Mánudagur 9. september 2024
Síða 109

Knattspyrna: Vestri í 16 liða úrslit í bikarkeppninni

Pétur Bjarnason skoraði með skalla í upphafi leiks á Ásvöllum. Mynd: RUV.

Karlalið Vestra lék í gær við annars deildar lið Hauka í Hafnarfirði í birkarkeppni KSÍ í knattspyrnu. leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði. Pétur Bjarnason kom Vestra yfir strax í byrju leik, en Haukar svöruðu með tveimur mörkum og komust yfir. Toby King jafnaði fyrir Vestra og var jafnt í leikhlé. Í síðari hálfleik náði Vestri yfirhöndinni. Friðrik Þórir Hjaltason skoraði á 51. mínútu og Ívar Breki Helgason gerði það fjórða á 76. og Vestri fór með sigur af hólmi 4:2.

Dregið verður milli liðanna í dag og verður þá ljóst hvaða liði Vestri mætir næst.

Þjóðbúningamessa á Bíldudal

Hópmynd af konunum sem voru í þjóðbúningum. Mynd: Jörundur Garðarson.

Í gær, á sumardaginn fyrsta, var haldin þjóðbúningamessa í Bíldudalskirkju og var það í tíunda sinn. Vel var mætt eða um 40 – 50 manns og margir fallegir búningar. Þjóðbúningafèlagið Auður tók þàtt í messuhaldinu. Sèra Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands predikaði og þjónaði til altaris àsamt sèra Kristjàni Arasyni sóknarpresti. Boðið var til kaffiveislu að messu lokinni.

Mæðgurnar Nanna Sjöfn Pétursdóttir og Lilja Rut Rúnarsdóttir skörtuðu fallegum búningum.

Friðbjörg Matthíasdóttir lengst til hægri í 20. aldar upphlut, til vinstri er Valgerður María í 19.aldar upphlut og á milli þeirra er Bozena Turek í sínum pólska búningi.

Hópmynd með biskup og sóknarpresti. Myndir: Jörundur Garðarson.

Grunnskólinn á Ísafirði fær lýðheilsuverðlaunin 2024

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra veittu lýðheilsuverðlaunin á Bessastöðum, Alma Möller landlæknir veitti forsetanum viðurkenningu. Hér er forsetinn ásamt verðlaunahöfum.

Grunnskólinn á Ísafirði og Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, eru handhafar Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2024. Sex aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna.

Forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í annað sinn, en stofnað var til þeirra árið 2023 að frumkvæði forseta.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir um Grunnskólann á Ísafirði: Grunnskólinn hefur í 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni.Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.

Um hinn verðlaunahafann segir: Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, er hugsjónamanneskja með mikið baráttuþrek sem hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi. Ásamt því hefur hún unnið í mörg ár í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi. Guðrún Jóna stýrir nú verkefnum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna. Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði sem hún miðlar áfram af einstakri elju.

Íslensku lýðheilsuverðlaunanna eru samstarfsverkefni embættis forseta Íslands í samstarfi við Geðhjálp, embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Í febrúar var kallað eftir tillögum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum og var valnefnd falið að fjalla um tillögurnar, tilnefna þrjá í hvorum flokki og velja loks einn einstakling og eina starfsheild sem verðlaunuð voru. Öll hin tilnefndu fengu viðurkenningarskjal og var fjallað um störf þeirra í sjónvarpsþætti RÚV í tilefni verðlaunaafhendingarinnar.

Við lok athafnarinnar færði Alma Möller landlæknir forseta Íslands blómvönd sem þakklætisvott fyrir öflugan atbeina til eflingar lýðheilsu Íslendinga í hans embættistíð.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra veittu lýðheilsuverðlaunin á Bessastöðum, Alma Möller landlæknir veitti forsetanum viðurkenningu.

Verðlaunahafar og þeir sem voru tilnefndir.

Myndir: forsetaembættið.

Forsetaframbjóðandi nær nægum meðmælendafjölda

Helga Þórisdóttir forsetaframbjóðandi hefur náð lágmarksfjölda í meðmælasöfnun.

„Með sól í hjarta tilkynni ég hér með að ég hef náð undirskriftunum í meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð. Þessu fagna ég á þessum fallega degi, sumardeginum fyrsta, og vil nota tækifærið og óska landsmönnum öllum gleðilegs sumars.“

Helga vill þakka öllum þeim sem hafa lagt henni lið og skrifað undir meðmælalistann hennar. „Þetta hefur verið mikil lífsreynsla og alveg hreint dásamlegt. Ég hef hitt fjöldann allan af yndislegu fólki um land allt sem hefur trú á því reynsla mín og þekking muni komi að góðum notum á Bessastöðum og fyrir það verð ég ævinlega þakklát,“ bætir Helga við.

Helgu hlakkar til að geta kynnt sig enn betur fyrir landanum og stefnir á að fara á hina ýmsu staði á landsvísu til að kynna sig og hvaða kosti hún hefur fram að færa í forsetaembættinu.

Fiskeldissjóður: Vesturbyggð fékk 89,1 m.kr. styrk

Hæstur styrkur er veittur til nýbyggingar skólahúsnæðis á Bíldudal.

Vesturbyggð fékk samtals 89,1 m.kr. úthlutað úr Fiskeldissjóði í ár í styrk til fjögurra verkefna.

Til nýbyggingar á leik- og grunnskóla á Bíldudal var veittur kr. 46.454.000 styrkur.

Kaup og uppsetning varmadælu við sundlaugina, Patreksfirði fékk 13.000.000 kr.

Þriðja verkefnið er rannsóknarrými í Verbúðinni, Patreksfirði, en til þess var veittur 7.175.000 kr styrkur og fjórða verkefnið er Endurnýjun skólalóðar Patreksskóla, Patreksfirði sem er styrkt um kr. 22.518.000 kr.

Vesturbyggð lagði inn umsóknir um átta verkefni og sótti samtals um styrk að upphæð 248 m.kr.

Til nýbyggingar leik- og grunnskóla á Bíldudal var sótt um 150 m.kr. og sótt var um 41 m.kr. til skólalóðar. Fjögur verkefni fengu ekki styrk að þessu sinni, að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn, söfnunarsvæði fyrir úrgang í dreifbýli, þekkingarsetur í Vatneyrarbúð og kaup á rafmagnstvinnbíl.

Vísindaportið: Háskólaborgin Coimbra

Carlos Cardoso Ferreira heldur erindi í Vísindaportinu föstudaginn 26. apríl sem nefnist Háskólaborgin Coimbra: áskoranir í ferðaþjónustu.

Í háskólaborginni Coimbra er að finna einn elsta háskóla Portúgals og jafnframt er hann einn sá elsti í heiminum. Þar er fræðasamfélagið sterkt og arfleiðin endurspeglar borg með sterkar hefðir og mikla sögu. Ferðaþjónusta stendur styrkum fótum í borginni og hefur bæði styrkleika og áskoranir. 

Carlos Cardoso Ferreira er með doktorspróf í landafræði frá háskólanum í Lissabon.Hann er aðstoðarpófessor og fagstjóri BA náms í ferðamálafræðum við háskólann í Coimbra. Hann stundar rannsóknir við rannsóknarsetur í landafræði (Geography and Spatial Planning (CEGOT). Hann hefur m.a. rannsakað ferðamennsku á strandsvæðum,stjórnun áfangastaða og félagslega ábyrga ferðamennsku. Carlos er stundakennari við Háskólasetur Vestfjarða í Sjávarbyggðafræðum.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079.

Erindið fer fram á ensku.

Maskína: Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á vestanverðu landinu

Fylgi flokkanna á landsvísu skv. aprílkönnun Maskínu.

Í aprílkönnun Maskínu er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi á Vesturlandi og Vestfjörðum samanlagt. Mælist flokkurinn með 21,8% atkvæða. Samfylkingin er næst stærst með 17% fylgi. Miðflokkurinn mælist með 15,3% og Framsóknarflokkurinn með 14,9%. Viðreisn mælist að þessu sinni nokkuð há með 11,9% fylgi. Fjórir aðrir flokkar mælast en eru á bilinu 1% til 6%. Vinstri grænir mælast me 5,7% og Flokkur fólksins 6,4%, Píratar 5,9% og Sósíalistaflokkurinn fær aðeins 1,2%.

Samkvæmt þessu myndu kjördæmaþingsætin sex skiptast þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 2 þingsæti, en Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Viðreisn eitt þingsæti hver flokkur.

Samfylkingin, Miðflokkurinn og Viðreisn vinna þingsæti en Framsókn tapar tveimur, Flokkur fólksins og Vinstri grænir tapa einu hvor. Kjördæmaþingsætum í Norðvesturkjördæmi fækkar um eitt í næstu Alþingiskosningum.

Ekki er lagt mat á það hvaða flokkur myndi fá jöfnunarþingsætið.

Miðað við skiptingu atkvæða á öðrum landsvæðum milli flokka er þetta landssvæði, Vesturland og Vestfirðir, það svæði þar sem Samfylkingin fær minnst fylgi en hún er sterkust í Reykjavík með 31,3% fylgi. Þá er fylgi Viðreisnar næsthæst á Vesturlandi og Vestfjörðum á eftir Reykjavík. Sama á við hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Framsókn að þetta svæði er næsthæst á landinu í fylgi þeirra.

Könnunin fór fram dagana 5. til 16. apríl 2024 og voru 1.746 svarendur sem tók afstöðu til flokks.

STEFNUMÓT VIÐ ÍSLENSKU Á DOKKUNNI

Nú má leiða líkum að því að þú lesandi góður hafir heyrt um átakið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Hugsanlega stendur þú í þeirri trú að átakið lúti algerlega, fullkomlega, klárlega og eingöngu að þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál, að um einhvers konar námskeið sé að ræða þar sem fólk með íslensku sem annað mál sé markhópurinn. Þess vegna komi þér ef til vill málið ekki við. Sú er ALLS ekki raunin. Þeir sem hafa íslensku að móðurmáli eru aðalmarkhópurinn.

Okkur sem að Gefum íslensku séns stöndum finnst nefnilega mikilvægt að leita allra leiða við að búa í haginn fyrir aðstæður sem stuðla að sem náttúrulegastri máltileinkun og skapa tækifæri til íslenskunotkunar fjarri skólastofunni í samspili við samfélagið. Við vitum enda að Íslendingar eru gjarnir á að grípa til ensku í samskiptum við innflytjendur. Ekki verða innflytjendur góðir í íslensku við það.

Við viljum skapa vettvang hvar fólk sem lærir málið og fólk sem kann á því góð skil kemur saman og spreytir sig á íslenskusamskiptum, leitar allra leiða til að gera sig skiljanlegt á íslensku þótt leyfilegt sé að krydda málið með orðum eins og séns. Þetta gildir þá ekki síst um þá sem eru byrjendur. Það er fólgin í því áskorun að tala við byrjendur í íslensku og gera sig skiljanlegan.

Leikurinn er og ekki síst til þess gerður að fólk með íslensku að móðurmáli fái nasasjón af því hvað máltileinkun felur í sér og „neyðist“ til að gefa því gaum hvernig þeir beita málinu. Þeir þurfa þá oft og tíðum að tala afar hægt og skýrt, endurtaka og einfalda mál sitt, nota einfaldar setningar og þar fram eftir götunum. Þetta er stundum eitthvað sem þarfnast æfingar og æfingu þá vill Gefum íslensku séns skapa. Við trúum því líka að oftar en ekki geti maður brúkað íslensku þótt það kunni að taka lengri tíma en þegar skipt er yfir á ensku.

Sá viðburður Gefum íslensku séns sem hefir verið hvað vinsælastur er hin svokallaða hraðíslenska. Það er viðburður sem lýtur svipuðum lögmálum og hraðstefnumót nema hvað markmiðið er ekki að ná sér í framtíðarmaka og alls ekki að tala hratt.

May be an image of 10 people, people studying and tableOg nú vill svo til að núna á fimmtudaginn (25.4., sumardagurinn fyrsti) er einmitt hraðíslenska á Dokkunni klukkan 18:00. Af því tilefni langar okkur að biðja þig um að hugleiða að láta sjá þig (gott ef þú skráir þig áður á islenska(hja)uw.is eða staðfestir komu á Facebook). Best færi á því að taka með sér vin sem vill ná tökum á íslensku og þráir ekkert heitar en að tala íslensku við ömmu mannsins síns eða konunnar sinnar eða þá við fjölskyldu maka síns, aðila sem er mállega utangarðs í fermingarveislum og fjölskylduboðum. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þennan vin að æfa sig í íslensku.

Má sem sagt ekki bjóða þér að koma á hraðíslensku (eða eitthvað annað sem Gefum íslensku stendur að í framtíðinni) og bjóða með þér vini eða vinkonu? Má bjóða þér að koma og hjálpa okkur með þetta mikilvæga mál?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson,

verkefnastjóri Gefum íslensku séns

Stóri plokkdagurinn er sunnudaginn 28. apríl

Stóri plokkdagurinn verður haldinn með pompi og prakt um allt land sunnudaginn 28. apríl næstkomandi.

Það er Rótarýhreyfingin á Íslandi sem skipuleggur daginn með aðstoð og atfylgi góðra bakhjarla.

Markmið Rótarýhreyfingarinnar er að dagurinn sé ætlaður öllum sem vilja skipuleggja hreinsunarátak á þeim degi, eða eftir atvikum öðrum degi á svipuðum tíma.

Þannig er öllum heimilt að nota merki dagsins og myndefni tengt honum til kynningar á verkefnum tengdum plokki og umhverfishreinsun.

Allir mega stofna viðburði á Stóra Plokkdaginn á samfélagsmiðlum, tengja þá við Plokk á Íslandi, fá merkingar frá Plokk á Íslandi.

Sveitafélög landsins auglýsa sína viðburði og hvernig hægt er að bera sig að með frágang, flokkun eða urðun á hverjum stað fyrir sig.

Áslaug nýr rektor Háskólans á Akureyri

Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir hefur verið skipuð rektor Háskólans á Akureyri (HA) frá og með 1. júlí næstkomandi. Skipan Áslaugar er samkvæmt ákvörðun háskólaráðs HA frá 2. apríl síðastliðnum um að tilnefna hana sem næsta rektor skólans. Hún tekur við starfinu af Eyjólfi Guðmundssyni sem gegnt hefur stöðu rektors frá 1. júlí 2014.

Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir starfar í dag sem prófessor við Bates Collage, Lewiston, Maine í Bandaríkjunum og hefur starfað þar síðan árið 2001. Áslaug hefur gegnt þar ýmsum stjórnunarstörfum, s.s. starfi aðstoðarrektors og starfi deildarforseta. Áslaug er með doktorsgráðu í stjórnmálafræði frá Washington University in St. Louis í Bandaríkjunum.

Auk þess að hafa unnið við kennslu og rannsóknir hefur Áslaug víðtæka stjórnunarreynslu. Hún hefur í gegnum störf sín hjá Bates College m.a. komið að stjórnun rannsóknasjóðs, endurskoðun á nefndakerfi, yfirumsjón með námsmati, endurskipulagningu deildar og fleiri verkefnum bæði sem stjórnandi og prófessor.

Áslaug hefur einnig starfað sem gestaprófessor við Háskólasetur Vestfjarða og sem Fulbright fræðimaður hjá Háskóla Íslands.

Nýjustu fréttir