Síða 11

Icelandair hættir áætlunarflugi til Ísafjarðar

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjastjóri.

Icelandair tilkynnti í gærkvöldi að það myndi á næsta ári hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar. Bogi Nilson, forstjóri sagðist gera ráð fyr­ir því að flugið muni af­leggj­ast eft­ir sum­ar­vertíðina árið 2026. Skýringin sem gefin er að hætt verður að nota Bomb­ar­dier Dash 200-vélar í flugi til Grænlands og þá verður ekki lengur hagkvæmt að nota þær í flugi til Ísafjarðar.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ sagði aðspurð að henni hafi ekkert orðið sérlega vel við.

„Ég verð að segja að það er frekar þungt í mér hljóðið vegna þessa. Við höfum nú þegar óskað eftir fundi með forstjóra og framkvæmdastjóra tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair. Sá fundur verður núna á fimmtudaginn.  

Við þurfum að vinna saman að því að finna lausnir en það er ekki inní myndinni að hingað sé ekkert áætlanaflug. Minni á að flugsamgöngur á norðanverða Vestfirði eru einu almenningssamgöngurnar við svæðið.

Auðvitað verðum við líka að líta á þetta sem tækifæri til að gera betur, eins og einhver sagði  í mótbyr felast tækifæri. Þrátt fyrir allt þá höfum við eitt og hálft ár til að finna lausnir sem þýðir að við verðum að vinna hratt og það gerum við saman, bæjar- og sveitarstjórar á norðanverðum Vestfjörðum sem og forsvarsfólk Vestfjarðastofu, auk þingmanna kjördæmisins.“  

Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – staða Háskólasetursins á 20 ára afmælinu

Lokagrein númer þrjú af þremur.

Árið 2025 markar þau tímamót að allt í einu eru liðin heil tuttugu ár frá stofnun Háskólasetursins og boðað hefur verið til ársfundar 14. mars nk. þar sem þess verður minnst.

Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að skapa aðstæður fyrir fjarnámsnema í verkefnavinnu, kennslu eða fundarhöldum og gera þeim um leið kleift að vera hluti af háskólasamfélaginu. Slíkt dregur úr einangrun fjarnámsnema og gerir námið aðgengilegra.

Boðið er upp á eins fjölbreytt úrval námskeiða og mögulegt er. Sumarnámskeiðin eru vel þekkt og heimamenn þekkja beiðnina frá Háskólasetri um að tala íslensku við nemana okkar.

Þá er mastersnámið sem staðnám í boði og er kennt á ensku eins og nefnt var í grein nr. 2. Þegar námið var ákveðið var horft til sérstöðu svæðisins og hvað hentaði best útfrá umhverfinu til kennslu. Haf- og strandsvæðastjórnun (Coastal and Marine Management) veitir MRM gráðu (Master of Resource Management) og útskrifar fólk sem hefur þá öðlast þekkingu í náttúru- og félagsvísindum við stjórnunarfræði innan haf- og strandkerfa.

Sjávarbyggðafræðin (Coastal Communities and Regional Development) gefur MA (Master of Arts) gráðu og útskrifar fólk sem hefur þekkingu í félagsvísindum, hagfræði og skipulagsmálum.

Auðvitað henta þessar námsleiðir hvort sem er Íslendingum eða útlendingum. Sem fyrr segir þá þarf staðnám sem kennt er á Ísafirði að hafa víða skírskotun og fá fólk til að koma á staðinn til að stunda námið. Fjöldi heimamanna nægir ekki til að halda uppi slíku námi.

Það er gaman að verða vitni að því hversu oft útskrifaðir nemar vitna til þess að þau hafi stundað nám við Háskólasetur Vestfjarða og hversu gagnlegt það hafi verið fyrir þau og í hversu stórkostlegu umhverfi þau hafi stundað sitt nám. Og útskriftarstaðurinn, Hrafnseyri við Arnarfjörð skilur eftir sérstaka þjóðlega tilfinningu og tengingu sem aldrei hverfur.

Greinarhöfundur var valinn til formennsku í stjórn Stúdentagarða Háskólasetursins sem jafnframt var byggingarnefnd þeirra 40 íbúða sem risu við Fjarðarstrætið á Ísafirði. Greining á leigumarkaðnum hafði sýnt fram á að vegna fjölgunar starfa á svæðinu og fjölgunar þyrfti stúdentaíbúðir.

Það fór aðeins um okkur sem völdumst í verkefnið þegar Peter Weiss sagði okkur að við hefðum ár til að koma með þessar 40 íbúðir klárar til útleigu fyrir nema. Þetta hafðist með góðu fólki og röskum verktökum. Tilvist þessara íbúða styrkir Háskólasetrið og býður upp á enn betri aðstöðu fyrir námsmenn til lengri og skemmri tíma. Og segir að Háskólasetrið er komið á fullorðinsstig.

Að lokum langar mig til að þakka öllum sem lagt hafa hönd á plóg. Frábær forstöðumaður og starfsfólk þar sem metnaðurinn skín af öllum. Stjórnarfólk sem svo sannarlega hefur sýnt metnað og er mjög hugleikið um að samfélagið þróist áfram og Háskólasetrið leggi sitt ríkulega framlag til þess.

Mig langar að nota sömu lokaorð í þessa grein og ég notaði í opnunarræðu mína þegar við héldum formlega opnunarhátíð Háskólasetursins fyrir 20 árum.

,,Um leið og menntamálaráðherra og aðrir forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar sem hlýða á mál mitt eru hvattir til að leggja sérstaka áherslu á að vinna með okkur að uppbyggingu þekkingariðnarins og sköpun nýrra starfa vil ég þakka fyrir gott samstarf og mikilvægan áfanga sem náðst hefur með stofnun Háskólaseturs Vestfjarða og fjármögnun á rekstri þess. Nú er hátíðarstund – að nokkrum árum liðnum munum við líta til baka og segja; þetta var gæfuspor.”

Halldór Halldórsson

formaður Háskólaseturs fyrstu 10 árin.

Gallup: Samfylkingin eykur fylgið mikið í Norðvesturkjördæmi

Fylgi við flokkana á landsvísu skv. Gallup í febrúar 2025.

Samfylkingin eykur fylgi sitt verulega á landsvísu samkvæmt nýrri skoðanakönnun Gallup, sem unnin var í febrúar fyrir RUV. Ríkisútvarpið hefur einnig veitt aðgang að kjördæmaniðurbroti könnunarinnar.

Á landsvísu eykst fylgi Samfylkingarinnar um 5% og mælist flokkurinn með 26% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,5% í könnuninni, sem er 2,1% meira fylgi en flokkurinn fékk í alþingiskosningunum í lok nóvember sl. Flokkur fólksins missir um 5,5% fylgi frá kosningunum og mælist með 8,3%.

55% fylgisaukning Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi

Í Norðvesturkjördæmi tekur Samfylkingin mikið stökk frá úrslitum alþingiskosninganna og eykur fylgi sitt úr 15,9% upp í 24,6% og mælist langstærsti flokkurinn í kjördæminu. Sjálfstæðisflokkurinn bætir einnig við sig og fer í 19,3%, en var með 18% í kosningunum. Hinir stjórnarflokkarnir, Viðreisn og Flokkur fólksins tapa báðir um þriðjungi fylgis síns. Litlar breytingar eru á fylgi annarra flokka. Svo virðist sem fylgisaukning Samfylkingarinnar sé að mestu á kostnað hinna stjórnarflokkanna tveggja.

Ef þetta yrðu úrslit kosninga myndi þingsæti Viðreisnar í kjördæminu flytjast til Samfylkingarinnar, sem fengi þá tvo kjördæmakjörna þingmenn. Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins fengju hver sitt þingsæti. Ekki er spáð fyrir um það hvaða flokkur fengi jöfnunarþingsætið.

Niðurstöður sem hér birtast um fylgi flokkanna á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði dagana 3. febrúar – 2. mars 2025. Heildarúrtaksstærð var 9.652 og þátttökuhlutfall var 47,2%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,4%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.

Alls er byggt á 3.820 svörum og þar af voru 313 úr Norðvesturkjördæmi.

Aflaverðmæti 2024 um 171 milljarður sem er 14% samdráttur frá fyrra ári

Heildarafli íslenskra skipa árið 2024 var 995 þúsund tonn sem er 28% minni afli en árið 2023. Samdrátturinn er að mestu til kominn vegna þess að engin loðna veiddist árið 2024. Aflaverðmæti samkvæmt bráðabirgðatölum voru tæplega 171 milljarður króna sem er 14% samdráttur frá fyrra ári.

Árið 2024 veiddust 423 þúsund tonn af botnfiski sem er 5% aukning frá árinu 2023. Á sama tíma jókst verðmæti botnfiskaflans um 1%, fór úr 126 milljörðum króna í tæplega 128 milljónir. Af botnfiski var þorskaflinn tæp 224 þúsund tonn og aflaverðmæti hans við fyrstu sölu um 82 milljarðar króna. Afli uppsjávartegunda árið 2024 var um 547 þúsund tonn sem er 42% minni afli en árið 2023.

Aflaverðmæti uppsjávarafla dróst saman um 50% á milli ára og nam 29 milljörðum króna árið 2024. Af uppsjávarafla árið 2024 veiddist mest af kolmunna, tæp 324 þúsund tonn en aflaverðmæti hans við fyrstu sölu voru um 12 milljarðar króna. Síldaraflinn var rúm 133 þúsund tonn og nam aflaverðmæti hans rúmum 9 milljörðum króna.

Nýr reiknigrundvöllur fyrir örorku

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur móttekið tillögur frá Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga um nýjan reiknigrundvöll fyrir örorku til að nota við tryggingafræðilegar athuganir lífeyrissjóða. Hinar nýju forsendur voru samþykktar á félagsfundi félagsins 29. janúar sl. Fram kemur í erindi félagsins að reiknigrundvöllurinn byggist á upplýsingum frá öllum lífeyrissjóðum. Mat félagsins er að hinar nýju forsendur leiði til lækkunar á mati örorkuskuldbindinga lífeyrissjóða.

Í reglugerð um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um að við mat á örorku- og endurhæfingarlíkum skuli nota örorku-og endurhæfingartöflur byggðar á innlendri reynslu um tíðni örorku og sem útgefnar eru af ráðherra að fengnum tillögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga.

Ráðuneytið fellst á tillögur félagsins og tilkynnir hér með að við næstu tryggingafræðilegu athugun hjá lífeyrisjóðum skuli byggt á hinum nýja reiknigrundvelli við mat á örorku.

Hver fær Eyrarrósina 2025?

Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair auglýsa nú í nítjánda sinn eftir umsóknum um Eyrarrósina, viðurkenningu sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni í landsbyggðunum.

Horft er til þess að verkefnið hafi fest sig í sessi, verið starfrækt í yfir þrjú ár og hafi áhrif á menningarlíf á sínu landssvæði. 

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlaut Eyrarrósina árið 2023 en meðal fyrri verðlaunahafa má nefna Handbendi á Hvammstanga, Bræðsluna á Borgarfirði eystra, Skaftfell, Frystiklefann á Rifi, Aldrei fór ég suður, Ferska vinda í Garði, List í ljósi á Seyðisfirði og Skjaldborg á Patreksfirði.

Eyrarrósarhafinn hlýtur 2,5 milljón króna peningaverðlaun. Framleitt verður sérstakt myndband um verkefnið og því gefinn kostur á að standa að viðburði á aðaldagskrá Listahátíðar í Reykjavík 2026.



Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar verða nú veitt í þriðja sinn til þriggja nýlegra verkefna sem sýna faglegan metnað bæði í rekstri og listrænni sýn. Hver hvatningarverðlaun eru 750 þúsund krónur.

Verndari Eyrarrósarinnar er Hr. Björn Skúlason, maki forseta Íslands

Strandagangan 2025 um næstu helgi

Strandagangan fer fram á skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna í Selárdal í Steingrímsfirði, laugardaginn 8. mars 2025.

Strandagangan er almenningsganga fyrir fólk á öllum aldri, jafnt byrjendur sem lengra komna og er hluti af Íslandsgöngumótaröð SKÍ.
Þetta er 31. árið í röð sem gangan er haldin en fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995.

Að lokinni keppni er hið margrómaða kökuhlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík en þar mun verðlaunaafhendingin einnig fara fram. Áhorfendur og aðrir sem vilja styrkja gönguna geta keypt sig inn á kökuhlaðborðið á staðnum og þegar keppnisgögn eru afhent,

Sunnudaginn 9. mars heldur fjörið áfram með leikjadegi fyrir börn og unglinga og skíðaskotfimimóti.

Skráning og nánari upplýsingar hér.

Hólmavík: hótel fyrir 3 milljarða króna

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í fyrra. Frá vinstri: Friðjón, Matthías og Þorgeir.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar upplýsir á vef sveitarfélagsins í síðustu viku að áform um 60 herbergja hótel á Hólmavík sé framkvæmd sem kosti um 3 milljarða króna.

Þorgeir segir: „Hótel Strandir, er vinnuheiti nýs, 4ra stjörnu hótels sem mun rísa að öllu óbreyttu á Hólmavík á næstu árum.  Gert er ráð fyrir um 60 herbergja hóteli í fyrsta gæðaflokki og er heildarkostnaður áætlaður um þrír milljarðar.  Þau Friðjón Sigurðarson og Erla Ósk Ásgeirsdóttir, frá Fasteignaumsýslunni, kynntu þessi áform og hjá þeim kom fram að gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist síðla þessa árs og að hótelið opni árið 2027.“

Miðvikudaginn 19. febrúar sl. var haldinn íbúafundur í félagsheimilinu og fór þar fram kynning á aðalskipulagi Strandabyggðar og einnig voru áform um byggingu hótels á Hólmavík kynnt almenningi. Þorgeir segir að skiptar skoðanir hafi komið fram á fundinum um málið, einkum um staðsetninguna, en hótelið mun rísa á klettunum fyrir neðan sundlaugina.

En  það sé hins vegar mikilvægt í allri umræðu um hótelið, að huga að þeim miklu hagsmunum og margföldunaráhrifum sem hótelið mun hafa fyrir Strandabyggð og samfélagið á Hólmavík og í raun alla Vestfirði. 

 

Eyrarkláfur á Ísafirði

Fyrir nokkru sendi Efla verkfræðistofa fyrir hönd okkar sem vinnum að Eyrarkláfi inn skipulagslýsingu til bæjarins. Segja má að kominn sé gangur í þetta spennandi verkefni sem lengi hefur verið í deiglunni og markmiðið að kynna það vel og eiga opið og gott samtal á næstu misserum. 

Lyftistöng fyrir samfélagið

Kláfur upp á Eyrarfjall verður fyrsti kláfur sinnar tegundar á landinu. Hann opnar ekki einungis einstakt útsýni yfir firðina og fjöllin heldur gera áætlanir ráð fyrir veitingastað á toppnum. Þá vinnum við í samstarfi við ýmsa aðila að athugunum og þróun á áhugaverðum útvistar- og afþreyingarmöguleikum á fjallinu í tengslum við kláfinn. 

Kláfurinn mun draga að sér ferðafólk, bæði innlent sem erlent, enda einstakur á svæðinu. Sambærileg verkefni á sambærilegum svæðum t.d. í Noregi hafa gefist einstaklega vel og orðið mikil lyftistöng fyrir sín samfélög.

Ljóst er að verkefnið mun skapa mikið af tímabundnum störfum við uppbyggingu, enda mikil fjárfesting, sem og langtímastörf og þörf fyrir þjónustu. Efnahagsævintýrið á Vestfjörðum er í fullum gangi og kláfurinn mun styðja enn frekar við það.

Lengi í deiglunni

Hugmyndir um kláf upp á Eyrarfjall hafa lengi verið í deiglunni. Einhverjar heimildir eru fyrir því að hugmyndina megi rekja til Hannibals Valdimarssonar. Nýlegri útfærslur eiga Úlfar og Úlfur, oft kenndir við Hamraborg, en fyrir um tuttugu árum tóku þeir snúning á verkefninu. Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar, og Eyrarkláfur alltaf verið hugmynd í vinnslu. Hugmyndin hefur alla tíð verið að koma fyrir aðstöðu fyrir ofan Hlíðaveg eins og fram hefur komið bæði í fjölmiðlum undanfarin ár sem og samskiptum við Skipulagsstofnun í tengslum við umhverfismat.

Opið ferli

Skipulags- og undirbúningsferlið fer nú af stað með skipulagslýsingu sem send var inn fyrir nokkru. Ferlið verður faglega unnið í samræmi við lög og reglur og þegar hafa komið þar góðar ábendingar og spurningar sem við munum að sjálfsögðu vinna úr og svara. Í kjölfar skipulagslýsingar, sem er í opnu samráðsferli, munum við vinna með samstarfsaðilum okkar í Eflu að gerð tillagna um breytingar á aðal- og deiliskipulagi, þar sem ítarlegri upplýsingar munu liggja fyrir. 

Á sama tíma er unnið að matsskýrslu um umhverfisáhrif, en í matsáætlun, þar sem fjallað er um hvað muni koma fram í skýrslunni, var send inn til Skipulagsstofnunar til umfjöllunar og opins samráðs fyrr á árinu. Fyrir utan hið lögbundna, opna samráðsferli, þá munum við halda íbúafundi þar sem verkefnið og framgangur þess verður kynntur, sem og spurningum svarað.

Við hlökkum til áframhaldandi samtals og uppbyggingar á Vestfjörðum.

Gissur Skarphéðinsson

Skotís sigursælt um helgina

Verðlaunahafar í þrístöðunni. Frá vinstri: Leifur, Valur og Aðalheiður Lára Guðmundsdóttir, Grundarfirði sem varð þriðja. Mynd: Skotís.

Um helgina fór fram landsmót Skotíþróttasambands Íslands á Ísafirði í tveimur greinum með riffli , þrístöðu, sem er hnéstöðu, liggjandi og standandi og liggjandi af 50 metra færi.

Félagar í Skotíþróttafélagi Ísafirði gerðu gott mót og unnu báðar greinarnar.

Í liggjandi greininni varð Valur Richter efstur, Leifur Bremnes varð annar og Guðmundur Valdimarsson varð þriðji.

Í þrístöðunni vann Valur Richter gull og Leifur Bremnes fékk silfrið.

Uppfært kl 19:00 og leiðrétt úrslit í þrístöðunni.

Nýjustu fréttir