Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 114

Hamrar Ísafirði: Ef allt væri skemmtilegt

Frá tónleikunum. Mynd: tonis.is.

Svava Rún Steingrímsdóttir var í gær með skemmtilegt verkefni með nemendum Tónlistarskólans.

Svava Rún er að ljúka námi í Skapandi tónlistarmiðlun í Listaháskóla Íslands og þetta var lokaverkefni hennar. Á námskeiðinu sömdu nemendur saman tónverk og fluttu, tónverkið nefndu þau Ef allt væri skemmtilegt.

Tónleikarnir voru hluti af barnamenningarhátíðinni Púkanum, sem stendur yfir þessa dagana.

Svava Rún verður með svipað námskeið á tónlistarhátíðinni Við Djúpið sem fer fram 17. – 22. júní nk. Námskeiðið er opið öllum. 

Viðtalið: Heiðrún Tryggvadóttir

Ég hef verið skólameistari Menntaskólans á Ísafirði í rúm 2 ár og það hefur verið skemmtilegt að fá að upplifa að stjórna menntaskólanum sem ég útskrifaðist sjálf frá. Reyndar má segja að MÍ hafi nánast alla tíð verið stór hluti af lífi mínu því foreldrar mínir, Guðrún Stefánsdóttir og Tryggvi Sigtryggsson, unnu þar lengi.

Í MÍ starfa 47 starfsmenn og nemendur eru 450. Af þeim eru 170 nemendur í dagskóla en síðan erum við með stóran hóp nemenda í starfs- og verknámi með vinnu og loks fjöldann allan af fjarnemum en allir bóklegir áfangar eru í boði í fjarnámi. Fjarnám var hluti af viðbragði skólans þegar nemendum fækkaði við styttingu náms til stúdentsprófs og hefur heldur betur vaxið með árunum.

Þó MÍ sé ekki mjög stór framhaldsskóli bjóðum við upp á fjölbreytt námsframboð sem við leggjum mikla áherslu á enda skólinn mikilvæg stoð í fjórðungnum. Núna bjóðum við upp á 11 starfs- og verknámsbrautir, iðnmeistaranám, starfsbraut og fjórar stúdentsprófsbrautir auk íþróttasviðs. Í haust förum við síðan af stað með hafbraut sem hefur verið í smíðum hjá okkur í rúmt ár. Það er þó ekki nóg að bjóða upp á fjölbreytt nám, við þurfum líka að geta boðið nemendum okkar upp á góðar námsaðstæður. Í nokkur ár höfum við barist fyrir bættri verknámsaðstöðu sem er nú loksins að verða að veruleika. Starfs- og verknámsnemum hefur fjölgað undanfarin ár og gaman að segja frá því að 51% dagskólanemenda okkar eru í slíku námi. Áformað er að byggja 1.000 fm byggingu við skólann og var mikill gleðidagur þann 4. apríl sl. þegar Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra kom og undirritaði samning við sveitarfélögin hér við Djúp, Árneshrepp og Reykhóla um bygginguna. Stefnt er að því að skóflustungan verði tekin í haust. Velvilji sveitarfélaganna sem og velvilji margra fyrirtækja og stofnana í nærsamfélagi skólans skiptir mjög miklu máli. Skólinn skiptir svæðið okkar líka miklu máli og við þurfum öll að sameinast um að hlúa að honum og styrkja svo hann haldi áfram að eflast og dafna.

Það er ákaflega skemmtilegt vinnuumhverfi í MÍ. Starfsmannahópurinn er mjög öflugur og samheldinn og við erum ákaflega heppin með nemendur. Það er alltaf nóg um að vera í skólastarfinu og í mínu starfi er enginn dagur eins sem mér finnst mjög skemmtilegt. Nýlega fengum við viðurkenningu í Stofnun ársins sem fyrirmyndarstofnun en þar vorum við í 2. sæti meðalstórra ríkisstofnana. Sömuleiðis fengum við nýlega tvo myndarlega styrki. Annars vegar til að setja upp sólarsellur við skólann til að nota í þverfaglegri kennslu og er það samstarfsverkefni með Bláma og Orkubúi Vestfjarða. Hins vegar fengum við styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála til að þróa verkefni sem snýr að inngildingu og fjölbreytileika sem er mikill innan skólans. Það er líka stutt síðan Sólrisa var haldin sem er mikil nemendahátíð haldin á hverju ári en henni lauk með uppsetningu leikfélagsins á Dýrunum í Hálsaskógi sem sló heldur betur í gegn. Á dögunum tóku síðan nokkrir nemendur þátt í Vörumessu Ungra frumkvöðla í Smáralind og þessa dagana eru nemendur og starfsfólk að taka þátt í nokkrum Erasmus+ verkefnum sem setja skemmtilegan svip á skólastarfið. Við erum nýbúin að vera með 27 manna hóp frá samstarfsskóla okkar í Frakklandi í heimsókn og erum að fara að taka á móti þremur dönskum nemendum frá samstarfsskóla okkar í Danmörku sem munu fara í starfsnám hjá byggingafyrirtækjum og Dokkunni. Starfsbrautin okkar heldur síðan eftir helgi í námsferð til Kaupmannahafnar.

Framundan eru merk tímamót í sögu skólans en í vor verða 50 ár liðin frá því að fyrstu nemendurnir útskrifuðust frá skólanum. Við ætlum að fagna þeim tímamótum við útskriftina í vor en daginn áður, föstudaginn 24. maí, ætlum við að bjóða gestum í heimsókn í skólann og líta inn í tíðaranda liðinna áratuga í nemendasögu skólans.

Það er því ekki hægt að segja annað en að það sé skemmtilegt að vera skólameistari. Ég verð að nota tækifærið hér og vekja athygli á efnilega og  flotta unga fólkinu okkar sem sækir skólann og ég þreytist ekki á að segja að það séu forréttindi að fá að starfa með ungu fólki á þeim miklu mótunarárum sem unglingsár eru. Fyrir okkur sem samfélag er ákaflega mikilvægt að við hlúum vel að unga fólkinu okkar og tryggjum þeim góða aðstöðu til íþrótta- og tómstundaiðkunar. Þar getum við gert betur og sem dæmi hafa nemendur hér á framhaldsskólaaldri enga aðstöðu til að hittast í utan skóla og ég skora á sveitarfélögin á svæðinu að bæta úr því.

Núna erum við Fjölnir Ásbjörnsson eiginmaður minn og synir okkar fjórir búin að búa hér fyrir vestan í bráðum 16 ár, fyrst í Holti í Önundarfirði og síðustu 9 árin á Ísafirði. Hér líður okkur ákaflega vel og  njótum þess að hafa fjölskyldu og vini nálægt okkur. Fjölskyldulífið hefur lengi litast af körfubolta en strákarnir okkar hafa allir æft körfubolta og tveir þeir yngstu eru enn að æfa á fullu með körfuknattleiksdeild Vestra. Ég er búin að vera í barna- og unglingaráði í körfunni mjög lengi sem er gefandi starf og í gegnum körfuna hef ég kynnst fullt af nýju fólki og eignast marga góða vini. Ég hvet alla foreldra til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi í kringum börnin sín því barna- og unglingastarf þarf svo sannarlega á sjálfboðaliðum að halda.

Framundan eru skemmtileg tímamót í lífi okkar hjóna en yngsti sonur okkar fermist eftir rúma viku. Við hlökkum mikið til þó það sé nokkuð sérstök tilfinning að fermingum í fjölskyldunni sé þar með lokið. Eldri strákarnir okkar þrír hafa allir fermst í Holtskirkju, sem er ein af fallegustu kirkjum landsins að mínu mati, og pabbi þeirra hefur fermt þá. Þannig vill sá yngsti líka fermast og við bíðum spennt eftir að fermingardagurinn renni upp.

Halla Hrund Logadóttir forsetaframbjóðandi heimsækir norðanverða Vestfirði um helgina

Um helgina ætlar Halla Hrund Logadóttir, forsetaframbjóðandi Íslands, sú sem kölluð hefur verið „spútnikframbjóðandi“ þessarar kosningabaráttu, að heimsækja norðanverða Vestfirði.

Halla Hrund hefur lagt áherslu á mikilvægi landsbyggðarinnar og er áhugasöm að fá að heyra hvað brennur helst á íbúum svæðisins enda mikilvægt fyrir forseta að skilja þarfir, áskoranir og tækifæri sem byggðir landsins standa frammi fyrir.

Halla Hrund hlakkar því til samtals við íbúa á opnum fundum og ræða hvernig best sé að takast á við stóru málin sem snerta bæði landsbyggðina og þjóðina í heild sinni.

Þegar hafa þrír fundir verið settir á dagskrá en ef aðstæður leyfa er líklegt að þeim muni fjölga.

Dagskráin nú er sem hér segir:

Föstudagur 19. apríl – Klukkan 18:00 í Gunnukaffi, Flateyri

Sunnudagur 21. apríl – Klukkan 13:00 í Verbúðinni, Bolungarvík

Sunnudagur 21. apríl – Klukkan 20:00 í Bryggjusal Edinborgarhússins á Ísafirði

Á fundunum mun Halla Hrund fara yfir það hvers vegna hún býður sig fram og sína sýn á embætti forseta Íslands í íslensku samfélagi og á alþjóðavettvangi. Þau sem hafa áhuga á að kynnast Höllu Hrund og framboði hennar betur eru hvött til að láta sjá sig!

Halla Hlakkar til fjörugrar helgar með tónleikum og Fossavatnsgöngu vestra.

Verið hjartanlega velkomin!

Vísindaportið: Sjálfbær þróun á Norðurlandi- Vettvangsrannsókn á Skjálfandaflóa

Maria Wilke heldur erindi í Vísindaporti dagsins um vettvangsrannsókn sem hún gerði og fjallar um gildi og viðhorf þeirra sem tengjast Skjálfandaflóa og hvernig þau gildi speglast í hugmyndum fólks um réttlæti og jafnrétti. Rannsóknin var unnin í samvinnu við stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem hluti af stærra JUSTNORTH verkefninu og styrkt af Horizon 2020 rannsóknar- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins.

Í erindi sínu mun Maria Wilke einnig kynna niðurstöður úr fyrstu rannsókn sem hún gerði varðandi hvernig gildi okkar endurspeglast á samfélagsmiðlum.

Maria Wilke lauk námi í sjávarbyggðafræðum frá Háskólasetri Vestfjarða og lauk nýverið doktorsprófi í frá Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hún gerði rannsókn á þátttöku almennings í skipulagi sjávar.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Fjármálaáætlun: 25% hækkun launa á þremur árum

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.

Fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029 að laun á hverja vinnustund hafi hækkað um fjórðung á síðustu þremur árum. Það er mun meiri vöxtur en í nágrannaríkjum. Þá hafi kaupmáttur launa á vinnustund frá 2013 hækkað um helming samkvæmt gögnum Eurostat.

Þenslan í þjóðarbúinu hafi ekki síst komið fram á vinnumarkaði og eftirspurn eftir vinnuafli er enn nokkru meiri en í venjulegu árferði þótt hún nálgist jafnvægi segir í áætluninni.

Þá birtist aukin efnahagsleg velsæld víðar en í vexti kaupmáttar. Þannig hafa skuldir heimilanna sjaldan á undanförnum áratugum verið lægri í hlutfalli við hvort heldur ráðstöfunartekjur þeirra eða eignir og eru á þessa mælikvarða hóflegar í samanburði við helstu nágrannalönd.
Eigið fé heimilanna hefur jafnframt aukist mjög á undanförnum árum – nánar tiltekið um 2.000 milljarða kr. milli áranna 2020 og 2022.

Slysaslepping Arctic Fish: frekari rannsókn gerð

Frá laxeldi í Patreksfirði.

Embætti Ríkissaksóknara hefur með ákvörðun dags 17. apríl 2024 fellt úr gildi ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum frá 19. desember 2023 um að hætta rannsókn á slysasleppingu úr kví Arctic Fish í Kvígindisdal í ágúst 2023 og hefur lagt fyrir lögreglustjórann að fullrannsaka málið og taka að því loknu ákvörðun um saksókn eða hvort látið verði við svo búið standa. Dröfn Kærnested saksóknari tók ákvörðunina.

Einn kærenda var landssamband veiðifélaga og sagði framkvæmdastjóri þess Gunnar Örn Petersen í viðtali við Stöð 2 þann 30. desember 2023 að vanhæfi lögreglustjórans á Vestfjörðum í þessu máli væri algjört. „Af ákvörðuninni að dæma er erfitt að sjá hvort er meira ráðandi að lögreglustjórinn sé almennt vanhæfur til að fjalla um svona mál vegna skorts á þekkingu á lögum og lögskýringum eða hvort hann sé sérstaklega vanhæfur í þessu máli vegna aðstæðna og hvort tveggja virðist eiga við þegar maður les ákvörðunina,“

Ekki er vikið að þessari vanhæfiskröfu í ákvörðun ríkissaksóknara, en henni er augljóslega hafnað þar sem lagt er fyrir lögreglustjórann á Vestfjörðum að fullrannsaka málið og taka svo ákvöðrun um framhaldið.

Matvælastofnun kærði niðurfellingu lögreglustjórans til Ríkissaksóknara svo og 27 aðrir aðilar. Kærður í málinu er Stein Ove Tveiten stjórnarformaður og forstjóri Arctic Sea Farm.

Ætlað brot er gegn 22. grein laga um fiskeldi. Þar segir að það varði stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa  sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar:
    a. ef eldisfiskur sleppur úr fiskeldisstöð þar sem umbúnaði við fiskeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi.

Í upphaflegri beiðni Matvælastofnunar til lögreglu var farið fram á að taka skýrslur af starfsmönnum og og afla frekari gagna svo unnt væri að taka ákvörðun um hvort sækja skyldi forstöðumenn fyrirtækisins til saka. Fram kemur hjá Mast að verklagsreglur um innra eftirlit hafi verið settar en aðbúnaði kvíarinnar hafi verið áfátt og að verklagsreglur hafi verið brotnar.

Í rökstuðningi lögreglustjórans á Vestfjörðum fyrir niðurfellingu málsins segir að gögn málsins beri ekki það með sér að sakborningurinn verði gerður ábyrgður fyrir ástæðum þess að gat myndaðist á kvínni. Skýringin sé líklega aðgæsluleysi áhafnar skipsins við slátrun. Og varðandi meint brot á ákvæði um ljósastýringu þá varði það sektum en ekki refsingu skv. umræddri 22. grein laga um fiskeldi.

Saksóknarinn í málinu, Dröfn Kærnested segir að framkvæmdastjóri og eftir atvikum stjórnarmenn beri ábyrgð á því að innra eftirliti sé sinnt og verklagsreglum fylgt. Óumdeild sé að fyrirtækið hafi sett sér verklagsreglur um innra eftirlit. Hins vegar liggi ekkert fyrir um að kærði eða aðrir sem bera refsiábyrgð samkvæmt 22. grein laganna hafi aðhafst til að tryggja að unnið væri eftir verklagsreglum. Er það því niðurstaðan að fullrannsaka beri málið.

Ísafjörður: bæjarstjóri vill ekki að bærinn eigi hlut í viðbyggingu hjúkrunarheimilisins Eyri

Hjúkrunarheimilið Eyri. Mynd: Heilbrigðisstofnun Vestfjarða.

Bæjarstjóri Ísafjarðabæjar, Arna Lára Jónsdóttir upplýsti í síðasta mánuði á verkkaupafundi með Framkvæmdasýslunni að hún teldi ekki forsvaranlegt að halda áfram hönnun nýbyggingar hjúkrunarheimilisins Eyri í óbreyttu fyrirkomulagi eignarhalds sem ráðgert er að verði þannig að ríkið greiði 85% og sveitarfélagið 15%.

Áætlað er að heildarstærð viðbyggingarinnar verði 689,3 m2 og verkframkvæmdir kosti 474 m.kr. með vsk. Í fundargerð segir að Arna Lára að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins sé erfið vegna reksturs hjúkrunarheimilisins. Hjúkrunarheimilið er rekin með miklum halla og ekki fæst aukalega fjármagn af hálfu ríkisins fyrir rekstur heimilisins.

Arna Lára var innt eftir því hvað hún ætti við með ummælum sínum. Í svari hennar segir að Ísafjarðarbær hafi farið fram á að það verði sama fyrirkomulag á eignarhaldi á Hjúkrunarheimilinu Eyri og á fyrirhugaðri nýrri viðbyggingu.

„Hjúkurnarheimilið Eyri er byggt eftir svokallaðri leiguleið en viðbyggingin er hugsuð sem sameiginlegt eignarhald af hálfu ríkis og sveitarfélaga (85/15) þar sem ríkið kemur með 85% og sveitarfélagið 15%.  Bent hefur verið á, að um verulega aukið flækjustig í rekstri fasteignarninnar ef mismunandi eignarform er um að ræða. Best fer á að einn aðili fari með eign, ábyrgð og rekstur á fasteigninni. Ég vil þó undirstrika þetta hefur engin áhrif á rekstur hjúkrunarheimilisins Eyri sem er í góðum höndum Heilbrigðsstofnunar Vestfjarða heldur snýst eingöngu um fasteignina sem slíka. Það hefur verið eindregin beiðni Ísafjarðarbæjar til Fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ríkið taki yfir eignarhald hússins enda eru hjúkrunarheimili verkefni ríkisins en ekki sveitarfélaga.“

Fram kemur í umræddri fundargerð að bæjarstjóri hafi átt samtal við fjármála- og efnahagsráðherra um að selja fasteignina. Þar segir: „henni var bent á leigufyrirkomulag um byggingu hjúkrunarheimilis. Formleg ákvörðun liggur ekki fyrir. GFS [Guðrún Fanney Sigurðardóttir fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins] benti ALJ á að fá skriflegt leyfi fyrir sölunni hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.“


Fyrsti rafbíllinn sem ekið er hringinn í kringum heiminn

Lexie ók nýjum Ford Explorer yfir marklínuna sem var í í frönsku borginni Nice

Á vefsíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda er sagt frá Lexie Alford sem setti á dögunum opinbert met með því að vera fyrsta manneskjan sem ekur í kringum allan heiminn á rafknúnu farartæki, nýjum Ford Explorer rafmagnsjeppa.

Ótrúleg ferð Ford Explorer rafmagnsjeppans náði yfir sex heimsálfur, en hann ók meira en 30.000 kílómetra í gegnum 27 lönd, eingöngu á raforku.

Baráttan við rafmagnsleysi í Afríku, skort á hleðsluinnviðum í Atacama-eyðimörkinni í Chile, óbyggða vegi, fjallaskörð og frost, sannaði heldur betur hversu mikið afrek ferðalagið var í rafknúnu ökutæki.

Farartækið sem Lexie keyrði var forframleiðsluútgáfa af Ford Explorer rafmagnsjeppa sem nú verður innan fárra daga hægt að panta á Íslandi. Á meðan á ferðinni stóð notaði hún margvíslegar hleðslulausnir, allt frá 2,2 kw riðstraumstengjum til DC hraðhleðslutækja og færanlegs rafhlöðupakka.

Hjúskapur og lögskilnaður 2023

Af þeim 4.870 einstaklingum sem stofnuðu til hjúskapar í þjóðskrá árið 2023 gengu 43% í hjúskap hjá Sýslumönnum, 33,9% hjá Þjóðkirkjunni, 12% hjá öðrum trú- og lífsskoðunarfélögum og 11% erlendis.

Þegar horft er á samanburð milli landshluta má sjá að miðað við hverja 1000 íbúa gengu flestir íbúar Austurlands í hjúskap á árinu 2023, þar á eftir íbúar Norðurlands vestra.  

Alls gengu 1.749 einstaklingar sem skráðir eru í Þjóðskrá frá lögskilnaði á síðasta ári. Þar af gengu 1.625 frá lögskilnaði sínum hjá sýslumanni, 100 gengu frá lögskilnaði sínum erlendis og 18 fyrir dómi.

Þegar horft er á samanburð milli landshluta má sjá að miðað hverja 1000 íbúa voru flestir lögskilnaðir á Suðurnesjum árið 2023, þar á eftir Norðurland vestra og loks Höfuðborgarsvæðið.

Bátasmíðanámskeið á vegum Baskavinafélagsins

Bátasmíðanámskeið verður haldið á vegum Baskavinafélagsins fyrstu viku í júní hjá Iðuni – fræðslusetri.
Námskeiðið mun standa í 3 daga, 3.-5. júní, og er ætlað fyrir trésmíðanema og áhugafólk um gamla báta.

Hafliði Aðalsteinsson og Einar Jóhann Lárusson eru nú að smíða „txalupa“, baskneskan léttabát og mun báturinn verða umfjöllunarefni námskeiðsins.
Xabier Agote forstjóri Albaola fornbátasafnsins sem er sérfræðingur í smíði baskneskra báta kemur og verður með erindi og leiðir vinnuna.

Báturinn verður ekki fullgerður og verður að loknu námskeiði þann 6. júní fluttur til Djúpavíkur þar sem hann verður til sýnis á Baskasetrinu.
Óskað er eftir umsóknum um þátttöku á námskeiðinu, en aðgangur verður takmarkaður. Námskeiðið verður án endurgjalds.

Nýjustu fréttir