Þriðjudagur 10. september 2024
Síða 112

Ólafur Friðbertsson ÍS 34

Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Ljósmynd Sigurður Jóhannesson

Ólafur Friðbertsson ÍS 34 siglir hér inn Súgandafjörðinn til hafnar á Suðureyri.

Ólafur Friðbertsson ÍS 34 var smíðaður Flekkefjord í Noregi 1964 fyrir Súgfirðinga og sagði svo frá komu hans í Vesturlandi 28. apríl 1964:

Á sumardaginn fyrsta kom nýr vélbátur til Súgandafjarðar, Ólafur Friðbertsson ÍS 34. Þetta er 193 lesta stálbátur, smíðaður í Flekkefjord í Noregi, og er þetta sjötti báturinn, sem skipsmíðastöðin smíðar fyrir Íslendinga.

Báturinn er með 495 ha. Lister-vél og ljósavél af sömu gerð. Ganghraði í reynsluför var 10,5 sjm. Báturinn er búinn fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum.

Eigandi bátsins er Von hf. á Suðureyri, en að því standa Ólafur Friðbertsson skipsstjóri á Suðureyri og synir hans. Skipstjóri á bátnum er Filip Höskuldsson, 1. stýrimaður Einar Ólafsson og 1. vélstjóri Jón H. Jónsson.

Báturinn var 4 1/2 sólarhring frá Flekkefjord með viðkomu í Færeyjum, og tafðist hann á heimleiðinni vegna veðurs. Reyndist báturinn ágætt sjóskip.

Ólafur Friðbertsson kom til Ísafjarðar á föstudag og fór mikill mannfjöldi um borð að skoða þetta nýja og glæsilega fiskiskip.

Svo mörg voru þau orð en Ólafur Friðbertsson ÍS 34 var gerður út frá Súgandafirði til ársins 1982 er hann var seldur til Keflavíkur.

Þar fékk hann nafnið Albert Ólafsson KE 39 en í frétt Víkurfrétta 26. ágúst 1982 um breytingar á bátaflota Suðurnesjamanna sagi m.a:

„Þá hafa þeir feðgar Óskar Ingibersson og Karl Óskarsson fengið nýjan Albert Ólafsson KE 39, 180 tonna yfirbyggt fiskiskip, sem áður hét Ólafur Friðbertsson frá Suðureyri.

Skip þetta var yfirbyggt af Vélsmiðjunni Herði hf. við bryggju í Sandgerði fyrir nokkrum árum. Eldri Albert Ólafsson hefur verið seldur til Vestmannaeyja þar sem hann ber nú nafnið Skúli fógeti. Hann er 47 tonna eikarbátur“.

Albert Ólafsson KE 39 fór í miklar breytingar árið 1992 þar sem hann var m.a lengdur um fimm metra, ný brú, skorsteinshús, frammastur og bakki. Þá var sett í hann veltitankur sem var nýung á þeim tíma.

Albert Ólafsson fékk síðar nafnið Kristrún RE 177 og að lokum Kristrún II RE 477 og var í eigu Fiskkaupa í Reykjavík.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

50 ár frá fyrstu útskrift úr Menntaskólans á Ísafirði

Nú í vor hefur Menntaskólinmn á Ísafirði útskrifað nemendur í 50 ár.
Þessum merka áfanga verður fagnað dagana 24 og 25 maí n.k.

Föstudaginn 24. maí verður boðið upp á innlit í nemendasögu skólans frá kl. 17:00-20:00.

Laugardaginn 25. maí verður brautskráning í Ísafjarðarkirkju kl. 13:00 og útskriftarfögnuður um kvöldið í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í útskriftarfögnuðinum fyrir 15. maí 

Lögréttutjöldin aftur til sýnis á Íslandi eftir 166 ár

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ásamt forsetahjónunum Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, heimsóttu skoska þjóðminjasafnið í opinberri heimsókn í Skotlandi í síðustu viku.

Meðal verkefna ráðherra var að heimsækja skoska þjóðminjasafnið og berja þar augum hin svo kölluðu íslensku lögréttutjöld sem safnið hefur samþykkt að lána til íslenska þjóðminjasafnsins í tilefni 80 ára afmælishátíðar lýðveldis á Íslandi.

Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum mun sýna tjöldin sem eru talin hafa hangið í Lögréttuhúsinu á Þingvöllum á síðari hluta 18. aldar og því næst á Bessastöðum til 1858 þegar þau voru seld skoskum ferðamanni að nafni Robert Mackay Smith.

Lögréttutjöldin eru í raun tvö mislöng rúmtjöld úr ull og líni sem hafa verið saumuð saman eftir langhliðinni. Þau eru skreytt með útsaumi og áletrunum. Á öðru eru spakmæli en brot úr passíusálmi eftir Hallgrím Pétursson á hinu. Sýningin á tjöldunum verður sett upp í Horninu, Suðurgötu á þjóðhátíðardaginn og mun standa í eitt ár.

Breytingar á örorkulífeyriskerfinu

 Félags- og vinnumarkaðsráðherra, kynnti í dag viðamiklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu undir yfirskriftinni „Öll með“. Markmið breytinganna er að einfalda örorkulífeyriskerfið, draga úr tekjutengingum og gera kerfið réttlátara. 

Fyrirhugaðar breytingar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi. Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.

Reiknivél hefur verið opnuð vegna fyrirhugaðra breytinga á örorkulífeyriskerfinu.

Þar getur fólk borið saman hvað það fær í örorkulífeyri í núverandi greiðslukerfi og hvað það myndi fá í nýju greiðslukerfi.

Ísafjörður: Réttarholtskirkjugarður stækkaður

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að hefja skipulagsvinnu við stækkun kirkjugarðsins á Réttarholti í Skutulsfirði.

Ekkert deiliskipulag er í gildi fyrir kirkjugarðinn. Gert er ráð fyrir að breyta aðalskipulagsinu og gera samhliða nýtt deiliskipulag fyrir kirkjugarðinn.

Markmið Ísafjarðarbæjar með skipulagsgerðinni er að tryggja nægt framboð legstaða í Skutulsfirði fyrir öll trúfélög. Einnig að tryggja að framkvæmdir valdi sem minnstum neikvæðum áhrifum á umhverfið og að vandað verði til umhverfisfrágangs.

Skipulagssvæðið tekur til Réttarholtskirkjugarðs og aðliggjandi svæðis til suðurs og vesturs. Svæðið er um 4,5 ha að stærð og er allt í eigu Ísafjarðarbæjar. Sunnan við garðinn eru tún sem til skamms tíma voru nýtt fyrir frístundabúskap í Engidal. Skipulagssvæðið er í 8-12 m hæð yfir sjávarmáli og stendur talsvert hærra en aðliggjandi land að norðan, austan og sunnan.

Gert er ráð fyrir að vinnslutillögur verði auglýstar í apríl og að skipulagstillögur verði auglýstar í maí – júní. Gert er ráð fyrir að breyting aðalskipulagsins og nýtt deiliskipulag geti tekið gildi í haustið 2024.

Básar Ísafirði: sjávarréttaveisla á laugardaginn

Hin árlega og ljúffenga sjávarréttaréttaveisla Kiwnisklúbbsins Bása verður haldin laugardaginn 27. apríl í Kiwanishúsinu á Skeiði Ísafirði. Veislan verður með breyttu og betra sniði en áður. Í boði verða saltfiskur og saltfiskréttir ásamt öðrum hefðbundnum fiskréttum, Einnig verða í boði réttir með asísku ívafi frá listakonunum á Thai Tawee. Þetta lætur enginn fram hjá sér fara sem vill gæða sér á góðum og ljúffengum mat.

Þessi veisla er ein af stærri fjáröflunum Kiwanisklúbbsins Bása svo það er um að gera að mæta, njóta og um leið styðja við góð málefni.

Hugleiðingar ellilífeyrisþega um landsmálin og orkumálin

Víst er hún skondin tík þessi pólitík, ég er oft hugsi yfir þingmönnum okkar sem eru lýðræði landsins vægt sagt dýrir í rekstri og stundum jafnvel óþarfir þar sem reynsluleysi þeirra og hroðvirkni er himinhrópandi. Þar er öll gullhúðunin gott dæmi, einnig allskyns regluverk sem sett hefur verið og þingheimur skilur illa og ræður ekki við, þetta allt er farið að minna á þjóðsöguna um orminn sem lá á gullinu og að lokum gleypti eigandann.

Það eru því miður alltof mörg dæmi um að lög séu illa og hroðvirknislega unnin, þar sem þetta vesalings þingfólk í dýrasta leikhúsi landsins, sér ekki út fyrir borðstokkinn á skútunni, það er reynsluleysi þessa fólks, ómældur hroki, ofmat á eigin ágæti, ásamt skammsýni sem er um að kenna, þó það sé upp til hópa vel menntað, en flest hefur lítið eða ekkert nema námið á bak við sig, ( það jafnast nefnilega fátt á við reynslu í lífinu ). Ekki vantar að flestir geti flaggað háskólagráðum eins og Georg Bjarnfreðarson gerði í vinsælli sjónvarpsseríu. Upphlaupin og orðræðan eru ekki svo ólík. Svo þurfa þessi vesalings leikskólabörn sem sitja í sandkassanum við Austurvöll að hafa aðstoðarfólk til að sinna snattinu og skítverkunum, þetta aðstoðarfólk ætti að vera á launum hjá þingmönnunum sjálfum en ekki á kostnað almennings, ég er nokkuð viss um að þá væru aðstoðarfólkið mun færra. Þingmenn þurfa einfaldlega bara að að vinna vinnuna sína. það mætti líka stundum kalla Alþingi „leikhús fáránleikans“ svo vitnað sé beint í formann Viðreisnar, eða trúðasamkomuna í sandkassanum við Austurvöll, því þannig kemur Alþingi almenningi fyrir sjónir í fréttaflutningi fjölmiðla. Einnig finnst mér umhugsunarvert hvað lítill vinnufriður er á þessum vinnustað frá stjórnarandstöðuni það er verið að spyrja um hina furðulegustu hluti svo ekki sé meira sagt. Þarna er dýrmætum tíma sólundað ( hver klukkustund kostar þjóðina tæpa hálfa milljón í þingfararkaup) í innihaldslaust þvaður sem oftast er lítið annað en persónulegt skítkast. Mér finnst að háskólagráðan hafi farið illa í hausinn á sumum þingmönnum og þeir mættu sumir temja sér meiri hæversku í orðavali,  (orðbragðið er ekki ósvipuð og hjá Georg Bjarnfreðarsyni í sjónvarpsþáttunum), er þetta e.t.v. kennt í Háskólanum? Það er vel hægt að vera ósammála án þess að vera með persónulegar dylgjur og jafnvel dónaskap. En eru þessir orðhvötu þingmenn og konur ekki oft að kasta steinum úr glerhúsi?. Við skulum ekki vera að nefna fortíðina hjá þeim.

Væri Alþingi rekið eins og venjulegt fyrirtæki væri örugglega búið að segja allflestum að taka pokan sinn og reyna ekki að falast eftir vinnu þarna aftur.

            Það er verulega ljótt að hugsa, hvað þá segja og skrifa, værum við ekki jafnvel betur komin undir erlendri stjórn? ( Færeyjar eru gott dæmi ) eða þá að ráða framkvæmdastjóra sem kann að reka fyrirtæki og fámenna stjórn til að stýra landinu. Hér er flækjustigið svo mikið að ekkert er hægt að gera fyrir allskonar uppákomum og kærum, ekki virðist ríkisstjórn og Alþingi ráða of vel við  verkefnið. Ísland í heild er ekki stærra en fyrirtæki úti í hinum stórra heimi.

            Það er með ríkissjóð eins og heimili landsins að hann þarf að reka af hagsýni og ábyrgð. Þess vegna er það sífellt undrunarefni hvað þingheimur og þá sérstaklega stjórnarandstæðingar á hverjum tíma, þetta á við um alla flokka og flokksbrot, sem hafa komið löppum innfyrir þröskuld í langdýrasta leikhúsi landsins kalla á fjárveitingar í hitt og annað, sumt eru þörf málefni en annað hreinlega óþarfur vitleisisgangur og gæluverkefni. Einu gildir hver er við stjórnvölinn því þegar komið er í minnihluta virðist allt sem sömu aðilar áður hafa sagt um ráðdeild og aðhald vera gleymt.

Verst er að ekki er hægt að treysta því að þingheimur muni hvað sagt var í kosningabaráttunni því það þurrkast út í þinghúsloftinu þegar inn er komið.

            Hvað gera heimilin í landinu þegar ekki er til fé til að gera hlutina? Þá er hagrætt svo endarnir nái saman, ef hægt er unnið meira, því ekki geta þeir sem ábyrgð bera á heimilinu gert eins og ríkissjóður að seilast í vasa skattborgarana til að borga brúsann. Þetta mættu þingverjar hafa í huga og taka alvarlega. Á meðan eldri borgurum og öryrkjum landsins er hegnt með skerðingum á lífeyri, sem við eigum fullan rétt á enda allir löngu búnir að ávinna sér þessar lífeyristekjur með æfistarfi sínu, upphaflega voru lífeyrissjóðstekjur kynntar sem hrein viðbót við almannatryggingarnar en ekki hluti þeirra. Hverjir lögðu grundvöllin að þjóðfélagi okkar dag?     Það eru einmitt þeir sem nú er refsað með allskonar skerðingum eftir að hafa byggt upp þjóðfélagið eins og við þekkjum það. Þegar umræddar skerðingar eru ræddar í sandkassanum er alltaf talað um kostnað ríkissjóðs, það er aldrei minnst á að af þessum útgjöldum fær ríkissjóður uppundir 7 af hverjum 10 krónum til baka í allskonar sköttum. Ríkissjóður hefur ekki efni á að sólunda tugum milljarða í verkefni sem mikið hefur farið fyrir í umræðuni, það er skólabókardæmi um skammsýni þingheims. Nær væri að svelta  heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngukerfið, landhelgis og löggæstu aðeins minna svo eitthvað sé nefnt. Lái mér hver sem vill að hafa þessa skoðun, næg eru verkefnin. Og nota svo allt sem kemur inn í gegnum umferðina til að bæta samgöngur í stað þess að nota aðeins um þriðjung. Getur það ekki kallast skattheimta á röngum forsendum? eiga ekki skattekjur að nýtast þar sem til þeirra er stofnað?.

            Mér finnst velflestir ef ekki allir búnir að gleyma Icesafe fárinu þegar stjórn Samfylkingar  og Vinstri grænna ætluðu að láta þjóðina borga allt heila klúðrið, en forsetinn, gamall flokksbróðir og samherji fjármálaráðherra stoppaði þessa vitleysu, þá var þungur svipur á fjára sjálfum, þjóðin greiddi síðan athvæði um afarkostina og kolfelldi í tvígang, síðar vannst málið fyrir dómstólum. Þjóðin var fljót að gleyma því hver var viðskiptaráðherra þegar hrunið varð, hann var og er Samfylkingarmaður, og var jafn duglegur að dansa kringum gullkálfinn eins og samráðherrar hans. En hann slapp við Landsdóm einhverra hluta vegna (sennilega fyrir plott Steingríms og Jóhönnu). Þess vegna tek ég öllu með miklum fyrirvara sem Samfylking og Vinstri græn segja, svo ekki sé minnst á steypufroðuna sem vellur úr Pírötum og evrubarlóm Viðreisnar sem er ekkert annað en að þeir eru óbeint að segja að þeir geti ekki stýrt landinu. Ekki má gleyma hinum flokkunum sem ónefndir eru, það skortir ekkert á orðaflóðið hjá þeim öllum þeir tala allir sitt í hvora áttina, um sama hlutinn, (einhvern tíman hefði þetta verið kölluð munnræpa).                                                 Fyrir nokkrum árum las ég í einhverju blaði um þá skoðun að landsfjórðungarnir ættu sjálfir að hafa umráð yfir stærstum hluta af skattfénu sem til verður á viðkomandi svæði, og hafa seinasta orðið um nýtingu allra auðlinda svæðisins. Er virkilega svo illa komið að þjóðin í heild geti ekki treyst Þingmönnum til að fara með þessi mál?. 

Mér finnst að þjóðin megi muna eftir þessu, því þarna sannast, að það er sami rassinn undir öllum þessum stjórnmálamönnum, þeir skipta um skoðun eins og ekkert sé eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Verst er að það er enginn valkostur um ábyrga stjórnmálamenn,  þess vegna gildir einu við hvað er merkt á kjörseðlinum. Þeir muna aðeins á fjögurra ára fresti fyrir hverja þeir eru að vinna, þá lofa þeir öllu fögru fyrir kosningarnar, en minnið er ansi gloppótt því kjördagurinn er ekki liðinn þegar allt er gleymt. Svo vilja stjórnmálamenn  að fyrir þeim sé borin virðing.

Svo svona í lokin aðeins um orkumálin.

            Í mínum huga þurfum við að virkja allt það vatnsafl vindafl og gufu utan eldvirka beltisins sem tiltækt er. Í sjónvarpinu fyrir ekki allöngu var minnst á einmitt þetta atriði þar kom fram hjá jarðvísindamönnum að það væri  ekki spurningin hvort náttúruöflin vakna, heldur aðeins hvenær að því kemur. Og er ekki Reykjanesið og svæði því tengd farin að rumska? Þá er gott að eiga aflstöðvar utan eldvirka beltisins svo  eitthvað rafmagn verði tiltækt, landsmenn hafi þá allavega ljóstýru og rafmagn  á tölvurnar svo hægt sé að skrifa draumóraskýrslur og hafa hita, því án rafmagns er hitaveitan að mestu óstarfhæf.  Á höfuðborgarsvæðinu er aflið sem hitaveitan þarf að skaffa brátt komið yfir þrjár Kárahnjúkavirkjanir,  og rennslið í gegnum ofna höfuðborgarsvæðisins á köldum degi er svipað eða meira en rennslið í Elliðaánum, svo finnst mér vera afskaplega illa farið með heitavatnið hér í höfuðborginni.

En tvískinnungur, vanþekking og innantóm upphróp og hræsni þeirra sem tala fyrir náttúruvernd er þvílíkur að það hálfa væri nóg. Það er ekki nóg að vilja jarðefnaeldsneytið burt, og segja einungis „það þarf bara að slökkva á einu Álveri“, raforkusamningar slíkra fyrirtækja eru til langs tíma og kosta orkuframleiðandan stórfé ef  útaf er brugðið, svo veita þessi fyrirtæki fjölmörgum vinnu beint og óbeint einnig skaffa þau umtalsverðan gjaldeyri, eru landsmenn tilbúnir að borga þann reikning?, ég held ekki.

            Það er dagsatt að loftlínurnar eru ekkert augnayndi en samt eru þær skárri en strengur sem flytur sama afl, Þar sem svona aflstrengur er lagður er skipt um jarðveg, við það verður til um 6 m breiður vegslóði sem ekki er hægt að nota sem þjóðveg. Svo er ekki útilokað að sandurinn okkar sé of mikið einangrandi og flytji þar með ekki varmann nógu hratt frá þessum stóru aflstrengjum, það kostar örugglega stórfé ef flytja þarf inn sand sem uppfyllir varmaflutnings þörfina. Svo framleiða strengir sem eru reknir á 130 KV eða hærri spennu nálægt því 10 sinnum meira launafl en sambærileg loftlína og því þarf að eyða svo eitthvað komi út úr strengendanum, það er gert með stóru spóluvirki sem reisa þarf með reglubundnu millibili meðfram lagnaleiðinni. Verði hinsvegar launaflið ráðandi í kerfinu geta virkjanirnar ekki haldið kerfinu stöðugu.                                         Það er rafeðlisfræðileg staðreynd og lögmál sem meira að segja friðunarsinnar fá engu ráðið um. Byggðalínuhringurinn og álmur út frá honum eru það veik tenging, að það virkar í dag eins og einskonar teygjuband á samtengingar virkjana milli landshluta svo er flutningsgetan ekki næg.

            Svo er það sýnileikinn, strenglögnin (lagnaleiðin) er og verður sýnileg um langa framtíð, en verði loftlína óþörf er einfalt að taka hana niður þá sést ekkert hvar hún var þ.e.a.s. afturkræf framkvæmd.

Islendingar nota mikla raforku og hana þarf að flytja misjafnlega langar vegalengdir, til þess þarf flutningsmannvirki sem yfirleitt er háspennulína að borgar/bæjarmörkum og  strengir innanbæjar.

Er almenningur tilbúinn að greiða mun hærra verð en nú er og leggja jarðstrengi með tilheyrandi slóðum og spóluvirkjum. Svo ef strengur bilar getur tekið viku að staðsetja bilun og a.m.k aðra að gera við, en á loftlínuni sést hvar bilun er og tekur oftast innan við sólarhring að gera við. Er almenningur í jafnvel heilum landshluta eða bæjarfélagi tilbúinn að vera í myrkri og kulda meðan gert er við og hvort er betra að vera rafmagnslaus í sólarhring eða svo, eða jafnvel í tvær vikur +?.

            Er það virkilega svo illa komið fyrir okkur að reisa þurfi Kjarnorkuver til að leysa orkuskortinn í stað þess að byggja vatnsaflstöðvar, vindmillur, sjávarfallastöðvar og jarðgufustöðvar

til sömu nota, það finnst mér persónulega ótækt þegar kappnóg er til að vatni, vindi, gufu og sjávarfallastraumum utan eldvirka beltisins sem bíða þess eins að gera gagn.

            En til að tryggja sér raforku í bilanatilfellum þegar aðeins er ein flutningsleið er að viðkomandi svæði ekki annað til ráða en að kaupa stórar dieselvélar sem nota nokkur hundruð lítra af dieselolíu hver á klukkustund. Hver klukkustund þegar Mjólkárlína (Þar þekki ég best til eftir um 40 ára starf sem vélstjóri og rafvirki) er úti eða bilun í flutningskerfum gera hátt í 10.000 lítra af dieselolíu þegar allt er talið. (fjarvarmaveiturnar eru þar með). Það er gróf þumalputtaformúla að til að framleiða 1000 kwh á klukkustund þarf nálægt 300 lítra af dieselolíu. Á síðustu árum hefur tvisvar þurft að skerða raforku til fjarvarmaveitna, fiskimjölsverksmiðja og fleiri vegna slæmrar vatnsstöðu. Líka hefur það árhrif á vatnsbúskapinn að með auknu álagi fara allar vélar að nýta aflgjafann verr, það er gróf viðmiðun að þegar álag fer að fara uppfyrir 75 til 90 % af ástimpliðu afli fara aflvélarnar að nota meira af aflgjafanum, gildir þá einu hvort um er ræða vatn, gufu, eða dieselolíu, allt telur þetta. Þessar skerðingar eru í boði allt of flókins og seinvirks regluverks og óábyrgs og kæruglaðs fólks og samtaka sem vilja kalla sig náttúruverndarsinna. Vissulega eigum við að ganga vel um náttúru landsins en við eigum líka að nota okkur auðlindirnar, okkur og afkomendum okkar til hagsbóta. Þetta reglufargan og rörsýn friðunnarsinna hefur kostað þjóðarbúið tugi milljarða fyrir utan öll sparifataklæddu loftslagsmarkmiðin og losunarheimildirnar. Réttast væri að senda þessum aðilum reikninginn fyrir því sem þessi endaleysa kostar þjóðarbúið.

            Ég tel það óumdeilda staðreynd að allur frágangur eftir framkvæmdir virkjunaraðila sé og hafi verið til fyrirmyndar. Mannvirkin eru hönnuð þannig að það er engu líkara að þau hafi staðið þarna alla tíð, svo eru flestallir hálendisvegir þeirra verk, það er stórt hagsmunamál og búbót fyrir ferðaþjónustuna, það er nokkuð öruggt að án virkjanaframkvæmdana væru hálendisvegirnir að stærstum hluta ekki til.

Ingimundur Andrésson

Höfundur er raf- og vélfræðingur

Samfylkingin: krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum 

Krafa um árangur í atvinnu- og samgöngumálum er niðurstaða Samfylkingarinnar eftir víðtækt samráð og vinnufundi með sérfræðingum að sögn Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins. Þetta kom fram í ræðu hennar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var um helgina á Laugabakka í Miðfirði.

„Þrjár grundvallarkröfur í atvinnu- og samgöngumálum sem Samfylkingin gerir til næstu ríkisstjórnar – sem við bjóðum okkur fram til að leiða. Þannig er þetta eins konar verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn. Grundvallarkröfur í mikilvægum málaflokkum og aðgerðir til árangurs svo hægt verði að ná settu marki á tveimur kjörtímabilum.

Í fyrsta lagi: Krafa um framfarir í orku- og samgöngumálum – þar sem við setjum fram töluleg markmiðum um orkuöflun til ársins 2035 og fjárfestingar í samgönguinnviðum. Í öðru lagi: Krafa um skynsemi í auðlindastefnu – með almennum auðlindagjöldum frá fyrsta kjörtímabili, sem renni til nærsamfélags og þjóðar. Og í þriðja lagi: Krafa um íslensk kjör og atvinnustefnu fyrir Ísland – með áherslu á að auka framleiðni í hagkerfinu og að taka fast á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði.“

Kristrún sagði þetta vera „vaxtarplan sem gengur út á að lyfta innviðum Íslands upp um flokk á næstu 10 árum, til að auka öryggi og efla atvinnulíf víðs vegar um landið.“

Hún gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir framkvæmdastoppi frá 2017 „þar sem framkvæmdir hafa hafist við 0 jarðgöng og 0 nýjar virkjanir yfir 10 MW – hvort sem litið er til virkjana sem nýta vatnsafl, jarðvarma, vind eða aðra orkugjafa.“

Samfylkingin gerir kröfu um framfarir

Í stjórnmálaályktun fundarins segir að Samfylkingin geri kröfu um framfarir. „Frá aldamótum hafa fjárfestingar í samgöngum dregist aftur úr öðrum Norðurlöndum og meðaltali OECD-ríkja. Og í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur uppbygging orkuinnviða setið á hakanum, þó sérstaklega uppbygging flutningskerfis raforku. Á næstu 10 árum viljum við lyfta innviðum Íslands upp í nýjan styrkleikaflokk til að auka öryggi og efla atvinnulíf um land allt með sjálfbæra þróun leiðarljósi.“ 

Tugmilljóna króna tap: skemmtiferðaskipin sneru við

Poesia í Sundahöfn. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Ísafjarðarhöfn og ferðaþjónustuaðilar urðu fyrir tugmilljóna króna tapi í gær þegar tvö skemmtiferðaskip urðu frá að hverfa vegna veðurs. Skipin Poesia og Balmoral áttu bókaðan tíma í gær í Ísafjarðarhöfn með samtals um 3.200 farþega. Annað skipið lagðist upp að kanti í Sundahöfn en sleppti endum strax og sigldi út og hitt skipið sneri við úti í firðinum að sögn Hilmars Lyngmó hafnarstjóra. Hann sagði vind hafa verið mikinn og hviðótt í Sundunum i þessari átt sem var. Fór annað skipið til Akureyrar og hitt til Reykjavíkur.

Hilmar sagði lítið við þessu að gera. Á Íslandi væri allra veðra von. Hann taldi að tekjutap Ísafjarðarhafnar væri ekki undir 10 milljónum króna og við það bætist svo tekjutap ferðaþjónustuaðila sem ætluðu að þjónusta ferðamennina en ekkert varð af.

Knattspyrna: Vestri með fyrsta sigurinn í efstu deild

Vestri vann sinn fyrsta sigur í Bestu deildinni í knattspyrnu karla í gær þegar liðið lagði KA á Akureyri með einu marki gegn engu. Markið kom á þriðju mínútu uppbótartíma leiksins þegar danski leikmaðurinn Jeppe Gjertsen skoraði eftir hornspyrnu.

þetta voru fyrstu stigin sem Vestri nær í efstu deildinni og jafnframt fyrsta markið sem liðið skorar. Liðlega 40 ár eru síðan ÍBÍ frá Ísafirði var í fyrstu deild knattspyrnunnar um tveggja ára skeið.

Þetta var þriðji leikur Vestra í deildinni og voru fyrstu tveir liðinu nokkuð erfiðir, báðir töpuðust og markatalan 0:6. En nú varð breyting á. Vörnin átti ágætan leik með Jeppe Gjertsen sem besta mann og miðjumaðurinn Fatai Gbadamosi lék vel og að sögn fotbolti.net var eins og kóngur á miðjunni. Benedikt Warén var hættulegur í sókninni og gerði usla í KA vörninni. Vestri var í heildina líklegra til þess að fara með sigur af hólmi og er sigurinn að mörgu leyti verðskuldaður.

Eftir sigurinn er Vestri í 9. sæti af 12 með þrjú stig eftir þrjá leiki.

Allir leikir Vestra hafa hingað til verið spilaðir á útivelli þar sem vallaraðstæður eru ekki fullnægjandi á Ísafirði. Unnið er að því að gera nýjan gervigrasvöll á Torfnesi, Kerecisvöllinn, leikhæfan og stefnt er að því að fyrsti heimaleikurinn verði 20. maí gegn Íslandsmeisturum Víkings.

Nýjustu fréttir