Mánudagur 9. september 2024
Síða 108

Tvær heimildarmyndir Einars Þórs Gunnlaugssonar sýndar á RUV

Heimildarmyndirnar “Korter yfir sjö” frá 2021 og “Endurgjöf” frá 2023, verða á dagskrá RUV 1. maí nk, en “Korter yfir sjö” er endursýnd frá 1. maí 2023, kl. 15.15. “Endurgjöf” er sýnd strax að loknum fréttum en myndirnar báðar telja alls 180 mín. í útsendingu og segja frá stéttarátökum á sl öld frá stofnun lýðveldisins.

“Korter yfir sjö” segir frá verkfallinu mikla 1955, aðdraganda þess og eftirmála, en í “Endurgjöf” er kennaraverkfallið 1995 í brennidepli. Þar er einnig sagt frá verkföllum kennara frá 1977 til aldamóta, aðdraganda verkfalls þeirra 1995 og umdeildri Þjóðarsátt. 

Uppbygging myndanna er ólík upp að vissu marki sem og efnistök, þar sem frásögnin í “Endurgjöf” byggir nokkuð á fréttatengdu sjónvarpsefni og rekur sögu fjölda verkfalla sem tengjast innbyrðis, m.a. verkfalli BSRB 1984. Þá er rakin þróun stjórnmála og upphaf internetnotkunar á Íslandi á 9. og 10. áratugum síðustu aldar og áhrif þess á skólastarf. 

Heimildarmyndirnar eru framleiddar af Passport Miðlun í leikstjórn Önfirðingsins Einars Þór Gunnlaugssonar frá Hvilft og tóku um 3 ár í framleiðslu, frá lok árs 2020 til 2023.

Helstu bakhjarlar eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, ASÍ og Efling, en einnig lagði BSRB og VR verkefnunum lið auka smærri styrktaraðila.

Viðmælendur í “Endurgjöf” eru Elna Katrín Jónsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Jónsson og  Ólafur Ragnar Grímsson, einnig Karen Rúnarsdóttir og Óli Gneisti Sóleyjarson, frv nemar úr grunn- og framhaldskóla frá 1995. Heimasíða fyrir “Endurgjöf” er https://passportpictures.is/feedback/

Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri.

Ísafjarðarbær: skrefagjald tekið upp í haust

Frá og með 1. október 2024 verður innheimt svokallað skrefagjald vegna sorphirðu ef draga þarf sorpílát lengra en 10 metra að lóðarmörkum til losunar í hirðubíl. Íbúar eru hvattir til að huga að staðsetningu sorpíláta með tilliti til þessara breytinga. Frá þessu er greint á vefsíðu Ísafjarðarbæjar.

Í samþykkt Ísafjarðarbæjar um meðhöndlun úrgangs er kveðið á um að Ísafjarðarbæ sé heimilt að innheimta skrefagjald ef draga þarf sorpílát lengra en 10 metra að lóðarmörkum til losunar í hirðubíl. Þessar breytingar voru samþykktar í bæjarstjórn í september 2023 en ákveðið að fresta innleiðingu ákvæðisins til að gefa íbúum sumarið í sumar til að bregðast við ef breytingarnar kalla á verklegar framkvæmdir. Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst að bæta vinnuaðstæður sorphirðufólks og stytta þann tíma sem tekur að losa heimilissorp. 

Skrefagjaldið er samkvæmt gjaldskrá 50% álag á hvert ílát sem þýðir að hefðbundið 240 lítra ílát fyrir almennan úrgang með innra hólfi fyrir lífrænan úrgang hækkar úr 25.700 kr. á ári í 38.550 kr. á ári.

Enn fremur er bent á fleiri ákvæði í samþykkt Ísafjarðarbæjar. Til dæmis hvað varðar aðgengi að sorpílátum, sérstaklega í fjölbýlishúsum. Í 8. grein samþykktarinnar segir: Óheimilt er að staðsetja ílát undir úrgang sem eru þyngri en 40 kg þannig að fara þurfi með þau um tröppur eða mikinn hæðarmun á lóð. Þar sem fara þarf með ílát upp tröppur skulu vera á þeim fastar sliskjur, eða rampur eða skrábraut fyrir hjól, sem draga má ílátin eftir.

Vesturbyggð: fjárfest fyrir 418 m.kr. í fyrra

Leikskólinn Araklettur, Patreksfirði.

Bæjar­stjórn Vest­ur­byggðar tók ársreikning sveit­ar­fé­lagsins fyrir til fyrri umræðu á fundi bæjar­stjórnar ´ miðviku­daginn 24. apríl.

Fram kemur að aldrei hefur verið fjár­fest fyrir jafn mikið og á árinu 2023 en hlutur sveit­ar­fé­lagsins í fjár­fest­ingum ársins nam 418 millj­ónum króna.


 

Alls nam kostnaður við framkvæmdirnar 901 m.kr. en hlutur annarra var 483 m.kr. Langhæsta fjárhæðin var vegna snjóflóðavarna, en kostnaður við þær á síðasta ári voru 472 m.kr. þar af var hlutur ríkisins 462 m.kr. Þá var framkvæmt við ljósleiðara fyrir 26 m.kr. og hlutur ríkisins var 21 m.kr. þar af.

Stærstu fjárfestingarnar voru kaup á nýjum slökkvibíl á Bíldudal fyrir 44,2 m.kr., ný slökkvistöð og Áhaldahús á Bíldudal 42,5 m.kr., stækkun leikskólans Arakletts á Patreksfirði 93,6 m.kr. og endurbætur á Vatneyrarbúð 20 m.kr. sem verður formlega opnuð í maí.

Áfram er áformað að fjárfesta verulega í innviðum sveitarfélagsins á komandi árum segir í frétt á vefsíðu sveitarfélagsins.

Skuldaviðmiðið í árslok 2024 er 87% en gert er ráð fyrir í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og efirlit með fjármálum sveitarfélaga að skuldaviðmiðið fari ekki yfir150%.

Lántökur á árinu voru 259 milljónir en gert hafði verið ráð fyrir lántöku uppá 320 milljónir. Afborganir langtímalána námu 170,5 milljónum.

Rekstrarniðurstaða samstæðunnar er 11 milljón króna tap sem er nokkuð undir áætlun sem gerði ráð fyrir 83 milljón króna hagnaði. Munar þar mestu um gjaldfærslu vegna Brúar lífeyrissjóðs uppá 71,5 milljónir, varúðarniðurfærslu á viðskiptakröfum í hafnarsjóði vegna óvissu um álögð aflagjöld ásamt fjármagnsgjöldum sem eru 22% hærri en áætlun gerði ráð fyrir.

Kerecis völlurinn: búið að tryggja fjármagn fyrir hitalögnunum

Kerecisvöllurinn í gær, sumardaginn fyrsta. Mynd: Kistinn H. Gunnarsson.

Búið er að tryggja það fjármagn sem upp á vantaði til þess að unnt væri að ráðast í það að kaupa og setja niður hitalagnir í Kerecisvöllinn á Torfnesi. Jóhann Torfason staðfesti það í samtali við Bæjarins besta. Hann sagði að einstalingar stæðu að þessu og nöfn þeirra yrði ekki gefin upp.

Í frétt Bæjarins besta á þriðjudaginn kom fram að 8,2 m.kr. vantaði til þess að ná endum saman og fjármagna kaupin og niðursetningu á hitalögnunum. Það er nú í höfn og sagði Jóhann að búið væri að panta leiðslurnar frá Set á Selfossi og von væri á þeim í næstu viku. Það væru bílar frá Kubb sem flyttu þau. Búið er að panta frostlög í rörin hjá Olís og fæst hann á góðum kjörum. Auk þess leggur Orkubú Vestfjarða 3 – 4 m.kr. í verkefnið. Ísafjarðarbær styrkir kaupin með 4,8 m.kr. framlagi.

Jóhann sagði að þessi áfangi létti verulega á mönnum og væri mikið gleðiefni.

Fiskeldissjóður: Súðavík og Strandabyggð fengu styrki

Frá Hólmavík.

Stjórn Fiskeldissjóðs úthlutaði Strandabyggð styrk að fjárhæð kr. 25.384.000 vegna fráveitu í Strandabyggð, uppbygging hreinsistöðva. Sótt var um 43,5 m.kr.

Súðavíkurhreppur fékk tvo styrki samtals kr. 17.307.000.

Verkefnið Heitir pottar og aðstaða á Langeyri er styrkt um 15.850.000 kr. og 1.457.000 kr. styrkur er til mengunarvarnabúnaðar fyrir Súðavíkurhöfn.

Súðavíkurhreppur sótti einnig um 45 m.kr. til líkamsræktaraðstöðu en ekki fékkst stuðningur við það.

Þá sótti Tálknafjarðarhreppur um 80 m.kr. styrk í fráveitu frá þéttbýlinu en ám árangurs.

Samtals fengu fimm sveitarfélög á Vestfjörðum styrki að fjárhæð 245,7 m.kr. að þessu sinni. Alls var veitt 437,2 m.kr. úr sjóðnum til sveitarfélaga á Vestfjörðum og Austurlandi.

RUV íþróttadeild: Skeiðisvöllur í Bolungavík meðal tíu flottustu knattspyrnuvalla landsins

Skeiðisvöllur í Bolungavík við rætur Ernis. Mynd:RUV.

Íþróttadeild RUV birti í morgun ítarlega umfjöllun um flottustu knattspyrnuvelli landsins byggt á mati allmargra álitsgjafa.

Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum er að mati þeirra sá sem er efstur á listanum. Meðal þeirra tíu efstu er knattspyrnuvöllur Bolvíkinga Skeiðisvöllurinn fyrir stórbrotna náttúru, stúkuna og útsýnið.

Formaður KR, sem er einn álitsgjafanna segir um völlinn: „Sennilega fallegasta vallarstæði landsins. Skeiðisvöllur hefur allt sem alvöru íslenskur völlur þarf að hafa. Búningsklefarnir langt í burt og strangheiðarlega grasbrekka/fjall. Trjádrumburinn í brekkunni er svo punkturinn yfir i-ið. Þá skemmir útsýnið ekki fyrir og tignarlegt Bolafjallið gnæfir yfir. Fallegasti völlur landsins. Hef samt bara einu sinni spilað þar og það verulega þunnur.“

Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ segir „Fjallið Ernir gnæfir yfir völlinn. Völlurinn stendur hátt í landinu og því gott útsýni út á Ísafjarðardjúp.“

Logi Ólafsson, þjálfari minntist á vígsluleikinn á endurbættum vellinum sem var sumarið 1995: „Vallarstæði einstakt í fallegu umhverfi. Vígsluleikur árið 1995 var Bolungarvík gegn ÍA á frábærum velli. Fyrsti leikur Arnars og Bjarka Gunnlaugssona á Íslandi eftir heimkomu. Mörg mörk skoruð og getumunur töluverður á liðunum.“

Stúkan á Skeiðisvelli. Mynd: RUV.

Kerecisvöllurinn á Torfnesi: magnað útsýni

Torfnesvöllur á Ísafirði kemst einnig á blað þótt hann sé ekki meðal tíu efstu. Um hann segir Páll Kristjánsson formaður KR: „Að mörgu leyti fallegasti völlur landsins. Skemmtilega staðsettur og útsýnið magnað. Fjallasýnin. Ég hefði þó viljað sjá stúkuna hinum megin þ.a. gamla góða brekkan hefði fengið að njóta sín betur áfram og áhorfendur verið beggja megin vallarins. Völlurinn væri ofar á listanum ef ekki væri fyrir þessa hörmulegu hlaupbraut. Svipað og úti á Seltjarnarnesi þar sem hlaupbrautin býr til ekkert nema fjarlægð við áhorfendur. Agalegt klúður við hönnun.“

Kerecisvöllurinn á Torfnesi í gær, sumardaginn fyrsta. Miklar framkvæmdir standa yfir við völlinn og verið að setja gervigras á hann. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Umfjöllunin á RUV.

Landsvirkjun: búist við orkuskerðingum fram í miðjan maí

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Landsvirkjun hefur tilkynnt Orkubúi Vestfjarða um að búist sé við því að áfram verði skert afhending á afgangsorku fram í maí. Orkubúið þarf að kynda fjarvarmaveitur á Vestfjörðum með olíu þar sem rafmagn er ekki til reiðu hjá Landsvirkjun og gildir takmörkunin til 30. apríl næstakomandi. Orkubúinu hefur verið gert viðvart um að líklegt sé að komi til áframhaldandi skerðingar eftir mánaðamót en formleg tilkynning hefur ekki verið gefin út. Elías Jónatansson, Orkubússtjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að Landsvirkjun gæti skert í allt að 120 daga og honum taldist til að aþð gætu bæst við 16 skerðingardagar í maí ef sú heimild væri fullnýtt.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að ástæðan sé fádæma lélegt vatnsár þar sem gengið hafi hratt á uppistöðulón. Ekki er útlit fyrir að staðan batni fyrr en hlýna tekur og vorleysingar hefjast, með vaxandi innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar.

Í viðtali við Morgunblaðið á miðvikudaginn kom fram hjá Elíasi að hver dagur kostaði Orkubúið um 5 milljónir króna og að það stefndi í að tjón Orkubúsins yrði um 600 m.kr. vegna orkuskortsins.

Aðspurður sagði Elías að ekki hefði borist svör frá Orkumálaráðherra við málaleitan Orkubúsins sem vill fá að kanna virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en erindið var sent fyrir liðlega ári.

Viðtalið: Guðbjörg Hafþórsdóttir

Guðbjörg Hafþórsdóttir í Skálavík.

Byrjum á byrjuninni. Ég fæddist í Reykjavík á aðfangadag 1985 kl. 18:12. Foreldrar mínir eru þau Hafþór Gunnarsson sem er giftur Guðbjörgu Hjartardóttur og Elsa Jóhannesdóttir sem er gift Clemens van der Zwet. Ég segi að ég sé mikill Vestfirðingur þar sem ég á rætur að rekja til Jökulfjarða, Hornstranda og Dýrafjarðar.

Sjálf er ég gift Landeyingnum Kristbirni Ólafssyni, Krissa, sem starfar í Bolungarvík sem bifvélavirki. Börnin eru fjögur; Margrét (18 ára), Vagnfríður Elsa (13 ára), Erna Ósk (8 ára) og Hafþór Nói (5 ára). Á heimilinu er einn hundur sem er misvinsæll.

Ég hef búið hér fyrir vestan alla mína tíð að undanskildu einu ári er ég elti ástina og ákvað að prófa að búa annars staðar en í Bolungarvík. Hvernig á ég að vita það fyrir víst að hér vilji ég vera ef ég hef ekki prófað neitt annað? Eftir um eitt og hálft ár á höfuðborgarsvæðinu var haldið á ný heim í Víkina fögru. 

Ég útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði og var í eitt ár formaður nemendafélags skólans. Að rifja upp þá reynslu væri tilefni til skrifa á annarri grein en það ár var lærdómsríkt og skemmtilegt.   Ég er úr síðasta útskriftarhóp Kennaraháskóla Íslands en þaðan útskrifaðist ég sem grunnskólakennari. Ég er með meistaragráðu í leikskólakennarafræðum ásamt viðbótardiplómu í sérkennslufræðum. Ég starfaði í leikskólanum Glaðheimum í um 10 ár en fyrir tveimur árum færði ég mig yfir í Grunnskóla Bolungarvíkur þar sem ég starfa sem deildarstjóri ásamt því að kenna á miðstigi 5.-7. bekk ensku og dönsku. Það er mér hjartans mál að þjónusta börn og leita leiða í þeim tilgangi að þau fái að njóta sín á þeirra forsendum.

Áhugamál mín eru margvísleg þá sérstaklega útivist og ferðalög. Með börnunum lifi ég og hrærist í þeirra áhugamálum og því sem þau taka sér fyrir hendur hvort það séu bílar, körfubolti, skíði eða hestamennska. Nýjasta fjárfestingin var meðal annars hryssa sem ég á hlut í með elstu dóttur minni sem stundar nám í hestamennsku á Sauðárkrók.

Þar sem mér finnst gaman að ganga á fjöll og stunda almenna útivist hef ég æft mig að finnast gaman að hlaupa. Loksins þegar ég fór að geta hlaupið án þess að standa frammi fyrir dauðanum vegna úthaldsleysis fór ég að mæta á hlaupaæfingar með Riddurum Rósu sem er skemmtilegur félagsskapur.

Ég vill leggja mitt af mörkum í vinnu að góðu samfélagi og þess vegna lagði ég fram krafta mína til sveitarstjórnar í Bolungarvík. Ég hef verið í sveitarstjórn frá árinu 2014 og þá lengst af sem forseti bæjarstjórnar. Ég hef ekki látið staðar numið við sveitarstjórnina heldur lagt mitt að mörkum í ýmsum nefndum og ráðum íþróttafélaga.

Draumurinn er að starfa á sumrin í Skálavík efla þar ferðaþjónustu en góðir hlutir gerast hægt.

Ég horfi bjartsýn fram á veginn og vona að samfélagið hér í Bolungarvík og á Vestfjörðum öllum verði áfram nóg um vinnu og blómlegt líf.

Knattspyrna: Vestri í 16 liða úrslit í bikarkeppninni

Pétur Bjarnason skoraði með skalla í upphafi leiks á Ásvöllum. Mynd: RUV.

Karlalið Vestra lék í gær við annars deildar lið Hauka í Hafnarfirði í birkarkeppni KSÍ í knattspyrnu. leikið var á Ásvöllum í Hafnarfirði. Pétur Bjarnason kom Vestra yfir strax í byrju leik, en Haukar svöruðu með tveimur mörkum og komust yfir. Toby King jafnaði fyrir Vestra og var jafnt í leikhlé. Í síðari hálfleik náði Vestri yfirhöndinni. Friðrik Þórir Hjaltason skoraði á 51. mínútu og Ívar Breki Helgason gerði það fjórða á 76. og Vestri fór með sigur af hólmi 4:2.

Dregið verður milli liðanna í dag og verður þá ljóst hvaða liði Vestri mætir næst.

Þjóðbúningamessa á Bíldudal

Hópmynd af konunum sem voru í þjóðbúningum. Mynd: Jörundur Garðarson.

Í gær, á sumardaginn fyrsta, var haldin þjóðbúningamessa í Bíldudalskirkju og var það í tíunda sinn. Vel var mætt eða um 40 – 50 manns og margir fallegir búningar. Þjóðbúningafèlagið Auður tók þàtt í messuhaldinu. Sèra Agnes Sigurðardóttir biskup Íslands predikaði og þjónaði til altaris àsamt sèra Kristjàni Arasyni sóknarpresti. Boðið var til kaffiveislu að messu lokinni.

Mæðgurnar Nanna Sjöfn Pétursdóttir og Lilja Rut Rúnarsdóttir skörtuðu fallegum búningum.

Friðbjörg Matthíasdóttir lengst til hægri í 20. aldar upphlut, til vinstri er Valgerður María í 19.aldar upphlut og á milli þeirra er Bozena Turek í sínum pólska búningi.

Hópmynd með biskup og sóknarpresti. Myndir: Jörundur Garðarson.

Nýjustu fréttir