Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 113

Aðalfundir Lýðskólans og Skúrinnar á Flateyri

Hér með er boðað til aðalfundar Skúrinnar ehf laugardaginn 4.maí kl 11.00 fundurinn fer fram á Bryggjukaffi á Flateyri.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem segir í 8.9.gr samþykkta félagsins:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar lögð fram

3. Reikningar lagðir fram til samþykktar

5. Kosning stjórnar og endurskoðenda eða skoðunarmanna

6. Ákvörðun um ráðstöfun hagnaðs eða taps

7. Ákvörðun um laun stjórnar

8. Önnur mál

Hér með er boðað til aðalfundar Lýðskólans á Flateyri laugardaginn 4.maí kl 11.30 fundurinn fer fram á Bryggjukaffi á Flateyri.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem segir í 6.gr samþykkta Lýðskólans:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Skýrsla stjórnar lögð fram

3. Reikningar lagðir fram til samþykktar

4. Lagabreytingar

5. Kosning stjórnar

6. Önnur mál

Boðið verður uppá súpu og brauð á meðan á fundi stendur.

SFS: Fjárfesting í fiskeldi aldrei meiri

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Fram kemur í fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í fiskeldi, SFS, að allt bendi til þess að fjárfesting í fiskeldi á árinu 2023 hafi verið sú mesta í sögunni. Nam fjárfestingin 13,1 milljarði króna á síðasta ári og varð 2 milljörðum króna hærri en árið 2022, þegar hún var 11,1 milljarður króna. Hafa fjögur síðustu ár verið metár í fjárfestingu með samtals um 40 milljarða króna fjárfestingu.

Segir í frétabréfinu að aukningin í framleiðslu undanfarinna ára hafi fyrst og fremst verið drifin áfram af laxi úr sjókvíaeldi á Vestfjörðum og á Austurlandi. Framleiðsla á landi hefur verið töluvert minni, en SFS segir horfur vera á verulegri aukningu í þeim efnum næsta áratuginn enda hafa miklar fjárfestingar farið til uppbyggingar landeldisstöðva sem áform eru um á Reykjanesi, Ölfusi og Vestmannaeyjum. 

útflutningsverðmæti 16 milljarðar króna

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam rúmlega 16 milljörðum króna nú á fyrsta ársfjórðungi 2024 og hefur aldrei verið meira í upphafi árs. Það er um 5% aukning á milli ára á föstu gengi. Hlutdeild eldisafurða í verðmæti vörútflutnings jókst töluvert á milli ára, eða úr 6,5% í 7,2%. 

„Miðað við ofangreinda þróun er ekki að undra að stjórnvöld hafi miklar væntingar um framtíðaruppbyggingu í fiskeldi hér á landi. Það mátti glögglega sjá í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir árin 2025-2029 sem nýr fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, kynnti nú í vikunni. Auk fiskeldis voru hugverkaiðnaður, tæknitengd þjónusta og skapandi greinar nefndar sem helstu vaxtabroddar útflutnings til framtíðar. Þegar öllu er á botninn hvolft má vera ljóst að vöxtur í fiskeldi er þjóðinni til heilla, enda hvílir efnahagsleg hagsæld Íslendinga, hér eftir sem hingað til, á öflugum og fjölbreyttum útflutningsgreinum.“

 

Mynd úr fréttabréfi SFS.

Forsetakosningar: Katrín með langmest fylgi á vestanverðu landinu

Katrín Jakobsdóttir.

Katrín Jakobsdóttir er með langmest fylgi forsetaframbjóðenda á vestanverðu landinu samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Er hún með 36,2% fylgi sem er heldur meira en fylgi hennar mælist á landinu öllu eða 31,4%. Maskína greinir fylgið eftir landshlutum og eru Vesturland og Vestfirðir tekin saman í eitt svæði. Fylgi Katrínar er hvergi meira en einmitt á Vesturlandi og Vestfjörðum. Næstmest fylgi hennar er 32,5% í Reykjavík.

Baldur Þórhallssson er í öðru sæti með 21,8% en heldur meira eða 24% á landinu öllu. Annars er fylgi hans mjög jafnt yfir landið. Á vestanverðu landinu er Halla Hrund Logadóttir í þriðja sæti með 13,5% og Halla Tómasóttir mælist með 11,6%. Yfir landið mælast þær með minna fylgi en þetta, Halla Hrund með 10,5% og Halla Tómasdóttir með 6,7%. Jón Gnarr er svo í fimmta sæti með aðeins 10,4% sem er miklu lægra en á landsvísu en hann mælist með 18,9% fylgi. Er fylgi hans langlægst á vestanverðu landinu og aðeins helmingur þess sem er á höfuðborgarsvæðinu.

Könnunin fór fram dagana 12. til 16. apríl 2024 og voru svarendur 1.020 talsins.

Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur, búsetu og menntun, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega segir í kynningu Maskínu.

Heill heimur af börnum í Grunnskólanum á Ísafirði

Frá setningu Menningarmótsins.

Nú er í gangi barnamenningarhátíð Vestfjarða, Púkinn. Í tengslum við hana hefur miðstigið í Grunnskólanum á Ísafirði tekið þátt í spennandi verkefni í vikunni sem ber heitið Heill heimur af börnum – börn setja mark sitt á Íslandskortið.

Þau Aðalheiður Orradóttir, Emilía Rós Sindradóttir, Matthías Kristján Magnason og Pétur Arnar Kristjánsson eru öll nemendur í 7. bekk á Ísafirði og tóku þátt í verkefninu. Þau voru sammála um að það væri áhugavert að taka þátt í verkefni sem þessu og það væri líka mjög gaman að fá inn hluti sem brytu upp skólastarfið og leyfðu þeim að spreyta sig á einhverju nýju. Aðspurð um hvað væri mikilvægt við vinnu bentu þau á að það væri mikilvægt fyrir þá sem stýra svona vinnu að hafa þátttakendur. Það er Kristín Vilhjálmsdóttir sem leiðir verkefnið og hefur hún mikla reynslu af slíkri vinnu bæði á Íslandi og í Danmörku.

7. bekkur: frá vinstri: Emilía Rós Sindradóttir, Aðalheiður Orradóttir, Pétur Arnar Kristjánsson og Matthías Kristján Magnason.

Í gær fór fram Menningarmót í skólanum þar sem börnin kynntu niðurstöður vinnunnar sem þau hafa átt í. Það var gríðarlegt líf og fjör á menningarmótinu. Frábært var að sjá hvað krakkarnir höfðu lagt sig fram og voru dugleg að sýna og segja frá. Verkefnið var fjölþætt, krakkarnir fundu þau gildi sem þeim þótti mikilvægust og bjuggu til úr þeim regnboga á fjölmörgum tungumálum sem nú hangir uppi í anddyri skólans, þau útbjuggu sólir þar sem þau settu inn allt það sem lætur þau ljóma, þau gerðu tímalínu þar sem þau settu inn það markverðasta frá lífi þeirra og settu saman fjársjóðskistu með hlutum sem hafa þýðingu fyrir þau.

Einnig svöruðu þau spurningunni hvað þau myndu gera ef þau væru forseti, en verkefnið er einnig liður í 80 ára afmæli lýðveldisins Íslands sem fagnað er í ár og eru það Safn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum sem fara fyrir því.

Krakkarnir sögðu það hafa verið miserfitt að gera hlutina í verkefninu, en sennilega hafi það verið snúnast að gera tímalínuna. Þennan hluta unnu þau heima og sögðu þau hafa verið hjálplegt að fá foreldra sína til að skoða þetta með sér. Þau sögðu það hafa verið skemmtilegt að fá tækifæri til að rifja svona upp og það hafi verið gaman að fá að sjá hjá hinum krökkunum hvað þau settu hjá sér og þannig kynnast hvert öðru betur.

Um mikilvægi þess að hafa barnamenningarhátíð á svæðinu sögðu krakkarnir það mikilvægt svo kynna mætti listir og menningu fyrir börnum og einnig til að þau fengju að vera þátttakendur í listsköpun.

Menningarmót: Krakkarnir útbjuggu meðal annars  sólir og fjársjóðskistur.

Sá besti

Kristján Rafn Guðmundsson

Hún verður vart eftirminnilegri, Fossavatnsgangan.

 Einmitt nú, þegar ræstur er hópur afreksmanna vítt úr heiminum.

Sem þrá það eitt að hlaupa tugi kílómetra með spíru undir fótum og handleggina bundna stöfum.

Tímamótin í ár eru ekki fjöldinn sem skíðar.

Það vantar einn.

Hér eftir.

Ég er alinn upp við sögur af afreksmönnum. Til sjávar og sveita. Frá fjöru og bryggju til fjalls. Snjóþungir vetur með  löngum nóttum  og dögum þar sem bátabylgjan tók fréttatímum framar. Biðin. Síðan ekki orð um það meir.

Svo lægði og birti.

Þá fóru að flæða yfir fréttir af fólkinu sem hélt til fjalla.

Lundin léttist við upptalningu  og lestur úrslita skíðamóta, að ekki sé talað um þegar flett var listum yfir afreksmenn fyrri ára.

Marta Bíbí, Karólína, Jón Karl, Haukur, Oddur, Gunnar, Ebbi, Kristinn Ben, Einar Valur, Árni Búbba, Hafsteinn,  Silli  svo einhverjir séu nefndir.

Stjörnurnar.

Í núi míns tíma tóku svo aðrar og miklu fleiri stjörnur við.

Í þá daga var eiginlega ekki búið að finna upp þetta nútíma hugtak sem ég nefndi áður.

 Stjörnur.

Ekki þessar fjarlægu, sem dvelja alla daga á miðlum nútímans. Allan sólarhringinn.

Í þá daga sáust þær í Gamla eða Ísól og þú mættir þeim eins og ekkert væri  í Aðalstrætinu eða í Iðunnarbúð.

Afrekssagan var við hvert fótmál. Það var óhjákvæmilegt að upplifa hana. Til Paradísar skíðamanna þurfti bókstaflega að keyra yfir hana. Um hlaðið á Grænagarði.

Það var úr mörgu að velja þegar leið að bílprófi. Ég heillaðist af afreksmanninum og langaði að kynnast honum. Hringdi og hann kom,  um síðir.

Hann tók kennsluna föstum tökum, um stund.

Þegar traust var unnið urðu þetta stundir sagna. Sannra, en eins og ég komst að síðar, teygðra og allt að því loginna. Hvaða máli skiptir það. Enginn rétti tíu fingur upp til guðs í þessum ferðum.

Svo var það Trausti Bjarna sem gaf þessum haustrúntum líf með ökuskírteini sem enn gildir.

Þegar við áttum samleið undir merkjum Þorvarðar Kjerúlfs,  urðum við sem einn. Hans sýn var sú að allir ættu annan möguleika, eða séns, eins og það heitir nú. Hvað sem á dundi var hugsunin ávallt sú sama. Menn voru að misstíga sig. Hrasa. Þeim þurfti að hjálpa á fætur aftur.

Það er ótrúlegur fjöldi, sem á þessari einföldu reglu hans,  eiga mannorð sitt að þakka.

Jón úr Vör sagði réttilega að það þyrfti heilt þorp til þess að ala upp barn. Til eru hins vegar dæmi um menn sem  einir og sér ala upp heilt þorp barna með ástríðu sinni.

Hundruðum saman renna nú í mark, skíðamennirnir.  Fagna árangrinum. Fossavatnsgangan að baki.  

Utan eins.

Þess kappfyllsta, sigursælasta, hjálpsamasta og umfram allt, hins besta.

Kitta Muggs.

Halldór Jónsson

Vortónleikar Karlakórsins Ernis

Karlakórinn Ernir heldur tónleika í Félagsheimilinu í Bolungarvík sunnudaginn 21. apríl, kl 16:00 og í Ísafjarðarkirkju kl 20:00

Á efnisskrá eru að stórum hluta lög sem tengjast Vestfjörðum með einum eða öðrum hætti, auk nokkurra velþekktra laga af öðrum slóðum.

Stjórnandi: Jóngunnar Biering Margeirsson
Meðleikari: Mikolaj Frach
Einsöngvari: Emil Ólafur Ragnarsson

Úthlutað úr sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæjar

Úthlutað hefur verið úr sumarviðburðasjóði hafna Ísafjarðarbæjar. Þetta er í fyrsta sinn sem sjóðurinn veitir styrki og var áhersla lögð á viðburði á tímum er skemmtiferðaskip eru í höfn í sveitarfélaginu. Markmiðið með úthlutununum er að styrkja og bæta bæjarbraginn í tengslum við skemmtiferðaskipakomur.

Heildarupphæð til ráðstöfunar var 5.000.000. kr. 22 umsóknir bárust þar sem sótt var um fyrir rúmar 16 milljónir króna og var ákveðið að veita eftirfarandi 12 verkefnum styrk í þessari úthlutun:

Miðvikuröð, Skúli Þórðarson, 800.000 kr.
Hljómórar syngja fyrir ferðamenn í Neðstakaupstað, Jóngunnar Biering Margeirsson, 800.000 kr.
Flæðisker — Opin myndlistarsýning í Tungu, Rannveig Jónsdóttir, 500.000 kr.
Around Þingeyri in 80 minutes, Kómedíuleikhúsið atvinnuleikhús Vestfjarða, 500.000 kr.
Leiðsögn um listasýningar, Edinborgarhúsið, 400.000 kr.
Hádegisjazz Edinborgarhússins, Edinborgarhúsið, 400.000 kr.
Skemmtiferðavænt Gefum íslensku séns — Túristar bjóða góðan daginn, Háskólasetur Vestfjarða fyrir hönd Gefum íslensku séns, 400.000 kr.
Gosi — Hádegistónleikar, Andri Pétur Þrastarson, 300.000 kr.
Steinamálun, María Lárusdóttir, 300.000 kr.
Íslenskir trúbadorar á torginu, Árni Heiðar Ívarsson og Fjölnir Ásbjörnsson, 250.000 kr.
Leikið á safnkostinn, Byggðasafn Vestfjarða, 200.000 kr.
Trúbadorinn undir berum himni, Steingrímur Rúnar Guðmundsson, 150.000 kr.

Sjóðurinn er liður í stefnu Ísafjarðarbæjar um móttöku skemmtiferðaskipa. Honum er ætlað að styrkja menningu og félagslíf í bænum og einnig að styrkja sjálfstæð verkefni sem efla hafnir Ísafjarðarbæjar sem áfangastað.

Patreks­skóli fær Nýsköp­un­ar­lyk­ilinn

Arna Vilhjálms­dóttir, umsjón­ar­kennari á unglinga­stigi Patreks­skóla tók á móti viður­kenn­ing­unni fyrir hönd skólans á ráðstefnu Ásgarðs í Hofi á Akur­eyri um síðast­liðna helgi.

Nýsköpunarlykillinn er ekki bara verkefnabanki heldur fylgir gæðahandbók fyrir grunnskóla sem vilja staðfesta annaðhvort með ytra mati eða innra mati að þeir geti kallað sig Nýsköpunarskóla.

Gæðahandbókin er opin á heimasíðu Nýsköpunarlykilsins, en það er líka hægt að óska eftir heildstæðri úttekt á stöðu hvers skóla fyrir sig. Skólar geta öðlast vottunina Nýsköpunarskóli og borið Nýsköpunarlykilinn til þriggja ára.

Eitt af stóru verkefnum hvers skóla er að sýna fram á með innra mati hvernig gæða skólastarfi er háttað. Í nýrri menntastefnu menntamálaráðherra kemur skýrt fram að þegar til framtíðar litið verða gæði í forgrunni.

Gæðaviðmið Nýsköpunarlykilsins byggja á handbók menntamálastofnunnar um gæðastarf í grunnskólum og norrænu gæðaviðmiðunum „Frá draumi til veruleika“.

Lítil hefð er fyrir því á Íslandi að grunnskólar skreyti sig með gæðaúttektum en hér skapast tækifæri til þess að skólar geti óskað eftir slíkri úttekt og fengið formlega staðfestingu á því að viðkomandi skólar geti kallað sig Nýsköpunarskóla.

Saga hékk í tuttugu mínútur og sló Íslandsmet

Nemendur Grunnskólans á Ísafirði tóku þátt í undanriðli 4 í skólahreysti í gær og höfnuðu í 6.sæti af 12, með 46 stig.

Fyrir hönd skólans  kepptu þau Dagný Emma Kristinsdóttir, Hilmir Freyr Norðfjörð, Kristján Hrafn Kristjánsson og Saga Björgvinsdóttir. Til vara voru þau Friðrikka Líney Sigurðardóttir og Stefán Eyjólfsson. 

Saga sló ársgamalt Íslandsmet í hreystigreip í Skólahreysti þegar hún hékk í tuttugu mínútur

Hékk í tuttugu mínútur og sló Íslandsmet – RÚV.is (ruv.is)

Áður átti Ester Katrín Brynjarsdóttir Íslandsmetið, en hún hékk í sautján mínútur og tuttugu sekúndur í fyrra.

Ákall Helgu Þórisdóttur til landsmanna

Helga Þórisdóttir.

Helga Þórisdóttir hefur kallað eftir stuðningi landsmanna og að fólk mæli með sér á island.is svo að rödd hennar fái að heyrast.

Ákallið hefur hún sett meðal annars á Facebook síðu sína.

Sjá  https://fb.watch/rwNleuJxo5/ 

Nýjustu fréttir