Sunnudagur 1. september 2024
Síða 10

Teitur Björn: Tafir á uppbyggingu stofnvega á Vestfjörðum hefur bitnað illa á fólki og fyrirtækjum

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson, alþm. fjallar um samgönguáætlun í færslu á facebook í morgun. Hann segir að þörf sé á uppbyggingu samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu. En bætir við að það þurfi sáttmála og uppbyggingarátak um greiðari samgöngur og aukið umferðaröryggi um land allt ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

Nefnir hann dæmi um slæmt ástand á tengivegum víða um land og bætir svo við:

„Tafir á uppbyggingu stofnvega á Vestfjörðum hefur bitnað illa á fólki og fyrirtækjum. Samkeppnishæfni fjórðungsins er minni en annars staðar af þeim sökum og leiðir til hægari atvinnuuppbyggingar og minni verðmætasköpunar en ella. Það er allra tap.

Skortur á viðhaldi og eðlilegri endurnýjun vega á Vesturlandi, sér í lagi í Dölum, stefnir í óefni og hefur leitt til öfugra „vegaskipta“ – frá bundnu slitlagi yfir í malarvegi. Áætlanir og áform, fyrirheit og loforð, um nýframkvæmdir, t.d. Uxahryggjavegur, hafa ekki staðist. Fjármagn hefur sogast af einhverjum ástæðum á aðra staði.“

Samgönguáætlun verði uppfærð

Um komandi samgönguáætlun segir Teitur Björn:

„Samgönguáætlun verður lögð fram að nýju á komandi þingi. Ég geng út frá því að brugðist verði við harðri gagnrýni á fyrri útgáfu áætlunarinnar sem lögð var fram síðasta vetur og samgönguáætlun uppfærð af þeim sökum og svipi til metnaðarfullra áætlana í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.“

Hólmavík : björgunarsveitin byggir nýtt hús

unnið við grunninn. Myndir: Dagrenning.

Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík er að byggja nýtt hús yfir starfsemi sína. Verður það 240 fermetrar að stærð. Andri Hrafn Ásgeirsson, formaður sveitarinnar sagði í samtali við Bæjarins besta að framkvæmdir gengju vel. Búið er að steypa sökkla og botnplatan verður steypt næstu daga. Húseiningarnar eru komnar vestur, en þær eru frá Límtré Vírneti og eru smiðaðar á Flúðum. Andri segir að stefnan sé að húsið verði tilbúið í haust. Gamla húsið hefur verið selt og er afhending á því 15. desember næstkomandi. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 40 m.kr. Andri segir að vel hafi gengið að afla fjár fyrir kostnaðinum. Gamla húsið var selt og þá tók sveitin að sér að rífa út úr húsi Hólmadrangs og fékk greitt fyrir það. Eins hafi Sparisjóður Strandamanna verið hjálplegur við fjármögnun og veitt góð lánakjör. Andri segir að það sem eftir standi af kostnaði verði vel viðráðanlegt fyrir björgunarsveitina.

Þá hefur sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkt að veita styrk á móti gatnagerðargjöldum og öðrum gjöldum sveitarfélagsins sem tengjast nýbyggingu Björgunarsveitarinnar.

Andri Hrafn Ásgeirsson í stafni björgunarbátsins.

Andri Hrafn vildi koma að þökkum til annarrar stjórnarmanna og félaga í sveitinni fyrir veitta aðstoð og dugnað við þessa uppbyggingu björgunarsveitarinnar. Auk húsabyggingarinnar endurnýjaði sveitin gúmmibát sveitarinnar og er nýi báturinn kominn í notkun.

Félagar Björgunarsveitarinnar Dagrenningar Hólmavík eru ríflega 100 talsins og þar af eru 46 á útkallslista.

Í lok ágúst, þann 29. verður almennur félagsfundur verður haldinn í kvenfélagshúsinu og hefst fundurinn kl. 20:00. Rætt verður um verkefni vetrarins og gerð grein fyrir húsbyggingunni.

Gamla aðstaðan á Hólmavík.

Frá framkvæmdum við húsgrunninn.

Hesteyri: samþykkt leyfi fyrir gististað fyrir 16 manns

Læknishúsið á Hesteyri.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir í umsögn sinni til Sýslumannsembættisins á Vestfjörðum að það geri ekki athugasemdir við veitingu leyfis til handa Hrólfi Vagnssyni vegna Læknishússins á Hesteyri ehf.

Sótt er um leyfi til reksturs gististaðar i flokk IV – C minna gistiheimili.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða segir að í Læknishúsinu sé gisting í gistiskála á eftirhæð í þremur herbergjum með gistingu fyrir 16 gesti, snyrting og sturtu á efrihæð. Eftirlitið skoðaði aðstöðuna í júní síðastliðnum. Starfsleyfi var gefið út 2011 og gilti til 2023. Heilbrigðiseftirlitið segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að leyfi fyrir krá kaffihúsi verði veitt.

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar fellst á að ofangreint leyfi verði veitt miðað við 16 manns, en með fyrirvara um úrbætur eldvarna. Verði þeim ekki sinnt á fullnægjandi hátt innan gefins frests, muni slökkviliðsstjóri óska eftir því að sýslumaður afturkalli rekstrarleyfi sbr. ofangreint ákvæði reglugerðar.

Í umsögn byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar segir að „skv. uppdráttum hússins er jákvæð umsögn veitt ef frá eru skilin atriði tengdum brunavörnum og flóttaleiðum. Það er því mitt mat að þarna ráði umsögn slökkviliðs mestu við veitingu á rekstrarleyfi.“

Bíldudalur: samþykkt að urða úrgang við Járnhól

Heimastjórn Arnarfjarðar hefur samþykkt erindi frá Vesturbyggð um framkvæmdaleyfi fyrir staðsetningu svæðis undir óvirkan úrgang við Járnhól.

Vesturbyggð áformar að koma upp svæði fyrir móttöku á óvirkum úrgangi, s.s. múrbrot, gler, garðaúrgang og uppmokstur. Gert er ráð fyrir að jarðvegur sem fyrir er á svæðinu verði mokað upp og lagður til hliðar neðst í framkvæmdasvæði. Óvirkur úrgangur og garðaúrgangur verði svo settur í uppmoksturssvæði og sá jarðvegur sem fyrir var á svæðinu verður svo notaður til að hylja efnisflokka er sýnt þyki að hentugt er að loka viðkomandi svæði með jarðvegi.

Heimastjórnin gerir fyrirvara um frágang á aðliggjandi svæði. Segir hún aauðsynlegt að tryggja að frágangi á því svæði sem ætlað er sem framtíðargámavöllur fyrir Bíldudal, verði lokið sem allra fyrst þannig að íbúar á Bíldudal búi við sömu aðstöðu til sorplosunar og aðrir íbúar Vesturbyggðar. 

Heimastjórn bendir á að á þessu svæði getur orðið mjög vindasamt og að tryggja verði að ekkert af því efni sem þarna verður losað geti fokið á nærliggjandi byggingar eða útivistarsvæði svo sem golfvöllinn sem er beint á móti í dalnum.

Menntaskólinn á Ísafirði settur í gær – 532 nemendur

Frá skólasetningunni í gær. Mynd: M.Í.

Menntaskólinn á Ísafirði var settur í gær í 55. sinn. Alls munu 215 nemendur stunda nám í dagskóla á haustönn og er það töluverð fjölgun frá síðasta skólaári eða um 20%. Leita þarf aftur til ársins 2014 til að finna sambærilegan nemendafjölda en þá var kennt eftir fjögurra ára kerfi til stúdentsprófs og því fleiri árgangar í skólanum en nú.

Nemendur í fjarnámi og lotubundnu dreifnámi verða samtals 317 og heildarfjöldi nemenda við skólann 532. Aðsókn á heimavist hefur einnig aukist og verða öll herbergi hennar nýtt af nemendum MÍ í vetur. Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari MÍ segist hlakka til að starfa með þessum fjölmenna hópi nemenda í vetur.

Dalurinn sögustund með Margréti

Í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal verður fimmtudagskvöldið 22. ágúst kl. 20:00 sögustund með Margréti S. Höskuldsdóttur. Hún gaf árið 2022 út bókina Dalurinn.


Fjallað verður meðal annars um bókina Dalurinn, og sögusviðið, en bókin gerist í Keldudal í Dýrafirði, og hvernig það er að feta fyrstu sporin á rithöfundabrautinni.


Einnig verður gefið örlítið þjófstart á næstu bók Margrétar en hún verður gefin út í byrjun september.

Dalurinn sem er frumraun Margrétar S. Höskuldsdóttur kom út hjá Forlaginu sumarið 2022.

Bókin segir frá Sif sem heldur ein síns liðs vestur á firði í  sumarbústað foreldra sinna, sem stendur í eyðidal, til að leggja lokahönd á meistararitgerð. Planið er að hún verði þarna ein síns liðs, sambandslaus í tvær vikur. Hún lætur vita af sér daglega með símtali til foreldra sinna frá stað með símasambandi í göngufæri frá bústaðnum en er að öðru leyti einangruð.

Bókin hefst á frásögn frá 18. öld af ungri konu að nafni Gunnhildur sem drukknar í bátsferð, en virðist svo ganga aftur. Síðan tekur nútíminn við þar sem Sif er einmitt að skrifa meistararitgerð í þjóðfræði um drauga og vætti dalsins sem hún er stödd í, en sagan af Gunnhildi er ein þekktasta draugasaga svæðisins. Sif hefur alltaf verið róleg í dalnum en í þessari útlegð byrjar eitthvað að raska ró hennar. Henni fer að líða illa í einverunni og býður ókunnugum erlendum ferðamanni sem hún rekst á húsaskjól. Á sama tíma hefur lögreglan leit að erlendri ferðakonu.

Dynjandi ofan frá

Dynjandi.

Á degi íslenskrar náttúru mánudaginn 16. september kl. 13:00 býður Umhverfisstofnun áhugasömum í göngu að fossinum Dynjanda ofan frá í fylgd með landvörðum.

Farið verður frá áningarstæðinu við Kálfeyrarfoss.

Gengið verður meðfram Dynjandisá að þeim stað þar sem hún steypist niður fjallið og myndar fossinn Dynjanda. Þaðan er útsýni yfir Dynjandisvoginn fagurt.

Gangan er tiltölulega auðveld en nauðsynlegt er að klæða sig eftir veðri. 

Vegalengdin er um 4 km og áætlaður göngutími 1.5 – 2 klst.

Verndun hafsins

Stýrihópur sem settur var á laggirnar til að skilgreina áherslur Íslands um vernd hafsvæða í íslenskri lögsögu hefur skilað lokaskýrslu.

Áherslur Íslands taka m.a. hliðsjón af markmiðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni en í skýrslunni eru lagðar fram tillögur um áherslur í starfi stjórnvalda og hvaða svæði geta talist til verndarsvæða í hafi með hliðsjón af núverandi stjórnun verndunar og nýtingar.

Stýrihópurinn telur að í ljósi stöðu þekkingar á vistkerfum hafsins sé talsverð áskorun að ná markmiði um verndun 30% efnahagslögsögu Íslands fyrir árið 2030 í skilningi stefnu samningsins um líffræðilega fjölbreytni.

Hins vegar sé raunhæft að stíga strax skref byggð á þeirri þekkingu og því stjórnkerfi sem er til staðar og skilgreina hvernig unnið verði að þessu markmiði á næstu árum.

Að beiðni stýrihópsins vann Hafrannsóknastofnun viðauka við skýrsluna sem inniheldur mat á núverandi reglugerðum. Matið er unnið með tilliti til annarrar virkrar svæðisverndar sem niðurstöður um útnefningu slíkra svæða byggja á.


Að auki eru lagðar fram tillögur um þverfaglega samvinnu innlendra stofnana.

Skýrsluna má nálgast hér.

Há tilboð í skólabyggingu á Bíldudal

Tilboð í Bíldudalsskóla reyndust langt yfir kostnaðaráætlun og hefur þeim verið hafna.

Bæjarráð Vesturbyggðar hefur yfirfarið öll tilboð sem borist hafa vegna útboðs á byggingu grunnskóla og leikskólabyggingar á Bíldudal.

Þrjú tilboð bárust í verkið, tvö þeirra uppfylltu skilyrði útboðsins.

Kostnaðaráætlun fyrir verkið nam 380.485.217 kr.

Land og verk var með tilboð upp á 525.045.191 kr. eða 138% af kostnaðaráætlun
Hrífunesskógur bauð 551.180.220 kr. í verkið eða 145% af kostnaðaráætlun

Eftir skoðun og mat hefur bæjarráð Vesturbyggðar ákveðið að hafna báðum tilboðum þar sem þau voru bæði verulega yfir kostnaðaráætlun.

Móatún Tálknafirði: endurgerð götu klárast næsta sumar

Tálknafjörður.

Framkvæmdir eru hafnar við endurgerð á Móatúni í Tálknafirði. Það er verktakafyrirtækið Allt í járnum ehf sem fékk verkið að undangerngu útboði.

Samkæmt upplýsingum frá Geir Gestssyni, sviðsstjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs hjá Vesturbyggð felst verkið í endurgerð á Móatúni, skipta þarf um vatns, holræsa og fráveitulagnir í götunni, ásamt því að skipta þarf um efra og neðra burðalag í götunni.

Verkið skal unnið þannig að moka skal í burtu megninu af því efni sem nú er í götunni, og sett nýtt burðar efni í staðinn.

Undirbúa skal götu þannig að hægt verði að malbika götuna næsta sumar ásamt því að endurgera þær gangstéttar sem teknar verða í burtu í tengslum við framkvæmdina.

Helstu stærðir eru

  • Efnismagn í jarðvegskiptum ca. 4100m³
  • Efnismagn í lögnum ca. 1100metrar

Áætlaður kostnaður var áætlaður 64 milljónir.

Niðurstaða útboðs var kr. 66.769.840 ásamt kr. 6.527.400  viðbótarverkum eða samtals kr. 73.297.240.

Verklok á undirbúnings framkvæmdum er 15. des 2024.

Verktaki er Allt í járnum ehf Tálknafirði.

Áætlað er að malbika götuna sumarið 2025 ásamt því að endurgera gangstétt að loknu malbiksframkvæmdum.

Nýjustu fréttir