Mánudagur 9. september 2024
Síða 106

Skipulagsstofnun gerir athugasemdir við stækkun Mjólkárvirkjunar

frá Mjólká.

Ísafjarðarbær hefur sent til Skipulagsstofnunar tilllögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var í bæjarstjórn í febrúar sl. um stækkun Mjólkárvirkjunar. Hækka á stíflu, opna nýtt
efnistökusvæði og gera nýja veituskurði við Tangarvatn og nýtt stöðvarhús nýrrar virkjunar við Hólmavatn ásamt aðkomuvegi að nýrri virkjun, lagningu jarðstrengs og 700 m langrar niðurgrafna þrýstipípu á
milli fyrrgreindra vatna uppá Glámuhálendi. Einnig er mörkuð stefna um nýtt iðnaðarsvæði og
stækkun ferjubryggju á nýju athafnarsvæði og við það leggst núverandi ferjubryggja af í sunnanverðum Borgarfirði.

Skipulagsstofnun hefur svarað erindinu og segir að stofnunin geri ekki athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst þegar Ísafjarðarbær hafi brugðist við nokkrum atriðum. Gerir stofnunin sex athugasemdir. Fyrst segir að afmarka þurfi landnotkun iðnaðarsvæðis fyrir mannvirki sem tengjast nýrri virkjun við Hólmavatn. Þá þurfi að rökstyðja betur niðurstöðu áhrifamats á víðerni og jafnframt að tilgreina með skýrum hætti hvað liggur til grundvallar þeirri niðurstöðu. með þessu virðist Skipulagsstofnun efast um það sem fram kemur að skipulagsbreytingarnar muni lítið breyta ásýnd svæðisins þar sem það sé þegar raskað vegna fyrri framkvæmda við virkjunina. Loks vill stofnunin að betur verði gerð grein fyrir fyrirkomulagi grjótgarða við nýja bryggju og gæta að því hvort sá lengri nái út fyrir netlög og
skarist þar með við Strandssvæðisskipulag Vestfjarða.

Skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar var falið að vinna málið áfram, eins og bókað er í fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar.

Sandeyri: farið fram á lögbann

Sandeyri.

Gunnar Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri á Snæfjallaströnd hefur lagt fram beiðni um lögbann á sjókvíaeldi við Sandeyri. Fer hann fram á það við sýslumanninn á Vestfjörðum að hann banni eldið þar til úrskurðarnefndin um umhverfis- og auðlindamál hefur úrskurðað um þær kærur sem nefndin hefur fengið vegna útgáfu leyfis frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun til Arctic Fish um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Leyfin hafa þegar öðlast gildi, en nokkrir aðilar hafa kært þau til úrskurðarnefndarinnar.

Arctic Fish er þessa dagana að fengu leyfi ofangreindra stofnana svo og byggingarleyfis frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að undirbúa útsetningu eldisseiða í kvíar við Sandeyri og stefnt er að því að setja út 1 til 1,5 milljón seiða nú i vor.

Lögbannsbeiðandinn segir leyfin vera ólögmæt og að kvíastæðið sé að hluta til innan netlaga Sandeyrar.

Lögmaður Gunnars , Katrín Oddsdóttir lögmaður sagði í facebookfærslu í gær að sýslumaður gerði kröfu um 100 m.kr. tryggingu fyrir lögbannskröfunni. Jónas Guðmundsson, sýslumaður var inntur eftir hvað væri rétt í því. Í svari hans kemur fram að hann telur rétt að tjá sig ekki um málið meðan það er til meðferðar.

Búast má við því að nokkrir mánuðir líði þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir og eigi að bíða með útsetningu seiða þangað til gæti útsetning frestast til næsta árs.

Farsæl ferð á Andrésar Andar leikana

Andrésar Andar leikarnir 2024.

Farsælli ferð á Andrésar Andar leikana, uppskeruhátíð skíðabarna, er nú lokið. Skíðafélag Ísafirðinga sendi 69 þátttakendur; 26 í alpagreinum, 38 í skíðagöngu og 5 í keppni á snjóbretti. Þátttakendur voru á aldrinum 4–15 ára, en auk þeirra voru foreldrar og systkin með í för og nutu dagana í Eyjafirðinum.

Dagskrá Andrésarleikanna er að mestu í föstum skorðum dagana í kringum sumardaginn fyrsta. Leikarnir hafa tekið nokkrum breytingum í áranna rás, bæði í hvaða greinum keppt er, en einnig hvaða nálgun er á keppnishluta leikanna. Aðalmarkmiðið er að hittast og njóta útiveru saman, en keppnin er eðlilegur hluti leikanna líka, því meira sem börnin stálpast. Úrslit má sjá á vef Skíðafélags Akureyrar

Þá gefst tækifæri til að kynnast öðrum krökkum, ferðast um landið og fara í sund.

Fjáröflun Skíðafélagsins, sem varir stóran hluta árs, stendur undir talsverðum hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna ferðarinnar og er Skíðafélagið þakklátt fyrir þá peninga og sjálfboðaliðastörf sem tengjast því.

Myndir: Haukur Sigurðsson

Flateyri: framkvæmdaleyfi fyrir 2,6 milljarða króna snjóflóðavörnum

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að veitt verði framkvæmdaleyfi fyrir snjóflóðavörnum ofan Flateyrar. Framkvæmdirnar eiga að hefjast á þessu ári og verða lokið á árinu 2028. Kostnaður er áætlaður alls 2.635 milljónir króna. Á þessu ári verður framkvæmt fyrir 515 m.kr við keilur í Innra Bæjargili.

Í kjölfar snjóflóða sem urðu árið 2020 var ákveðið að styrkja núverandi varnir. Í lýsingu Eflu segir að um er að ræða 27 keilur sem komið er fyrir á úthlaupssvæðum flóðanna úr Innra-Bæjargili og Skollahvilft, 16 stk Innra-Bæjargilsmegin og 11 stk Skollahvilftarmegin. Þá verður þvergarðurinn endurbyggður og bætt við tveim leiðigörðum, annarsvegar leiðigarði við Sólbakka og hinsvegar leiðigarði á Hafnarsvæði. Jafnframt verður úthlaupssvæðið (flóðrásin) neðan Skollahvilftar dýpkað á kafla neðan til við núverandi garð.

Keilurnar eru 27 talsins. Virk hæð hverrar keilu er um 10-11m og lengd hennar í toppi er um 10m en um 15m við botn hennar. Breidd á toppi keilna er um 5m. Efstu keilurnar eru í u.þ.b. 120m hæð yfir sjó en þær neðstu í 30-40m hæð yfir sjó.

Þvergarðurinn er staðsettur nánast í legu núverandi þvergarðs, en aðeins nær byggðinni. Hann er um 300m langur og virk hæð hans er um 13-14m. Breidd á garðtoppi er um 5m. Garðurinn er nánast alveg beinn (radíus hönnunarlínu garðs er u.þ.b. 1600m). Fjarlægja þarf stærstan hluta núv. þvergarðs til að koma þeim nýja fyrir. Garðtá flóðmegin verður í u.þ.b. 15m hæð yfir sjó og landhalli á svæðinu er ekki mikill, garðtá hlémegin verður í 8-12m hæð yfir sjó.

Leiðigarður við Sólbakka er stuttur leiðigarður sem liggur u.þ.b. 40m vestan við íbúðarhúsið á Sólbakka. Í fullri hæð er garðurinn tæpir 60m að lengd og þar er virk hæð hans um 14m. Breidd á garðtoppi er um 5m.

Leiðigarður á Hafnarsvæði er tiltölulega lágur leiðgarður sem staðsettur er á uppfyllingunni ofan við höfnina. Hann er um 180m á lengd og virk hæð hans er frá því að vera tæpir 2m í NV-enda í það að vera u.þ.b. 6m í SA-endanum. Breidd á garðtoppi er um 5m. Garðurinn stendur á uppfyllingu og er garðtá hans nánast allstaðar í sömu hæð, u.þ.b. 3m yfir sjó.

Jaðrakan

Jaðrakan er einn af einkennisfuglum votlendis á láglendi.

Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri.

Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri. Fluglag er ákveðið, með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma. Gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, annars þögull. Sumum finnst hann segja: „vaddúddí – vaddúddí“ og „vita-vita-vita.“

Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, skeldýrum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum, tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.

Af fuglavefur.is

Rannsaka hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi

Tveir meistaranemar Háskólaseturs Vestfjarða hafa fengið styrk til að rannsaka hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi í sumar og haust.

Þetta eru þau Benedek Regoczi and Laura Lyall og er styrkurinn sem er veittur af Rannís, nýsköpunarsjóði námsmanna að upphæð kr 2.040.000.

Verkefnið verður unnið í samvinnu við Borea, Sjóferðir, Húsavík, Vestmannaeyjar og Whale Wise.

Í lýsingu á verkefninu kemur fram að Ísafjarðardjúp er mikilvægt fæðusvæði fyrir hnúfubaka en litlar upplýsingar liggja fyrir um hvalina og kanna á útbreiðslu hvalanna í Ísafjarðardjúpi til að stuðla að upplýstum og ábyrgum starfsháttum á svæðinu.

Reykhólahreppur – 52 milljónir til að bæta aðgengi að Kúalaug

Kúalaugin er þar sem hringurinn er á miðri mynd

Menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, hef­ur út­hlutað 538,7 millj­ón­um króna úr Fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða.

Þriðji hæsti styrk­ur­inn, rúm­ar 52 millj­ón­ir króna, fer í upp­bygg­ingu án­ing­arstaðar með aðgengi fyr­ir alla við Kúa­laug á Reyk­hólum.

Verkefni fellst í byggingu bílastæðis með aðgengi fyrir alla ásamt áningastað með borðum og bekkjum, gerð göngustíga að Kúalaug og í kringum hana, bæði úr möl og timbri.

Timburstígur mun liggja þvert yfir laugina, þar verður bryggja þar sem hægt verður að setjast niður og dýfa fótum ofan í grunnt ker í lauginni.

Kúalaug er nefnd svo vegna þess að þangað var sótt vatn til að brynna kúm á Reykhólum. Það þótti ágætt að gefa þeim volgt vatn, einnig var erfiðara að ná í kalt vatn. Þarna var hlaðin sundlaug úr torfi og var þar fyrsti vísir að sundkennslu á Reykhólum.

Kosið til sveit­ar­stjórnar í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar á laugardag

Sauðlauksdalur séð til suðurs, partur af Patreksfjarðarflugvöllur i forgrunni, Vesturbyggð áður Rauðasandshreppur. / Saudlauksdalur viewing south, part of Patreksfjordur airport in foreground. Vesturbyggd former Raudasandshreppur.

Kosið verður til sveit­ar­stjórnar og heima­stjórna í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar laug­ar­daginn 4. maí 2024 sem hér segir:

 

  • Patreks­fjörður – Kosið í Félags­heimili Patreks­fjarðar (FHP) Kjör­deildin opnar kl. 10:00.
  • Bíldu­dalur – Kosið í félags­heim­ilinu Bald­urs­haga Kjör­deildin opnar kl. 12:00.
  • Kross­holt – Kosið í Birki­mels­skóla á Barða­strönd. Kjör­deildin opnar kl. 12:00.
  • Tálknafjörður – Kosið í Tálknafjarðarskóla. Kjördeildin opnar kl. 10:00.

Íbúar fyrrum Rauðasands­hrepps eru skráðir í kjör­deild­inni á Patreks­firði.

Talning atkvæða úr sveitarstjórnarkosningunum fer fram í Félagsheimili Patreksfjarðar laugardaginn 4. maí og opnar talningarstaður kl. 21:00. Einnig verða atkvæði í heimastjórnarkosningunum talin á sama stað á sama tíma. Hægt er að fylgjast með talningunni á staðnum og verða úrslit í öllum kosningunum kynnt að talningu lokinni. Jafnframt verða úrslit kynnt á heimasíðu sveitarfélaganna.

Vakin er athygli á að kosning til heimastjórna á öllum stöðunum er hafin og fer fram á skrifstofutíma Ráðhúss Vesturbyggðar til og með föstudags 3. maí. Kosning til heimastjórna á hverjum stað fer fram samhliða sveitarstjórnarkosningunum á kjördag 4. maí í hverri kjördeild.

Yfirkjörstjórn verður með aðstöðu í ráðhúsi Vesturbyggðar á meðan á kosningu stendur.

Háafell kærir leyfi Arctic Fish í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Háafell ehf hefur kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál leyfi sem Arctic Fish fékk til laxeldis í Ísafjarðardjúpi fyrir 8.000 tonna eldi, þar af 5.200 tonn af frjóum laxi. Vill Háafell að leyfi Arctic Fish verði takmarkað við eldiskvíar við Sandeyri en að felld verði út leyfi fyrir eldissvæðin Arnarnes og Kirkjusund.

Ástæðan er að umrædd eldissvæði séu innan við 5 km frá eldissvæðum Háafells í Skötufirði og Kofradýpi og þar sem Háafell hafi fengið sitt leyfi á undan Arctic Fish gangi fyrirtækið fyrir.

Í leyfi Arctic Fish sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gáfu út í lok febrúar er tiltekið að Arctic Fish megi ekki setja út fisk í eldissvæðin við Kirkjusund og Arnarnes nema að fyrir liggi samstarfssamningur milli fyrirtækjanna sem tryggi samræmdar forvarir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

Telur Háafell að það samrýmist ekki ákvæðum reglugerðar að úthluta eldissvæðum sem ganga í berhögg við fjarlægðarmörk og í raun sé ómögulegt að nýta eldissvæðin við óbreyttar aðstæður.

Torfnes: starfsmenn íþróttamannvirkja sjái um knattspyrnusvæðið og vallarhús

Æfingavöllurinn á Torfnesi í blíðunni á sumardaginn fyrsta. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fulltrúar Í lista í bæjarráði Ísafjarðarbæjar telja rétt að starfsmenn íþróttamannvirkja sjái um knattspyrnusvæðið á Torfnesi og vallarhús. Þetta kemur fram í síðustu fundargerð bæjarráðs. fram kemur í minnisblaði íþrótta- og æskulýðsfulltrúa bæjarins að forstöðumaður og starfsfólk íþróttamannvirkja sinni daglegu viðhaldi á gervigrasvöllunum á Torfnesi. Þau verkefni sem þarf að fara í eru að sópa, hreinsa, vökva og fleira sem er gert í samræmi við æfingatöflur fótboltafélaganna.
Starfsfólk svæðisins sér einnig til þess að vellir séu keppnishæfir og tilbúnir fyrir kappleiki. Þá eru einnig listuð upp verkefni og viðhald sem sinna þarf við gervigrasvelli.

Þá liggur fyrir ítarlegt verklag vegna umsjá knattspyrnusvæðis og vallarhúss á Torfnesi og eru verkefnin talin upp, auk viðhalds á gervigrasi eru það þrif í vallarhúsi og verklag vegna kappleikja.

Forstöðumaður íþróttamannvirkja mun auglýsa eftir vallarstarfsmanni fyrir sumarið og áætlað er að starfsmaðurinn hefji störf um miðjan maí.

Nýjustu fréttir