Mánudagur 9. september 2024
Síða 100

Vestfirðir: þungatakmörkunum aflétt í dag

Nýr vegur á Dynjandisheiði. Mynd: Björn Davíðsson.

Vegagerðin hefur tilkynnt að þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á eftirfarandi vegum hafi verið aflétt í dag kl 10 þriðjudaginn 7. maí. 2024. Um er að ræða eftirtalda vegi:

Barðastrandarveg 62

Bíldudalsveg 63

Vestfjarðavegi 60 um Dynjandisheiði

Innstrandaveg í Strandasýslu 68

Laxárdalsvegi 59.

Athygli er vakin á að áfram verður ásþungi takmarkaður við 5 tonn á:

Bíldudalsvegi 63 frá Bíldudalsflugvelli að Vestfjarðavegi 60 í Helluskarði og

Strandavegi 643 frá Laugarhóli í Bjarnarfirði norður í Árneshrepp. Vakin er athygli á að takmörkun við 5 tonn verður einnig áfram í gildi á vegi 645 frá Drangsnesi að Strandavegi 643 í Bjarnarfirði.

Bolungavíkurhöfn: 1.151 tonn í apríl

Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 1.151 tonnum af botnfiskafla í Bolungavíkurhöfn í síðasta mánuði.

Togarinn Sirrý ÍS var með 596 tonn eftir 7 veiðiferðir. Dragnótabáturinn Ásdís Ís var með góðan afla í mánuðinum 230 tonn í 20 róðrum. Þorlákur ÍS er aftur kominn á veiðar eftir vélaklössun og landaði 10 tonn í tveimur veiðiferðum á dragnót.

Tveir línubátar reru í apríl. Fríða Dagmar ÍS og Jónína Brynja ÍS fóru báðir 11 róðra og lönduðu 128 tonnum og 121 tonni.

Tveir bátar voru á grásleppuveiðum. Högni ÍS var með 28 tonnum í 10 löndunum og Siggi Bjartar ÍS var með 37 tonn í 11 löndunum.

Ekki liggja fyrir tölur um landaðan eldisfisk í apríl.

Uppbygging þorskstofnsins: mest veitt 2/3 af veiðinni fyrir kvótakerfið

Togarar að veiðum.

Veiði á þorski á Íslandsmiðum á hverju fimm ára tímabili hefur aldrei náð því sem hún var síðustu fimm árin fyrir upptöku kvótakerfisins. Mest var hún á árunum 2016 til 2021 þegar veiddust samtals 1.035.519 tonn af þorski. En á árunum 1979 – 1983 veiddust samtals 1.658.899 tonn. Mest hefur því verið veitt 62,4% af veiðinni fyrir kvótakerfi, eftir uppbyggingarstarf í hálfan fjórða áratug. Minnst var veiðin á árunum 2012 til 2017 en þá veiddust 643.381 tonn, sem er aðeins 38,8% af veiðinni síðustu fimm árin fyrir kvótasetninguna.

Þessar upplýsingar koma fram á Alþingi í skriflegu svari Matvælaráðherra við fyrirspurn frá Ingu Sæland. Um er að ræða magn af slægðum fiski.

Síðustu fimm fiskveiðiár hefur þorskveiðin dregist saman um 19%. Hún var 209.402 tonn fiskveiðiárið 2018/19 en aðeins 170.092 tonn á síðasta fiskveiðiári 2022/23.

Kvótasetning var á sínum tíma knúin fram til þess að vernda þorskstofninn fyrir ofveiði og gera stjórnvöldum kleift að byggja upp stofninn.

Einnig kemur fram í svarinu að 29 nytjategundum er stjórnað með úthlutun aflamarks á skip á grundvelli aflahlutdeildar.

Bíldudalur: krían er komin

Krían er komin í Bíldudalsvog. Úlfar Thoroddsen, sem þar hugar að æðarvarpi lét vita af þvi að krían hafi sést og segir hann að það slái ljósbláum blæ á leirurnar og þangbreiðurnar þar sem hópurinn settist.

Krían er mjög stundvís, ef svo má segja. Hún kom 4. maí í hittifyrra og 3. maí í fyrra og svo 6. maí í ár.

Íbúum fjölgar á Vestfjörðum

Íbúum fjölgar í Ísafjarðarbæ.

Íbúum með lögheimili á Vestfjörðum fjölgaði um 48 frá 1. desember 2023 til 1. maí sl. og voru þá 7.525 manns búsettir á Vestfjörðum. Fjölgunin síðustu sex mánuði er 0,6% sem er eilítið undir fjölguninni á landsvísu en hún var 0,9%.

Vestfirðir eru ekki lengur fámennasti landshlutinn í tölum Þjóðskrár Íslands og hafa tekið fram úr Norðurlandi vestra. Þar eru nú 7.510 manns en 1. desember sl. voru 7.501 íbúar á Norðurlandi vestra. Á Vestfjörðum voru fyrir sex mánuðum 7.477 íbúar en eru nú 24 fleiri en á Norðurlandi vestra.

Mest var fjölgunin á Vestfjörðum í Ísafjarðarbæ, en þar fjölgaði um 36 manns. Í Bolungavík fjölgaði um 12 manns og um 7 í Súðavíkurhreppi og einnig í Tálknafjarðarhreppi. Í Kaldrananeshreppi fjölgaði um 2 íbúa. Fækkun varð í fjórum sveitarfélögum, Vesturbyggð, Reykhólahreppi, Strandabyggð og Árneshreppi.

Þjóðskrá hefur ekki breytt sínum íbúatölum þrátt fyrir breyttar tölur Hagstofu Íslands, sem nýlega lækkaði íbúafjöldann á landinu um liðlega 17 þúsund manns og gefur upp lægri íbúafjölda í einstökum sveitarfélögum.

Ísafjarðarbær fær styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða vegna Valagils í Álftafirði

Valagil í Álftafirði. Mynd: visit Wesrfjords.

Ísafjarðarbær hefur fengið úthlutað 22.876.667 kr. styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þess að gera göngustíg og áningarstað í Valagili í Álftafirði.

Í tilkynningu sjóðsins segir að styrkurinn sé veittur til að bæta aðgengi að Valagili fyrir botni Álftafjarðar. Segir í rökstuðningi að staðurinn verði æ vinsælli með árunum. Verkefnið sé á áfangastaðaáætlun Vestfjarða og falli vel að markmiðum sjóðsins.

Hönnun er hafin á gerð göngustígsins og brúar í gilinu. Unnið er að útboðsgerð og er gert ráð fyrir að verkið fari í útboð fyrir miðjan maí.

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær gerð útboðsgagna og að verkið verði boðið út.

Teikning af pöllum.

Agga er nýtt öryggis-app fyrir smábátasjómenn og fyrsti dagur strandveiða gekk vel

Frá Bolungarvík.

Ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækið Alda ör­yggi býður nú ís­lensk­um smá­báta­sjó­mönn­um sér­hannað ör­ygg­is­stjórn­un­ar­kerfi fyr­ir smá­báta end­ur­gjalds­laust. Um er að ræða lausn sem nú­tíma­væðir, auðveld­ar og ein­fald­ar allt ut­an­um­hald ör­ygg­is­mála hjá smá­báta­sjó­mönn­um á sta­f­ræn­an máta.

Smá­for­ritið nefn­ist Agg­an og hef­ur þróun henn­ar verið í ná­inni sam­vinnu við Sigl­ingaráð, Lands­sam­band smá­báta­eig­anda og Sam­göngu­stofu í tæpt ár. Smá­báta­sjó­menn geta nálg­ast for­ritið á heimasíðu Ögg­un­ar.

Alls 403 bátar nýttu þennan fyrsta dag sen strandveiðar eru heimilar og var samanlagður afli á hafnarvog 337 tonn þar af 313 tonn þorskur.

Lið Menntaskólans í úrslit ungra frumkvöðla

Lið Menntaskólans á Ísafirði komst í úrslit í keppni ungra frumkvöðla.

Stór hluti þeirra tók þátt í vörumessu í Smáralind í byrjun apríl og í síðustu viku kom í ljós að eitt fyrirtæki úr MÍ er komið áfram í úrslit keppninnar.

Fyrirtækið heitir Áróra og það eru þau Agnes Eva Hjartardóttir, Abdulrahman Al Bdiwi og Rögnvaldur Már Magnússon sem standa á bak við það.

Verkefnið þeirra snýr að því að selja armbönd og lyklakippur til styrktar heimilislausu fólki á Íslandi og fer allur ágóði af sölunni í að betrumbæta aðstæður þeirra.

Nemendurnir hafa nú þegar mætt í viðtöl við dómara keppninnar og fóru suður til Reykjavíkur til að kynna fyrirtækið sitt í Arion banka og taka þátt í uppskeruhátíð

Kynningarfundur á frumvarpi til laga um lagareldi

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra mun kynna frumvarp til laga um lagareldi á opnum fundi sem haldinn verður í sal Club Vox á 1. hæð Hilton Reykjavík Nordica, miðvikudaginn 8. maí, kl. 11.00. Fumvarpið er sem stendur meðferðar hjá atvinnuveganefnd að loknu samráðsferli í samráðsgátt.

Að lokinni kynningu ráðherra mun Kolbeinn Árnason skrifstofustjóri matvæla fara nánar yfir þær breytingar sem hafa orðið á frumvarpinu að loknu samráðsferli. Tilgangur frumvarpsins er að skapa greininni ramma sem tryggir að sjálfbærni og vernd lífríkisins verði höfð að leiðarljósi og hefur víðtækt samráð verið haft hagaðila til að ná settu marki.

Fulltrúar frá Hafrannsóknastofnun og Matvælastofnun munu einnig segja frá aðkomu sinna stofnana að frumvarpinu og hverju lögin myndu breyta fyrir þeirra starfsemi.

Streymt verður frá fundinum, frumvarpið má nálgast hér.

Vogarhús við Bíldudalshöfn

Nýtt vogarhús hefur verið reist við Bíldudalshöfn sem mun hafa góða sýn yfir hafnarsvæðið. Vogarhúsið er reist ofan á eldra þjónustuhús við bryggjuna.

Um er að ræða glæsilega byggingu sem var hönnuð af M11 Arkitektum. Frágangur innanhúss er á lokametrunum og mun hafnarvörður flytja í vogarhúsið á næstunni.

Þá hefur einnig verið tekin í notkun þjónustumiðstöð á Bíldudal.

Tvær hæðir eru að hluta til í þjónustumiðstöðinni, þar sem efri hæðin er nýtt fyrir aðstöðu til funda og skrifstofu. Áhaldahús og slökkvilið flytja inn í húsnæðið á næstu dögum.

Nýjustu fréttir