Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í vikunni að lóðin við Seljalandsveg 29, Ísafirði verði felld út og íþróttasvæðið á Torfnesi stækkað sem því nemur.
Jafnframt var samþykkt að heimila endurskipulagningu á deiliskipulagi íþróttasvæðsins.
Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í vikunni að lóðin við Seljalandsveg 29, Ísafirði verði felld út og íþróttasvæðið á Torfnesi stækkað sem því nemur.
Jafnframt var samþykkt að heimila endurskipulagningu á deiliskipulagi íþróttasvæðsins.
Vegagerðin hefur tilkynnt að þeim sérstöku ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðavegi 60 frá Hringvegi 1 við Dalsmynni að Djúpvegi 61 við Þröskulda verður aflétt á morgun Laugardaginn 22. mars kl. 09:00.
Áréttað er að 10 tonna ásþungi verður áfram í gildi á Djúpvegi 61 og Vestfjarðavegi 60 frá vegamótum við Þröskulda
Bæjarstjórn Vesturbyggðar ræddi á fundi sínum í vikunni um áform um nýja stórskipakant við Patrekshöfn. Niðurstaða bæjarstjórnar var að leggja áherslu á að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn seinki ekki frekar en orðið er.
Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun árin 2024-2028 var áformað að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn myndu hefjast á árinu 2025 og átti framkvæmdum að vera lokið á árinu 2027.
Bæjarstjórnin tekur undir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar sem segir um málið: „Sú seinkun sem þegar hefur orðið á að framkvæmdir við stórskipakant hefjist hefur í för með sér að mörg og dýrmæt tækifæri til frekari atvinnusköpunar og innviðauppbyggingar í sveitarfélaginu kunna að tapast.
Heimastjórn Patreksfjarðar leggur því ríka áherslu á að ekki verði frekari seinkun á því að framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hefjist og að í samgönguáætlun sem lögð verður fram í haust verði tryggt fjármagn til framkvæmda strax á næsta ári.“
Undirbúningur fyrir framkvæmdir við stórskipakant við Patrekshöfn hafa staðið yfir á síðustu árum, m.a. með öldustraumsrannsóknum sem hafa verið fjármagnaðar með framlögum úr samgönguáætlun.
Um framkvæmdina segir eftirfarandi:
„Stórskipakantur við Patrekshöfn er grundvöllur þess að unnt verði til framtíðar að efla starfsemi hafnarinnar, auka umsvif, bæta þjónustu og styrkja tekjugrundvöll. Einnig er framkvæmd við stórskipakant mikilvægur liður í því að tryggja viðunandi hafnaraðstöðu til að taka á móti þeim fjölmörgu skemmtiferðaskipum sem leggja leið sína á sunnanverða Vestfirði til að bera svæðið og náttúru þess augum. Þá er staðsetning og lega Patrekshafnar þannig að stórskipakantur mun skapa mikilvæg tækifæri til strandflutninga af sunnanverðum Vestfjörðum sem og móttöku stærri fiskiskipa sem stunda veiðar fyrir utan Vestfirði, en erfitt hefur reynst fyrir stærri skip að leggjast að bryggju vegna þrengsla í skurði hafnarinnar. Patrekshöfn er hluti af grunnneti samgangna þar sem umsvif hafnarinnar hafa aukist verulega á síðustu árum og því er mikilvægt að framkvæmdir við stórskipakant njóti algjörs forgangs þegar kemur að hafnarframkvæmdum innan sveitarfélagsins.“
Ég heiti Arna Lára og er fædd á gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði þann 30. maí 1976. Foreldrar mínir eru þau Sigríður Bragadóttir og Jón Jakob Veturliðason. Ég á tvo bræður sammæðra þá Braga og Gulla, og svo tvö samfeðra systkin Jón Smára og Eddu. Ég er alin upp á Ísafirði með öllum þeim forréttindum og frelsi sem því fylgir. Foreldrar mínir voru ung þegar ég fæddist sem varð kannski til þess að ég bjó og var mikið á heimili ömmu og afa, Láru og Braga Magg. Þau eiga stóran þátt í uppeldi mínu.
Eins og önnur börn á Ísafirði fór ég að vinna snemma í fiski. Vinsælustu vinnustaðirnir voru Íshúsfélagið, Norðurtanginn og rækjuverksmiðjan. Ég fór að vinna í Íshúshúsfélaginu en þar voru bæði amma og mamma að vinna auk flestra vinkvenna minna. Í Íshúsfélaginu lærðum við að vinna og svo var auðvitað félagsþátturinn mikilvægur og líflegur.
Ég fékkst líka við ýmislegt annað en að vinna í Íshúsinu og vann í bíó, fiskibúðinni og Brúarnesti. Þó svo ég hafi alltaf haft gaman af vinnu þá gekk ég líka menntaveginn. Eftir skólagöngu í Grunnaskólanum á Ísafirði fór ég í Menntaskólann á Ísafirði sem hét þá Framhaldsskóli Vestfjarða og útskrifaðist þaðan vorið 1996. Þá var haldið suður á leið í Háskóla Íslands.
Þegar ég var komin suður fór ég í stjórnmálafræði eftir stutta umhugsun en hafði verið búin að skrá mig í lögfræði en fannst það ekki nógu líflegt fyrir mig. Það var virkilega góð ákvörðun.
Ég átti mitt fyrsta barn Hafdísi, á námsárunum með þáverandi sambýlismanni mínum. Hún var bara nokkra daga gömul þegar hún fékk að fara í fyrstu tímana sína í HÍ en það hlýtur að hafa haft góð áhrif á hana þar sem hún er núna í doktorsnámi í efnafræði í Oxford. Eftir stjórnmálafræðina bætti ég við mig viðskiptafræði og tók hluta af náminu í Kaupamannahöfn þar sem seinni dóttir okkar Helena fæddist. Hún er með sterkar vestfirskar rætur og er að ljúka stýrimannsnámi við Tækniskólann nú í vor.
Eftir dvölina í Kaupamannahöfn var haldið aftur heim á Ísafjörð. Mér bauðst vinna hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða þar sem ég öðlaðist fjölbreytta reynslu af atvinnu- og byggðaþróun á Vestfjörðum sem hefur gagnast mér afar vel. Aðalsteinn Óskarsson fyrrum framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélagsins var sérlega góður mentor. Lengst af starfaði ég hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands eða allt til 2020 þegar ég réði mig sem svæðisstjóri Eimskips á Vestfjörðum.
Á Ísafirði kynntist ég núverandi sambýlismanni mínum Inga Birni Guðnasyni sem ætlaði að stoppa tímabundið fyrir vestan og er þar enn 18 árum seinna. Saman eigum við Dag 12 ára sem heldur okkur á tánum.
Pólitíkin
Ég fór snemma að hafa áhuga á pólitík þótt ég hafi ekki verið virk í stjórnmálastarfi fyrr en ég gekk í Samfylkinguna árið 2005. Ég er alin upp eftir gildum Kvennalistans og sótti marga fundi í fylgd mömmu og ég er viss um að það hafi verið mótandi og mannbætandi, og haft meiri áhrif en ég geri mér grein fyrir. Það var svo fyrir bæjarstjórnarkosningarnar árið 2006 að Bryndís Friðgeirsdóttir fyrrum bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hvatti mig til að bjóða mig fram en hún hafði þá ákveðið að hætta og vildi styðja mig til stjórnmálaþátttöku. Ég tók slaginn og síðan þá hef ég litið á Bryndís sem pólitíska móður mína, og hún hefur stutt mig og Samfylkinguna með ráðum og dáð í gegnum tíðina. Það þurfa allir að eiga eina Bryndísi í sínu lífi.
Nú í febrúar sagði ég mig úr bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir 19 ára setu. Ég hef verið mjög lánsöm með samferðafólki í pólitíkinni og mér hefur verið treyst fyrir ýmsum trúnaðarstörfum fyrir bæinn. Vænst þótti mér um að fá traust til að sinna starfi bæjarstjóra en það fylgir því mikill heiður að fá stýra heimabænum sínum og þá sérstakalega að fá taka þátt í uppbyggingunni og vextinum síðustu ár.
Meðfram sveitarstjórnarmálunum hef ég líka tekið virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar á landsvísu. Ég hef tekið nokkrum sinnum sæti á Alþingi sem varamaður frá árinu 2009 og var svo kosin þingmaður Norðvesturkjördæmis í nóvember síðastliðnum. Um tíma gegndi ég líka starfi ritara flokksins.
Þátttaka í stjórnmálastarfi hefur verið mikið heillaskref fyrir mig þótt mörgum ói við að taka þátt í slíku starfi. Í gegnum pólitíkina hef ég kynnst fjölmörgum og bætt við mig nánum vinum sem er ómetanlegt. Það er líka gefandi að fá að taka þátt í mótun samfélagsins þótt mörg krefjandi verkefni séu hluti af þeirri vinnu.
Það var mikill heiður fyrir mig að vera kosin á Alþingi í nóvember sem þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Það er algjör forréttindi að fá að starfa á þessum vettvangi og ég hlakka til að takast á við verkefnin og leggja mitt á vogarskálarnar.
Aðalfundur Rauða Krossins í Barðastrandarsýslu var haldinn 4. mars síðstliðinn í Félagsheimili Patreksfjarðar. Þrettán sjálfboðaliðar mættu á fundinn. Fundarstjóri var Helga Gísladóttir og ritari Theodóra Jóhannsdóttir.
Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir fráfarandi formaður fór yfir skýrslu deildar og það góða starf sem hefur verið unnið á árinu 2024. Þar á meðal kom fram að Nytjamarkaðnum gengur vel og að sjálfboðaliðarnir vinna af hendi óeigingjarnt starf.
Deildin fjárfesti í fjórum hjartastuðtækjum fyrir ágóða af nytjamarkaði og afhenti félagsstarfi eldri borgara á svæðinu. Nytjamarkaðurinn fjármagnaði einnig Bjargvættarnámskeið fyrir börn. Má einnig nefna að stjórnin yfirfór allar fjöldahjálparstöðvar á svæðinu og haldið var skyndihjálparnámskeið fyrir sjálfboðaliða sem gekk vel.
Miklar breytingar urðu á skipan stjórnar. Í nýrri stjórn eru:
Formaður: Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir
Gjaldkeri: Asia Biernacka
Ritari: Theodóra Jóhannsdóttir
Meðstjórnandi: Patrekur Súni Reehaug
Meðstjórnandi: Hekla Ösp Ólafsdóttir
Varamaður: Pálína Kristín Hermannsdóttir
Varamaður: Silja Björg Ísafoldardóttir
Nýkjörinn formaður og fráfarandi formaður. Myndir: Helga Gísladóttir.
Stjórn Eldingar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir vonbrigðum með bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar er varðar breytingar á reglugerð um strandveiðar og send var inn í samráðsgátt stjórnvalda.
„Við, sem störfum við strandveiðar og treystum á þær sem lífsviðurværi okkar, hörmum þá afstöðu sem fram kemur í bókun bæjarráðs Ísafjarðarbæjar frá 17. mars 2025. Sú stefna sem þar er mörkuð tekur ekki mið af hagsmunum strandveiðisjómanna og grefur frekar undan tilvist strandveiða í núverandi mynd. Þetta er ekki síst undarleg umsögn þar sem hún fjallar ekki um þau atriði sem Matvælaráðherra sendi til umsagnar, heldur allt aðra þætti.
Í stað þess að fagna auknum strandveiðum leggst bæjarráð gegn þeim, sem þykja verður all sérstakt í ljósi þess að flest bæjarfélög fagna auknum umsvifum í höfnum sínum. Ennfremur hefur Matvælaráðherra lýst því yfir að fjölgun daga muni ekki skerða hlut annarra, þannig að hér verði um að ræða hreina viðbót við umsvif í höfnum Ísafjarðarbæjar sem gerir umsögn bæjarráðs enn undarlegri. Til áréttingar sendi Matvælaráðherra þrjú atriði til umsagnar, 1) Umsóknarfrestur til strandveiða, 2) Skilyrði um eignarhald, 3) Skil á aflaupplýsingum. Í engu var þessum þremur spurningum svarað efnislega af bæjarráði Ísafjarðarbæjar. Það verður seint talið til vandaðrar stjórnsýslu að geta ekki svarað efnislega því sem að þeim er beint. Slík vinnubrögð geta stjórnmálamenn ekki leyft sér vilji þeir að mark sé tekið á þeim.“
Horn. Áraskip í lendingu. Fiskhús á kambinum ofan við fjöruna. Hrúga af rekavið efst í fjörunni. Hornstrandir 1939.
„Sjósókn var alla tíð stunduð á Hornströndum ekki síður en búskapur og svo var einnig að Horni.
Á myndinni t.v. er hluti af skipakostinum á kambinum neðan við bæinn að Horni að sumri 1939. Húsin á kambinum eru tengd útgerðinni, en bæjarhúsin standa uppi á brekkubrún nokkru ofar.“
Af vefsíðunni sarpur.is
Vestri hefur fengið til sín í varnarsinnaðan miðjumann frá Suður Afríku fyrir átökin í Bestu deildinni í sumar.
Sá heitir Thibang Sindile Theophilus Phete, betur þekktur sem Cafu Phete.
Hann er þrítugur og er uppalinn hjá MIlano United í heimalandinu. Hann hélt til Portúgals árið 2014 og hefur spilað þar lengst af á ferlinum. Hann hefur spilað 87 leiki í efstu deild þar í landi.
Hann getur einnig leyst stöðu varnarmanns. Hann mun koma til móts við liðið Í Tenerife en liðið er þarí æfingaferð.
Þá greinir fotbolti.net frá því að eftirtaldir leikmenn séu komnir til félagsins og farnir frá því.
Komnir
Guy Smit frá KR
Diego Montiel frá Svíþjóð
Emmanuel Agyeman Duah frá Færeyjum
Kristoffer Grauberg Lepik frá Svíþjóð
Anton Kralj frá Svíþjóð
Daði Berg Jónsson frá Víkingi (á láni)
Guðmundur Páll Einarsson frá KFG
Birkir Eydal frá Herði
Farnir
Benedikt V. Warén í Stjörnuna
Andri Rúnar Bjarnason í Stjörnuna
William Eskelinen til Finnlands
Ibrahima Balde í Þór
Pétur Bjarnason
Jeppe Gertsen
Elvar Baldvinsson í Völsung
Aurelien Norest
Inaki Rodriguez
Friðrik Þórir Hjaltason
Ívar Breki Helgason í Hörð
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhafnir varðskipanna halda reglulega sameiginlegar æfingar til að stilla saman strengi sína.
Í fyrradag fór þyrluæfing fram með áhöfninni á Þór sem var við eftirlitsstörf norðvestur af Geirfuglaskeri. Um þessar mundir stendur yfir þjálfun á tveimur nýjum sigmönnum í þyrlusveitinni sem þurfa að gangast undir umfangsmikla grunnþjálfun.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhafnir varðskipanna halda reglulega sameiginlegar æfingar,
Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hefur æðsta vald í málefnum sambandsins kemur saman árlega í í ár er fundurinn haldinn í dag 20 mars.
Ísafjarðarbær á þrjá kjörna landsþingsfulltrúa, sem jafnframt hafa atvæðisrétt. Það eru þau Gylfi Ólafsson, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Steinunn Guðný Einarsdóttir. Þá eru framkvæmdastjórar sveitarfélaga með málfrelsi á þinginu.
Á dagskrá þingsins, fyrir utan hefðbundin þingstörf, eru ávörp frá innviðaráðherra og mennta- og barnamálaráðherra og kynningar á stöðu fjármála sveitarfélaga vegna kjarasamninga og breytingum á Jöfnunarsjóði. Þá eru lagðar fram tillögur frá þingfulltrúum.
Þá mun Heiða Björg Hilmisdóttir núverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga láta af formennsku í dag. Tillaga um að hægt sé að víkja formanni frá störfum var lögð fram á þinginu, en talsverð óánægja hefur ríkt með Heiðu Björg sem formann að undanförnu.