan hún bregður sér í frí.

Það á ekki fyrir henni að liggja að eiga náðuga daga, því gestirnir eru af ýmsu tagi.

Þeir eiga þó sameiginlegt að vera í ævintýraleit og ætla aldeilis að gera sér glaðan dag og eiga góðar stundir.

Lokasýning er í Sauðfjársetrinu á morgun 18 apríl kl. 20:00

200 ný störf hafa skapast á síðustu þremur árum

Hrund Pétursdóttir, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar

75 ný störf sköpuðust í landsbyggðunum á árinu 2023 með lánveitingum Byggðastofnunar samanborið við 65 störf sem lánveitingarnar sköpuðu árið 2022 og 60 árið 2021. Lán Byggðastofnunar til atvinnuskapandi verkefna hafa þar með skapað 200 ný störf um land allt síðast liðin þrjú ár.

Þetta segir Hrund Pétursdóttir forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar en hún mun fjalla nánar um málið á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn verður í Bolungarvík í dag, 17. apríl 2024. Fundurinn verður einnig í streymi.

Árið 2020 fór Byggðastofnun í samstarf við Evrópska fjárfestingasjóðinn (EIF) með aðild að svokölluðu COSME ábyrgðasamkomulagi. Markmið samkomulagsins var að auðvelda aðgengi lítilla og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni, skapa umhverfi sem er hagstætt fyrir sköpun þeirra og hvetja til frumkvöðlamenningar og sjálfbærrar samkeppnishæfni.

Samkomulaginu lauk í árslok 2023 en heildar lánveitingar sem fóru í gegnum það voru um 4,3 ma.kr. til 70 aðila víðsvegar um landið. Kynslóðaskipti hafa orðið á um 30 búum á Íslandi á þessum rúmu þremur árum sem samkomulagið var í gildi.

Stjórn Byggðastofnunar hefur nú samþykkt aðild að nýju ábyrgðakerfi sem er í umsjón EIF sem ber nafnið InvestEU og er von á því að nýir lánaflokkar líti dagsins ljós í maí.

Frá þessu er sagt á vef Byggðastofnunar

Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Í síðustu viku fór lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar fram í Félagsheimilinu á Þingeyri.

Þrettán nemendur af norðanverðum Vestfjörðum spreyttu sig í lestrinum og stóðu sig allir með stakri prýði.

Dómurum var svo sannarlega vandi á höndum að velja nemendur í efstu þrjú sætin.

Niðurstaðan varð sú að í fyrsta sæti varð Símon Richard Eraclides, í öðru sæti varð Emelía Rós Stígsdóttir og í þriðja sæti Vanda Rós Stefánsdóttir. Öll eru þau nemendur Grunnskólans á Ísafirði.

Æfingaferlið hefur staðið yfir allt frá Degi íslenskrar tungu 16.nóvember síðastliðinn og nemendur verið duglegir og tekið miklum framförum í framsögn og að rækta talað mál.

Reglugerð um strandveiðar óbreytt

Birt hefur verið í Stjórnartíðindum  reglugerð um strandveiðar á komandi sumri og er hún nánast óbreytt frá síðasta ári.

Heimildir til strandveiða samkvæmt reglugerðinni skiptast á fjögur löndunarsvæði, sem eru:

  1. Eyja- og Miklaholtshreppur – Súðavíkurhreppur,
  2. Strandabyggð – Grýtubakkahreppur,
  3. Þingeyjarsveit – Djúpavogshreppur,
  4. Sveitarfélagið Hornafjörður – Borgarbyggð.

Skipi á strandveiðum er einungis heimilt að landa afla innan síns löndunarsvæðis.

Einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strand­veiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Einnig er tilgreint að í umsókn lögaðila um leyfi til strandveiða skulu koma fram upplýsingar um eignarhald á lög­aðilanum.

Fiskistofa skal fella niður strandveiðileyfi fiskiskips, þá þegar, ef fyrir liggja gögn sem sýna fram á að skilyrði eru ekki uppfyllt.

  • Veiðar hefjast fimmtudaginn 2. maí.
  • Aflamagn verður ekki minna en 10 þúsund tonn af þorski.
  • Veiðar eru heimilaðar fjóra daga í viku, mánudag – fimmtudags.  Óheimilt að róa á uppstigningardag (9. maí), annan í hvítasunnu (20. maí), 17. júní og á frídegi verslunarmanna (5. ágúst).

Ísafjarðarbær: framkvæmdir 2023 voru 736 m.kr.

Frá framkvæmdum við Sundabakka. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Í yfirliti fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar yfir framkvæmdir síðasta árs kemur fram að framkvæmt var fyrir 736 m.kr. en fjárheimildir voru fyrir 790 m.kr.

Hafnarframkvæmdir voru langstærsti liðurinn. Framkvæmt var fyrir 346,6 m.kr. og ber þar hæst stækkun Sundabakka. Áætlað var að framkvæma á árinu fyrir 375 m.kr. Helsta ástæða lægri kostnaðar er frestun á 25 m.kr. framkvæmd á endurbótum á hafnargarðs Þingeyri.

Eignasjóður framkvæmdi fyrir 257 m.kr. og þar voru framkvæmdir við íþróttavöllinn á Torfnesi fyrirferðarmestar en varið var 157 m.kr. til verksins á árinu.

Helsta ástæða lægri kostnaðar í húsnæði og lóðir og opin svæði eru verkefni sem töfðust og flyst því kostnaður að hluta yfir á árið 2024. Gatnagerð er lægri en áætlaður kostnaður vegna hærri þátttöku vatnsveitu og fráveitu í kostnaði en áætlað var.

Farið var í áfanga 2 í Staðardal, verkefnið er styrkt af fiskeldissjóði og nam kostnaður 14 m.kr eftir
greiðslu styrkja vegna verkefnisins. Einnig var áætlað að setja vatnsveitulagnir í Skógarbaut, Seljalandi,
Tunguhverfi, Hrauntungu og Engjatungu og nam kostnaður þess ásamt lagningu í Suðurtanga og Æðartanga, kostnaður varð 11,3 m.kr. og samtals eru færðar 25,3 m.kr. á þennan lið.

Kostnaður við fráveitur varð 67,9 m.kr. Áætlað var að fara í sameiningu útrása og hreinsivirki á Suðureyri og Flateyri, tvöfalda fráveitu í Hafnarstræti og leggja fráveitulagnir Tunguhverfi. Jafnframt var farið í fráveitulagnir á Suðurtanga og Æðartanga. Áætlaðar fráveitu framkvæmdir námu 37 m.kr. en framkvæmt var fyrir 67,9 m.kr. Helsta ástæða þess er hluti fráveitu í framkvæmdum á Suðurtanga og Æðartanga sem nam 27 m.kr.

Látrabjarg: stjórnunar- og verndaráætlun í kynningu

Látrabjarg.

Umhverfisstofnun hefur sett drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg í 6 vikna kynningarferli. Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021.

Meginmarkmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar er að leggja fram stefnu um verndun svæðisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til þriggja ára.
Áætlunin er unnin af fulltrúum Umhverfisstofnunar, fulltrúum landeigenda og fulltrúa Vesturbyggðar. Eins er áætlunin unnin í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands.

Hægt er að kynna sér drög að áætluninni og aðgerðaáætlun sem henni fylgir á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Aðgerðaáætlunin er forgangsröðun þeirra aðgerða sem brýnast er að fara í til að verndargildi Látrabjargs haldist. Aðgerðirnar miða jafnframt að því að viðhalda og bæta upplifun og öryggi gesta svæðisins segir í aðfararorðum Umhverfisstofnunar.

Uppbygging innviða er talið mikilvægast og þar eru vegir og bílastæði við Bjargtanga efst á blaði. Þá er þörf á setja upp upplýsinga- og fræðsluskilti. Gera þarf gönguleiðir og merkja svo og aðkoma upp varanlegu húsnæði fyrir landverði.

Boðskapur frá forsetaframbjóðanda

Það hafa kannski margir klórað sér í hausnum yfir þátttöku minni í forsetakosningunum þar sem ég stíg nú eins og landkönnuður á nýjum slóðum og tek með mér ný og fersk sjónarhorn, smá húmor og djúpstæða trú á mátt hins ómögulega. Ég er eflaust ekki hinn hefðbundni frambjóðandi en ég er án efa ferskur blær inn í flokk frambjóðenda og það er einmitt það sem gerir þetta stóra verkefni svo skemmtilegt og hvetjandi. Boðskapurinn sem ég kem með er: Allt er mögulegt sama hver þú ert eða hvaðan þú kemur – bara ef þú bara þorir!

Flest okkar óttast breytingar og kannski líka nýjungar, aðrir elska þær, fyrir mér eru þær eins og hlaðborð af endalausum möguleikum því breytingar eru óumflýjanlegur partur af lífinu og ég hef lært að að taka á móti þeim með opnum hug, bros á vör og þakklæti.
Sem frambjóðandi ætla ekki að lofa upp í ermarnar með pólitískri þvælu og innantómum loforðum en þú mátt hugsa mig sem konu sem er óhrædd við að standa upp þegar á móti blæs, tjá skoðun sína, konu sem skilur baráttu hversdagslífsins og sem trúir á ótrúlega möguleika okkar allra ásamt því að gefa von fyrir gamlar og nýjar kynslóðir,  – það er ég.

Við vitum það öll að gleði ásamt smá von er besta lyfið og við þurfum góðan skammt af því í okkar skammdegi, kulda og pólitíska umhverfi!  Við saman erum hjarta og sál þessarar þjóðar og með samstöðu vöxum við í átt að bjartri framtíð og spennandi nýjum tímum.

Mín kenning er að við þurfum ekki fleiri pólitíkusa eða valdafólk í stöðu forseta Íslands. Forsetinn okkar á að vera ópólitískur, mannlegur og gæddur miklum persónutöfrum, hann þarf að vera trúr og traustur sinni þjóð, með kjark til að standa upp þegar á móti blæs. Hann þarf að getað hlustað á fólkið sitt og vera óhræddur með rödd til að vekja athygli á því sem betur má fara.  

Meðfram mínum fyrirsætu ferli hef starfað sem óskipaður sendiherra Íslands í mínum störfum erlendis síðustu áratugi og hef tekið þátt í hinum ýmsu viðskiptum ásamt því að koma fram fyrir hönd íslands í viðtölum og uppákomum. Fyrir utan fyrirsætustörf sem flestir þekkja mig fyrir þá er ég menntuð í viðskiptum-og stjórnun og svo er ég líka þyrluflugmaður. 

Með minni þátttöku í forsetakosningunum brjótum við blað í sögunni, opnum dyr fyrir nýjungum og fögnum fjölbreytileikanum. Við eigum að þora að láta okkur dreyma stórt, njóta þess að að vera til og halda í vonina um bjartari tíma og betra líf. 


Kæru Vestfirðingar mig hlakkar til að heimsækja ykkur á næstu vikum en núna er ég að safna meðmælum á Vestfjörðum til að taka þátt í forsetabaráttunni og mig langar að hvetja ykkur til að gera hana líflegri og skemmtilegri með minni þátttöku. 

Til að skrá þitt meðmæli skráir þú þig inn með rafrænum skilríkjum á www.asdisran.is

Kær kveðja

Ásdís Rán

Vegagerðin: þungatakmörkun á Vestfjörðum við 10 tonn

Af Dynjandisheiði í febrúar sl. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að vegna hættu á slitlagsskemmdum verði viðauki 1 felldur úr gildi og ásþungi takmarkaður við 10 tonn frá og með kl. 08:00 Fimmtudaginn 18. apríl 2024.

Gildir takmörkunin á eftirtöldum vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum.

54 Snæfellsnesvegi frá Borgarnesi vestur yfir Fróðárheiði og að norðanverðu að 58 Stykkishólmsvegi

574 Útnesvegi

58 Stykkishólmsvegi

56 Vatnaleið

60 Vestfjarðavegi frá Dalsmynni til Ísafjarðar

62 Barðastrandarvegi

63 Bíldudalsvegi

622 Þingeyrarvegi

64 Flateyrarvegi

65 Súgandafjarðarvegi

61 Djúpvegi frá Vestfjarðavegi 60 í Króksfirði til Skutulsfjarðar, að Flugvallarvegi 631.

68 Innstrandavegi

59 Laxárdalsheiði

643 Strandavegi

645 Drangsnesvegi

Alþingi: nám við lýðskóla verði lánshæft

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Alþingismennirnir Teitur Björn Einarsson (D) og Berglind Ósk Guðmundsdóttir (D) hafa lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um menntasjóð námsmanna þar sem lagt er til að námslán verði veitt vegna náms við lýðskóla hafi skólinn hlotið viðurkenningu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu samkvæmt lögum um lýðskóla.

Fullt nám við lýðskóla eru tvær annir. Nám við lýðskóla veitir ekki einingar en fullt nám telst samsvara 60 stöðluðum framhaldsskólaeiningum hvað vinnuframlag varðar. Til að ná lágmarksframvindu skv. 13. gr. þurfi nemandi að skila 80% mætingu og þátttöku samkvæmt reglum viðkomandi skóla.

Í greinargerð sem fylgir frumvarpinu segja flutningsmenn að lagt sé til að auðvelda ungu fólki aðgengi að lýðskólum hérlendis með því að nám við þá verði lánshæft með sama hætti og annað starfsnám. „Nám við lýðskóla í dag er dýrt og í flestum tilfellum kostað af fjölskyldum nemenda. Markmið frumvarpsins er að auka jafnrétti til náms og styðja við þennan kost sem þegar hefur sýnt fram á gildi sitt, bæði samfélagslega og hvað þá einstaklinga varðar sem átt hafa kost á að stunda nám við lýðskóla hérlendis.“

Lýðskóli hefur verið rekinn á Flateyri síðustu ár og segir í kynningu á skólanum að ungt fólk sem hefur nýlokið framhaldsskólaprófi velji gjarnan að fara í lýðskóla og fá þannig næði og tíma til að átta sig á styrkleikum sínum, veikleikum og vilja til frekara náms. Einnig sé algengt að fólk sem ekki hefur lokið framhaldsskólaprófi sæki í lýðskóla og nýti þannig tækifæri sem þetta til að hefja nám á ný.

Vesturbyggð: ekki fundir ef ekki eru mál á dagskrá

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að aðeins séu haldnir fundir þegar mál eru á dagskrá sem þarf að funda um, enda sé hver fundur dýr.

Hún segir að allar nefndir fundi að jafnaði einu sinni í mánuði, en fundir falli niður ef ekki eru mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða. Fundir nokkurra nefnda eru oft haldnir í tengslum við bæjarstjórnarfund, þannig að hægt sé að taka sem flest mál inn á dagskrá nefndarinnar sem má þá vísa til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi. Þórdís segir að hafnar- og atvinnumálaráð og skipulags- og umhverfisráð muni funda t.a.m. í þessari viku.

Bæjarráð fundar að jafnaði 2 sinnum í mánuði að sögn Þórdísar, en fundir falla niður ef ekki eru mál á dagskrá sem nauðsynlegt er að afgreiða. Hún segir að reyndar eigi eftir að birta fundargerð frá 26. mars sl., einnig var bæjarráðsfundur í dag.

Í gær voru svo birtar á vef sveitarfélagsins fundargerðir bæjarráðs frá 26. mars og 16. apríl svo og fundargerð undirbúningsnefndar um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps frá 8. apríl.

Nýjustu fréttir