Síða 10

Innviðafélag Vestfjarða: huga þarf að staðarvali fyrir nýjan flugvöll

Hugmyndir Landhelgisgæslunnar um staðsetningu á nýjum flugvelli

Innviðafélag Vestfjarða segir í yfirlýsingu að áform Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar sé bakslag fyrir Vestfirði og það þurfi að auka flugöryggi með athugun á nýrri staðsetningu flugvallarins.

Yfirlýsingin í heild:

„Icelandair tilkynnti í gær áform sín um að hætta flugi til Ísafjarðarflugvallar árið 2026 þegar nýir flugvellir opna í Grænlandi sem Icelandair getur þjónustað með stærri flugvélum. Þá verður Ísafjarðarflugvöllur eini flugvöllurinn í leiðarkerfi Icelandair sem krefst minnstu flugvélategundar félagsins. 

Þessi ákvörðun felur í sér bakslag fyrir samfélagið á Vestfjörðum og skapar óvissu um framtíðarhorfur svæðisins. Ákvörðun Icelandair undirstrikar jafnframt hversu brýnt það er að huga af alvöru að staðsetningu og uppbyggingu flugvallarins á Ísafirði til að auka flugöryggi og aðgengi mismunandi vélakosts. 

Árið 2018, sama ár og ákvörðun var tekin af flugmálayfirvöldum Grænlands að byggja nýja flugvelli þar, var svipuð umræða á Íslandi. Þá lagði Guðjón S. Brjánsson þingmaður fram þingsályktunartillögu um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Því miður bar Alþingi ekki gæfa til að afgreiða það þingmál og eftir sitja Vestfirðir án flugvallar sem sinnt getur almennu farþegaflugi. 

Öruggar, tíðar og áreiðanlegar flugsamgöngur milli Ísafjarðar og Reykjavíkur eru lykilforsenda fyrir öryggi íbúa, lífsgæði þeirra og áframhaldandi samfélagslega og efnahagslega þróun svæðisins.

Jafnframt dregur þessi staða skýrt fram nauðsyn þess að stjórnvöld bregðist hratt við með auknum fjárfestingum í öðrum samgönguinnviðum, ekki síst á landi, til að tryggja stöðugleika og framtíð vaxtar og viðgangs á Vestfjörðum.

Innviðafélag Vestfjarða hvetur stjórnvöld eindregið til að grípa þegar til að hefja stðarvalskönnun um nýjan flugvöll á Ísafirðir og tryggja reglulegar flugsamgöngur sem og öflugar samgöngur á landi og styðja þannig við áframhaldandi efnahagsævintýri á Vestfjörðum.“

Uppfært kl 22:30 og fyrirsögn breytt og sett önnur mynd.

Samn­ingur við Mýflug framlengdur um hálfan mánuð

Vegagerðin hefur framlengt samning við flugfélagið Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur um tvær vikur, eða til 15. mars 2025.

Flogið verður fjórum sinnum í viku líkt og verið hefur undanfarna mánuði.

Vegagerðin samdi við Mýflug um áætlunarflug milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur í október á síðasta ári. Í samningnum, sem gildir í 3 ár, felst áætlunarflug yfir helstu vetrarmánuðina, desember, janúar og febrúar, fjórum sinnum í viku. Nú hefur samningurinn verið framlengdur um tvær vikur og gildir til 15. mars eins og fyrr segir. 

Flugleiðin er styrkt sérstaklega af ríkinu til að tryggja tímabundna lágmarksþjónustu á þessari leið á meðan markaðslegar forsendur eru ekki til staðar, enda er flugið mikilvægt fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu.  

Hafís um 58 sjómílur frá landi

Hafískort var teiknað eftir gervitunglamynd sem sýndi blöndu af sýnilegu og innrauðu ljósi frá því kl. 12:00 í gær, mán. 3. mars 2025.
Greina mátti meirihlutann af meginísröndinni á tunglmyndinni og mældist hún í um 58 sjómílna fjarlægð frá Straumnesi þar sem hún var næst landi.

Ísspangir og stakir jakar geta verið handan meginlínunnar nær landi.


Spáð er norðaustan stromi á Grænlandssundi nær óslitið frá því á mánudagskvöld og fram á fimmtudag. Þar á eftir taka við hægari norðaustanáttir út vikuna. Vindur ætti því að valda því að hafísinn fjarlægist landið næstu daga.

Styrkjum úthlutað úr Lýðheilsusjóð

Ráðherra ásamt þeim sem hlutu styrk úr Lýðheilsusjóði 2025

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra úthlutaði á föstudag 98 milljónum króna til 153 verkefna í styrki úr Lýðheilsusjóði við athöfn á Hilton Reykjavík Nordica. 

Á meðal styrkhafa er Héraðssamband Strandamanna í vekefnið Sterk á Ströndum sem fékk 500 þúsund Skíðafélag Strandamanna sem fékk 350 þúsund og Héraðssambandið Hrafna-Flóki sem fékk 300 þúsund í verkefnið Fræðsludagatal Hrafna-Flóka.

Að þessu sinni var áhersla lögð á að styrkja aðgerðir sem miða meðal annars að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika. Einnig var áhersla á áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, næringu, hreyfingu og kynheilbrigði. Við mat á umsóknum fyrir árið 2025 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.

Heilbrigðisráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald Lýðheilsusjóðs.

Arnarlax vill auka laxeldi í Arnarfirði um 4.500 tonn

Arnarlax hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna umhverfismats á auknu sjókvíaeldi í Arnarfirði, en fyrirtækið áformar að auka hámarkslífmassa úr 11.500 tonnum í 16.000 tonn og stækka eldissvæðin úr 5,9 km2 í 29 km2.

Með þessari fram­leiðslu­aukn­ing­unni verður um­tals­verð stækk­un á þeim eld­is­svæðunum sem nú eru í notkun.

Áhrif á erfðablönd­un við villta stofna lax­fiska, sem falla und­ir áhættumat erfðablönd­un­ar eru talin óveruleg. Þá tel­ur Arn­ar­lax að fyr­ir­hugaðar breyt­ing­ar sé ekki lík­leg til að hafa um­tals­verð um­hverf­isáhrif sé tekið til­lit til mó­vægisaðgerða fyr­ir­tæk­is­ins.

Formaður bæjarráðs: óvissu þarf að eyða sem fyrst

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og formaður stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga segir þetta leiðinlegar fréttir aðspurður um viðbrögð við ákvörðun Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar.

„Við höfum reitt okkur á flug félagsins í áratugi. Farþegar eru á ári um 27 þúsund, svo það er eftir talsverðu að slægjast fyrir önnur flugfélög að fara inn á þennan markað, ekki síst þegar ríkið styður innanlandsflug í gegnum Loftbrú. Í þessu samhengi er ágætt að tilkynning um þessi áform komi með góðum fyrirvara.

Þrátt fyrir vegabætur er flugið auðvitað gríðarlega mikilvægt fyrir Ísafjörð og nærsveitir þar sem ekki eru neinar almenningssamgöngur. Flugið er mikilvægt fyrir einstaklinga, atvinnulífið, ferðaþjónustu og skilvirkt nútímasamfélag. Svo eru það starfsmenn Icelandair á Ísafirði.“

Gylfi segir að forsvarsmenn sveitarfélaganna á norðanverðum Vestfjörðum hafi þegar brugðist við og óskað eftir fundum með Icelandair og samgönguráðherra.

„Við í Vestfjarðastofu og forsvarsmenn sveitarfélaganna á svæðinu erum komin með bókaða fundi í vikunni bæði með fulltrúum Icelandair og ráðherra samgöngumála. Þá erum við að setja okkur í samband við hin flugfélögin til að heyra í þeim hljóðið. Gagnaöflun og greiningarvinna er þegar byrjuð.

Ég hef ekki áhyggjur af því að það verði ekki flogið á Ísafjörð áfram, en óvissan er óþægileg og henni þarf að eyða sem fyrst.“

Framkvæmdaleyfi fyrir Örlygshafnarveg loksins á leiðinni

Teikning af fyrirhuguðu vegarstæði.

Skipulags- og framkvæmdaráð Vesturbyggðar leggur til við heimastjórn fyrrum Barðastrandarhrepps og fyrrum Rauðasandshrepps að samþykkt verði umsókn Vegagerðarinnar dagsett 22.mars 2024 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi vegna tveggja verkefna á Örlygshafnarvegi, annars vegar um nýjan veg um Hvallátra og hins vegar enduruppbygging á Örlygshafnarvegi (612) frá Hvalskeri að Sauðlauksdal.

Skipulagsfulltrúa verði heimilt að veita framkvæmdaleyfi sbr. 13. gr. skipulagslaga fyrir framkvæmd um Örlygshafnarveg – Hvallátra. Fyrir liggur samþykki landeiganda.

Skipulags- og framkvæmdaráð samþykkti í september 2024 útgáfu framkvæmdaleyfis vegna fyrri hluta umsóknarinnar Örlygshafnarvegs Hvalsker – Sauðlauksdalur en frestaði afgreiðslu þess hluta umsóknar er snýr að Örlygshafnarveg Hvallátrum þar til samþykki landeigenda lægi fyrir. 

Samgönguráðherra: áfall fyrir Vestfirði

Eyjólfur Ármannsson, alþm og samgönguáðherra.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra segir að ákvörðun Icelandair um að hætta áætlunarflugi til Ísafjarðar sé áfall. Hann segir í færslu á facebook:

„Áætlunarflug til Ísafjarðar er gríðarlega mikilvægt fyrir svæðið og Vestfirði í heild. Ég mun óska eftir fundi með for­stjóra Icelanda­ir sem fyrst til að ræða þetta mál, sem kallar á viðbrögð stjórnvalda. Gríðarlega mikilvægt er að áætlanaflug til Ísafjarðar sé tryggt, sem og rekstrargrundvöllur þess. Það er verkefnið.“

Háskólasetur Vestfjarða: opið hús í tilefni af 20 ára afmælinu

Vestrahúsið Ísafirði. Háskólasetrið er þar til húsa. Mynd: Hvest.

Í tilefni 20 ára afmælis Háskólaseturs Vestfjarða verður gestum og gangandi boðið að fagna þessum tímamótum á opnu húsi í Vestrahúsi þann 14. mars næstkomandi. Kl. 13:00 verður haldinn aðalfundur Háskólaseturs, sem er opinn gestum, húsið opnar kl. 14:30 en formleg dagskrá hefst upp úr kl. 15:00 með ávörpum stjórnaformanns og fleiri gesta. Flestar stofnanir hússins taka þátt í opnu húsi og því geta bæjarbúar nýtt tækifærið og séð þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í Vestrahúsi. Einhverjar stofnanir ætla að bjóða upp á veitingar og/eða leiki og verður það þá auglýst síðar.

Dagskrá:
14:30 – Húsið opnar fyrir gestum
15:00 – Ávörp í tilefni 20 ára afmælis Háskólaseturs og 20 metra afmæliskaka
16:00 – Tónlistaratriði
17:00 – Nemendur kynna námið og lífið á Ísafirði

Auk þessa munu verða ýmiskonar kynningar í stofum Háskólaseturs, s.s. á rannsóknum og ráðstefnum, myndasýningar og kynningar á afurðum nemenda. Einnig munu Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands mæta og kynna sína starfsemi

Hafró: óbreytt loðnuráðgjöf

Uppsjávarveiðiskipin Aðalsteinn Jónsson og Polar Ammassak voru í samvinnu við Hafrannsóknastofnun við loðnurannsóknir í síðustu viku. Markmiðið var að kanna hvort meira af loðnu hefði skilað sér inn á norðvesturmið síðan loðnumælingar fóru fram þar í fyrri hluta febrúarmánuðar. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun.

Magn af loðnu sem mældist nú var ívið lægra en fyrri mælingin og því ljóst að ekkert hafi bæst við loðnugönguna. Fyrri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um veiðar á 8589 tonn loðnu á yfirstandandi vertíð stendur því óbreytt.

Mest af loðnunni var að finna á grunnunum út af Húnaflóa og Skagafirði (1. mynd). Hafrannsóknastofnun áformar ekki fleiri loðnumælingar þennan veturinn.

Nýjustu fréttir