Mánudagur 9. september 2024
Síða 107

Háafell kærir leyfi Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Háafell ehf hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál leyfi sem Arctic Fish fékk til laxeldis í Ísafjarðardjúpi fyrir 8.000 tonna eldi, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi. Vill Háafell að leyfi Arctic Fish verði takmarkað við eldiskvíar við Sandeyri en að felld verði út leyfi fyrir eldissvæðin Arnarnes og Kirkjusund.

Ástæðan er að umrædd eldissvæði séu innan við 5 km frá eldissvæðum Háafells í Skötufirði og Kofradýpi og þar sem Háafell hafi fengið sitt leyfi á undan Arctic Fish gangi fyrirtækið fyrir.

Í leyfi Arctic Fish sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gáfu út í lok febrúar er tiltekið að Arctic Fish megi ekki setja út fisk í eldissvæðin við Kirkjusund og Arnarnes nema að fyrir liggi samstarfssamningur milli fyrirtækjanna sem tryggi samræmdar forvarir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

Telur Háafell að það samrýmist ekki ákvæðum reglugerðar að úthluta eldissvæðum sem ganga í berhögg við fjarlægðarmörk og í raun sé ómögulegt að nýta eldissvæðin við óbreyttar aðstæður.

Torfnes: starfsmenn íþróttamannvirkja sjái um knattspyrnusvæðið og vallarhús

Æfingavöllurinn á Torfnesi í blíðunni á sumardaginn fyrsta. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fulltrúar Í lista í bæjarráði Ísafjarðarbæjar telja rétt að starfsmenn íþróttamannvirkja sjái um knattspyrnusvæðið á Torfnesi og vallarhús. Þetta kemur fram í síðustu fundargerð bæjarráðs. fram kemur í minnisblaði íþrótta- og æskulýðsfulltrúa bæjarins að forstöðumaður og starfsfólk íþróttamannvirkja sinni daglegu viðhaldi á gervigrasvöllunum á Torfnesi. Þau verkefni sem þarf að fara í eru að sópa, hreinsa, vökva og fleira sem er gert í samræmi við æfingatöflur fótboltafélaganna.
Starfsfólk svæðisins sér einnig til þess að vellir séu keppnishæfir og tilbúnir fyrir kappleiki. Þá eru einnig listuð upp verkefni og viðhald sem sinna þarf við gervigrasvelli.

Þá liggur fyrir ítarlegt verklag vegna umsjá knattspyrnusvæðis og vallarhúss á Torfnesi og eru verkefnin talin upp, auk viðhalds á gervigrasi eru það þrif í vallarhúsi og verklag vegna kappleikja.

Forstöðumaður íþróttamannvirkja mun auglýsa eftir vallarstarfsmanni fyrir sumarið og áætlað er að starfsmaðurinn hefji störf um miðjan maí.

Forsetakosningar: Jón Gnarr í Edinborgarhúsinu í kvöld

Jón Gnarr, forsetaframbjóðandi. Mynd: mbl.is.

Morgunblaðið og mbl.is standa fyrir opnum umræðufundi í kvöld í Edinborgarhúsinu með Jóni Gnarr forsetaframbjóðanda. Er fundurinn liður í landsbyggðatúr Morgunblaðsins með forsetaframbjóðendum sem hafa fengið meira en 10% í fylgiskönnunum. Fundurinn í kvöld er sá fyrsti í þeirri fundaröð.

Blaðamenn­irn­ir Andrés Magnús­son og Stefán Ein­ar Stef­áns­son munu ræða við Jón um fram­boð hans til embætt­is for­seta Íslands. Auk þess munu sér­stak­ir álits­gjaf­ar spá í spil­in, sem verða þau Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir og Guðmund­ur M. Kristjáns­son. Einnig gefst gest­um úr sal tæki­færi á að beina spurn­ing­um til fram­bjóðand­ans. 

All­ir vel­komn­ir á meðan hús­rúm leyf­ir.

Þrír aðrir fundir verða skv. eftirfarandi:

Fé­lags­heim­ilið Vala­skjálf á Eg­ils­stöðum 6. maí kl. 19.30 – Halla Hrund Loga­dótt­ir

Hót­el Sel­foss á Sel­fossi 14. maí kl. 19.30 – Bald­ur Þór­halls­son

Græni hatt­ur­inn á Ak­ur­eyri 20. maí kl. 19.30 – Katrín Jak­obs­dótt­ir

Vestri: vann sinn annan sigur í Bestu deildinni á „heimavelli“

Karlalið Vestra í Bestu deildinni gerði það gott í gær. Liðið lék sinn fyrsta „heimaleik“ á leiktímabilinu en þar sem völlurinn á Ísafirði er ekki tilbúinn var leikið í Laugardalnum í Reykjavík á heimavelli Þróttar.

Þrátt fyrir þennan annmarka átti Vestraliðið skínandi leik og hélt liði HK í Kópavogi í skefjum í jöfnum og spennandi leik þar sem Benedikt V. Warén skoraði eina mark leiksins á 73. mínútu eftir góða sendingu frá Andra Rúnari Bjarnasyni.

Sérfræðingur fotbolti.net taldi Vestramennina Benedikt V. Warén og Ibrahima Balde bestu menn leiksins.

Vestri er í 7. sæti eða um miðja deild eftir fjóra leiki með 6 stig af 12 mögulegum sem er 50% árangur.

Vesturbyggð: sameining lóða fer í grenndarkynningu

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í síðustu viku að sameining lóðanna á Bjarkagötu 10 og 12 verði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum Urðargötu 15, 17, 19 og 21, Bjarkargötu 7, 8, 11 á Patreksfirði. Skipulags- og umhverfisráð sveitarfélagsins samþykkti í síðasta mánuði að sameina lóðirnar undir athafnastarfsemi og var ákveðið að breytingin kallaði ekki á breytingu á deiliskipulagi. Sameinuð lóð verður 1.073 fermetrar og verður heimilt að byggja eitt hús 322 fermetrar að stærð með 5,9 metra lofthæð. Lóðinni hefur þegar verið úthlutað.

Bolungavík: skuldahlutfall lækkar og veltufé frá rekstri eykst

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ársreikningur Bolungavíkurkaupstaðar hefur verið lagður fram í bæjarstjórn. Rekstur sveitarfélagsins var jákvæður á síðasta ári um 43 m.kr. Heildartekjur voru 1816 m.kr. og heildargjöldin námu 1.773 m.kr. Skuldahlutfall A hluta lækkaði úr 99% í 89% af tekjum og fyrir alla samstæðuna var skuldahlutfallið um síðustu áramót óbreytt frá fyrra ári eða 104%.

Veltufé frá rekstri var 241 m.kr. sem er um 18% af tekjum ársins og nærri tvöfaldaðist frá fyrra ári.

Stærsti einstaki útgjaldaliðurinn er launakostnaður en hann var 995,4 m.kr. og hækkaði um 100 m.kr. frá 2022. Stöðugildin í árslok voru 82.

Heildarskuldir og lífeyrisskuldbindingar voru 2.700 m.kr. í árslok 2023 og hækkaði um 240 m.kr. milli ára.

Jón Pall Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að skýringin á jákvæðri afkomu væri að tekjuaukning sveitarfélagsins á síðasta ári hefði orðið mikil og mun meiri en útgjaldaukningin. Tekjur af útsvari hefðu hækkað, m.a. vegna íbúafjölgunar, fasteignaskattur hefði hækkað og eins hefðu framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga farið hækkandi. Þá væru tekjur hafnarinnar að aukast umtalsvert og gætti þar áhrif af auknu laxeldi og opnun sláturhússins Drimlu.

Jón Páll kvaðst eiga von á áframhaldi á góðum rekstri sem kæmi sér vel því sveitarfélagið væri í miklum fjárfestingum, svo sem við nýja vatnsveitu og það væri keppikefli að geta farið í þær án þess að skuldahlutfall hækkaði.

Skúli Halldórsson – 110 ára minning – 28. apríl 1914 – 28. apríl 2024

Skúli Halldórsson, tónskáld, var fæddur á Flateyri við Önundarfjörð þann 28. apríl 1914.
.
Faðir hans var Halldór Georg Stefánsson f. 1884 – d. 1948, sem var fyrsti héraðslæknirinn á Flateyri og sat frá 1. júlí 1910 til 1923. Halldór átti létt með nám og útskrifaðist sem læknir 22 ára, yngstur kandidata til þess tíma.
.
Móðir Skúla var Unnur Skúladóttir Thoroddsen f. 1885 – d. 1970. Unnur fæddist á Ísafirði þar sem faðir hennar var sýslumaður 1884-1892. Skúli Thoroddsen varð sýslumaður Ísfirðinga aðeins 25 ára en hann var settur af sem sýslumaður 1892 eftir miklar deilur í hinum svokölluðu ”Skúlamálum” – Upphaf þeirra mála var mannslát á Klofningsheiði í Önundarfirði 21. des. 1891, svonefnd “Skurðsmál”. Skúli Thoroddsen var þingmaður Ísfirðinga 1892-1916 og bjó á Ísafirði til 1901 en síðan á Bessastöðum til 1908 og eftir það í Reykjavík. Kona Skúla Thoroddsen og amma Skúla Halldórssonar var Theodóra Thoroddsen skáldkona og kvenskörungur.
.
Unnur móðir Skúla Halldórssonar var listakona og mjög músíkölsk og nam píanóleik í Skotlandi enda byrjaði Skúli snemma píanónám hjá móður sinni. Hún tók virkan þátt í tónlistarlífinu á Flateyri og bjó fjölskyldan á Grundarstíg 9. Eina systur átti Skúli, Önnu Margréti f. 30. okt. 1911 d. 1973.
.
Fjölskyldan býr á Flateyri 1910-1923, síðan á Ísafirði 1923-1928 og eftir það í Reykjavík þar sem Skúli stundar m.a. píanó- og tónlistarnám hjá Páli Ísólfssyni.
.
Skúli Halldórsson tekur Verslunarskólapróf og hefur störf hjá Strætisvögnum Reykjavíkur 1934 og starfar þar óslitið í 51 ár lengst af sem skrifstofustjóri og lengi þar við hlið Eiríks Ásgeirssonar forstjóra frá Flateyri. Skúli hafði píanó á kontornum með sérstöku leyfi borgarstjóra til þess að geta leikið á er andinn færðist yfir tónskáldið.
.
Eftir Skúla Halldórsson liggja mörg tónverk; bæði sönglög og stærri verk og hafa komið út hljómplötur og geisladiskar með verkum hans. Þekktustu lög Skúla eru eflaust Smaladrengurinn, Smalastúlkan, Hlíðin mín fríða og Linda.
.
Skúli kvænist Steinunni Magnúsdóttur frá Nýlendu, Miðnesi, Hvalsnesi, 1937 og eignast þau tvö börn; Magnús, arkitekt, f. 1937 og Unni, fiskifræðing, f. 1939. Steinunn lést 13. okt. 1997.

Skúli og Steinunn bjuggu alla tíð að Bakkastíg 1 í Reykjavík.

Skúli Halldórsson lést þann 23. júlí 2004.

Árið 1992 kom út ævisaga Skúla Halldórssonar “Lífsins dóminó” skráð af Súgfirðningnum Örnólfi Árnasyni

23. apríl 1994 hélt Önfirðingafélagið í Reykjavík Skúla Halldórssyni glæsilega afmælistónleika við húsfylli í Íslensku Óperunni til heiðurs honum áttræðum. Komu þar fram margir af bestu tónlistarmönnum á Íslandi og kynnir var Önfirðingurinn Kristín Á. Ólafsdóttir.
Heiðursgestur var frú Vigdís Finnbogadóttir þáverandi forseti Íslands sem á sínar rætur að Holti í Önundarfirði.

Björn Ingi Bjarnason

Skúli Halldórsson, Vigdís Finnbogadóttir og Björn Ingi Bjarnason.

Skúli Halldórsson hylltur á tónleikunum.

Kynnir var Kristín Á. Ólafsdóttir frá Mosvöllum.

Myndir: Björn Ingi Bjarnason.

Ísafjarðarbær: 42 flóttamenn í árslok 2023

Írakstir flóttamenn á ísafirði sem komu 2022. Mynd: RUV.

Í lok árs 2023 voru 42 flóttamenn í þjónustu velferðarsviðs Ísafjarðarbæjar og voru þeir á Ísafirði, í Súðavík og á Suðureyri, en samningur við ríkið kveður á um 40 flóttamenn í samræmdri móttöku. Sveitarfélagið fær greitt með skráðum fjölda í þjónustu, þrátt fyrir tilgreindan fjölda í samningi.

Í þessum hópi nýrra íbúa eru tveir sem ekki hafa fengið atvinnu, tveir sem fá þjónustu vegna fötlunar og einn eftirlaunaþegi. Tryggingastofnun ríkisins greiðir flóttamönnum hvorki elli- né örorkulífeyri og því eru þessir einstaklingar í þessari stöðu einungis með rétt til fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélaginu þar til réttur hefur skapast hjá TR.

Í samningi um samræmda móttöku flóttamanna er gert ráð fyrir að sérstök þjónustuáætlun sé gerð fyrir alla flóttamenn. Í skýrslu með ársreikningi Ísafjarðarbæjar fyrir 2023 kemur fram að það hefur skapað verulega aukna vinnu við málaflokkinn. Tvö stöðugildi eru skilgreind á almenna félagsþjónustu.

Ísafjörður: Vesturafl og Fjölsmiðjan vilja hærra framlag bæjarins

Vesturafl og Fjölsmiðjan á Ísafirði hafa sent Ísafjarðarbæ erindi þar sem óskað er eftir hækkun á framlagi sveitarfélagsins til starfsemi samtakanna en bærinn hefur verið einn helsti styrktaraðili beggja. Í erindinu kemur fram að „framlag styrktaraðila hefur ekki breyst í takti við launaþróun og því hefur skapast skekkja sem eykst á hverju ári. Árið 2018 nægði framlag Ísafjarðbæjar til að dekka laun forstöðumanns (laun og launatengd gjöld) en í dag er framlagið einungis um 85% af launum forstöðumanns. Laun forstöðumanns Vesturfls og Fjölsmiðjunnar teljast of lág miðað við það sem gengur og gerist á vinnumarkaði í dag. Þetta gerir það að verkum að allir starfsmenn staðarins eru of lágt launaðir og við því þarf að bregðast.“

Tekist hafi hingað til að fá gott fólk í vinnu en nú er ekki víst að takist að halda því vegna þess að ekki er
hægt að greiða þeim laun í takt við ábyrgð og starf þeirra. Þjónusta beggja sé sveitarfélaginu mikilvæg og því er óskað eftir viðræðum um framlag Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráðið tók jákvætt í erindið og vísaði því til umsagnar í velferðarnefnd, s.s. með því að endurskoða samning við Vesturafl og fól bæjarstjóra að kanna mögulega aðkomu annarra sveitarfélaga til samstarfs.

Tvær heimildarmyndir Einars Þórs Gunnlaugssonar sýndar á RUV

Heimildarmyndirnar “Korter yfir sjö” frá 2021 og “Endurgjöf” frá 2023, verða á dagskrá RUV 1. maí nk, en “Korter yfir sjö” er endursýnd frá 1. maí 2023, kl. 15.15. “Endurgjöf” er sýnd strax að loknum fréttum en myndirnar báðar telja alls 180 mín. í útsendingu og segja frá stéttarátökum á sl öld frá stofnun lýðveldisins.

“Korter yfir sjö” segir frá verkfallinu mikla 1955, aðdraganda þess og eftirmála, en í “Endurgjöf” er kennaraverkfallið 1995 í brennidepli. Þar er einnig sagt frá verkföllum kennara frá 1977 til aldamóta, aðdraganda verkfalls þeirra 1995 og umdeildri Þjóðarsátt. 

Uppbygging myndanna er ólík upp að vissu marki sem og efnistök, þar sem frásögnin í “Endurgjöf” byggir nokkuð á fréttatengdu sjónvarpsefni og rekur sögu fjölda verkfalla sem tengjast innbyrðis, m.a. verkfalli BSRB 1984. Þá er rakin þróun stjórnmála og upphaf internetnotkunar á Íslandi á 9. og 10. áratugum síðustu aldar og áhrif þess á skólastarf. 

Heimildarmyndirnar eru framleiddar af Passport Miðlun í leikstjórn Önfirðingsins Einars Þór Gunnlaugssonar frá Hvilft og tóku um 3 ár í framleiðslu, frá lok árs 2020 til 2023.

Helstu bakhjarlar eru Kvikmyndamiðstöð Íslands, ASÍ og Efling, en einnig lagði BSRB og VR verkefnunum lið auka smærri styrktaraðila.

Viðmælendur í “Endurgjöf” eru Elna Katrín Jónsdóttir, Einar Már Guðmundsson, Eiríkur Jónsson og  Ólafur Ragnar Grímsson, einnig Karen Rúnarsdóttir og Óli Gneisti Sóleyjarson, frv nemar úr grunn- og framhaldskóla frá 1995. Heimasíða fyrir “Endurgjöf” er https://passportpictures.is/feedback/

Einar Þór Gunnlaugsson leikstjóri.

Nýjustu fréttir