Mánudagur 28. október 2024
Síða 11

Vesturbyggð: 29,1 m.kr. hagnaður af sölu íbúða

Smábátaflotinn í Patrekshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í gær viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna áformaðrar sölu á tveimur íbúðum.

Gert er ráð fyrir að setja tvær íbúðir sveitarfélagsins á sölu. Annarsvegar Urðargötu 23 nh. á Patreksfirði og hins vegar Móatún 18 á Tálknafirði.

Í viðaukanum kemur fram að söluhagnaður er áætlaður 29,1 m.kr.

Eftir breytinguna er rekstrarniðurstaða A hluta áætluð verða neikvæð um 9,5 m.kr. en í upphaflegri fjárhagsáætlun var niðurstaðan neikvæð um 32,6 m.kr.

Niðurstaða bæði A og B hluta verður jákvæð um 75 m.kr. en var jákvæð um 52 m.kr.

Munurinn á betri afkomu A og B hluta samanlagt en á A hluta sérstaklega skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu hafnasjóðs, vatnsveitu og fráveitu sem skila um 90 m.kr. í afgang eftir rekstur.

Fjórðungsþing hefst á morgun – nýr formaður kosinn

Jóhanna Ösp Einarsdóttir bóndi í Kaplaskjóli í Fremri-Gufudal í Reykhólahreppi er fráfarandi stjórnarformaður Fjórðungssambands Vestfirðinga

Fjórðungsþing Vestfirðinga hefst á morgun og stendur fram á laugardag. Þingið er að þessu sinni haldið að Laugarhóli í Bjarnarfirði í Strandasýslu.

Kosin verður ný stjórn og ljóst er að nýr formaður verður kosinn. Jóhanna Ösp Einarsdóttir, oddviti í Reykhólahreppi hefur verið formaður stjórnar síðustu fjögur ár og er því ekki kjörgeng áfram í það embætti.

Seturétt eiga allir sveitarstjórnarmenn og þingið er opið þeim sem vilja hlýða á það. Það hefst kl 11 í fyrramálið.

Umfjöllunarefni þingsins á morgun er kynning á Sóknaráætlun Vestfjarða 2025-2029 og vinnustofa um framtíðarsýn Vestfjarða sem lið í gerð vinnslutillögu Svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2029.

Fyrir þinginu liggja tillögur um 19 ályktanir, þar af sjö um samgöngumál.

Sjómokstur: samið við Búaðstoð í Önundarfirði

Flateyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur ákveðið að taka tilboði Búaðstoðar vegna snjómoksturs á Flateyri og í Önundarfirði.

Þrjú tilboð bárust í snjómoksturinn á Flateyri og önnur þrjú tilboð í moksturinn í sveitinni. Búaðstoð ehf og Kjarnasögun ehf buðu í bæði verkin en auk þess bauð Ívar Gröfukall ehf í snjómoksturinn á Flateyri og Urðaklettur ehf. í sveitinni. Samið er til þriggja ára.

Tilboðin voru metinn eftir þremur þáttum, einingaverði sem boðið var, vélarafli moksturstækis og hvort vængskófla væri í boði.

Búaðstoð ehf skoraði hæst í öllum þáttum í mokstri í sveitinni og var með einu stigi meira í heildarstigagjöf á Flateyri en Kjarnasögun ehf. sem bauð lægst einingaverð.

Snjómokstur í Önundarfirði er mokstur út í Valþjófsdal og inn að Hóli í Önundarfirði. Á Flateyri er snjómokstur á helstu götum, bifreiðastæðum og aðkomuleiðum.

Á Flateyri er einingaverðið 20.968 kr. og í sveitinni er það 16.129 kr.

Ný bók: Ég skal hjálpa þér – saga Auriar

Þann 24. október kemur út hjá Forlaginu bókin „Ég skal hjálpa þér – saga Auriar“. Í bókinni er sögð saga Árnýjar Aurangasri Hinriksson, sem ávallt er kölluð Auri. Hún fæddist í Sri Lanka og ólst þar upp við allsnægir hjá vel stæðri fjölskyldu en giftist íslenskum manni, Þóri Hinrikssyni og fluttist til Íslands með honum snemma á níunda áratugnum.

            Höfundur bókarinnar, Herdís M. Hübner, segir:

            „Margir Íslendingar kannast við Auri úr sjónvarpinu, til dæmis úr þáttunum Leitin að upprunanum og fleiri slíkum. Hún er konan sem hjálpar ættleiddu fólki frá Sri Lanka að finna líffræðilegar fjölskyldur sínar þar í landi. Það er stórkostlegt starf og hefur breytt lífi margra sem hafa notið aðstoðar hennar við leitina enda veitti forseti Íslands henni fálkaorðu, æðstu viðurkenningu sem hægt er að fá á Íslandi, fyrir það starf.

            En hver er þessi kona?

            Er hún kannski indversk prinsessa, eins og við héldum á Ísafirði þegar hún kom hingað fyrst?  Það fór auðvitað ekkert á milli mála þegar hún kom vestur, að hér var prinsessa á ferð, í silkisari og öll í gulli, með sítt svart hár niður í mitti. Og hún verður alltaf prinsessan okkar. En indversk er hún auðvitað ekki.

            Hún er líka fyrrverandi sjómannskona og fiskverkakona til fjölda ára. Gerðist seinna framhaldsskólakennari á Höfn í Hornafirði, varð heimsfrægur kokkur hvar sem hún fór og hjálparhella öllum sem hún hefur hitt á lífsleiðinni.

            Hún hefur ferðast víða um heim, lifað viðburðaríku lífi og búið í mörgum löndum, meðal annars Indlandi þar sem hún bjó í 4 ár, Íran og Barein og víðar um lengri og skemmri tíma, þar sem hún og Þórir, maðurinn hennar unnu fyrir Sameinuðu þjóðirnar eða aðrar alþjóðastofnanir.

            Hún hikaði ekki við að rífa sig upp þegar hún hafði fengið nóg af íshúsinu, komin hátt á sextugsaldur, þá lét hún gamlan draum rætast og gerðist kennari. Hún byrjaði á Patró, fór svo suður, kenndi nokkuð víða og stundaði nám til kennsluréttinda á meðan. Og fyrst hún var nú byrjuð á háskóanáminu, hætti hún ekki fyrr en hún var komin með doktorspróf, bæði frá Háskóla Íslands og háskóla í Sri Lanka.

            Líf Auriar hefur ekki verið neinn dans á rósum og hún hefur oft mætt mótlæti um ævina. Margur hefði bugast af minna. En hún hefur aldrei gefist upp og kemur alltaf standandi – og brosandi niður.

            Bókin heitir: Ég skal hjálpa þér. Það er vegna þess að allir sem tala um Auri, frá því að hún er lítil stelpa í skóla og til þessa dags, nefna hjálpsemi sem hennar helsta eiginleika, hún hefur alltaf verið að hjálpa öðrum og er enn að.“

            Minnt skal á að útgáfudagur bókarinnar er 24. október – sem er einmitt afmælisdagur Auriar.

Eldislax: 1,5 – 2 milljarðar króna á viku

Þessar vikurnar er útflutningsverðmæti á slátruðum eldislaxi 1,5 – 2 milljarðar króna á viku. Slátrað er á þremur stöðum á landinu, á Bíldudal, í Bolungavík og á Djúpavogi. Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta hefur framleiðslan aukist eftir því sem liðið hefur á árið og fara um 1.600 tonn af laxi í gegnum húsin þrjú í hverri viku. Útflutningsverðmæti eldislaxins er 1,5 – 2 milljarðar króna á hverri viku.

Búist er við því að framleiðslan aukist þegar líður fram á veturinn og verði um 1.900 – 2.000 tonn á viku. Verðið á laxinum á erlendum mörkuðum hefur frekar hækkað en auk þess eru sveiflur í verðinu yfir árið. Heldur lægra er það á haustin og hækkar á öðrum tíma ársins. Gangi þetta eftir gæti útflutningsverðmætið einhverjar vikurnar farið yfir 2 milljarða króna á viku þegar á næsta ári.

Einn milljarður kr. að meðaltali

Framan af árinu var framleiðslan minni m.a. vegna þess að slátra varð miklu magni af ungfiski í fyrra á Vestfjörðum vegna lúsaálags og á Austfjörðum var öllum fiski slátrað í hitteðfyrra vegna veirusýkingar og ákveðið að byrja eldið upp á nýtt. Horfur eru á því að þegar árið 2024 verður gert upp verði meðalútflutningsverðmæti eldislax á landinu einn milljarður króna í hverri viku.

80-90 þúsund tonn eftir þrjú ár

Fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2024, ráðstefnu samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem haldin var í Hörpu á þriðjudaginn að mikil aukning er framundan í laxeldinu. Miðað við það magn af seiðum sem framleidd hafa verið megi búast við að eftir þrjú ár verði uppskeran 80 – 90 þúsund tonn af eldislaxi. Er það um tvöfalt meira en framleiðslan var í fyrra. Ætla megi að útflutningsverðmætið verði nálægt 100 milljörðum króna ef allt gengur vel.

Neyðarlínan brást

Púttbrautin er við Sjúkrahúsið á Ísafirði.

Það atvik varð á Ísafirði á loka Púttmóti Kubba 24. september að það leið yfir einn keppanda. Þeir sem voru með honum á vellinum hringdu strax í Neyðarlínuna eftir sjúkrabíl og síðan aftur korteri seinna en aldrei kom bíll.

Keppandinn rankaði við sér og var að lokum keyrður í hjólastól frá Hlíf yfir á sjúkrahús þar sem hann var lagður inn yfir nótt.

Haft var samband við sjúkraflutningana á Ísafirði og þá kom í ljós að það kom aldrei boð vestur frá Neyðarlínunni, í hvorugt skiptið.

Bæjarin besta hafði samband við Sigurð A. Jónsson, slökkviliðsstjóra vegna þessa máls og í svörum hans kemur fram að atvikið hafi verið rannsakað hjá Neyðarlínunni, „niðurstaðn er að um mannleg mistök er að ræða. Mjög mikið var að gera hjá Neyðarlínu á þessu tíma og fór þetta símtal aldrei í þann ferli sem það átti að gera.“ segir í svarinu.

Beðið er svara frá Neyðarlínunni þar sem óskað er eftir skýringum.

Sjö milljónir söfnuðust í átaki Nettó og Ljóssins

Sam­starfs­verk­efni Nettó og Ljóss­ins hef­ur skilað sjö millj­ón­um króna, sem renna nú óskipt til end­ur­hæf­ing­ar fólks með krabba­mein. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá Nettó um átak í sam­starfi við Ljósið.

Þetta er annað árið í röð sem Nettó og Ljósið efna til sam­starfs í júlí­mánuði, und­ir heit­inu „Kveikj­um Ljósið í júlí“ en í fyrra söfnuðust fimm millj­ón­ir kr.

Í ár var það mynd­list­ar­kon­an Unn­ur Stella Ní­els­dótt­ir, eig­andi Start Studio, sem hannaði lista­verk fyr­ir átakið. Verk Unn­ar Stellu er af kaffi­hlaðborði og ber heitið Skína. Prýddi það sund­tösku sem seld var í versl­un­um Nettó auk þess sem selt var sér­hannað Jenga-spil. 

Auk þess seldi Nettó kló­sett­papp­ír og safa þar sem ágóði söl­unn­ar rann til átaks­ins. Átakið gekk sem fyrr seg­ir von­um fram­ar og söfnuðust sjö millj­ón­ir króna. Þá mun sá varn­ing­ur sem enn er óseld­ur vera til sölu hjá Ljós­inu í vet­ur og all­ur ágóði áfram renna til stuðnings við Ljósið.

Sameining bóka­safn­anna í Vesturbyggð

Öll þrjú bóka­söfnin í Vesturbyggð hafa nú form­lega verið sameinuð í eitt bóka­safn.

Það heitir Bókasafn Vesturbyggðar og er hvert og eitt útibú með sitt bæjarheiti fyrir aftan; Bókasafn Vesturbyggðar Bíldudal, Bókasafn Vesturbyggðar Patreksfirði og Bókasafn Vesturbyggðar Tálknafirði.

Breytingin fyrir lánþega er sú að nú er hægt að fá lánað í einu útibúi og skila í öðru, allt eftir hentugleika og allt með einu skírteini.

Teitur Björn: vill leiða listann

Teitur Björn Einarson, alþm. hefur ákveðið að bjóða sig fram í fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Í tilkynningu frá honum egir:

„Ég býð mig fram til að leiða lista Sjálfstæðiflokksins í Norðvesturkjördæmi Ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að leggja til að þing verði rofið og þar með boðað til alþingiskosninga var hárrétt. Kyrrstaða í málum sem eru jafn mikilvæg framtíð þjóðarinnar og raun ber vitni er óásættanleg.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð verulegum árangri síðustu ár þrátt fyrir krefjandi ríkisstjórnarsamstarf og sögulegar áskoranir og getur því stoltur lagt verk sín í dóm kjósenda. Hins vegar horfum við nú fram á breyttar áskoranir sem snúast fyrst og fremst um framtíðina og hvernig við gerum fólki best kleift að nýta tækifærin til að skapa sér og sínum gott líf um land allt.

Frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári síðan hef ég barist fyrir hagsmunum íbúa Norðvesturkjördæmis. Áskoranirnar eru fjölmargar og ólíkar, en ég tel einsýnt að áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu sé forsenda aukinnar velferðar og bættra lífskjara fólksins á svæðinu. Það er leiðin fram á við.

Ég hef fullan hug á að halda áfram að berjast fyrir bættum hag fólksins í Norðvesturkjördæmi og óska því eftir stuðningi Sjálfstæðismanna í 1. sæti á lista flokksins á kjördæmaráðsþingi næsta sunnudag.“

Stefna kennurum fyrir fé­lags­dóm

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur stefnt Kennarasambandi Íslands fyrir félagsdóm. Sambandið telur boðun verkfalls í fjölda skóla ólögmæta þar sem engin kröfugerð liggi fyrir í kjaradeilunni.

Þetta staðfestir Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, í samtali við Vísi.

Kennarar hafa boðað verkfall í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla á Ísafirði, sem hefst að óbreyttu þann 29. október.

Nýjustu fréttir