Mánudagur 9. september 2024
Síða 102

Ísafjörður: Góð mæting á sjávarréttarveislu Kiwanis

Árleg sjávarréttaveisla Kiwanisklússins Bása var haldin þann 27. apríl síðastliðinn í húsnæði klúbbsins. Góð mæting var og var gerður mjög góður rómur að veisluföngum. Á boðstólum voru hefðbundnir íslenskir fiskréttir eins og saltfiskur og plokkfiskur. Einnig voru á boðstólum fiskréttir með Tælenska tengingu frá listafólkinu á Thai Tawee. Sem dæmi, lax í casjúhnetusósu, súrsæt lúða, gellur í sweet chili sósu og margir fleiri réttir sem of langt mál yrði að telja upp. Var matreiðslufólkinu þakkað fyrir með dynjandi lófaklappi. Sigurður Bjarki Guðbjartsson sagði að Básafélagar væru virkilega ánægðir með mætingu og undirtektir veislugesta. „Þessi árlega sjávarréttaveisla er önnur af okkar stóru fjáröflunum. Viljum við þakka innilega fyrir stuðninginn og mun þetta gera okkur kleift að halda áfram að styðja við góð málefni. Kveðja Kiwanisklúbburinn Básar.“

Matreiðslufólki þakkað fyrir veitingarnar.

Myndir: aðsendar.

Sveitarstjórnarkosningar í dag í Vesturbyggð og á Tálknafirði

Talning atkvæði verður í Félagsheimili Patreksfjarðar.

Sveitarstjórnarkosnngar fara fram í dag í nýju sameinuðu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Samhliða fara fram kosningar í fjórR heimastjórnir. Kosið verður á fjórum stöðum.

  • Patreks­fjörður – Kosið í Félags­heimili Patreks­fjarðar (FHP) Kjör­deildin opnar kl. 10:00.
  • Bíldu­dalur – Kosið í félags­heim­ilinu Bald­urs­haga Kjör­deildin opnar kl. 12:00.
  • Kross­holt – Kosið í Birki­mels­skóla á Barða­strönd. Kjör­deildin opnar kl. 12:00.
  • Tálkna­fjörður – Kosið í Tálkna­fjarð­ar­skóla. Kjör­deildin opnar kl. 10:00.

Íbúar fyrrum Rauðasands­hrepps eru skráðir í kjör­deild­inni á Patreks­firði.

Kjörfundi skal lokið eigi síðar en kl 22. Ljúka má kjörfundi fyrr ef allir sem á kjör­skrá standa hafa greitt atkvæði og eftir fimm klukku­stundir ef öll kjör­stjórnin og umboðs­menn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukku­stund liðin frá því að kjós­andi gaf sig síðast fram. 

Tveir framboðslistar eru boðnir fram, D listi Sjálfstæðisflokksins og óháðra og N listi Nýrrar sýnar.

Allir íbúar hvers svæðis eru í fram­boði til heima­stjórnar og kýs hver íbúi einn einstak­ling á því svæði sem hann býr. 

Talning atkvæða úr sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­unum fer fram í Félags­heimili Patreks­fjarðar laug­ar­daginn 4. maí og opnar taln­ing­ar­staður kl. 21:00. Einnig verða atkvæði í heima­stjórn­ar­kosn­ing­unum talin á sama stað á sama tíma. Hægt er að fylgjast með taln­ing­unni á staðnum og verða úrslit í öllum kosn­ing­unum kynnt að taln­ingu lokinni.

Nýr leik- og grunnskóla á Bíldudal

Hönnun nýs húsnæðis leik- og grunnskóla er lokið. ARKIBYGG og Gingi teiknistofa hafa unnið að hönnuninni í samráði við starfshóp um byggingu nýs húsnæðis fyrir leik- og grunnskóla á Bíldudal, eins var starfsfólki Tjarnabrekku og Bíldudalsskóla gefinn kostur á að gera athugasemdir við teikningarnar og koma með hugmyndir að breytingum. Í starfshópnum eru Jón Árnason, Þórdís Sif Sigurðardóttir, Arnheiður Jónsdóttir, Magnús Árnason og Lilja Rut Rúnarsdóttir.

Útboðsgögn verða tilbúin fyrir lok júní og verður verkið þá boðið út. Áætlað er að framkvæmdir hefjist síðsumars. Í samræmi við tímalínu verkefnisins verður húsnæðið tilbúið til notkunar við upphaf skólaársins 2025-2026.

Drög að samkomulagi við fjármála- og efnahagsráðuneytið vegna Bíldudalsskóla verða tekin fyrir á næst fundi bæjarráðs. Samkomulagið felur í sér að skólastarfsemin fari ekki fram á Dalbraut 2, aðeins verði heimiluð takmörkuð nýting á húsnæðinu og því verði hætt við að gera sérstakan varnargarð til að verja húsið.  

Ríkissjóður leggur sveitarfélaginu til tæplega 137 m.kr. vegna flutnings starfseminnar.

Bjargfuglavöktun

Álka við Látrabjarg, Ljósmynd Ingrid Bobeková

Starfsmenn Náttúrustofu Vestfjarða settu nýlega upp eftirlitsmyndavélar við Látrabjarg.

Myndavélar á Látra- og Hornbjargi eru notaðar við Bjargfuglavöktun en á hverri klukkustund taka vélarnar mynd af sama hluta bjargsins og fuglunum sem þar eru.

Myndir sumarsins eru síðan settar saman með sérstöku forriti og fjöldi varppara á þeim stað áætlaður. Myndirnar eru því góð viðbót við aðrar talningar sem gerðar eru í björgunum.

Í Bjargfuglavöktuninni er árlega fylgst með stofnum langvíu (Uria aalge), stuttnefju (Uria lomvia), álku (Alca torda), ritu (Rita tridactyla) og fýls (Fulmarus glacialis).

Náttúrustofa Vestfjarða hefur unnið við talningar bjargfugla frá árinu 2009 en einnig séð um eftirlitsmyndavélarnar síðustu tvö árin. Vöktunin er unnin í nánu samstarfi við aðrar náttúrustofur en nú eru vaktaðir 12 staðir víðsvegar á landinu.

Bambahús og Sorpa hljóta Kuðunginn

Umhverfis-, orku-  og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, veitti í dag fyrirtækjunum Sorpu og Bambahúsum Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári.

Í rökstuðningi sínum fyrir valinu á Bambahúsum bendir dómnefndin á að Bambahús hafi sýnt eftirtektarvert frumkvæði með því að nýta hráefni sem annars hefði verið fargað. Fyrir tilstilli Bambahúsa hafði bambar, sem áður voru fluttir úr landi, þeir brenndir eða þeim fargað með tilheyrandi úrgangsmyndun og  losun gróðurhúsalofttegunda fengið nýtt hlutverk sem fjölnota ylhús.

Vörur fyrirtækisins tali beint inn í hringrásarhagkerfið og sýni og sanni eina ferðina enn að það sem er úrgangur í augum eins getur verið gull í augum annars. Bambahús hafi í samstarfi við önnur fyrirtæki, fært leik- og grunnskólum víða um land fjölnota ylhús að gjöf, sem nýtast bæði til kennslu og ræktunar matvæla.

Er dómnefndin sammála um að notkun bambahúsanna feli í sér fræðslugildi um mikilvægi hringrásarhagkerfisins, ræktunar og sjálfbærni og stuðli að viðhorfsbreytingu sem geti falið í sér umtalsverð afleidd jákvæð umhverfisáhrif umfram þau sem felast í gerð húsanna sjálfra. Bambahús hafi sýnt mikla samfélagsábyrgð með því að rækta framtíðina og sé ávöxturinn af starfsemi fyrirtækisins mikill. 

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir valinu á Sorpu sem handhafa Kuðungsins 2023 kemur fram að Sorpa hafi í samstarfi við almenning lyft grettistaki í flokkun lífræns úrgangs árið 2023.  Sorpa hafi á árinu ráðist í mikilvæg umbóta verkefni sem sneru meðal annars að innleiðingu samræmds flokkunarkerfis og sérsöfnun matvæla á höfuðborgarsvæðinu.

Með sérsöfnun matarleifa hafi verið stigið stórt skref í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, sem hafi skilað gríðarlegum umhverfisávinningi.  

Sjálfbær framtíð Vestfjarða 

Í opnu auglýsingu í Morgunblaðinu 2. maí hvetur forystufólk úr ferðaþjónustu og stangveiði, alþingismenn og ráðherra til að banna sjókvíaeldi við Ísland. Undir þetta tekur svo umtalsverður fjöldi erlendra aðila. En hvað þýðir þessi krafa fyrir Vestfirði? Í stuttu máli þýddi bann við sjókvíaeldi á Íslandi hrun atvinnulífs og í kjölfarið samfélags á Vestfjörðum. Allt að 300 manns myndu á einu bretti missa vinnuna sem gæti orsakað brottflutning um 1000 manns. Það þýðir að allt að 300 manns missi vinnuna, það þýðir að allt að 1000 manns flytji í burtu á einu bretti.  Tekjur sveitarfélaga drægjust saman sem því næmi, fasteignaverð myndi hrynja og svæðið færi enn á ný úr sókn í bullandi vörn. Ólíklegt er að aðrar atvinnugreinar næðu að koma á móti því hruni og er sú framtíðarsýn ekki mjög sjálfbær fyrir svæðið.  

Auðlindagjöld og uppbygging 

Sjókvíaeldi er sú atvinnugrein sem hefur haft hvað jákvæðust áhrif á byggðaþróun á Vestfjörðum á undanförnum árum og er því ekki ofsagt að auglýsingu sem þessari sé beinlínis beint gegn samfélögum á Vestfjörðum sem hafa á undanförnum árum fengið mikla innspýtingu vegna mikilla fjárfestinga í sjókvíaeldi og tengdum greinum. Á svæðinu hefur orðið til umfangsmikil starfsemi á þessu sviði og fjöldi fjölbreyttra starfa. 

Sú mynd hefur verið teiknuð upp að fiskeldið sé eingöngu byggt upp af erlendum fjárfestum, að af því séu engir skattar greiddir og að  í fiskeldinu starfi bara einhleypir erlendir karlmenn.  Staðreyndin er sú að íslensk fiskeldisfyrirtæki eru bæði í eigu íslenskra og erlendra aðila, meðal annars í eigu öflugra íslenskra fyrirtækja, banka og lífeyrissjóða. Starfsmenn í fiskeldi eru bæði innlendir og erlendir og greiða sína skatta og gjöld innanlands, skattspor fyrirtækjanna umtalsvert. Inni í því skattspori eru greiðslur fyrirtækjanna í umhverfissjóð sjókvíaeldis og fiskeldisgjald sem rennur til sveitarfélaga og ríkis.  

Árið 2023 greiddu fyrirtæki í fiskeldi 650 milljónir í fiskeldissjóð og áætlað er að 1,3 milljarður verði greiddur á þessu ári. Sveitarfélög á Vestfjörðum og Austfjörðum fengu nýlega úthlutað tæplega 430 milljónir til ýmiskonar uppbyggingarverkefna sem ekki hefði verið möguleiki á að fara í ef ekki hefðu komið til fjármunir úr fiskeldissjóði. Nú á að fara að byggja nýjan leik- og grunnskóla á Bíldudal og byggja hefur þurft við leikskóla á Patreksfirði, í Bolungarvík og á Ísafirði. Í flestum þéttbýliskjörnum á Vestfjörðum er verið að byggja ný hús, uppbygging er á höfnum og íbúum hefur fjölgað nokkuð. 

Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvaða auðlindagjöld fyrirtæki í ferðaþjónustu, og veiðifélög greiða og líka því að svo virðist sem baráttan gegn sjókvíaeldinu sé að miklu leyti fjármögnuð af erlendum aðilum sem keypt hafa upp lönd, laxveiðár og ferðaþjónustufyrirtæki.   

Framkvæmdir og fjárfestingar 

Byggð á Vestfjörðum átti um langt skeið undir högg að sækja og mátti um áratugaskeið búa við skarðan hlut úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Um það verður ekki deilt þegar horft er til samgangna og raforkukerfis þar sem við erum enn að súpa seiðið af ákvörðunum sem teknar voru fyrir áratugum um að Hringvegur 1 um Ísland næði ekki til Vestfjarða og byggðalína raforku ekki heldur. Þessar ákvarðanir, sem og áföll vegna náttúruhamfara hafa gert það að verkum að svæðið hefur ekki verið samkeppnishæft við aðra landshluta. Meðal annars vegna uppbyggingar í fiskeldi erum við að sjá fram á breytt landslag varðandi samgöngur á landi og má þar nefna Dýrafjarðargöng, vegi um Dynjandisheiði og Gufudalssveit. Enn er þó nokkuð í land með að samgöngur á Vestfjörðum svari kalli samfélaganna en stór skref hafa verið stigin og í raforkumálum er langt í svæðið sé samkeppnishæft við aðra landshluta.  

Á Vestfjörðum hafa erlendir aðilar fjárfest mikið á síðustu árum en erlendir aðilar virðast hafa haft meiri trú á möguleikum svæðisins en íslenskir fjármagnseigendur sem hafa meðal annars sett fyrir sig skort á innviðum. Margar stærri framkvæmdir á Vestfjörðum síðustu ár hafa verið mjög umdeildar á þeim forsendum að vernda þurfi einstaka náttúru svæðisins. Hægt er að nefna deilur um vegagerð, virkjanir og nú sjókvíaeldi. Hér kallast á viðhorf verndunar og nýtingar auðlinda og má spyrja hversu hátt geymsluvirði Vestfjarða er í augum almennings og ráðamanna. Er það nógu hátt til að hægt sé að tryggja góða innviði á svæðinu án þess að á móti komi verðmætasköpun? 

Mótun atvinnugreinar 

Fjórðungssamband Vestfirðinga, Vestfjarðastofa, sveitarfélög á Vestfjörðum og margir fleiri hafa um langt skeið kallað eftir því að umgjörð sjókvíaeldis sé í lagi. Með því eru sköpuð skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis svo efla megi verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð. Með regluverkið í lagi er stuðlað að ábyrgu lagareldi og verndun villtra nytjastofna. Um langt skeið hefur verið kallað eftir því að rannsóknir og eftirlit með greininni sé eflt. Sá rammi sem kallað hefur verið eftir hefur mótast í alltof smáum skrefum. Oft hefur það verið þannig að stjórnvöld á hverjum tíma hafi verið stærsta hindrunin við að móta alvöru umgjörð. Ekki fyrirtæki í fiskeldi eða samfélögin hér fyrir vestan.  

Skrefin varðandi uppbyggingu þessarar atvinnugreinar ná 20 ár aftur í tímann og hófust með bréfi ráðherra árið 2004 um svæði þar sem sjókvíaeldi væri heimilað en annars bannað. Því miður var þessari ákvörðun ekki fylgt eftir með markvissum hætti af hálfu stjórnvalda og við tók kaflaskipt aðkoma. Árið 2008 eru  gefin út 10 ára rekstrarleyfi. Árið 2014 er farið að vinna burðarþolsmat á svæðum og skilgreina sjókvíaeldissvæði í fjörðum og sama ár er Umhverfissjóður sjókvíaeldis stofnaður. Lög um fiskeldi sem kveða meðal annars á um áhættumat erfðablöndunar voru sett árið 2019 ásamt reglum um 16 ára rekstrarleyfi og tekið var upp framleiðslugjald.  

Fjórðungssamband Vestfirðinga og sveitarfélög á Vestfjörðum gerðu strax árið 2008 tillögu um gerð strandsvæðaskipulags fyrir Vestfirði. Strandsvæðaskipulagi er tæki til að finna jafnvægi á milli nýtingar, verndunar og þróunar samfélaganna. Höfðu sveitarfélögin frumkvæði að tilraunaverkefni með Nýtingaráætlun Arnarfjarðar árið 2012 sem ýtti af stað umræðu og að lokum setningu laga um haf- og strandsvæðaskipulag 2019. Strandsvæðaskipulag fyrir Vestfirði var loks staðfest í mars 2023 á grundvelli tillögu svæðisráðs, sem í sitja fulltrúar sveitarfélaga og ráðuneyta. Við undirbúning skipulagsins gafst öllum sem vildu færi á að koma á framfæri athugasemdum, umsögnum og ábendingum, en hér voru skilgreind svæði til nýtingar en um leið skilgreind stór strandsvæði sem bæri að vernda líkt og  Jökulfirðir í heild sinni.  

Í hvert sinn sem kom til breytinga á lagaumhverfi var ítrekuð krafan um heildstæða stefnumótun vegna fiskeldis. Þessu ákalli var ekki sinnt fyrr en  vinna við stefnumótun hófst árið 2016 og ári síðar voru drög sett fram en aldrei var lokið við þá vinnu. Það er ekki fyrr en árið 2023 þegar sett var af stað vinna við stefnumótun lagareldis af hálfu Matvælaráðuneytis undir forystu Svandísar Svavarsdóttur. Afrakstur þeirrar vinnu var meðal annars skýrsla Ríkisendurskoðunar og skýrsla Boston Consulting Group sem nýttar hafa verið í það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi um lagareldi.   

Með þessu frumvarpi um lagareldi er í fyrsta sinn komin heildstæð nálgun á ramma þessarar atvinnugreinar, en umræðan um frumvarpið hefur til þessa snúist um eina grein sem varðar tímalengd leyfa, en því hefur alveg verið sleppt að fagna því jákvæða sem er í frumvarpinu og stutt getur við sjálfbæra uppbyggingu fiskeldis á Íslandi til framtíðar. Sú sjálfbæra uppbygging styður einmitt sjálfbæra framtíð Vestfjarða.  

Óvægin umræða 

Það er sárt fyrir íbúa Vestfjarða að sitja undir þeim linnulausu árásum sem gerðar eru á þessa atvinnugrein sem hefur leitt til meiri uppbyggingar en sést hefur á svæðinu um áratuga skeið. Atvinnugrein sem eins og ferðaþjónusta, sjávarútvegur og stærstur hluti atvinnustarfsemi á Íslandi byggir á nýtingu auðlinda.  Óhætt er að fullyrða að enginn íbúi á Vestfjörðum vill annað en sjálfbæra nýtingu auðlinda og að fiskeldi sé lúti ströngum kröfum og eftirliti.   

Umræða undanfarinna mánaða hefur verið óvægin og hörð og svo virðist að tilgangurinn helgi meðalið. Í þessari umræðu er einskis svifist. Baráttan beinist gegn samfélögunum, íbúum þeirra og afkomu.  Rangfærslur eru settar fram sem staðreyndir jafnvel af málsmetandi fólki sem hefur greiðan aðgang að eyrum almennings og ætti að vita betur. Svo virðist sem óþrjótandi (erlent) fjármagn sé á bak við baráttuna gegn sjókvíaeldinu, baráttu sem forsvarsmaður erlends stórfyrirtækis sagði á síðum íslenskra blaða „að væri barátta sem hægt væri að vinna“.   

Nú er blásið til orustu á síðum Morgunblaðsins af hálfu fyrirtækja í ferðaþjónustu og stangveiði sem studd er af erlendum aðilum. Orustu sem beinist með harkalegum hætti að atvinnulífi og samfélagi á Vestfjörðum. Mál er að linni. Við köllum eftir hófsamari, fjölbreyttari og upplýstari umræðu um atvinnugreinina fiskeldi þar sem fleiri sjónarmið komast að. Við hvetjum fjölmiðla jafnframt til sinna hlutverki sínu og kalla eftir fleiri sjónarmiðum í umræðum um fiskeldi.  

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir 
Framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu 

Aðalsteinn Óskarsson 
Sviðsstjóri byggðaþróunar Vestfjarðastofu 

Sauðfjársetrið tilnefnt til íslensku safnaverðlaunanna

Frá verðlaunaafhendingu fyrir hrútaþukl á Sævangi.

Þau tíðindi bárust á sumardaginn fyrsta að Sauðfjársetur á Ströndum er tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2024 fyrir samfélagslega nálgun í safnastarfi. Einnig eru tilnefnd Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn og Þjóðminjasafn Íslands, fyrir ólík verkefni og þætti í safnastarfinu. Þetta er mikil viðurkenning fyrir aðstandendur Sauðfjársetursins. Í ítarlegum rökstuðningi dómnefndar segir:

Ísafjarðarbær: umsögn tók nærri 9 mánuði

Frá Gemlufalli.

Sýslumaðurinn á Vestfjörðum óskaði 9. ágúst 2023 eftir umsögn Ísafjarðarbæjar um umsókn breytingar á gildandi rekstrarleyfi fyrir rekstur gististaðar í Dýrafirði. Erindið var lagt fyrir bæjarráð 29. apríl 2024, hartnær níu mánuðum síðar og umbeðin umsögn loks afgreidd.

Um er að ræða gistiþjónustu á Gemlufalli og óskaði eigandinn 1. ágúst 2023 eftir því við sýslumanninn á Vetsfjörðum að fá hús nr. 3 og nr. 4 skráð sem gistieiningar. Sýslumaðurinn sendi erindi til umsagnar til nokkurra aðila, þar á meðal Ísafjarðarbæjar og óskaði eftir svörin eigi síðar en 45 dögum síðar.

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar svaraði um hæl 11. ágúst og féllst á að leyfi yrði veitt fyrir 17 manns. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða skoðaði aðstæður strax 23. ágúst 2023 og sagði ekkert því til fyrirstöðu að veita umbeðið leyfi, en sendi ekki svar sitt til Sýslumanns fyrr en 13. mars 2024.

Ísafjarðarbær sendi svar 9. nóvember 2023 og sagði að ekki yrði séð að umrædd hús væru skráð í fasteignaskrá fyrir viðeigandi landnúmer. Ekki hefði borist umsókn um byggingarleyfi fyrir umræddum tveimur húsum né fyrir byggingarheimild. Sækja þyrfti um byggingarheimild og skila inn aðaluppdráttum.

Það var svo loks 23. mars 2024 sem byggingarfulltrúi veitti jákvæða umsögn og hún var lögð fyrir bæjarráð rúmu mánuði síðar sem gerði ekki athugasemdir við breytingar á rekstrarleyfi Jóns Skúlasonar fyrir gistiheimilið Gemlufall í Dýrafirði.

Viðtalið: Kristján Þór Kristjánsson

Ég er fæddur 1977 og ólst upp í Hnífsdal.  Ég er mikill Hnífsdælingur en hef búið á Ísafirði síðan ég flutti heim eftir háskólanám 2005.  Pabbi Kristján Kristjánsson er Hnífsdælingur og mamma Kristín Þóra Gísladóttir er Bolvíkingur.  Ég kynni mig yfirleitt núna sem gott sameiningartákn fyrir sameiningarsinna við djúp.  Hnífsdælingur búsettur á Ísafirði og ættaður úr Bolungarvík.  Kristján Jónsson afi minn er svo frá Eyri í Seyðisfirði svo ég hef tengingar í Súðarvíkurhrepp líka :).  Ég er giftur Salome Elínu Ingólfsdóttur næringarfræðingi og grunnskólakennara og eigum við fjögur börn.  Salome er ættuð úr Furufirði en svo skemmtilega vill til að þegar Guðmundur Árnason afi hennar flyst úr Furufirði þá kaupir hann Fremra Ós í Bolungarvík af afa mínum Gísla Valdimarssyni.  

Ég starfa í dag sem Hótelstjóri á Hótel Ísafirði.  Starfið er ákaflega lifandi og skemmtilegt.  Ferðamennska á Vestfjörðum er mjög árstíðarbundin og er mest krefjandi að finna jafnvægi í rekstri milli sumars og veturs þegar ferðamannastraumur er minni.  Það er nauðsynlegt fyrir okkur hér fyrir vestan að ná að lengja ferðamannatímabilið og búa til þjónustu og afþreyingu hér yfir vetrarmánuðina.  Hótel Ísafjörður er flott fyrirtæki með drífandi og metnaðarfulla eigendur og starfsfólk.  Á síðasta ári fórum við í miklar breytingar á veitingastaðnum og móttökunni.  Byggðum viðbyggingu ásamt því að umturna allri neðri hæðinni.  Breytingarnar tókust ótrúlega vel og erum við mjög ánægð með þær.  Ég held að framtíðin sé björt í ferðamennsku hér fyrir vestan.  Við höfum yfir að búa mikilli náttúrufegurð sem hefur vakið athygli erlendis og þurfum við að halda áfram að þróa okkar þjónustu og afþreyingu.

Bæjarfulltrúinn Kristján?  Jú ég hef verið bæjarfulltrúi síðustu 6 ár hér í Ísafjarðarbæ eftir að hafa óvænt komið inn í þetta fyrir kosningar 2018. Í dag er ég oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ.  Þessi tími hefur verið mjög lærdómsríkur og er ég enn að læra.  Rekstur sveitarfélags er oft á tíðum flókinn og verður ekki lærður á einni nóttu.   Pólitíkin er líka oft á tíðum skrítin og þar er maður einnig enn að læra.  Við í Framsókn á Ísafirði höfum leitast við að vinna að góðum málum í sátt fyrir sveitarfélagið.  Það er engum til heilla að vera sífellt að leita leiða til koma pólitísku höggi á andstæðinga eða hægja á góðum málum í pólitískum tilgangi.  Við teljum okkur vera að breyta pólitísku andrúmslofti, pólitískri umræðu og pólitísku samstarfi í Ísafjarðarbæ og teljum við það strax farið að bera árangur.  Það er nauðsynlegt að það sé vinnufriður í bæjarstjórn og gott samstarf milli minnihluta og meirihluta.  Þó svo að það séu ekki sátt um öll mál þá þarf að mínu mati að vera hægt að ræða málin og reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu í sátt,  samfélagi og íbúum til heilla.

Ég veit nú ekki hvað ég á að segja um helstu áhugamál.  Félagsstörf hafa oft tekið mikinn tíma frá mér svo þau hafa þróast í að vera mín helstu áhugamál.  Ég hef fylgt krökkunum mínum mikið í íþróttaiðkun.  Ég var formaður barna- og unglingaráðs í knattspyrnu í um 10 ár og þegar ég hætti þar þá var elsta dóttir mín komin á meistaraflokksaldur svo í dag er ég að vinna að því að hér verði starfandi meistaraflokkur í kvennaflokki í fótbolta.  Það er algjör nauðsyn að mínu mati að stelpur eigi sömu tækifæri og strákar að spila fyrir sitt lið í meistaraflokki.  

Önnur áhugamál hjá mér er litla sauðfjárbúið mitt á Góustöðum sem ég vinn með nokkrum félögum mínum, nú fer að líða að skemmtilegasta tímanum sem er sauðburður, svo hef ég einstaklega gaman af því að ganga á fjöll hér í nágrenninu þegar sumar gengur í garð.

OV: 77 samfélagsstyrkir veittir – samtals 6,6 m.kr.

Orkubú Vestfjarða hefur úthlutað samfélagsstyrkjum 2024.

Í ár bárust alls 103 umsóknir og hlutu 77 þeirra styrk á bilinu 50 til 150 þúsund krónur hver. 

Heildarfjárhæð styrkjanna nemur kr. 6.625.000.

Að venju er um fjölbreytt verkefni að ræða og tengjast björgunarstarfi, íþróttastarfi, listum, menningu, útivist og námskeiðahaldi af ýmsu tagi til eflingar vestfirsku samfélagi.

Styrkfjárhæðin var frá 50 þúsund krónum upp í 150 þúsund krónur.

Tíu björgunar- og slysavarnarsveitir fengu 150 þúsnd króna styrk hver og au þess fengu fjölmörg verkefni á sviði íþrótta og menningar styrki.

Samfélagsstyrkir Orkubús Vestfjarða.

Nýjustu fréttir