Mánudagur 9. september 2024
Síða 103

Vísindaportið: Er hægt að láta nýsköpun gerast?

Í erindi sem Arnar Sigurðsson heldur í Vísindaporti föstudaginn 3.maí  verður spurningum velt upp um hvort, og þá hvernig hægt sé að stuðla að nýsköpun á tilteknum svæðum. Unnið verður með þræði sem spunnust í verkefninu Að rækta vistkerfi nýsköpunar í dreifðum byggðum. Leitast verður að svara því á sem hagnýtastan hátt: Hvað getum við gert til að stuðla að nýsköpun í okkar nærumhverfi?

Arnar Sigurðsson er frumkvöðull sem vinnur að rannsóknum og þróun á sambandi sköpunar og samfélags. Hann starfar innan samfélagslegu tilraunstofunnar Austan mána (www.eastofmoon.com). Um þessar mundir starfar Arnar að því að þróa og leiða hafnar.haus, sem er vinnurými og samfélag um 250 listamanna, frumkvöðla og annars skapandi fólks í miðbæ Reykjavíkur.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér:https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Sveitarstjórnarkosningar xD og óháðir: öruggar samgöngur og tenging milli atvinnusvæða

Listi sjálfstæðismanna og óháðra. Á myndina vantar, Ólaf Byron Kristjánsson, Ólaf Steingrímsson og Jónínu Helgu Sigurðardóttur.

Sameinað sveitarfélag Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar er fjölkjarna sveitarfélag þar sem búseta dreifist um sjávarbyggðir og sveitir á nokkuð víðfeðmu svæði. Á D-lista sjálfstæðisflokks og óháðra er mikið af öflugu fólki, sem býr um allt sveitarfélagið og vill leggja sitt af mörkum fyrir samfélagið.

Allt það sem skiptir máli til þess að fólk vilji búa hér og starfa skiptir okkur máli. Við leggjum áherslu á að skapa umhverfi sem hlúir vel að öllum aldurshópum og tekur vel á móti öllum þeim sem vilja leggja okkur lið í að búa til öflugt samfélag.

Til þess að samfélagið nái sem bestum árangri í því að laða að fólk og fyrirtæki og hugsa sem best um þá sem fyrir eru, þá þarf öruggar samgöngur um svæðið. Við þurfum að leggja áherslu á tengingu milli atvinnusvæða innan hins nýja sameinaða sveitarfélags, þar sem framtíðarsýn okkar í samgöngum er með gerð jarðgangna en ekki fjallvegum. Aðgangur fólks að heilbrigðisþjónustu og almennt öryggi verður ekki viðunandi nema með slíkum samgöngubótum. Atvinnulíf, félagsstarf og menningarlíf með bættum samgöngum um sveitarfélagið myndi gjörbreytast.

Það eru mikil tækifæri fólgin í því að bæta samgöngur út frá öryggissjónarmiðum og ekki síður með tilliti til umhverfisþátta. Við þurfum því að hafa skýra framtíðarsýn í samgöngumálum, huga að nýjum lausnum og ætlum að beita öllum okkar áhrifum og kröftum til að ýta þessum málum áfram!

Undirstaðan í samkeppnishæfu samfélagi er traust atvinnulíf sem forsenda velferðar og lífsgæða. Við leggjum áherslu á að skilyrði séu til staðar til að byggja undir vöxt í atvinnulífinu, hvort heldur sem um er að ræða sjávarútveg, fiskeldi, ferðaþjónustu eða hefðbundinn landbúnað, þannig að byggðirnar geti haldið áfram að vaxa og blómstra. Við viljum greina tækifærin sem felast í þjóðgarði og bæta aðgengi að okkar helstu seglum í ferðaþjónustunni. Það er brýnt að sinna úrbótum á helstu ferðamannaleiðum, en þar höfum við einfaldlega setið eftir.

Samgöngur, félags- skóla- og velferðarmál, skipulagsmál, ljósleiðaravæðing, raforkumál, fjarskipta- og atvinnumál, það er af nógu að taka og nýjar áskoranir blasa við í sameinuðu sveitarfélagi. Mikilvæg verkefni eru framundan í samfélagi okkar, hvort heldur sem um er að ræða í uppbyggingu innviða eða þjónustu við íbúa, líkt og við komum inn á í stefnuskrá okkar sem hægt er að kynna sér á xd.is/sameinud.

Á þessu fyrsta kjörtímabili verður tekið upp vinnulag heimastjórna og því mun okkar samvinna og verklag þurfa að mótast af reynslunni sem af því skapast. Við ætlum okkur að standa vörð um sérstöðu byggðanna og höfum metnað til að byggja upp nýtt og öflugt samfélag í samvinnu við íbúa og atvinnulíf. Við biðjum um umboð kjósenda til þess að við getum leitt þessa vinnu og höfum einsett okkur að standa samhent undir þeim verkefnum sem framundan eru.

Sameinuð í sókn.

Stefnuskrá xD

Ísafjarðarbær: Steinar Darri Emilsson ráðinn verkefnastjóri

Steinar Darri Emilsson, forstöðumaður hefur verið ráðinn verkefnastjóra tæknilausna og innkaupa hjá Ísafjarðarbæ. Starfið var auglýst laust til umsóknar þann 15. mars með umsóknarfrest til og með 7. apríl.

Umsækjendur voru fimm:

Magnús Einar Magnússon, framleiðslustjóri

Muhammed Iftikhar, framkvæmdastjóri

Ólöf Birna Jensen, kennari

Óttar Grétarsson, bókari

Steinar Darri Emilsson, forstöðumaður, sem var ráðinn og hefur hann störf þann 1. júní næstkomandi.

Hann er búsettur á Akranesi, en samkvæmt svörum frá Ísafjarðarbæ er starfið staðbundið á bæjarskrifstofum. En starfsmenn hafa heimild til fjarvinnu að hluta eftir samkomulagi við yfirmann og eftir því sem hentar starfseminni segir í svarinu.

Risavaxið íslenskt götuleikhús á Ísafirði

Þann 8. júní birtast ótrúlegar kynjaverur á Ísafirði þegar Listahátíð í Reykjavík, sirkuslistahópurinn Hringleikur og leikgervastúdíóið Pilkington Props taka höndum saman í nýju, íslensku götuleikhúsverki fyrir alla fjölskylduna.

Hvað er að gerast á hafnarbakkanum? Fréttir hafa borist af því að togari á veiðum rétt fyrir utan landgrunnið hafi fengið risavaxna og áður óþekkta lífveru í trollið.

Skömmu síðar varð hann vélarvana og sendi út neyðarkall. Togarinn hefur nú verið dreginn í höfn.

Á meðan beðið er eftir viðbrögðum vísindamanna við þessu furðufyrirbæri gefst almenningi einstakt tækifæri til þess að berja ferlíkið augum.

Eru sæskrímsli úr þjóðsögum okkar komin fram í dagsljósið og hvaða skilaboð færa þau okkur?

Sjálfstæðisflokkur og óháðir: orkumálin í brennidepli – veltum öllum steinum við

Friðbjörg Matthíasdóttir, oddviti D lista.

Afhendingaröryggi og aukin græn orkuöflun er eitt helsta baráttumál okkar Vestfirðinga í ljósi orkuskipta og framtíðarmöguleika svæðisins sem valkostur í búsetu og uppbyggingu atvinnulífs segir Friðbjörg Matthíasdóttir oddviti D lista sjálfstæðismanna og óháðra í sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðar.

„Við viljum leggja áherslu á að öllum steinum sé velt við í þeirri vegferð, hvort heldur sem það er könnun á möguleikum við virkjun í Vatnsdal, tvöföldun vesturlínu og aðrir stærri sem smærri virkjanakostir á svæðinu. Við munum beita okkur fyrir því að fram komi lausnir sem geta skilað okkur skýrum valkostum sem allra fyrst, þannig að hægt sé að hefja viðeigandi undirbúningsferli.“

„Staðan eins og hún er í dag, þar sem verið er að brenna olíu til húshitunar er fullkomlega óásættanleg og þurfum við að finna lausnir sem falla að skuldbindingum okkar íslendinga í náttúruverndar- og loftslagsmálum, þar sem við Vestfirðingar ætlum svo sannarlega ekki vera eftirbátar annarra landshluta. 

Við höfum átt góð samtöl við Guðlaug Þór Þórðarson umhverfis- orku og loftslagsráðherra um þessi mál og fengum hann m.a. til að koma hingað á Patreksfjörð til að halda opinn fund fyrir íbúa. Á fundinum fór fram hreinskiptið samtal um orkumálin og framtíðina. Við teljum nauðsynlegt að halda umræðunni opinni og erum í raun að biðja um umboð kjósenda til að halda því samtali áfram, ásamt öðrum þeim mikilvægu málum sem liggja fyrir í okkar góða samfélagi og ljóst er að berjast þarf fyrir á komandi misserum.“

Síðasta úthlutun úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda

Átján verkefni hlutu styrki úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda í ár á sérstakri úthlutunarhátíð sem haldin var á Café Riis á Hólmavík þann 18. apríl sl.

Styrkirnir námu samtals kr. 23.500.000 og voru verkefnin sem hlutu brautargengi fjölbreytt og snerta ýmsa þætti samfélagsins.  

Aldrei hafa fleiri umsóknir borist, alls 33 og heildarfjárhæð styrkumsókna tæpar 90 milljónir króna. Byggðastofnun veitti sjö milljón króna viðbótarframlag í sjóðinn í ár í þeim tilgangi að bæta íbúum Strandabyggðar upp hversu lág úthlutunin var fyrstu tvö árin ef horft er til fjölda íbúa. 

Verkefnið Sterkar Strandir er nú í lokaáfanga í Brothættum byggðum en Byggðastofnun mun draga sig í hlé úr verkefninu um næstu áramót eftir að hafa framlengt það um eitt ár, út árið 2024. Hér er því um að ræða síðustu úthlutun úr sjóðnum. 

Sandeyri: lögbannskrafan fallin niður

Ekki barst staðfesting fyrir kl 13 í dag til sýslumanns á Vestfjörðum að 100 m.kr. trygging hefði verið lögð fram fyrir lögbannskröfunni á fiskeldi við Sandeyri og taldist því að sögn Jónasar Guðmundssonar sýslumanns beiðnin fallin niður og málinu lokið. Tryggingin þurfti að vera annaðhvort innborgun inn á reikning embættisins eða bankaábyrgð.

Strandveiðtímabilið hafið

Mikið hefur verið um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í morgun, á fyrsta degi strandveiðanna. Klukkan tíu voru á níunda hundrað skip og bátar í fjareftirliti hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Landhelgisgæslan áréttar að allir bátar sem fara til strandveiða þurfa að tilkynna Landhelgisgæslunni brottför til hafnar á VHF rás 9 eða með smáforritinu VSS.

Þá er einnig skilyrði að haffæri séu í gildi en óheimilt er að hefja sjóferð nema að gilt haffærisskírteini sé um borð og áhöfn sé lögskráð.

Útgerðir 542 smábáta höfðu tryggt sér leyfi til strandveiða um hádegi.

Þetta eru heldur fleiri en við upphaf veiðanna í fyrra þegar Fiskistofa hafði gefið út 516 leyfi.

Um 700 bátar hafa að jafnaði verið gerðir út á strandveiðar undanfarin ár.

Alþingi: vilja koma í veg fyrir að umsagnaraðilar tefji framgang mála

Teitur Björn Einarsson, alþm.

Teitur Björn Einarsson alþm (D) og fimm aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa tillögur til breytinga á lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana og skipulagslögum með það að markmiði að tímafrestir umsagnaraðila í leyfis- og skipulagsferli séu virtir þannig að framkvæmdaraðili geti búið við meiri vissu um framvindu verkefnisins og aðlagað aðra þætti þess að ferlinu eins og segir í greinargerð flutningsmanna.

Virði ekki umsagnaraðili setta tímafresti þá verði að lögum litið svo á að viðkomandi stofnun samþykki efnislega umsókn sem beint er til umsagnarbeiðanda eða telji ekki ástæðu til að bregðast við með umsögn. Með öðrum orðum að óheimilt verði að tefja framvindu málsins ef fagstofnun dregur það fram yfir tímafrest að skila umsögn. 

Flutningsmenn segja að lögbundnir tímafrestir séu ekki virtir af fagstofnunum með tilheyrandi töfum og óvissu um framvindu verkefna. Hins vegar séu ekki ákvæði í lögunum varðandi afleiðingar af því að stofnanir dragi að svara erindum um umsögn.

Frumvarpinu sé ætlað að bæta úr þessu með því að kveðið verði á um almennan hámarkstíma, sem umsagnaraðilar hafa samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, og skipulagslögum, nr. 123/2010. Yrði þá hámarkstími sem umsagnaraðili hefur til að skila inn umsögn átta vikur, nema mælt sé fyrir um annan tímafrest í lögum. Þá yrði jafnframt skylt að líta svo á að berist umsögn umsagnaraðila ekki innan lögbundins frests geri umsagnaraðili engar athugasemdir við umrætt mál.

Vísað er til skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2022 þar sem fram kemur að löng málsmeðferð sé algengasta ástæða kvartana til embættisins, líkt og hefur alla jafnan verið. Rík þörf sé á því að skýra betur þá tímafresti sem umsagnaraðilar hafa og afleiðingar þess ef þeim er ekki fylgt. 

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt

Frá Steingrímsfjarðarheiði í apríl. Þá var betra veður en nú er spáð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem gilt hafa á Vestfjarðavegi 60 frá Dalsmynni að Flókalundi, á Djúpvegi 61, Drangsnesvegi 645, Þingeyrarvegi 622, Flateyrarvegi 64, Súgandafjarðarvegi 65 verður aflétt á morgun, föstudaginn 3. maí 2024 kl. 08:00.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Takmarkanir gilda áfram á Innstrandavegi 68 í Strandasýslu, Barðastrandarvegi 62, Bíldudalsvegi 63 og á Vestfjarðavegi 60 um Dynjandisheiði.

Nýjustu fréttir