Mánudagur 9. september 2024
Síða 105

Ísafjörður: koma upp snyrtiaðstöðu fyrir fólk í hjólastól á Torfnesi

Kerecis völlurinn á Torfnesi í byrjun sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að sveitarfélagið sjái um uppbyggingu snyrtiaðstöðu með aðgengi fyrir hjólastóla við stúkuna í aðstöðu Skotíþróttafélagsins og í samstarfi við félagið. Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem lagt var fyrir bæjarráðið að það muni kosta 7 m.kr. að halda áfram við seinni áfanga viðbyggingar Skotíþróttafélagsins og koma þar upp viðeigandi aðstöðu. En það er eitt af skilyrðum fyrir því að fá samþykkt vallarleyfi KSÍ á Kerecis vellinum á Torfnesi er að salernisaðstaða sé til staðar fyrir fólk sem er bundið við hjólastól.

Einvörðungu er átt við kostnað við uppsteypu, milliveggi, hurðir og salerni og handlaugar, þ.e.a.s. að rýmið verður enn gróft og seinna meir mun falla til frekari kostnaður. Verktakinn telur að hann geti hafist handa um leið og ákvörðun verður tekin og framkvæmdin er einföld og ætti að taka um 3 vikur segir í minnisblaðinu.

Ákveðið hefur verið að hafnarsjóður kaupi gáminn af eignasjóði bæjarins fyrir snyrtingar sem nú er á vellinum. Ekki kemur fram hvert kaupverðið verður.

Verkvest: Glæsileg dagskrá á fyrsta maí

Á Ísafirði verður safnast saman við Alþýðuhúsið og mun kröfugangan leggja af stað þaðan klukkan 14:00

í heiðursfylgd lögreglu og lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar í fararbroddi.

Gengið verður að Edinborgarhúsinu þar sem Hátíðardagskrá hefst að lokinni göngu.

  • Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar flytur tónlist 
  • Bergvin Eyþórsson heldur ræðu 
  • Fagranesið tekur nokkur lög 
  • Barnakór Tónlistarskólans börn úr 3 til 4 bekk 
  • Pistill Dagsins Lísbet Harðar Ólafardóttir
  • Maraþonmenn tekur nokkur lög

Að lokinni hátíðardagskrá í Edinborg sér Slysavarnardeildin Iðunn

um kaffiveitingar í Guðmundarbúð.

Börnum á öllum aldri verður boðið í bíó. Klukkan 14:00 og 16:00 verður barnamyndin 10 Líf  sýnd í Ísafjarðarbíó 

en klukkan 20:00 verður sýnd kvikmyndin The fall guy  12 ára aldurstakmark.

Dagskrá á Suðureyri:

Kröfuganga frá Brekkukoti kl:14:00

Boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar.

Hátíðardagskrá í félagsheimili Súgfirðinga:

Kaffiveitingar 1.Maí ávarp, ræða dagsins, söngur og tónlistarflutningur.

Flateyri

Bryggjukaffi kl 15:00 

Verklýðsfélagið Skjöldur 90.ára 

Hjómsveitin Æfing 55.ára

Sögur- myndir -tónar BIBarinn og Siggi Björnsson leiða dagskrá. 

Patreksfjörður 

Bíó fyrir börnin kl: 16:00 10.líf 

Sandeyri: útsetning seiða hafin

Stein Ove Tveiten forstjóri við eina kvína.

Útsetning seiða í kvíar við Sandeyri hófst á þriðjudaginn í síðustu viku og eru komið seiði í tvær kvíar að sögn Daníels Jakobssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. Stefnt er að þ´vi að setja 1 til 1,5 milljón seiða í kvíaþyrpinguna nú í vor.

Daníel segir aðspurður um lögbannskröfu Gunnars Haukssonar um eldi í kvíum við Sandeyri að sýslumaður Vestfjarða hafi veitt frest til fimmtudags 2. maí fyrir lögbannsbeiðanda að reiða fram 100 m.kr. tryggingu fyrir lögbanninu. Verði það ekki gert fellur málið niður. En komi fram fullnægjandi tryggingar verður málið tekið fyrir til afgreiðslu og verður beiðninni annaðhvort hafnað eða hún samþykkt.

Katrín Oddsdóttir lögmaður Gunnars Haukssonar heldur því fram að staðsetning kvínna sé að hluta til innan jarðarinnar Sandeyri þar sem þær séu innan netlaga.

Samkvæmt Jónsbók eru netlög annað hvort miðuð við dýpi að fjórum föðmum á stórstraumsfjöru ( 6,88 m) eða vegalengd (60 faðmar eða 115 metrar) út frá stórstraumsfjöruborði.

Daníel segir fullyrðingar Katrínar vera fjarstæðu. Fóðurpramminn sé um 1 km frá landi og á um 40 metra dýpi. Hann segir að allur hennar málflutningur sé óreiðukenndur og byggður á því að allar opinberar stofnanir sem að málinu koma séu að gera mistök.

Fóðurpramminn undan Sandeyri.

Önnur kvíin sem búið er að setja eldisfisk í.

Myndir: aðsendar.

Sameiginlegir framboðsfundir – Kosn­ingar til sveit­ar­stjórnar og heima­stjórna

Brjánslækur á Barðaströnd

Sameig­in­legir fram­boðs­fundir vegna sveit­ar­stjórna­kosn­inga í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar verða hald­inir sem hér segir: 

Fimmtudaginn 2. maí nk.

Baldurshagi Bíldudal klukkan 17:00

Félagsheimili Patreksfjarðar klukkan 20:00

Föstudaginn 3. maí nk.

Hópið Tálknafirði klukkan 17:00

Kosið verður til sveit­ar­stjórnar og heima­stjórna í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar laug­ar­daginn 4. maí 2024.

Vakin er athygli á að kosning til heimastjórna á öllum stöðunum er hafin og fer fram á skrifstofutíma Ráðhúss Vesturbyggðar til og með föstudags 3. maí. Kosning til heimastjórna á hverjum stað fer fram samhliða sveitarstjórnarkosningunum á kjördag 4. maí í hverri kjördeild.

Vel sóttur leitar og björgunarfundur

Landhelgisgæsla Íslands hélt í gær árlegan leitar og björgunarfund vegna leitar og björgunaratvika sjófarenda og loftfara á árinu 2023.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, setti fundinn og nýtti tækifærið og þakkaði viðbragðsaðilum fyrir sérlega gott og árangursríkt samstarf vegna leitar og björgunar á sjó og í lofti í fyrra.

Auðunn Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, fór yfir það sem efst er á baugi hjá Landhelgisgæslunni um þessar mundir. Hann ræddi um stöðu á útboði vegna björgunarþyrla fyrir Landhelgisgæsluna og innleiðingu stofnunarinnar á aðgerðargrunni sem hefur gengið afar vel og bætt upplýsingaflæði Landhelgisgæslunnar til annarra viðbragðsaðila.

Guðbrandur Örn Arnarsson og Björn J. Gunnarsson fóru yfir sjóatvik sem komu á borð Slysavarnafélagsins Landsbjargar í fyrra auk þess sem þeir ræddu um ný björgunarskip félagsins sem reynst hafa afar vel.

Hallbjörg Erla Fjeldsted og Hreggviður Símonarson fóru yfir atvik og tölfræði Landhelgisgæslunnar á fundinum sem var vel sóttur.

Spara 700 þúsund lítra af dísilolíu

Tímamót í orkuskiptum urðu í gær þegar fimm fyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsingu um að kaupa stóra vöruflutningabíla sem knúnir verða með vetni. Þeir fyrstu verða afhentir að ári.

Íslensk nýorka ehf., sem er í eigu ríkisins og stóru orkufyrirtækjana, hafði umsjón með samningum um innflutning 20 trukka frá þýska bílaframleiðandanum MAN. Búið er að selja helming þeirra og þykja þeir sambærilegir dísiltrukkunum

Orka náttúrunnar er eini framleiðandi vetnis í landinu og því þótti við hæfi að fyrstu kaupendurnir skrifuðu undir viljayfirlýsinguna í Hellisheiðavirkjun.

Áætlað er að árlega spari 20 vetnistrukkar bruna um 700 þúsund lítra af dísilolíu.

Sjómenn hafa samþykkt kjarasamninga

Öll stéttarfélög sjómanna á Íslandi hafa nú samþykkt kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

Sjómannafélag Íslands samþykkti nú síðast kjarasamning við SFS með 61% atkvæða. Kosningaþátttaka var 28,5%.

Þar áður hafði Sjómannasamband Íslands (SSÍ), Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur (SVG), VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) og Félag skipstjórnarmanna (FS) samþykkt kjarasamninga við SFS.

Megininntak samningsins lýtur að betri kjörum og réttindum til framtíðar, auk hnitmiðaðra aðgerða til að auka traust við skipti á verðmætum úr sjó.

Greiðslur í lífeyrissjóð og kauptrygging hækka í samræmi við samninga á almennum vinnumarkaði, auk þess sem áhersla er lögð á aukið gagnsæi og upplýsingagjöf vegna fiskverðsmála.

Hótelbygging á Bíldudal í undirbúningi

Bíldudalur

Fyrirtækið BA 64 ehf hefur sótt um lóð fyrir hótelbyggingu á Bíldudal við höfnina.

Vísað er í umsókninni sérstaklega til nýlegrar breytingar á reglum Vesturbyggðar um úthlutun lóða þar sem segir að bæjarstjórn sé heimild í sérstökum tilvikum vegna ríkra hagsmuna sveitarfélagsins að úthluta lóðum án auglýsingar til lögaðila vegna stærri uppbyggingarvrekefna, enda liggi fyrir samningur milli sveitarfélagsins og viðkomandi aðila.

Bæjarráð Vesturbyggðar bókaði á síðasta fundi sínum, sem var 22. apríl , að það tekur vel í beiðnina og fagnar verkefninu.

Bæjarstjóra var falið að stilla upp samningi í samráði við umsækjendur lóðarinnar og leggja að nýju fyrir ráðið.

Að BA 64 ehf stendur hópur manna frá Bíldudal.

Skipulagsstofnun gerir athugasemdir við stækkun Mjólkárvirkjunar

frá Mjólká.

Ísafjarðarbær hefur sent til Skipulagsstofnunar tilllögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem samþykkt var í bæjarstjórn í febrúar sl. um stækkun Mjólkárvirkjunar. Hækka á stíflu, opna nýtt
efnistökusvæði og gera nýja veituskurði við Tangarvatn og nýtt stöðvarhús nýrrar virkjunar við Hólmavatn ásamt aðkomuvegi að nýrri virkjun, lagningu jarðstrengs og 700 m langrar niðurgrafna þrýstipípu á
milli fyrrgreindra vatna uppá Glámuhálendi. Einnig er mörkuð stefna um nýtt iðnaðarsvæði og
stækkun ferjubryggju á nýju athafnarsvæði og við það leggst núverandi ferjubryggja af í sunnanverðum Borgarfirði.

Skipulagsstofnun hefur svarað erindinu og segir að stofnunin geri ekki athugasemd við að skipulagstillagan verði auglýst þegar Ísafjarðarbær hafi brugðist við nokkrum atriðum. Gerir stofnunin sex athugasemdir. Fyrst segir að afmarka þurfi landnotkun iðnaðarsvæðis fyrir mannvirki sem tengjast nýrri virkjun við Hólmavatn. Þá þurfi að rökstyðja betur niðurstöðu áhrifamats á víðerni og jafnframt að tilgreina með skýrum hætti hvað liggur til grundvallar þeirri niðurstöðu. með þessu virðist Skipulagsstofnun efast um það sem fram kemur að skipulagsbreytingarnar muni lítið breyta ásýnd svæðisins þar sem það sé þegar raskað vegna fyrri framkvæmda við virkjunina. Loks vill stofnunin að betur verði gerð grein fyrir fyrirkomulagi grjótgarða við nýja bryggju og gæta að því hvort sá lengri nái út fyrir netlög og
skarist þar með við Strandssvæðisskipulag Vestfjarða.

Skipulagsfulltrúa Ísafjarðarbæjar var falið að vinna málið áfram, eins og bókað er í fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar.

Sandeyri: farið fram á lögbann

Sandeyri.

Gunnar Hauksson, eigandi jarðarinnar Sandeyri á Snæfjallaströnd hefur lagt fram beiðni um lögbann á sjókvíaeldi við Sandeyri. Fer hann fram á það við sýslumanninn á Vestfjörðum að hann banni eldið þar til úrskurðarnefndin um umhverfis- og auðlindamál hefur úrskurðað um þær kærur sem nefndin hefur fengið vegna útgáfu leyfis frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun til Arctic Fish um sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Leyfin hafa þegar öðlast gildi, en nokkrir aðilar hafa kært þau til úrskurðarnefndarinnar.

Arctic Fish er þessa dagana að fengu leyfi ofangreindra stofnana svo og byggingarleyfis frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun að undirbúa útsetningu eldisseiða í kvíar við Sandeyri og stefnt er að því að setja út 1 til 1,5 milljón seiða nú i vor.

Lögbannsbeiðandinn segir leyfin vera ólögmæt og að kvíastæðið sé að hluta til innan netlaga Sandeyrar.

Lögmaður Gunnars , Katrín Oddsdóttir lögmaður sagði í facebookfærslu í gær að sýslumaður gerði kröfu um 100 m.kr. tryggingu fyrir lögbannskröfunni. Jónas Guðmundsson, sýslumaður var inntur eftir hvað væri rétt í því. Í svari hans kemur fram að hann telur rétt að tjá sig ekki um málið meðan það er til meðferðar.

Búast má við því að nokkrir mánuðir líði þar til niðurstaða úrskurðarnefndar liggur fyrir og eigi að bíða með útsetningu seiða þangað til gæti útsetning frestast til næsta árs.

Nýjustu fréttir