Sunnudagur 1. september 2024
Síða 11

Ferðafélag Ísfirðinga: Lambadalsfjall  — 3 skór —

Laugardaginn 24. ágúst.

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Barði Ingibjartsson.
Mæting kl. 9.00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið upp Hvallátursdal og á hápunkt Lambadalsfjalls. Drjúg ganga og nokkuð erfið. Fer eftir snjóalögum hvernig gengur. Þarna er frekar þokusækið, sérstaklega í norðaustanáttum. Fólk þarf að klæða sig eftir veðri. Stundum getur gustað um þá sem eru á toppnum. Mjög víðsýnt er af fjallinu í góðu veðri.
Heildarvegalengd: allt að 15-16 km, eftir því hvaða leið er valin en það fer eftir snjóalögum og veðri.
Göngutími: minnst 8 klst., upphækkun: 970 m.

Árneshreppur: vilja skoða veg yfir Naustvíkurskörð

Naustvíkurskörð. Mynd: Stefán Viðar Þórisson.

Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti í sumar að óska eftir því að Vegagerðin kanni möguleika á hönnun vegar yfir Naustvíkurskörð.

Naustvík er í Reykjarfirði norðanverðum innan til við Kjörvogshlíð, en þar er oft veruleg vetrarófærð.

Leiðin upp úr Naustvíkinni liggur yfir skörðin og niður í Trékyllisvíkina og er um 3,5 km löng. Eftir því sem næst verður komist er mesta hæð 251 metri yfir sjávarmáli.

Naustvíkurskörð. Mynd: Wikiloc.

Snið af Naustvíkurskörðum. Mynd: Wikiloc.

Vilja auka öryggi skólabarna frá Barðaströnd

Staparnir á Raknadalshlíð í vetrarbúningi. Mynd: Rannveig Haraldsdóttir.

Heimastjórn fyrrum Barðastrandar- og Rauðasandshrepps samþykkti á síðasta fundi sínum ályktun um öryggi skólabarna. Fer heimastjórnin fram á að bæjarstjórn Vesturbyggðar beiti sér fyrir auknu öryggi vegfarenda um Barðaströnd og yfir á Patreksfjörð. „Á þessari leið þarf með ýmsum hætti að bæta öryggi skólabarna sem þurfa að fara þennan veg alla virka daga“ segir í ályktuninni.

Þá segir eftirfarandi:

Á þessari leið þarf með ýmsum hætti að bæta öryggi skólabarna sem þurfa að fara þennan veg alla virka daga sem og auðvitað annarra vegfarenda. Þó svo að vegamál heyri ekki beint undir sveitarfélagið þá eru skólar á þeirra vegum og þar sem það eina sem er í boði fyrir þessi börn er að fara um fjallvegi til að komast í skóla teljum við grundvallaratriði að það sé reynt að gera það sem hægt er til að öryggi þeirra á leiðinni sé tryggt.
Það sem þarf að gera til að auka öryggi á leiðinni er eftirfarandi :

  1. Vindmælar á Barðaströnd
    Við skorum á Vegagerðina að hraða uppsetningu vindmæla á Barðaströnd þar sem eru þekktir vindhviðustaðir sem reynst hafa hættulegir. Þar er helst að nefna Hvammshlíðina (Grafahlíð), Skjaldvararfoss og við Hrísnes. Óhöpp hafa orðið á þessum þekktu vindhviðustöðum á Barðaströnd þó ekki hafi orðið alvarleg slys og því brýnt að bílstjórar geti verið upplýstir um þessa hættu til að geta hagað ferðum sínum með tilliti til öryggis.
    Mikilvægt er að fá vindmæla setta upp sem allra fyrst til að unnt sé að fylgja viðmiðum Samgöngustofu um öryggi á vegum fyrir skólaakstur.
    Næsti vindmælir er við veginn yfir Kleifaheiði en upplýsingar frá honum gefa litlar vísbendingar um vindstyrk á þekktum stöðum á Barðaströnd þar sem verstu vindáttir á Barðaströnd mælast ekki á vindmælinum á Kleifaheiði.
    Eins og staðan er í dag en enginn vindmælir á Barðaströnd en með því að hafa mæli yrði ákvarðanataka um skólaakstur auðveldari með tilliti til öryggis.
  2. Vegrið
    Nauðsynlegt er að setja vegrið á Raknadalshlíð sem og niður Kleifaheiði að vestanverðu, á þessum stöðum er mjög hátt fall niður ef bílar fara útaf vegi. Á Raknadalshlíð er að auki sjór beint fyrir neðan og aðdjúpt og á Kleifaheiði vestanverðri er veghalli rangur á kafla sem er hættulegt þegar ekið er í hálku.
  3. Vegaeftirlit fyrir klukkan 7:00
    Við bendum á nauðsyn þess að ástand vega á leið skólabíls frá Barðaströnd sé kannað fyrir klukkan 7:00 þannig að skólabíllinn sé ekki að fara af stað og þurfa svo jafnvel að bíða tímunum saman eftir mokstri með börnin í bílnum.
  4. Símasamband
    Allt of stór partur af leiðinni er með mjög lélegu eða engu farsímasambandi. Segja má að nánast ekkert farsímasamband sé frá Stöpunum í Patreksfirði og langleiðina upp á Kleifaheiði að vestanverðu og eins er mjög slitrótt samband frá Haukabergsánni og að Hrísnesi.

Ísafjarðarbær: 39 m.kr. í stofnframlög

Íbúðir við Túngötu á Suðureyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur afgreitt breytingar á fjárhagsáætlun ársins vegna kaupa Brákar íbúðafélags hses á 20 íbúðum af Fasteignum Ísafjarðarfyrir 327 m.kr. Um er að ræða  11 íbúðir á Suðureyri og 9 íbúðir á Þingeyri sem verða leiguíbúðir.

Stofnframlag sveitarfélagsins vegna kaupanna eru 39 m.kr. Útgjöldin hafa ekki áhrif á niðurstöðu rekstrar þar sem um breytingar á eignum er að ræða. Á efnahagsreikning verða stofnframlögin færð sem eign og á móti lækkar handbært fé um sömu fjárhæð þar sem framlagið er greitt úr bæjarsjóði. Handbært fé verður 335 mkr. eftir greiðsluna.

Ný rannsókn: líklega ofmat á áhrifum laxalúsar á villtan lax

Albert Imsland er rannsóknastjóri fiskeldis hjá norska fyrirtækinu Akvaplan-niva í Tromsö (sem er líka með útibú á Íslandi) ásamt því að vera Prófessor í fiskeldi við Háskólann í Bergen, Noregi.

Í umfangsmikilli fræðilegri úttekt sem nýlega var birt í vísindatímaritinu Reviews in Aquaculture er komist að þeirri niðurstöðu að ónákvæmni í núverandi regluverki um framleiðslu á Atlantshafslaxi í Noregi leiði líklega til ofmats á áhrifum laxalúsar á villtan Atlantshafslax. Enn fremur er ályktað að hægt væri að bæta nákvæmni og notagildi kerfisins sem leiðarvísir við ákvarðanatöku um verndun villtra laxa með því að nýta betur þegar tiltækar rannsóknarniðurstöður og tryggja að gögnin og forsendurnar endurspegli best núverandi stöðu vísindalegrar þekkingar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá rannsakendunum þremur, en einn þeirra er Albert K. D. Imsland, Íslendingur sem gegnir prófessorsstöðu í fiskeldi við háskólann í Björgvin.

Laxalús er sjávarsníkjudýr sem lifir af fiskhúð, slími og blóði og hefur lifað saman við villta laxfiska í milljónir ára. Laxalús hefur fengið aukna athygli á undanförnum áratugum þar sem fiskeldisstöðvar veita sníkjudýrinu hagstæð skilyrði til að fjölga sér.

Árið 2017 var nýtt eftirlitskerfi, umferðarljósakerfi (TLS), innleitt í Noregi með það að markmiði að stjórna vexti laxaeldis út frá áætluðum áhrifum laxalúsar úr fiskeldi á lifun villtra Atlantshafslaxa.

Þar sem ekki er hægt að mæla áhrif laxalúsar frá eldisuppruna og erfitt er að aðgreina þau frá öðrum þáttum sem hafa áhrif á afkomu villtra laxa, byggir TLS á athugunargögnum (lús skráð á fiski á sama landsvæði) og líkanagögnum (líkan af lúsaálagi á sýndargöngu ungum laxa) til að meta hættuna á neikvæðum áhrifum á villta laxastofna.

Nýleg umfangsmikil úttekt á fræðigreinum sem liggja til grundvallar TLS sem var nýverið gerð af van Nes S, Imsland AKD og Jones SRM (2024) og er sett fram í samhengi við núverandi TLS. Úttektin sýnar fram á ónákvæmni í TLS kerfinu sem líklega leiðir til þess að áhrif laxalúsar á villtan lax séu ofmetin. 

Til stuðnings þessum niðurstöðum var framkvæmt rýni á birtum rannsóknarniðurstöðum í vísindatímaritum sem sýna fram á ósamræmi í tengslum milli lúsamagns á fiski í fiskeldisstöðvum og sýkingar villtra fiska á nærliggjandi svæðum, sem og takmörkuð eða engin tengsl við stofnvirkni villtra laxastofna (sjá meðfylgjandi mynd, mynd 7. í van Nes o.fl., 2024).

Ofmat á neikvæðum áhrifum laxalúsar frá fiskeldisstöðvum gæti haft öfug áhrif á verndun villtra laxa þar sem aðrar mikilvægar breytur í lifun laxa gætu því verið vanmetnar. Þess vegna eru úrbætur mikilvægar til að auka gildi TLS fyrir verndun laxa og stýringar fiskeldis í Noregi.

Grein van Nes, Imsland og Jones er aðgengileg hér: http://doi.org/10.1111/raq.12953

Mynd (Mynd 7 í van Nes o.fl., 2024): Núverandi uppbygging umferðarljósakerfisins (TLS) í Noregi. Strangari lúsareglur draga úr lúsamagni í fiskeldisstöðvum. Hins vegar er fylgnin á milli lúsamagns á eldissvæðum og sýkingar í nærliggjandi villtum laxfiskastofnum takmörkuð eða ábótavant sem bendir til mikilvægis annarra breytna. Einnig er skortur á fylgni milli TLS spár um stofnáhrif fiskeldis og áhrifa laxalúsar á villtra Atlantshafslaxa. Óviljandi áhrif strangari lúsareglna eru minni velferð og aukin dánartíðni eldisfiska vegna mótvægisaðgerða. Í stuttu máli bendir þetta til þess að umhverfisstýring núverandi TLS sé takmarkað og úrbætur eru mikilvægar til að auka gildi TLS fyrir verndun villtra laxa og framleiðslustýringu fiskeldis. Aðlagað frá mynd 17 í Larsen og Vormedal, 2021 (https://doi.org/10.1016/j.aquaculture.2020.736000 ).

Sjá einnig:

https://www.kyst.no/forskning-lakselus/ny-forskning-effekten-av-lakselus-fra-oppdrett-pa-villaks-overestimeres/1805314

https://e24.no/hav-og-sjoemat/i/o3EjOK/villaksen-er-ikke-tjent-med-et-system-som-overestimerer-effekter-av-lakselus

https://e24.no/hav-og-sjoemat/i/yEld7a/vi-ble-overrasket-over-havforskningsinstituttet

Fiskeldi eftir umdæmum

Umfang fiskeldis er mjög mismunandi eftir landshlutum.

Mest er það á Vestfjörðum þar sem framleidd voru 36,3 þúsund tonn árið 2023.

Næst mest er eldið á Austfjörðum, en þar voru framleidd um 5,2 þúsund tonn á árinu 2023. Það er töluvert minna en síðustu ár, en þann samdrátt má rekja til afleiðinga af útbreiðslu ISA-veirunnar árið 2021 og viðbrögðum vegna hennar .

Þriðja stærsta svæðið er Reykjanes þar sem rúmlega 5,2 þúsund tonn af eldifiski voru framleidd á árinu 2023. Á Reykjanesi ræður bleikjan ríkjum en lax er langstærsti hluti fiskeldis á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Rétt er að hafa í huga að umfang fiskeldis byggist ekki eingöngu á fjölda tonna sem framleidd eru á hverjum stað. Bleikja og lax eru að sjálfsögðu misstórir fiskar, framleiðsluferli er mismunandi og Suðurland er langstærst í klaki og seiðaræktun fyrir aðrar eldisstöðvar. Þar að auki er kynbótastöð fyrir bleikju á Norðurlandi vestra og eystra, sem sér öllum öðrum bleikjustöðvum fyrir hrognum.

Vel gengur með brúargerð yfir Fjarðar­hornsá

VBF Mjölnir ehf. er verktaki en um brúarsmíðina sjá Vestfirskir verktakar ehf.

Framkvæmdir við verkið Vestfjarðavegur (60) um Fjarðarhornsá og Skálmardalsá ganga vel.

Fyrstu steypunni var hellt í mót við brúna yfir Fjarðarhornsá í maí en brúarsmíðinni lýkur í desember á þessu ári. Verkið í heild á að klárast í desember 2025.

„Fyrsta steypan hér við Fjarðarhornsá í Kollafirði var í maí en brúin verður vonandi komin í gagnið 1. desember,“ sagði Páll Halldór Björgúlfsson, verkefnastjóri framkvæmdarinnar.

Fyrstu steypuframkvæmdir við Fjarðarhornsá fóru fram í maí.

Verkið felst í nýlagningu og endurbyggingu Vestfjarðarvegar á tveimur aðskildum köflum, sitt hvoru megin við fjallveginn Klettsháls.

Innifalið í verkinu er bygging tveggja steinsteyptra, eftirspenntra, plötubrúa í tveimur höfum yfir Fjarðarhornsá og yfir Skálmardalsá. Brýrnar tvær verða mjög áþekkar. Báðar 34 metra langar eftirspenntar plötubrýr með 9 m breiðri akbraut og 0,5 m breiðum kantbitum. Slitlag brúna verður úr hástyrkleikasteypu.

Vegagerðin er að mestu nýlagning með tengingu frá núverandi vegstæði að nýjum brúarstæðum og færslu á afleggjurum.

„Brýrnar tvær leysa af hólmi tvær einbreiðar brýr sem eru komnar til ára sinna,“ segir Páll en gamla brúin yfir Fjarðarhornsá var byggð árið 1957 og brúin yfir Skálmardalsá árið 1956. Á sumrin aka um 375 bílar á sólarhring um þennan kafla en aðeins um 50 bílar á sólarhring yfir vetrartímann.

Nokkuð er síðan staurar voru reknir niður á fast en brúarflokkar Vegagerðarinnar sáu um það verk. Framkvæmdir frestuðust nokkuð þar sem bjóða þurfti verkið út þrisvar sinnum. Í fyrsta sinn barst ekkert tilboð í verkið, í annað sinn var öllum tilboðum hafnað þar sem þau voru öll langt yfir áætluðum verktakakostnaði. Tilboð voru opnuð í þriðja sinn í desember 2023. Samið var VBF Mjölni ehf. sem átt lægsta tilboðið í verkið. Vestfirskir verktakar ehf. eru undirverktakar og sjá um brúarsmíðina.

Páll Halldór Björgúlfsson, umsjónarmaður hjá Vegagerðinni.

Páll segir helstu áskoranir þær að framkvæmdir eru takmarkaðar meðan á stangveiðitímabili stendur, eða frá 20. júní og fram í miðjan september en á því tímabili er jarðvegsvinna í eða við árfarveg ekki heimil. „Við þurftum því að vera komnir upp úr árfarveginum áður en veiðitímabilið byrjaði.“ Önnur áskorun er fjarlægð frá þéttbýli. „Steypan kemur til dæmis alla leið úr Borgarnesi og það er vandasamt að halda steypunni góðri á þessari löngu leið. Það þurfa allar tímasetningar að standast.“

Gert er ráð fyrir að smíði brúarinnar yfir Fjarðarhornsá verði lokið í desember á þessu ári en smíði brúar og vegagerð við Skálmardalsá í desember 2025. Gömlu  brýrnar verða rifnar og fjarlægðar.

Búverk og breyttir tímar

Út er komin bókin Búverk og breyttir tímar og fjallar hún um nokkur verk og verkfæri sem alþekkt voru á síðustu öld en hafa nú ýmist horfið úr verkahring eða breyst í helstu atriðum. Þannig er minnt á þungan straum tímans en líka þróun þekkingar og tækni. Verkmenning þessa tíma íslensks þjóðlífs breyttist, ýmist í hægum síganda eða stórum stökkum.

Saga varð til og í þessari bók eru brot af henni sögð. Höfundur er landsþekktur fyrir vinsælar bækur sínar um sögu landbúnaðar.

Höfundirinn Bjarni Guðmundsson veitti lengi forstöðu Landbúnaðarsafni Íslands auk rannsókna- og kennslustarfa á Hvanneyri.

Höfundur bókarinnar Bjarni Guðmundsson ásamt Bjarna Jónssyni þingmanni Vinstri grænna

Ráðherra fundaði með landshlutasamtökum sveitarfélaga

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra fundaði í síðustu viki með formönnum og framkvæmdastjórum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Það voru landshlutasamtökin sem óskuðu eftir fundinum í þeim tilgangi að kynna landshlutasamtökin, hlutverk þeirra og verkefni fyrir ráðherra og fá sýn hennar á byggðaþróun.

Á fundinum var meðal annars rætt um sóknaráætlanir landshluta og hverju þær hafa áorkað sem öflugt byggðaþróunartæki, en nú vinna allir landshlutar að endurnýjun sóknaráætlana sinna. Einnig var rætt um lýðræði, samgöngur og skipulagsmál svo nokkuð sé nefnt.

„Það var mjög ánægjulegt að hitta allt það góða fólk sem stendur í stafni í landshlutasamtökunum og kynnast metnaðarfullu starfi þeirra. Það er mjög mikilvægt að styðja við byggðir landsins með kraftmikilli byggðastefnu en heimafólk um land allt vinnur þó þýðingarmesta starfið,“ sagði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.

Ísafjarðarbær: kaupir körfubíl fyrir slökkviliðið

Bílafloti slökkviliðsins fyrir nokkrum árum.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur falið bæjarstjóra að gera tilboð til slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í körfubíl fyrir slökkviliðið.

Fram kemur í minnisblaði slökkviliðsstjóra að slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bjóði bílinn til kaups á tilteknu verði. Bíllinn er „árg 2003 og er í fullkomu standi, alltaf fengið mjög gott viðhald. Þessi bíll kemst mun hærra en okkar, í 34m hæð og sneggri í öllum hreyfingum, stærri, öruggari og betri bíll á öllum sviðum, og hann kemst inn á okkar slökkvistöð. Ef af verður þá má segja að slökkviliðið sé að komast nær framtíðinni í körfubíla rekstri.“ Metur hann tilboðið einstakt.

Slökkviliðsstjóri leggur til að gert verði tilboð í bílinn á tilgreindu verði sem ekki er upplýst.

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar á körfubíl árg 1981, 43 ára sem er mjög gamall fyrir útkallsbíl í fyrstu línu
slökkviliðs, bíll þessi kemst í 21m hæð og er kominn tími á viðhald á mörgum sviðum. Mengun úr þessum bíl og langt yfir öllum leyfilegum stöðlum segir í minnisblaði slökkviliðsstjóra.

Nýjustu fréttir