Sunnudagur 20. apríl 2025
Heim Blogg Síða 10

Ísafjarðarbær: 3,5 m.kr. styrkir til menningarmála

Frá Dýrafjarðardögum 2017.

Menningarmálanefnd hefur úthlutað styrkjum til menningarmála til 21 aðila samtals að fjárhæð 3,5 m.kr. Alls bárust 28 umsóknir. 

Eftirfaradi fengu úthlutað styrk:

Sandra Borg Bjarnadóttir, f.h. Sandra ehf., vegna Vekjandi listasmiðju fyrir börn, kr. 133.000.
Anna Lilja Steinsdóttir, f.h. Dýrafjarðardaga, vegna Dýrafjarðardaga á Þingeyri, kr. 220.000
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, vegna Leiró – skapandi leikvöllur með leir, kr. 150.000
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, vegna Litlu netagerðarinnar, vegna jólainnsetningar í Aðalstræti, kr. 100.000
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, vegna Litlu netagerðarinnar, vegna viðburðaraðar í Litlu netagerðinni, kr. 200.000
Signý Þöll Kristinsdóttir, vegna tónleika í Dýrafjarðardagar, kr. 100.000
Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir, f.h. Við Djúpsins, vegna Við Djúpið tónlistarhátíðar, kr. 250.000
Margeir Haraldssonar, f.h. Lýðskólans, vegna Blíðunnar sumarhátíðar, kr. 200.000
Elísabet Gunnarsdóttir, f.h. Kol og Salt, vegna afmælisdagskrár Úthverfu, kr. 250.000
Maksymilian Haraldur Frach, vegna Brúar 2025 – tónlistar fyrir eldri borgara, kr. 150.000
Steinunn Ása Sigurðardóttir, f.h. Leikfélags Flateyrar, vegna frumsamins leikrits í fullri lengd, kr. 200.000
Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir, vegna sumarleikhúss á Ísafirði, kr. 200.000
Greta Lietuvninkaité-Suscické, vegna Write it Out: World Letter Writing Day, kr. 47.000
Lísbet Harðardóttir og Rannveig Jónsdóttir, f.h. LRÓ, vegna listasmiðju fyrir börn í dymbilviku, kr. 200.000
Halldóra Jónasdóttir, f.h. Leiklistarhóps Halldóru, vegna söngleikjasýningar um páskana, kr. 200.000
Agnes Eva Hjartardóttir, f.h. Leikfélags Menntaskólans á Ísafirði, vegna söngleiksins Grease, kr. 100.000
Steingrímur Guðmundsson, f.h. The Pigeon International Film Festival, vegna PIFF – alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar á Ísafirði, kr. 250.000
Guðjón Friðriksson, vegna ritunar gönguferðabókar um eldri bæjarhluta Ísafjarðar, kr. 100.000
Marsibil G. Kristjánsdóttir, vegna bókbandsnámskeiðs í Blábankanum, kr. 150.000
Helen Hafgnýr Cova Gonzales, f.h. Karíba ehf., vegna bókmenntahátíðar á Flateyrar, kr. 250.000
Kristín Berglind Oddsdóttir, vegna vísnakvölds á Þingeyri, kr. 50.000

Auglýsing

Vesturbyggð: tekur illa í aukið laxeldi í Arnarfirði

Umhverfis- og loftslagsráð Vesturbyggðar tók fyrir á síðasta fundi sínum beiðni Arnarlax um umsögn vegna aukningar á umfangi sjókvíaeldis fyrirtækisins í Arnarfirði úr 11.500 tonna hámarkslífmassa í 16.000 tonn ásamt stækkun eldissvæða úr 5,9 km2 í 29 km2.

Í bókun nefndarinnar segir að umhverfis- og loftslagsráð telji að fyrirhugaðar breytingar þurfi að fara fyrir svæðisráð strandsvæðaskipulags, nýtt umhverfismat og aukið reglubundið eftirlit þriðja aðila, þar sem um verulega stækkun á svæðum er að ræða. Einnig þurfi að auka tíðni reglulegs eftirlits fyrirtækisins á kvíum til að minnka líkur á slysasleppingum.
Þá segir nefndin að með þessum miklu stækkunum sé ekki ljóst hvernig gert er ráð fyrir rými fyrir aðra starfsemi í firðinum.

Um stækkun eldissvæða segir nefndin að þetta sé gert til að auka sveigjanleika kvíabóla og dreifa úrgangi yfir stærra svæði. „Því er óskýrt hvort sú þörf sé vegna neikvæðra áhrifa eldis á núverandi svæði eða hvort stækkunin sé til að dreifa uppsöfnun yfir lengri tíma á stærra svæði. Minnst er á möguleikann að færa kvíar á grynnra, straumharðara svæði sem eykur sjónmengun og dreifir mögulega úrgangi út fyrir eftirlitssvæði.“

Umsögn nefndarinnar lýkur með orðunum : Umhverfis- og loftslagsráð ítrekar mikilvægi varúðarreglunnar og að vísindalegri nálgun sé beitt við ákvarðanir er varða umhverfismál.

Bæjarins besta sendi fyrirspurn á Gerði B. Sveinsdóttur, bæjarstjóra og innti hana eftir því hvernig bæri að skilja bókun nefndarinnar, hvort hún væri ekki bein andstaða við 4.500 tonna framleiðsluaukningu í Arnarfirði. Gerður vísaði á formann nefndarinnar Freyju Ragnarsdóttur Petersen og var fyrirspurnin framsend til hennar 2. apríl. Svar hefur ekki borist.

Auglýsing

Bolungavíkurhöfn: 908 tonn í mars

Bolungavíkurhöfn í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Alls var landað 908 tonnum af bolfiski í Bolungavíkurhöfn í marsmánuði.

Togarinn Sirrý ÍS fór 6 veiðiferðir og kom með 535 tonn.

Snurvoðabátarnir Ásdís ÍS og Þorlákur ÍS lönduðu 72 tonnum, þar af Ásdís ÍS 62 tonnum og Þorlákur ÍS 10 tonnum

Tveir línubátar reru í mánuðinum. Fríða Dagmar ÍS fór 19 róðra og landaði 155 tonnum og Jónína Brynja ÍS fór 16 róðra og kom með 146 tonn.

Auglýsing

Grásleppan úr kvóta 1.september 2025

Á Drangsnesi er mikil útgerð á grásleppu.

Frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis um afnám kvótasetningar á grásleppu hefur verið birt. Verði það samþykkt mun afnámið taka gildi 1. september n.k. eða við upphaf nýs kvótaárs. Markmið frumvarpsins er að færa stjórn veiða á grásleppu í fyrra horf með vísan til þess að sú breyting sem gerð var með lögum nr. 102/2024 þjónar hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnsins og þar með ekki hagsmunum almennings eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.

Lagt er til að tekin verði aftur upp veiðistýring með útgáfu leyfa sem bundin eru við þá aðila sem veiðar stunduðu á tilteknu árabili. Ákvörðun um fjölda veiðidaga taki þá mið af leyfilegum heildarafla, þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpinu er ætlað að tryggja möguleika sjómanna til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil en hafa flestir ekki aflaheimildir í öðrum fisktegundum. Veiðarnar myndu því takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.
Þá segir:

„Markmið laga um stjórn fiskveiða er m.a. að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Árlega veitir Hafrannsóknastofnun ráðgjöf til stjórnvalda um leyfilegan heildarafla. Í ráðgjafarskýrslu stofnunarinnar 26. mars 2025 var ráðlagður heildarafli á árabilinu 2015–2024 alls 59.295 tonn. Á sama tímabili var heildarafli grásleppubáta 51.324 tonn og var veiðiráðgjöf því 7.971 tonni umfram veiði.
Af þessu má sjá að grásleppuveiðar hafa ekki ógnað grásleppustofninum með nokkrum hætti sé litið til vísindalegrar veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, enda var veiði nánast öll árin vel innan ráðgjafar stofnunarinnar. Frumvarpið fellur því vel að markmiðum um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna á Íslandsmiðum.“

Auglýsing

Ljótur leikur Landsnets

Mynd 3. Sæstrengir í Arnarfirði. Landhelgisgæslan.

Fyrir skemmstu mátti sjá frétt á bb.is, þess efnis að Landsnet hafi sótt um framkvæmdarleyfi fyrir lagningu svokallaðrar Mjólkárlínu 2, sem fyrirhugað er að liggi frá Mjólkárvirkjun út norðanverðann Arnarfjörð og yfir fjörðinn á milli Hrafnseyrar og Bíldudals.  Fyrir mig og aðra sem fylgst hafa með málinu frá því að áformunum var ýtt úr vör í apríl 2021, voru þetta svosem ekki ný tíðindi, en þó mátti sjá þar eitt nýtt kort sem vakti áhuga undirritaðra.

Allt frá því að Landsnet kynnti áformin með; “Tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu”, dagsett 8. apríl 2021 og fram að því að minnisblað um strenglagnir í Arnarfirði (dagsett 21 nóvember 2024) er gert opinbert með ósk um framkvæmdarleyfi, hefur Landsnet og undirverktaki þess í skjalagerð, Verkís, haldið því staðfastlega fram að einungis einn ljósleiðarastrengur liggi yfir Arnarfjörð.  Sjá kort á mynd 2.

Því eru það ákveðin tíðindi að sjá áðurnefnt minnisblað dagsett 21 nóv sl. og sjá þar kortið sem kallað er mynd 1 og er nokkuð samhljóða korti frá Landhelgisgæslunni sem má sjá sem mynd 3 og fylgir þessari grein.

Undirritaðir hafa ítrekað bent á þessar rangfærslur hjá Landsnet og sem dæmi um það má nefna að ítarlegar upplýsingar voru lagðar fyrir Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar um málið og farið fram á að gerð væri valkostagreining með fleiri stöðum sem möguleikum til landtöku, en bara við Hrafnseyri.

Í minnisblaði dagsett 8. des.2022, sem Verkís vann fyrir Landsnet og Ísafjarðarbær notar sem svar við athugasemdum við breytingartillögu á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar, má sjá ekki sjaldnar en 11 sinnum við 56 athugasemdum, svohljóðandi svar:

“Sæstrengur OV er óvirkur og verður fjarlægður. Helgunarsvæði strengsins er víkjandi og fellur niður þegar strengurinn hefur verið fjarlægður.”   

Svo langt hefur þessi blekking Landsnets gengið að í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar hefur þessi vestari ljósleiðarastrengur í Arnarfirði verið fjarlægður.  Það er ekki síst áfellisdómur yfir stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar, nefndarmönnum Skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar og þáverandi formanni nefndarinnar, að kynna sér ekki betur gögn málsins.

En hverju skiptir einn sæstrengur ?

Þegar áformin ganga út á að leggja sæstreng yfir einhver gjöfulustu rækjumið í Arnarfirði þá skiptir það máli.  12km langur sæstrengur á þessu svæði útheimtir samkvæmt strandsvæðaskipulagi að á bilinu 900 til 1100 hektarar af veiðisvæði breytast í helgunarsvæði sæstrengs.  Væri strengurinn hinsvegar lagður samhliða öðrum hvorum ljósleiðarastrengnum, væri mestur hluti nýja helgunarsvæðisins innan núverandi helgunarsvæðis ljósleiðara og því viðbótin af helgunarsvæði aðeins brot af fyrrnefndri tölu, eða allt niður í 76 hektara.

Til þessa hefur ekki gegnið að fá vitræna umræðu við Landsnet um mögulega leið fyrir þennan nýja sæstreng yfir Arnarfjörð.  En það er í öllu falli áhugavert að sjá núna að Landsnet og Verkís viðurkenna það að helstu rök þeirra fyrir staðsetningu strengsins, eru byggðar á blekkingu.

Sigurður Hreinsson

Björn Magnús Magnússon

Stefán Egilsson

Auglýsing

Vestri náði í gott stig á Hlíðarenda

Mark Vestra í leiknum í gær. Skjáskot af RUV.

Besta deild karla í knattspyrnu hófst um helgina. Vestri hóf vertíðina á heimsókn til Vals á Hlíðarenda í Reykjavík. Miklar breytingar hafa orðið á liði Vestra síðan í fyrra og nokkur óvissa stöðu liðsins eftir góða frammistöðu á lokaspretti deildarinnar.

Segja má að Vestri hafi komið á óvart með góðum og skipulögðum leik sem skilaði jafntefli þegar leik var lokið. Hvort lið gerði eitt mark, og reyndar gerðu Valsmenn bæði mörkin þar sem mark Vestra var slysalegt sjálfsmark í upphafi seinni hálfleiks.

Samúel S. Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra var kampakátur í lok leiks og sagði það vera gott að fá stig á Hlíðarenda. „Við spiluðum vel og sýndum góðan og agaðan varnarleik sem skilaði stigi“.

Samúel vildi hvetja Vestfirðinga til þess að mæta á fyrsta heimaleik Vestra sem verður á sunnudaginn á Kerecis vellinum og það verður Hafnfirðingar í FH sem koma í heimsókn. Hann sagði það muna miklu að geta spilað heimaleikina strax á Ísafirði, en eins og kunnugt er var gervigrasvöllurinn ekki tilbúinn í fyrra fyrr en í júní. Að sögn Samúels er leikmannahópurinn í minna lagi, en hins vegar er gott stand á leikmönnum og engin meiðsli. Samúels sagðist vera bjartsýnn á gott gengi Vestra í sumar.

Auglýsing

Kjörstjórn FV: Sigríður Júlía í stað Örnu Láru

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjastjóri.

Á Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á miðvikudaginn var Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri kosin í kjörbréfanefnd sambandsins í stað Örnu Láru Jónsdóttur, sem sagt hefur af sér sem bæjarfulltrúi og þar með misst kjörgengi. Nýr varamaður var kosinn í stað Sigríðar Júlíu og er það Kristján Þ. Kristjánsson, Ísafjarðarbæ.

Þórkatla Soffía í stjórn

Þá varð einnig breyting á skipan stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga. Tryggvi B. Baldursson fulltrúi Vesturbyggðar í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur fengið lausn frá störfum í bæjarstjórn og sagt sig frá stjórnarsetu vegna veikinda og í hans stað var Þórkatla Soffía Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi í Vesturbyggð kjörin í stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga á þinginu.

Auglýsing

Ísafjörður: endurbætur á Safnahúsi hækka um 4,8 m.kr.

Eins og sjá má er unnið að endurbótum á gleri Safnahússins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum á fimmtudaginn að hækka fjárveitingu til endurbóta á Safnahúsinu um 4,8 m.kr.

Fyrirhugaðar framkvæmdir í barna- og unglingadeild fyrir 100 ára afmæli hússins reynast kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2025, auk þess sem óljóst var hvort ákveðin verkefni ættu heima á framkvæmdum Safnahúss eða á rekstri stofnunarinnar.

Um er að ræða að byggja og mála hillur á barnadeild hússins, uppfæra lýsingu á barnadeild og málningu í unglingadeild.

Kostnaðaraukningunni er mætt með því að skera niður 4.808.787 kr. styrktarfé nefnda.

Í samþykktri fjárhagsáætlun segir um Safnahúsið að töluvert viðhald hafi verið við Safnahúsið á Ísafirði á árinu 2024 og gert er ráð fyrir áframhaldandi viðhaldi á árinu 2025. Í húsinu er töluvert af gleri sem þarf að endurnýja, um 400 gler og þar af er helmingur með móðu á milli glerja. Áætlað er að glerja fyrir 16 m.kr. á árinu 2025.

Auglýsing

Ný stjórn SFS: þrír frá vestfirskum fyrirtækjum

Í gær að tilkynnt um nýja 19 manna stjórn samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS. Nýr formaður er Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims og tekur hann við af Ólafi Marteinssyni, aðstoðarforstjóra Ísfélags hf.

Þrír fulltrúar eru frá vestfirskum fyrirtækjum.

Það eru Kristján G. Jóakimsson, aðstoðarfram­kvæmda­stjóri Hraðfrysti­húss­ins – Gunn­var­ar hf., Daníel Jakobsson, fram­kvæmda­stjóri viðskipta og þró­un­ar Arctic Fish hf. og Linda Björk Gunn­laugs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri sölu- og flutn­inga Arn­ar­lax ehf.

Athygli vekur af tveir af þremur fulltrúnum eru frá laxeldisfyrirtækjunum á Vestfjörðum, Arnarlaxi og Arctic Fish.

Auglýsing

Pálmi BA 30

Pálmi BA 30 ex Sigurbjörg ÓF 30. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1983.

Pálmi BA 30 er hér að draga netin á Breiðafirði á vetravertíðinni 1983. Þarna var maður vopnaður Kodak fermingarmyndavélinni og gæðin eftir því.

Pálmi BA 30 hét upphaflega Sigurbjörg ÓF 1 og var smíðaður í Slippstöðinni á Akureyri árið 1966 fyrir Magnús Gamalíesson á Ólafsfirði.

Sigurbjörg ÓF 1 var seld vestur á Patreksfjörð árið 1979 en sama ár var hún skráð með ÓF 30 enda ný Sigurbjörg ÓF 1 flota Ólafsfirðinga það ár. Kaupandinn var Blakkur hf. á Patreksfirði.

Pálmi BA 30 var seldur austur á Neskaupsstað árið 1983 og fékk hann þar nafnið Fylkir NK 102

Af skipamyndir.com

Auglýsing

Nýjustu fréttir