Mánudagur 9. september 2024
Síða 111

Stóra upplestr­ar­keppnin á sunn­an­verðum Vest­fjörðum

Stóra upplestr­ar­keppni grunn­skól­anna á sunn­an­verðum Vest­fjörðum 2024 var haldin 18. apríl í Bíldu­dals­kirkju.

Mikil spenna var í Bíldudalskirkju enda höfðu upplesararnir lagt mikið á sig við undirbúninginn.

Þetta árið voru skáld keppninnar Björk Jakobsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason. Í síðustu umferð keppninnar fluttu upplesarar ljóð að eigin vali.

Upplesararnir fengu allir viðurkenningarskjal, rós og bókina VeikindaDagur eftir Bergrúnu Írisi og Simma að gjöf.

Þá var Tónlistarskóli Vesturbyggðar með atriði, en hún Sigfríður Sól Guðmundsdóttir flutti lagið Over The Rainbow á píanó ásamt Helgu Gísladóttur.

Birta Ósmann Þórhallsdóttir, Freyja Ragnarsdóttir Pedersen og Magnús Óskar Hálfdánsson skipuðu dómnefndina.

Í þriðja sæti var Ottó Hrafn Valdimarsson úr Bíldudalsskóla, í öðru sæti var Helena Margrét Bjarnadóttir úr Bíldudalsskóla og í fyrsta sæti var Sandra Lind Magnúsdóttir úr Patreksskóla.

Þau hlutu öll gjafabréf frá Landsbankanum í verðlaun.

Hraðíslenska (stefnumót við íslenskuna)

Viltu tala íslensku? Hér er sénsinn!

Íslenska lærist bara ef hún er notuð. Til að læra og æfa íslensku þarf að vera til tækifæri til þess.

Í dag kl. 18:00 er stefnumót við íslenskuna í Bókasafni Bolungarvíkur við Aðalstræti.

Sumardaginn fyrsta (25.4.) klukkan 18:00 verður stefnumót við íslensku á Dokkunni á Ísafirði.

Fyrirkomulagið verður það sama og alltaf.

Óskað er eftir íslenskuvænu fólki til að koma og spjalla allskonar íslensku við allskonar fólk.

Íslenska er mál okkar allra og lærist best í samvinnu.

Súðavík: 135 tonn í byggðakvóta

Súðavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps hefur afgreitt tillögu um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Ákveðið var að setja 65 tonn í flokk frístundaveiðibáta, 40 tonn fara til krókaaflamarksbáta og 30 tonn til togbáta sem gera út frá Súðavík. Sveitarstjórnin leggur til að krókaaflamarksbátar fái að landa til vinnslu án staðsetningarþegar vinnslan getur ekki tekið á móti afla vegna yfirflæðis af fiski. Þá verði togbátum heimilt að leggja til sæbjúgu til andlags byggðakvóta samkvæt þeim tuðlum sem ráðuneytið telur við hæfa. Verði ekki fallist á það vill sveitarstjórnin að togbátarnir fái úthlutað samkvæmt þeim reglum sem gilda um byggðakvóta samtals 30 tonn.

Leggur sveitarstjórnin áherslu á mikilvægi þess að viðhalda útgerð í Súðavík.

Þingeyri: þarf að hreinsa fráveituskurð ofan byggðarinnar

Frá Þingeyri. Mynd:Kristinn H. Gunnarsson.

Íbúasamtökin Átak á Þingeyri hafa sent bæjaryfirvöldum á Ísafirði lista yfir verkefni sem vinna þarf í sumar.

Meðal verkefna er að huga a fráveituskurði fyrir ofan byggðina. Vonast var til að skurðurinn yrði hreinsaður í fyrra, en varð ekki og segja íbúasamtökin að hann þyrfti að hreinsa í ár, því vatnsflaumurinn niður í gegnum byggðina er allan veturinn og veldur bæði skemmdum og mikilli hálku þar sem rennur niður úr brekkunum yfir gangstéttir og vegi.

Samtökin myndi vilja fá aðstoð við lagfæringi á Olíuportinu. “ þar myndum við vilja fá aðstoð við að jafna lóðina og fá málningu til að bera á veggina, hverfisráðið er tilbúið sjálft til að mála. Viljum gjarnan fá 4 bekki til að setja í portið.“

Þá vekja íbúasamtökin athygli á Kirkjugarðsveggnum, sem þyrfti að fá aðhlynningu, „bæði þarf að lappa aðeins upp á múrinn og svo þarf orðið málningu á vegginn.“

Blómabeð við hjúkrunarheimilið Tjörn eru í misjöfnu ástandi og farið er fram á það við Ísafjarðabæ að
hann taki að sér umhirðu allra beða við Tjörn. Þar séu sum beðin við Tjörn mjög fín á meðan hin eru í algjörri óhirðu.

Þá mætti svæðið við sundlaugina alveg fá smá lit með blómakerjum, blómakerin 5 sem hafa verið sett upp á vorin eru mjög fín og mættu alveg vera fleiri segir í erindi Átaks íbúasamtaka til bæjarráðs.

Snjóflóð í Hestfirði í gærkvöldi

Fjöldi bíla  komst ekki leiðar sinnar um Ísafjarðadjúp í kvöld vegna snjó- og krapaflóðs sem féll í Hestfirði um kl 20:30 í gærkvöld (mánudagskvöld). Mesta mildi þykir að enginn hafi orðið fyrir flóðinu enda var það mjög kröftugt, breitt og náði niður í sjó. Flóðin fór yfir veginn og reif með sér vegrið sem þar var, flóðið var dýpst um 2 metrar og  yfir 50 metra breitt þar sem það kom yfir veginn.  Á annan tug bíla beið báðum megin við flóðið eftir að komast ferðar sinnar, sumir þeirra biðu í á aðra klukkustund eftir að hjólaskófla frá Vegagerðinni kom frá Súðavík og að flóðinu til að hreinsa það af veginum. Það tók svo um 20 mínútur að opna leið í gegnum flóðið eftir að hjólaskóflan mætti á svæðið.

Hér má sjá stutt drónavideó sem Haukur Vagnsson frá Bolungarvík tók af flóðinu. https://wetransfer.com/downloads/aef9cc5784d19504bdf1cf316ccebeb320240423011531/e43099970046b3cc7484ac3b1cb2d28c20240423011531/1a5496

Myndir af vettvangi. Haukur Vagnsson.

Minning: Guðmundur H. Garðarson

Guðmundur H. Garðarson.

MINNINGARORÐ

1. varaforseta Alþingis, Oddnýjar G. Harðardóttur,

á þingfundi 22. apríl 2024 um

Guðmund H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismann


Guðmundur H. Garðarsson, fyrrverandi alþingismaður, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni hér í Reykjavík 18. apríl síðastliðinn, 95 ára að aldri.

Guðmundur var fæddur í Hafnarfirði 17. október 1928, sonur hjónanna Garðars Svavars Gíslasonar kaupmanns og Matthildar Guðmundsdóttur húsmóður. Hann lauk stúdentsprófi 1950 og viðskiptafræðinámi við Háskóla Íslands fjórum árum síðar. Eftir það stundaði hann framhaldsnám í hagfræði og viðskiptagreinum í Þýskalandi, Englandi og í Bandaríkjunum. Hann starfaði fyrst eftir nám fyrir Iðnaðarmálastofnun en var lengst hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Guðmundur hóf ungur afskipti af félagsmálum og varð formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur árið 1957. Hann var í forystu þess í rúma tvo áratugi og átti sæti í miðstjórn Alþýðusambands Íslands í 10 ár. Hann var einnig meðal forvígismanna Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og var fyrsti formaður samtakanna. Guðmundur var í hópi þeirra sem börðust fyrir afnámi einokunar ríkisins á rekstri ljósvakamiðla á 8. og 9. áratugnum. Maður nýrra tíma heita æviminningar hans. Hann kom víða við á langri ævi, var valinn til trúnaðarstarfa á mörgum sviðum og var farsæll í störfum. Guðmundur var tvívegis þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, í fyrra sinn 1974–1978 og á ný 1987–1991. Hann tók enn fremur oft sæti sem varaþingmaður á tímabilinu 1967–1994, sat alls á 18 löggjafarþingum.

Þungatakmarkanir á Ströndum

Mynd: Vegagerðin.

Vegagerðin hefur tilkynnt að settur verði 5 tonna ásþunga á Strandaveg (643) frá Bjarnafirði í Norðurfjörð og eins á Drangsnesveg 645) frá Drangsnesi í Bjarnarfjörð. kl. 10 í dag þriðjudaginn 23. apríl.

Ísafjarðarbær: 119 m.kr. afgangur af rekstri í fyrra

Ársreikningur 1023 fyrir Ísafjarðarbæ hefur verið lagður fram og verður tekinn til fyrri umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi. Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins skilaði afgangi upp á 119 m.kr. Fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir 274 m.kr. afgangi svo niðurstaðan er um 155 m.kr. lakari. Þegar skoðuð er eingöngu afkoma sveitarsjóðs var halli á rekstrinum 61 m.kr. Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs segir að hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna Brúar lífeyrissjóðs fari langt með að skýra muninn.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins að meðtöldum B hluta stofnunum voru 7.349 milljónir króna. Útsvar og fasteignaskattur skilaði 3.406 milljónum króna og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga voru 1.630 m.kr.

Stærsti útgjaldaliðurinn voru laun og tengd gjöld. Þau námu 3.561 m.kr. Til viðbótar voru lífeyrisskuldbindingar 282 m.kr. Samtals voru þessi útgjöld 3.843 m.kr. sem voru 52% af öllum rekstrarútgjöldum. Í árslok voru 428 starfsmenn hjá Ísafjarðarbæ í 299 stöðugildum. Hafði starfsmönnunum fjölgað um 13 á árinu en stöðugildum hins vegar fækkaði um 14.

Fram kemur í ársreikningnum að tekjur hafnarsjóðs af skemmtiferðaskipum voru 458 m.kr. Árið 2023 voru 187 skemmtiferðaskipakomur hjá höfnum Ísafjarðarbæjar, með um 184.000 farþega. Ekki kemur fram hverjar heildartekjur hafnarinnar voru en tekjur umfram rekstrarútgjöld voru 226 m.kr. og því mikill afgangur af rekstrinum.

Hjá höfnum Ísafjarðarbæjar starfa 12 starfsmenn í 10,5 stöðugildum undir stjórn Hilmars K. Lyngmo,
hafnarstjóra. Þar af eru þrír starfsmenn á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri.

Landaður afli hjá Ísafjarðarhöfnum var 20.752 tonn, þar af 17.143 tonn af sjávarafla og 3.608 tonn af eldisfiski. Innflutt rækja var um 3.500 tonn til viðbótar. Vöruflutningar um hafnirnar námu 18.645 tonnum. Útflutningur var liðlega 10 þúsund tonn , innflutningur 6.472 tonn og strandflutningur 2.142 tonn.

Rannsókn á slysasleppingu: Björk meðal kærenda

Alls voru það nærri 30 kærur sem bárust til Ríkissaksóknara, auk kæru Matvælastofnunar. Voru þar á meðal einstaklingar, veiðifélög, landeigendur, hlutafélög og samtök. Björk Guðmundsdóttir er kærandi fyrir hönd AEGIS, Ægisvaktarinnar sem berst gegn sjókvíaeldi og er á vegum Umhverfissjóðsins, The Icelandic Wildlife Fund (IWF). Meðal annarra kærenda voru NASF á Íslandi, The Icelandic Wildlife Fund, allmörg veiðifélög víða um land og félög sem hafa laxveiðiár á leigu og selja veiðileyfi. Þá eru landeigendur í Ketildölum í Arnarfirði meðal kærenda svo og einstaklingar.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar kærði ákvörðun lögreglustjórans á Vestfjörðum um að hætta rannsókn og láta málið niður falla. Hún sagði á sínum tíma að hún teldi ekki aðra en Matvælastofnun hafa kærurétt. Saksóknarinn Dröfn Kærnested komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að allur almenningur hafi hagsmuni af því að villtum ferskvatnsfiskistofnum væri ekki spillt með neikvæðum vistfræðiáhrifum og samþykkti alla kærendur sem aðila máls.

Ísafjörður: bæjarráð vill ekki setja meira fé í hitalagnir

Gervigrasvöllurinn á Torfnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í gær erindi frá Vestra um viðbótarstuðning vegna hitalagna í gervigrasvöll. Félaginu vantar enn 8,2 m.kr. til þess að klára fjármögnun á lögnum og öðrum búnaði. Bæjarráðið ítrekaði fyrra boð sitt um 4.8 m.kr. styrk til að kaupa hitalagnir og tengdan búnað undir völlinn. Ef fjármögnun verks að öðru leyti hefur ekki tekist bendir bæjarráð á þann möguleika að setja lagnir undir hluta vallarins.

Bæjarráðið bendir á að ekki er um snjóbræðslukerfi að ræða, heldur sé það til þess að halda gúmmípúða undir grasi frostfríum. Snjómokstur er mikilvægastur til að völlurinn sé æfingahæfur og til þess keypti Ísafjarðarbær sérstakt tæki sl. haust.

Bæjarráðið segir í bókun að það hafi áhyggjur af því að eftir að hitalagnir eru lagðar verði enn mikill stofnkostnaður sem ekki er gert ráð fyrir í framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins og engin önnur fjármögnun fyrirliggjandi. Auk þess sé fyrirsjáanlegt að rekstrarkostnaður verði afar hár. Þar að auki muni þessar framkvæmdir seinka framkvæmdum enn frekar inn í tímabil sem þegar er hafið í knattspyrnunni.

Kostnaðaráætlun Verkís ehf., fyrir verkið er 28,5 m.kr.- með tengikistum, frostlegi og þrýstiprófun. Í yfirliti sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs kemur fram að með aðkomu áhugamanna og annarra verði heildarkostnaður, 16 m.kr. sem eru aðallega innkaup á búnaði. Þar af hefur Ísafjarðarbær samþykkt 4,8 m.kr. vegna lagna og OV leggur til 3 m.kr.- til annarra efniskaupa. Það liggur fyrir fjármögnun uppá 7,8 m.kr. Þá á enn eftir að fjármagna 8,2 m.kr. og var lagt fyrir bæjarráðið að taka afstöðu til þess sem upp á vantar.

Nýjustu fréttir