Mánudagur 9. september 2024
Síða 104

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt

Frá Steingrímsfjarðarheiði í apríl. Þá var betra veður en nú er spáð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem gilt hafa á Vestfjarðavegi 60 frá Dalsmynni að Flókalundi, á Djúpvegi 61, Drangsnesvegi 645, Þingeyrarvegi 622, Flateyrarvegi 64, Súgandafjarðarvegi 65 verður aflétt á morgun, föstudaginn 3. maí 2024 kl. 08:00.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Takmarkanir gilda áfram á Innstrandavegi 68 í Strandasýslu, Barðastrandarvegi 62, Bíldudalsvegi 63 og á Vestfjarðavegi 60 um Dynjandisheiði.

Alþingi: samþykkti að rannsaka snjóflóðið sem féll í Súðavík 16. janúar 1995

Súðavík. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson.

Alþingi samþykkti samhljóða á þriðjudaginn þingsályktun um rannsókn á snjóflóðinu í Súðavík í jan+uar 1995. Allir 38 viðstaddir þingmenn samþykktu tillöguna sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis flutti. Forseti Alþingis skipar nefndina.

 Skipa skal rannsóknarnefnd þriggja einstaklinga til að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóð sem féll í Súðavík 16. janúar 1995.
Rannsóknarnefndin dragi saman og útbúi til birtingar upplýsingar um málsatvik í því augnamiði að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda þar sem gerð verði grein fyrir:
     1.      hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir, hvernig skipulagi byggðar var háttað með tilliti til snjóflóðahættu, gerð hættumats og hvernig staðið var að upplýsingagjöf um snjóflóðahættu til íbúa Súðavíkur,
     2.      fyrirkomulagi og framkvæmd almannavarnaaðgerða í aðdraganda snjóflóðsins, í kjölfar þess og þar til hættuástandi var aflétt,
     3.      eftirfylgni stjórnvalda í kjölfar snjóflóðsins.
    Rannsókninni ljúki svo fljótt sem verða má og eigi síðar en einu ári eftir skipun rannsóknarnefndarinnar.

 Forsaga málsins er sú að 6. júní 2023 barst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bréf frá forsætisráðherra. Í því kom fram að ráðherra hefði borist erindi frá lögmannsstofu fyrir hönd aðstandenda og eftirlifandi ættingja þeirra fjórtán einstaklinga sem létust í snjóflóðinu. Í erindinu var farið þess á leit að rannsókn færi fram á þætti hins opinbera í snjóflóðinu, til að mynda með skipan rannsóknarnefndar á grundvelli laga um rannsóknarnefndir. Í bréfi ráðherra til nefndarinnar kom fram að ekki væri að finna í lögum sérstaka heimild til handa forsætisráðherra eða öðrum ráðherrum til að ráðast í rannsókn af þessu tagi. Ráðherra hafi því ákveðið að vísa erindinu til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem tók málið til umfjöllunar.

Í greinargerð nefndarinnar sem fylgdi með þingályktunartillögunni segir:

„Að lokinni yfirferð sinni er það mat stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að mikilvægt sé að fram fari hlutlæg og óháð rannsókn á þeim atburðum sem hér eru til umfjöllunar. Ljóst er, eins og rakið verður að aftan, að ekki fór fram óhlutdræg rannsókn í kjölfar þeirra sviplegu atburða sem áttu sér stað í Súðavík 16. janúar 1995. Hefur það skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem mikilvægt er að eyða. Taka þarf til rannsóknar málsatvik svo að leiða megi í ljós hvernig staðið var að ákvörðunum og verklagi stjórnvalda í tengslum við snjóflóðið í Súðavík. Á grundvelli slíkrar athugunar geta Alþingi og stjórnvöld eftir atvikum metið hvort dreginn hafi verið lærdómur af atburðunum og hvort úrbóta sé þörf. Slík athugun hefur einnig það hlutverk að svara ákalli um óhlutdræga rannsókn á málsatvikum sem hefur verið uppi frá því að atburðirnir urðu. Nefndin vill taka fram að við umfjöllun málsins hefur hún ekki orðið þess áskynja að neitt saknæmt hafi átt sér stað.“

Ný sýn: vilja að samfélagið verði heillandi kostur til búsetu

Í tilkynningu frá Nýrri sýn, framboðslista í sameinuðu sveitarfélagi í Vesturbyggð og Tálknafirði segir :

„Lista Nýrrar sýnar myndar hópur fólks með það að markmiði að samfélagið okkar, hér á sunnanverðum Vestfjörðum, verði heillandi kostur til búsetu. Hér viljum við að fólk geti fengið að lifa og eldast í sátt við náungann og umhverfið. Heimastjórnir, sem verður kosið í samhliða bæjarstjórnarkosningunum, er spennandi nálgun til að brúa bil á milli íbúa hvers svæðis og stjórnvaldsins. Við erum mjög ákveðin í að hlúa vel að þeim. Leik- og grunnskólamál verða í brennidepli á þessu stutta kjörtímabili, enda liggur þungi fjárfestinga næstu ára í þeim flokki. Við erum á leið í útboð með nýja skólabyggingu á Bíldudal, við erum nýbúin að stækka leikskólann Araklett á Patreksfirði, við erum með framkvæmdir í þremur áföngum á skólalóð Patreksskóla sem búið er að endurhanna. Uppbygging skólalóðar á Tálknafirði, sem var verkefni nemenda, er líka á dagskrá. Allar þessar framkvæmdir þarf að tryggja að vel gangi.“

Þá er vikið að samöngumálum:

„Í huga okkar og íbúa eru samgöngur ofarlega í huga. Nú liggja fyrir drög forgangsröðunarlista í jarðgangagerð. Við fögnum því að jarðgöng um Mikladal og Hálfdán séu komin á listann. Í okkar huga eru samgöngur innan sveitarfélagsins lykillinn í að nýtt sveitarfélag kom til með að dafna og þroskast í takt við tímann. Nú er það að berjast fyrir enn frekari áheyrn og þoka göngunum sem og uppbyggingu á Bíldudalsvegi um Trostansfjörð ofar á listanum. Í ofanálag þarf að berjast fyrir aukinni þjónustu á vegum, innan svæðis og sem tengja okkur við þjóðveg 1, bæði hvað varðar viðhald og vetrarþjónustu.“ 

Heilsufyrirlestur í Hömrum í kvöld 20

Næringarfræðingurinn Beta Reynis og matgæðingurinn og Albert Eiríksson með líflegan og fræðandi fyrirlestur um næringu, heildræna heilsu og allt það sem þarf til að lifa heilbrigðu lífi, án öfga.

Hér er á ferðinni einstök og skemmtileg kvöldstund, full af fróðleik, hvatningu og skilaboðum til að taka með sér heim.

Heilsan skiptir máli – þú skiptir máli!

Sjáumst þann 2. maí kl 20:00 í Hömrum- tónleikasal Tónlistaskólans á Ísafirði.

Aðgangseyri 2500 kr. 

https://www.facebook.com/events/961381872021845

V- Barð: Ný sýn vill ekki Vatnsdalsvirkjun strax

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar sýnar.

Páll Vilhjámsson, oddviti Nýrrar sýnar, annars framboðslistans í komandi sveitarstjórnarkosningum næsta laugardag í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í Vestur Barðastrandarsýslu segir aðspurður um afstöðu listans til Vatnsdalsvirkjunar að í orkumálum sé hún á þann veg að „við viljum berjast fyrir öryggi í afhendingu á raforku. Við teljum það alveg ljóst að sama hvort við virkjum ekkert, lítið eða mikið að tvöföldun Vesturlínu sé óumflýjanleg og það er vinna sem við þurfum að hefja strax. Við viljum að gengið verði í að virkja þá kosti sem sitja í orkunýtingarflokki eftir umfjöllun og skoðun í rammaáætlun áður en farið er virkjanakosti á friðlýstum svæðum.“

Orkubú Vestfjarða hefur farið þess á leit við orkumálaráðherra að hann heimili að virkjunarkosturinn Vatnsdalsvirkjun verði tekinn til skoðunar í rammaáætlun og aflétti friðun sem er á svæðinu. Í umsögn Vesturbyggðar í desember sl. um erindið kom fram að meirihluti Nýrrar sýnar í Vesturbyggð lagðist gegn erindinu en minnihluti sjálfstæðismanna og óháðra studdi það.

Byggðasafn Vestfjarða: viðgerða þörf á nýlegu geymsluhúsi

Húsaþyrping Byggðasafns Vestfjarða.

Komið hefur í ljós að viðgerða er þörf á norðurhlið geymsluhúss Byggðasafns Vestfjarða , sem nefnt er Jónshús. það var reist árið 2005 og er því nýlegt, en í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar kemur fram að norðurhlið matshluta 1 var í upphafi hannaður sem innveggur, og glervirkið kæmi í framhaldi, sem myndi hlífa við þeirri ágjöf sem fylgir norðanáttinni. Verkið var á sinum tíma ekki fullklárað og matshluti 2 var ekki byggður.

Vandamál eru að koma upp sem tengjast norðurgaflinum, þá sérstaklega í kringum hurðina. Ekki hefur almennilega verið hægt að þétta í kringum hana. Þar af leiðandi hefur bleyta á leið þar inn og jafnvel, má leiða að því líkum að þéttingar undir fótstykki séu að gefa eftir. Við rakaskimun þá mældist umtalsverður raki, í allt að 50 cm. upp eftir veggnum.

Við úrbætur verður farið í að hreinsa, blautt og myglað byggingarefni. Jafnframt að hurðinni verði lokað, með klæðningu og varanlegum frágangi við fótreim, t.a.m. vatnslás meðfram fótstykki að utanverðu.

Áætlaður kostnaður við framkvæmdir er um 2 m.kr. og verður endurnýjun á þakjárni í smiðjunni frestað um ár til þess að standa straum af kostnaði.

Réttindin duttu ekki af himnum ofan!

Í dag er alþjóðlegur báráttudagur verkafólks, fólksins sem barist hefur fyrir þeim réttindum sem í dag, öllum þykja sjálfsögð og eðlilegur huti samfélagsins. Hinsvegar er til fólk sem finnst verkalýðsbarátta algjörlega tilgangslaus og sumir ganga svo langt að segja verkalýðsfélög óþörf!

Ok, ekkert mál. Ef stéttarfélögin eru bæði tilgangslaus og óþörf viltu þá ekki sleppa því að nýta þér orlof, uppsagnarfrest, veikindarétt, sjúkrasjóði, fæðingarorlof, lífeyrissjóði, hvíldartíma, hagstætt leiguhúsnæði og önnur þau réttindi sem ríflega 100 ára barátta fólksins í stéttarfélögum hafa skilað og eru þín réttindi í dag!

Þessi réttindi verðum við öll að halda áfram að verja því það gerir “enginn rassgat einn” svo vitnað sé til eins af slagorðum Adrei fór ég suður, tónlistarhátíðar alþýðunnar. Því ef við sjálf verjum ekki þessi dýrmætu réttindi þá er næsta víst að þau verði tekin af okkur. Einmitt það staðfesta hugmyndir sumra atvinnurekenda um breytt skipulag á lögum og reglum sem í dag tryggja þér og mér réttindin sem okkur öllu þykja svo sjálfsögð.

Fjölmennum því í kröfugöngur dagsins og tökum þátt í baráttu stéttarfélaganna og viðburðum sem stéttarfélögin í landinu bjóða upp á. Því á þessum degi, 1. maí, minnumst við baráttunar fyrir bættum kjörum og réttindum sem við látum ekki taka frá okkur.

Til hamingju með daginn okkar 1. maí.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Ísafjörður: koma upp snyrtiaðstöðu fyrir fólk í hjólastól á Torfnesi

Kerecis völlurinn á Torfnesi í byrjun sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að sveitarfélagið sjái um uppbyggingu snyrtiaðstöðu með aðgengi fyrir hjólastóla við stúkuna í aðstöðu Skotíþróttafélagsins og í samstarfi við félagið. Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem lagt var fyrir bæjarráðið að það muni kosta 7 m.kr. að halda áfram við seinni áfanga viðbyggingar Skotíþróttafélagsins og koma þar upp viðeigandi aðstöðu. En það er eitt af skilyrðum fyrir því að fá samþykkt vallarleyfi KSÍ á Kerecis vellinum á Torfnesi er að salernisaðstaða sé til staðar fyrir fólk sem er bundið við hjólastól.

Einvörðungu er átt við kostnað við uppsteypu, milliveggi, hurðir og salerni og handlaugar, þ.e.a.s. að rýmið verður enn gróft og seinna meir mun falla til frekari kostnaður. Verktakinn telur að hann geti hafist handa um leið og ákvörðun verður tekin og framkvæmdin er einföld og ætti að taka um 3 vikur segir í minnisblaðinu.

Ákveðið hefur verið að hafnarsjóður kaupi gáminn af eignasjóði bæjarins fyrir snyrtingar sem nú er á vellinum. Ekki kemur fram hvert kaupverðið verður.

Verkvest: Glæsileg dagskrá á fyrsta maí

Á Ísafirði verður safnast saman við Alþýðuhúsið og mun kröfugangan leggja af stað þaðan klukkan 14:00

í heiðursfylgd lögreglu og lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar í fararbroddi.

Gengið verður að Edinborgarhúsinu þar sem Hátíðardagskrá hefst að lokinni göngu.

  • Lúðrasveit Tónlistarskóla Ísafjarðar flytur tónlist 
  • Bergvin Eyþórsson heldur ræðu 
  • Fagranesið tekur nokkur lög 
  • Barnakór Tónlistarskólans börn úr 3 til 4 bekk 
  • Pistill Dagsins Lísbet Harðar Ólafardóttir
  • Maraþonmenn tekur nokkur lög

Að lokinni hátíðardagskrá í Edinborg sér Slysavarnardeildin Iðunn

um kaffiveitingar í Guðmundarbúð.

Börnum á öllum aldri verður boðið í bíó. Klukkan 14:00 og 16:00 verður barnamyndin 10 Líf  sýnd í Ísafjarðarbíó 

en klukkan 20:00 verður sýnd kvikmyndin The fall guy  12 ára aldurstakmark.

Dagskrá á Suðureyri:

Kröfuganga frá Brekkukoti kl:14:00

Boðsund barna í Sundlaug Suðureyrar.

Hátíðardagskrá í félagsheimili Súgfirðinga:

Kaffiveitingar 1.Maí ávarp, ræða dagsins, söngur og tónlistarflutningur.

Flateyri

Bryggjukaffi kl 15:00 

Verklýðsfélagið Skjöldur 90.ára 

Hjómsveitin Æfing 55.ára

Sögur- myndir -tónar BIBarinn og Siggi Björnsson leiða dagskrá. 

Patreksfjörður 

Bíó fyrir börnin kl: 16:00 10.líf 

Sandeyri: útsetning seiða hafin

Stein Ove Tveiten forstjóri við eina kvína.

Útsetning seiða í kvíar við Sandeyri hófst á þriðjudaginn í síðustu viku og eru komið seiði í tvær kvíar að sögn Daníels Jakobssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish. Stefnt er að þ´vi að setja 1 til 1,5 milljón seiða í kvíaþyrpinguna nú í vor.

Daníel segir aðspurður um lögbannskröfu Gunnars Haukssonar um eldi í kvíum við Sandeyri að sýslumaður Vestfjarða hafi veitt frest til fimmtudags 2. maí fyrir lögbannsbeiðanda að reiða fram 100 m.kr. tryggingu fyrir lögbanninu. Verði það ekki gert fellur málið niður. En komi fram fullnægjandi tryggingar verður málið tekið fyrir til afgreiðslu og verður beiðninni annaðhvort hafnað eða hún samþykkt.

Katrín Oddsdóttir lögmaður Gunnars Haukssonar heldur því fram að staðsetning kvínna sé að hluta til innan jarðarinnar Sandeyri þar sem þær séu innan netlaga.

Samkvæmt Jónsbók eru netlög annað hvort miðuð við dýpi að fjórum föðmum á stórstraumsfjöru ( 6,88 m) eða vegalengd (60 faðmar eða 115 metrar) út frá stórstraumsfjöruborði.

Daníel segir fullyrðingar Katrínar vera fjarstæðu. Fóðurpramminn sé um 1 km frá landi og á um 40 metra dýpi. Hann segir að allur hennar málflutningur sé óreiðukenndur og byggður á því að allar opinberar stofnanir sem að málinu koma séu að gera mistök.

Fóðurpramminn undan Sandeyri.

Önnur kvíin sem búið er að setja eldisfisk í.

Myndir: aðsendar.

Nýjustu fréttir