Síða 11

Vestfjarðarmót í skólaskák – 21. mars

Föstudaginn 21. mars frá 15:30-18:30 er stefnt að því að halda Vestfjarðamót í skólaskák í Grunnskólanum á Ísafirði.

Nemendur úr öllum vestfirskum grunnskólum hafa þátttökurétt. Keppt verður í eftirfarandi flokkum:

1.-4. bekkur

5.-7. bekkur

8.-10. bekkur

Sigurvegarar í hverjum flokki vinna sér inn keppnisrétt á Landsmótinu í skólaskák, sem verður að þessu sinni haldið á Ísafirði helgina 3.-4. maí.

Áhugasamir skólar/keppendur/forráðamenn vinsamlegast skráið þátttakendur með því að senda tölvupóst á Halldór Pálma Bjarkason, 822-7307,  halldorpb@gmail.com

Sérsveitaraðgerð í Bolungavík

Bolungavík í fallegu vetrarveðri í janúar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lögreglan var með sérsveitaraðgerð í Bolungavík fyrr í dag. Haft var samband við lögregluembættið á Vestfjörðum en þaðan fengust aðeins þau svör að ekkert yrði sagt um málið að svo stöddu.

Eftir því sem næst verður komist er aðgerðinni lokið og ekkert hættuástand.

Blús og píanóhátíð í Vesturbyggð í sumar

Vesturbyggð hefur gert samstarfs­samn­inga við tvær tónlist­ar­há­tíðir, annars vegar við Alþjóð­legu píanó­hátíð Vest­fjarða og hins vegar við blús­há­tíðina Blús milli fjalls og fjöru um tónlistarhátíðir í ágúst á komandi sumri.

Alþjóðlega píanóhátíð Vestfjarða, eða International Westfjords Piano Festival, var stofnuð af píanóleikaranum Andrew J. Yang árið 2022 og býður bæjarbúum upp á klassíska píanótónleika á heimsklassa ár hvert, auk þess sem mikil áhersla er lögð á námskeiðahald og kennslu. Hún verður haldin í fjórða skipti dagana 6.-13. ágúst næstkomandi. Hún hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar árið 2023 en hún er „veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi.“ Samstarfssamningurinn felur í sér árlegan styrk fyrir framkvæmd píanóhátíðarinnar og ákvæði um framboð á kennslustundum fyrir íbúa með að minnsta kosti grunnþekkingu í píanóleik.

Tónlistarhátíðin Blús milli fjalls og fjöru hefur fyrir löngu fest sig í sessi í menningarlandslagi Vestfjarða. Þar koma fram fremstu listamenn landsins á sviði blústónlistar en einnig á öðrum sviðum, svo sem rokktónlistar. Sigurjón Páll Hauksson hefur staðið að hátíðinni með glæsibrag árum saman og hún hefur verið vel sótt bæði af heimafólki jafnt sem öðrum gestum. Samstarfssamningurinn tekur til niðurfellingar á leigu félagsheimilis Patreksfjarðar yfir hátíðarhelgina og tryggir forgang hátíðarinnar að félagsheimilinu þá helgi ár hvert. Hátíðin verður haldin í 14. skipti síðustu helgina í ágúst næstkomandi, nánari upplýsingar um dagskrá og miðasölu verða birtar þegar nær dregur.

Vesturbyggð: snjómoksturstækin á Patreksfirði en mokstursmenn á Tálknafirði

KLeifaheiði í febrúar 2025.

Heimastjórn fyrrum Rauðasandshrepps og Barðastrandarhrepps hélt fund með íbúum á Barðaströnd í byrjun mánaðarins.

Tímasetning moksturs á Kleifaheiði var rædd á fundinum en skólabörn á Barðaströnd sækja skóla til Patreksfjarðar og fara yfir Kleifaheiði tvisvar á dag. Fundarmenn telja að tryggja þurfi að heiðin sé fær þegar skólabíllinn er á ferðinni um áttaleytið að morgni. Í fundargerð segir: „Samkvæmt því sem fram kom liggur það fyrir í síðasta lagi klukkan 6:30 hvort kalla þurfi út bíl og heiðin á, skv. áætlunum, að vera
opin frá klukkan 8 árdegis til 20:00. Fram kom að snjómoksturstækin væru á Patreksfirði en mokstursmenn á Tálknafirði og allur gangur væri á því hvort búið væri að moka leiðina þar á milli á tilhlýðilegum tíma svo tryggja megi aðgengi skólabílsins á réttum tíma.
Fram kom að jafnvel þó heiðin væri mokuð þá væri stundum óvissustig á Raknadalshlíð og því í raun ófært fyrir skólabörnin.“

börnum ekki ekið frá Bíldudal til Tálknafjarðar

Þá var rætt á fundinum um skólahald annars staðar í sveitarfélaginu og borið saman við stöðuna á Barðaströnd. Í fundargerðinni stendur:

„Umræða fór fram um byggingu nýs skóla á Bíldudal og aðstöðumun barna í þéttbýli annars vegar og dreifbýli hins vegar innan sveitarfélagsins. Enginn viðstaddra vissi til þess að umræða um það að aka bíldælskum börnum til skyldunáms í Tálknafirði hefði farið fram. Það er mun styttri leið en börn á Barðaströnd þurfa að leggja á sig dag hvern. Á leik- og grunnskólaaldri eru nú 16 börn á Barðaströnd en verða brátt 17.
Í máli viðstaddra kom fram að rök sveitarfélagsins væru helst þau að ekki væri hægt að halda uppi faglegu skólastarfi á Barðaströnd og í seinni tíð, að mygla sé í skólahúsnæðinu auk þess sem áhyggjur af félagsþroska barna í fámennum skólum hafi verið viðraðar.“

Gáfu Háskólasetrinu veglega gjöf

Frá afhendingu gjafarinnar. Frá vinstri: Harpa Grrímsdóttir, Margrét Hreinsdóttir, Þorsteinn Jóhannesson, Astrid Felhing og Peter Weiss. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á 20 ára afmælishátíð Háskólaseturs Vestfjarða, síðasta föstudag barst setrinu vegleg gjöf frá hjónunum Þorsteini Jóhannessyni og Margréti Hreinsdóttur. Gáfu þau Háskólasetrinu kennslutæki sem mun nýtast sérstaklega við við fjarfundi og kennslu. Tækið er geysiöflugt og er mikill fengur að því fyrir starfsemi setursins.

Þorsteinn var um árabil forystumaður í bæjarmálum á Ísafirði og tók þátt í stofnun háskólasetursins og starfi þess fyrstu árin.

Samtök ferðaþjónustunnar vilja banna hrefnuveiðar í Ísafjarðardjúpi

Samtök ferðaþjónustunnar og Hvalaskoðunarsamtök Íslands hafa ritað bréf til atvinnuvegaráðherra og farið fram á að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala og að ráðherrann setji reglugerð um það.

Í bréfinu kemur fram að tilefnið er að veitt hefur verið leyfi til fimm ára til hrefnuveiða og að hrefnuveiðimenn hafi lýst því yfir að veiðarnar muni fara fram í og við Ísafjarðardjúp. Aðeins sáust tvær hrefnu í Djúpinu við rannsóknir á síðasta ári sem fram fóru frá júní til september.

Vísað er til þess að ferðaþjónusta hafi verið að byggjast upp við Ísafjarðardjúp, þar á meðal hvalaskoðun.

Þá segir í bréfinu að árið 2017 hafi bannsvæði við hvalveiðum í Faxaflóa verið stækkað að ósk hvalaskoðunarsamtaka.

Undir bréfið rita Jóhannes Þór Skúlason og Sigursteinn Másson.

Bæjarins besta innti Jóhannes eftir því hvað liggi fyrir um möguleg áhrif af hrefnuveiðum á ferðaþjónustu sem gefur tilefni til þess að samtökin fara fram á þetta bann. Ekki barst svar við því en í svarinu segir að við Ísafjarðardjúp hafi verið „að byggjast upp fjölbreytt ferðaþjónusta undanfarin ár, meðal annars í siglingum með ferðamenn og skipulagðri hvalaskoðun. Það er mat samtakanna að mikilvægt sé fyrir áframhaldandi uppbyggingu þeirrar atvinnustarfsemi að Ísafjarðardjúp verði skilgreint sem griðasvæði hvala, þannig að hvalveiðar og hvalaskoðun fari ekki fram hlið við hlið.“

Strandveiðar: Ísafjarðarbær ekki fylgjandi auknu vægi veiðanna

Bátar á strandveiðum koma til hafnar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar áréttar þá afstöðu sína að það ekki fylgjandi auknu vægi strandveiða, hvorki á gildistíma nýrrar reglugerðar né með nýjum lögum sem boðuð hafa verið.

Þetta er gert i tilefni af því að atvinnuvegaráðherra hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð um breytingar á strandveiðum. Bæjarráðið segir í bókun að það fái ekki séð af texta reglugerðarinnar hvernig henni er ætlað að ná fram þeim markmiðum sem lagt er upp með, að tryggja 48 daga strandveiðar, þar sem ekki er gert ráð fyrir auknum kvóta til að mæta því markmiði. 

En hins vegar séu settar nýjar takmarkanir sem væntanlega er ætlað að þrengja nægjanlega að strandveiðum til að ná bæði 48 daga markmiðinu og halda veiðunum innan núverandi ramma.

kvótakerfið hefur sannað sig

þá segir í bókun bæjarráðs:

„Bæjarráð telur að þrátt fyrir ýmsa galla hafi fiskveiðistjórnunarkerfið sannað gildi sitt. Fyrir utan almenna kerfið eru að minnsta kosti tvö byggðakvótakerfi, hið almenna og sértæka. Þessi kerfi, einkum hinn svokallaði Byggðastofnunarkvóti, hafa haft veruleg jákvæð áhrif á útgerðir og vinnslur á Vestfjörðum. Sem slík hafa kerfin stuðlað að stöðugri atvinnu árið um kring og þar með fjölbreyttu lífi í sjávarbyggðum, ekki bara á höfnum og fiskvinnslum, heldur í skólum og félagsheimilum. Strandveiðikerfið, sem einungis er virkt yfir sumartímann, nær þessu ekki fram.

Ánægjulegt er að takmarkanir séu settar á eignarhald á bátum. Ekki eru þó gerðar neinar kröfur um launahlutfall. Er það nefnt hér þar sem greiningar hafa sýnt að launahlutfall er verulega lægra í strandveiðum en í öðrum veiðum, þrátt fyrir að telja mætti að mannaflsfrekar veiðar krefðust þess. Sveitarfélög hafa sínar tekjur af útsvari, og lægri laun hafa því áhrif á tekjur sveitarfélaga. Þetta verður enn skýrara ef sjómenn búa ekki árið um kring í sveitarfélaginu og hafa ekki lögheimili þar.

Samandregið er Ísafjarðarbær fylgjandi því að breyta strandveiðum í þá átt að meira af afleiddum áhrifum verði eftir í sjávarbyggðunum, en misbrestur hefur verið á því.“

Samtöl í gangi milli Innviðafélags Vestfjarða og ríkisstjórnarinnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra.

Fram kom í gærkvöldi á fundi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra á Dokkunni á Ísafirði að samtöl hafi átt sér stað milli ríkisstjórnarinnar og Innviðafélags Vestfjarða um samgöngusáttmála fyrir Vestfirði. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, talsmaður Innviðafélagsins var á fundinum og staðfesti þetta og bætti því við að honum hafi verið vel tekið. Þorgerður Katrín sagði að það yrði framhald á viðræðunum án þess þó að gefa neitt upp um mögulega niðurstöðu.

Fundurinn snerist að mestu um verkefni utanríkisráðuneytisins og gerði utanríkisráðherra grein fyrir þeim, umfangi ráðuneytisins og sendiráða. Ráðuneytið er með 126 starfsmenn auk starfsfólks á 26 sendiskrifstofum víða um heim. Fram kom að borgaraþjónusta er drjúgur hluti verkefna ráðuneytisins og koma um 30 erindi á hverjum degi inn á borð ráðuneytisins eða sendiskrifstofanna.

Ráðherrann er staddur á Vestfjörðum þessa dagana og hefur fært skrifstofu sína vestur næstu daga. Verður Þorgerður Katrín í dag í Vesturbyggð, heimsækir stofnanir og fyrirtæki og mun vera á fundi Vegagerðarinnar seinni partinn um samgöngumál.

ekki breytingar á lögum um erlenda fjárfestingu

Utanríkisráðherra upplýsti aðspurð að ekki væru uppi áform af hálfu ríkisstjórnarinnar að breyta lögum um erlenda fjárfestingu, þvert á móti stæði vilji ríkisstjórnarinnar til þess að efla erlenda fjárfestingu.

Á Vestfjörðum er viðsnúningur í íbúaþróun síðasta áratuginn nátengt erlendri fjárfestingu í laxeldi, klakþörungavinnslu og lækningavörum úr þorskroði.

Fundurinn var vel sóttur og fékk ráðherran fjölmargar fyrirspurnir tengdar viðfangsefni ráðuneytisins.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Vestri: N1 og KSÍ í heimsókn í síðustu viku

Í síðustu viku komu í heimsókn á æfingasvæði knattspyrnudeildar Vestra á Torfnesi góðir gestir.

Það voru þau Margrét Magnúsdóttir og Ómar Ingi Guðmundsson yfirmenn í Hæfileikamótun N1 og KSÍ.

Héldu þau fyrirlestur og æfingu fyrir 34 leikmenn f. 2010, 2011 og 2012.  Fyrir utan að koma frá Ísafjarðarbæ og Bolungarvíkurkaupstað voru einnig leikmenn frá Hólmavík, Drangsnesi, Súðavík og Patreksfirði. Allir eru þeir leikmenn Vestra.

Ráðgert er að heimsókn Hæfileikamótunar N1 og KSÍ verði héðan í frá árlegur viðburður.

Margrét Magnúsdóttir og Ómar Ingi Guðmundsson.

Minnsta kartöfluuppskera síðan 1993

Kartöfluuppskera árið 2024 var 5.514 tonn sem er sú minnsta síðan 1993 þegar hún var 3.913 tonn. Heildaruppskera korns, sem bændur þresktu af ökrum sínum árið 2024, var rúm 5.100 tonn en það er minnsta kornuppskera frá árinu 2018.

Uppskera á tómötum og papriku í ylrækt jókst miðað við árið 2023. Hvað framleiðslu á agúrkum varðar hefur hún verið í stöðugum vexti undanfarin 20 ár. Salat er að mestu leyti framleitt í ylrækt og nam heildaruppskera þess 553 tonnum sem er 6% samdráttur frá árinu 2023. Þrátt fyrir það var þetta þriðja mesta salatuppskera sem mælst hefur.

Gulrótauppskeran var 481 tonn sem er minnsta uppskera í 11 ár og 53% minni en árið 2023. Rófuuppskeran var 549 tonn, 14% minni en árið 2023.

Mjólkurframleiðslan árið 2024 var rúm 158 þúsund tonn, sú mesta frá árinu 1977 eða eins langt aftur og gögn ná. Þá jókst ullarframleiðsla frá fyrra ári og var 553 tonn.

Nýjustu fréttir