Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 115

Innviðaráðherra skipar nýja stjórn Byggðastofnunar

Fra ársfundi Byggðastofnunar í Bolungarvík.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hefur skipað nýja stjórn Byggðastofnunar til eins árs.

Skipan hennar var kynnt á ársfundi Byggðastofnunar sem haldinn var í Bolungarvík í gær. Óli Halldórsson frá Húsavík verður nýr formaður stjórnar en Guðný Hildur Magnúsdóttir frá Bolungarvík nýr varaformaður.

Aðrir stjórnarmenn eru;

  • Halldóra Kristín Hauksdóttir, Akureyri.
  • Haraldur Benediktsson, Hvalfjarðarsveit.
  • Karl Björnsson, Reykjavík.
  • María Hjálmarsdóttir, Eskifirði.
  • Oddný Árnadóttir, Reykjavík.

Þau sem yfirgáfu stjórnina að þessu sinni eru Rúnar Þór Guðbrandsson og Jónína Björk Óskarsdóttir. 

ÚUA: hafnar stöðvunarkröfu á Arctic Fish

Kvíastæði Arctic Fish í Djúpinu.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hafnaði í fyrradag kröfum um stöðvun framkvæmda við sjókvíaeldi Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi til bráðabirgða meðan nefndin fjallar um kröfu um ógildinu eldisleyfisins frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun.

Gunnar Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri og Hábrún ehf hafa kært eldisleyfið og vilja að það verði fellt úr gildi. Vildu kærendur jafnframt að allar framkvæmdir væru stöðvaðar meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni þannig að Arctic Fish gæti ekki hafið eldið við Sandeyri eins að er stefnt í þessum mánuði.

Úrskurðarnefndin hefur afgreitt kröfuna um stöðvun framkvæmda og var henni hafnað í báðum tilvikum. Er því Arctic Fish ekkert að vanbúnaði að ganga frá eldiskvíum og setja út seiði á Sandeyri þar sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út byggingarleyfi fyrir kvíarnar. Er stefnt að útsetningu eldisseiða fyrir mánaðamót.

Arctic Fish verður samkvæmt leyfunum með eldi á þremur stöðum í Ísafjarðardjúpi. Auk Sandeyrar verður eldi í kvíum við Arnarnes og Kirkjusund en samkvæmt rekstrar- og framleiðsluáætlunum leyfishafa verður engin starfsemi þar a.m.k. fram til aprílmánaðar árið 2025. Úrskurðar í máli þessu er að vænta fyrir þann tíma segir í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og því ekki ástæða til þess að stöðva framkvæmdir við þau eldissvæði. Varðandi Sandeyri segir að ljóst sé að „stefnt er að útsetningu seiða í kvíar á eldissvæði við Sandeyri á næstu dögum og er starfsemi þar því yfirvofandi. Þrátt fyrir það verður ekki álitið með hliðsjón af því tjóni sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér fyrir leyfishafa, svo og að teknu tilliti til þess að ekki verður talið að sú framkvæmd sem hér um ræðir sé óafturkræf, að knýjandi nauðsyn sé fyrir hendi til að beita undantekningarheimild 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva framkvæmdir á grundvelli hins kærða rekstrarleyfis.“

Bíldudalsvegur: 5 tonna öxulþungi

Frá Bíldudalsvegi. Mynd: Fréttablaðið.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að vegna hættu á slitlagsskemmdum var ásþungi takmarkaður við 5 tonn á Bíldudalsvegi (63) frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi 60 frá kl. 10:00 í dag fimmtudaginn 18. apríl 2024.

Sjálfstæðisflokkurinn: stjórnvöld liðki fyrir orkuöflun í Norðvesturkjördæmi með lagasetningu

Laugar í Sælingsdal.

Sjálfstæðisflokkurinn í Norðvesturkjördæmi hélt aðalfund sinn á Laugum í Sælingsdal laugardaginn 20. apríl. Í stjórnmálaályktun fundarins segir m.a. að mikilvægt sé að hið opinbera virði atvinnufrelsi og skapi atvinnugreinum, hinum nýju jafnt og þeim eldri og rótgrónari, umhverfi til að vaxa og dafna.

Til að tryggja verðmætasköpun þurfi innviðir að vera í lagi, hvort sem um er að ræða samgöngu-, orku- eða fjarskiptainnviði. Brýnt er að stjórnvöld liðki fyrir frekari orkuöflun í kjördæminu með lagasetningu. Þar megi sérstaklega nefna ákall Vestfirðinga um að verða sjálfum sér nægir í raforkumálum segir í ályktuninni.

Ályktunin í heild:

Atvinnufrelsi og eignarréttur eru órjúfanlegur hluti frjáls samfélags sem er forsenda þess að hægt sé að tryggja jöfn tækifæri, trausta grunnþjónustu og almenna velferð í samfélaginu. Öflugir innviðir og einfalt en skilvirkt regluverk eru forsenda kröftugs atvinnulífs. Hið opinbera á að halda sig til hlés en treysta á krafta einstaklingsins og einkaframtaksins til að skapa samfélag sem blómstrar.
Í Norðvesturkjördæmi er að finna fjölbreytt atvinnulíf. Afar mikilvægt er að hið opinbera virði atvinnufrelsi og skapi atvinnugreinum, hinum nýju jafnt og þeim eldri og rótgrónari, umhverfi til að vaxa og dafna með einföldu regluverki, fyrirsjáanleika, hóflegri gjaldtöku og skattheimtu og skilvirku eftirliti.
Til að tryggja verðmætasköpun þurfa innviðir að vera í lagi, hvort sem um er að ræða samgöngu-, orku- eða fjarskiptainnviði. Brýnt er að stjórnvöld liðki fyrir frekari orkuöflun í kjördæminu með lagasetningu. Þar má sérstaklega nefna ákall Vestfirðinga um að verða sjálfum sér nægir í raforkumálum, í samræmi við tillögur nefndar um orkumál í fjórðungnum sem skilaði af sér á síðasta ári og frekari uppbyggingu orkumannvirkja í Húnabyggð og Skagafirði. Tafarlaust þarf að endurskoða óskilvirkt og hægvirkt ferli sem
stjórnvöld hafa skapað og heldur aftur af grænni orkuöflun í landinu. Ekki síður er mikilvægt að halda áfram uppbyggingu flutningskerfa og afnema undanþágur arðbærra orkumannvirkja frá fasteignagjöldum.
Í mörgu hefur miðað í rétta átt í vegagerð í kjördæminu, en betur má ef duga skal enda eru margir vegir úr sér gengnir. Á það jafnt við um stofnvegakerfið og tengivegi. Ekki er nauðsynlegt að ríkið sjái um allar slíkar framkvæmdir og hafa Sjálfstæðismenn lagt fram frumvarp um Samfélagsvegi sem nauðsynlegt er að verði að lögum sem fyrst. Samþykkt frumvarpsins fæli í sér að íbúar fengju verkfæri til að hjálpa sér sjálfum og efla samkeppnishæfni og búsetuöryggi sinna byggða, með aðstoð einkaframtaksins þar sem
uppbygging vega er arðbær.
Kjördæmisráð fagnar áherslum ríkisstjórnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins á að klára löggjöf í tengslum við hælisleitendur og löggæslu, ná tökum á útgjaldavexti og verðbólgu, auk áherslu á öryggis- og varnarmál. Í ljósi markmiða í ríkisfjármálum er uppstokkun ríkisstjórnarinnar þó dýru verði keypt og vonbrigði að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hverfi úr hlutverki fjármála- og efnahagsráðherra á mikilvægum tímapunkti á kjörtímabilinu. Það er von kjördæmisráðsins að ríkisstjórnin sýni það í verki að henni sé alvara með að styðja við helsta forgangsmál stjórnarinnar að ná niður verðbólgu og vaxtastigi.
Ríkisstjórnin þarf að vinna hörðum höndum að einföldun regluverks þvert á ráðuneyti. Mikilvægt er að frumvörp dómsmálaráðherra um útlendingamál og löggæslu verði að lögum á vorþingi og að téðir virkjunarkostir í Norðvesturkjördæmi og víðar verði samþykktir með lögum áður en árið er liðið. Í ríkisfjármálunum er mikilvægt að missa ekki dampinn og þau frumvörp og áhersluatriði sem fyrrum fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins lagði fram hljóti framgang.

Sjálfstæðisfólk í Norðvesturkjördæmi treystir því að ráðherrar beri virðingu fyrir atvinnufrelsi og eignarrétti óháð flokkum. Það er skýlaus krafa okkar að hvalveiðar verði heimilaðar þegar í stað. Jafnframt er
nauðsynlegt að frumvarp um kvótasetningu grásleppu verði lögfest, að endurskoðun fari fram á reglugerðardrögum um sjálfbæra landnýtingu og kröfum ríkisins til eyja og skerja umhverfis landið með heilbrigða skynsemi að leiðarljósi.
Ísland er land mikilla tækifæra. Okkur hefur borið gæfa til að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar af skynsemi og þannig stuðlað að lífskjörum sem jafnast á við það sem best þekkist í heiminum. Góð rekstrarskilyrði atvinnulífsins, efling skólastarfs á öllum skólastigum um land allt, stuðningur við nýsköpun og bráðnauðsynleg uppbygging innviða, leggur grunn að enn frekari lífskjarasókn og að áfram sé hægt að styrkja heilbrigðis- og velferðarkerfi okkar til lengri og skemmri tíma. Á síðari hluta kjörtímabilsins,
í ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, ber því að leggja höfuðáherslu á áframhaldandi trausta efnahagsstjórn, sem styður við lífskjörin í landinu, stuðlar að heilbrigðu og öflugu atvinnulífi, örvar nýsköpun og tryggir að Ísland verði áfram í fremstu röð á sem flestum sviðum.

Alþingi: vill banna sjókvíaeldi

Gísli Rafn Ólafsson (P). alþm í suðvesturkjördæmi.

Gísli Rafn Ólafsson, alþm fyrir Pírata hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarp matvælaráðherra um lagareldi sem kveður á um að eldi laxfiska í sjókvíum verði óheimilt við strendur landsins með þeim rökstuðningi að það sé til verndar villtum laxi.

Til vara leggur Gísli til að eldi laxfiska í opnum sjókvíum verði óheimilt við strendur landsins.

Í fyrstu grein frumvarps ráðherrans segir að markmið laga þessara sé að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna.

Í annarri grein frumvarpsins segir að lög þessi gildi um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Breytingartillagan snýr hins vegar einungis að 7. grein frumvarpsins sem kveður á um það hvar óheimilt er að ala eldislax í sjókvíum við strendur landsins og eru tilgreind viðeigandi hafsvæði. Leggur flutningsmaður breytingartillögurnnar til að eldið verði óheimilt við strendur landsins.

Fyrir Alþingi liggur óafgreidd þingsalyktunartillaga, lögð fram í október 2023, sjö þingmanna, þar á meðal Gísla Rafns Ólafssonar um bann við við fiskeldi í opnum sjókvíum. Þar er lagt til að  Alþingi álykti að fela matvælaráðherra að leggja til bann við fiskeldi í opnum sjókvíum við yfirstandandi endurskoðun laga um fiskeldi. Flutningsmennirnir sjö eru sex frá þingflokki pírata og einn frá Viðreisn.

Ísafjarðarbær: launakostnaður 873 m.kr. fyrstu þrjá mánuði ársins

Launakostnaður Ísafjarðarbæjar fyrstu þrjá mánuði ársins varð 873 m.kr. samkvæmt minnisblaði deildarstjóra launadeildar sem lagt var fram á síðasta fundi bæjarráðs. Er það 14 milljónum króna undir áætlun eða 1,6%.

Tveir málaflokkar skera sig úr og eru með langhæsta launakostnaðinn. Til fræðslumála var varið 420 m.kr. og til velferðarsviðs 166 m.kr. Liðlega tveir þriðju alls launakostnaðar fer í þessa tvo málaflokka.

Undir sameiginlegan kostnað eru færðar 74 m.kr. í launakostnað, æskulýðs- og íþróttamál taka 60m.kr. og hafnarsjóður 47m.kr.

Launakostnaður velferðarsviðs fyrstu þrjá mánuði er 9,2% lægri en áætlun gerði ráð fyrir og til fræðslumála fer 3,3% meira en áætlað var.

Tálknafjarðarhreppur: svarar ekki erindum – kært til innviðaráðuneytis

Eysteinseyri í Tálknafirði.

Við undirrituð Marinó Bjarnason og Freyja Magnúsdóttir ábúendur á Eysteinseyri undrum okkur á afgreiðslu sveitastjóra og oddvita Tálknafjarðarhrepps varðandi fyrirspurnar okkar þar sem við teljum að verið sé að ofrukka okkur um sorpgjöld frá 2019. Við vorum með samning við Gámaþjónustu Vestfjarða og síðan Kubb um sorphirðu og gerðum sveitastjóra grein fyrir því. Þrátt fyrir samtöl og  tölvupósta fengum við  hvorki svör eða leiðréttingu. Þess vegna leituðum við til lögfræðings sem hefur sent sveitafélaginu þrjú bréf, honum hefur ekki borist nein svör og þess vegna hefur hann lagt inn kæru vegna málsins til innviðaráðuneytis. Á okkur hafa verið lögð gjöld langt umfram aðra. Hörmum þessa framkomu í okkar garð og krefjumst þess  að gengið verði frá þessu máli strax.

Marinó Bjarnason

Freyja Magnúsdóttir

Eysteinseyri, Tálknafirði

Byggðastofnun: mikilvægustu atvinnuvegirnir á landsbyggðinni

Arnar Már Elíasson flytur erindi sitt.

Arnar Már Elíasson, forstjóri Byggðastofnunar, sagði í erindi sínu að á ársfundi Byggðastofnunar að á landsbyggðinni fari fram mikilvægustu atvinnuvegir Íslands, öll orkuöflun landsins, þar sé matvælaframleiðslan, öll stóriðjan og stærstur hluti ferðamennskunnar.

Landsbyggðin skipi því gríðarlega stórt hlutverk fyrir landið allt og Arnar Már sagði það hlutverk Byggðastofnunar að efla byggð og atvinnulíf þannig að í öllum landshlutum verði blómlegar byggðir og öflugir byggðakjarnar, þar sem stuðlað verði að bættum lífskjörum landsmanna og búsetufrelsi með sem jöfnustu aðgengi að grunnþjónustu, húsnæði og fjölbreyttum atvinnutækifærum. 

Í ávarpi Arnars Más kom einnig fram að Ísland sé eitt af fimm strjálbýlustu löndum veraldar með tæplega fjóra íbúa á hvern ferkílómetra. Þrátt fyrir allt þetta landsvæði búi um 80% landsmanna á suðvesturhorninu þar sem ríflega 300 þúsund búi á hinu svokallaða Hvítár-Hvítár svæði sem afmarkast af Hvítánum tveimur, þ.e.a.s. höfuðborgarsvæðið og Suðurnes upp að Borgarbyggð í vestri og að Árborg í austri.

Íbúaþéttleiki Hvítár-Hvítár svæðisins er um 36, þar búa um 36 íbúar á hvern ferkílómetra landsvæðis. Þéttleikinn er um 233 fyrir höfuðborgarsvæðið en einungis 0,8 fyrir landið allt utan þess.

Arnar Már ítrekaði mikilvægi tækninnar til byggðarþróunar t.d. til fjarfunda og eflingu óstaðbundinna starfa. Byggðastofnun muni róa öllum árum að því að efla framgang þess þar sem hér sé um að ræða eitt stærsta tækifæri í byggðamálum komandi ára.

Frá aðalfundinum í Bolungavík. Myndir: Jón Páll Hreinsson.

Enskumælandi ráð í Mýrdalshrepp er handhafi Landstólpans, samfélagsviðurkenningar Byggðastofnunar, árið 2024

Viðurkenningin var afhent á ársfundi Byggðastofnunar sem fram fór í Bolungarvík í dag og er þetta í þrettánda sinn sem viðurkenningin er veitt. Alls bárust 26 tilnefningar víða af landinu.

Íbúum í Mýrdalshrepp hefur fjölgað hratt undanfarinn áratug og er fjölgunin að stórum hluta borin uppi af innflytjendum en rúmlega helmingur íbúa í sveitarfélaginu er af erlendu bergi brotinn. Árið 2022 var enskumælandi ráð sett á laggirnar í Vík í ljósi þess að fjöldi erlendra íbúa á kjörskrá fjórfaldaðist í kjölfar breytinga á kosningalögum. Í stað þess að hafa þurft að búa á staðnum í fimm ár til að vera gjaldgeng í sveitarstjórnarkosningum þurfti eingöngu að hafa búið þar í þrjú ár.

Ráðið skipa sjö fulltruar af sex þjóðernum, sem endurspeglar hið fjölbreytta samfélag í Vík en þar býr fólk af um 20 þjóðernum. Viðtökur íbúa við ráðinu hafa verið góðar og var strax  mikill áhugi fyrir því að sitja í ráðinu. Hugmyndinni að ráðinu var komið út í umræðuna fyrir kosningar, haldnir fundir á ensku og kosningaefni gefið út á ensku og íslensku.

Mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri að ákvarðanatöku

Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri í Mýrdalshrepp segir að eftir þessar breytingar hafi tilfinningin verið sú að stór hluti samfélagins væri í raun frekar afskiptur og hefði hvorki rödd né tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri og taka raunverulega þátt í stefnumótunum og ákvörðunum. ,,Við erum með fjölmennan hóp erlendra íbúa sem  greiða fulla skatta til samfélagsins og hafa rétt til að kjósa til sveitarstjórna. Sökum aðstæðna hafa ekki allir sömu tækifæri til þess að læra íslensku í ljósi þess að enska er ráðandi tungumál í ferðaþjónustu sem er okkar stærsta atvinnugrein. Okkur þótti mikilvægt jafnréttismál að allir íbúar hefðu raunveruleg tækifæri til þess að eiga aðkomu að stefnumótun og ákvarðanatöku og enskumælandi ráðið er liður í því“ segir Einar Freyr.

Hann segir að þannig sé tryggt að nýir íbúar fái sitt pláss og geti nýtt sína rödd. „Markmiðið var þannig alltaf að leyfa röddum allra íbúa að heyrast, en það er ólíkt hvernig sveitarfélög nálgast þetta málefni. Það er skipað pólítískt í þetta ráð og greitt fyrir setu á fundum á sama hátt og í öðrum ráðum.  Við vildum taka þessu alvarlega og ekki missa þetta í einhvers konar krúttverkefni“ segir Einar Freyr og bætir við „Þetta er vissulega þróunarverkefni, við erumenn að móta verksviðið og málefni. Ráðið ber ábyrgð á málefnum nýrra íbúa í sveitarfélaginu en við vildum ekki afmarka þetta of mikið í byrjun.“

Aukin fræðsla til nýrra íbúa

Lögð hefur verið ahersla a að auka fræðslu til erlendra ibua  frá ýmsum stofnunum svo sem Almannavörnum, HSU og fræðsluneti Suðurlands til að miðla áfram þeirri þekkingu. Einar segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að ná utan um hversu mikið íbúar af erlendum uppruna þekkja til þeirrar þjónustu sem sveitarfélagið veitir, og þeir eigi rétt á sem íbúar sveitarfélagins.

Það hefur verið skemmtilegt að sjá hvaða áhrif þessar breytingar á kjörskránni hafa haft, allt í einu var t.d. ný líkamsrækt orðið hitamál í samfélaginu, eitthvað sem áður hafði ekki verið ofarlega í umræðunni en með tilkomu fjölbreytts og stækkandi hóps á aldrinum 20-40 ára komi kröfur um ákveðna þjónustu sem hafi kannski ekki verið ræddar áður. Enskumælandi ráðið aðstoði þannig við að sem flestir íbúar sveitarfélagsins geti haft áhrif á þá þjónustu sem verið er að veita. Einar Freyr telur að vel hafi tekist til í þessu verkefni.

Fannst ég loks tilheyra

Tomasz Chochołowicz formaður ráðsins tekur i sama streng. Hann sagðist í fyrstu ekki hafa trúað því hversu mikla áherslu ætti að leggja á stofnun þess.  “Ég var smá tíma að átta mig á því að Einari og öðrum í sveitarstjórn væri fúlasta alvara með stofnun ráðsins. Ég var búinn að búa í Vík í átta  ár en fannst ég aldrei  tilheyra að fullu eða geta haft einhver áhrif á samfélagið. Það er frábært að þarna sé kominn vettvangur fyrir íbúa af erlendum uppruna til að hafa áhrif innan stjórnsýslunnar og geta komið sínum hugmyndum á framfæri.“

Tomasz segir það hafa skipt sköpum að sveitarstjórinn og sveitarstjórnin öll hafi tekið virkan þátt frá upphafi. „Einar mætir á alla fundi ráðsins og segir okkur fréttir frá störfum sveitarstjórnar. Við getum á móti  deilt með honum hvernig umræðan er í samfélaginu, hvað brenni helst á þeim íbúum sem við erum í samskiptum við þvi það er mjög mikilvægt að geta talað svona beint saman.“

Því fleiri raddir, því betra

Tomasz segir það með vilja gert að hafa mörg þjóðerni innan ráðsins. Þannig gefi ráðið góða mynd af íbúum Mýrdalshrepps. Það er mikil íbúavelta í Vík og nágrenni, algengt að fólk komi og vinni í 3-4 mánuði og sé svo farið aftur. Þessu eru Einar og Tomasz sammála um að þurfi að breyta. Tomasz segir að nýir íbúar af erlendum uppruna fái sent bréf inn um lúguna, nokkurs konar móttökubréf. Í bréfinu má finna ýmsan fróðleik varðandi búsetu á Íslandi, svo sem hvernig sækja eigi um kennitölu, skattaupplýsingar og önnur atriði sem ráðið telur að gagnlegt sé fyrir nýja íbúa að vita sem fyrst. „Þetta eru upplýsingar sem auka lífsgæði fólks á nýjum stað, eitthvað sem allir þurfa að vita. Við erum lítið samfélag sem stækkar hratt og þurfum allar hendur á dekk. Það er þess vegna gríðarlega mikilvægt að nýir íbúar aðlagist samfélaginu sem best.“ Segir Tomasz Chochołowicz að lokum.

Landstólpann hafa hlotið einstaklingar, fyrirtæki og hópar sem þykja hafa skarað fram úr í verkefnum sínum og störfum. Markmið með  Landstólpanum er að efla skapandi hugsun og bjartsýni og er viðurkenningin  því hugsuð sem nokkurs konar hvatningar- og bjartsýnisverðlaun.

Öfugu megin uppí

Leikfélag Hólmavíkur heldur uppteknum hætti að setja árlega upp eina sýningu og þetta árið var það verkið Öfugu megin uppí eftir Derek Benfield sem varð fyrir valinu.


Leikritið segir frá Fríðu sem tekur að sér að gæta sveitahótels systur sinnar á meðan hún bregður sér í frí.

Það á ekki fyrir henni að liggja að eiga náðuga daga, því gestirnir eru af ýmsu tagi.

Þeir eiga þó sameiginlegt að vera í ævintýraleit og ætla aldeilis að gera sér glaðan dag og eiga góðar stundir.

Lokasýning er í Sauðfjársetrinu á morgun 18 apríl kl. 20:00

Nýjustu fréttir