Mánudagur 28. október 2024
Síða 10

Listasafn Íslands með námskeið á Ísafirði

Frá námskeiðinu á Ísafirði. Mynd: Listasafn Íslands.

Listasafn Íslands stóð nýlega fyrir þremur námskeiðum fyrir kennara sem haldið var á Ísafirði.

Námskeiðin voru haldin í samhengi við námsefni Listasafns Íslands, Sjónarafl – þjálfun í myndlæsi.

Sjónarafl miðar með markvissum hætti að því að tengja kennslu í myndlæsi og listasögu við skólakerfið og auka þekkingu nemenda á menningarsögu og menningararfi þjóðarinnar. Þjálfun í myndlæsi eykur einnig hæfni í tjáningu, virkri hlustun, hugtakaskilningi og gagnrýnni hugsun.

„Það var gjöfult að geta boðið upp á faglegt námskeið í myndlæsi fyrir kennara á svæðinu og bjóða þá velkomna á listasafnið – ég efast ekki um að þau kíki næst með nemendahópana sína!“ segir Rannveig Jónsdóttir, safnstjóri Listasafns Ísafjarðar.

Fullt var á öll námskeiðin, en þau sóttu kennarar m.a. frá Ísafirði, Bolungavík, Þingeyri, Önundarfirði, Flateyri og Súðavík. Þátttakendur fengu góða kynningu á námsefninu ásamt því að allir prófuðu að beita aðferðum myndlæsis með því að nota verkin á sýningunni Framtíðarfortíð þar sem valin verk úr safneign Listasafns Íslands eru til sýnis í Listasafni Ísafjarðar en sú sýning stendur til 19. október 2024.

„Almenn ánægja var meðal þátttakenda með námskeiðið sem þeir sögðu vera praktískt tveggja tíma námskeið. Að námskeiðinu loknu töldu kennararnir sig geta innleitt aðferðina í sínu kennsluumhverfi með aðstoð bókarinnar“ – Ingibjörg Hannesdóttir, sérfræðingur hjá Listasafni Íslands.

Listasafn Íslands vinnur að þróun fjarkennslu og heldur reglulega námskeið fyrir kennara í myndlæsi um land allt.

Hvalárvirkjun: skrefi nær

Yfirlitsmynd af virkjunarsvæði. Glæra frá kynningarfundinum.

Áform Vesturverk ehf um að reisa Hvalárvirkjun á næstu árum fengu í gær byr í seglin með úrskurði sérstöku Óbyggðanefndarinnar sem kveðinn var upp í gær.

Óbyggðanefnd hafði í fyrri úrskurði árið 2019 komist að þeirri niðurstöðu að Drangajökull væri þjóðlenda, en ríkið endurskoðaði kröfur sínar að þeim úrskurði uppkveðnum og gerði nýja kröfu árið 2022. Var þess krafist að allmikið land sunnan og austan Drangajökuls væri einnig þjóðlenda og þar með ekki í eigu eigenda jarðanna sem eru á svæðinu. Sneri krafan að fimm jörðum á svæðinu.

Skipuð var sérstök Óbyggðanefnd til þess að úrskurða um nýju kröfuna og kom niðurstaða hennar í gær. Úrskurðurinn er að ekki séu þjóðlendur á svæðinu sem ríkið gerði kröfu um nú.

Þetta þýðir að landeigendur teljast áfram vera eigendur landsins. Það hefur þýðingu fyrr Hvalárvirkjun þar sem Vesturverk ehf hafði gert samninga við eigendur Ófeigsfjarðar og Engjaness um afnot af vatnsréttindum í landi þeirra til virkjunarinnar. Málatilbúnaðurinn fyrir Óbyggðanefnd tafði framgang virkjunaráforma en nú er sú fyrirstaða úr sögunni. Þó ber þess að geta að ríkið gæti farin með málið fyrir almenna dómstóla en ekkert bendir til þes að það muni gera það.

Nú er aðeins beðið niðurstöðu Hæstaréttar um áfrýjunarbeiðni nokkurra landeigenda að jörðinni Drangavík. Þeir vilja skjóta dómi Landsréttar til Hæstaréttar í máli sem þeir höfðuðu og töpuðu bæði í héraði og í Landsrétti. Þar var þess krafist að að jörðin Drangar væri mun stærri en viðurkennt er og ætti í raun töluvert af jörðunum Engjanes og Ófeigsfirði og þar með vatnsréttindin.

Hæstiréttur átti lögum samkvæmt að vera búinn að taka afstöðu til áfrýjunarbeiðninnar fyrir 9. september sl. en hefur erindið enn til umfjöllunar. Verði beiðninni um áfrýjun hafnað er lokið þeim málaferlum og ekkert lengur í veginum fyrir því að hefja af fullum krafti undirbúning að virkjunarframkvæmdum.

-k

G. Sigíður Ágústsdóttir gefur kost á sér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

G. Sigríður Ágústsdóttir sem hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Hún er fædd og uppalin á Bíldudal og býr í dag í Reykjavík. 

Í tilkynningu frá henni segir :

„Ég brenn fyrir heilbrigðismálefnum og vil stuðla að sterku og öflugu atvinnulífi um landið allt. Sterkt og fjölbreytt atvinnulíf er að sjálfsögðu forsenda þess að við getum byggt upp sterka innviði og bætt samfélagið okkar. Verðmætasköpun spilar stóran þátt í því og bættar samgöngur eru lykilatriði í uppbyggingu og atvinnurekstri.

Áskoranir fyrir komandi kjörtímabil eru fjölmargar og krefjandi. Það þarf að sækja fram með festu og sterkri sókn á áframhaldandi atvinnuuppbyggingu. Fyrst þá er hægt að styrkja innviði og tryggja íbúum öryggi í heimabyggð.

Áfram gakk stelpa, hefði pabbi sagt. Og með það í veganesti reima ég á mig gaddaskóna.”

Stjórn kjördæmisráðs Norðvesturkjördæmis boðar til fundar í kjördæmisráði sunnudaginn 20. október kl. 12:30 á Hjálmakletti, Borgarnesi þar sem röðun um efstu 4 sæti á framboðslista flokksins í Norðvesturkjördæmi verður framkvæmd. Kosið verður um eitt sæti í einu.

Hannibal við stýrið

Hannibal Valdimarsson samgöngumálaráðherra situr undir stýri á rússneskum VOLGA fólksbíl.

Á þaki bílsins er spjald með bílverðinu: 363.393 kr.

Bílasýning hjá Bifreiðum & landbúnaðarvélum 27. apríl 1973.

Sýndir bílar frá AMC, American Motors Company, m.a. AMC Javelin og AMC Concord.

Af vefsíðunni sarpur.is

Samkvæmt verðlagsreiknivél Hagstofunnar væri verðið í dag kr. 3.967.510 kr

Skordýr í pasta

Matvælastofnun varar við einni framleiðslulotu af First Price Fusili pastaskrúfum sem Krónan ehf. flytur inn vegna skordýra sem fannst í einum poka. Fyrirtækið hefur innkallað vöruna í samráði við Heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness.

Innköllunin á eingöngu við eftirfarandi framleiðslulotu:

  • Vöruheiti: Fusilli
  • Vörumerki: First Price
  • Nettómagn: 500gr
  • Framleiðandi: PASTIFICIO DI MARTINO G & F
  • Innflytjandi: Krónan, Dalvegi 10-14
  • Framleiðsluland: Lettland
  • Lotunúmer/best fyrir dagsetningar: 11.06.2026
  • Geymsluskilyrði: Þurrvara
  • Dreifing: Krónan

Neytendur sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki, farga eða fara með hana í verslanir Krónunnar til að fá endurgreitt

Frumvarp um kílómetragjald – 6.70 kr til 43.90 kr eftir þyngd ökutækis

Stefnt er á að leggja fram frumvarp á haustþinginu um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja á vegakerfinu sem komi til framkvæmda þann 1. janúar 2025.
Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að kílómetragjald komi í stað olíu- og bensíngjalda sem gjald fyrir notkun allra ökutækja í vegakerfinu.

Til að stuðla að sanngjarnari gjaldtöku er horft til þess að kílómetragjald endurspegli eins og kostur er raunverulega notkun á vegainnviðum eftir fjölda ekinna kílómetra í samræmi við þyngd ökutækja óháð orkugjafa.

Fjárhæð kílómetragjalds verði sett fram í 29 gjaldbilum þar sem fjárhæðin hækkar í samræmi við þyngd. Fyrir léttustu ökutækin, eins og fólksbíla sem eru með leyfða heildarþyngd allt að 3,5 tonn, verði gjaldið 6,7 krónur á kílómetra. Fjárhæðin hækki svo upp í 43,90 krónur fyrir ökutæki yfir 31 tonn.

Við ákvörðun um fjárhæð kílómetragjalds var horft til þess að kostnaður við rekstur meðalbensínsbíls, sem ekur 14 þ.km á ári og eyðir 7,5 l/100 km, sé óbreyttur. Frumvarpið gerir því ráð fyrir að opinber gjöld og orkukostnaður vegna meðalbensínbíls verði sá sami árið 2025 og hann er árið 2024. Kostnaður við rekstur annarra bíla er ýmist hærri eða lægri en meðalbensínbíls og er það m.a. háð eyðslu.

Bjarni Jónsson segir sig úr VG

Bjarni Jónsson alþm. VG í Norðvesturkjördæmi birti fyrir skömmu eftirfarandi tilkynningu:

„Ég hef ákveðið að segja mig úr VG og segja skilið við þingflokkinn

Flestum hefur lengi verið ljóst að flokkurinn hefur sveigt af leið og brugðist grunngildum sínum og væntingum þeirra sem stóðu að stofnun hans. Hann hefur brugðist mörgu því fólki sem hefur stutt hann. Á síðustu vikum og mánuðum hef ég styrkts í þeirri trú að ég eigi ekki samleið með VG, þar sé ekki farvegur fyrir hugsjónir og mörg þau brýnustu mál sem ég hef barist fyrir og var kosinn til og ljóst að veran í VG hefur ekki síst orðið æ þungbærari vegferð fyrir fólk með landsbyggðarhjarta.

Þessi ákvörðun hefur í huga mínum legið fyrir í nokkurn tíma en ég kaus að bíða með þangað til búið væri að rjúfa þing og ákveða kjördag.“

Óbyggðanefnd: landeigendur unnu

Sérstök Óbyggðanefnd var að úrskurða í máli sem ríkið höfðaði fyrir nefndinni um eignarrétt á landi austan og sunnan Drangajökuls. Fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins krafðist þess að það yrði úrskurðað þjóðlenda en eigendur Ófeigsfjarðar og Engjaness töldu landssvæðið vera hluta af jörðum sínum. Niðurstaða hinnar sérstöku Óbyggðanefndar er að umrætt land sé eignarland eða að „Ekki eru þjóðlendur á landsvæðinu sem fjallað hefur verið um í máli þessu“ eins og segir í úrskurðarorðum.

Úrskurðurinn hefur áhrif á væntanlega Hvalárvirkjun. Eigendur jarðanna hafa samið við Vesturverk ehf um virkjunarréttindin og ef svæðið hefði verið úrskurðað þjóðlenda hefði þeir samningar verið í uppnámi.

Vesturverk ehf blandaði sér í málið sem aðili til að gæta hagsmuna sinna og um þetta segir sérstaka óbyggðanefndin „Það svæði sem kröfur Vesturverks ehf. lúta að telst til eignarlands samkvæmt þeirri niðurstöðu nefndarinnar“

Verður ekki annað séð að með þessum úrskurði hafi þessari hindrun verið rutt úr vegi fyrir Hvalárvirkjun.

Auður Kjart­ans­dótt­ir gef­ur kost á sér í 3. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í NV kjördæmi

Auður Kjart­ans­dótt­ir sem er bæj­ar­full­trúi í Snæ­fells­bæ, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Auður er bú­sett í Ólafs­vík en er alin upp í Stykk­is­hólmi.

Hún er fjár­mála­stjóri hjá Fisk­markaði Íslands, bæj­ar­full­trúi í Snæ­fells­bæ, stjórn­ar­formaður Brú­ar líf­eyr­is­sjóðs og stjórn­ar­maður hjá Lands­sam­tök­um líf­eyr­is­sjóða.

„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 3. sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Ég brenn fyr­ir mál­efn­um sam­fé­lags­ins, mig lang­ar til að leggja mitt af mörk­um og hafa áhrif á nýj­um vett­vangi,“ seg­ir í til­kynn­ingu Auðar til fjöl­miðla.

Vesturbyggð: 29,1 m.kr. hagnaður af sölu íbúða

Smábátaflotinn í Patrekshöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í gær viðauka við fjárhagsáætlun ársins vegna áformaðrar sölu á tveimur íbúðum.

Gert er ráð fyrir að setja tvær íbúðir sveitarfélagsins á sölu. Annarsvegar Urðargötu 23 nh. á Patreksfirði og hins vegar Móatún 18 á Tálknafirði.

Í viðaukanum kemur fram að söluhagnaður er áætlaður 29,1 m.kr.

Eftir breytinguna er rekstrarniðurstaða A hluta áætluð verða neikvæð um 9,5 m.kr. en í upphaflegri fjárhagsáætlun var niðurstaðan neikvæð um 32,6 m.kr.

Niðurstaða bæði A og B hluta verður jákvæð um 75 m.kr. en var jákvæð um 52 m.kr.

Munurinn á betri afkomu A og B hluta samanlagt en á A hluta sérstaklega skýrist fyrst og fremst af góðri afkomu hafnasjóðs, vatnsveitu og fráveitu sem skila um 90 m.kr. í afgang eftir rekstur.

Nýjustu fréttir