Mánudagur 9. september 2024
Síða 101

Gallerí úthverfa: Sashko Danylenko I Monk

Föstudaginn 10. maí kl. 16 verður opnuð sýningin Munkur – að búa til hreyfimyndir um ævintýri með verkum úkraínska listamannsins Sashko Danylenko í Úthverfu á Ísafirði. Á sýningunni verður teiknimyndin Munkur / Monk (2018) til sýnis auk skissuteikninga og vatnslitamynda sem veita innsýn í tilurð verksins.  Listamaðurinn verður viðstaddur opnun sýningarinnar sem stendur til fimmtudagsins 30. maí.  

Hverjum lyftir munkur glasi?

Fyrir hvern les hann bænir sínar?

Þegar sólin sest niður með ánni verður allt grátt og erfiðara er að greina á milli þess hvíta og svarta og mörkin þar á milli.

Munkurinn fer yfir þessa línu í leit að svarinu.

Sashko Danylenko (1989) er úkraínskur kvikmyndagerðarmaður, sjónrænn sagnamaður, teiknari og margmiðlunarlistamaður. Í verkum sínum sameinar hann þjóðlegan og nútímastíl, og blandar jafnframt saman vísindalegri og listrænni nálgun á viðfangsefnið. Sashko er með aðsetur í Bandaríkjunum um þessar mundir og vinnur að teiknuðum heimildarmyndaverkefnum fyrir TED Talks, The School of Life, TOPIC, The First Lady of Ukraine, Atlantic Council og margir fleiri. Margar mynda Sashko Danylenko hafa náð víðtækri útbreiðslu á netinu; og fjölmargar þeirra hafa verið sýndar á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Myndskreytingarverk Sashko eru til sýnis á alþjóðlegum sýningum og viðburðum og hjálpa til við að afla fjár fyrir mannúðaraðstoð í heimalandi hans Úkraínu. 

Sashko Danylenko dvelur um þessar mundir í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði.

https://www.instagram.com/sashko.danylenko.art/

https://sashkodanylenko.com/

Tungusilungur: endurnýjað leyfi til 2040

Frá starfstöð Tungusilungs í Tálknafirði.

Matvælastofnun hefur endurnýjað rekstrarleyfi Tungusilungs ehf vegna 200 tonna hámarkslífmassa til matfiskeldi á bleikju og regnbogasilungi. Gildir leyfið til næstu 16 ára.

Um er að ræða landeldisstöð á þremur staðsetningum í Tálknafirði, annars vegar í þéttbýlinu Tálknafirði við
Þórsberg og hins vegar á Mjóaparti og á Keldeyri með frárennsli til sjávar. Í rekstrarleyfum fiskeldisstöðva á landi er skilyrði að stöð sé útbúin búnaði sem kemur í veg fyrir að fiskur sleppi úr eldiskari og búnaði
staðsettum í frárennsli stöðvar sem fangar fisk sem sleppur. Búnaður fiskeldisstöðvarinnar er þannig að öll
ker eru með ristar ásamt vörn í affalli.

Rekstrarleyfið heimilar 200 tonna hámarkslífmassa til matfiskeldis á bleikju og regnbogasilungi.

Starfsleyfi Umhverfisstofnunar er í gildi og rennur út 22. nóvember 2038. Rekstrarleyfið gildir til 29. apríl 2040.

Litlibær í Skötufirði: opnaði í gær

Litlibær í Skötufirði.

Það má heita traustur vorboði að kaffihúsið á Litlabæ í Skötufirði taki til starfa. Svo var í gær að það opnaði. Í fyrra var opnað um miðjan maí og var strax mikið aðsókn. Guðrún Fjóla Kristjánsdóttir sagði þá að um þriðjungurinn væru erlendir ferðamenn af skemmtiferðaskipunum, annar þriðjungur erlendir ferðamenn á eigin vegum og um þriðjungur væru Íslendingar.

Ljóst er að gestir skipta þúsundum yfir sumarið en opið er fram í september.

Foreldrar Guðrúnar Fjólu, sem búa á Hvítanesi, Kristján Kristjánsson og Sigríður Hafliðadóttir, hafa staðið að rekstrinum frá upphafi. Kaffihúsið var opnað eftir að endurbótum á gamla bænum lauk. Það er Þjóðminjasafnið sem hefur umsjón með húsinu og stóð að endurbótunum.

Guðrún Fjóla og Sigríður.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Sandeyri – eldisleyfi í 12 ár

Öll tilskilin leyfi hafa loksins fengist til þes að hefja laxeldi í sjó með frjóum laxi við Sandeyri á Snæfjallaströnd og fyrirtækið Arctic Fish er að koma fyrir eldiskvíum og er búið að setja seiði í tvær kvíar. Segja má að starfsemin sé hafin. Eftir nærri fimm ára umfjöllun innan stofnana ríkisins hefur leyfi verið veitt fyrir eldinu.

Það hefur reynst torsótt að fá leyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi og ýmislegt hefur dúkkað upp á síðustu árum sem hefur tafið fyrir. Um árabil var Djúpið lokað og stöðugt komu upp ný atriði sem stjórnvöld vildu vinna að svo sem áhættumat erfðablöndunar, sem dró mjög úr möguleikunum í Djúpinu, svo kom strandsvæðaskipulag og áhættumat siglinga svo það helsta sé nefnt. Staðreyndin er sú að andstæðingar laxeldis hafa lagt allan þunga í að koma í veg fyrir að eldið kæmist af stað í Djúpinu. Það hefur orðið einhvers konar skurðarpunktur átakanna um þessa nýju atvinnugrein.

Það var haldinn á Ísafirði einn stærsti almenni fundur um atvinnumál á Vestfjörðum haustið 2017,sem um getur, m.a. að frumkvæði Guðmundar heitins Halldórssonar skipstjóra og þar horfðu menn vonaraugum á fiskeldið og sáu fyrir sér að uppbygging þess myndi snúa vörn fjórðungsins í sókn. Sem reyndist hárrétt mat, en hitt sáu menn kannski ekki fyrir hvað tækist að tefja og hægja á framvindu uppbyggingarinnar. Engu að síður þá er skriður kominn á málin. Háafell fékk fyrst leyfi sumarið 2021 og er komið af stað með sitt eldi og fyrsta uppskeran gekk vel. Arctic Fish hefur reist eitt fullkomnasta sláturhús landsins og þótt víðar væri leitað í Bolungavík og fékk leyfi í lok febrúar og getur hafist handa á Sandeyri. Arnarlax er einnig komið með leyfi en ekki fyrir frjóum laxi vegna takmarkana í áhættumati erfðablöndunar sem heimilar aðeins eldi á 12.000 tonnum í Djúpinu þrátt fyrir að burðarþolsmatið sé 30.000 tonn. Eldi á regnbogasilungi eða ófrjóum laxi er ekki eins álitlegt og hætt við að það verði minni kraftur í því eldi þótt vonast sé til að fyrirtækin muni a.m.k. hefja eldi á regnbogasilungi í stórum stíl.

Sandeyri er prófsteinninn

En samt þetta er að komast á legg, ef svo má að orði komast. Það vita andstæðingarnir líka og þegar lá fyrir að eldið við Sandeyri var komið af stað var blásið í alla lúðra og látið eins og heimurinn væri að farast og mikill áróður hófst í helstu fjölmilum landsins gegn þessu. Það var síst minni hávaði í þessari hrinu en var um árið gegn Teigskógsvegagerðinni. Munum að nú er sá vegur kominn og ekki heyrist eitt aukatekið orð frá öllum helstu verndurum birkis, ósnortinnar náttúru, víðerna og hvað það allt heitir sem herskararnir af sjálfskipuðum verndurum vondra vega á Vestfjörðum báru fyrir brjósti. En heimurinn fórst ekki, Teigskógur er enn á sínum stað og jafnvel örninn, sem átti að vera flúinn, er þarna einhvers staðar ennþá.

En aftur að Sandeyri. Bæjarins besta upplýsti lesendur sína að eldið þar væri að fara af stað. Þá safnaði lögmaður nokkur liði og fór með her manns til allra tilheyrandi stofnana ríkisins og krafðist þess að leyfi Arctic Fish yrði fellt úr gildi. Lögmaðurinn var kallaður til einkaviðtals bæði í RUV og á Bylgjunni og fékk af mikilli tillitssemi góðan tíma til þess að bera sakir á stofnanir ríksins og saka þær um lögbrot, veita afslátt af lögum og hlaupa á eftir kröfum fyrirtækja í erlendri eigu. Lögmaðurinn sagðist hafa hitt sjö forstjóra og engin þeirra risi undir ábyrgð á starfi sínu. Vofveiflegir atburðir eru að gerast, sagði lögmaðurinn og núna er verið að fremja fjölþætt lögbrot. Gríðarlegt umhverfisslys væri að gerast og það í landi Sandeyrar, þar sem kvíarnar eru innan netlaga og mótmæli landeigandans að engu höfð sem þó hefði mótmælt á öllum stigum, útilokað væri að heimila kvíarnar vegna siglingaöryggis og það væri sannarlega lögbrot.

En lögmaðurinn hafði ekki erindi sem erfiði. Leyfin fyrir eldinu voru að mati stofnana samkvæmt lögum og ekki forsendur til þess að afturkalla þau. Rökin sem lögmaðurinn kom með voru ekki fullnægjandi. En það má kæra leyfisveitingarnar til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og það var gert. Þar eru nefndarmenn sem eru algerlega óháðir stofnunum og þeir munu kveða upp sinn úrskurð í fyllingu tímans. Þangað til halda öll leyfi fullu gildi. Sjáum til hvað út úr því kemur en ég hef trú á því að nefndin komist að því að farið hafi verið að lögum. Úrskurði nefndarinnar má svo bera undir dómstóla. Þannig að andstæðingar fiskeldis hafa næg úrræði til að láta reyna á kröfur sínar. Lögmaðurinn og samferðamenn hans hafa fengið áheyrn hjá öllum viðeigandi stofnunum ríkisins og þar var vandlega hlustað á mál þeirra og niðurstaðan var greinilega að leyfin standa.

Það er ómaklegt og ósanngjarnt hjá lögmanninum að reyna ítrekað í þessum viðtölum og reyndar víðar að reyna að klína spillingarstimpli á ríkisstofnanirnar af þeirri ástæðu einni að ekki var farið að hans vilja. Og fjölmiðlar sem ákveða að gera þessu Sandeyrarmáli góð skil verða að fylgja því eftir. Það er ekki nóg að útvarpa ásökunum heldur verður þá líka að kalla eftir rökstuðningi og afla upplýsinga um staðreyndir málsins og kynna þær fyrir hlustendum. Nú er búið að bera sakir á menn og þá verður að gefa kost á svörum og skýringum.

Sandeyri – leyfi frá 2012

Lítum á nokkur atriði úr ásakanaflóðinu. Lögmaðurinn sagðist ekki skilja af hverju væri verið að setja niður fiskeldi þarna, á þessum friðsæla stað sem spillti fyrir landeigandanum sem keypti landið til þess að njóta kyrrðarinnar.

Áform um fiskeldi við Sandeyri eru ekki ný af nálinni. Fyrsta leyfið var veitt árið 2012, til Dýrfisks ehf fyrir 200 tonna eldi. Þremur árum síðar fær fyrirtækið stærra leyfi á sama stað fyrir 4000 tonna ársframleiðslu á regnbogasilungi. Tiltekið er að leyfið gildi fyrir 10 kvíar á 360 ha svæði sem er 200 – 400 metra frá landi á 40 – 100 metra dýpi. Dýrfiskur varð síðar Arctic Fish.

Eftir því sem næst verður komist keypti núverandi eigandi Sandeyrar jörðina einmitt þetta sama ár 2015. Þá lá fyrir að leyfi hafði verið veitt fyrir umtalsverðu fiskeldi við Sandeyri. Leyfið sem gefið var í í febrúar síðastliðnum er það þriðja í röðinni og er fyrir 8.000 tonna eldi þar af 5.300 tonn af frjóum laxi. Eldra leyfi var samhliða fellt niður. Fram fór umhverfismat í aðdraganda núverandi leyfis eins og vera ber og ekki verður séð að landeigandinn hafi gert neinar athugasemdir um fiskeldið. Það er ekki fyrr en nú þegar leyfið hefur verið gefið út að landeigandinn lætur í sér heyra og vill lögbann á framkvæmdir. Sannarlega hefur hann ekki á öllum stigum málsins gert athugasemdir eins fullyrt er.

ekki innan netlaga

Því er haldið fram að eldissvæðið sé að hluta til innan netlaga og þar með innan eignarmarka landeiganda. Netlög eru 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði. Þar fyrir utan á landeigandi ekki neitt tilkall heldur fer ríkið með skipulagsvaldið. Matvælastofnun hefur gefið út leyfi fyrir eldissvæði þar sem það er tilgreint og hnitsett vegna þess að stofnunin telur svæðið vera utan netlaga.

Á þessari mynd að ofan sést hvar eldissvæðið Sandeyri er merkt innan reitsins SN36, sem þýðir staðbundin nýting. Á strandsvæðaskipulagi fyrir Vestfirði hefur verið ákveðið að á umræddum reit SN36 sé fiskeldi heimilt og svæðið svo nánar tilgreint innan reitsins. Strandsvæðaskipulag er unnið af ríki og sveitarfélögum og Innviðaráðherra staðfestir skipulagið og lætur birta það í stjórnartíðindum. Almenningur og hver sem telur sig málið varða gat sent inn umsögn og athugasemdir þegar skipulagið var í vinnslu.

Í viðtali við Bæjarins besta 1. maí sl. sagði Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish að fóðurpramminn á Sandeyrarsvæðinu væri um 1 km frá landi og á um 40 metra dýpi. Fóðurpramminn er nær landi en kvíarnar. Það væri því fjarstæða að kvíarnar væru innan netlaga Sandeyrar.

ekki teljandi áhrif á siglingaöryggi

Þá er það fullyrðingin um að útilokað væri að veita eldisleyfi við Sandeyri vegna siglingaöryggis. Þetta verður að segjast eins og er að eru staðlausir stafir. Gert var sérstakt áhættumat vegna Sandeyrar. það voru Siglingastofnun, Vegagerðin og Landhelgisgæslan sem unnu verkið sem er dags í mars 2023. Niðurstaðan var skýr: ekki teljandi neikvæð áhrif á siglingaöryggi núna og í náinni framtíð.

„Fiskeldissvæðið Sandeyri liggur ekki hjá ás siglingaleiðar og er ekki í áhrifasvæði geiravita. Fjarlægð í hvítan geira vita er minnst 1.000 metrar fyrir allt svæðið SN36 og er um 1.100 metrar fyrir fiskeldissvæðið sem skilgreint er undir Sandeyri.
Niðurstöður áhættumats sýna fram á að leyfi til fiskeldis á svæði við Sandeyri mun ekki hafa teljandi neikvæð áhrif á siglingaöryggi inn Djúpið núna og í náinni framtíð. Mjög takmörkuð umferð er um svæðið og eru það aðallega litlir bátar sem sigla þar framhjá.“

Lögmaðurinn hefur fullyrt að ljós frá Óshólavita gerðu það að verkum að fiskeldið á Sandeyri væri ólöglegt. Það er ekki að sjá á eftirfarandi mynd úr áhættumatinu fyrir Sandeyri:

Eins og sjá má þá er gula svæðið það sem Óshólaviti lýsir á. Eldissvæðið á Sandeyri er utan þess og kvíarnar því á engan hátt í ljósgeisla frá vitanum. Litlar siglingar eru um þetta svæði og í skýrslunni stendur þetta:

„Enginn ás siglinga er sjáanlegur hjá Sandeyri og því lítið um siglingar um svæðið og almenn þróun siglingaþéttleika næstu 30 árin á svæðinu ekki fyrirsjáanleg til að aukast.“

Fullyrðingar lögmannsins, sem er í herferð gegn sjókvíaeldinu, eru ekki reistar á neinum haldbærum rökum og því er ekki að undra að ekkert hafi orðið ágengt. Stofnanir ríkisins geta ekki afgreitt mál eftir geðþótta „valinkunnra“ lögmanna.

Það má svo bæta því við í lokin að vitar gegna nú orðið takmörkuðu hlutverki í siglingaöryggi. Skip og bátar eru búin ýmsum siglinga- og fjarskiptatækjum og sjóeldiskvíar eru merktar inn á kort og hnitsett þannig að upplýsingar um staðsetningu þeirra liggur fyrir. Sem dæmi má nefna að kvíar hafa verið í Skutulsfirði í um tvo áratugi án nokkurra vandkvæða á þessari fjölförnustu siglingaleið um Djúpið. Það þarf alveg einstakar aðstæður að koma upp svo treysta verði á ljós frá vitum. Einn skipstjóri sagði við mig um daginn að á hans sjómannstíð í rúmlega hálfa öld hefði það aldrei gerst að hann gæti ekki notað siglingatækin.

Fyrir nokkrum árum, 2017, var það lagt til innan Vegagerðarinnar að leggja niður nokkra vita og afskrá þá. Þá sagði fram­kvæmda­stjóri sigl­inga­sviðs Vega­gerðar­inn­ar í viðtali við Morgunblaðið þann 27.7.: „Með til­komu leiðsögu­kerfa í gegn­um gervi­tungl og mun betri sjó­korta hef­ur dregið veru­lega úr mik­il­væg­inu og því var talið rétt að fara yfir það hvort rétt væri að leggja niður ein­hverja vita og nýta fjár­muni rík­is­ins bet­ur,“ 

Það er einmitt fyllsta ástæða til þess að gera ekki meira úr þýðingu vita en efni standa til. Það vilja andstæðingar sjókvíaeldis einmitt gera af því að það hentar þeim. Það er kannski kjarni málsins í þessum fjölmiðlastormi sem þyrlað hefur verið upp, að um er að ræða málflutning, einhliða áróður andstæðinga en fréttaflutningurinn hefur fallið dálítið á milli skips og bryggju.

Stóra málið eru hin gríðarlegu efnahagslegu áhrif fyrir land og þjóð nú þegar og á næstu áratugum sem fylgja fiskeldinu. Meðfram áframhaldandi nýtingu orkuauðlinda landsins, einkum vatnsföllunum mun fiskeldið auka tekjur þjóðarinnar árlega um háar fjárhæðir og bæta lífskjör almennings. Þetta tvennt er ekki það eina sem stendur undir framförunum, fjarri því, en þarna eru tækifærin til þess sækja fram svo um munar. Og ekki er verra að fiskeldið muni styrkja fjórðunginn mikið, væntanlega meira en þjóðarbúið almennt.

-k

Gengið gegn áformum um virkjun í friðlandinu í Vatnsfirði

Bríet Böðvarsdóttir.

Á laugardaginn 4. maí, 2024, var kosið í sameiginlegu sveitarfélagi Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhreppi. Bríet Böðvarsdóttir á Seftjörn á Barðaströnd ákvað að ganga til kjörfundar í Birkimel á Barðaströnd til að mótmæla hugmyndum um virkjun í friðlandinu í Vatnsfirði.

Bríet og Einar Guðmundsson maður hennar voru einir af fyrstu landvörðunum í friðlandinu í Vatnsfirði sem stofnað var 1975 og er því hartnær fimmtíu ára gamalt. Síðastliðin tvö ár hafa verið uppi hugmyndir um að aflétta friðuna af hluta friðlandsins vegna virkjunar í friðlandinu. Bríet hefur unnið ötullega gegn virkjunarhugmyndum síðan þær komu upp og mótmælti þeim í dag með göngu sinni frá heimili sínu á Seftjörn á Barðaströnd að Birkimel, eina 16 km. Bríet er á 83 ára og gangan tók hana 4,5 klst. Bríet var hress að göngu lokinni og var vel fagnað af sveitungum sínum við komuna á kjörfund. 

Myndir: aðsendar.

Hvetjandi: eignir 251 m.kr.

Hvetjandi hefur fjárfest í Galdri Brugghúsi ehf.

Eignir Hvetjanda hf eignarhaldsfélags voru um síðustu áramót 251 m.kr. Um helmingur þess 126 m.kr. voru í fjárfestingarverðbréfum og 125 m.kr. voru handbært fé. Skuldir voru óverulegar. Hagnaður varð af rekstri síðasta árs upp á 7 m.kr. sem voru fyrst og fremst vaxtatekjur.

Ekkert var selt af verðbréfum á árinu og keypt var fyrir 483 þús kr. Helsta eign félagsins er í Íslandssögu ehf , Norðureyri ehf ,Snerpu og Virknihúsum ehf.

Byggðastofnun er stærsti hluthafinn í Hvetjanda ehf með 38,17% eignarhlut. Ísafjarðarbær á 19,1%, Vestinvest 16,6% og Landsbankinn 14%.

Aðalfundur félagsins er boðaður 14. maí og veitt bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar bæjarstjóra umboð til þess að fara á fundinn og fara með atkvæðisrétt sveitarfélagsins.

Æfingarsund

Þorsteinn og Siggi Björns við sundið.

Það bar til í gær – 4. maí 2024 – við Samkomuhúsið á Flateyri að Verkalýðs-hljómsveitin ÆFING var heiðruð með því að götu var gefið nafn hljómsveitarinnar ÆFING.

Gatan fékk nafnið -ÆFINGARSUND. Þessa slóð var gengið að kveldi þess 27. desember 1968 er -ÆFING- kom fram fyrsta sinni í lok fundar í Verkalýðsfélaginu Skildi. Þetta áður nafnlausa -Sund- á merka sögu í mannlífi- og menningu Flateyrar til áratuga; til bíóferða – ballferða – og leið margra í sjoppuna við Ránargötu sem alltaf var opin til kl. 23:30.

Helsti sérfræðingur sögu þessa svæðis er Þorsteinn Jóhannsson smiður á Flateyri og setti hann upp skiltið – ÆFINGARSUND – í gær 4. maí 2024 – á afmælisdegi Árna Benediktssonar – hljómsveitarstjóra ÆFINGAR. Siggi Björns meðlimur – ÆFINGAR – tók við þessari heiðursgjörð fyrir hönd ÆFINGAR-meðlima fyrr og nú. Með þessu er -ÆFING- komin í hóp með hljómsveitinni Geislum á Akureyri, en þar er -Geislagata- nefnd þeim til heiðurs. Þetta er mjög merkilegt fyrir Ingólf R. Björnsson en hann var á sínum tíma í Geislum og svo í ÆFINGU.

ÆFINGAR-meðlimir – Önfirðingar og aðdáendur allir í veröld víðri – til hamingju með þessa verðskulduðu upphefð ÆFINGAR.

Flateyri. Sundið við samkomuhúsið.

Þorsteinn Jóhannsson.

Skiltið fest upp.

Æfungarsund á Flateyri.

Myndir: aðsendar.

Ný sýn vann

Páll Vilhjálmsson, oddviti Nýrrar sýnar.

N listinn fékk hreinan meirihluta í sveitarstjórnarkosningunum í Vesturbyggð og Tálknafirði. Á kjörskrá voru 1001 og alls kusu 665. Kjörsókn var 66,4%.

N listin fékk 377 atkvæði eða 58,4% og D listinn 268 atkvæði eða 41,6%. Auð og ógild atkvæði voru 20.

N listin fékk fjóra bæjarfulltrúa og D listinn þrjá.

Kjörnir voru í bæjarstjórn:

Páll Vilhjálmsson (N)

Friðbjörg Matthíasdóttir (D)

Jenný Lára Magnadóttir (N)

Maggý Hjördís Keransdóttir (D)

Gunnþórunn Bender (N)

Jóhann Örn Hreiðarsson (D)

Tryggvi B. Bjarnason (N)

Kosið í heimastjórnir

Samhliða því sem kosið var til sveit­ar­stjórnar, voru kosnir full­trúar í fjórar heima­stjórnir, þ.e. fyrir Patreks­fjörð, Tálkna­fjörð, Arnar­fjörð og fyrrum Barða­strand­ar­hrepps og Rauðasands­hrepps, tveir aðal­menn og tveir vara­menn. Niður­stöður kosn­inga til heima­stjórna voru:

 

Heimastjórn Patreksfjarðar:

Aðalmenn voru kjörnir:

Rebekka Hilmarsdóttir, 95 atkvæði

Gunnar Sean Eggertsson, 50 atkvæði

Varamenn voru kjörnir:

Sigurjón Páll Hauksson, 16 atkvæði

Sveinn Jóhann Þórðarson, 9 atkvæði

Á kjörskrá á Patreksfirði voru 564. Atkvæði greiddu 232.

Heimastjórn Tálknafjarðar:

Aðalmenn voru kjörnir:

Þór Magnússon, 48 atkvæði

Jónas Snæbjörnsson, 33 atkvæði

Varamenn voru kjörnir:

Jón Aron Benediktsson, 12 atkvæði

Trausti Jón Þór Gíslason, 4 atkvæði

Á kjörskrá í Tálknafjarðar voru 197. Atkvæði greiddu 134.

Heimastjórn Arnarfjarðar:

Aðalmenn voru kjörnir:

Rúnar Örn Gíslason, 31 atkvæði

Valdimar B. Ottósson, 12 atkvæði

Varamenn voru kjörnir:

Jón Þórðarson, 10 atkvæði

Matthías Karl Guðmundsson, 5 atkvæði

Á kjörskrá í Arnarfjarðar voru 190. Atkvæði greiddu 107.

Heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasands­hrepps:

Aðalmenn voru kjörnir:

Elín Eyjólfsdóttir, 15 atkvæði

Edda Kristín Eiríksdóttir, 10 atkvæði

Varamenn voru kjörnir:

Þórður Sveinsson, 7 atkvæði

Ástþór Skúlason, 5 atkvæði

Á kjörskrá í fyrrum Barðastrandarhrepps og Rauðasands­hrepps: voru 72. Atkvæði greiddu 49.

Ísafjörður: tekið upp leigugjald fyrir bílastæði á hafnasvæðinu

Viking Sky í Sundahöfn í fyrrasumar.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fimmtudaginn að taka upp nýtt gjald fyrir bílastæði fyrir rútur á hafnasvæðinu á Ísafirði. Svæðið verður leigt frá maí til september og gjaldið verður 35.000 kr. fyrir tímabilið.

Einnig var bætt við gjaldskrána gjald fyrir leigu á fríholtum. Gjaldið verður 65.000 kr. per einingu fyrir hverja byrjaða 24 tíma.

Ekki kom fram áætlun um hverjar tekjur gætu orðið af gjaldskrárbreytingunum.

Verkalýðsfélagið Skjöldur á Flateyri 90 ára og verkalýðs-hljómsveitin ÆFING 55 ára

Siggi Björns og Franziska tóku lagið fyrir gesti.

Þann 1. maí s.l. var því fagnað í Bryggjukaffi á Flateyri að 90 ár voru liðin frá stofnun Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri. Félagið var stofnað á 50 manna fundi í -gamla barnaskólanum- þann 21. desember 1933. Skjöldur er félagsaðili Verkalýðsfélags Vestfirðinga frá árinu 2002.

.

Þá var einnig í Bryggjukaffi þann 1. maí s.l. fagnað 55 ára afmæli Hljómsveitarinnar ÆFINGAR frá Flateyri. ÆFING kom fram fyrsta sinni þann 27. desember 1968 í lok fundar í Verkalýðsfélaginu Skildi í Samkomuhúsinu á Flateyri.

.

Með veglegum stuðningi Verkalýðsfélags Vestfirðinga hefur verið tekið saman snoturt -MYNDRIT- í tilefni afmæla Skjaldar og ÆFINGAR.

-MYNDRITIÐ- fékk sérstaka heiðurs afhendingu þann 1. maí í Bryggjukaffi til máttarstólpa Skjaldar og ÆFINGAR.

Í lok afmælisstundarinnar í Bryggjukaffi tóku síðan lagið Siggi Björns og Franziska Gunther.

Formenn Verkalýðsfélagsins Skjaldar á Flateyri 1933 – 2002 :

Friðrik Hafberg 1933 – 1934, 1939 -1958

Jón Magnússon 1935

Halldór Vigfússon 1936 – 1938

Hermann Björn Kristjánsson 1959

Einar J. Hafberg 1960 – 1963

Kristján Vigfús Jóhannesson 1963 – 1967, 1968 – 1970

Benedikt Vagn Gunnarsson 1967 – 1968

Guðvarður Kjartansson 1970 -1971

HendrikTausen 1971 – 1980

Björn E. Hafberg 1980 – 1981

Björn Ingi Bjarnason 1981 – 1984

Gunnar Valdimarsson 1985 – 1987

Jón Guðjónsson 1987 -1989

Sigurður Þorsteinsson 1989 – 1995

Guðmundur Jón Sigurðsson 1996 – 1997

Ágústa Guðmundsdóttir 1997 – 2002

.

Skráð af:

Björn Ingi Bjarnason

Eyrarbakka

Myndir: Björn Ingi Bjarnason.

Nýjustu fréttir